Borgarráð - Fundur nr. 5567

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 28. nóvember, var haldinn 5567. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sabine Leskopf, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson og Ívar Vincent Smárason.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 18. nóvember 2019. R19010035

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 18. nóvember 2019. R19110156

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 20. nóvember 2019. R19110157

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins undir 8. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast alfarið á móti tillögum um breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Ekkert raunverulegt samráð hefur átt sér stað við foreldra, nemendur og starfsfólk skólanna eins og umsagnir, greinaskrif og  tölvupóstar frá skólasamfélaginu vitna um. Þá hafa nemendur bent á að lýðræðisleg aðkoma þeirra hafi ekki verið virt og séð ástæðu til að stíga fram í fjölmiðlum til að biðla til skólayfirvalda í borginni um að loka ekki skólanum. Ekkert er hlustað á vilja allra þessara aðila og keyra á þessa ákvörðun í gegn þvert á vilja íbúa. Að auki hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn komið með ýmsar tillögur til að tryggja áframhaldandi skólastarf s.s. samrekstur leik- og grunnskóla, fjölgun árganga í skólanum og að byggð verði þétt í Staðahverfi. Ekkert hefur heldur verið hlustað á þessar hugmyndir. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að til staðar sé skóli í hverju hverfi enda um lögboðna þjónustu að ræða. Það skýtur svolítið skökku við að á sama tíma og verið er að leggja niður skóla í einu hverfi er verið að fara í hönnunarsamkeppni með skóla í hverfi sem enn er ekki til eins og nýtt hverfi í Skerjafirði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R19110018

    -    Kl. 9.15 tekur Ebba Schram sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. nóvember 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreitur, vegna lóðarinnar nr. 7 við Grundarstíg, ásamt fylgiskjölum. R19060118
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9.19 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 1 við Háaleitisbraut, ásamt fylgiskjölum. R19110253
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. nóvember 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Safamýri/Álftamýri vegna lóðar nr. 2 við Starmýri, ásamt fylgiskjölum. R19110254
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. nóvember 2019 á umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við deiliskipulag Furugerðis 23, ásamt fylgiskjölum. R18110053
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhús við Bergþórugötu 18. R18080143
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. nóvember 2019, varðandi afþakkað lóðarvilyrði fyrir lóð til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Bryggjuhverfi. R19090001

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sú leið borgarinnar að fara í sértækar aðgerðir til að mæta sjálfsköpuðum skorti er leið sem gengur illa upp hjá meirihlutanum. Eina leiðin til þess að borgin geti tryggt hagkvæmt húsnæði í borginni er að stilla gjöldum í hóf og bjóða upp á lóðir á samkeppnishæfu verði. Núverandi stefna hefur hrakið ungt fólk í önnur sveitarfélaga, auk þess sem fleiri búa í foreldrahúsum en á öðrum Norðurlöndum. Í nýbirtum tölum Íbúðalánasjóðs kemur í ljós að síðustu 20 árin hafa eingöngu 3% bæst við umfram brottflutta í Reykjavík en til samanburðar er sambærileg tala 82% í Mosfellsbæ, 54% í Kópavogi og 50% í Árborg. Á þessu tímabili hefur Samfylkingin ráðið nær allan tímann og haldið því fram að undanfarið hafi verið í gangi mesta uppbyggingarskeið borgarinnar. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Bókun Sjálfstæðisflokksins um afþökkun á lóðarvilyrði í Bryggjuhverfi fer um víðan völl. Eftirfarandi atriðum þarf að halda til haga. Ráðist var í verkefnið Hagkvæmt húsnæði - ungt fólk og fyrstu kaupendur í kjölfar þess að markaðurinn hafði ekki sinnt þessum hópum nægjanlega. Verkefnið er einn þáttur af fjölmörgum í fjölbreyttri húsnæðiáætlun borgarinnar sem miðar að því að tryggja framboð til ólíkra hópa. Mesta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur hefur staðið yfir undanfarin ár. Allar tölur um uppbyggingu sýna fram á það. Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur er mikilvægur og spennandi hluti af uppbyggingu næstu ára. Á því sviði eins og öðrum er borgin í fararbroddi í húsnæðismálum.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að færa lóðarvilyrði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Bryggjuhverfi frá reit D yfir á reit G. R19080048
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er afar óheppilegt að verið sé að úthluta lóðum til annars aðila en var talinn hæfastur samkvæmt einkunnargjöf í úthlutunarferlinu. Réttara væri að auglýsa þessa lóð að nýju þar sem hér er um að ræða takmörkuð gæði borgarinnar. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í verkefninu Hagkvæmt húsnæði - ungt fólk og fyrstu kaupendur gátu allir sent inn hugmyndir. Margir framúrskarandi hópar og góð verkefni sóttu um þátttöku og fengu einkunn eftir fyrirfram ákveðnum mælikvörðum. Þeirri röð sem þannig varð til er fylgt í verkefninu eins og eðlilegt er.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samkomulagi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og fyrsta áfanga á endurbótum fyrir velli Golfklúbbs Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. R19110242
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sölu á fasteigninni Grandagarði 2, ásamt fylgiskjölum. R18090026
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu á Háaleitisbraut 1, ásamt fylgiskjölum. R19110097
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 1. nóvember 2019, vegna skipan starfshóps um þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R18040233

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf Knattspyrnufélagsins Þróttar, dags. 12. nóvember 2019, vegna aðstöðumála félagsins og grunnskóla í Laugardal til íþróttaiðkunar og kennslu, ásamt fylgiskjölum. R16090034

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ánægjulegt að sjá mikla fjölgun iðkenda hjá Þrótti og Ármanni. Málefnum Laugardalshallar og þjóðarleikvanga þarf hins vegar að ráða til lykta áður en hægt er að taka ákvarðanir um næstu skref. Þau verða undirbúin í samvinnu við félögin hvað varðar aðstöðu barna og unglinga og sérsambönd varðandi þjóðarleikvanga.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þróttur hefur haft væntingar um að ráðist verði í uppbyggingu félagssvæðis á svæði sínu, sbr. metnaðarfulla uppbyggingaráætlun í bréfi frá félaginu. Skv. fjárhagsætlun til næstu fimm ára er ekki gert ráð fyrir neinu framkvæmdarfé þrátt fyrir fögur fyrirheit. Í stað þess að takast á við verkefnið og finna því stað í fjárhagsætlun sem verður til endanlegar samþykktar á næsta fundi borgarstjórnar, hinn 3. desember nk., er málinu drepið á dreif með skipan enn eins starfshópsins. 

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2019, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um aðstöðu fyrir íþróttaæfingar, kennslu og keppni í Laugardal eru send borgarráði til kynningar. R19110262

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er fyrirséð að íbúafjölgun á starfssvæði Þróttar verði a.m.k. 7.000 manns meðal annars með tilkomu Vogabyggðar og því fyrirséð að ráðast þurfi í uppbygginu á svæðinu. Í upphafi þessa árs skipaði borgarstjóri starfshóp undir stjórn Pawels Bartoszeks, forseta borgarstjórnar, sem komst að þeirri niðurstöðu að staðbundin uppbygging væri brýnni en önnur uppbygging og æskilegt væri „að hefja vinnu við uppbygginu eins fljótt og kostur væri“. Ekki er sjá að þetta sjónarmið hópsins hafi skilað sér inn í fimm ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.  

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi trúnaðarmerkt drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar við Leiguafl hf. um riftun og uppgjör vegna kaupsamnings, dags. 11. október 2017, um Grensásveg 12, fastanúmer 225-7260 í samræmi við hjálagt trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns. R17090010

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að meðfylgjandi tillaga menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs um umbætur á þjónustu og aðalsafni Borgarbókasafnsins í Grófinni verði samþykkt og að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að gera tillögu að verklagi og áfangaskiptingu í útfærslu verkefnisins. Í vinnu við útfærslu verkefnisins verði auk þess sem fram kemur í tillögunni hugað að þróun í þjónustuveitingu þar sem horft verði til hlutverks/verkefna alþjóðahúss og samsvarandi þjónustu- og upplýsingastarfsemi til borgaranna á jarðhæð hússins. R19110260

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja þessa tillögu með þeim fyrirvara sem birtist í henni breyttri: Að áður en farið verður í framkvæmdir fari fram ítarlegt kostnaðarmat á umbótum og endurhönnun safnsins. Ekki hefur verið ákveðið hvaða leið skuli vera farin í endurbótum og er því hér eingöngu verið að samþykkja að farið verði í kostnaðarmat. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn á ný er byrjað á röngum enda. Farið er af stað með verkefni sem er ókostnaðarmetið. Hér er lögð fram breytingatillaga um að byrjað verði á kostnaðarmati. Það er algjört skilyrði áður en lengra er haldið. Upphaflega tillagan gerði ekki ráð fyrir slíku kostnaðarmati. Það er kaldhæðnislegt að um 20 manna sendinefnd kjörinna fulltrúa og embættismanna fóru í Norðurlandareisu til að kynna sér bókasöfn. Ekki er gerð athugasemd við þá aðila sem sæti eiga í menningar- íþrótta og tómstundaráði, heldur aðila sem ekki eiga sæti þar. Þessi útgjaldaboðun fyrir útsvarsgreiðendur er afurð þeirrar ferðar. Það er ekki alveg efst á forgangslistanum að setja fjármagn í bókasöfn á meðan gríðarlegt fjármagn vantar í velferðarmálin samkvæmt kostnaðarmati.

    Arna Schram og Pálína Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2019 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Einnig er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. 28. nóvember 2019, umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 27. ágúst 2019 og minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2019. R19110206

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Heildarskuldir- og skuldbindingar borgarinnar á síðustu 9 mánuðum fara úr því að vera 324 milljarðar króna í 348 milljarða. Þetta þýðir hækkun upp á 24 milljarða eða ríflega 2,5 milljarðar á mánuði. Á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni hafa heildarskuldir því hækkað um 750 þúsund krónur á aðeins 9 mánuðum. Það verður vandséð að þessi skuldaþróun sé dæmi um „ábyrga fjármálastjórn“ eins og fulltrúum Viðreisnar er svo tíðrætt um. Vandséð er að þessi útkoma sé í samræmi við yfirlýsingar borgarstjóra um að borgin sé að skila „góðum afgangi“. Þetta sýnir að forsendur samstarfsins eru brostnar þar sem gert var ráð fyrir að skuldir væru greiddar niður í meirihlutasáttmálanum. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem vel er að ganga í borginni. Fjármálayfirvöld minna þó á að gæta verði aðhalds. Þess er vænst að hlustað verði á þá áminningu. Það sem veldur hvað mestum áhyggjum er staða ýmissa mála hjá skóla- og frístundasviði og sem staðfest er í skýrslu innri endurskoðunar um rekstrarramma skólanna. Í þeirri skýrslu má lesa um ákall skólastjóra eftir meira rekstrarfé; að brugðist sé hraðar við raka og mygluskemmdum skólabygginga og hlustað verði á ákall skóla eftir að fá fagaðila meira inn í skólanna eins og Flokkur fólksins hefur ítrekað komið með tillögu um. Áhyggjur eru ekki síður af líðan og heilsu kennara skólanna en veikindi eru meiri en áætlun gerði ráð fyrir. Efnaðir foreldrar eru í æ ríkari mæli að fara með börn sín á einkastofur til að fá þjónustu sem skólaþjónustan á að veita og enn er kallað eftir að reiknilíkan, hið plástraða verði endurnýjað. Ekki er alveg ljóst hvernig á að bregðast við vanda grunnskólanna. Sviðið er engan veginn í stakk búið að mæta neinu óvæntu eins og í ljós koma þegar óvæntur vandi kom upp í Klettaskóla, Dalskóla og Seljaskóla. Það er álitamál hvort verið sé að vinna samkvæmt grunnskóla- og sveitarstjórnarlögum þegar kemur að þessum þáttum og fleirum sem reifaðir eru í skýrslu innri endurskoðunar.

    Halldóra Káradóttir, Lárus Finnbogason, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Helgi Grímsson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagðar fram breytingartillögur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, merktar SCPV1-SCPV37, breytingartillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, merktar D1-D10, breytingartillögur Miðflokksins, merktar M1-M3 og breytingartillögur Flokks fólksins, merktar F1-F5, við fjárhagsætlun Reykjavíkurborgar 2020 og fimm ára áætlun 2020-2024. R19010204
    Vísað til borgarstjórnar. 

    Halldóra Káradóttir og Guðlaug Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. nóvember 2019, vegna frumvarps að fjárhagsáætlun og uppfærðrar þjóðhagsspár Hagstofu Íslands. R19010204

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem vel er að ganga í borginni. Fjármálayfirvöld minna þó á að gæta verði aðhalds. Þess er vænst að hlustað verði á þá áminningu. Það sem veldur hvað mestum áhyggjum er staða ýmissa mála hjá skóla- og frístundarsviði og sem staðfest er í skýrslu innri endurskoðunar um rekstrarramma skólanna. Í þeirri skýrslu má lesa um ákall skólastjóra eftir meira rekstrarfé; að brugðist sé hraðar við raka og mygluskemmdum skólabygginga og hlustað verði á ákall skóla eftir að fá fagaðila meira inn í skólanna eins og Flokkur fólksins hefur ítrekað komið með tillögu um. Áhyggjur eru ekki síður af líðan og heilsu kennara skólanna en veikindi eru meiri en áætlun gerði ráð fyrir. Foreldrar sem hafa efni á eru í æ ríkari mæli að fara með börn sín á einkastofur til að fá þjónustu sem skólaþjónustan á að veita og enn er kallað eftir að reiknilíkan, hið plástraða verði endurnýjað. Ekki er alveg ljóst hvernig á að bregðast við vanda grunnskólanna. Sviðið er engan vegin í stakk búið að mæta neinu óvæntu eins og í ljós koma þegar óvæntur vandi kom upp í Klettaskóla, Dalskóla og Seljaskóla. Það er álitamál hvort verið sé að vinna samkvæmt grunnskóla- og sveitarstjórnarlögum þegar kemur að þessum þáttum og fleirum sem reifaðir eru í skýrslu innri endurskoðunar.

    Halldóra Káradóttir og Guðlaug Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 22. nóvember 2019, að viðauka við fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar 2019. Greinargerð fylgir tillögunni. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir og Guðlaug Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns og Birgis Björns Sigurjónssonar, dags. 14. október 2019, um áhrif dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 24/2018 á framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Reykjavíkurborgar.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19050155

    -    Kl. 12.30 víkja borgarstjóri og Pétur Ólafsson af fundinum. 

  25. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2019, vegna fyrirhugaðrar ferðar borgarstjóra til Berlínar þar sem hann mun taka þátt í mótttöku og verðlaunaathöfn Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2019 sem mun fara fram dagana 6. og 7. desember nk. R18110177

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg er að verða stærsti skemmtistaður í heimi fyrir borgarstjóra og útsvarsgreiðendur borga brúsann. Nú þegar er búið að samþykkja 135 milljóna útgjöld frá borginni vegna þessa verkefnis. Kynnt er að a.m.k. sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs verði með í för og fastlega má gera ráð fyrir því að aðstoðarmaður borgarstjóra verði einnig í ferðinni því hann fylgir ætíð með eins og skugginn. Nú er ekki verið að hafa áhyggjur af kolefnislosun sem talað er um af miklum móð vegna þeirra sem nota fjölskyldubílinn á götum Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 22. nóvember 2019, vegna fyrirhugaðrar þátttöku borgarstjóra í COP25 – loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd, dagana 9. til 11. desember nk. R19110228

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér birtist hræsnin í sinni tærustu mynd. Nú stendur til að fleiri hundruðum manna ef ekki þúsundum stigi upp í flugvélar og fljúgi til Madríd á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna til að funda um loftslagsmál. Þarna kristallast „við“ og „þið“. Þessir „við“/elítan,  ferðast um heiminn eins og enginn sé morgundagurinn til að ákvarða álögur á almenning sem lifa hefðbundnu lífi og leyfa sér af og til að ferðast. Með borgarstjóra í för verða Pétur Krogh Ólafsson aðstoðarmaður og Líf Magneudóttir formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs, en sú síðastnefnda hefur stórar áhyggjur af losun frá fjölskyldubílnum í Reykjavík. Á þetta fólk ekki að líta sér nær og byrja á því að fylgja eigin stefnu. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst það bruðl að borgarbúar eigi að kosta þrjá einstaklinga á loftlagsráðstefnu. Á sama tíma og þessir sömu aðilar tjá sig um kolefnisspor eru þeir að taka sér ferð á hendur sem kostar ansi mörg slík spor. Þetta er mikill tvískinnungsháttur. Það líður varla sá fundur í borgarráði að meirihlutinn samþykkir ekki einhverjar utanlandsferðir borgarstjóra með fríðu föruneyti, aðstoðarmanni og oft fleiri borgarfulltrúum meirihlutans. Hvar er Skype? Hvar er fjarfundatæknin? Það fer mikið fé í utanlandsferðir meirihlutans í borginni, embættismanna og annarra yfirmanna. Væri allt tiltekið skiptir þetta tugum milljóna á ári.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 25. nóvember 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um styttingu vinnuvikunnar, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. nóvember 2019. R14050127

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er jákvætt að sjá að farið hafi verið í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar en niðurstöður sýna fram á mjög jákvæð áhrif. Það er skiljanlegt að það þurfi auðvitað að fara eftir öllum reglum en fulltrúa Sósíalistaflokksins finnst það skjóta skökku við að það teljist ekki brot á jafnræðisreglunni að sumt starfsfólk fái að taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar en aðrir ekki en að það teljist vera brot á jafnræðisreglunni að halda áfram slíku tilraunaverkefni. Það er sennilega líka erfitt fyrir starfsfólkið sem tók þátt í tilraunaverkefninu að snúa aftur til fullra starfa án kjarabóta. Það er mikilvægt að stytta vinnuvikuna án launaskerðingar og að útfærslan fari fram á forsendum starfsfólksins. Hér er um mikilvæga kjarabót að ræða, sem nauðsynlegt er að standa vörð um og koma til framkvæmda.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda gangandi vegfarenda yfir göngubrú sem liggur yfir Breiðholtsbraut, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019. R19080207

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins þakkar svarið. Segir í svari að ekki sé annað vitað en að almenn ánægja ríki um þessa nýju brú.  Spyrja má þá hvort það hafi verið kannað? Hafi það ekki verið kannað er þá ekki rétt að kanna það svo það liggi einfaldlega fyrir? Allar göngubrýr bæta öryggi en staðsetningu þarf að velja vel. Tengingin sem er á ábyrgð Reykjavíkurborgar er slæm þegar komið er frá Mjódd, upp Arnarbakkann en áður en hann sveigir til vinstri  má sjá stíg sem liggur beint að enda brúarinnar. Við enda stígsins er mikill halli sem þarf að klífa upp til  að komast upp á brúna. Flokkur fólksins vill láta fullklára þennan stíg svo þessi leið  verði fær upp á brúna enda líklegt að margir komi þarna að.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um leiðir til hækkunar á frístundakorti, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2019. R19110005

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mjög undarlegt að frístundakortið taki ekki eðlilegum verðlagsbreytingum eins og útgjaldaliðir borgarinnar. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur þegar lagt fram eftirfarandi tillögu í fjárhagsáætlun borgarinnar. „Borgarstjórn samþykkir að hækka upphæð frístundastyrks sem veittur er með frístundakorti Reykjavíkurborgar miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2017 eða um 8,2% og verði 54.000 á barn á ári. Tillagan felur í sér að fjárheimildir íþrótta- og tómstundssviðs verði hækkaðar um 60 m.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð. Greinargerð: Frístundakortið er styrkjakerfi í frístundastarfi fyrir 6 - 18 ára börn og unglinga með lögheimili í Reykjavík. Hægt er að nýta sér styrkinn fyrir íþrótta-, lista og tómstundastarf. Meirihluti borgarstjórnar felldi tillögu borgarfulltrúa Miðflokksin á haustdögum 2018 um að hækka frístundakort úr 50.000 krónum í 100.000 krónur. Hinn 1. janúar 2017 var frístundakort hækkað um 42,8% eða úr 35.000 krónum í 50.000 kr. Frístundakortið hefur ekki haldið í við verðlag eins og allar gjaldskrár borgarinnar. Því er það eðlileg krafa að upphæð frístundakortsins haldist í hendur við aðrar sjálfkrafa hækkanir úr því meirihlutinn gat ekki fallist á að hækka kortið einhliða. Áætlaður útgjaldaauki að fjárhæð 60 m.kr. miðar við þá fjárheimild sem til ráðstöfunar er fyrir frístundakortið hjá íþrótta- og tómstundasviði“.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um smáhýsi fyrir heimilislausa, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2019. R19110004

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ekki er að finna í lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup heimildir til að skipa matsnefnd til að leggja mat á innsendar tillögur í útboðum áður en verðtilboð eru opnuð. Heimild fyrir slíku er ekki heldur að finna í innkaupareglum Reykjavíkurborgar. Því er ljóst að alvarlegt lögbrot hefur átt sér stað af hálfu borgarinnar. Ekki nóg með það heldur var matsnefndin skipuð fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði og velferðarsviði s.s. hinn eiginlegi kaupandi skipaði matsnefndina. Matsnefndin hafnaði öllum tilboðum og voru þau ekki einu sinni opnuð. Þá var ákveðið að fara í hefðbundið framkvæmdaútboð og eitt arkitektafyrirtæki handvalið til að gera útboðsgögn. Verkið var síðan boðið út á ný. Ákveðið var að taka tilboði lægstbjóðanda sem hefur lengst af starfað sem starfsmannaleiga. Allt þetta mál lyktar af því að fyrirfram var ákveðið hver fengi verkið. Þetta er afleit stjórnsýsla.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er vítaverður og rakalaus þvættingur sem stenst enga skoðun.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um rafvæðingu hafna og eftirlit með brennslu eldsneytis, sbr 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst.  R19080210

    Fylgigögn

  32. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stöðu framkvæmda á sérklefa í Vesturbæjarlaug, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2019. R19100451

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er jákvætt að sjá að gera megi ráð fyrir því að framkvæmdir geti hafist í janúar 2020. Þá er mikilvægt að tryggja líka að framkvæmdir vegna sérklefa og aðgengismála í öðrum sundlaugum borgarinnar og í samfélaginu í heild fari fram til að tryggja aðgengi fyrir alla.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 25. nóvember 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslokasamninga hjá dótturfélögum Reykjavíkurborgar, sbr. 51 lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019. R18080131

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að Strætó bs. muni huga að auknu öryggi farþega í akstri á höfuðborgarsvæðinu. Það verði gert með því að farþegar í sætum hafi val um þriggja punkta öryggisbelti. Ljóst er að hvort sem það er skylda eða ekki að nota öryggisbelti í hópferðabifreiðum geta afleiðingarnar af því að vera laus í bílunum orðið alvarlegar. Vagnarnir eru að aka langar leiðir um höfuðborgarsvæðið og oft þar sem hraði er töluverður því telja fulltrúarnir mikilvægt að í alla vagna verða sett öryggisbelti til þess að tryggja aukið öryggi farþega Strætó bs. R19110384

    Vísað til meðferðar stjórnar Strætó bs.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hvað hefur verið gert við þá muni sem m.a. eldri sjómenn hafa gefið Sjóminjasafnsins  sem tilheyrðu upphaflegri sýningu safnsins og eru ekki hluti af nýrri sýningu? Var þeim fargað eða settir í geymslu? R19110400

    Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt er til að samninganefnd Reykjavíkurborgar komi reglulega inn í borgarráð til að upplýsa um stöðu kjarasamningaviðræða. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110385
    Frestað.

    Fylgigögn

  37. Lögð fram svohljóðandi ítrekun á fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins sbr. 16. liður fundargerðar borgarráðs frá 31. október sl.:

    Hinn 31. október síðastliðinn lagði borgarfulltrúi Miðflokksins fram eftirfarandi fyrirspurn til skriflegs svars: „Á fundi borgarstjórnar hinn 15. október s.l. var samkomulag milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu samþykkt. Daginn áður eða hinn 14. október auglýsti Reykjavíkurborg útboð nr. 14356 rammasamning um stýribúnað umferðarljósa. 27. maí síðastliðinn samþykkti innkauparáð að heimila umhverfis- og skipulagssviði að fara í samningskaup um kaup á vélbúnaði og hugbúnaði auk þjónustusamnings vegna uppfærslu á svonefndri miðlægri stýringu umferðarljósa í Reykjavík og það tekið fram að um væri að ræða samvinnuverkefni með Vegagerðinni sem greiða á helming kostnaðar við uppfærsluna. 1. Á hvaða heimild borgarstjórnar og/eða innkauparáðs byggir útboð nr. 14356? 2. Er útboðið hugsað sem hluti af samkomulaginu milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins? 3. Eru Vegagerðin og samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þátttakendur í útboðinu? 4. Hvers vegna auglýsti Reykjavíkurborg svo víðtækt útboð á stýribúnaði umferðarljósa áður en samkomulagið milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkissins var samþykkt í borgarstjórn? 5. Hvað er gert ráð fyrir að útboðið verði stórt í krónum talið?“ Ekki  hefur borist svar nú mánuði seinna. Það er afar slök stjórnsýsla að svara ekki fyrirspurnum kjörinna fulltrúa innan þeirra marka sem borgin sjálf setur sér. Þess er óskað að svörin berist ekki seinna en á næsta borgarráðsfund þann 5. desember. Einnig er hnykkt á því að kerfið svari öllum fyrirspurnum frá Miðflokknum sem eru inni í kerfinu og eru komnar yfir á tíma á sama fundi. R19100452

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Endurgerð Haðarstígs hefur lengi verið á döfinni og árin 2018 og 2019 voru áætlaðar 50 milljónir króna áætlaðar til endurgerðar götunnar eftir að hönnun var gerð og kostuð árið 2018. Auk þeirra 50 milljóna sem ætlaðar voru til endurgerðar Haðarstígs var gert ráð fyrir kostnaði Veitna vegna lagfæringar á lögnum og fráveitu.1. Hvers vegna hefur framkvæmd ekki hafist úr því fjármagn var komið í verkið? 2. Hvers vegna er verið að fella framkvæmdina út af fjárhagsáætlun?
    3. Er möguleiki á að eigendur fasteigna við stíginn geti sótt sér vanefndabætur? R19110387

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun á árunum eftir hrunið að draga mjög úr götulýsingu sem gerir borgina dimma og hættulega fyrir alla. 1. Hvers vegna var tekin ákvörðun um að draga úr götulýsingu í borginni úr 50 LUX niður í 20 LUX? 2. Af hverju hefur ljósmagnið ekki verið hækkað á ný í 50 LUX?  3. Hvað hefur borgin sparað sér í peningum á ári frá því ljósmagnið var lækkað í 20 LUX? 4. Hvers vegna er öryggi borgaranna ekki tekið framar sparnaði? R19110388

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  40. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Borgarráð samþykkir að skipuð verði neyðarstjórn/fjármálastjórn yfir skóla- og frístundasviði. Reykjavík eyðir hlutfallslega langmest í þennan málaflokk af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur tekist að ná böndum á rekstrinum þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkur er í miklum vandræðum vegna þessa og þarf að svara fyrir framúrkeyrsluna án þess að geta haft áhrif. Það er afleit staða. Taka þarf til í rekstri sviðsins og í vinnu stjórnarinnar verði skýrsla innri endurskoðanda um skólamál í Reykjavík höfð til hliðsjónar. R19110399

    Frestað.

  41. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fái undanþágu frá reglugerð um hollustuhætti og að samþykkt um hundahald verði endurskoðuð. Farið verði fram á undanþágu frá reglugerðinni um: 1. Að gæludýr hafi aðgang að kaffihúsum með eigendum sínum þar sem rekstraraðilar leyfa. 2. Gæludýr hafi aðgang að verslunarmiðstöðum nema annað sé tekið fram. Einnig er lagt til að hundaleyfisgjaldið verði nýtt til að bæta aðstöðu fyrir hundaeigendur í borginni. Gjaldið er nú notað til að greiða niður starfsemi hundaeftirlits borgarinnar. R19110390

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs. 

  42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju  þeir sem standa saman að byggðasamlögum vinni ekki saman að sorphirðu, skipulagningu og ákvörðunum? Sorpa er eitt af 4 byggðasamlögum og á Reykjavík stærsta hlutinn í því en hefur lítið vægi í stjórn. Svo virðist sem stjórnendur geti ekki komið sér saman um hvernig haga eigi málum.  Nýlega komst tækniráð Sorpu að þeirri  niðurstöðu að hagkvæmasta leiðin fyrir sveitarfélög væri að íbúar settu plast í pokum í gráu tunnuna og að það yrði svo flokkað í Gufunesi með vélrænni flokkun. Keypt var vél, sem notar vind til að skilja plastið frá öðru sorpi. Hún kostaði rúmar fjörutíu milljónir króna. Var það metið af yfirverkfræðingi Sorpu að vindflokkunarvélin myndi borga sig ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nýttu hana. Það gera þau ekki. Reykjavík og Kópavogur nota aðrar aðferðir. Flokkur fólksins spyr hverju Reykjavík notar ekki vélina og hvort það var ekki vitað að Reykjavík ætlaði ekki að nota vélina áður en ráðist var í kaupin? Það er alvarlegt og illa farið með fé borgarbúa ef þeir geta ekki nýtt rúmlega fjörutíu milljóna króna vélbúnað sem byggðasamlagið keypti til flokkunar á plasti. Reykvíkingar þurfa að leigja tunnu undir plast, fara með það í grenndargám eða á endurvinnslustöð í stað þess að njóta góðs af flokkunarvélinni. Er ekki tímabært að leggja niður þetta byggðasamlag? R19110392

    Vísað til umsagnar hjá stjórn SORPU bs.

  43. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði sambærilegar og eru í nágrannaborgum. Tilraunaverkefni hefur verið í gangi og gengið vel. Tímabært er að stíga skrefið til fulls. Þær reglur sem eru nú í gildi eru óþarflega strangar og þar sem tilraunaverkefnið hefur gengið vel er engin ástæða til annars en að taka skrefið til fulls. Núverandi meirihluti og einnig sá síðasti undir stjórn sama borgarstjóra hefur lagt á það áherslu að Reykjavík fylgi borgum eins og Osló og Kaupmannahöfn í flestu og ættu reglur um gæludýr í almenningsvögnum ekki að vera nein undantekning á því. Það er sem dæmi óþarfi að leggja aldurstakmark við því hverjir megi ferðast með gæludýr. Einnig þarf ekki að leggja sérstakt bann við að fólk ferðist með gæludýr á háannatímum. Eigendur gæludýra áttað sig sjálfir á hvað er best fyrir gæludýrið sitt. Flokkur fólksins leggur því til að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði eins og reglur í þeim borgum sem Reykjavík ber sig saman við. R19110393

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  44. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að umferðarflæði verði bætt í borginni með því að vinna betur við ljósastýringu og að gera fráreinar án ljósa við hægri beygju. Öðru hverju er slík hægri beygja gerð og ávallt er það til bóta. Þennan kost þarf að rýna og gera breytingar til batnaðar þar sem það á við. Miklar umferðartafir hafa myndast undanfarið á Sæbrautinni við Hörpuna og byggingasvæðin að Geirsgötu. Ástæða þess er fyrst og fremst fjöldi umferðarljósa, sem virðast ekki vera samstillt. Til að laga þetta ástand er eftirfarandi lagt til: Þegar ekið er í átt að miðbænum og Hörpu hafa verið sett upp mjög misvísandi ljós til móts við Landssmiðjulóðina þar sem ekið er að bílastæðakjallara Hörpu er búið að setja upp villandi ljósastýringu, þar sem gangandi og akandi umferð fær mismunandi skilaboð. Rautt ljós er á gangandi umferð, meðan grænt er á akandi við hægri beygjuna að Hörpu. Þarna var áður frárein til hægri án ljósastýringar. Þetta hefur skapað misskilning og tafir þannig að legið hefur við slysum. Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld borgarinnar endurskoði þessa tilhögun og breyti til að auka skilvirkni og öryggi. R19110394

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  45. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að slökkt verði á gönguljósum móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn. Við fyrstu gatnamót þar sem ekið er frá Hörpu eru umferðarljós með gönguljósum. Þessi ljós ættu að vera í samhengi við ljósin á undan, ásamt gönguljósunum, en það virðist ekki vera og þess vegna myndast raðir að óþörfu. Um 40 metrum eftir gatnamótin frá Hörpu eru tvær gönguþveranir norðan megin götunnar, sem sameinast í ein við Seðlabankann. Önnur er án ljósa en hin með gönguljósum, þar sem er rofabox fyrir gangandi til að kalla fram skiptingu. Síðari gönguþverunin með ljósastýringunni er núna lokuð með steinagirðingu og gönguljósin stillt á tíma þannig að rautt ljós kemur á umferðina með reglulegu þéttu millibili án þess að nokkur gangandi maður ýti á takkann, auk þess að þverunin er lokuð. Þetta er því algjörlega tilgangslaust og gerir ekkert nema stöðva akandi umferð að óþörfu. Flokkur fólksins leggur til að slökkt verði á þessum gönguljósum enda tilgangslaus. R19110394

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  46. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að taka svæðið, Geirsgata, Kalkofnsvegur móts við Hörpu til endurskoðunar til að lágmarka tafir. Á gatnamótunum við Geirsgötu eru umferðarljós sem ekki voru á upphaflegu deiliskipulagi frá 2006 þar sem Kalkofnsvegur og Geirsgata voru í beinu flæði, heldur var þessu breytt og þrengt í "T" gatnamót með ljósastýringu. Staða ljósanna er mjög erfið akandi umferð, þar sem ekki eru uppsettir ljósahattar nema við stöðvunarlínuna, en því sleppt hinum megin við gagnamótin. Þá eru gönguljós á öllum örmum gatnamótanna og þau tímastillt þannig að það er grænt á alla gangandi vegfarendur í töluverðan tíma í allar áttir og rautt á bílaumferðina, þó svo að enginn sé að ganga yfir. Þarna mætti setja hægri beygjuslaufu fram hjá ljósunum af Kalkofnsvegi inn á Geirsgötu eins og oft er gert til að greiða fyrir umferð og hægri beygjum. Staðan á þessu rúmlega 400 metra svæði móts við Hörpuna er skelfilegt, sérstaklega í vesturátt og verulegar umferðartafir að ástæðulausu með tilheyrandi mengun. Verst er ástandið á um 200 metra kafla við framkvæmdasvæði Landsbankans og að Geirsgötu. Lagt er til að allt þetta svæði verði tekið til endurskoðunar til þess að lágmarka tafir og auka flæði umferðar. Það er leitt að fallið skyldi frá að að nota verðlaunatillögu Hörpu í upphafi, þar sem Sæbraut, Kalkofnsvegur og hluti Geirsgötu átti að vera neðanjarðar undir torgið við Hörpuna. R19110394

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs. 

  47. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Tillaga Flokks fólksins um að ljúka við stíg og stígatengingu við nyrðri enda göngubrúar yfir Breiðholtsbraut þar sem eðlileg gönguleið er frá Mjódd upp Arnarbakkann. Flokkur fólksins leggur til að stígur sem liggur að göngubrú yfir Breiðholtsbraut,  norðanmegin við hana þegar komið er frá Mjódd, verði gerður fær gangandi vegfarendum en til að komast upp á brúna frá þessum punkti þarf að að klífa 2-3 metra talsverðan halla.  Bætt aðgengi á þessum stað mun auka notkun brúarinnar að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. R19110398

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

    -    Kl. 12.40 víkja Eyþór Laxdal Arnalds og Sabine Leskopf af fundinum.  
    -    Kl. 12.45 víkja Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum. 
    -    Kl. 12.54 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum. 

Fundi slitið klukkan 13:00

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Líf Magneudóttir Hildur Björnsdóttir