Borgarráð - Fundur nr. 5566

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 21. nóvember, var haldinn 5566. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson og Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 12. nóvember 2019. R19010035

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 18. nóvember 2019. R19010016

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 12. nóvember 2019. R19110155

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 13. nóvember 2019. R19110154

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 14. nóvember 2019. R19110153

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. nóvember 2019. R19110158

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 12. nóvember 2019. R19010037

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 20. nóvember 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar:

    Mikilvægt er að öllum ráðum sé beitt til að koma í veg fyrir tafir á framkvæmdum á borgarlandinu. Vinna að bættu verklagi er langt komin og er niðurstaðna að vænta á næstu vikum

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar:

    Ýmsar framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar hafa dregist úr hófi. Þetta hefur valdið rekstraraðilum tjóni. Fjölmargir aðilar hafa kvartað yfir þessu verklagi og er umboðsmaður borgarbúa ekki einn um það. Hér beinir umboðsmaðurinn tilmælum til borgaryfirvalda að standa miklu betur að framkvæmdum en eins og allir þekkja þá hefur verið staðið illa að framkvæmdum, t.d. á Hverfisgötunni. Borgin þarf að tryggja betra utanumhald verklegra framkvæmda og stórbæta alla upplýsingagjöf og samráð.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar:

    Miðflokkurinn tekur heilshugar undir tilmæli umboðsmanns borgarbúa, vegna framkvæmda í miðborginni og á öðrum viðkvæmum rekstrarsvæðum. Greinilegt er að mikilla úrbóta er þörf en það bætir ekki skaða og tjón þeirra sem nú þegar hafa orðið fyrir barðinu á töfum og sinnuleysi borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. og 19. lið fundargerðarinnar:

    Bókun var lögð fram við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld fjölgi bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum. Tillagan var felld og segir í bókun meirihlutans að “það væri ekki hlutverk sveitarfélaga að útvega stæði fyrir stórar bifreiðar“. Það vantar bílastæði fyrir stóra bíla í úthverfum alla vega í sumum úthverfum og eru bílstjórar á eigin vegum sem í störfum sínum nota stóra bíla sem atvinnutæki oft í vandræðum. Einhvers staðar þarf allt að vera, einnig stórir bílar sem eru atvinnutæki sem eru ekki í tengslum við nein ákveðin fyrirtæki og hafa bílstjórar þar að leiðandi ekki aðgang að stæði á fyrirtækjalóð.
    Liður 11: Flokkur fólksins hefur ítrekað reynt að fá borgaryfirvöld til að hlusta á borgarbúa og virða þeirra óskir þegar kemur að stórframkvæmdum sem hafa víðtæk áhrif á rekstur. Nú hefur umboðsmaður borgarbúa bæst í hóp þeirra sem eru að reyna að koma vitinu fyrir borgarmeirihlutann. Með tilmælum sínum kallar umboðsmaðurinn eftir að borgarmeirihlutinn keyri ekki áfram framkvæmdir ýmist í óþökk íbúa og rekstraraðila nema hvort tveggja sé. Hvert málið hefur rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Snúa umkvörtunarefnin helst að skorti á árangursríku samráði og nægu upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 11. nóvember 2019. R19010036

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins fagnar því að öldungaráðið fjallaði um bækling sem sendur er til allra sem verða 75 ára og eldri. Vísað er í tillögu Flokks fólksins um breytingar sem gera þarf á bæklingnum og tillögunni var einmitt vísað til meðferðar velferðarsviðs og öldungaráðs til nánari vinnslu. Meðal þess sem eldri borgarar Flokks fólksins lögðu til var að bæklingurinn byrjaði á sérstökum kafla þar sem upplýsingar um réttindi væru sundurliðaðar eftir hópum, og að þær væru aðgengilegar. Einnig var lagt til að fram kæmi hvað það væri sem er eldri borgurum að kostnaðarlausu og hvað er gegn gjaldi. Þeim fannst jafnframt að það væri mikilvægt að bæklingurinn hefði ákveðnar grunnupplýsingar s.s. upptalningu á félagsmiðstöðvum, félagasamtökum og stöðum þar sem hægt er að fá keyptar máltíðir. Hugsa þarf svona bækling þannig að hann sé fyrir breiðan hóp fólks, bæði þá sem eru efnaðir og efnaminni sem og fátækir og/eða einmana og einangraðir. Þetta er sennilega aðeins smá brot af því sem mætti nefna til að bæta bækling þann sem hér um ræðir. Svona bækling þarf helst að endurútgefa reglulega ef vel á að vera.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R19110018

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið:

    Ráðuneytið tekur af allan vafa og er skýrt í því að sveitarfélögum er óheimilt að greiða sér arð úr rekstri vatnsveitna. Er það einnig mat ráðuneytisins að hugtakið „fjármagnskostnaður“ í skilningi 10. gr. laga verður ekki túlkað með þeim hætti að það geti náð yfir áætlaðan kostnað/arðsemiskröfu sveitarfélaga af bundnu eigin fé í vatnsveitum. Hefur borgarfulltrúi margsinnis borið fram þessi rök og þráspurt hvort Orkuveita Reykjavíkur skuldi ekki greiðendum sínum hluta af innheimtu vatnsgjaldi á þeim árum sem „planið“ var í gildi allt frá árinu 2011. Í það minnsta endurgreiddi Orkuveita Reykjavíkur oftekið vatnsgjald upp á hálfan milljarð fyrir árið 2013 án þess að láta reyna á það fyrir dómstólum. Lítið hefur verið um svör – en þau svör sem fengist hafa hafa verið á þá leið að gjaldskrá vatnsgjaldsins var lækkað 2016. Það er klárt miðað við minnisblað ráðuneytisins að ólögleg vatnsgjöld hafi verið innheimt allt frá árinu 2011 til ársins 2016 þegar gjaldskráin var lækkuð. Orkuveita Reykjavíkur á að taka frumkvæðið í málinu og endurgreiða gjaldendum mismuninn á þessu árabili í stað þess að gjaldendur þurfi að sækja rétt sinn með ómældum kostnaði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19110019

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 13. nóvember 2019, á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna Korpulínu, ásamt fylgiskjölum. R11060102
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samkomulagi um uppgjör vegna niðurrifs og brottflutnings á flugskýli, ásamt fylgiskjölum. R19110102
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kauptilboð í íbúð í Háaleitisbraut 49, ásamt fylgiskjölum. R17100131
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samkomulagi um uppbyggingu á Klausturstíg 1-11, ásamt fylgiskjölum. R19110142
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita greiðslufrest vegna byggingaréttar og gatnagerðargjalda á Lambhagavegi 10. R19080104
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús við Skyggnisbraut 13-15, Rökkvatjörn 1, Gæfutjörn 10-14 og Jarpstjörn 2-4 á reit E í Úlfarsársdal. R19090004
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Sifjarbrunni 7. R19090048
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samkomulagi um uppbyggingu á Tunguhálsi 5, ásamt fylgiskjölum. R19110118
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við viljayfirlýsingu um uppbyggingu og breytingar við Fleyvang – Vogabyggð 5, ásamt fylgiskjölum. R18030152
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í næsta áfanga í alþjóðlega verkefninu Reinventing Cities sem haldið er á vegum samtakanna C40 og leggi fram tvær lóðir þar sem kallað verði eftir framúrskarandi uppbyggingarverkefnum, bæði frá sjónarmiði borgarþróunar og loftslags og umhverfismála. Upplýsingar um svæðin eru hjálögð. Svæðin eru við Ártúnshöfða og Gufunes. Skipaður verði starfshópur með fulltrúum skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, skipulagsfulltrúa og skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar til þess að halda utan um verkefnið.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110011
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikill heiður fyrir Reykjavík að fá að taka þátt í vönduðu verkefni eins og Reinventing Cities. Þátttaka borgarinnar á síðasta ári kom borginni á kortið í grænum uppbyggingarverkefnum á heimsvísu. Að þessu sinni eru lagðar fram lóðir, annars vegar gömlu steypusílóin við sementsverksmiðjuna í Elliðaárvogi og hins vegar þróun og uppbygging við bryggjuna við Gufunes.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2019:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að desemberuppbót fyrir árið 2019 verði að upphæð 100.100 kr. miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Óskað eftir heimild til þess að greiða uppbótina út þann 1. desember næstkomandi.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110171
    Samþykkt. 

    Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2019:

    Lagt er til að borgarráð óski eftir umsögn stjórnar B-hlutafyrirtækja og byggðasamlaga sem Reykjavíkurborg á aðild að, um möguleikann á og vinnu við opnun á fjárhagsbókhaldi umræddra félaga líkt og Reykjavíkurborg hefur þegar gert

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110149
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar innri endurskoðunar, dags. 15. nóvember 2019, við erindi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019. R19030133

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að innri endurskoðandi miðlaði upplýsingum til réttra aðila eins og kveðið er á um í staðli IPPF 2500 sem Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar vinnur eftir. Þá er jafnframt ljóst að borgarstjóri og aðrir stjórnendur brugðust að því framfylgja þeim 30 ábendingum sem innri endurskoðandi benti á að þyrfti að bæta úr varðandi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Ljóst er að borgarstjóri bar ábyrgð sem æðsti embættismaður og framkvæmdastjóri á úrbótum vegna þessara ábendinga en ekki innri endurskoðandi. Rétt er að benda á að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar heyrði undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Um er að ræða grundvallarmisskilning á erindi eftirlitsnefndarinnar og svörum Reykjavíkurborgar. Eins og fram er tekið í bréfinu sjálfu er tilgangur nefndarinnar ekki að fjalla sérstaklega um efnislegar niðurstöður skýrslunnar heldur nánar tiltekin atriði sem lúta að almennri fjármálastjórn sem laga þyrfti. Ábendingar nefndarinnar í umræddu bréfi snúa að verklagi innri endurskoðunar, endurskoðunarnefndar og ytri endurskoðenda við eftirfylgni ábendinga eins og skýrt er tekið fram í niðurlagi bréfsins. Þá eru svör borgarinnar um alla þætti málsins skýr enda er hér verið að gera athugasemdir við annarsvegar innri endurskoðun og ytri endurskoðun en ekki aðra þætti þessa máls.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Í bréfi Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar frá 15. nóvember 2019 kemur fram að innri endurskoðandi fundaði með eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og að farið var eftir hefðbundum ferlum og stöðlum við að benda á þær úrbætur sem fara þyrfti í. Það er því ljóst að eftirlitið brást hvorki þeirri skyldu að benda á það sem aflaga var né þeirri skyldu að benda réttum aðilum á hvað gera þyrfti. Skipun sérstaks starfshóps sem var falið að vinna að úrbótum vegna ábendinga Innri endurskoðunar um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar árið 2015 staðfestir að stjórnendur voru meðvitaðir og upplýstir um það sem bæta þyrfti úr. Það verður því ekki vikist undan ábyrgð í þessu máli sem leiddi til braggamálsins og annara lausataka í rekstri.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2019, vegna fyrirhugaðrar ferðar borgarfulltrúa, Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, til Þórshafnar í Færeyjum, dagana 30. nóvember til 2. desember 2019 þar sem hún mun færa Þórshafnarbúum jólatré frá Reykjavíkurborg og taka þátt í hátíðardagskrá við tendrun þess. R19090186

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar SORPU bs., dags. 14. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks Fólksins um nýtingu eða sölu metans hjá SORPU bs., sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2019. R19090140

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gott er að lesa í svari frá SORPU að nýlega sendi SORPA erindi á sveitarfélögin sem eiga SORPU og innti eftir áætlunum þeirra um nýtingu á metani. Ýmis ljón eru á veginum eftir því sem næst er komist svo hægt sé að tryggja fjármögnun innviða áður en Strætó getur hafið uppbyggingu á metanvögnum. Flokkur fólksins vill enn og aftur leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í fulla virkni. SORPA veit augljóslega um flesta notkunarmöguleika en gera aðrir sé grein fyrir þeim? Það er ekki nóg að aðili lýsi yfir áhuga sínum því metan selst ekki að sjálfu sér. Metan þarf að selja á hinn almenna bílaflota í Reykjavík. Til að það takist þarf að verðleggja það lágt til að bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. Afhendingarstöðum þarf svo að fjölga samfara aukinni notkun. Í þessu hefur ríkt hægagangur og menn virðast gleyma því að brennsla metans á báli er sóun. Notkun metans sparar innflutning á öðru eldsneyti sem er allra hagur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir ekki mikið af hvatningu um að nýta metan. Allur sorpbílafloti Reykjavíkur er bara dropi í hafið af því sem gæti verið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Metanverkefni SORPU hefur algjörlega mistekist. Framleiðslan er til staðar en móttakarinn ekki. Metangas sem dugir til að knýja fjögur til fimm þúsund litla fólksbíla í heilt ár fer til spillis hjá SORPU. Um hundrað borholur eru á svæði Sorpu á Álfsnesi skammt norðan Mosfellsbæjar. Borað er ofan í haug af lífrænum úrgangi og metangasið sem myndast þar er flutt með lögn yfir í söfnunargám og svo þaðan yfir í hreinsistöð. Með þeim tækjabúnaði er hægt að framleiða á milli þrjár til fjórar milljónir rúmmetra af metani. Einungis eru nýtt um það bil tvær milljónir rúmmetra sem er nýtt í ökutæki á höfuðborgarsvæðinu. Afgangurinn er brenndur engum til gagns. Með fullri nýtingu á metangasinu væri hægt að draga mikið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það er óskiljanlegt að allur floti Strætó bs. sé ekki knúinn á metani og rafmagni. Að þessu sögðu er líka óskiljanlegt að ekki hafi verið unnið að því að selja metanið sem SORPA framleiðir að fullu - ekki í ljósi fyrirhugaðrar aukningar í framleiðslu þess með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU sem fór langt, langt framúr öllum kostnaðaráætlunum og útsvarsgreiðendum blæðir fyrir þann gjörning. Hér veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri er að gera. Verið er að framleiða gæði engum til gagns með gríðarlegum kostnaði.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Á öllum urðunarsvæðum myndast hauggas sem er blanda af koltvísýringi (CO2) og metani (CH4). Hauggasið myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni í haugnum og mynda hauggasblöndu. Metanið í hauggasinu er mjög orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða 21 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Betra er að brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa. Þannig eru gróðurhúsaáhrif urðunarstaðarins í Álfsnesi í lágmarki. Forsendur fyrir nýtingu metans sem orkugjafa á bifreiðar eða í framleiðslu er gas- og jarðgerðarstöðin. Unnið er ötullega að byggingu hennar og þegar hún er komið í gagnið verður hægt að tryggja afhendingu til að knýja áfram metanbíla en áður var lítið afhendingaróöryggi sem gerði sveitarfélögum og fyrirtækjum í eigu þeirra erfiðara um vik að endurnýja bílaflota sína. En þetta stendur allt til bóta og á næstu mánuðum liggur fyrir hvernig sölu á metangasi úr gas- og jarðgerðarstöðinni verði háttað í framtíðinni.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Þessi sjónarmið meirihlutans eru galin. Nú er framúrkeyrsla upp á 1.500 milljóna króna ekki framúrkeyrsla. Útsvarsgreiðendur í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu borga brúsann.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Enda þótt hér sé ekki verið að gagnbóka við bókun Flokks fólksins vill fulltrúi Flokks fólksins þakka kennslu meirihlutans í efnafræði og bæta við að enginn á þessum fundi hefur mótmælt því að betra er að brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið þar sem að við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa. Fulltrúi meirihlutans í SORPU þarf hins vegar að vera duglegri að agitera fyrir metani, það selst ekki af sjálfu sér og umfram allt sjá til þess að verð metans verði lágt til að það seljist vel. Öll viljum við orkuskiptin.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar Faxaflóahafna, dags. 18. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um mengun vegna skemmtiferðaskipa, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019. R19110009

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipakomur skemmtiferðaskipa árið 2019 voru 194 og með þeim voru um 183.000 farþegar. Áætlað er að farþegar verði um 202.500 árið 2020. Losun á CO2 frá farþegaskipum var 14.300 tonn árið 2018, flutningaskipa 20.079 tonn, fiskiskipa 10.200 tonn, hafsækin ferðaþjónusta og önnur skip 2.921 tonn. Samtals er losun 47.500 tonn af starfsemi Faxaflóahafna. Þegar losun hafna í Reykjavík eru skoðaðar að frádreginni losun frá Akranesshöfn og Grundartanga er bókfærð losun í Reykjavík 41.100 tonn. Losun á CO2 frá ljósavélum skipa í viðlegu er um 22.300 tonn á ársgrundvelli. Athyglisvert er að losun skipa í viðlegu er meira en helmingi meiri en losun skipanna í siglingu til og frá höfn eða 22.300 tonn. Á heimasíðu verkefnisins Kolefnishlutlaus borg eru settar fram gamlar upplýsingar frá árinu 2017 og þar er losun frá Faxaflóahöfnum 36.000 tonn, sjá https://reykjavik.is/loftslagsmal . Nú er verið að móta nýja stefnu í loftslagsmálum í Reykjavík og setur borgarfulltrúi Miðflokksins þá kröfu að vera með nýjar upplýsingar í vinnunni. Þarna munar rúmum 5.000 tonnum í losun á milli ára á kostnað fjölskyldubílsins. Til fyrirmyndar er að Faxaflóahafnir hafa um nokkurra ára skeið látið mæla í hverjum mánuði saurgerla og entrókokka innan hafnarsvæða og fylgist vel með losun úrgangs sem frá hafsækinni atvinnustarfsemi stafar.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 18. nóvember 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um launuð námsleyfi starfsmanna Reykjavíkurborgar, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2019. R19080093

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 15. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um styttingu vinnuvikunnar, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2019. R14050127

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. september 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um innheimtuþjónustu fyrir tímabilið 2018 – 2022, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september 2019. R19080154

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    48.584 reikningar borgarbúa hafa farið í innheimtuferli til Momentum frá 1. janúar 2018- 13. september. 2019. Samtals voru 1.325.067 reikningar gefnir út á því tímabili hjá Reykjavíkurborg og þetta eru því 3,7% reikninga sem voru settar í milliinnheimtu á tímabilinu. Heildarfjöldi stofnaðra mála hjá Gjaldheimtunni sem er löginnheimta, voru 3.793. Löginnheimta er það sem skuldaferlið fer í þegar viðkomandi nær ekki að greiða í milliinnheimtu. Heildarfjöldi milliinnheimtubréfa hjá Momentum fyrir Reykjavíkurborg á árinu 2018 og til 13.9.2019 voru 67.839 bréf en þar af voru send út 48.584 bréf 1 og 19.255 bréf 2 en þau falla undir mismunandi einingaverð eftir því hversu há skuldin er. Margir eru í skuldastöðu því þeir eiga ekki pening til að greiða reikninga og hér er Reykjavíkurborg að leyfa innheimtufyrirtækjum að hagnast á skuldavanda borgarbúa.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 12. nóvember 2019, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019. Greinargerð fylgir tillögunni. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum: 

    Lagt er til að hjálögð tillaga matsnefndar dags. 15. nóv. 2019 um stofnframlag til Byggingafélags námsmanna verði samþykkt. Jafnframt er lagt til að tillaga sama efnis frá 7. maí sl. verði felld niður. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19050037
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera ekki athugasemd við aðilaskiptin sem slík, en sakna þess að borgarráð sé ekki upplýst á sama tíma um tekjur Reykjavíkurborgar af byggingarréttargjöldum, en ljóst er að þær eru 45.000 kr. á m2 eða 4.5m.kr. á hverja 100m2 íbúð. Óskað er eftir að bætt verði úr þessu á næsta borgarráðsfundi svo áætlaðar tekjur borgarinnar liggi fyrir borgarráði. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Núna hafa verið í gangi hverfiskosningar, víða er verið að kjósa um hundagerði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að þar sem farið er í það að setja upp hundagerði verði það gert í samráði við Félag ábyrgra hundaeigenda eða annarra félaga hundaeigenda. Félagið hjálpi til við hönnum, efnisval og uppsetningu hundagerða enda hafa þau gríðarlega sérþekkingu þegar kemur að besta vini mannsins. R19110209

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að ljósaskilti sem nýlega var sett upp við Strandveg í Grafarvogi verði fjarlægt. Skiltið skapar hættu þar sem það er staðsett við gönguþverun fyrir gangandi vegfarendur. Þá er jafnframt óskað eftir upplýsingum um það hvort auglýsingaskilti þessi séu undanþegin og/eða samrýmast samþykkt um skilti í Reykjavík en í drögum að samþykktinni segir „að til þess að koma í veg fyrir að skilti ógni öryggi vegfarenda eru ákvæði um fjarlægðir skilta frá gatnamótum og vegbrúnum, tíðni skiptinga á myndum, hámarks ljóma skiltis og fleira.“ Þá segir jafnframt í samþykktinni að skilti „sem eru undanþegin reglum þessum skulu engu að síður taka mið af ákvæðum reglanna varðandi birtustig, öryggi og staðsetningu.“ R19110210

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Í kafla 2.3 í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um Ríkisútvarpið ohf. er fjallað um lóðasölu RÚV. Í niðurlagi kaflans er vakin athygli á því hversu lítill hluti afraksturs lóðasölunnar kom í hlut borgarinnar og telur Ríkisendurskoðun borgina hafa framselt umtalsverð verðmæti til lækkunar skulda Ríkisútvarpsins. Í niðurlagi kaflans segir: „Þegar litið er til framangreinds er athyglisvert að árið 2015 hafi Reykjavíkurborg gengið til áðurnefnds samnings við RÚV ohf. um lóðaréttindi og byggingarétt á lóðinni við Efstaleiti án þess að gera kröfu um þátttöku í stofnkostnaði innviða og því að gera lóðina byggingarhæfa. Einnig vekur athygli hversu lítill hluti afraksturs þessa samnings kom í hlut borgarinnar. Ríkisendurskoðandi leggur ekki mat á það hvort hér sé í reynd um opinbera aðstoð að ræða. Þó er víst að bæði ríki og borg framseldu umtalsverð verðmæti til ógjaldfærs opinbers hlutafélags til að hægt yrði að lækka skuldir þess.” Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði leggja til að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að gera úttekt á samningum Reykjavíkurborgar við Ríkisútvarpið um lóðaréttindi og byggingarétt við Efstaleiti. Eins verði kannað hvort jafnræðis hafi verið gætt við samningagerðina. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110214
    Frestað.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Lagt er til að allur ferðakostnaður, þ.e. allur kostnaður við dagpeninga, hótel, ferðalög og annað uppihald, sem og kolefnisfótspor vegna utanferða vegna vinnu verði birt á hvern kjörinn fulltrúa á sömu síðu og birtir laun kjörinna fulltrúa. R19110216

    Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

  37. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Framhaldsfyrirspurn við svari við fyrirspurn áheyrnafulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um styttingu vinnuvikunnar sem er liður nr. 29 í fundargerð borgarráðs frá 21. nóvember. Í svarinu kemur fram að tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafi náð til ákveðinna starfsstaða og að ekki sé hægt með með hliðsjón af jafnræðisreglunni að stytta vinnuviku starfsmanna ákveðinna starfsstaða til lengri tíma en gert var í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar. Er það þá rétt skilið að það er ekki brot á jafnræðisreglu að sumir staðir fari í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunar en það er brot á reglunni að halda þannig tilraunaverkefni áfram? R14050127

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Á fundi borgarráðs hinn 15. nóvember voru sóttar fjárheimildir til hækkunar samgöngustyrkja upp á tæpar 90 milljónir. Hverjar eru fjárheimildir fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu á árinu 2019 vegna samgöngusamninga í heild með þessari hækkun? Hvað voru þessar upphæðir háar árin 2018 og 2017 til samanburðar? R19110211

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum hvað EFLA verkfræðistofa hefur fengið greitt frá Reykjavíkurborg og öllum dótturfélögum borgarinnar á ári – á árunum 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018 og 2019? R19110212

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Hvað er fyrirhugað að Reykjavíkurborg leggi mikið fjármagn til fyrirhugaðar uppbyggingar gróðurhvelfingar í Elliðaárdal? 2. Hvað er áætlað að Orkuveita Reykjavíkur í gegnum dótturfélag sitt Veitur þurfi að reiða fram mikið fjármagn í lagnir og annað slíkt? 3. Hvað er áætlað að vegaframkvæmdir og uppbygging bílastæða kosti? 4. Óskað er eftir öllum kostnaði tæmandi talið sem fyrirhugaður er að leggist á útsvarsgreiðendur vegna verkefnisins. R19110213

Fundi slitið klukkan 10:53

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir