Borgarráð - Fundur nr. 5564

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 7. nóvember, var haldinn 5564. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:01. Viðstödd voru; Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson og Ívar Vincent Smárason.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagðar fram fundargerðir samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 9. apríl og 29. október 2019. R19010027

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019. R19010022

    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Hér er verið að tala um áætlun til 15 ára sem minnir á að mörg ár eru í borgarlínu. Sjálfssagt er að gera áætlanir en það þýðir ekki að hunsa megi núverandi umferðarvanda sem þyngist með hverjum degi. Segja má að skipulagsyfirvöld hafi misst sig dálítið of langt inn í framtíðina og samhliða gleymt hver staðan er í dag og verður a.m.k. næstu árin. Núna er umferðaröngþveiti mikið á þessu svæði. Skipulagsyfirvöld hafa ekkert reynt að leysa þær. Fjölmargt er hægt að gera strax með því að koma t.d. upp snjallstýringu ljósa. Þetta er ólíðandi aðstæður fyrir alla, ekki síst fyrir þá sem vinna á svæðinu og eru ekki búsettir í nágrenninu. Umferðarteppur menga. Erfitt er að taka afstöðu til fjölmargra hluta tengt þessu máli, samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar enda liggur engin útfærsla fyrir á þessu stigi. Það er sérstakt að þetta vandamál sé ekki ávarpað í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs og samgöngustjóra um fimmtán ára samgönguáætlun og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024 borgarinnar.

    Fylgigögn

  3. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 23. og 30. september 2019. R19010026

    -    Kl. 9.06 taka borgarstjóri og Pétur Ólafsson sæti á fundinum. 

    -    Kl. 9.10 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R19110018

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 10. lið:

    Bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) frá 11. október sl. er áfellisdómur yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í bréfinu kemur fram að ekki var fylgt eftir ábendingum innri endurskoðunar frá árinu 2015 og farið var frjálslega með fjárheimildir m.a. í svokölluðu braggamáli. Í bréfinu kemur fram að verkferlar umhverfis- og skipulagssviðs m.t.t. notkunar fjárheimilda hafi verið ábótavant og að eftirlitsferlar Reykjavíkurborgar hafi brugðist. Svör Reykjavíkurborgar til eftirlitsnefndarinnar, sem send voru 12. júní síðastliðinn teljast ófullnægjandi og segir í niðurlagi bréfsins: „Þar sem að svari Reykjavíkurborgar verður ekki ráðið hvort úrbætur hafi verið gerðar, óskar EFS hér með eftir upplýsingum um hvort verkferlar innri endurskoðunar um tilkynningar og eftirfylgni með úrbótum vegna frávika og verkferla umhverfis og skipulagssviðs með tilliti til notkunar fjárheimilda, hafi verið bættar.“ Það er því ljóst að verkferlar borgarinnar hafi verið í molum en jafnframt eru svör borgarinnar það takmörkuð að eftirlitsnefndinni er í reynd sýnd lítilsvirðing. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Framangreind bókun felur í sér grundvallarmisskilning á erindi eftirlitsnefndarinnar og svörum Reykjavíkurborgar. Eins og fram er tekið í bréfinu sjálfu er tilgangur nefndarinnar ekki að fjalla sérstaklega um efnislegar niðurstöður skýrslunnar heldur nánar tiltekin atriði sem lúta að almennri fjármálastjórn sem laga þarf. Ábendingar nefndarinnar í umræddu bréfi snúa að verklagi innri endurskoðunar, endurskoðunarnefndar og ytri endurskoðenda við eftirfylgni ábendinga eins og skýrt er tekið fram í niðurlagi bréfsins. Í lok erindisins er óskað eftir upplýsingum um hvernig verkferlar innri endurskoðunar hafi verið bættir og verður þeirri viðbótarspurningu að sjálfsögðu svarað af hálfu innri endurskoðunar. Ítarlega hefur verið farið yfir allar þær úrbætur sem gerðar hafa verið í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar á almennri fjármálastjórnun og því er það vindhögg sem slegið er í framangreindri bókun öllum augljóst.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Bréf eftirlitsnefndarinnar er ekki sent að ástæðulausu og skýrir sig sjálf. Borgin hefur ekki svarað spurningum nefndarinnar um úrbætur og er það ámælisvert. Pólítísk gagnbókun breytir ekki þeirri staðreynd. Hún snýst nú samt jörðin.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19110019

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31. október 2019, sbr. samþykkt skipulags og samgönguráðs frá 30. október 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Funafoldar vegna lóðarinnar nr. 42 við Funafold, ásamt fylgiskjölum. R19110014

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. október 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. október 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis, Skarfabakka vegna lóðarinnar nr. 2 við Skarfagarða, ásamt fylgiskjölum. R19100425

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31. október 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. október 2019 á umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við deiliskipulag Stekkjarbakka Þ73, ásamt fylgiskjölum. R19010136

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

    Lagt er til að breyting á deiliskipulagi Þ73 verði send til umsagnar íbúaráða enda er tillagan í þeirri mynd sem hún er núna allt önnur en hún var þegar hún kom til umsagnar hjá þáverandi hverfaráðum. Lagt er til að formanni íbúaráðs Árbæjar, Þorkatli Heiðarssyni, íbúaráðs Breiðholts, Söru Björk Sigurðardóttur og íbúaráðs Háaleitis og Bústaðahverfis, Dóru Magnúsdóttur verði sent beiðni um umsögn hið fyrsta. 

    Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Umsögn skipulagsfulltrúa til Skipulagsstofnunar er samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Margar athugasemdir hafa komið fram varðandi uppbyggingu á atvinnustarfssemi í Elliðaárdal. Ein af þeim er ljósmengun, en Elliðaárdalurinn er skilgreindur sem það svæði sem hefur og á að hafa sem minnsta ljósmengun í skipulagi Reykjavíkurborgar. Í deiliskipulagi fyrir dalinn er gert ráð fyrir að ljósmengun sé ekki umfram E3 skilgreiningu sem þýðir að dalurinn á að vera með minni ljósmengun en önnur svæði í Reykjavík. Sú ákvörðun að setja á fót atvinnustarfssemi og þar að auki stórt gróðurhús gengur þvert gegn skilgreiningu í deiliskipulagi Elliðaárdals.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hæpið er að halda því fram að hér sé verið að að ganga gegn skilgreiningum deiliskipulags dalsins. Hér er ákveðið að fylgja flokki E2 en sá flokkur er viðmið fyrir utanhússlýsingu á dreifbýlissvæðum og að auki er miðað við lægra gildi innan þess flokks, svokallað „post-curfew“ viðmið. Í raun er verið að ganga lengra sem nemur raunverulegum myrkurgæðum í dalnum og stífari kröfur gerðar til ljósmengunar en tíðkast hefur hér á landi.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokksins leggst gegn uppbyggingu Aldin Biodome þar sem fyrirtæki fær vilyrði til uppbyggingar við fallegt náttúrusvæði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er vont til þess að vita að búið sé að auglýsa og samþykkja þessar framkvæmdir áður en búið er að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Er meiningin kannski bara að hunsa þessar athugasemdir? Við lestur bréfs frá Skipulagsstofnun fer ekki á milli mála að heilmiklar efasemdir eru í gangi, sem dæmi er varðar ljósmagn frá væntanlegri gróðurhvelfingu. Hér eru áhyggjur af ljósmengun. Stofnunin mælir með að leitað verði afstöðu Heilbrigðiseftirlits um viðmiðunarmörk vegna umferðarhávaða fyrir þjónustuíbúðir, fyrirkomulag á fráveitulögnum og önnur atriði. Svo margt annað er óljóst í þessu stóra verkefni og má þar nefna hina umdeildu gróðurhvelfingu Aldin Biodome sem byggja á í Elliðaárdalnum á skipulagsreit. Hverjar eru fyrirætlanir með hana er ekki vitað. Hér er óttast enn eina ferðina enn að borgin sé að taka á sig óheyrilegar skuldbindingar. Borgin ætlar að taka á sig 80% kostnaðar en framkvæmdaraðili 20%? Eins vantar að fá staðfest hvað verður um Gilsbakka sem Minjastofnun leggur til að verði verndað en í deiliskipulagi er talað um að íbúðarhúsið sé víkjandi. Flokkur fólksins vill að haft verði raunverulegt samráð við íbúana en ekki látið duga að hafa 1-2 gervisamráðsfundi. Það verður aldrei sátt um nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka nema það fari í íbúakosningu. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. nóvember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna tengingar á sýningarrýmum í Aðalstræti 16 og Aðalstræti 10. R19110021

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31. október 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. október 2019 á nýjum reglum um bílastæði fyrir visthæfar bifreiðar í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R19110017

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eftir því sem visthæfari bílum fjölgar er óhjákvæmilegt að falla þurfi frá sérstökum bílastæðaívilnunum í þeirra garð. Samanburður við aðrar borgir sýnir raunar að slíkar ívilnanir eru heldur fátíðar. Um sinn var þó talið réttast að halda ívilnunum áfram en einskorða þær við þá bíla undir 5 metrum sem ganga að fullu fyrir rafmagni eða vetni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins fagnar allri rýmkun á reglum um heimild til að leggja bifreiðum sem skilgreindar eru visthæfar gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þó ekki sáttur við öll þessi skilyrði sem umvefja þessar reglur, til dæmis að frítt stæði býðst ekki visthæfum bílum ef þeir eru á nagladekkjum. Stundum er það þannig að fólk verður að setja nagladekk undir bíla sína, til dæmis þeir sem búa í efri byggðum þar sem ófærð er oft meiri og einnig þeir sem eru mikið á faraldsfæti út á landsbyggðinni. Bílaleigubílar verða án efa að vera á nagldekkjum. Hér skipta líf og limir öllu máli. Flokkur fólksins lagði fram tillögu þann 6. júní á þessu ári að Reykjavíkurborg rýmki aftur reglur um hvaða bílar teljist vistvænir og þeir sem það teljast geti lagt frítt í gjaldskyld bílastæði í allt að 90 mín. Skipulagsyfirvöld hafa verið allt of lengi að taka við sér í þessum efnum. Sú var tíðin að sparneytnir bílar (bensínbílar) höfðu þessa umbun en hún var síðan tekin af. Það kom á óvart og telur Flokkur fólksins það hafi verið mistök. Hvetja átti fólk fyrir löngu að hugsa í þessa átt þ.e. fyrst að aka vistvænum, sparneytnum bílum og nú visthæfum bílum (metan og rafmagn) og þannig flýta fyrir orkuskiptum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Ekki er verið að rýmka reglur um heimild til að leggja bifreiðum sem skilgreindar eru visthæfar gjaldfrjálst í 90 mín í gjaldskyld stæði. Verið er að herða þær reglur verulega. Eftir gildistöku þessara nýju reglna eru færri bifreiðar sem hafa heimild að leggja gjaldfrjálst í 90 mín en áður voru. Samanburður við aðrar borgir sýnir raunar að slíkar ívilnanir eru heldur fátíðar. Um sinn var þó talið réttast að halda ívilnunum áfram en einskorða þær við þá bíla undir 5 metrum sem ganga að fullu fyrir rafmagni eða vetni. Sá kostnaður sem fellur á samfélagið vegna þeirra sem aka á nagladekkjum er óásættanlegur. Notkun nagladekkja er í langflestum tilvikum óþörf innan þéttbýlis og eykur verulega slit á götum og hefur slæm áhrif á loftgæði. Það þarf að vera sameiginlegt markmið okkar allra að bæta loftgæði í þéttbýli þar sem þau hafa áhrif á lífsgæði allra, sérstaklega aldraða, börn og þau sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Nýr borgarfulltrúi man ef til vill ekki eftir því þegar í gangi voru reglur um að sparneytnir bensnínbílar fengu að leggja frítt í stæði í smá tíma í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins átti slíkan bíl og gat náð í klukku til að setja í framrúðuna. Síðan gerðist það að þessar reglur voru lagðar af. Í gangi hafa verið reglur er varða einungis rafbíla en engar sem snúa að sparneytnum bensínbílum. Svo hér er nú um einhverja rýmkun að ræða sem vissulega hefði mátt vera mikið meiri enda viljum við að bíleigendur geti ekið bíl sínum niðri í bæ og lagt þar með auðveldum og aðgengilegum hætti. Ef borgarmeirihlutanum er í alvöru annt um lungu fólks ætti að byrja á að losa um umferðarhnúta víðsvegar í borginni, til dæmis með því að snjallvæða ljósastýringar svo flæði verði betra. Þá þurfa bílar ekki að hökta í hægagangi með tilheyrandi útblæstri. 



    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. nóvember 2019, ásamt fylgiskjölum.

    Lagt er til að borgarráð samþykki áframhaldandi aðild að verkefninu Nordic Safe Cities með vísan til hjálagðrar tillögu mannréttindastjóra. R19010095

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar öllu samstarfi sem Reykjavík getur átt við aðrar borgir. Hér er um að ræða norrænt samstarf – Nordic Safe Cities. Samstarf sem þetta getur verið bæði gefandi og lærdómsríkt. Flokkur fólksins fagnar því að samskipti eigi að fara að mestu í gegnum fjarfundarbúnað þannig að hér sé því ekki verið að auka útgjaldalið þegar kemur að ferðakostnaði og dagpeningaútgjöldum borgarinnar sem nógu stór er nú þegar. Um er að ræða 2 fundi á ári sem fara þarf á og finnst borgarfulltrúa mikilvægt að á þá fundi fari almennur starfsmaður sem hefur verið að sinna verkefnum í tengslum við verkefnið en ekki yfirmenn.

    Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 1. nóvember 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 21. október 2019 á tillögu um borgarhátíðir Reykjavíkur 2020-2022.

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19110013

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 1. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kröfur vegna veitingu styrkja til skemmtistaða varðandi réttindi starfsfólks, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019.

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19080209

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf velferðasviðs, dags. 29. október 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 23. október 2019 á tillögu að breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. R19100340

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Umræddar reglur veita styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirframgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni eða styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga. Fjárhæðin sem er til ráðstöfunar byggist á fjármagni sem borgarráð ákveður hverju sinni og taka úthlutanir mið af þeirri fjárhæð. Í reglum stendur að ef komi til þess að skerða þurfi úthlutun vegna fjölda umsókna er heimilt að forgangsraða umsóknum. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill benda á mikilvægi þess að styrkir til umsækjenda skerðist ekki ef fjöldi umsókna er meiri en upphæð styrkjapotts gerir ráð fyrir. Það er mikilvægt að upphæðin hækki í stað þess að færri fái styrkjaúthlutun eða þá mögulega lægri styrk. Fulltrúinn tekur einnig undir ábendingu frá aðgengis- og samráðsnefnd sem veltir því upp hvort rétt væri að setja inn í reglurnar ákvæði um að foreldrar fatlaðra barna geti sótt um í sjóðinn fyrir þeirra hönd.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hækka hefði mátt styrkinn um að minnsta kosti 20.000 krónur. Einnig er ítrekað mikilvægi þess sem snýr að 10 gr. að það verði ákveðið hvert verður hámark þess tíma sem áfrýjunarnefndin hefur til að taka ákvörðun og standi þar „Áfrýjunarnefnd velferðarráðs skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er en eigi síðar en 4 vikum eftir að umsókn berst.“ 

    Að segja aðeins „svo fljótt sem unnt er“ finnst fulltrúa Flokks fólksins of opið. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af tilhneigingu meirihlutans til ofurregluvæðingar. Óþarfa gagna/upplýsinga er oft aflað sem kemur afgreiðslu umsóknarinnar lítið við. Létta má á umsóknarferlinu til muna. Einnig er sjálfsagt að úthlutun sé tvisvar á ári í stað einu sinni á ári. Borgarmeirihlutinn á sífellt að reyna að létta undir með fólkinu í borginni í stað þess að þyngja spor þeirra sem sækja um aðstoð en nógu þung eru þau spor, að minnsta kosti fyrir marga.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. nóvember 2019, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar og aðild að samtökum evrópskra heilsuborga eru send borgarráði til kynningar. R19110027

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. nóvember 2019, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um rafvæðingu hafna og eflingu landtenginga í höfnum Faxaflóahafna eru send borgarráði til kynningar. R19100362

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf borgarstjóra. dags. 5. nóvember 2019, þar sem drög að erindisbréfi samráðsnefndar Grænna skrefa Reykjavíkurborgar eru send borgarráði til kynningar. R19100377

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðkomu að göngubrú yfir Breiðholtsbraut, sbr. 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október 2019. R19080207

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið með vangaveltur um notkun brúar í Breiðholti og komst að því að ekki er hægt að komast upp á brúna nema nánast á fjórum fótum ef komið er norðan megin við Breiðholtsbrautina. Það er vont að geta ekki gengið beint upp frá Mjóddinni og upp á brúna. Markmiðið með byggingu svona mannvirkis hlýtur að vera að það sé aðgengilegt frá báðum endum þannig að það nýtist fólki, einnig þeim sem eru með skerta hreyfigetu. Stundum er það þannig að þeir sem fengnir eru til að hanna mannvirki af þessu tagi þekkja ekki nægjanlega vel til aðstæðna og til þess hóps sem á að nota það. Kannski finnst engum það tiltökumál að taka á sig sveigju, komandi frá Mjóddinni og velja leiðina með fram Arnarbakka að norðaustanverðu, þvera Arnarbakka á einum stað til að komast inn á stíginn sem liggur upp að göngubrúnni sem hér um ræðir. En þetta er sú leið sem fólk þarf að fara samkvæmt svari til að komast upp á brúna, komi fólk frá Mjóddinni. Það virkar kannski einfalt í orðum en er það reyndin?

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 5. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu straumlínustjórnunar, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019. R19080208

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta svar koma mjög seint. Fyrirspurnin var lögð fram í ágúst. Flokkur fólksins fagnar því að Lean hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. Ekki er þar með sagt að Lean kunni ekki að henta einstaka starfsstöðvum en umrædd aðferðaræði er mjög dýr og og hentar engan vegin alls staðar eins og gengur. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst eins og hér sé um ákveðna tískusveiflu að ræða að mörgu leyti. Borgin þarf að varast að gleypa ekki alla strauma og stefnur sem renna fram hjá jafnvel þótt þær hafi verið rannsakaðar og sýnt að virki vel við ákveðna aðstæður. Mannauður borgarinnar er mikill og sérfræðiþekking að sama skapi. Hægt er að reka deild, svið, skrifstofu farsællega með góðan stjórnanda sem hefur góðan stjórnunarstíl án þess að innleiða milljóna aðferðafræði. Treysta þarf fólki t.d. yfirmönnum til að stýra sínum deildum af fagmennsku og alúð án þess að þurfi að fjárfesta endilega í aðkeyptri aðferðarfræði. Oft þarf einfaldlega ekki að leita langt yfir skammt til að finna réttu verkfærin í verkefnastjórnun borgarinnar.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar borgarritara, dags. 5. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um notkun fjarfundabúnaðar til að fækka utanlandsferðum, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september 2019. R19090305

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mikilvægt að allir fundir, fjarfundir sem og aðrir fundir séu skráðir hjá borginni. Öðruvísi er ekki nokkur leið að hafa heildarsýn á samskiptum borgarstarfsmanna innbyrðis eða út á við ( innanlands eða erlendis) og kostnað í sambandi við það. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er að reyna að átta sig á hvort notkun fjarfunda er að aukast og mögulega spara borginni fjölda utanlandsferða. Fram kemur í svari að ekki séu teknar saman upplýsingar um fjölda fjarfunda og því ekki unnt að svara spurningunni. Ef fundir af öllu tagi eru ekki skráðir hvernig á þá að vera hægt að átta sig á hvort fjarfundir eru yfir höfuð að koma í staðin fyrir fundarferðir erlendis? Þar sem svarið er ófullnægjandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins reyna að snúa spurningunni við og spyrja þá frekar um fjölda ferða erlendis, hversu margir, hverjir og í hvaða tilgangi voru farnar ferðir erlendis.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar Faxaflóahafna, dags. 4. nóvember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um landfyllingu austan Laugarness sem teygir sig út í Skarfaklett, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. október 2019. R19100358

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 31. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hvert heimilislausir geta leitað ef Gistiskýlið og Konukot er fullt, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október 2019. R19100272

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 5. nóvember 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðbrögð við lokunum rekstraraðila í miðborginni, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019. R19080079

    Fylgigögn

  24. Lögð fram umsögn Félagsbústaða, dags. 28. október 2019, við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fulltrúi leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins á Lindargötu 57-66, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019. R19070156

    Tillögunni er vísað frá. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Borgarmeirihlutinn hefur hvorki kjark né þor til að bera tillöguna upp til atkvæða. Allt er þetta sérkennilegt þar sem formaður velferðarráðs, sem sæti á í borgarráði á einnig sæti í stjórn Félagsbústaða svo hæg ættu nú heimatökin að vera. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að fulltrúi leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins á Lindargötu 57-66. Borist hefur umsögn frá Félagsbústöðum. Í svari segir að rétt sé að beina tillögunni til stjórnar húsfélagsins á Lindargötu. Þetta svar kemur reyndar einnig á óvart þar sem á fundi síðasta húsfélags stýrði framkvæmdarstjóri Félagsbústaðar fundi sem borgarfulltrúa finnst hljóti að vera merki um hvar valdið liggur. Minna skal á að Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar. Í húsfélögum þar sem langflestar íbúðir eru í eigu Félagsbústaða eða eins og í þessu tilfelli 81 íbúð á meðan aðeins 13 eru í einkaeigu er enginn fulltrúi leigjenda en fulltrúi þeirra 13 sem eiga íbúð í einkaeigu, eiga sinn fulltrúa í stjórn. Það væri eðlilegur ferill og sanngirnismál að Félagsbústaðir tryggi fulltrúa leigjenda 81 íbúða Félagsbústaða setu í stjórn. Það ætti að vera metnaður að sýna leigjendum Félagsbústaða þá virðingu að bjóða þeim sæti í stjórnum húsfélaga. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Málefni húsfélaga heyra ekki undir borgarráð heldur lúta lögum um fjöleignahús. Aðild að stjórn húsfélags skv. lögum eiga eigendur, ekki leigjendur þótt stjórn geti heimilað þeim setu á fundum ef málefni varða sérstaklega þeirra hagi en án atkvæðisréttar og málfrelsis. Á þeim grunni er tillögu áheyrnarfulltrúans vísað frá.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram umsögn Félagsbústaða, dags. 28. október 2019, við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun húsfélaga í fjölbýlishúsum í eigu Félagsbústaða, sbr. 52 .lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019. R19070157

    Tillögunni er vísað frá.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að stofnuð verði húsfélög í fjölbýlishúsum í eign Félagsbústaða. Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Borgarmeirihlutinn hefur ekki þor né kjark til að bera tillöguna upp til atkvæða. Allt er þetta sérkennilegt þar sem formaður velferðarráðs, sem sæti á í borgarráði á einnig sæti í stjórn Félagsbústaða svo hæg ættu nú heimatökin að vera. Í svari eða umsögn segir að verið sé að skoða að auka áhrif og samstarf við leigjendur og sé það í skoðun hjá undirbúningsnefnd. Það er jákvætt. Með stofnun húsfélags þar sem leigjendur eiga sæti getur sá fulltrúi gætt hagsmuna leigjenda í stjórn húsfélagsins. En fyrsta skrefið er vissulega að stofna húsfélagið. Það er ekki aðeins lýðræðislegt heldur einnig sanngjarnt að stofnuð verði húsfélög og að fulltrúi leigjenda eigi þar sæti til að tryggja enn frekar að rödd leigjenda heyrist. Þetta er ein helsta leiðin til að tryggja aðkomu leigjenda að málefnum íbúðanna s.s. nauðsynlegs viðhalds þeirra og tryggja aðkomu, þátttöku og áhrif þeirra á málefnum sem snúa að íbúðunum og sameigninni almennt séð.  Þetta er líka leið til að sýna að Félagsbústaðir sem fyrirtæki borgarinnar sýni leigjendum tilhlýðilega virðingu og traust. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Félagsbústaðir leita sífellt við að auka samstarf og samráð við leigjendur við úrlausn verkefna. Ein leið til þess að auka samstarfið og auka áhrif leigjenda í málefnum sem að þeim snúa er að koma á fót íbúafélögum í fjölbýlishúsum sem alfarið eru í eigu Félagsbústaða. Sú hugmynd hefur þegar verið kynnt og rædd á íbúafundi í einu húsanna. Á fundinum var skipuð þriggja manna undirbúningsnefnd sem fékk það hlutverk að skilgreina nánar tilgang, hlutverk og umgjörð íbúafélags og leggja fyrir íbúafund. Eins og fram kemur í svari Félagsbústaða leggur fyrirtækið áherslu á að eiga góð samskipti við leigjendur og leysa farsællega úr þeim erindum sem berast. Félagsbústaðir hafa umsjón með um 2.700 leigueiningum og eðlilega berast ýmsar ábendingar frá íbúum um ástand íbúðanna og þörf á viðgerðum. Við öllum erindum er brugðist og þau sett í viðeigandi farveg. Þegar um er að ræða leka eða grun um að húsnæði geti verið heilsuspillandi eru mál sett í forgang.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður tillögu Flokks fólksins um stofnun húsfélaga í fjölbýlishúsum í eigu Félagsbústaða. Í undirbúningi og við stofnun slíkra félaga er mikilvægt að velferðarsvið og/eða Félagsbústaðir séu til staðar til að veita stuðning fyrir þá aðila sem hafa áhuga á að stofna til slíkra félaga og þurfa mögulega á stuðningi og ráðgjöf á að halda við stofnun slíkra húsfélaga.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. nóvember 2019, um skuldabréfaútboð Félagsbústaða. Greinargerð fylgir tillögunni. R19100128

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er eðlilegt og viðbúið að tekin séu lán þegar verið er að fjárfesta í íbúðum. Fjölgun íbúða á vegum Félagsbústaða er einnig brýn. Fagna ber þeim góðu kjörum sem fást í þessu skuldabréfaútboði Félagsbústaða, 1.9% verðtryggða vexti, sem nýtast bæði til þessara mikilvægu fjárfestinga en einnig til að að greiða upp eldri og óhagstæðari lán. Kjörin endurspegla traust markaðins á Félagsbústöðum og fjármálum Reykjavíkurborgar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma það að Reykjavíkurborg sé að ganga í nýja 6,4 milljarða ábyrgð vegna Félagsbústaða. Nú er búið að veðsetja framtíðarskattekjur borgarinnar vegna dótturfélaga fyrir meira en eitt hundrað milljarða. Skuldir Félagsbústaða fara nú yfir 50 milljarða og uxu um 48% á fjórum árum. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn er verið að taka veð í framtíðarútsvari Reykvíkinga og nú upp á tæpan 6.5 milljarð. Nú er trimmað upp að útboðið hafi verið á svo hagstæðum kjörum og að hluta af upphæðinni eigi að nota til að greiða upp óhagstæð lán hjá Félagsbústöðum. Samkvæmt málefnasamningi meirihluta borgarstjórnar og samþykktum velferðarráðs er gert ráð fyrir að félagslegum leiguíbúðum fjölgi um 600 á kjörtímabilinu 2018-2022. Áætlað er að helmingur upphæðarinnar nú fari í kaup á nýjum íbúðum. Óskiljanlegt er að Félagsbústaðir skoði ekki að gera leigusamninga við leigufélög í stað þess að standa í uppkaupum á íbúðum í samkeppni við íbúðakaupendur í Reykjavík. Markmið Félagsbústaða hlýtur alltaf að vera til framtíðar litið að fólk festist ekki í kerfinu. Félagsbústaðir skapa afar neikvæðan hvata og stefna félagsins vinnur á móti því markmiði að allir geti keypt sér húsnæði með stórfelldum uppkaupum á íbúðum í Reykjavík.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði leggja til að gjaldskrám skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, fyrir leikskóla annars vegar og frístundaheimili og félagsmiðstöðvar hins vegar, verði breytt með þeim hætti að reglur um systkinaafslátt taki einnig til fjölskyldna þar sem systkini hafa sitthvort lögheimilið.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110062

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um hversu mörg LED auglýsingaskilti er verið að setja upp í borgarlandinu en búið er að koma fyrir einu slíku skilti við Strandveg í Grafarvogi. Athygli vekur að skiltið er staðsett við gönguþverun fyrir gangandi vegfarendur. Það liggur í hlutarins eðli að skiltið skapar mikla hættu, enda er markmiðið að það fangi athygli vegfarenda á ökutækjum. Óskað er eftir upplýsingum um hvar þessi nýju auglýsingaskilti eru staðsett í borgarlandinu og hvort að þessar staðsetningar hafi verið kynntar fyrir íbúum í nærumhverfi þeirra, hvar þau eru staðsett. Þá er jafnframt óskað eftir upplýsingum um hvort auglýsingaskilti þessi séu undanþegin og/eða samrýmast samþykkt um skilti í Reykjavík en í drögum að samþykktinni segir „að til þess að koma í veg fyrir að skilti ógni öryggi vegfarenda eru ákvæði um fjarlægðir skilta frá gatnamótum og vegbrúnum, tíðni skiptinga á myndum, hámarks ljóma skiltis og fleira.“ Þá segir jafnframt í samþykktinni að skilti „sem eru undanþegin reglum þessum skulu engu að síður taka mið af ákvæðum reglanna varðandi birtustig, öryggi og staðsetningu.“ R19110056

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Hver er áætlaður heildarkostnaður við torg við Óðinsgötu að meðtöldum hitalögnum umhverfis það og kostnaði vegna fornleifa sem fundist hafa? Verkinu átti samkvæmt útboðs- og verklýsingu að vera að fullu lokið 1. nóvember en ljóst er að þær áætlanir standast ekki. R19110057

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Óskað er eftir yfirliti um alla þá skipulagða menningarstarfsemi sem nær gjaldfrjálst til barna og ungmenna í gegnum leik- og grunnskólaferðir borgarinnar á starfstöðvar menningar- og ferðamálasviðs, líkt og á söfn borgarinnar. Ef hægt er þá er óskað eftir upplýsingum frá árinu 2018 og það sem af er árið 2019. Þá er einnig óskað eftir upplýsingum um hvort að börn og ungmenni þurfi sjálf að koma sér á staðinn eða hvort að skólarnir komi nemendum til og frá starfstöðvum menningar- og ferðamálasviðs? Þurfa nemendur að mæta með nesti eða fá þeir mat á staðnum ef heimsóknirnar á staðina eru langir? R19110063

    Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Á hvaða grunni er sú ákvörðun byggð að hækka verð á heitu vatni um 97% þann 1. janúar næstkomandi til gróðrastöðvarinnar Lambhaga eða úr 37 kr. upp í 120 kr. fyrir rúmmetrann?

    2. Telur Reykjavíkurborg í ljósi umhverfisumræðu að garðyrkjustöðin setji upp kyndistöð sem kemur til með að brenna timburkurl, kolum og plasti eins og gert er í Noregi og Danmörku?

    3. Hefur Orkuveitan látið gera úttekt á því hvort þessi hækkun standist lög sbr. hækkun á kaldavatnsgjaldi sem var úrskurðað ólöglegt gjald árið 2013?

    4.Stendur einnig til að hækka verð á heitu vatni um 97% þann 1. janúar n.k. til annarra fyrirtækja og heimila á gjaldsvæði Orkuveitunnar? R19110059

    Vísað til umsagnar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Á hvaða grunni telja Félagsbústaðir það nauðsynlegt að kaupa/eiga allt húsnæði sem er á þeirra vegum með tilheyrandi viðhaldskostnaði?

    2. Hefur verið gerð úttekt á því hvort sé hagstæðara að leigja húsnæði af leigufélögum í stað þess að eiga allt húsnæði? 

    3. Hver er viðhaldskostnaður íbúða í eigu Félagsbústaða árið 2015, 2016, 2017, 2018 og það sem af er ársins 2019?

    4. Er viðhaldið boðið út til að fá hagstæðasta verðið? R19110060

    Vísað til umsagnar stjórnar Félagsbústaða.

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Komið hefur fram á fundi borgarráðs að Strætó bs. eigi ekki öll biðskýli í Reykjavík.

    1. Hvað á Strætó bs. mörg biðskýli í borginni?

    2. Hvað eiga aðrir aðilar mörg biðskýli í borginni?

    3. Komið hefur fram að Strætó eigi þau strætóskýli sem hafa ekki auglýsingagildi en útboð fór fram sem enginn tók þátt í. Innkauparáð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að veita umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar heimild til þess að ganga til samninga við Dengsa ehf um rekstur biðskýla borgarinnar rétt fyrir kosningar. Vitnað er í að samþykkt borgarráðs liggi fyrir eftir heimild innkauparáðs.

    4. Á hvaða fundi borgarráðs var þetta samþykkt?

    5. Dengsi ehf. sem er í eigu Billboard hefur tekið yfir rekstur biðskýla sem hafa „auglýsingagildi“ og rekur stóru ljósaskiltin sem víða er verið að setja upp í borginni. Þar með virðist vera komin einokun á öll ljósaskilti í Reykjavík, án útboðs með samningi við einn aðila til 15 ára.

    6. Reykjavíkurborg hefur gert samning til 15 ára í stað þess að fara í nýtt útboð. Hvað kostar samningurinn á ári og á 15 ára grundvelli fyrir Reykjavíkurborg/Strætó bs?

    7. Hver kostar uppsetningu auglýsingaskilta/ljósaskilta sem verið er að setja upp í borginni?

    8. Hvað kostar að setja upp hvert skilti?

    9. Kemur Orkuveita Reykjavíkur, eða önnur fyrirtæki borgarinnar að kostnaði við uppsetningu skiltanna?

    10. Hvaða reglur gilda hjá borginni um uppsetningu ljósaskilta. Voru drög að slíku samkvæmt tillögum vinnuhóps borgarinnar frá því í febrúar 2019 samþykkt sem gildandi reglur og eru þessar uppsetningar núna í samræmi við þær? R19110061

    Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Þar sem ekki var hægt að svara fyrirspurninni um fjölda fjarfunda sem mögulega voru að koma í staðinn fyrir ferðir á fundi erlendis er spurt um fjölda ferða erlendis á vegum borgarinnar síðastliðin 2 ár? Hversu margir starfsmenn, embættismenn og borgarfulltrúar hafa sótt fundi erlendis síðastliðin 2 ár og í hvaða tilgangi voru þeir fundir? Fjarfundir eru ekki skráðir en ferðir á fundi erlendis eru vissulega skráðar. Óskað er sundurliðunar eftir störfum (embættismenn, yfirmenn, borgarfulltrúar, aðrir), eftir sviðum, deildum, skrifstofum og eftir tegund og eðli funda, lengd ferðar og fleira sem þessu viðkemur. Gott er að fá upplýsingar um meðaltal ferða og loks sundurliðunar kostnaðar svo og hvers vegna ekki var notast við fjarfundabúnað frekar en að taka ferðina á hendur? R19090305

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldinu af svari umhverfis- og skipulagssviðs um hversu mikið þessi brú er notuð? Komandi frá Mjódd þarf að taka sveigju inn í Arnarbakkann og ganga með fram honum og þaðan inn á stíg til að komast að brúnni. Er talning í gangi? Hafa íbúar Breiðholts verið spurðir hvernig brúin nýtist þeim og hvort þeir séu ánægðir með hana? Þetta er mikilvægt því það er ekki góð hugsun að verið sé að setja milljónir í brúarmannvirki sem ekki er notað nema af litlum hópi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er einnig að reyna að átta sig á hversu vel heppnað mannvirki hin nýja Breiðholtsbrú almennt séð er. Brúin er e.t.v. ekki á réttum stað, ekki nægjanlega vel hugsuð? Vissulega nota einhverjir þessa brú en eru undirgöngin neðar kannski meira notuð? R19080207

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að brugðist verði við breyttum lögum frá því í sumar um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar, með því að breyta viðmiðum sínum til þess að húsnæðisstuðningur Félagsbústaða til örorkulífeyrisþega lækki ekki eins og nú hefur verið gert og hefur leitt til þess að leiga fjölmargra öryrkja hefur hækkað umtalsvert. 65% af tekjum örorkuþega hafa nú áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Breytingar gilda frá áramótum en voru lögfestar á miðju ári og því fengu öryrkjar leiðréttinguna greidda afturvirkt 1. ágúst síðastliðinn. Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum hafa þurrkast út í mörgum tilfellum vegna þess að Félagsbústaðir skerða húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna. Við þessu hefur borgarmeirihlutinn og velferðarráð ekki brugðist. Það hefur því gerst að Félagsbústaðir hafa lækkað sérstakan húsnæðisstuðning hjá öryrkjum sem fengu þessa leiðréttingu bóta og er því fólk að borga mun hærri leigu. R19110065

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Fundi slitið klukkan 10:51

Líf Magneudóttir Skúli Helgason

Pawel Bartoszek Hildur Björnsdóttir