Borgarráð - Fundur nr. 5570

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 16. janúar, var haldinn 5570. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson og Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal. 

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 6. janúar 2020. R20010025

    -    Kl. 9.08 taka borgarstjóri, Heiða Björg Hilmisdóttir og Pétur Ólafsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 15. janúar 2020. R20010008
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Það er mjög sláandi eftir kynninguna á deiliskipulagi fyrir Elliðarárdal að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/biodome á að rísa. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðarárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Farið var yfir afar fjölbreytt lífríki dalsins og því ljóst að mengunin frá gróðurhvelfingunni mun hafa gríðarleg áhrif á dalinn allann og þá sérstaklega ljósmengunin sem af henni hlýst. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Hér er verið að fórna stærstu náttúruperlu Reykvíkinga kinnroðalaust. Hér birtist einbeittur vilji meirihlutans að úthluta óskilgreindum aðilum gæðum í formi borgarlands á kostnað náttúrunnar og lífsgæða Reykvíkinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. og 19. lið fundargerðarinnar: 

    Liður 16: Meirihlutinn í skipulagsráði hefur fellt tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum um helgar. Rökin eru að tillagan kalli á tekjutap bílastæðasjóðs. Hér má benda á að bærinn hefur tæmst af Íslendingum og þ.m.t. eldri borgurum. Þeim finnst aðgengi flókið, erfitt að fá stæði og eiga erfitt með að átta sig á nýjum stöðumælum. Það er sorglegt að sjá hvernig miðbærinn er orðinn að draugabæ nema á tyllidögum. Kannski fáeinir eldri borgarar hefðu nýtt sér frí stæði í bílastæðahús bæjarins hefði þessi tillaga orðið að veruleika og því enginn ástæða fyrir meirihlutann að óttast að bílastæðasjóður beri stóran skaða af þótt þessi tillaga hefði verið samþykkt. Liður 19: Tillaga um kolefnisjöfnuð úr eigin vasa hefur verið vísað frá af meirihlutanum í skipulags- og samgönguráði á þeim rökum að fagráð setji ekki reglur um hvernig fólk ráðstafi launum sínum. Flokkur fólksins spyr hvort meirihlutanum finnist borgarfulltrúar merkilegri en alþingismenn? Sambærileg tillaga hefur verið lögð fram á þingi af forseta Alþingis. Meirihlutinn ferðast á kostnað borgarbúa á sama tíma og hann kvartar yfir mengun frá bílum. Það er ekki nóg að setjast á hjólið og telja sig þá vera búinn að leggja sitt af mörkun til umhverfismála.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 
    Miðborgin hefur aldrei verið eins lifandi og nú. Fjöldi verslana og þjónustu hefur aldrei verið eins mikill og viðskipti blómstra sem aldrei fyrr. Áherslur meirihlutans á gott aðgengi gangandi og hjólandi að miðborginni bera árangur en rannsóknir sýna að slíkar aðgerðir draga að meiri verslun og meiri viðskipti. Mikill fjöldi eldri borgara býr í miðborginni og komast þeir leiðar sinnar með ýmsum hætti. Bílastæðahúsin í borginni eru fjölmörg og bílastæðagjöld eru hófleg. Eldri borgarar sem vilja koma í miðborgina geta gert það með því að leggja í bílastæðahúsin, taka strætó eða ganga - allt eftir aðstæðum viðkomandi. Sjálfsagt er að leita leiða til að auka nýtingu í bílastæðahúsum en ekki er hægt að styðja tillögu um að gefa fólki ókeypis aðgang að bílastæðum, óháð staðsetningu stæðanna eða aldri vegfarenda. Hópurinn sem hér um ræðir er þó nokkuð stór og myndi tillagan líklega kalla á umtalsvert tekjutap bílastæðasjóðs. Liður 19: Ekki gengur að borgarstjórn eða fagráð borgarinnar setji reglur um það hvernig fólk eigi að ráðstafa launum sínum, sama hvert fólkið er eða sama hve göfugur tilgangur útgjaldanna kunni að vera.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í þessari bókun meirihlutans gegn bókun Flokks fólksins um að eldri borgurum verði boðið að leggja frítt í fáeina klukkutíma um helgar í ákveðnu bílastæðahúsi í miðbænum er aftur komið inn á meint fjárhagstjón bílastæðasjóðs ef þessi tillaga yrði að veruleika. Áhyggjur meirihlutans ganga allar út á krónu og aura en snúa að engu leiti að eldri borgurum í þessu sambandi. Væri ekki nær ef meirihlutinn er svona upptekinn af miklum skaða bílastæðahúss í þessu sambandi að reyna að minnka yfirbyggingu bílastæðasjóðs, skipuleggja starfsemina þar kannski með öðrum hætti eða reyna að finna leiðir til að hagræða? Þessi tillaga er hugsuð sem hvati til að fá þennan hóp í bæinn, en eldri borgarar hafa mikið til yfirgefið þetta svæði og það ekki af ástæðulausu. Sjá hefði mátt fyrir sér að vel yrði tekið á móti þessum hópi og að hann fengi kannski kynningu á bílastæðahúsinu og þar með greiðslukerfi þess. Það er óþarfa hræðsla hjá meirihlutanum að halda að eldri borgarar kæmu í slíku fjölmenni þessar fáu klukkustundir um helgar að rekstrargrundvöllur bílastæðahússins sem um ræddi væri kannski bara brostinn.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. R19120129

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20010093

    Fylgigögn

  5. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 3. febrúar nk. fyrir American Bar, Austurstræti 8-10, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2020 í Bandaríkjunum. R20010111
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 05:00 aðfaranótt 3. febrúar nk. fyrir Gummi Ben bar, Tryggvagötu 22, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2020 í Bandaríkjunum. R20010143
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 3. febrúar nk. fyrir Sportbarinn Ölver, Álfheimum 74, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á úrslitaleik Superbowl 2020 í Bandaríkjunum. R20010173
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. janúar 2020, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 03:00 aðfaranótt 20. janúar nk. fyrir American Bar, Austurstræti 8-10, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar undanúrslita NFL 2020 í Bandaríkjunum. R20010111
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R20010036
    Samþykkt að veita Félagi heyrnarlausra styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna þróunar táknmálsapps.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða beiðni Listahátíðar í Reykjavík um 3 milljóna króna viðbótarframlagi fyrir hátíðarárið 2020 til að styrkja dagskrána á afmælisári. Jafnframt er lagt til að beiðni þeirra um að reisa viðburðarskála í norðurenda Reykjavíkurtjarnar sé vísað til umhverfis- og skipulagssviðs til meðferðar. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19120133
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. janúar 2020, varðandi úthlutun úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen sem fór fram þann 9. janúar 2020. R16020043

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs, dags. 31. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019. R19060234

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Í svari má sjá að þetta er svipað milli ára. Ekki er hjá því litið að þetta eru mikil veikindi. Einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Ekki liggur fyrir nein marktæk skoðun á ástæðum eða hvort þetta sé í takt við það sem gengur og gerist annars staðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort meirihlutinn í borginni velti því aldrei fyrir sér hvort margir séu undir ómanneskjulegu álagi og ekki þarf að hafa mörg orð um launin sem eru þessleg í mörgum störfum að ekki er hægt að lifa af þeim. Langtímaálag er víst til að veikja ónæmiskerfið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gæta varna í svarinu með því að segja „að athuga þarf að ofangreindar hlutfallstölur tilgreina hlutfall starfsfólks í langtímaveikindum af heildar fjölda starfsmanna“. Þetta breytir því ekki að einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fá einhverja hugmynd um hvort þarna að baki kunni að vera eitthvað sem rekja má til vinnuaðstæðna og vinnumenningar og sem vinnustaðurinn geti þá lagað til að starfsmenn eigi bestu möguleika á að halda heilsu.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Reykjavíkurborg hefur unnið markvisst að heilsueflingu starfsmanna frá árinu 2016 með það að markmiði að efla heilsu, auka vellíðan og draga úr veikindafjarvistum. Veikindafjarvistir hjá Reykjavíkurborg eru í svipuðu hlutfalli og gengur og gerist en að sjálfsögðu er það kappsmál að stuðla að heilsu og vellíðan starfsmanna.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 28. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um matar- og kaffiaðstöðu vagnstjóra Strætó bs., sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. október 2019. R19100096

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 7. janúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um safnmuni sem tilheyrðu upphaflegri sýningu Sjóminjasafnsins, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019. R19110400

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. janúar 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir 58 íbúðir í þremur húsum við Hraunbæ 133 í Árbæ. R20010160
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða enn eitt uppbyggingarverkefni Bjargs sem er íbúðafélag verkalýðshreyfingarinnar. Verkefnið er hluti af stórfelldri fjölgun óhagnaðardrifinnar íbúðauppbyggingar í Reykjavík. Fjöldi íbúða verður 58 í þremur húsum við Hraunbæ en Félagsbústaðir eiga kauprétt að 20% íbúða. Nú þegar hefur Bjarg afhent íbúðir við Móaveg í Grafarvogi sem er 124 íbúða verkefni og afhent íbúðir við Urðarbrunn í Úlfarsárdal, alls 66 íbúðir. Þá stendur yfir uppbygging á 79 íbúðum við Hraunbæ, 64 íbúðum við Hallgerðargötu, og 66 íbúða við Silfratjörn í Úlfarsárdal. Endurreisn verkamannabústaðakerfisins er staðreynd og farsælu samstarfi ríkisins, borgarinnar og verkalýðshreyfingarinnar fagnað.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 8. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts 1, ásamt fylgiskjölum. R20010167
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 8. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis, ásamt fylgiskjölum. R20010169
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. janúar 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 8. janúar 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts, ásamt fylgiskjölum. R20010168
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9.50 tekur Ebba Schram sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. janúar 2020, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga með þeim fyrirvara að undirskriftarsöfnunin og íbúakosningin fjalli ekki um lögformlegt gildi deiliskipulagsins fyrir Stekkjarbakka Þ73, þar sem slíkt stæðist ekki lög. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010136
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdals um fyrirhugaða undirskriftasöfnun er samþykkt með þeim fyrirvara að undirskriftasöfnunin og íbúakosningin fjalli ekki um lögformlegt gildi deiliskipulagsins við Stekkjarbakka Þ73, þar sem slíkt stæðist ekki lög. Í erindi Hollvinasamtakanna kemur fram að þau vilji að kosningarnar snúist um að fella úr gildi deiliskipulag. Deiliskipulag er ekki hægt að fella úr gildi með íbúakosningu. Slíkt samræmist ekki skipulagslögum. Á hinn bógin gæti íbúakosning snúist um að fela borgarstjórn að endurskoða deiliskipulag við Stekkjarbakka. Slíkt gæti náð markmiðum Hollvinasamtakanna án þess að brjóta í bága við skipulagslög. Þar sem deiliskipulagið hefur þegar öðlast lögformlegt gildi verður því aðeins breytt með endurskoðun á því í samræmi við málsmeðferðarverkferla í skipulagslögum og að viðlagðri hugsanlegri bótaábyrgð borgarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er fagnaðarefni að fallist sé á þessa undirskriftarsöfnun í aðdraganda íbúakosningar enda varðar hún umdeilt skipulagsmál og viðkvæmt umhverfismál sem á erindi í íbúakosningu. Sambærileg deilumál hafa verið leidd til lykta með íbúakosningu og má hér nefna Árborg, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ. Atkvæðagreiðsla mun snúast um það að Reykjavíkurborg endurskoði deiliskipulag um Stekkjarbakka Þ73 líkt og fordæmi eru um í öðrum sveitarfélögum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lýðræðið og Hollvinasamtök Elliðaársdalsins hafa sigrað borgarstjóra og meirihlutann í þessu skítuga máli sem deiliskipulag fyrir Stekkjabakka Þ73 er og innrás í Elliðarárdalinn. Í bréfi borgarstjóra og erindi frá fyrirtækinu Spor í sandinn/biodome, kemur fram hótun um skaðabótaskyldu borgarinnar verði skipulaginu breytt sem sannar enn og aftur að meirihlutinn vinni ekki fyrir borgarbúa heldur fjármagnseigendur. Það eru engin geimvísindi að breyta deiliskipulagi og á fyrri stigum var þessi reitur hugsaður innan skipulags Elliðarárdalsins. Hollvinasamtökunum er óskað velgegni í að safna lögbundnu lágmarki í undirskriftarsöfnuninni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjóri og meirihlutinn brýtur odd af oflæti sínu og samþykkir erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Hér er um matskennda ákvörðun að ræða sem sveitarstjórn hefur í höndum sér að ákveða samkv. 3 gr. þar sem segir að “sveitarstjórn skal innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið”. Reykjavíkurborg hefði því getað synjað beiðninni og látið slag standa hvort kærur bærust sem í þessu máli hefðu klárlega borist. Þetta er auðvitað svo sjálfsagt mál enda ákvörðun sem snertir marga. Kannski skipti það máli að þessi ákvörðun var tekin að umboðsmaður borgarbúa bættist í hóp þeirra í minnihlutanum sem reyndu að koma vitinu fyrir þennan meirihluta. Umboðsmaðurinn sendi frá sér tilmæli um að ekki yrðu keyrðar áfram framkvæmdir í óþökk íbúa. Eins og vitað er hefur hvert málið rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Eiga erindin það sammerkt að lýsa neikvæðri upplifun aðilanna af meirihlutanum í tengslum við þær framkvæmdir. Snúa umkvörtunarefnin helst að skorti á árangursríku samráði og nægu upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun við bókunum áheyrnarfulltrúa Miðflokks og Flokks fólksins:

    Í þessu máli er verið að fylgja lögum eftir gagnsæjum ferlum sem gilda um íbúakosningar. Í leiðbeiningunum um hvernig best sé að aðhafast til að varast formgalla á undirskriftarsöfnuninni felst engin hótun um skaðabótaskyldu enda er bara verið að veita upplýsingar um málið og mögulegar afleiðingar skv. lögfræðilegri ráðgjöf. Það er eðlilegt og gott að veita sem heildstæðasta mynd af málinu. Lýðræðið skal vera eftir skýrum og gagnsæjum ferlum, hér er einfaldlega verið að fylgja þeim ferlum. Það er á hendi löggjafans að breyta lögum sem gilda um íbúakosningu, samkvæmt núverandi lögum þarf að byrja með að fá samþykkt fyrir íbúakosningunni sem hér er verið að veita. Synjun á slíkri beiðni væri aldrei matskennd heldur þyrftu að vera skýrar og góðar ástæður fyrir henni. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða og því er það meirihluta borgarstjórnar ljúft og skylt að samþykkja þessa beiðni.

    Fylgigögn

  20. Fram fer kynning á mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-október 2019. R19010075

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  21. Lagt fram bréf Félagsbústaða, dags. 5. desember 2019, þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurborg veiti einfalda ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða. Einnig er lögð fram trúnaðarmerkt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. janúar 2020. R19100128
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Framundan er veruleg stækkun á íbúðasafni Félagsbústaða. Ef áætlunin gengur eftir mun fjöldi íbúða fara úr rúmlega 2.600 íbúðareiningum í lok árs 2019 í ríflega 3.100 íbúðareiningar í lok árs 2023. Þetta kallar á fjárfestingar sem fyrst og fremst eru fjármagnaðar með lántöku en einnig stofnframlögum frá bæði ríki og úr borgarsjóði. Það er því fagnaðarefni að sjá hve góð kjör Félagsbústaðir eru að fá með útgáfu félagslegra skuldabréfa (e. social bonds) sem eru skráð á Nasdaq Sustainable Bond Market Iceland. Það sýnir að rekstur félagsins er sterkur sem auðveldar félaginu að ná markmiðum Reykjavíkurborgar um að fjölga eignum á félagslegum leigumarkaði og koma í veg fyrir að leiga hækki samhliða eins og sést hefur í nágrannasveitarfélögum okkar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins óskaði eftir því á fundi borgarráðs að framkvæmdastjóri og stjórn Félagsbústaða yrðu boðuð á fund borgarráðs til að fara yfir málefni félagsins. Í kjölfarið lagði ég fram eftirfarandi spurningar sem verða að liggja fyrir – fyrir þann fund: „Hvað greiða Félagsbústaðir í vexti af öllu lánasafni sínu á árunum 2019, 2018, 2017, 2016, 2015 og 2014?“ Lán Félagsbústaða standa nú í tæpum 45 milljörðum. Ítrekað er að gera þarf úttekt á því hvort betra sé fyrir Félagsbústaði/Reykjavíkurborg að „eiga eða leigja“ húsnæði fyrir félagsleg úrræði vegna mikils vaxta- og viðhaldskostnaðar félagsins sem færi langleiðina með að greiða enn frekar niður leigu fyrir skjólstæðinga Félagsbústaða. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Enn og aftur er verið að fara fram á að Reykjavíkurborg gangist í ábyrgð fyrir milljarða skuldir dótturfyrirtækis sem er greinilega ekki með sjálfbæran rekstur. Hér er verið að leggja til viðbótarábyrgð Reykjavíkurborgar fyrir 3.500 milljónir króna skuldum Félagsbústaða hf.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn á ný koma Félagsbústaðir og óska eftir ábyrgð Reykjavíkur til lántöku. Lánsfjáráætlunin nemur 3,5 milljörðum króna og er ráð fyrir að hún verði fjármögnuð með útgáfu félagslegra skuldabréfa/grænna skuldabréfa sem er einungis ný lántökuleið til skuldsetningar borgarinnar og B-hluta félaga hennar. Vitað er að mikil viðhaldsþörf er undirliggjandi í eignasafni Félagsbústaða sem ekki er verið að taka á. Ekki hefur verið gerð formleg úttekt á því hvort hagstæðara gæti reynst fyrir Félagsbústaði að leigja eignir til útleigu frekar en eiga þær. Það er skrýtin áhersla svo ekki sé meira sagt sér í lagi þegar harmsaga Félagsbústaða er skoðuð. Án veðs í framtíðar útsvari Reykvíkinga er félagið ekki gjaldfært. Á meðan þessi meirihluti situr við stjórn í Reykjavík verður lítilla tíðinda að vænta að fara í þetta mat, því uppgjörsreglur Félagsbústaða fegra bókhald Reykjavíkurborgar. Það er löngu tímabært að skoða fyrir alvöru hvort ekki komi betur út fjárhagslega fyrir Reykjavík að selja drjúgan hluta af þessu eignasafni og losna við í leiðinni óbærilegan fjármagnskostnað, ábyrgðir og viðhaldskostnað og niðurgreiða í staðinn enn frekar leigu skjólstæðinga Félagsbústaða sem nemur fjármagnskostnaði lánanna sem á Félagsbústöðum hvíla. Eftir lántökuna eru skuldir Félagsbústaða 45 milljarðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Aftur er verið að biðja um að Reykjavíkurborg veiti ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða að þessu sinni fyrir 3.500 m.kr. Á þetta að ganga svona áfram? Segir í erindi að óskað er eftir að eigandinn sem er Reykjavíkurborg veiti ábyrgð til tryggingar á endurgreiðslu bréfanna vegna útgáfu á árinu 2020. Þetta er sum sé í þriðja sinn sem farið er fram á slíka ábyrgð sem þessa. Með þessari lántöku fara skuldir frá 41. ma.kr upp í 44.5 ma.kr. Þótt eitt og annað hafi batnað hjá fyrirtækinu eftir að farið var að veita meira aðhald m.a. af hálfu Flokks fólksins þá er ímyndarvandi enn mikill og varla líður sá dagur að ekki berast kvartanir frá leigjendum. Sami vandi er með ástand eigna. Leigjendur segja að seint og um síðir koma viðgerðarmenn og oft aðeins plástra þann vanda sem kvartað er yfir. Fólk er enn að láta vita af veikindum vegna myglu. Félagsbústaðir kaupa eignir eins og enginn sé morgundagurinn en geta að sama skapi ekki sinnt viðhaldi né halda þau nægjanlega vel utan um leigjendurnar sem er afar viðkvæmur hópur. Meirihlutinn í borginni þarf að taka á málum Félagsbústaða í heild sinni. Leigan hækkar einnig reglulega.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram trúnaðarmerkt minnislað borgarlögmanns um þau málaferli sem Reykjavíkurborg á aðild að fyrir dómstólum. R19100258

  23. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að tillögur sem starfshópur á vegum landlæknis setti fram verði skoðaðar og kostnaðarmetnar og síðan innleiddar í leik- og grunnskóla. Í tillögunum segir „Niðurstöður könnunarinnar undirstrika mikilvægi þess að styrkja umgjörð, skipulag og innviði skólakerfisins til að sinna geðrækt, forvörnum og stuðningi við nemendur með farsælum hætti, nýta gögn og árangursmælingar með markvissari hætti til að efla geðræktarstarf og skólabrag, og koma á fót árangursríkri kennslu í félags- og tilfinningafærni á öllum skólastigum. Jafnframt þarf að tryggja mun betur en gert er í dag að nemendur á öllum skólastigum fái þann stuðning sem þeir þurfa vegna erfiðleika á sviði hegðunar, líðanar og félagsfærni, og að starfsfólk í skólum fái þann stuðning sem þau þurfa til að sinna hegðun, líðan og samskiptum barna og ungmenna með farsælum hætti. Ákvæði í lögum og reglugerðum virðast ekki duga til að tryggja að framkvæmd verði með þeim hætti sem gert er ráð fyrir heldur þarf heildarskipulag, aðföng, þjálfun og handleiðsla starfsfólks, samstarf stofnana og skilgreind hlutverk aðila skólasamfélagsins að styðja við framkvæmdina.“ Tillögur starfshópsins eru þessar: 1. Geðræktarkennsla á öllum skólastigum. 2. Þrepaskiptur stuðningur í skólastarfi. 3. Samstarf kerfa í þágu barna og ungmenna. 4. Skólaumhverfi sem styður við vellíðan. 5. Þekking og færni til að vinna með hegðun, líðan og samskipti barna og ungmenna. 6. Gagnreynd nálgun að hegðun í skólakerfinu. 7. Skólatengsl og samstarf við foreldra. 8. Réttur til gæðamenntunar og gagnreyndra stuðningsúrræða. R20010217

    Frestað.

  24. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að reglur um kynningar, auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar verði endurskoðaðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20010218
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  25. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að hafin verði vinna við það að móta fjölskyldustefnu Reykjavíkurborgar. Markmið með mótun fjölskyldustefnu er að tryggja að við alla stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð á vettvangi Reykjavíkurborgar sé sérstaklega gætt að hagsmunum barna, unglinga og fjölskyldna. Fjölskyldustefnan skal vera skýr en þó lifandi plagg sem er endurskoðað reglulega.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R20010219
    Frestað.

    Fylgigögn

  26. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur til að innri endurskoðandi Reykjavíkur framkvæmi úttekt á öllum ákvörðunum og gjörningum sem gerðar voru vegna kaupa og riftana samninga vegna Grensásvegar 12. R17090010

    Frestað.

  27. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hvað greiða Félagsbústaðir í vexti af öllu lánasafni sínu á árunum 2019, 2018, 2017, 2016, 2015 og 2014? R20010224

    Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

  28. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir að borgarráð fái senda skýrslu sem búið er að vinna hjá Borgarskjalaverði sem snýr að því hvernig Reykjavíkurborg skilar gögnum/skýrslum til embættisins. R20010220

  29. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir að borgarráð fái sent minnisblað sem borgarlögmaður ritaði í kjölfar kaupa Reykjavíkurborgar á Hverfisgötu 41 árið 2016 á 63 milljónir. R16080019

  30. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir að borgarráð fái sendar sundurliðaðar upplýsingar um útsvarstekjur og fasteignatekjur Reykjavíkur eftir póstnúmerum fyrir árið 2019, 2018, 2017, 2016 og 2015. R20010222

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana. Í ljósi megnrar óánægju með hundaeftirlit borgarinnar m.a. það árlega gjald sem hundaeigendum er gert að greiða og sem talið er að fari að mestu leyti í yfirbyggingu og laun er nauðsynlegt að innri endurskoðun fari í úttekt á hundaeftirlitinu. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld til að halda uppi hundaeftirlitinu. Hundaeftirlitsgjaldið er ekki notað í þágu hunda t.d. til að lagfæra svæðið á Geirsnefi og gera ný hundagerði. Margir hundaeigendur telja að það kunni að vera brotin lög gagnvart hundaeigendum með því að nota hundagjöld til annarra útgjaldaliða en kveðið er á um í lögum. Engar vinnuskýrslur liggja fyrir t.d. í hvað þetta fjármagn fer í. Allir vita að umfang eftirlitsins hefur minnkað og verkefnum hundaeftirlitsins hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2019 voru kvartanir 84 en fyrir fáeinum árum margfallt fleiri. Fjöldi lausagönguhunda er varla teljandi enda sér hundasamfélagið á samfélagsmiðlum um að finna eigendur lausagönguhunda. Því er tilefni til að athuga hvort úrbóta sé þörf á starfsemi hundaeftirlitsins eða hvort tilgangur þess og hlutverk hafi ekki runnið sitt skeið á enda. R20010132

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Fundi slitið klukkan 11:07

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir