Borgarráð - Fundur nr. 5565

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 14. nóvember, var haldinn 5565. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Egill Þór Jónsson. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Bjarni Þóroddsson. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 7. nóvember 2019. R19060011

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 1. október 2019. R19010027

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrir kosningar var skrifað undir samkomulag um stórfellda uppbyggingu í Bláfjöllum. Nú hafa orðið tafir á framkvæmdunum. Því er nauðsynlegt að fara yfir stöðu málsins í borgarráði, ásamt því að fá uppfærða fimm ára fjárfestingaráætlun sem getið er um í fundargerð.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 13. nóvember 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn ein könnunin hefur litið dagsins ljós sem sýnir afgerandi niðurstöður um vaxandi óánægju borgarbúa með að breyta helstu verslunargötum í göngugötur. Íslendingar  koma minna inn í gamla miðbæinn mikið til vegna þess að aðgengi er slakt og þar eru að mestu verslanir fyrir ferðamenn. Þeir sem mælast jákvæðir gagnvart göngugötum eru mun færri en áður. Jákvæði hópurinn hefur nú minnkað um heil 9% að sögn starfsmanns Maskínu. Fólk sækir þær verslanir sem voru í bænum annars staðar þar sem aðgengi að þeim er betra og hægt að fá bílastæði. Þetta er sorgleg staða í ljósi þess að aldrei voru rekstraraðilar spurðir um hvernig rekstur þeirra færi saman við breytingar gatna úr umferðargötu í göngugötu. Loforð um samráð í þeim skilningi sem flestir þekkja, að taka sameiginlega ákvörðun var svikið. Eftirtektarvert er að áhugi fólks sem býr á Kringlusvæðinu hefur minnkað um 30%. Fyrir Flokk fólksins er þetta ekki spurning um viðhorf til göngugatna almennt séð heldur að samráð hafi verið hunsað, að ekki var hlustað á forsendur hagsmunaaðila og tekið tillit til þeirra þegar teknar voru ákvarðanir sem hafa haft svo afgerandi áhrif á verslun og viðskipti eins og hér hefur komið í ljós.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Könnunin sýnir fyrst og fremst mikinn meirihlutastuðning við göngugötur í miðborginni en 7 af hverjum 10 aðspurðum eru hlynnt göngugötum. Þá sýnir hún mikla jákvæðni gagnvart göngugötum meðal þeirra svarenda sem hafa komið á göngugötusvæðið. Þeir svarendur sem hafa aldrei notið göngugatna er neikvæðasti hópurinn gagnvart því. Þá eru langflestir íbúar sem hafa göngugötur í sínu nærumhverfi jákvæðastir fyrir göngugötum. Þá segir í sáttmála meirihlutaflokkanna í borgarstjórn: "Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni."

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Þetta er ekki rétt sem fram kemur hjá meirihlutanum, en vissulega er hægt að pikka eitthvað út úr svona könnun sem hljómar vel í eyrum og styður draumsýn meirihlutans og  sem er einnig til þess ætlað að slá ryki í augu fólks. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi við rannsakanda hjá Maskínu sem fór yfir niðurstöðurnar með honum  og eru þær orðrétt skrifað eftir honum. Hér skal það endurtekið. Almennar niðurstöður könnunarinnar eru þær að sá hópur sem er neikvæður gagnvart göngugötum hefur stækkað. Þetta er afgerandi niðurstaða. Þeir sem mælast jákvæðir gagnvart göngugötum eru mun færri en áður. Jákvæði hópurinn hefur nú minnkað um heil 9% að sögn starfsmanns Maskínu. Meðal þess sem er sérstaklega eftirtektarvert er að áhugi fólks sem býr á Kringlusvæðin hefur minnkað um 30%. Fleiri álíka niðurstöður eru að finna í könnuninni og eru þær allar af sama meiði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 1. nóvember 2019. R19010024

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R19110018

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið þar sem lögð er fram fundargerð 478. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 4. nóvember 2019:
     
    Stjórn Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er að ljúka fjárhags- og starfsáætlun 2020. Samtökin eru hliðarsjálf við kjörna fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu og leiðir til mikils kostnaðarauka fyrir útsvarsgreiðendur. Nú er boðað að fjölga eigi í starfsliði samtakanna og er það gagnrýnt mjög. Kjörnir fulltrúar fara með vald sem kjósendur fela þeim og það er óásættanlegt að framselja það vald til apparats sem er algjörlega óþarft. Gera verður kröfu á kjörna fulltrúa að þeir hafi yfirsýn yfir þau mál sem fyrir liggja s.s. betri stefnumótun í þeim málaflokkum sem sveitarfélögin vinna sameiginlega að, ásamt auknu frumkvæði og greiningu á hagsmunamálum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan er ókostnaðarmetin og ekki er getið um hvað ráða eigi marga nýja starfsmenn. Rekstur sumra byggðarsamlaganna er í molum s.s. Strætó bs. og SORPU bs. Sá rekstur verður ekki bættur með fjölgun starfsmanna í starfsliði samtakanna.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19110019

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R19010041
    Öllum styrkumsóknum er hafnað.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf formanns borgarráðs dags. 13. nóvember þar sem breyting er gerð á fundadagatali borgarráðs fyrir árið 2019. R18080150

    -    Kl. 9.25 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 á breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðarinnar nr. 34 við Blesugróf, ásamt fylgiskjölum. R19100325
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 á breytingu á deiliskipulagi Naustareits vegna lóðarinnar nr. 6-10A við Vesturgötu, ásamt fylgiskjölum. R19110088
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 á breytingu á deiliskipulagi Mógilsár og Kollafjarðar, ásamt fylgiskjölum. R18030148
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9.35 víkur Egill Þór Jónsson af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgartúnsreits vestur 1.216 vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi við Guðrúnartún, ásamt fylgiskjölum. R19110083
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fagna uppbyggingu og staðsetningu nýrra smáhýsa í borginni. Verkefnin eru undir eftirliti velferðarsviðs sem er með sérhæfða þjónustu og teymi fyrir þá einstaklinga sem þar munu búa.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hringbrautar vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi við Skógarhlíð, ásamt fylgiskjölum. R19110084
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fagna uppbyggingu og staðsetningu nýrra smáhýsa í borginni. Verkefnin eru undir eftirliti velferðarsviðs sem er með sérhæfða þjónustu og teymi fyrir þá einstaklinga sem þar munu búa.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. nóvember 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Veðurstofuhæðar vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi við Bústaðaveg, ásamt fylgiskjölum. R19110086
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fagna uppbyggingu og staðsetningu nýrra smáhýsa í borginni. Verkefnin eru undir eftirliti velferðarsviðs sem er með sérhæfða þjónustu og teymi fyrir þá einstaklinga sem þar munu búa.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. nóvember 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. nóvember 2019 á tillögu um breytingar á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi. R19110090
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillagan um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi byggir á faglegum, félagslegum og fjárhagslegum rökum sem fram komu í skýrslu starfshóps fagfólks sem hafði skýrt markmið - að bæta menntun og félagslegan aðbúnað nemenda. Meirihlutinn þakkar skólaráðum Kelduskóla og Vættaskóla fyrir margar góðar ábendingar í umsögnum þeirra sem munu fá faglega og góða umfjöllun í þeirri vinnu innleiðingarhópanna sem framundan er. Mikil áhersla verður lögð á að tryggja fjármagn til þeirra samgöngubóta sem eru mikilvæg forsenda breytinganna því þær miða að því að tryggja öryggi þeirra nemenda sem velja að fara fótgangandi eða hjólandi í skólann. Skólaakstur verður tryggður fyrir þau börn úr Staðarhverfi sem velja þann kost.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast alfarið á móti fyrirhuguðum tillögum um breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Ekkert raunverulegt samráð hefur átt sér stað við foreldra, nemendur og starfsfólk skólanna eins og umsagnir, greinaskrif og tölvupóstar frá skólasamfélaginu vitna um. Þá hafa nemendur bent á að lýðræðisleg aðkoma þeirra sé ekki virt og séð ástæðu til að stíga fram í fjölmiðlum til að biðla til skólayfirvalda í borginni um að loka ekki skólanum. Ekkert er hlustað á vilja allra þessara aðila og keyra á þessa ákvörðun í gegn þvert á vilja íbúa. Að auki hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn komið með ýmsar tillögur til að tryggja áframhaldandi skólastarf s.s. samrekstur leik- og grunnskóla, fjölgun árganga í skólanum og að byggð verði þétt í Staðahverfi. Ekkert hefur heldur verið hlustað á þessar hugmyndir. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að til staðar sé skóli í hverju hverfi enda um lögboðna þjónustu að ræða. Það skýtur svolítið skökku við að á sama tíma og verið er að leggja niður skóla í einu hverfi er verið að fara í hönnunarsamkeppni með skóla í hverfi sem enn er ekki til eins og nýtt hverfi í Skerjafirði.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Margir íbúar í norðanverðum Grafarvogi hafa mótmælt þessum breytingum. Það er mikilvægt að koma til móts við þær raddir og finna lausn sem hentar íbúum hverfisins. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum og þessari aðferðafræði sem meirihlutinn notar til að gera hluti sem eru í óþökk fólksins. Þetta er hið ömurlegasta mál. Óskir íbúa, foreldra og barna eru fótum troðnar. Að loka þessum skóla er greinilega löngu ákveðið. Aðferðarfræði meirihlutans þegar taka á óvinsælar ákvarðanir er að vísa hinum umdeildu málum í stýrihópa sem fá ákveðna forsendur til að vinna út frá, forsendur sem yfirvaldið setur. Síðan koma niðurstöður byggðar á þeim forsendum og þá geta valdhafar vísað í niðurstöður  stýrihópsins og með því hafa þeir fjarlægt sjálfa sig frá hinni óvinsælu niðurstöðu og ákvörðun sem tekin er í kjölfarið.  Að skoða öll gögnin í þessu máli er áhugavert. Eitthvað hefur allt þetta ferli kostað. Hver verður eiginlega sparnaðurinn og hver er ávinningurinn. Óánægja fólksins sem eiga hagsmuna að gæta þarna mun yfirskyggja allt. Að ganga  gegn vilja fólks skilar aldrei neinu. Í þessu tilfelli hefði mátt taka unglingana heim í hverfi og halda skólanum opnum enda allt til alls til að reka góðan skóla.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum.

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða leiðréttingu á tillögu matsnefndar vegna umsóknar Leigufélags aldraðra hses. um stofnframlag frá Reykjavíkurborg. R19050037

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Á móti framlagi borgarinnar upp á 203 milljónir króna fær borgin umtalsverðar tekjur af byggingarrétti. Það hefði verið rétt að sú tala lægi fyrir við afgreiðslu þessa máls og er þess óskað að heildartekjur borgarinnar af lóðagjöldum sem eiga að vera a.m.k. 45 þúsund krónur á hvern m2 verði kynntar borgarráði. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Fram fer kynning á mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-ágúst 2019.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19010075

  18. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 12. nóvember 2019, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019. Greinargerðir fylgja tillögunum. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf borgarstjóra. dags. 11. nóvember 2019, þar sem uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er send borgarráði til kynningar. R19110076

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er lögð fram að nýju uppfærð frá fyrra ári. Í nýjum tölum kemur meðal annars fram að fjölgun nýrra íbúða er að eiga sér stað í nær öllum póstnúmerum í Reykjavík og uppbygging íbúða er langmest í Reykjavík af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Það er engin tilviljun enda hefur borgin fylgt húsnæðisáætlun markvisst á undanförnum árum. Íbúðir fyrir almennan markað eru fjöldamargar og á sama tíma sjáum við að stúdentaíbúðum, íbúðum fyrir eldri borgara og íbúðum verkalýðshreyfingarinnar fer hratt fjölgandi. Húsnæðisáætlun er í samræmi við fyrirætlanir borgarinnar í Aðalskipulagi 2010-2030 og er uppbyggingin í miklu samræmi við þróunarás borgarlínu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Enn er mikill skortur á hagstæðu húsnæði á almennum húsnæðismarkaði í Reykjavík og fólk flytur áfram í nágrannasveitarfélög og jaðarkjarna. Eykur þessi þróun enn á samgöngu- og húsnæðisvandann. Fermetraverð nýbygginga er tæplega 380.000 kr. í Árborg en fer varla undir 600.000 kr. í Reykjavík. Dæmi eru um 100% hærra fermetraverð í Reykjavík en í Árborg. Fjölgun í Árborg er hlutfallslega margföld á við íbúaþróun í Reykjavík. Á meðan húsnæðisverð er svona hátt í Reykjavík útilokar það stóran hluta af kaupendamarkaðnum: Venjulegt fólk. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Farið er yfir fjölgun íbúða af öllum tegundum og gerðum og ljóst er að verið er að byggja en engu að síður er langur biðlisti eftir húsnæði af öllu tagi. Þrátt fyrir að Félagsbústaðir (borgin) séu að byggja og fjárfesta meira nú en áður bíða enn um 750 manns eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða 162 og munar aðeins um 10 frá árinu áður. Ekki er langt síðan að 53 einstaklingar biðu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur og 158 bíða eftir varanlegri vistun.  Það vantar 200 hjúkrunarrými. Af hverju vantar svona mörg hjúkrunarrými nú árið 2019? Eftir þjónustuíbúðum bíða 137. Það hversu margir eru á biðlista eftir alls kyns tegundum íbúða þýðir annað hvort að sofið var of lengi á verðinum (lengi lítið byggt)/(farið hægt af stað) og/eða miklar tafir séu á framkvæmdum. Eða eru aðrar skýringar?  Ekki hafa borist nógu skýr svör nema í þá átt að á þessu ári og næsta muni þetta lagast og að saxast hafi á biðlistana o.s.frv. Engin er heldur að tala um að aldrei verði neinir biðlistar. Það er til meðalvegur í þessu eins og öllu. Það er annað að bíða kannski í 2 mánuði eftir húsnæði en 2 ár eða lengur.

    Haraldur Sigurðsson, Svavar Jósefsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12.25 víkur Líf Magneudóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 12. nóvember 2019, vegna fyrirhugaðrar þátttöku forseta borgarstjórnar í ársþingi Eurocities í Prag dagana 20. til 22. nóvember 2019.  R19010048

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum.

    Lagt er til að borgarráð samþykki að endurnýja samstarfssamning Reykjavíkurborgar við RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum til tveggja ára, þ.e. frá 1. desember 2019 til 1. desember 2021 með vísan í hjálagða umsögn mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar. R14020111

    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar samgöngustjóra, dags. 8. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áætlanir um að setja Miklubraut í stokk, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2019. R19090131

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins þakkar svör. Búið var að slá þetta út af borðinu fyrir nokkru en kemur aftur upp á borð í tengslum við borgarlínu. Þessi framkvæmd snertir augljóslega marga þætti. Varla leiða göng til hraðari umferðar eða styttingu umferðartíma, nema að aðrar ráðstafanir verði gerðar, svo sem að bæta umferðarflæði beggja megin við göngin. Verður það hægt? Kostir: Betra flæði innan hverfis, Hlíðar-Mýrar-Kringla-Háaleiti. Gallar: Mikill kostnaður og afleitt ástand í  mjög langan tíma á meðan á framkvæmdum stendur. All margir óvissuþættir eru enn svo sem varða loftgæði og hvert hið mengaða loft fari, hvort það fari upp um loftop og inn í umhverfið. Fleiri spurningar verða settar fram í framhaldsfyrirspurnum.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um námskrá Vinnuskólans, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019.  R19070050

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrirspurnin var lögð fram í ljósi frétta um að börnin í Vinnuskólanum læri að gera kröfuspjöld og fara í kröfugöngur og þess háttar og lék borgarfulltrúa Flokks fólksins því forvitni á að vita hver ákveði hvaða verkefni börnin taka sér fyrir hendur í Vinnuskólanum hverju sinni og hvort verkefnavalið sé borið undir foreldra þeirra? Fram kemur að Vinnuskóli Reykjavíkur ákveði og stýrir því hvaða verkefni eru unnin hvert sumar í samráði við aðrar starfseiningar og starfsstaði borgarinnar sem útvega nemendum skólans störf.  Hvorki verkefni né fræðsluþættir eru bornir undir foreldra. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að það sé góður bragur að því að Vinnuskólinn leggi verkefni og fræðsluþætti undir foreldra. Foreldrar eru ábyrgðaraðilar barna sinna og er mikilvægt að þeir séu vel meðvitaðir og samþykkir þeim verkefnum og  fræðslu sem börn þeirra fá í Vinnuskólanum bara alveg eins og er í grunnskólanum og frístund og tómstundum. Náið samstarf og gott upplýsingaflæði til foreldra er mikilvægt og ekki síst ef kynni að myndast ágreiningur,  óánægja eða einhver vafamál er varða starfsemi eða samskipti við börnin eða foreldrana. Hér er verið að tala um börn undir 18 ára aldri.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í dag hinn 14. nóvember sendu borgarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Örn Þórðarson ítrekun til félagsmálaráðuneytisins að bréfi  þeirra frá 4. júlí með óskum um að því verði svarað . Erindi bréfsins var: Aktívistaaðgerðir Vinnuskóla Reykjavíkur með ólögráða börnum. Óskuðum við eftir að ráðuneytið tæki málið til skoðunar og efnisúrskurðar og myndi skera úr um lögmæti málsins. Vísað var í stjórnsýslulög vegna dráttar á afgreiðslu erindisins.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. nóvember 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um LED-væðingu götulýsingar, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

    Í stjórnkerfisbreytingunum sem komu til framkvæmda þann 1. júní s.l. varð til kjarnasvið þjónustu- og nýsköpunarsvið. Innan þess var sett á fót svokölluð gagnaþjónusta undir stjórn gagnastjóra borgarinnar, sem var eitt af áherslumálum meirihlutans á yfirstandandi kjörtímabili eins og fram kom í meirihlutasáttmála. Eitt af stóru verkefnum gagnþjónustunnar og þar með þjónustu- og nýsköpunarsviðs verður að sjá til þess að gögn borgarinnar verði sótt, samþættuð og geymd í miðlægum gagnagrunni í stað þess að byggja upp marga gagnagrunna eins og verið hefur. Þetta fyrirkomulag gefur kost á mun víðtækari hagnýtingu gagna en ella og er í samræmi við það verklag sem best hefur reynst hjá þeim borgum í alþjóðasamfélaginu sem Reykjavík miðar sig við. Lagt er til að samþykkja að hefja þegar og reyna að flýta eins og hægt er þeirri vinnu við samþættingarlag sem í undirbúningi er á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þetta verði gert með það fyrir augum að sem fyrst megi ná fram auknu hagræði og gagnsæi, meðal annars með því að útvíkka en frekar mælaborð borgarbúa sem opnaði fyrr á þessu ári. Borgarráð styður eindregið að forgangsraðað verði á þá vegu að hagnýting gagna verði sett í háan forgang á komandi misserum. R19070049

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gagnagrunna á öll svið borgarinnar, sbr. 69. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. Einnig er lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 6. nóvember 2019.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

    Í stjórnkerfisbreytingunum sem komu til framkvæmda þann 1. júní s.l. varð til kjarnasvið þjónustu- og nýsköpunarsvið. Innan þess var sett á fót svokölluð gagnaþjónusta undir stjórn gagnastjóra borgarinnar, sem var eitt af áherslumálum meirihlutans á yfirstandandi kjörtímabili eins og fram kom í meirihlutasáttmála. Eitt af stóru verkefnum gagnþjónustunnar og þar með þjónustu- og nýsköpunarsviðs verður að sjá til þess að gögn borgarinnar verði sótt, samþættuð og geymd í miðlægum gagnagrunni í stað þess að byggja upp marga gagnagrunna eins og verið hefur. Þetta fyrirkomulag gefur kost á mun víðtækari hagnýtingu gagna en ella og er í samræmi við það verklag sem best hefur reynst hjá þeim borgum í alþjóðasamfélaginu sem Reykjavík miðar sig við. Lagt er til að samþykkja að hefja þegar og reyna að flýta eins og hægt er þeirri vinnu við samþættingarlag sem í undirbúningi er á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þetta verði gert með það fyrir augum að sem fyrst megi ná fram auknu hagræði og gagnsæi, meðal annars með því að útvíkka en frekar mælaborð borgarbúa sem opnaði fyrr á þessu ári. Borgarráð styður eindregið að forgangsraðað verði á þá vegu að hagnýting gagna verði sett í háan forgang á komandi misserum. R18080134

    Breytingartillagan er samþykkt. 
    Tillagan er samþykkt svo breytt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að tekið sé undir tillögu um upplýsingagagnagrunna. Mikilvægt er að flýta því að bæta stjórnsýslu borgarinnar og flýta rafvæðingu, en þar er mikið verk enn óunnið. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu áfram vinna að bættri stjórnsýslu og nútímavæðingu hennar.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:  

    Inn um lúgur borgarbúa barst í gær litprentaður bæklingur útgefinn af Reykjavíkurborg upp á 55 bls. sem leit út eins og fasteignaauglýsingabæklingur. Bæklingnum var augljóslega ætlað að auglýsa stefnu meirihlutans og fegra og bæta fyrir allt klúður hans í skipulags- og samgöngumálum. Augljóst er að Reykjavíkurborg er komin langt út fyrir hlutverk sitt en það er ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að auglýsa eignir  einstaklinga og fyrirtækja á kostnað útsvarsgreiðenda. Það má því velta fyrir sér af hverju þeir sem eru að selja eldri fasteignir fái þá ekki sambærilega auglýsingu frá útsvarsgreiðendum. Óskað er upplýsinga hvar og hvenær ákvörðun um útgáfu þessa bæklings var tekin? Er eðlilegt að Reykjavíkurborg haldi úti auglýsingabæklingi fyrir fasteignir? Fór gerð bæklingsins og dreifing í útboð? Hvað kostaði hönnun, prentun og dreifing bæklingsins? Hver var heildarkostnaður við vinnslu blaðsins og í hverju fólst hann? R18080190

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  27. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Framhaldsfyrirspurn til Faxaflóahafna varðandi landfyllingu í Laugarnesi og fleira. 1. Svo virðist sem uppfylling gangi inn á verndarsvæði. Óskað er staðfestingar með útreikningum að svo sé ekki. 2. Hefur farið fram rannsókn á áhrifum uppfyllingar á fuglalíf á Skarfaskeri? 3. Hversu stórar byggingar er áætlað að rísi þarna? Hafa verið unnar einhverjar hugmyndir að vinnusvæði/byggingum fyrir Faxaflóahafnir? 4 Í drögum að breyttu aðalskipulagi er bygging vinnusvæðis Faxaflóahafna réttlætt með kolefnaspori dráttarbáta og styttingu leiða þeirra að væntanlegum flutninga- og skemmtiferðaskipum. Er það ekki svo að dráttarbátar byrja að fylgja stórskipum út frá mynni Reykjavíkurhafnar og fylgja þeim svo aftur jafnlangt? Hvers vegna er þá þörf að bátar séu á þessu svæði? Útskýra þarf nánar þá þörf. 5. Eru áætlanir um hluti þessarar uppfyllingar verða hafnarbakki? 6. Óskað er eftir loftmynd af hafnarsvæðinu þar sem verndarsvæðið er sýnt og stærð/umfang/lega nýrrar landfyllingar. 7. Er til hættumat og viðbragðsáætlun á mögulegu slysi/strandi þeirra risaskipa sem venja komur sínar hingað í hundraðatali. 8. Hver er metin umhverfisvá slíks slyss? 9. Er Sundahöfn hugsuð sem framtíðarhöfn fyrir Faxaflóahafnir? 10. Standa yfir viðræður við hafnarstjórn í Þorlákshöfn um að sameina hafnirnar? R19100358

    Vísað til umsagnar stjórnar Faxaflóahafna. 

  28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hver er skilgreining Reykjavíkurborgar á hefðbundnu hringtorgi? 2. Hver er skilgreining Reykjavíkurborgar á óhefðbundnu hringtorgi? 3. Af hverju telur Reykjavíkurborg sig ekki þurfa að fara að lögum þegar kemur að hringtorgum? R19110127

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hvers vegna er spurning um málefni Skerjafarðar, lýsing við göngustíg,  í flokknum Vesturbær, í kosningunni um mitt hverfi? 2. Hvers vegna er spurt um lýsingu við Ægisiðu þegar i raun er verið að tala um Skildinganes, samkvæmt mynd og lýsingu með spurningunni? 3. Hvers vegna er stöðugt verið að spyrja um þetta mál þegar bæði íbúar Vesturbæjar og Skerjafjarðar hafa hafnað henni ítrekað í sömu könnunum? 4. Er vitað hvert kolefnisfótspor er af lýsingu sem þessari? R19110128

    Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

  30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hvað hafa framkvæmdir við Hagatorg kostað til dagsins í dag? 2. Hvað er áætlað þær komi til með að kosta? 3. Hver hannaði breytingu á torginu? 4. Var verkið boðið út? 5. Hvers vegna var torgið ekki hannað samkvæmt lögum? 6. Er áætlað að ryðja breytingunum í burtu vegna ólögmæti þeirra? R19110129

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Reykjavíkurborg greiðir tæpar 100 milljónir í samgögustyrki til starfsmanna, eru greiddir skattar af þessum hlunnindum? 2. Niðurgreiðsla á bílastæðum fyrir embættismenn nemur tæpum 5 milljónum á ári, eru greiddir skattar af þessum hlunnindum? R19110130

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    -    Kl. 12:43 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum.

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá sundurliðaðar upplýsingar um heildarkostnað blaðsins Uppbygging íbúða í borginni sem borið var út í öll hús í borginni í vikunni. Óskað er einnig upplýsinga um kostnað við dreifingu blaðsins. R18080190

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg gefi öllum grunnskólabörnum í Reykjavík endurskinsmerki. Með slíkri gjöf er borgin að stuðla að auknu öryggi barna í umferðinni. Barn  sést  fimm sinnum fyrr þegar það  lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskin. Kostnaður við að gefa grunnskólabörnum borgarinnar endurskinsmerki gæti verið um 25 milljónir og má taka það fjármagn af liðnum „ófyrirséð.“ Öryggi barnanna í umferðinni í borginni ætti að vera efst á forgangslista okkar allra. Öll viljum við leggja okkar af mörkum til að börnin séu sem öruggust nú þegar skammdegi er mest. Skemmtilegt væri ef börn fengju það verkefni að hanna endurskinsmerkið. R19110131

    Frestað.

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borist hafa svör við fyrirspurnum Flokks fólksins sem lúta að Miklubraut í stokk, hvert var markmið skipulagsyfirvalda borgarinnar með að setja Miklubraut í stokk og hvað vinnst með því. Í svarinu segir m.a.: „Með því megi bæta samgöngur allra ferðamáta og draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar á loftgæði og hljóðvist, megi skapa mun betri N-S tengingar milli hverfahluta fyrir um 17 þús. manns sem búa á svæðinu í dag og með því megi þróa byggð á vannýttum veghelgunarsvæðum-fjölga íbúðum og byggja upp atvinnu og þjónustu á eftirsóttum reitum, miðsvæðis í borginni. Aksturinn á að styttast og byggingarmagn gæti orðið yfir 200 þús. fermetrar.“ Í framhaldi af þessu svari vill borgarfulltrúi Flokks  fólksins  spyrja um nokkra frekari óvissuþætti. 1. Varla leiða göng til hraðari umferðar eða stytta umferðartímann, nema að aðrar ráðstafanir verði gerðar. Svo sem að bæta umferðarflæði beggja megin við göngin. Verður það hægt? 2. Spurning um loftgæði: Hvert fer mengaða loftið úr göngunum? Fer það upp um loftop og inn í umhverfið fyrir ofan og heildarloftgæðin haldast þá varla óbreytt? Eða verður mikil mengun inni í göngunum og þá minni fyrir utan? 3. Göngin kosta mikið. Er því fé örugglega vel varið? R19090131

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga um að lækka gjald einstaklingsmiða í strætó til að ná til þeirra farþega sem nýta sér almenningsvagna aðeins endrum og sinnum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill leggja til að hægt verði að kaupa t.d. 10 miða kort sem hefur ótakmarkaðan gildistíma og þar sem miðinn er 150 krónum ódýrari en hann er núna. Þetta er m.a. hugsað sem kynning á leiðakerfi Strætó. Staðan í dag er sú að eitt fargjald kostar 470 krónur og fyrir þann sem vill geta farið með vagninum endrum og sinnum er þetta mjög dýrt.  Þótt keypt sé 20 miða kort er einstaka miði aðeins um 15 krónur ódýrari. Væri gjaldið að minnsta kosti 100 krónum lægra og 150 krónum lægra ef keypt er 20 miða kort með ótakmarkaðan gildistíma er það heilmikill hvati til að nota almenningssamgöngur fyrir þá sem nota þær ekki reglulega. Hér er verið að hugsa til hóps fólks sem öllu jafnan notar einkabílinn en þarf að nýta sér aðrar ferðaleiðir endrum sinnum.  Þessi staða kemur stundum upp hjá fjölskyldum sem eiga einn heimilisbíl.  Væri einstakur miði ódýrari  eða hægt væri að kaupa 20 miða kort þar sem verð einstakra miða væri enn hagstæðari og kortið með ótakmarkaðan gildistíma er þessi hópur fólks líklegri til að nýta sér strætó meira. Þetta má einnig allt eins hugsa sem prufukort eða kynningarkort. Fólk sem notar öllu jafna bíl kaupir sér ekki árskort þar sem það sér ekki fram á að nota það nægjanleg til að það borgi sig. Með því að bjóða ódýrari möguleika eins og hér er lýst er einnig verið að hvetja fólk til að kynna sér kerfið. Líta má á þetta allt eins sem auglýsingu þannig að þessar auknu niðurgreiðslur mætti jafnvel taka af auglýsingafé. R19110132

    Vísað til meðferðar stjórnar Strætó bs.

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurnir frá Flokki fólksins vegna kostnaðar á breytingum á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Í þessu máli liggja orðið mikið magn af gögnum. Talað er um að hafa þetta fyrirkomulag til 10 ára og að hagræðing verði um 2 milljarðar. Þessi breyting er í óþökk við íbúa Staðarhverfis. Sagt er að með þessari breytingu sé mikill ávinningur, fjárhagslegur og faglegur. Flokki fólksins finnst að þegar talað er um ávinning verður að taka afstöðu og líðan fólks með umrædda ákvörðun inn í myndina. Rökin gegn þessum breytingum eru mörg og hafa kannski ekki verið vegin og metin af hlutlausum aðila við rökin sem sögð eru vera með þessum breytingum. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvað undirbúningsferli vegna breytinga á skólahaldi í Grafarvogi hefur kostað? Fjöldi starfsmanna, tíma sem varið er í verkefnið, launakostnaður. Tími og laun við að svara óánægðum íbúum, skeytum, síma og fundir? Kostnað við innleiðingarferlið, innleiðingarhóparnir, tími og laun? Aðkeypt þjónusta, kostnaður vegna aðkeypts verkefnastjóra? Samgöngubætur sem gera þarf í tengslum við þessar breytingar til að börnin komist örugg á milli heimila og skóla? Annað sem ekki er nefnt hér að ofan en tengist breytingarferlinu og undirbúningi þess. R19110090

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Fundi slitið klukkan 12:53

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dagur B. Eggertsson Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir