Borgarráð - Fundur nr. 5556

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 12. september, var haldinn 5556. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Valgerður Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram, Bjarni Þóroddsson og Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 5. september 2019. R19010016

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 2. september 2019. R19010037

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins undir 8. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins vill gera athugasemdir við dagskrá og fyrirkomulag sameiginlegs fundar borgarstjórnar og ofbeldisvarnarnefndar. Kynningar tóku megnið af fundinum sem aðeins var áætlaður um þrjá tíma. Tíminn sem borgarfulltrúar fengu til að ræða málið var afar takmarkaður. Þeim var skammtað þrjár mínútur á mann. Hér var um mikilvægt mál að ræða sem hefði þurft meiri umræðu. Á það skal minnt að fundir borgarstjórnar eru umræðuvettvangur og sá eini sem borgarfulltrúar hafa fyrir opnum tjöldum. Kynningar má lesa fyrir fundinn. Einnig er gerð athugasemd að ekki var leyft að senda inn bókanir á fundinum, „sagt að sé ekki hefð fyrir því“. Engu að síður hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins bókað á sambærilegum fundi með fjölmenningarráði.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata undir 8. lið fundargerðarinnar:

    Dagskrá borgarstjórnarfunda er ákvörðuð á vettvangi forsætisnefndar þar sem borgarfulltrúi Flokks fólksins er áheyrnarfulltrúi með málfrelsi og tillögurétt. Dagskráin var samþykkt á fundi forsætisnefndar án athugasemda samanber 18. lið fundargerðar frá 30. ágúst.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins undir 8. lið fundargerðarinnar: 

    Það er rétt að ekki var gerð athugasemd á fundi forsætisnefndar um fyrirkomulag þessa fundar en þá kom heldur ekki fram að borgarfulltrúum yrðu aðeins skammtaðar 3 mín. í pontu. Hvað varðar þennan fund sem hér um ræðir með ofbeldisvarnanefnd í borgarstjórn. Eðlilegast hefði verið að senda út kynningar fyrir fundinn til lestrar og fundinum hefði síðan verið varið í umræðu enda er borgarstjórn umræðuvettvangur borgarfulltrúa. Ávallt ætti að hvetja til bókana sem er eiginlega eina tæki minnihlutans til að tjá sig fyrir utan að geta tekið til máls í borgarstjórn.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 2. september 2019. R19010024

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Um er að ræða ábyrgð eigenda SORPU vegna lántöku í ljósi breytinga á fjárfestingaráætlun samlagsins. Lánið er tekið til að fjármagna viðbótarkostnað við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi ásamt nauðsynlegum tækjabúnaði. Þá skal því haldið til haga að málið er á borði stjórnar SORPU enda hefur hún tekið málið föstum tökum og falið formanni og varaformanni stjórnar að fá óháðan aðila til að framkvæma úttekt á starfsemi félagsins og leggja tillögur fram á næsta stjórnarfundi SORPU. 

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Hér er um 1600 milljón króna framúrkeyrslu að ræða vegna margvíslegra og stórfelldra mistaka. Engar haldbærar skýringar eru fyrir því hvernig þetta gat gerst og kallar það því á óháða úttekt. Eðlilegast er að fela innri endurskoðanda borgarinnar slíka úttekt eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Það vantar rúman 1,6 milljarð inn í rekstur SORPU bs. Ekkert kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 að staðan væri með þessum hætti. Í honum undirritar ytri endurskoðandi reikninginn með þessum orðum: „Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu félagsins 31. desember 2018 og afkomu þess og breytingu á handbæru fé á árinu 2018, í samræmi við lög um ársreikninga.“ Athygli vekur að skipt var um ytri endurskoðun SORPU bs. á milli endurskoðunarára eins og hjá Reykjavíkurborg. Kynnt var á fundinum að til stæði að lengja í lánum hjá Íslandsbanka úr 5 árum í 15 en það lán stendur í einum milljarði. Óskað var eftir nýrri lántöku hjá lánasjóði sveitarfélaga upp á milljarð. Þá á að framlengja 500 milljóna framkvæmdalán um 2 ár. Það er óhjákvæmilegt að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki vitað af þessari gríðarlegu framúrkeyrslu og er það grafalvarlegt mál að stjórn félagsins hafi ekki verið upplýst um málið fyrr en í júní á þessu ári. Hér á sér stað hylming sem kallar á viðamikla, utanaðkomandi rannsókn. Velta má fyrir sér hvort félagið sé að verða ógjaldfært. Einnig er tekið undir bókun minnihluta bæjarráðs Kópavogs að komi til greina að skipa félaginu neyðarstjórn.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðarinnar

    Fram kemur undir lið 1 í fundargerðinni að taka á lán, einn milljarð króna, til 15 ára til að mæta viðbótarkostnaði við byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Viðbótarkostnaðurinn er sagður tilkominn vegna mistaka/handvammar. Fyrir handvömmina eiga borgarbúar að greiða en enginn hjá SORPU mun ætla að axla ábyrgð. Því er mótmælt að seilast eigi í vasa borgarbúa til að greiða fyrir stjórnunarklúður SORPU og í framhaldinu á að láta eins og ekkert hafi í skorist. Svona vinnubrögð eru óásættanleg og ekki borgarbúum bjóðandi. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð. Finna þarf aðrar leiðir til að bæta fyrri skaðann en að senda notendum reikninginn.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 11. september 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins undir 4. og 6. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Miðflokksins gerði athugasemd við samþykkt rammaskipulags vegna Kringlureits á síðasta ári á þeim forsendum að ekki hafi verið gengið frá skipulagi vegna mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Samkvæmt rammaskipulagi eru þó einungis sex metrar frá húsvegg fyrirhugaðra bygginga á reitnum að þessum lykil stofnbrautum borgarinnar. Áður en lengra er haldið þarf í samráði við Vegagerðina að ganga að fullu frá skipulagi vegna mislægra gatnamóta þessara stofnbrauta og þeim vegtengingum sem því fylgja. 
    Fulltrúi Miðflokksins tekur undir innsendar athugasemdir varðandi Lækjargötu 8, og veltir því upp hvers vegna verið er að leyfa þreföldun byggingarmagns á lóðinni með tilheyrandi skerðingu gæða nágranna. Núgildandi deiliskipulag er frá árinu 2008 og því ekki um eðlilega breytingu að ræða vegna breyttra tíma. Talað er um óverulegar breytingar, en raunin er þreföldun byggingamagns. Það eru ekki óverulegar breytingar. Í ljósi nýlegra úrskurða Úrskurðarnefndar Umhverfis og auðlindamála telur fulltrúi Miðflokksins rétt að staldra hér við og að tekið sé tillit til innsendra athugasemda.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokkur fólksins undir 11. lið fundargerðarinnar:

    Ekkert er fengið með lengingu gjaldskyldutímans og stækkun gjaldsvæðis annað en að fæla fólk sem kemur á bíl úr miðbænum. Sagt er að markmiðið sé „betri stýring umferðar, hagkvæmari nýting stæða og auknar tekjur.“ Þvert á móti er verið með þessu að fæla bílaeigendur frá því að koma í bæinn. Skilaboðin eru, „ekki koma í bæinn ef þú ætlar að koma á bílnum þínum“. Önnur rök eru: Hagkvæm nýting stæða? En málið er að nú þegar er slæm nýting stæða t.d. í bílahúsum. Hugnast ákveðnum hópum alls ekki að fara með bíl sinn inn í þau. Auknar tekjur eru önnur enn ein rökin meirihlutans? Varla verður mikið um auknar tekjur ef færri koma á bíl sínum í bæinn vegna ósanngjarnar stæðisgjaldtöku. Með þessu stefnir bærinn í enn einsleitari bæ þar sem ferðafólk og búendur hans fara um og kannski aðrir á tyllidögum. Þessi aðgerð mun leiða til frekari flótta fyrirtækja úr bænum og er nú nóg samt. Fara ætti í þveröfuga átt til að laða fólk í bæinn líka það fólk sem kemur á bílum. Hafa ætti bifreiðastæðaklukku sem hefur reynst afar vel víða og enga gjaldskyldu a.m.k. 2 tíma á daga í útistæðum og í bílastæðahúsum og gjaldfrjáls stæði í bílastæðahúsum á nóttum.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls tólf mál. R19090006

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið: 

    Furðu er lýst yfir dagskrárlið 4 og 5 í fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga. Voru þetta brýnu málin af 38 dagskrárliðum? Það er greinilega mikið að gera hjá siðanefnd en hún hefur fundað fjórum sinnum frá 10. apríl. Í dagskrárlið 5, sem ber heitið Hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa voru lögð fram „drög um fagteymi sambandsins vegna brota á hegðunarreglum fyrir kjörna fulltrúa“ dags. 20. ágúst 2019 og „uppfærðar hegðunarreglur“ dags. 21. ágúst 2019. Siðanefnd var falið að vinna málið áfram og leggja fyrir næsta stjórnarfund ásamt kostnaðarmati vegna málsins. Hér er Samband íslenskra sveitarfélaga komið á hálan ís og langt, langt fram úr hlutverki sínu. Hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa? Er sveitastjórnarstigið komið á leikskólastigið með fullri virðingu fyrir leikskólabörnum. Nú stendur til að fjötra málfrelsi kjörinna fulltrúa bæði með siðareglum og hegðunarreglum góða fólksins. Undir hvora regluna fellur það þegar t.d. kjörinn fulltrúi ullar á annan? Óskað er eftir að borgarráð fái drög að þessum hegðunarreglum og brota á þeim fyrir kjörna fulltrúa. Ekki er hægt að fjötra málfrelsi kjörinna fulltrúa með heimatilbúnum reglum sem eiga sér ekki lagastoð. Það sannaðist í nýlegu máli þegar rannsóknarréttur ráðhússins var virkjaður fyrir upplognar sakir í ímynduðu eineltismáli gegn kjörnum fulltrúa.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Í kjölfar #metoo afhjúpaðist það að þörf er á að kjörnir fulltrúar rétt eins og aðrir hugi að því hvort framkoma þeirra og hegðun sé að valda öðrum vanlíðan eða sé hreinlega áreitni eða ofbeldi. Siðanefnd Sambands Íslenskra sveitarfélaga er leiðbeinandi fyrir sveitarfélög um setningu siðareglna og hefur nú unnið drög að leiðbeinandi hegðunarreglum sem sveitarfélög gætu sett sér kjósi þau það. Akureyri hefur þegar sett sér slíkar reglur og fleiri sveitarfélög huga að því og er það vel. Það er hagur sveitarfélaga að stuðla að öryggi kjörinna fulltrúa. Ekki kemur á óvart að fulltrúi Miðflokksins sé ekki hlynntur slíku ef horft er til framgöngu sumra fulltrúa þess flokks undanfarið og Klausturmálið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun undir 3. lið: 

    Afhjúpunin er algjör. Nú skal hið svokallaða Klausturmál trimmað upp á sveitastjórnarstiginu. Minnt er á að varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga situr í borgarráði. Er þetta stefna sambandsins? Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins fer ekki niður á sama plan og meirihlutinn að ræða kynferðisafbrot kjörinna fulltrúa á vinstri vægnum þrátt fyrir að slíkt er staðreynd. Gagnbókun meirihlutans dæmir sig sjálf og hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa eiga ekkert skylt við gróft ofbeldi. Slíkt á heima hjá lögreglunni og þá hugsanlega í framhaldi af því hjá dómstólum. Verið er að næra dómstól götunnar með svona ólögbundnum hegðunarreglum.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu og borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um veitinga- og gististaði.  R19090005

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R19010041
    Öllum styrkumsóknum hafnað.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. september 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 24 við Borgartún, ásamt fylgiskjölum. R19090093
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata:

    Umrædd deiliskipulagsbreyting snýr að því að bæta við og stækka fermetratölu fyrir bílastæðahús neðanjarðar. Nýtingarhlutfall ofanjarðar helst óbreytt. Lögbundið samráð er og hefur verið haft vegna breytinga á deiliskipulagi á reitnum við Borgartún 24. Ekki verður tekið undir það meginsjónarmið að allar forsendur íbúðakaupa verði að engu við það að önnur uppbygging eigi sér stað í nágrenninu.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma samráðsleysi í þessu máli og greiða atkvæði gegn.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Miðflokkurinn fordæmir að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila, þ.e. íbúa og rekastaraðila,við ákvörðunartöku um að varanlegar göngugötur. Gulmiðavika í ráðhúsinu er ekki samráð, það er sýndarsamráð. Gerræðisleg vinnubrögð sem þessi eru ekki merki um að sátt sé ofarlega á baugi hjá borgarstjóra og meirihlutanum enda hefur nú verið ákveðið að svara í engu fjölda athugasemda og undirskriftalistum frá meginþorra rekstraaðila. Stórkostleg fjárútlát borgarinnar vegna Laugavegarins, sem eru á döfinni hafa ekki verið kynnt borgarráði en tillögur um slíkt voru lagðar fram í trúnaði í umhverfis- og heilbrigðisráði. Sama samráðsleysi er varðandi Borgartún 24. Allar forsendur íbúa við kaup á því svæði eru í uppnámi. Sú aðferðarfræði sem meirihlutinn beitir er á þessa leið: Deiliskipulagsbreyting unnin án samráðs við nærumhverfi, deiliskipulag sett í auglýsingu undir formerkjum samráðs og allar athugasemdir sem berast virtar að vettugi. Þessi vinnubrögð eru til skammar og ekki til merkis um góða stjórnsýsluhætti. Reykjavíkurborg er stjórnvald sem ber að fara að stjórnsýslulögum.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. september 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.1, Frakkastígsreits, vegna lóðanna nr. 33, 35 og 37 við Laugaveg og 4 við Vatnsstíg, ásamt fylgiskjölum. R19060018
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. september 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5, Laugavegs- og Skólavörðustígsreitir, vegna lóðarinnar nr. 20B við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum. R19040243
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. september 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna nr. 26, 28 og 30 við Skúlagötu, ásamt fylgiskjölum. R19090096
    Samþykkt. 

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Þarna er fyrirhuguð hótelíbúðauppbygging og íbúðauppbygging. Ekki er þörf á frekari hóteluppbyggingu í borginni þegar borgarbúar eru í mikilli þörf fyrir íbúðauppbyggingu.

    -    Kl. 9:35 tekur Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir víkur af fundi. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags 5. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. september 2019 á kynningu á lýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Suðurlandsbraut 34/Ármúla 31, reitur 1.265, í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga n r. 123/2010, ásamt fylgiskjölum. R19090097
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt er fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. september 2019 á auglýsingu á tillögu að heiti sunds, næst fyrir vestan Þjóðleikhúsið, ásamt fylgiskjölum. R19090095
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. ágúst 2018 á trúnaðarmerktum tillögum, að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir 2019 sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 22. ágúst 2019 og fært í trúnaðarbók. R19080109

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Flokkur fólksins vill aftur gera athugasemd við liðinn Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2019 vegna sömu atriða og 2018. Enn virðist ekki hægt að veita fegrunarviðurkenningu húsum utan ákveðins miðsvæðishrings. Hvað með hverfi eins og Skerjafjörð, Breiðholtið, Árbæ og Grafarvog? Flokkur fólksins telur mikilvægt að í hvert sinn sem borgin veitir viðurkenningu af hvers lags tagi skuli leitað vítt og breitt en ekki einblína á eitt svæði eða tvö. Á það skal bent að víða í úthverfum borgarinnar er verið að endurgera og endurnýja hús sem hefðu vel getað komið til greina við ákvörðun á fegrunarviðurkenningu borgarinnar. Vel mætti fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því nema að kaupa blómavönd. Að veita svona viðurkenningu er hvatning fyrir fólk og ekki ætti endilega að leggja áherslu á að húsin hafi einhverja sérstaka sögu eða flokkist undir einhvern frægan byggingarstíl. Hugmynd Flokks fólksins sem hér er lögð fram í bókun er að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:

    Sérstaða húsa í miðborg og nærliggjandi hverfum er mikil sökum aldurs. Það er því ekkert óeðlilegt að mörg þeirra húsa og lóða sem fá viðurkenningar eru staðsett þar. Hins vegar er einnig mikið af fallegum endurbótum í öllum hverfum og er öll Reykjavík til skoðunar þegar nefndin þarf að velja hús og lóðir sem eiga skilið Fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar. Það myndi missa marks að binda hendur valnefndar við að þurfa að velja eitt hús í hverju í hverfi og er henni treyst til að gæta jafnræðis og vera fagleg í sínum störfum og velja út frá þeim línum sem eru lagðar og henni ber að vinna eftir. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags 9. september 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við frágang Bryggjugötu við Austurbakka og gerð hjólastígs við Geirsgötu við Miðbakka, ásamt fylgiskjölum. R19050265
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað við Klettaskóla, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. R19050018

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Í fjárhagsáætlun 2013 var ráðstafað í viðfangsefnið viðbygging og breytingar í Klettaskóla 350 milljónum. Árið 2014 var ráðstafað 150 milljónum. Árið 2015 voru settar 325 milljónir. 2016 fóru 600 milljónir í verkið. 2017 var ráðstafað 900 milljónum. 2018 fóru 100 milljónir í verkið og í fjárhagsáætlun 2019 er gert ráð fyrir 100 milljónum. Upplýst var á fundinum að fimm viðaukar hafi verið lagðir fram á árunum 2015 – 2018 að upphæð 940 milljónir. Stærsti hluti viðaukaheimilda kom inn á árinu 2018 eða 770 milljónir sem er athyglisvert þar sem einungis 100 milljónir fóru inn á verkið í fjárhagsáætlun fyrir það ár. Samþykktar fjárheimildir eru því 3.465 milljónir. Endalegur kostnaður varð hinsvegar 3.950 milljónir og vantar því samþykkt fyrir 485 milljónir í verkið. Allar mótbárur borgarinnar um að verkið hafi farið framúr kostnaðaráætlunum vegna þeirrar starfsemi sem í húsunum er meirihlutanum ekki til framdráttar. Enda ef svo væri myndi ríkið koma að þeim kostnaði en svo hefur ekki verið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir borgarinnar þar um. Viðbygging og breytingar á Klettaskóla fóru tæplega milljarð fram úr áætlun. Það er óhjákvæmilegt annað en að vísa því til Innri endurskoðenda Reykjavíkur að rannsaka verkið, eða þá hitt að fá óháða úttekt frá þar til bærum aðilum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fjárheimildir fyrir verkefninu er að finna allt frá árinu 2011 um 100 m.kr. Árið 2012 180 m.kr. 2013 350.m.kr. 2014 150 m.kr. 2015 225 m.kr. árið 2016 700 m.kr. Árið 2017 1.070 m.kr. árið 2018 1.150 m.kr. Frá upphafi til enda eru fjárheimildir til Klettaskóla 3.925 m.kr. en framkvæmdin sjálf er 3.950 m.kr.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Þessar upplýsingar standast ekki og upplýsir um óreiðu á fjármálastjórn Reykjavíkur. Það var fyrst á borgarráðsfundi 26. mars 2015 að heimilað var að bjóða út framkvæmdir við Klettaskóla. Fjárheimildir á árinu 2011, 2012, 2013 og 2014 upp á 780 milljónir bar að bakfæra í reikningum borgarinnar eins og lög kveða á um. Enda var þeirri spurningu varpað fram í fyrstu bókun hvað varð um þetta fjármagn. Ítekað er enn á ný að þetta verk þarf að fara í rannsókn. Mjög misvísandi upplýsingar eru að koma fram á fundinum sem ekki eru í samræmi við þær upplýsingar sem koma fram í svari við fyrirspurn minni. Haldbærar skýringar vantar hvers vegna verkefnið fór milljarð fram úr kostnaðaráætlun. Um það fjallar þetta mál og ekkert annað.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Kallað hafði verið eftir viðbyggingu og endurbótum húsnæðis og þjónustu við fötluð börn í Klettaskóla í áratugi. Um er að ræða umfangsmiklar nýframkvæmdir og endurbætur í búnaði, skólalóð og eldra húsnæði. Framkvæmdakostnaður fór fram úr áætlun sem nam 9,7% sem er innan skekkjumarka áætlunargerðar. Þá bættust við svokölluð viðbótarverk á framkvæmdatíma s.s. endurnýjun kennslubúnaðar en þróun á kennslu og hjálparbúnaði vegna fötlunar hefur verið mikil á undanförnum árum auk þess sem krafa í samfélaginu um viðunandi hjálpartæki fyrir nemendur Klettaskóla hefur aukist. Kærur nágranna vegna framkvæmdanna höfðu í för með sér breytta hönnun bygginganna m.a. með breyttri tengingu við eldra hús. Í kjölfarið virkjuðust ákvæði í byggingarreglugerð gagnvart öllu eldra húsnæði sem í heild var 3000 m2 i stað þeirra 1000 m2 sem gert var ráð fyrir áður. Á framkvæmdatíma var ákveðið að allt asbest í húsnæðinu yrði fjarlægt þegar í stað. Í kjölfar samráðs við foreldra voru fengin betri leiktæki á skólalóðina fyrir nemendur í takt við þarfir þeirra. Allar viðbótarfjárheimildir í verkefninu voru samþykktar af borgarráði á árunum 2015, 2016, 2017 og 2018. Það er metnaðarmál í Reykjavík að þjónusta nemendur sem eru með miklar þarfir líkt og krakkarnir í Klettaskóla - eins vel og hægt er.

    Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Mikið og gott starf er unnið í Klettaskóla og vel er hlúð að nemendum þar. Það er heiður fyrir Reykjavíkurborg að hafa verið treyst fyrir starfseminni. Upptaka þessa máls snýr á engan hátt að því góða starfi. Þetta mál snýst um eins milljarðs framúrkeyrslu á vegum borgarinnar. Hver ákveður skekkjumörk frá -10% til +15%? Þarna er sveifla upp á 25%, hver sættir sig við slíkar eftir á skýringar? Ein skýring fyrir framúrkeyrslunni er að tilboð verktaka haf verið 2.5% hærri en kostnaðaráætlun hafi verið. Sú staðreynd var ljós strax á árinu 2015 og átti því að koma inn á fjárhagsáætlun þá. Það er einnig með ólíkindum að ekki hafi tekist að svara fyrir það hvað hvert verk hafi kostað s.s. skólalóð, kennslurými og s.frv., og því borið við að unnið væri eftir magntölum verkþátta en ekki flatarmáli rýma. Það sýnir mikil lausatök í verkinu. Hér eru notuð þau gamalkunnu rök að viðbótarverk hafi fallið til á verktímanum og fleira í þeim dúr. Uppbyggingu og framkvæmdum er ruglað saman við tækjakaup. Ítrekað er að þetta verk þarf að rannsaka af þar til bærum aðilum.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins veltir fyrir sér öllum þessum viðbótarverkum í þessari framkvæmd sem leiddu til frávika í kostnaðaráætlun. Sagt er að það hafi ekki verið hægt að sjá þetta þetta fyrir. Í ljósi sögu borgarinnar sl. ár um framúrkeyrslur og vanáætlanir t.d. í braggaverkefninu, vitanum, mathöll og fleiri framkvæmdum virkar svona lagað tortryggileg. Varðandi viðbótarverkin er spurt hvort borgin hefði ekki geta sagt sér það strax að endurnýja þyrfti t.d. húsbúnaðinn og lóðina? Skortir ekki eitthvað á framsýni hér, að hugsa fram í tímann og sýna fyrirhyggju? Í þessari framkvæmd er um að ræða 348 m.kr. til hækkunar eða 9.7% sem er innan skekkjumarka áætlunargerðar. Spurning er hver ákveður skekkjumörkin og á hvaða forsendum? Flokkur fólksins fagnar annars öllum endurbætur í Klettaskóla enda löngu tímabærar og börn hafa allt of lengi stundað nám í afleitum aðstæðum. Viðbótarverk og frávik í kostnaðaráætlun er hins vegar ekki eitthvað sem hvorki kjörnum fulltrúum, embættismönnum eða starfsmönnum eiga að þykja vera í lagi.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9 september 2019, að flutningi á halla og afgangi vegna ársins 2018, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R19050089
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í kafla 3.4. Færsla fjárheimilda á milli ára kemur fram að rekstrarafgangur á sviði/stofnun færist á milli ára ef rekja má hann með skýrum hætti til góðrar fjármálastjórnunar. Flokki fólksins er umhugað um að hér sé ekki um hipsum haps aðferðir að ræða. Í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til grunnskóla kemur fram að hjá skóla- og frístundasviði fá grunnskólar að halda afgangi sem nemur 2% af úthlutuðum fjárhagsramma en afgangur umfram þessi 2% rennur til sviðsins og þar með til að mæta halla þeirra sem höfðu ekki staðið sig jafn vel í rekstrinum. Óskað er skýringa á af hverju þetta gildir um grunnskólanna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er umhugað um að gætt sé jafnræðis í þessu sem öðru. Almennt séð eru reglur um yfirfærslu fjárheimilda flóknar. Erfitt getur verið fyrir aðra þ.e. aðra en þá sem velkjast um í fjármálaumhverfi borgarinnar að átta sig á hinum og þessum skilyrðunum/reglum og meta sanngirni þeirra og faglegar forsendur. Einfaldleiki og gegnsæi skiptir máli í þessu sem öðru.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2019, að viðauka við fjárhagsætlun 2019 vegna tónlistarskóla, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar.

    -    Kl. 10.15 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  19. Lögð er fram tillaga borgarstjóra dags. 9. september 2019, að viðauka við fjárhagsáætlun 2019 vegna SORPU bs., ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og vinstri grænna:

    Um er að ræða ábyrgð eigenda SORPU vegna lántöku í ljósi breytinga á fjárfestingaráætlun samlagsins. Lánið er tekið til að fjármagna viðbótarkostnað við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi ásamt nauðsynlegum tækjabúnaði. Þá skal því haldið til haga að málið er borði stjórnar SORPU enda hefur hún tekið málið föstum tökum og falið formanni og varaformanni stjórnar að fá óháðan aðila til að framkvæma úttekt á starfsemi félagsins og leggja tillögur fram á næsta stjórnarfundi SORPU.

    Fylgigögn

  20. Lagt er fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 10. september 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. september 2019 á tillögu að breytingum á verklagsreglum um úthlutun styrkja á sviði menningarmála 2020, ásamt fylgiskjölum. R19070012
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  21. Fram fer kynning á uppbyggingu fyrir fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. 

    Bókanir undir þessum lið voru færðar í trúnaðarbók borgarráðs.

    Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Páll Björgvin Guðmundsson og Hrafnkell Á. Proppé taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16110082

  22. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að innri endurskoðun verði falið að gera óháða úttekt á málefnum SORPU bs., sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september 2019. R19090071
    Vísað til meðferðar stjórnar SORPU.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðs:

    Borgarráð treystir formanni og varaformanni stjórnar SORPU til að velja óháðan úttektaraðila til að taka út SORPU. Tekið er undir tillögu Sjálfstæðisflokksins að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er óháður og framúrskarandi kostur og eðlilegt að vísa tillögu þeirra til stjórnar SORPU.

    -    Kl. 11.25 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundarráð, og velferðarráð í samstarfi við ofbeldisvarnanefnd móti ný og fjölbreytt úrræði fyrir foreldra barna sem sýna árásargirni og ofbeldi. Á aukafundi borgarstjórnar sl. þriðjudag var lögð fram aðgerðaráætlun borgarinnar gegn ofbeldi 2018 til 2020. Áætlunin er yfirgripsmikil en í hana vantar umfjöllun um börn sem beita önnur börn og stundum fullorðna þ.m.t. foreldra og kennara sína ofbeldi. Börn eru skilgreind börn til 18 ára aldurs. Hvaða áætlanir hefur borgin fyrir þessi börn og foreldra þeirra? Fyrir foreldra barna sem glíma við reiðistjórnunarvanda og beita ofbeldi þarf að vera greiður aðgangur að fjölbreyttu ráðgjafar- og meðferðarúrræði. Ef ekki tekst að stöðva ofbeldishegðun barna er hætta á að þau haldi áfram að beita ofbeldi sem unglingar og á fullorðinsárum. Úrræði sem þetta þarf að fela í sér stuðning og fræðslu fyrir foreldra. Haldi ofbeldishegðun áfram er mikilvægt að barnið eigi þess kost að sækja námskeið þar sem stuðst er við atferlismótandi kerfi sem er sniðið að þörfum barnsins, aldri og þroska. Námskeið af þessu tagi hafa verið í boði á vegum Þroska- og hegðunarmiðstöðvar og e.t.v. einnig á vegum borgarinnar en í þau er langur biðlisti. R19090127

    Vísað til meðferðar ofbeldisvarnarnefndar.

  24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Fyrir dyrum standa umfangsmiklar framkvæmdir í samgöngum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvort meirihlutinn hyggist vinna að frekari þrengingum gatna á næstunni svipuðum þeim á Hofsvallagötu og á Grensásvegi. Eins og vitað er hafa þrengingar verið afar umdeildar þar sem þær hafa leitt til enn meiri tafa á umferð. Borgarmeirihlutinn hefur ekki viljað ljá máls á úrlausnum og hefur t.d. vísað frá tillögu um snjallstýringu ljósa. Langar bílalestir sem rétt sniglast áfram eru ekki einungis ökumönnum til ama heldur öllum vegfarendum. Bílum í umferðinni fjölgar eins og nýjustu kannanir sýna. Ekki er endilega víst að borgarlína breyti því en áætlað er að uppbyggingu hennar ljúki um 2030-35. Almenningssamgöngur henta einungis broti af borgarbúum. Tímanna tvenna tekur að komast milli staða enda situr strætó fastur í umferðarteppum um alla borg. Óttast er að komið sé að þolmörkum. R19090128

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að sá tími sem áætlaður er í að setja upp 90 viðbótar hleðslustöðvar verði styttur um helming og verði þær komnar upp innan eins og hálfs árs í stað þriggja ára. Komnar eru hlöður á nokkra staði í Reykjavík en betur má ef duga skal. Ljóst er að ef fólk getur ekki hlaðið rafbíla sína heima hjá sér og þarf að setja í samband við almenningshleðslur fælir það fólk frá að kaupa rafbíl en það mun tefja orkuskiptin. Það vantar hlöður í efri byggðir, t.d. Grafarvog og Breiðholt og reyndar miklu víðar. Þótt það séu hleðslustöðvar í hverfinu dugar það ekki ef aðeins er hægt að hlaða einn eða tvo rafbíla í einu. R19090129

    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að mæla þjónustustefnu borgarinnar um ákveðna þætti. Til er stefna sem heitir Þjónustustefna borgarinnar en hún var samþykkt í nóvember 2016 og aðgerðaáætlun í september 2017. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að margt í stefnunni sé ekki framkvæmt eða fylgt eftir. Eina leiðin til að komast að því hvaða hlutum hennar er ekki fylgt eftir, er að mæla árangur þátta svo sem hversu fljótt er leyst úr erindum o.s.frv. Þjónustustefnan er með átta áttavita. Flokkur fólksins myndi sérstaklega vilja láta mæla a.m.k. helming þeirra ef ekki alla: Hér eru fjórir af átta áttavitum sem mikilvægt er að mæla: Við komum fram við viðskiptavini af virðingu. Við leitum lausna og leiða í þágu viðskiptavina. Við vísum engum erindum frá. Við sinnum viðskiptavinum fljótt og vel. Ef mæla á áttavitana með trúverðugum hætti þarf að spyrja notendur þjónustunnar. Þetta þarf að gera af hlutlausum aðila. Kannski er ekkert til sem heitir algert hlutleysi en í það minnsta þarf að fá til verksins einhverja sem hafa engar tengingar við borgina nema að taka við þóknuninni fyrir könnunina. Flokkur fólksins myndi t.d. vilja kanna hjá leigjendum Félagsbústaða hversu vel þeim finnst erindum sínum sinnt í ljósi nýlegra breytinga hjá fyrirtækinu að senda ógreiddar kröfur til innheimtu hjá lögfræðingum. R19090130

    Vísað til meðferðar mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs.

  27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 
     
    Hvert er markmiðið skipulagsyfirvalda borgarinnar með að setja Miklabraut í stokk og hvað vinnst með því? Er gert ráð fyrir að aksturstíminn styttist eða er markmiðið aðallega að byggja meira t.d. á núverandi helgunarsvæði sem er meðfram götunni? Ef svo er, hvað er þá gert ráð fyrir miklu byggingarmagni? t.d. háhýsum? R19090131

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Háhýsi er þekkt fyrir að geta dregið vind niður að jörðu og myndað vindsveipi. Flokkur fólksins spyr hvort borgin hafi nýtt sér vindgöng og líkön til að mæla áhrif bygginga á vindhreyfingu ? Ef ekki, sér borgin ekki ástæðu til að nýta líkantilraunir til mæla vindáhrif? Hefur einhvern tíma verið reynt að mæla, í vindgöngum, áhrif af mismunandi lagi húsa á vindhreyfingar. Hægt er með slíkum tilraunum að prófa mismunandi gerðir háhýsa í og mæla hversu mikil áhrif húsin hafa á vindstreymi og hægt er að mæla hvar vindar skella niður að jörð. Form háhýsa skipta máli, ef hús eru stölluð eða mjókka upp eru minni líkur á að vindurinn skelli niður. R19090132

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Rætt hefur verið um orkuskipti á bílaflota Reykjavíkur. Á fundi með forsvarsmönnum sveitarfélaga og ráðherra samgangna um fyrirhugaða borgarlínu lagði ráðherrann ítrekaða áherslu á að „við værum að fara í orkuskipti“ Flokkur fólksins spyr hvernig orkuskipti er verið að tala um, metan? rafmagn? Hvað mun knýja almenningssamgöngur og hvað borgarlínu? R19090135

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hjá SORPU er verið að auka nýtingu á lífrænum úrgangi. Meðal annars með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Nýja stöð er verið að reisa í Álfsnesi. Það þýðir að meira metan verður til. Flokkur fólksins spyr: Hvað á að gera við allt þetta metan? Ef það verður ekki nýtt sem orkugjafi, á þá að stækka metanbálið í Álfsnesi? Í komandi orkuskiptum spyr Flokkur fólksins hvort ekki þarf að leggja áherslu á að borgin nýti þetta metan eða selji það? R19090140

    Vísað til umsagnar hjá stjórn SORPU.

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Meirihlutanum er tíðrætt um endurheimt votlendis í borgarsvæðinu. Flokkur fólksins spyr: Eru einhver svæði til í borgarlandinu núna sem skipta máli í endurheimt votlendis. Hvorki munu Laugamýri eða Kringlumýri verða endurheimtar, né Vatnsmýrin, en lítill hluti hennar er enn votlendi og verður væntanlega áfram. Hvaða aðrar mýrar í borgarlandinu er hægt að endurheimta? Óskað er eftir að fá lista yfir þær ef eru?  R19090137

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna a) hvernig skólar sinna forvörnum og b) hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Markmiðið með kerfisbundinni yfirferð sem þessari er einnig að samræma hvorutveggja eftir því sem þurfa þykir þannig að allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis bæði hvað varðar forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnsluferli. Flokkur fólksins leggur til að athugað verði sérstaklega hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri tiltæk og aðferðir, bæði almenn og sértæk til að geta tekið á móti og unnið með kvörtunarmál um einelti af öllum stærðargráðum með faglegum og skilvirkum hætti. Kanna þarf eftirfarandi sérstaklega: Er tilkynningareyðublað á heimasíðu? Er viðbragðsáætlun á heimasíðu? Er lýsing á úrvinnslu ferli kvörtunarmála aðgengileg á heimasíðu? Er upplýsingar á heimasíðu skólans hverjir sitja í eineltisteymi skólans? Er skýrt á heimasíðu hverjir taka við eineltiskvörtunum? R19090138

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðana um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Lagt er til af Flokki fólksins að skóla- og frístundarráð fundi með skólastjórnendum í Reykjavík. Markmiðið er að Skóla- og frístundarráð komist í betri tengsl við skólastjórnendur og fólkið á gólfinu og fái að heyra frá fyrstu hendi óskir þeirra og ábendingar um hvað betur má fara. Skýrsla Innri endurskoðunar gefur sterkar vísbendingar um að Skóla- og frístundarráð sé ekki og hafi ekki verið lengi í tengslum við skólanna. Of margir milliliðir eru milli skólastjórnenda, kennara, foreldra og barnanna annars vegar og stjórnvalds borgarinna í skólamálum hins vegar. Brúa þarf þetta bil og verður það aðeins gert ef Skóla- og frístundarráð fer í skólana með opnum huga og ræðir beint við stjórnendur, kennara og nemendur. Enda þótt fulltrúar allra skólahópa sitji fundir ráðsins er það ekki það sama og þau tengsl og tengingar sem hér eru lagðar til. R19090139

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Óskað er eftir að borgarráð fái drög að hegðunarreglum og brota á þeim fyrir kjörna fulltrúa sem fagteymi Sambands íslenskra sveitarfélaga vinnur að, dags. 20. ágúst 2019. R19010021

    Vísað til meðferðar á skrifstofu borgarstjórnar.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn vegna viðbótarverka í tengslum við Klettaskóla sem leiddi til að farið var fram úr kostnaðaráætlun. Viðbótarverkin eru tilkomin að sögn meirihlutans þar sem ekki var hægt að sjá öll verk fyrir er vörðuðu húsbúnað, lóð og húsnæði. Fram hefur komið í svari frá borginni að í þessari framkvæmd er um að ræða framúrkeyrslu að upphæð 348 m.kr. til hækkunar eða 9.7%. Fram kemur að það sé innan skekkjumarka áætlunargerðar. Spurt er: Hver og hvernig eru skekkjumörkin ákveðin og hverjar eru forsendurnar? R19090133

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fundi slitið klukkan 12:19

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir