Borgarráð - Fundur nr. 5558

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 26. september, var haldinn 5558. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn: Ari Karlsson, Bjarni Þóroddsson og Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal. 

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 19. september 2019. R19010016

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks bendir á að í framlögðu yfirliti kemur fram að skrifstofa
    framkvæmda- og viðhalds styðst við verðfyrirspurnir í 70% tilfella, eða 5 af 7 í innkaupum sínum fyrir ágústmánuð. Eðlilegra væri að meginreglan við stærri innkaup og framkvæmdir á vegum borgarinnar færu fram í gegnum útboð í stað verðfyrirspurna. Sömuleiðis er bent á að mikilvægt sé að vanda til gerða kostnaðaráætlana og að þær séu sem nákvæmastar og gefi sem besta mynd af
    fyrirhuguðum innkaupum.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna benda á að innkaup samkvæmt þessu yfirliti eru í samræmi við innkaupareglur borgarinnar og lög um opinber innkaup.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram fundargerðir skipulags- og samgönguráðs nr. 48 og nr. 49 frá 25. september 2019. R19010022

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. og 11. lið fundargerðar nr. 49: 

    Það eru forkastanleg vinnubrögð og ekki rekstraraðilum eða íbúum á þessu svæði bjóðandi að taka svo afdrifaríka ákvörðun sem framlenging lokunar Laugavegs er sett í flýtimeðferð, í gegnum afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs, borgarráðs og síðan borgarstjórnar. Þetta er valdbeiting opinbers aðila af verstu gerð. Í svo afdrifaríku máli eiga þeir sem hagsmuna eiga að gæta að njóta vafans, ekki stjórnvaldið. Nýlega hafa rekstaraðilar og íbúar mátt búa við miklar raskanir á högum sínum þegar borgin tók Laugaveginn í endurbætur. Nú er boðað að samhliða þessum lokunum verði á ný farið í mikið rask til að endurbæta svæðið s.s. að endurnýja allt yfirborð götunnar, gróður, götulögn og lýsingu. Heyrst hefur að þær endurbætur komi til með að kosta allt að 600 milljónir. Nú þegar liggur inni í kerfinu fyrirspurn frá borgarfulltrúa Miðflokksins til að fá þessar fjárhagsupplýsingar fram en henni hefur ekki enn verið svarað. Er þetta forgangsröðun meirihlutans, meðan lögbundin þjónusta og grunnstoðirnar eru sveltar? Til að allir átti sig á þeim fjármunum sem liggja undir af hendi útsvarsgreiðenda í Reykjavík, þá kosta endurbætur á Laugaveginum og Óðinstorgi ,sem er fyrir framan heimili borgarstjóra, tæpan 1 milljarð/1.000 milljónir. Þá er tjón rekstraraðila ótalið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. og 11. lið fundargerðar nr. 49 og 5. lið fundargerðar nr. 48: 

    Formaður skipulagsráðs hefur ákveðið að halda sínu striki þrátt fyrir hávær mótmæli. Ekkert samtal hefur verið átt við hagsmunaaðila og hlustar meirihlutinn heldur ekki á ráð frá nágrannaborgum eins og Osló sem hafa varað við aðferðarfræði sem þessari. Það vita það allir sem hafa fylgst með þessari umræðu að þegar formaður skipulagsráðs segir að göngugötur efla samskipti og auka lífsgæði borgarbúa þá er það ekki alveg svo. Við göngugötur þrífast ekki allar tegundir reksturs. Vegna 5. liðar í fundargerð nr. 48; Horfa þar með gagnrýnum augum hvað Reykjavíkurborg eyðir miklu í utanlandsferðir. Fram kemur að kostnaður vegna ferðar 14 manns frá umhverfis- og skipulagssviði á ráðstefnu til Osló er rúmar 4 milljónir. Þarna hefði verið möguleiki fyrir einhverja að fylgjast með fundum í gegnum netið? Var streymi funda í boði? Það hefði dugað að senda 2-3 sem hefðu getað uppfrætt þá sem heima sátu. Flokki fólksins finnst miðlæg stjórnsýsla eyða of miklu í ferðir erlendis. Í allri umræðu borgarmeirihlutans um að leggja sitt að mörkum til umhverfisþátta þá skýtur þetta skökku við. Ferðakostnaður Reykjavíkurborgar hefur hlaupið á milljónum, jafnvel á annan tug milljóna. Ekkert er vitað hvort ferðir sem þessar skila sér. Hér þarf að staldra við og rifja upp að verið er að eyða peningum borgarbúa svo ekki sé minnst á kolefnasporin.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R19090006

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R19010041
    Samþykkt að veita André Bachmann Sigurðssyni styrk að upphæð 350.000 vegna jólahátíðar fatlaðra 2019.

    -    Kl. 9.25 tekur Stefán Eiríksson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 25. september 2019 á tillögu að deiliskipulagi fyrir fyrsta áfanga Laugavegar sem göngugötu, ásamt fylgiskjölum. R19070069
    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Hildar Björnsdóttur gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Eyþórs Laxdal Arnalds og Valgerðar Sigurðardóttur.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samþykkt var í borgarstjórn Reykjavíkur 4. september 2018 að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið, ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Algild hönnun með aðgengi fyrir alla er höfð að leiðarljósi við útfærsluna í samráði við notendur og fjölmörg hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Tillaga að deiliskipulagi er hluti af lögformlegu samráðsferli og sem hófst með verklýsingu um deiliskipulagið sem var samþykkt í skipulags- og samgönguráði 4. september. Öllum gefst færi á að koma með athugasemd þegar deiliskipulag fer í formlegt auglýsingarferli. Það er mikilvægt að halda til haga að almannarýmið er fyrir okkur öll og nýtist landsmönnum öllum þegar þeir heimsækja miðbæinn. Það er ábyrgðarhlutverk að gera hann aðgengilegan sem flestum og er göngugatan stærsta skrefið í átt að því. Aldrei áður hefur verið unnið jafn stíft að því að bæta aðgengi allra að miðborginni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það getur varla talist annað en ákveðin firring þegar meirihlutinn í borginni og skipulagsyfirvöld segja fullum fetum að haft hafi verið samráð við notendur og hagsmunasamtök fatlaðs fólks við ákvörðun og skipulag göngugatna. Þetta er ekki satt og þykir borgarfulltrúa það vanvirðing að slengja svona fram sem ekki stenst. Það er rétt að engum var bannað að koma með kvartanir eða með athugasemdir en við þær var einfaldlega ekkert gert. Skrifað var mótmælabréf frá fjölda hagsmunaaðila sem aldrei hefur sést tangur né tetur af og meirihlutinn hefur aldrei minnst á. Hafi verið haft raunverulegt samráð þá hefði verið stigið skref til baka að einhverju leyti með eitthvað af þessum lokunum og reynt að finna lausn sem fleiri gátu sætt sig við. Nú er eins og þetta almannarými sé ekki lengur okkar allra heldur aðeins sumra. Skilaboðin frá meirihlutanum til rekstraraðila á þessu svæði sem hafa kallað hátt eftir hlustun er einnig að finna sér annan stað fyrir verslun sína því það er nóg af fólki sem vill reka verslun sína í miðbænum. Aðgengi að borginni hefur aldrei verið eins slæmt og þeir sem eiga bíl og vilja koma á bíl er gert eins erfitt fyrir og hugsast getur. 

    Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru vonbrigði að málið sé afgreitt með flýtimeðferð þegar samráðsferlið hefur verið eins umdeilt og raun ber vitni. Samkvæmt framlagðri áætlun átti að ljúka deiliskipulagi fyrir göngugötur í október - nóvember, en hér í reynd verið að afgreiða málið í september bæði úr skipulags- og borgarráði. Þá liggur ekki fyrir endanleg útfærsla á aðgengi fyrir þá sem þurfa að komast inn á svæðið á ökutækjum, svo sem íbúar, hreyfihamlaðir og neyðarþjónusta slökkviliðs, lögreglu og sjúkrabíla. Rekstur verslana og veitingastaða í miðborg Reykjavíkur hefur verið afar þungur undanfarið og tugir rekstaraðila hafa hætt rekstri. Hærri gjöld, launakostnaður, slæmt aðgengi vegna framkvæmda og aðrir þættir hafa dregið þróttinn úr mörgum rekstraraðilum. Vilji meirihluta rekstraraðila er skýr; þeir leggjast gegn heilsárslokun. Hér hefur ekki verið hlustað á þessi sjónarmið sem skyldi og því greiðum við atkvæði gegn þessari afgreiðslu.

    Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hefðbundin verslun á undir högg að sækja hérlendis sem erlendis. Nýlegar fregnir herma að á fyrstu sex mánuðum ársins hafi 2.868 verslanir lagt upp laupana í Bretlandi. Mestan vöxt má finna í netverslun. Samskonar þróun má greina meðal annarra sambærilegra verslunarþjóða. Reglulega í sögunni má finna dæmi þess að tækninýjungar leysi eldri hugmyndir af hólmi. Ætli hefðbundin verslun að halda velli þarf að bjóða jákvæða upplifun og framúrskarandi þjónustu. Sýnt hefur verið að með göngugötum megi skapa betra verslunarumhverfi og mæta nýjum áskorunum í verslun. Verslun og þjónusta á mjög undir högg að sækja í miðborg Reykjavíkur. Samráðsleysi vegna umfangsmikilla framkvæmda, síhækkandi fasteignaskattar, launahækkanir og aukin netverslun eru meðal þátta sem valda erfiðleikum. Mikilvægt er að hlúa betur að rekstri og auka samráð við rekstraraðila miðborgar samhliða útfærslu göngugatna. Samhliða auknu samráði við rekstraraðila er mikilvægt að hlusta á vilja íbúa , en í síbreytilegu markaðsumhverfi hefur viðskiptavinurinn lokaorðið. Eftirspurn stýrir að endingu framboði. Íbúakannanir hafa ítrekað sýnt mikla jákvæðni íbúa í garð göngugatna. Nýleg könnun sýnir að yfirgnæfandi meirihluti íbúa miðborgar vill göngugötur. Eins eru fleiri íbúar með göngugötum en á móti innan allra borgarhluta. Alls staðar meðal ólíkra aldurshópa er hlutur þeirra sem eru neikvæðir minni en helmingur. Tölurnar sýna glöggt hvaða hugmyndir borgarbúar hafa almennt um þróun verslunar og umhverfis í miðborg Reykjavíkur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru forkastanleg vinnubrögð og ekki rekstraraðilum eða íbúum á þessu svæði bjóðandi að taka svo afdrifaríka ákvörðun sem framlenging lokunar Laugavegs er sett í flýtimeðferð, í gegnum afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs, borgarráðs og síðan borgarstjórnar. Þetta er valdbeiting opinbers aðila af verstu gerð. Í svo afdrifaríku máli eiga þeir sem hagsmuna eiga að gæta að njóta vafans, ekki stjórnvaldið. Nýlega hafa rekstaraðilar og íbúar mátt búa við miklar raskanir á högum sínum þegar borgin tók Laugaveginn í endurbætur. Nú er boðað að samhliða þessum lokunum verði á ný farið í mikið rask til að endurbæta svæðið s.s. að endurnýja allt yfirborð götunnar, gróður, götulögn og lýsingu. Heyrst hefur að þær endurbætur komi til með að kosta allt að 600 milljónir. Nú þegar liggur inni í kerfinu fyrirspurn frá borgarfulltrúa Miðflokksins til að fá þessar fjárhagsupplýsingar fram en henni hefur ekki enn verið svarað. Er þetta forgangsröðun meirihlutans, meðan lögbundin þjónusta og grunnstoðirnar eru sveltar? Til að allir átti sig á þeim fjármunum sem liggja undir af hendi útsvarsgreiðenda í Reykjavík, þá kosta endurbætur á Laugaveginum og Óðinstorg sem er fyrir framan heimili borgarstjóra tæpan 1 milljarð/1.000 milljónir. Þá er tjón rekstraraðila ótalið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú er svo komið að gera á hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum. Það logar allt vegna þessa máls sem nú á að keyra í gegn á miklum hraða þvert gegn vilja fjölda fólks þar á meðal hagsmunaaðila. Enn fleiri verslanir eiga eftir að hörfa þar sem viðskipti hafa hrunið samhliða þessum framkvæmdum. Eftir standa lundabúðir og veitingastaðir sem gefa ferðamönnum að borða. Vissulega er skemmtanalíf í bænum sem alltaf einhverjir munu sækja. Þetta allt væri ekki svona ömurlegt nema vegna þess að sá borgarmeirihluti sem nú situr hefur lofað fullu samráði en það hefur hins vegar ekki verið neitt samráð nema einhvers konar yfirborðssamráð. Í aðdraganda kosninga sagði Flokkur fólksins að miðbærinn yrði með þessu áframhaldi aðeins fyrir ferðamenn og þá ríku sem eiga efni á nýjum íbúðum á svæðinu og jú vissulega fyrir þá sem þar búa. Þetta er að raungerast. Þetta er ekki lengur miðbær Reykjavíkur, borgarbúa allra. Úthverfafólk margt hvert vogar sér ekki inn á þetta svæði og hefur fundið sína miðbæi annars staðar. Eldra fólk og fatlaðir hafa margir sagst ekki treysta sér í bæinn, aðgengi er erfitt og vegakerfið ruglingslegt svo ekki sé minnst á stæðisvanda en bílastæðahúsin hafa hins vegar ekki tekist að draga að. Ótaldar eru umferðarteppur og umferðaröngþveiti í og úr bænum.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 25. september 2019 á tillögu um göngugötur 2019-2020, ásamt fylgiskjölum. R19040106
    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Hildar Björnsdóttur gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Eyþórs Laxdal Arnalds og Valgerðar Sigurðardóttur.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samþykkt var í borgarstjórn Reykjavíkur 4. september 2018 að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið, ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Algild hönnun með aðgengi fyrir alla er höfð að leiðarljósi við útfærsluna í samráði við notendur og fjölmörg hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Tillaga að deiliskipulagi er hluti af lögformlegu samráðsferli og sem hófst með verklýsingu um deiliskipulagið sem var samþykkt í skipulags- og samgönguráði 4. september. Öllum gefst færi á að koma með athugasemd þegar deiliskipulag fer í formlegt auglýsingarferli. Það er mikilvægt að halda til haga að almannarýmið er fyrir okkur öll og nýtist landsmönnum öllum þegar þeir heimsækja miðbæinn. Það er ábyrgðarhlutverk að gera hann aðgengilegan sem flestum og er göngugatan stærsta skrefið í átt að því. Aldrei áður hefur verið unnið jafn stíft að því að bæta aðgengi allra að miðborginni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það getur varla talist annað en ákveðin firring þegar meirihlutinn í borginni og skipulagsyfirvöld segja fullum fetum að haft hafi verið samráð við notendur og hagsmunasamtök fatlaðs fólks við ákvörðun og skipulag göngugatna. Þetta er ekki satt og þykir borgarfulltrúa það vanvirðing að slengja svona fram sem ekki stenst. Það er rétt að engum var bannað að koma með kvartanir eða með athugasemdir en með þær var einfaldlega ekkert gert. Skrifað var mótmælabréf frá fjölda hagsmunaaðila sem aldrei hefur sést tangur né tetur af og meirihlutinn hefur aldrei minnst á. Hafi verið haft raunverulegt samráð þá hefði verið stigið skref til baka að einhverju leyti með eitthvað af þessum lokunum og reynt að finna lausn sem fleiri gátu sætt sig við. Nú er eins og þetta almannarými sé ekki lengur okkar allra heldur aðeins sumra. Skilaboðin frá meirihlutanum til rekstraraðila á þessu svæði sem hafa kallað hátt eftir hlustun er einnig að finna sér annan stað fyrir verslun sína því það er nóg af fólki sem vill reka verslun sína í miðbænum. Aðgengi að borginni hefur aldrei verið eins slæmt og þeir sem eiga bíl og vilja koma á bíl er gert eins erfitt fyrir og hugsast getur. 

    Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nýtt og umdeilt deiliskipulag vegna göngugatna er nýsamþykkt í auglýsingu. Vilji meirihluta rekstraraðila í miðborginni er skýr; þeir leggjast gegn vetrarlokun. Hér hefur ekki verið hlustað á þessi sjónarmið sem skyldi og sátt hefur ekki náðst og því greiðum við atkvæði gegn þessari afgreiðslu.

    Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hefðbundin verslun á undir högg að sækja hérlendis sem erlendis. Nýlegar fregnir herma að á fyrstu sex mánuðum ársins hafi 2.868 verslanir lagt upp laupana í Bretlandi. Mestan vöxt má finna í netverslun. Samskonar þróun má greina meðal annarra sambærilegra verslunarþjóða. Reglulega í sögunni má finna dæmi þess að tækninýjungar leysi eldri hugmyndir af hólmi. Ætli hefðbundin verslun að halda velli þarf að bjóða jákvæða upplifun og framúrskarandi þjónustu. Sýnt hefur verið að með göngugötum megi skapa betra verslunarumhverfi og mæta nýjum áskorunum í verslun. Verslun og þjónusta á mjög undir högg að sækja í miðborg Reykjavíkur. Samráðsleysi vegna umfangsmikilla framkvæmda, síhækkandi fasteignaskattar, launahækkanir og aukin netverslun eru meðal þátta sem valda erfiðleikum. Mikilvægt er að hlúa betur að rekstri og auka samráð við rekstraraðila miðborgar samhliða útfærslu göngugatna. Samhliða auknu samráði við rekstraraðila er mikilvægt að hlusta á vilja íbúa , en í síbreytilegu markaðsumhverfi hefur viðskiptavinurinn lokaorðið. Eftirspurn stýrir að endingu framboði. Íbúakannanir hafa ítrekað sýnt mikla jákvæðni íbúa í garð göngugatna. Nýleg könnun sýnir að yfirgnæfandi meirihluti íbúa miðborgar vill göngugötur. Eins eru fleiri íbúar með göngugötum en á móti innan allra borgarhluta. Alls staðar meðal ólíkra aldurshópa er hlutur þeirra sem eru neikvæðir minni en helmingur. Tölurnar sýna glöggt hvaða hugmyndir borgarbúar hafa almennt um þróun verslunar og umhverfis í miðborg Reykjavíkur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru forkastanleg vinnubrögð og ekki rekstraraðilum eða íbúum á þessu svæði bjóðandi að taka svo afdrifaríka ákvörðun sem framlenging lokunar Laugavegs er sett í flýtimeðferð, í gegnum afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs, borgarráðs og síðan borgarstjórnar. Þetta er valdbeiting opinbers aðila af verstu gerð. Í svo afdrifaríku máli eiga þeir sem hagsmuna eiga að gæta að njóta vafans, ekki stjórnvaldið. Nýlega hafa rekstaraðilar og íbúar mátt búa við miklar raskanir á högum sínum þegar borgin tók Laugaveginn í endurbætur. Nú er boðað að samhliða þessum lokunum verði á ný farið í mikið rask til að endurbæta svæðið s.s. að endurnýja allt yfirborð götunnar, gróður, götulögn og lýsingu. Heyrst hefur að þær endurbætur komi til með að kosta allt að 600 milljónir. Nú þegar liggur inni í kerfinu fyrirspurn frá borgarfulltrúa Miðflokksins til að fá þessar fjárhagsupplýsingar fram en henni hefur ekki enn verið svarað. Er þetta forgangsröðun meirihlutans, meðan lögbundin þjónusta og grunnstoðirnar eru sveltar? Til að allir átti sig á þeim fjármunum sem liggja undir af hendi útsvarsgreiðenda í Reykjavík, þá kosta endurbætur á Laugaveginum og Óðinstorg sem er fyrir framan heimili borgarstjóra tæpan 1 milljarð/1.000 milljónir. Þá er tjón rekstraraðila ótalið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er nú að enginn mannlegur máttur mun geta breytt því að miðbærinn er að verða að varanlegum göngugötum. Þessu þurfa allir þeir sem hafa hrópað um að stoppa þessar framkvæmdir að kyngja. Staðfest hefur verið af meirihlutanum að ekki verður snúið til baka. Það blasir nú við að í raun áttu þeir sem voru á móti þessu fyrirkomulagi aldrei möguleika. Engu breytti þó fólk missti fyrirtækin sín og verslun þeirra hrundi. Þótt öll þjóðin hefði barist gegn þessu hefði það ekki breytt neinu. Þetta er gæluverkefni og hugarfóstur lítils hóps þar með talins borgarmeirihlutans, þeim finnst þetta flott. Borgarbúar þurfa að fara að sætta sig við að þeir hafa ekkert um borgina sína að segja. Samráð þýðir að fólkinu er sýnt hvað meirihlutinn og formaður skipulagsráðs vill gera. Samráð þýðir ekki að fólk sé spurt hvað það vill og það mögulega tekið til greina. Það má jú koma með athugasemdir og þær eru einhvers staðar skráðar en hafa að öðru leyti ekkert gildi. Þetta er auðvitað kjaftshögg því flestir hafa haldið að kaupin á eyrinni í borginni gangi ekki alveg svona fyrir sig. Bitur er þessi veruleiki.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 27 við Rauðagerði, ásamt fylgiskjölum. R19090246
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á tillögu að breytingu á mörkum deiliskipulags vegna nýrra lóðarmarka að Rauðagerði 27, ásamt fylgiskjölum. R19090251
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. september 2019, varðandi þátttöku formanns borgarráðs í fræðsluferð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til Árósa 29. september til 2. október 2019, ásamt fylgiskjölum. R19090257

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. september 2019, varðandi fyrirhugaða þátttöku borgarstjóra í C40 World Mayors Summit í Kaupmannahöfn 9-12 október 2019, ásamt fylgiskjölum. R17020198

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. september 2019, þar sem drög að erindisbréfi fyrir starfshóp um farartækjaflota Reykjavíkurborgar eru send borgarráði til kynningar. R19010098

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur varið milljörðum króna af peningum skattgreiðenda í farartæki. Farartækin eiga að vera keypt til að veita nauðsynlega og mikilvæga þjónustu sem sannanlega þau gera ekki þegar þau eru látin rykfalla í bílageymslum út í bæ án nokkurra haldbærra skýringa. Þá vekur athygli í þessu samhengi að Reykjavíkurborg hefur greitt starfsmönnum tvo milljarða í akstur á eigin bifreiðum frá árinu 2011. Allar þessar greiðslur hafa átt sér stað þrátt fyrir umhverfisstefnu og nú er stofnaður enn einn starfshópurinn um farartækjaflotann. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er rangt af Sjálfstæðisflokknum að halda því fram að verið sé að verja milljörðum í farartæki þegar vísað er til þess að starfsfólk fær greitt fyrir að keyra eigin bíla á vinnutíma.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Rétt er rétt. Borgin hefur varið milljörðum króna í bíla með beinum og óbeinum hætti. Allt tal um að það sé rangt stenst ekki skoðun, enda liggur bókhald borgarinnar fyrir. Stundum er sannleikurinn óþægilegur. Hann liggur samt fyrir. Hún snýst nú samt jörðin. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Grátlega fyndið er að nú eigi að stofna starfshóp um farartækjaflota Reykjavíkurborgar nú en líklega er það löngu tímabært miðað við fréttir síðustu daga um „týnda“ bíla borgarinnar. Engin yfirsýn er yfir bílaeign borgarinnar og fundust tveir yfirgefnir bílar með skráningarnúmerunum RX-X04 og FM-E45 sem reyndust í eigu borgarinnar í bílakjallara í rótgrónu íbúahverfi. Þar höfðu þeir staðið óhreyfðir í hátt á annað ár að sögn íbúa, þeim til mikils ama og óþæginda. Hvernig getur Reykjavíkurborg týnt bílunum sínum með þessum hætti? Hvers vegna var þeim komið fyrir á þessum stað? Hver var skráður ábyrgðarmaður fyrir bílunum? Reykjavíkurborg skuldar borgarbúum haldbær svör sem varpar ljósi á málið.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Um er að ræða fimm bíla sem hafa verið í bílastæðum í Bryggjuhverfi sem borgin hefur til umráða. Bílarnir hafa verið þarna í nokkra mánuði. Fjórir þeirra ganga fyrir metani en einn fyrir dísel. Borgin á nokkurn fjölda bíla sem hún leigir sviðum borgarinnar. Þegar notkun sviðanna á bílunum dróst saman voru nokkrir þeirra seldir í gegnum bílasölur – en metið sem svo að geyma nýjustu bílana um stund til að nota innan kerfis. Þrír þessara fimm bíla hafa nú verið teknir í notkun af umhverfis- og skipulagssviði. Yfirsýn yfir bílaflota borgarinnar hefur alltaf legið fyrir og þótt lítill hluti af bílum borgarinnar séu geymdir um skemmri eða lengri tíma er varasamt að álykta um stjórnun flotans eða yfirsýn.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Bílarnir fundust í bílakjallara í rótgrónu íbúahverfi. Að nota nýjustu bílana „innan kerfis“ þýðir þá líklega að gleyma þeim í bílakjöllurum víðsvegar um borgina. Þessi bókun upplýsir ekki á nokkurn hátt um tilvist bíla í eigu borgarinnar sem fundust í Bryggjuhverfi. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. september 2019, þar sem drög að erindisbréfi fyrir starfshóp um upplýsingatæknimál Reykjavíkurborgar eru send borgarráði til kynningar. R19090167

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hópur um upplýsingatæknimál með tengingum við öll svið er settur upp skv. ábendingu innri endurskoðunar, til að tryggja yfirsýn og samráð í þessum mikilvæga málaflokki. Breytingar á skipan hópsins tengjast fyrst og fremst uppfærslu í kjölfar einföldunar og hagræðingar í stjórnkerfi borgarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú er verið að skipa enn einn starfshópinn á vegum borgarinnar. Nú um upplýsingatæknimál og er hann skipaður 13 starfsmönnum borgarinnar. Ekkert liggur fyrir um verkefnaskil þessa fjölmenna starfshóps, en gert er ráð fyrir að endurmeta hlutverk hans og skipan eftir tvö ár eða árið 2021. Það síðasta sem borgin þarf á að halda er enn einn fjölskipaður starfshópurinn sem hefur afar óskýr markmið. Árið 2017 var skipaður starfshópur um upplýsingatæknimál. Því til staðfestingar var lagt fram í stjórnkerfis- og lýðræðisráði til kynningar erindisbréf um starfshóp um upplýsingatæknimál, sem dagsett var 1. september 2017. Ekki er að sjá að þessi samráðsvettvangur hafi skilað miklu. 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 18. september 2019, varðandi gjaldskrá fyrir langtímaleigu á tjaldsvæðinu í Laugardal, ásamt fylgiskjölum. R18080042
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. september 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Gerðarbrunni 46. R19090046
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. september 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir lóð að Lambhagaveg 10. R19080104
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. september 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna hluta fasteignarinnar Spöngin 43, ásamt fylgiskjölum. R12080033
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. september 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að Völvufell 11 verði nýtt fyrir starfsemi velferðarsviðs, ásamt fylgiskjölum. R19090156
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 24. september 2019, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 vegna framkvæmda við Völvufell 11. Greinargerð fylgir tillögunni. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar. 

    Helga Benediktsdóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. september 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð heimili sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að gera samninga við tónlistarskóla og greiða út framlög Jöfnunarsjóðs vegna kennslu á efri stigum tónlistarnáms í samræmi við meðfylgjandi minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs. R18050102

    Samþykkt.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um hegðunarreglur siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2019. R19010021

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kjörnir fulltrúar sækja umboð sitt til kjósenda, og engra annarra, á fjögurra ára fresti. Sorglegt er að horfa uppá þekkingarleysi Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessum efnum. Hegðunar- eða siðareglur, hvað þá rannsóknarréttur ráðhússins, fyrir kjörna fulltrúa hafa ekkert lagagildi. Þessar heimatilbúnu „reglur“ eru settar fram sem pólitískt barefli á kjörna fulltrúa fyrir pólitíska andstæðinga, embættismenn og fjölmiðla og eru einungis til þess að fóðra dómstól götunnar. Í raun er það hneyksli að Samband íslenskra sveitarfélaga taki þátt í þessum hildarleik í stað þess að sinna þeim verkefnum sem því er falið af kjörnum fulltrúum. Frekar ætti sambandið að hafa áhyggjur af úrsögnum sveitarfélaga úr sambandinu. Skorað er á stjórn sambandsins að láta af þessari háttsemi.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Siðanefnd sambandsins er að skoða hvort rétt sé að hvetja sveitarstjórnir til að setja sér hegðunarreglur með það að markmiði að bæta starfsumhverfi kjörinna fulltrúa og tryggja öryggi þeirra. Reykjavík mun fylgjast með niðurstöðu málsins en bæjarstjórn Akureyrar hefur þegar sett sér slíkan sáttmála og fleiri hafa hug á því sama.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurnin fjallar um drög að hegðunarreglum sem Samband íslenskra sveitarfélaga er að vinna að ekki siðareglur fyrir kjörna fulltrúa. Ítrekað er að kjörnir fulltrúar sækja umboð sitt til kjósenda á fjögurra ára fresti og lúta ekki neinum ólögbundnum heimatilbúnum reglum hvaðan sem þær koma. Þessi réttur kjörinna fulltrúa er bundinn í stjórnarskrá og í 48. gr. stjórnarskrárinnar segir að alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Hið sama gildir um sveitastjórnarmenn. Ítrekað er að Samband íslenskra sveitarfélaga hætti nú þegar vinnu við að semja hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa og snúi sér að brýnum málum sem bíða vinnslu hjá sambandinu.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar skrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mat á vindáhrifum nýbygginga, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september 2019. R19090132

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurnum Flokks fólksins er ekki svarað hér, allt öðru er svarað. Svar eins og já eða nei væri einfaldlega vel þegið. Draga má þá ályktun að vindáhrif hafi sem sé aldrei verið prófuð í vindgöngum. Benda má á að alls konar form, form flugvéla og bifreiða og fleira eru venjulega prófuð í vindgöngum. Hafnargerð er alltaf prófuð í straumfræðilíkönum. Í svarinu segir að ,,leitast er við að takmarka áhrif með ýmsum hætti“. Hvað þýðir þetta „með ýmsum hætti“? Flokkur fólksins vill bæta við að beinar mælingar af formi bygginga og umhverfi þeirra á vindsveipi gefa áræðanlegar niðurstöður og þá sparast vangaveltur um aðrar hugsanlegar breytur, svo sem áhrif af trjám og yfirborði bygginga. En það væri gott að fá skýrt svar.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Arkitekta-, landslagsarkitekta- og verkfræðistofur vinna almennt tillögur að deiliskipulagi. Það er því ekki borgin sjálf sem gerir líkantilraunir til að mæla vindáhrif. Vindaáhrif eru hins vegar oft rannsökuð og líkantilraunir gerðar af viðkomandi aðilum sem vinna deiliskipulagstillögur innan sveitarfélagsmarka Reykjavíkurborgar. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa bein áhrif á mótun bygginga og deiliskipulagsskilmála sem eru sérstaklega settir til þess að draga úr vindi og skapa sem mannvænast umhverfi. Svarið er því "já" borgin nýtir sér vindgöng og líkön í aðkeyptri þjónustu til að mæla áhrif bygginga á vindhreyfingu.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um átakshóp um bætt aðgengi fatlaðra að Laugavegi, sbr. 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. janúar 2019. R19010189

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta mál er nú orðið 6 ára gamalt og ekki hefur verið komið til móts við samþykkt borgarráðs frá 2013 um að skipa samráðshóp/átakshóp um bætt samráð fatlaðra um aðgengismál að Laugaveginum. Vandræðagangurinn og stjórnleysið er algjört því á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 25. maí 2016 var ákveðið að skipa í hópinn, en var sú skipun dregin til baka skömmu síðar og ákveðið að stofna „nýjan“ hóp og átti hann að skila niðurstöðum 1. desember 2016. Drög að stefnumótuninni lágu ekki fyrir fyrr en vorið 2018. Enn á ný var skipuð ný nefnd um málefnið í maí 2019. Það flokkast undir áhugaleysi og vanvirðingu. Þessi vinnubrögð hafa bitnað harkalega á hreyfihömluðum og öðru fötluðu fólki.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í borginni starfar aðgengis- og samráðsnefnd um bætta þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík og hafa virka aðkomu þess að skipulagi og mótun þjónustunnar. Markmið nefndarinnar er jafnframt að bæta aðgengi fatlaðs fólks að allri þjónustu Reykjavíkurborgar sem og borgarlandinu. Þessi nefnd verður ásamt öðrum hagsmunaaðilum höfð með í vinnunni við endurgerð Laugavegs sem göngugötu.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, 23. september 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað starfsfólks á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019. R19080090

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Á síðasta ári heyrði undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara skv. skipuriti mannauðsdeild, miðlæg upplýsingadeild fyrir alla borgina, Borgarskjalasafn fyrir alla borgarbúa og tölfræði og greining auk annars starfsfólks sem sinnir daglegum störfum. Nú hefur skipulagi í miðlægri stjórnsýslu verið breytt með það að markmiði að einfalda skýra og skerpa.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér staðfestist það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið fram að 55 starfsmenn hafi verið á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Kostnaður við það hefur verið yfir hálfur milljarður á ári eða 2 milljónir á dag.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. september 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lagt til að borgarráð veiti sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs umboð til að samþykkja og bera ábyrgð á jafnlaunakerfinu í heild sinni í samráði við æðstu stjórnendur borgarinnar sem rýna kerfið árlega. Fyrirhugað er að vottunarferli Reykjavíkurborgar fari fram í nóvember árið 2019.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R18020019
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi í að jafna laun kynjanna og er ný jafnlaunastefna eðlilegur hluti af því. Kynbundinn launamunur hefur verið mældur um árabil og hefur náðst ótrúlegur árangur að ná honum niður í 2,2% sem er yfir 70% lækkun á tíu árum. Og markmiðið er að gera enn betur þannig að launamunur kynjanna verði ekki mælanlegur lengur hjá borginni. Vottunarferli skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynja á vinnumarkaði mun hefjast í nóvember nk. og stefnan er að árangurinn af slíkri vinnu og vottun skili sér í meiri jöfnuði og launajafnrétti um ókomna framtíð. Það er með öllu óásættanlegt að mismuna fólki í launum vegna kyns og skal enginn óútskýrður kynbundinn launamunur vera til staðar í samfélaginu.

    Lóa Birna Birgisdóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir og Maj-Britt Hjördís Briem taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11.08 tekur Pétur Ólafsson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs, dags. 23. september 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 20. september 2019, á tillögu um sameiginlegt þróunarverkefni í Breiðholti um betri borg fyrir börn, ásamt fylgiskjölum. R19090252
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það markar tímamót að skóla- og frístundaráð og velferðarráð og fagsviðin tvö hefji nú formlegt samstarf um að bæta þjónustu við börn með sérþarfir í borginni og aðstandendur þeirra. Skóla- og frístundasvið og velferðarsvið munu setja á fót sameiginlegt þróunarverkefni, Betri borg fyrir börn, í þeim tilgangi að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna og beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar. Styðja á betur við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi, færa stjórnun stofnana skóla- og frístundasviðs nær vettvangi og nýta fjármagn betur með sameiginlegum rekstri á sviði fjármála, mannvirkja og mannauðs.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar öllu því sem færir þjónustuna nær börnum borgarinnar og fjölskyldum þeirra líkt og umrædd tillaga fjallar um. Fulltrúinn telur mikilvægt að skoða orðalag sem notað er í kynningu tillögunnar út á við, þar má t.d. nefna að hugtök líkt og „snemmtæk íhlutun“ geta virkað fræðileg á marga og mikilvægt að skýrt sé hvað sé verið að tala um, þ.e.a.s. að grípa snemma inn í aðstæður þegar þörf er á og veita þá þjónustu sem þörf er á. Hér í tillögunni er fjallað um mikilvægi þess að velferðarsvið og skóla- og frístundasvið vinni vel saman í að veita sem bestu þjónustu og slíkt er gríðarlega mikilvægt. Þá er mikilvægt að allir sem komi að þeirri þjónustuveitingu, þ.e.a.s. starfsfólkið og aðrir sem koma að málunum fái að koma að breytingum í þjónustuveitingunni og ljá sína rödd í því ferli. Það er mikilvægt að allar svona stórar breytingar sem hér um ræðir séu unnar í samráði við starfsfólkið. Þá er einnig mikilvægt að geta aðlagað þjónustuna og breytt ef þörf er á til að geta sniðið að þörfum og væntingum þeirra sem nota þjónustuna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar öllu því sem bætt getur þjónustu við börn. Búið er að stilla upp stóru myndinni. Hér er lagt af stað með að búa til útfærslu sem virkar flókin á blaði. Teymi og teymisvinna er vissulega frábært en það eru kostir og gallar við allt. Stór teymi hafa sín vandamál. Mál mega t.d. aldrei stoppa vegna þess að ekki er hægt að ná sama teyminu. Þjónustuþeginn þarf að vita hvar skuli bera niður með mál sín og geta séð myndrænt hver verkferillinn er. Borgarfulltrúi Flokks fólksins þekkir það úr starfi sínu sem sálfræðingur að mjög oft voru dæmi um það að fólk vissi ekki hvaða þjónusta væri í boð eða hver hefði með hana að gera. Margt sem borgin bíður upp á er ekki nógu vel kynnt og erfitt er að átta sig á fyrir fólk hvað er borgarinnar og hvað er ríkisins. Í augum margra ægir öllu saman. Innan verkefnisins á að gera ansi mikið, stofna deild og stofna teymi ýmissa aðila milli ýmissa deilda. Upplifunin eftir lestur tillögunnar er sú, að sú undirbúningsvinna sem liggur fyrir sé afar skammt komin og kannski er betra að bíða með frekari opinberun það sem ferlar eru skýrðir.

    Regína Ásvaldsdóttir og Helgi Grímsson taki sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs, dags. 23. september 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs á tillögu um sameiginlegan stýrihóp um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérþarfir, ásamt fylgiskjölum. R19090253
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samhliða verkefninu Betri borg fyrir börn er settur á fót sameiginlegur stýrihópur skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs sem mun skoða hvernig megi bæta og einfalda skipulag og gera markvissari þá stoðþjónustu sem borgin veitir börnum með sérstakar þarfir. Tilgangurinn er að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar með það að markmiði að hún skili viðkomandi börnum betri líðan, félagslegri stöðu og framförum í námi. Mikilvægt er að hafa gott samráð við stjórnendur og annað starfsfólk og aðra hagsmunaaðila í hverfinu sem málinu eru viðkomandi við útfærslu og innleiðingu þessara breytinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meðal verkefna stýrihópsins er að meta árangur af sérkennslu, stuðningi og skólaþjónustu með það fyrir augum að auka gæði og virkni þjónustunnar fyrir viðkomandi börn. Að sjálfum árangursmælingunum verða vissulega að koma utanaðkomandi, hlutlausir aðilar. Skóla- og frístundasvið hefur alla tíð rennt blint í sjóinn með það hvernig fjármagni um 5 milljarðar sem veitt er í sérkennslu nýtist börnunum þar sem engar samræmdar árangursmælingar hafa verið gerðar. Það sem rannsóknir hafa hins vegar sýnt er að um 30% drengja og um 12% stúlkna geti hvorki lesið sér til gagns né til gamans við lok grunnskóla. Vaxandi vanlíðan barna samkvæmt rannsóknum má án efa rekja mikið til ástandsins í skólamálum en í vanbúnum „skóla án aðgreiningar“ er ekki verið að mæta þörfum allra barna oft með hörmulegum afleiðingum. Áður en lengra er haldið með verkefnið Betri borg, sem hefur verið fyrir börnin í Breiðholti og stendur til að skoða að færa það í aðra borgarhluta, þurfa einnig að liggja fyrir einhverjar árangursmælingar. Þær mælingar þarf að vinna með þjónustuþegum ef eitthvað á að marka þær. Að borgin sé sífellt að mæla sig sjálf nær engri átt. Þær niðustöður geta aldrei orðið trúverðugar. 

    Regína Ásvaldsdóttir og Helgi Grímsson taki sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvernig eftirliti og eftirfylgd er háttað með umhirðu verktaka Reykjavíkurborgar á vinnustað og hver viðurlögin eru séu reglur brotnar. Í stöðluðum útboðsákvæðum borgarinnar segir að verktaki skuli ávallt sjá um að allir efnisafgangar séu fjarlægðir jafnóðum. Verktaki skal sjá svo um að umhirða á vinnustað, vinnuskúrum og á lóðum sé ávallt góð og skal verktaki fara eftir fyrirmælum eftirlitsmanns þar að lútandi. Um almenna umgengni og umhirðu á vinnustað vísast að öðru leyti til kafla 4.2, ÍST 30. Verktaki skal enn fremur gæta ítrustu varúðar og öryggis við framkvæmd verksins. Hvernig er eftirliti borgarinnar með ofangreindu háttað og hvaða hluti eftirlitsins er á forræði borgarinnar? Borgarfulltrúi hefur fengið sendar myndir af byggingarstað þar sem umhirðu er ábótavant. Þegar umhirðu er ábótavant eru meiri líkur á að slysahætta skapist. Borist hafa upplýsingar um slaka umhirðu á byggingarstöðum t.d. í Úlfarsárdal. Þar ægir sumstaðar öllu saman, tæki, tólum og drasli. Sjá má moldar- og vatnspytti á byggingastöðum, hauga af byggingarefni og annarri óreiðu jafnvel á götum sem tengjast ekki byggingarsvæðinu sjálfu. Sagt er að lóðarhafar til margra ára safna byggingaefni á lóðir án þess að hefja framkvæmdir. Sumum finnst þetta ekki vinnustaðir heldur safnhaugar. R19090303

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsviðs.

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að borgarfulltrúar, embættismenn og starfsmenn Reykjavíkurborgar sem farið hafa erlendis á kostnað borgarinnar planti trjám til að vega upp á móti flugferðum sínum og birti afrakstur sinn á opinberu vefsvæði og/eða greiði eðlilega upphæð til t.d. Kolviðar eða skógræktarfélaga. Með einni flugferð frá Keflavíkurflugvelli til London sem dæmi er talið að losun á koltvíoxíði sé um það bil 210 kg á farþega. Með sömu forsendum og eru hér að ofan má því segja að til að vega upp á móti flugferð til London þyrfti hver farþegi að planta um það bil 120 trjám. Sama fjölda þarf að sjálfsögðu að planta vilji farþeginn vega upp á móti losun koltvíoxíð á heimferðinni. Sá borgarmeirihluti sem nú situr hefur ítrekað gefið sig út fyrir að vera umhverfisvænn en í svo mörgu er ekki verið að sýna það í verki. Það er ekki nóg að tala um loftslagsmál og hvernig breyta eigi neysluvenjum til að sporna við frekari losun gróðurhúsalofttegunda og gera svo minnst af því sjálfur. Það hefur ekki dregið úr flugferðum starfsmanna Reykjavíkurborgar síðustu fjögur ár nema síður sé og er það umhugsunarefni. R19090304

    Frestað.

  29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda fjarfunda/streyma sem borgarfulltrúar, embættismenn, yfirmenn og starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa valið að sitja í stað þess að taka sér ferð á hendur til að sækja fundi/ráðstefnur/námskeið á erlendri grund. Það er brýnt að borgarmeirihlutinn setji það sem reglur hjá sér að ávallt skal leita leiða til að funda í gegnum fjarfundarbúnaði þegar taka á þátt í alþjóðafundum. Senda þarf til alþjóðasamfélagsins þau skilaboð að Reykjavíkurborg óski eftir slíkri þátttöku í stað þess að mæta á staðinn. Komi slík skilaboð frá Reykjavíkurborg má gera því skóna að boðið verði upp á þennan möguleika í flest öllum tilfellum. Fjarfundur á að verða meginreglan og flugferð erlendis á fund þá undantekningin. Hér verða kostnaðar- og mengunarsjónarmiðum að vera haldið til haga í mun meira mæli en gert hefur verið. R19090305

  30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að borgin fari í átak við að fjölga bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar. Oft er spurt hvar megi leggja hópferðabifreiðum t.d. að kvöldlagi og yfir nótt? Fólks spyr vegna þess að iðulega er stórum bílum lagt í hverfum, þvert yfir allt að 5 stæði við fjölbýlishús. Í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík segir: „Vörubifreiðum sem eru 4 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira og fólksflutninga¬bifreiðum sem flytja mega 10 farþega eða fleiri má ekki leggja á götum eða almennings¬bifreiða¬stæðum nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar. Borgarstjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði þar sem undanþága hefur verið veitt“. En það er ekki nóg að banna eitthvað og hafa engin önnur úrræði til að bjóða. Vegna skorts á bílastæðum fyrir stóra bíla verða bílstjórar vöruflutningabíla oft að leggja á stöðum sem ekki er gert ráð fyrir að stórum bíl er lagt. Vandinn er oft slíkur að fólk sem býr í húsunum eða gestir fá ekki stæði vegna þess að stæðin hafa verið teppt af stærri bifreiðum. Bílastæðavandi stærri bifreiða er greinilega eitthvað sem þarf að skoða R19090307

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  31. Á fundi borgarráðs 19. september sl. lagði áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fram svohljóðandi tillögu sem var ranglega tekin inn í fundargerð og er lögð fram að nýju með lagfæringu:

    Flokkur fólksins leggur til að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar. Í dag eru aðeins fjórar skólahljómsveitir í Reykjavík, (í Austurbæ, í Árbæ og Breiðholti, í Vesturbæ og í Grafarvogi) en hverfi borgarinnar eru 10. Eftir stendur Grafarholt og Úlfarsárdalur, Háaleiti og Bústaðir, Laugardalur, Hlíðar og Miðborg. Á sjöunda hundrað nemendur stunda nám í þessum hljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru tæp 15 þúsund. Fleiri nemendur hefðu án efa áhuga á að sækja um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í öllum grunnskólum. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt og ekki á færi allra foreldra. Tónlistarskólinn á Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á tónlistarnám og ekki er á allra færi að stunda slíkt nám vegna mikils kostnaðar gæti þátttaka í skólahljómsveit verið góður valmöguleiki. Með því að hafa skólahljómsveit í öllum hverfum er tækifæri til tónlistarnáms flutt í nærumhverfi barnanna. Reykjavíkurborg tryggir með þessu að börnum sé ekki mismunað á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám. R19090308

  32. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg opni Austurvöll og fjarlægi upphlaðin blómabeð sem liggja milli Vallarstrætis og Austurvallar. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19090309
    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

    Fylgigögn

  33. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    1. Hvað á að gera við opið svæði við Vesturbæjarsundlaug? 2. Mjög misvísandi upplýsingar eru um málið og hefur verið nefnt hundagerði og hjólabrettagarður – er annað hvort eða bæði fyrirhugað – eða eitthvað annað? R19090310

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsviðs.

  34. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Bílarnir RX-X04 og FM-E45 fundust í bílakjallara í rótgrónu íbúahverfi. 1. Hvers vegna eru bílar Reykjavíkurborgar geymdir á þessum stað? 2. Hver kom þeim þarna fyrir? 3. Hverjir innan stjórnkerfisins vissu af tilvist bílana á þessum stað? 4. Eru fleiri bílar Reykjavíkurborgar gleymdir/geymdir í bílakjöllurum/bílastæðum í íbúahverfum? 5. Hvernig er talningu/yfirsýn yfir bílaflota Reykjavíkur háttað? 6. Hvað er Reykjavíkurborg skráð fyrir mörgum bílum og hvert er áætlað verðgildi þeirra? 7. Er vitað hvar allir bílarnir eru staðsettir í hús? 8. Hefur það gerst að „gleymdir“ bílar hafi verð seldir og andvirði þeirra ekki skilað sér í bókhald Reykjavíkur? 9. Hver er það hjá Reykjavíkurborg sem sér um að kaupa og selja bíla? 10. Hver tekur ákvörðun um kaup og sölu bíla hjá Reykjavíkurborg? R19090311

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

    -    Kl. 11.47 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum. 

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að fylgiskjali 1 með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði verði breytt þannig að ekki verði litið til þess hvort meira en sex mánuðir eru eftir af leigusamningi þegar metið er hvort umsækjandi skori 0 að 1 stig þegar húsnæðisþörf er metin út frá húsnæðisstöðu. Umsækjendur um félagslegt húsnæði þurfa að skora ákveðið mörg stig í matinu til þess að þeir komist inn á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Það kann að vera skynsamlegt að líta til þess hve mikið er eftir af leigusamningi þegar kemur að úthlutun en það ætti ekki að mynda hindrun fyrir því að fólk komist inn á biðlista. Annars er til staðar óeðlilegur hvati til þess að fólk segi upp leigusamningum í von um að komast inn á biðlista eftir félagslegu húsnæði, sem e.t.v. er lengri en uppsagnarfrestur leigusamnings. Það ætti því aðeins að hafa þýðingu við mat á því hvort viðkomandi skori 0 eða 1 stig þegar húsnæðisþörf er metin hve íþyngjandi leigukostnaður er.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19090312
    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

    Fylgigögn

  36. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að allir borgarfulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur, sem kjörnir eru aðalmenn, fái aðgang að dagskrá og gögnum sem lögð eru fyrir borgarráðsfundi áður en fundir borgarráðs fara fram. Þannig verði kjörnum fulltrúar gert að láta þær upplýsingar í té sem ætlast er til af þeim og/eða gangast undir þá skilmála sem gerð er krafa um svo unnt sé að veita þeim aðgang að borgarráðsgögnum. R19090314

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

    -    Kl. 11.57 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 

Fundi slitið klukkan 11:58

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Skúli Helgason