Borgarráð - Fundur nr. 5562

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 31. október, var haldinn 5562. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 08:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Halldóra Káradóttir, Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 17. október 2019. R19060011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst aðgengismál fatlaðra enn í nokkrum ólestri í Reykjavík og ekki er því neitt undarlegt að merkingar eru ekki sérlega góðar þegar aðgengi er ábótavant eins og raun ber vitni. Tillaga um samræmingu er góð svo langt sem hún nær. Í forgangi skal vera að gera aðgengi fatlaðra ekki einungis viðunandi heldur fullnægjandi. Fatlað fólk á að hafa sömu réttindi og ófatlaðir sem þýðir að fatlaðir eiga að hafa aðgengi að sömu stöðum og ófatlaðir. Setja þarf málaflokkinn sjálfan í mun meiri forgang en verið hefur. Árlega er veitt í málaflokkinn 69 milljónum sem nær afar skammt þegar á heildarvandann er litið. Þessa upphæð þarf að hækka verulega til að hægt sé að gera átak í aðgengismálum. Borgin þarf einnig að gera kröfur til stofnanna og fyrirtækja í borginni að hafa aðgengismál í lagi. Sé svo ekki, þarf að koma til hvatning af einhverju tagi og jafnvel einhvers konar þrýstingur. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Aukin lífsgæði fyrir fatlað fólk og betra aðgengi með algildri hönnun að leiðarljósi er forgangsmál. Aðgengi fyrir alla er lýðræðismál og mannréttindamál. 69 m.kr. eru ekki einu fjármunirnir sem settir eru í aðgengismál, heldur þeir sem aðgengis- og samráðsnefndin hefur yfir að ráða með eigin frumkvæði. Að sjálfsögðu er hugað að aðgengi við venjulegt viðhald og við uppbyggingu og framkvæmdir almennt. Miklar aðgengisúrbætur hafa verið framkvæmdar undanfarin ár og enn frekari úrbætur eru fyrirhugaðar á kjörtímabilinu, þær umfangsmestu er stóraukið aðgengi að fyrirtækjum, verslunum og þjónustu á Laugaveginum samhliða opnun Laugavegar fyrir gangandi og hjólandi. Þar verður Laugaveginum lyft og rampar settir framan við verslanir. Að auki verður bílastæðum fyrir fatlað fólk fjölgað við hliðargötur. Þar að auki er unnið að því að kaupa inn fyrstu sundlaugarrennibrautina sem hefur fullt aðgengi með lyftu. Einnig eru í skoðun úrbætur hvað varðar aðgengi fólks með sjónskerðingu að upplýsingum hjá borginni. Þetta eru örfá dæmi. Jafnframt er verið að taka fyrstu skref við að stórauka samráð við fatlað fólk við alla þjónustumótun og öll mál er varða fatlað fólk með nýrri aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 21. október 2019. R19010035

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 24. október 2019. R19010016

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði hafa óskað eftir skýringum á því að enn hafa ekki verið lagðar fram né kynntar nýjar samþykktir fyrir innkauparáð en nú eru liðnir 245 dagar síðan samþykkt var í borgarstjórn eða 19. febrúar 2019 að efla ráðið, auka eftirlitshlutverk þess og fjölga fulltrúum í fimm. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Unnið er að endurskoðun á samþykkt ráðsins í samræmi við ákvarðanir borgarstjórnar og í tengslum við þá endurskoðun á stjórnskipulagi Reykjavíkurborgar sem nú er í gangi. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu fyrir áramót í samræmi við upphaflega áætlun.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 14. október 2019. R19010037

    Fylgigögn

  5. Lagðar fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 23. og 30. október 2019. R19010022

    B-hlutar fundargerðanna eru samþykktir.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar frá 23. október og 1. lið fundargerðarinnar frá 30. október:

    Undir 14. lið frá 23. október: Borgarráðsfulltrúarnir ítreka þá skoðun sína að þörf er á úttekt á framboði og eftirspurn þjónustu- og verslunarrýma í borginni. Á sama tíma og heldur dregur saman í rekstri er framboð rýma á jarðhæð að aukast hratt. Þörf er fyrir talningu á rýmum á jarðhæð og endurmeta þarf núverandi stefnu með hliðsjón af breyttum aðstæðum. Undir 1. lið frá 30. október: Margar athugasemdir hafa komið fram varðandi uppbyggingu á atvinnustarfssemi í Elliðaárdal. Ein af þeim er ljósmengun, en Elliðaárdalurinn er skilgreindur sem það svæði sem hefur og á að hafa sem minnsta ljósmengun í skipulagi Reykjavíkurborgar. Í deiliskipulagi fyrir dalinn er gert ráð fyrir að ljósmengun sé ekki umfram E3 skilgreiningu sem þýðir að dalurinn á að vera með minni ljósmengun en önnur svæði í Reykjavík. Sú ákvörðun að setja á fót atvinnustarfssemi og þar að auki stórt gróðurhús gengur þvert gegn skilgreiningu í deiliskipulagi Elliðaárdals. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 30. október: 

    Það er ekkert annað en skipulagslegt hneyksli að borgin ætli ekki að taka tillit til þeirra ábendinga sem bárust frá Skipulagsstofnun hinn 11. september s.l. hvað varðar heimilað ljósmagn, viðmiðunarmörk fyrir umferðarhávaða, fyrirkomulag á fráveitulögnum og önnur þau atriði sem finna má í erindi stofnunarinnar. Mikil andstaða er við þessa uppbyggingu og mörgum spurningum ósvarað. Uppskriftin er sú sama eins og í öðrum umdeildum verkefnum og alveg ljóst að borgin verður einungis stoppuð í þessum framkvæmdum með málsókn aðilum máls/íbúa sem telja á sér brotið. Framkvæmdin er af þeirri stærðargráðu og veldur svo miklu umhverfislegu tjóni að það er afar rökrétt að lengra verði ekki haldið fyrr en umhverfismat verði gert á áhrifum hennar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 25. og 27. lið fundargerðarinnar frá 30. október: 

    Undir 25. lið: Þessar framkvæmdir við Hverfisgötu eru harmsaga. Þarna hafa rekstraraðilar borið skaða af. Gagnvart þessum hópi hefur svo gróflega verið brotið þegar kemur að loforði um samráð. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur sínar eigin skilgreiningar sem hafa ekkert að gera við samráð í þeim skilningi. Framkvæmdir á Hverfisgötu hafa aldrei verið unnar með rekstraraðilum þar. Þeir fá ekki einu sinni almennilegar upplýsingar. Þessu fólki hefur aldrei verið boðið að sjálfu ákvörðunarborðinu. Það er ekki að undra að fólk sé svekkt þegar á því er traðkað og yfir það valtað með þessum hætti. Þetta er þeirra upplifun. Undir 27. lið: Ekki hefur neitt frekar verið haft samráð við íbúa í Staðahverfi. Foreldrar hafa lagt fram tillögur sem fela í sér að halda skólanum opnum en ekki er hlustað. Þessi meirihluti hefur haft nokkur ár til að komast að því hvaða samgöngubætur á að bjóða fólki upp á þarna. Ljóst er að ef keyra á þetta í gegn í svo mikilli óþökk og óánægju mun það draga dilk á eftir sér. Hér er enginn sparnaður heldur mun óánægja yfirskyggja allt. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að endurskoða málið frá grunni. Þarna verður aldrei sátt. Fólki finnst þetta valdníðsla og kúgun. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Undir 25. lið: Framkvæmdir við Hverfisgötu stóðust ekki upphaflegar tímaáætlanir en þá var gert ráð fyrir að hleypa bílaumferð á götuna í lok ágústmánaðar en minni framkvæmdir og frágangur fyrir gangandi og hjólandi myndi ljúka í septembermánuði. Tafir hafa orðið á opnun götunnar og hefur það gert rekstraraðilum erfitt fyrir. Það er skiljanlegt að umfangsmiklar framkvæmdir geti haft áhrif á rekstur og mikilvægt að tímaáætlanir verktaka standist. Hinsvegar er þessi fjárfesting hluti af endurgerð Hverfisgötu sem felur í sér umfangsmikla uppbyggingu íbúða með verslun og þjónustu á jarðhæðum. Gamla Hverfisgata var ekki til mikillar prýði á meðan nýja Hverfisgata verður það sannarlega. Gert er ráð fyrir að neðsti og þar með síðasti hluti götunnar niður að Hafnartorgi verði tekin í gegn í kjölfar þess að framkvæmdum ljúki við stjórnarráðið. Undir 27 lið: Bókun fulltrúans um samráðsleysi og samgöngubætur er sett undir tillögu Sjálfstæðisflokksins um að borgin fari í aðal- og deiliskipulagsbreytingar í þeim tilgangi að fjölga íbúðum í hverfinu og þar með börnum. Þjónustubreytingar á skólaþjónustu í norðanverðum Grafarvogi eru í umsagnarferli og munu rata á borð skóla- og frístundaráðs og borgarráðs að því loknu.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 7. október 2019. R19010036

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins lagði 28. júní 2018 tillögu fyrir borgarráð um skipun hagsmunafulltrúa fyrir aldraða sem skoða ætti málefni þeirra ofan í kjölinn og halda utan um hagsmuni, aðhlynningu og aðbúnað. Hann á að kortleggja hver staðan er í húsnæðismálum, heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi til að fá heildarsýn á mál eldri borgara. Hagsmunafulltrúinn á að fylgja málum vel eftir þannig að þau séu örugglega afgreidd og unnin á fullnægjandi hátt. Tillögunni var vísað til velferðarráðs. Að fenginni umsögn öldungaráðs Reykjavíkur sem var neikvæð var tillagan felld. Í lok árs 2018 biðu 53 einstaklingar á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu sem myndar eitt heilbrigðisumdæmi, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur. Á annan tug biðu eftir heimahjúkrun. Staðan er nú verri. Nú bíða t.d. 158 eftir varanlegri vistun og margir komast ekki heim af spítala vegna manneklu í heimaþjónustu. Öldungaráðið segir í umsögn að nú þegar sé verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi sé umboðsmaður borgarbúa og því ekki þörf á hagsmunafulltrúa fyrir aldraða. Fréttir berast af eldri borgurum í neyð. Sá „þjónustufulltrúi“ sem meirihlutinn leggur til að verði ráðinn kemur ekki í staðinn fyrir „hagsmunafulltrúa“ enda sinnir sá fyrrnefndi aðeins upplýsingamiðlun.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Meirihluti borgarstjórnar tekur undir að þörf er á fleiri hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en ábyrgð á uppbyggingu þeirra er fyrst og fremst ríkisins sem ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu. Hagsmunafulltrúi aldraðra skipaður af Reykjavíkurborg gæti því lítil áhrif haft á þá stöðu. Hinsvegar er mikilvægt að upplýsa íbúa um þá þjónustu sem þeim býðst og styrkja þá margvíslegu þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir eldri borgurum í samræmi við stefnu í málefnum eldri borgara fram til ársins 2022 sem byggir á áherslum velferðarráðs um nýsköpun, notendasamráð, heilsueflingu, velferðartækni, forvarnir og endurhæfingu í daglegu lífi.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R19090357

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19090360

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. október 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að selja byggingarétt á lóðum á Esjumelum með útboðsfyrirkomulagi. R19060105

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. október 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Urðarbrunni 98. R19090062

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagðar fram tillögur staðgengils borgarstjóra, dags. 28. október 2019, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar árið 2019. Greinargerðir fylgja tillögunum. R19010200

    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 1. október 2019, þar sem óskað er staðfestingu borgarráðs á samþykkt stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um uppskiptingu Orku náttúrunnar og stofnun opinbers hlutafélags, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R19100136

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með því að skipta Orku náttúrunnar upp í Orku náttúrunnar ohf. og ON Power ohf. er verið að lágmarka gengisáhættu, auka gagnsæi og gefa skýra mynd af gjaldeyriseignum samstæðunnar. Samkvæmt áformum Orkuveitu Reykjavíkur myndi Orka náttúrunnar ohf. sjá um framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í Andakílsárvirkjun og Nesjavallavirkjun og bæði sjá um kaup og sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja á almennum markaði en einnig á heildsölumarkaði. Þá mun rekstur varaaflstöðva, rekstur götulýsingar ásamt rekstri hleðslustöðva og rekstur jarðhitasýningar vera innan Orku náttúrunnar ohf. Verkefni og starfsemi ON Power ohf. myndi felast í framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í Hellisheiðarvirkjun. Kaup og sölu á rafmagni á heildsölumarkaði ásamt því að sala á rafmagni til stórnotenda í erlendum gjaldmiðli myndi heyra undir starfsemina. Þá væri Jarðhitagarður hluti af starfsemi ON Power ohf.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Verið er að OHF-a erlendan rekstur Orku náttúrunnar og erlendar skuldir og tekjur færðar yfir í það félag. Erlendar tekjur á ári eru afar litlar og þarf 10 ár að greiða upp erlendar skuldir miðað við tekjur. Hér er því um nýtt afar skuldsett félag að ræða. Óskiljanlegt er að Orkuveita Reykjavíkur hafi yfir höfuð tekið svo mikil erlend lán þegar tekjurnar eru í íslenskum krónum. Boðað er að sama stjórn siti í nýju OHF félagi og situr í stjórn Orku náttúrunnar. Má því segja að nokkurskonar skúffufélag sé hér á ferðinni. Það liggur í augum uppi að þessi snúningur á eftir að hafa mikinn kostnaðarauka í för með sér þegar skipurit nýs félags verður kynnt með nýjum „stjórum“. Þessi uppskipting er áhættusöm og fjárhagslegur styrkleiki til að takast á við sveiflur í afkomu minnkar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Samkvæmt skilgreiningu þá er skúffufyrirtæki fyrirtæki sem stofnað er formlega en hefur enga raunverulega starfsemi. Eins og fram kemur í bókun meirihluta þá munu bæði félög eiga í umsvifamiklum fjárfestingum og rekstri.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Ekki er gagnbókun meirihlutans merkileg og hengir sig í eitt orð í bókun minni. Það sem átt var við með „skúffufyrirtæki“ er að búa á til nýja kennitölu og OHF-félag, með sömu stjórn og sömu starfsmönnum og eru í gamla félaginu. Auk þess er það fullyrt að enginn kostnaðarauki hljótist af þessum uppskiptum en allir vita hvað gerist þegar ný félög eða stofnanir eru settar á laggirnar þá upphefst mikill „stjóraleikur“: forstjóri, skrifstofustjóri, deildarstjóri o.s.frv. Eyðslan heldur áfram í öllum stofnunum borgarinnar auk dótturfélaga. 

    Brynhildur Davíðsdóttir, Ingvar Stefánsson, Bjarni Freyr Bjarnason og Elín Smáradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  13. Lagt fram svar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 28. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um nýtt opinbert hlutafélag sem taka á við hluta af starfsemi Orku náttúrunnar, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október 2019. R19100269

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvort að neysluvatn Reykvíkinga sé geislað. Ef svo er að vatnið sé geislað hverjar eru ástæður þess og af hverju hefur það ekki verið upplýst um það. R19100454

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  15. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

     

    Í bókun aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 17. október 2019 undir lið númer 3 leggur nefndin fram bókun, nefndin leggur til að hafnar verði framkvæmdir við sérklefa í Vesturbæjarlaug eins fljótt og unnt er. Farið verði í framkvæmdir við sérklefann í Vesturbæjarlaug á undan framkvæmdum í Árbæjarlaug að því gefnu að hægt sé að tryggja fé til verksins. Í ljós hefur komið að ekki er hægt að hefja framkvæmdir við Árbæjarlaug fyrr en undir lok árs 2019 og verður farið í þær framkvæmdir um leið og aðstæður leyfa. Fyrirspurnin snýr að því hvað stendur í vegi fyrir því að framkvæmdir geti hafist? Er þá verið að tala um að framkvæmdir hefjist um desember 2019 eða eru framkvæmdir kannski að fara að hefjast á allra næstu vikum? R19100451

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  16. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Á fundi borgarstjórnar hinn 15. október s.l. var samkomulag milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu samþykkt. Daginn áður eða hinn 14. október auglýsti Reykjavíkurborg útboð nr. 14356 rammasamning um stýribúnað umferðarljósa. 27. maí s.l. samþykkti innkauparáð að heimila umhverfis- og skipulagssviði að fara í samningskaup um kaup á vélbúnaði og hugbúnaði auk þjónustusamnings vegna uppfærslu á svonefndri miðlægri stýringu umferðarljósa í Reykjavík og það tekið fram að um væri að ræða samvinnuverkefni með Vegagerðinni sem greiða á helming kostnaðar við uppfærsluna. 1. Á hvaða heimild borgarstjórnar og/eða innkauparáðs byggir útboð nr. 14356? 2. Er útboðið hugsað sem hluti af samkomulaginu milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins? 3. Eru Vegagerðin og samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þátttakendur í útboðinu? 4. Hvers vegna auglýsti Reykjavíkurborg svo víðtækt útboð á stýribúnaði umferðarljósa áður en samkomulagið milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkissins var samþykkt í borgarstjórn? 5. Hvað er gert ráð fyrir að útboðið verði stórt í krónum talið? R19100452

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  17. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Hvers vegna eru fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur, sem hefur metnaðarfullar hugmyndir um rafbílavæðingu og Sorpa, sem framleiðir metan, ekki í starfshópi með Landsvirkjun, Vegagerðinni og starfsmönnum borgarlínunnar til að ákvarða framtíðar orkugjafa lestarinnar sem á að vera á gúmmíhjólum eins og Hrafnkell Proppé, verkefnastjóri Borgarlínu lét hafa eftir sér í samtali við mbl.is hinn 30. okt. s.l.? Er Landsvirkjun að koma með fjármagn inn í verkefnið? R19100453

    Vísað til umsagnar stjórnar samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Tillaga um að verðandi starfsmenn leikskóla sem ekki tala íslensku sæki eitt íslenskunámskeið um það leyti sem þeir hefja störf. Flokkur fólksins leggur til að verðandi starfsmenn leikskóla sem ekki tala íslensku sæki námskeið í íslensku áður eða stuttu eftir að þeir hefja starf. Það er erfitt fyrir starfsmann að byrja á vinnustað ef þeir eiga erfitt með að tjá sig og skilja hvað sagt er. Hluti af aðlögun nýs starfsmanns sem er af erlendu bergi brotinn ætti því að vera íslenskunámskeið. Skóla- og frístundasvið ber ávallt að reyna að tryggja að starfsmönnum líði vel í vinnunni og liður í því er að þeir sem ekki tala málið fái íslenskunámskeið. Hlutfall erlendra leikskóla starfsmanna er hátt hér á landi og menntunarstig þeirra sem vinna á íslenskum leikskólum er lægra en annars staðar. Þetta er meðal þess sem kom fram í niðurstöðum TALIS-rannsóknarinnar þar sem starfshættir á leikskólum hér á landi, í Síle, Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Kóreu, Tyrklandi og Ísrael voru kannaðir. Í könnuninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir starfsfólk leikskóla og leikskólastjóra. Meðal þess sem þar kom fram var að Ísland er það land þar sem hlutfallslega flestir leikskólastarfsmenn eru fæddir í öðru landi. Hlutfallið er 13,56% hér á landi, en til samanburðar er það 6,9% í Þýskalandi og 12,3% í Noregi. R19100450

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  19. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Í skýrslu 2010 um leikskóla kom fram að setja eigi á stofn vinnuhóp til að huga að málefnum erlendra starfsmanna og erlendra barna í leikskólum, m.a. út frá mannréttindum, íslenskukennslu og menningarfræðslu í leikskólum. Spurt er hvort það var gert og hverju skilaði hópurinn? R19100449

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fram hefur komið í svari frá velferðarráði að haustið 2018 voru 6.298 börn í 1.-4. bekk. Frístundastyrkur var nýttur upp í greiðslu fyrir dvöl 1.503 barna á frístundaheimili eða 23,9% þeirra. Einnig hefur komið fram í svari m.a. frá íþrótta- og tómstundasviði að minnsta notkun frístundarkortsins er í 111 og minnstu notkun í íþróttir er einnig í 111. Sú fyrri innan við 70% og seinni 21% stúlkna og 43% drengja sem sagt lang lægst af öllum hinum. Þetta er staðan þrátt fyrir að Leiknir í Breiðholti er með sérlega ódýr æfingargjöld sem skyldi ætla að fleiri börn nýttu kortið í íþróttir í 111. Flokkur fólksins óskar eftir að vita í hvað mörgum tilfellum af þessum 1503 er verið að skipta frístundarkortinu, nota hluta þess í frístundarheimili og hluta í æfingagjöld og í hvaða röð, hvort er í forgangi? Óskað er eftir að þegar spurt er eins og hér að ef í svari sé talað um fjölda sé einnig tilgreindur heildarfjöldi. Þegar talað er um „flest börn“ þarf að segja hlutfallið. Einnig að notuð sé sama eining eins og hægt er t.d. að svör koma í prósentum til þess að hægt sé að bera saman svörin. R19100448

    Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

  21. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um hvað það kostar að kalla út varamann annan en kjörinn fulltrúa? Óskað er eftir upplýsingum í hversu mörgum tilfellum það hefur verið gert á kjörtímabilinu og sundurliðun eftir flokkum sem og í hvaða sætum lista viðkomandi varamenn voru? R19100447

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borist hafa kvartanir frá þjónustuþegum Félagsbústaða að ekki sé svarað í síma í þeim símatíma sem Félagsbústaðir gefa upp sem er milli kl. 11-12 á virkum dögum. Lagt er til að Félagsbústaðir í fyrsta lagi svari í símann á auglýstum símatímum og að símatímum verði fjölgað þannig að þeir séu tvisvar á dag, milli kl. 11 og 12 og 15 til 16 sem dæmi. Fjölgun tíma ætti að dreifa álaginu hjá starfsfólki og bjóða þjónustuþegum upp á aukið svigrúm að ná sambandi við Félagsbústaði. Í þriðja lagi má bæta við þeim möguleika til að tryggja að þjónustuþegar nái örugglega sambandi við starfsfólk að boðið sé upp á að velja 1 og þá verði hringt til baka í númerið. Ekkert réttlætir að ekki sé hægt að svara símtölum frá þjónustuþegum á auglýstum símatímum. R19100446

    Vísað til meðferðar stjórnar Félagsbústaða.

    -    Kl. 9.10 víkja Ebba Schram og Ívar Vincent Smárason af fundinum og Guðlaug Sigurðardóttir og Erik Bjarnason taka sæti. 

  23. Fram fer kynning fjármála- og áhættustýringarsviðs á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2020 og frumvarpi að fimm ára áætlun 2020-2024. R19010204

    -    Kl. 10.18 tekur Hallur Símonarson sæti á fundinum.

  24. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 28. október 2019 um álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2020 ásamt greinargerð. R19100422

    Frestað.

  25. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 28. október 2019 um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2020 ásamt greinargerð. R19100423

    Frestað.

  26. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 28. október 2019 um gjalddagaskiptingu fasteignagjalda fyrir árið 2020 ásamt greinargerð. R19100423

    Frestað.

  27. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra dags. 28. október 2019 um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyris árið 2020 ásamt greinargerð. R19100423

    Frestað.

  28. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 28. október 2019 um gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 ásamt greinargerð. R19010204

    Frestað.

  29. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 28. október um lántökur á árinu 2020 að fjárhæð 6.000 mkr vegna áformaðra framkvæmda og fjárfestinga á árinu 2020 ásamt greinargerð. R19010204

    Frestað.

  30. Lagt fram frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 og frumvarp að fimm ára áætlun 2020-2024. Kynntar eru starfs- og fjárhagsáætlanir skóla- og frístundasviðs, velferðarsviðs, menningar- og ferðamálasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, þjónustu- og nýsköpunarsviðs, mannauðs- og starfsumhverfissviðs, miðlægrar stjórnsýslu, Íþrótta- og sýningarhallarinnar, Félagsbústaða, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Strætó bs.

    Helgi Grímsson, Skúli Helgason, Kristján Gunnarsson, Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Arna Schram, Huld Ingimarsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Ómar Einarsson, Andrés B. Andreasen, Anna Kristinsdóttir, Sigurður Páll Óskarsson, Óskar Sandholt, Sveinn Hannesson, Birgir Bárðarson, Sigrún Árnadóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Haraldur Flosi Tryggvason, Jón Viðar Matthíasson og Jóhannes Svavar Rúnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 14.55 víkur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum og Egill Þór Jónsson tekur sæti. 

    -    Kl. 16.20 víkja Heiða Björg Hilmisdóttir og Líf Magneudóttir af fundinum. 

    Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 5. nóvember 2019 kl. 12:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 30. október 2019. R19010204

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið ráðist í eftirfarandi aðgerðir til að koma til móts við fjölskyldufólk í Reykjavík: 1. Skipulags- og starfsdagar kennara í leik- og grunnskólum verði betur samræmdir innan borgarhverfa þvert á skólastig. 2. Skólasetning grunnskóla hefjist á mánudegi og fyrsti skóladagur hefjist samdægurs í beinu framhaldi. 3. Skólaslit grunnskóla verði á föstudegi og eigi sér stað að loknum síðasta skóladegi. 4. Börnum í 1. – 4. bekk grunnskóla bjóðist frístund samkvæmt gjaldskrá þá daga sem foreldraviðtöl eiga sér stað.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19110002

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Í borgarráði hinn 20. september 2018 var samþykkt að verja 450 milljónum í kaup á 25 smáhýsum fyrir heimilislausa til að mæta bráðavanda hópsins. Ekkert hefur gerst síðan þá og nú hefur komið í ljós að skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar hafnaði tilboði eftir útboð í smáhýsi fyrir heimilislausa og var verkefnið tekið inn á skrifstofuna sjálfa til hönnunar og handval á erlendum byggingaraðila. Það er ekki það sem borgarráð samþykkti þetta verkefni. 1. Hver ákvað þetta fyrirkomulag? 2. Hvað varð um fjárheimildirnar (450 milljónir) á milli ára? 3. Á hvaða grunni var ákveðið að hafna tilboðum sem bárust í húsin samkvæmt útboðinu? 4. Hvers vegna var það gert í stað þess að láta markaðinn um hönnun og byggingu húsanna og fara í nýtt útboð? 5. Hver hannaði smáhýsin? 6. Hvers vegna var ekki leitað til innlendra aðila með smíði/byggingu þeirra? 7. Hver valdi erlenda aðilann sem er að smíða húsin? 8. Hvert er nafn erlenda fyrirtækisins sem var valið og í hvaða landi hefur það heimilisfesti? 9. Í hvaða landi er starfstöðin sem húsin eru keypt frá? 10. Hver er umboðsmaður aðilans hér á landi? 11. Hvar eiga húsin að vera staðsett? 12. Hvað verða þau mörg? 13. Hvað kostar hvert og eitt uppsett og frágengið með lóð? 14. Hvenær er áætlað að heimilislausir flytji inn í þau? R19110004

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Frístundakortið hefur ekki tekið hækkunum síðan 1. janúar 2017. Hvað er því til fyrirstöðu að frístundakortið verði vísitölutryggt/verðbætt til hækkunar eins og útgjaldaliðir borgarinnar? R19110005

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    -    Kl. 16.50 víkja Hildur Björnsdóttir og Egill Þór Jónsson af fundinum.

    -    Kl. 16.58 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 17:10

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dagur B. Eggertsson

Dóra Björt Guðjónsdóttir