Borgarráð - Fundur nr. 5555

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 5. september, var haldinn 5555. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram, Bjarni Þóroddsson  og Ívar Vincent Smárason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal. 

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 26. ágúst 2019. R19010031

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 4. september 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Í sáttmála meirihlutaflokkana í Reykjavík kemur eftirfarandi fram: "Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni." Samráð um útfærslu og kynningar á tilhögun stóðu yfir um langt skeið í ráðhúsinu og hefur tilraunverkefni um sumargötur staðið yfir um árabil og mælst afar vel fyrir skv. könnunum. Þá samþykkti borgarstjórn 4. september 2018 að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra göngugötur allt árið ásamt götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Var sú tillaga samþykkt með 21 atkvæði af 23.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að hunsa skoðanir fjölda fólks, rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila sem hrópa á hlustun. Hugtakið „samráð“ hefur verið afbakað. Það sem meirihlutinn kallar samráð er að bjóða fólki til fundar, leyfa því að blása út en ekkert er síðan gert með óskir þeirra hvað þá kröfur. Eitthvað fékk fólk jú að segja til um hvar setja ætti bekki og blómapotta. Þetta er kallað  „mikið og gott samráð“. Nýjustu viðbrögð meirihlutans í borgarstjórn er að segja að „Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu allir þá stefnu að gera Laugaveg að varanlegri göngugötu og umboð kjósenda því skýrt“. Öll vitum við að umboð þessa meirihluta er tæpt og stendur hann því á brauðfótum. Að vísa í eitthvað umboð er örvæntingarviðbragð meirihlutans. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að í þessu máli stígi meirihlutinn aftur á bak um nokkur skref og byrji á byrjuninni sem er að hafa alvöru samráð.  

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar :

    Miðflokkurinn fordæmir að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila, þ.e. íbúa og rekstraðila,við ákvörðunartöku um varanlegar göngugötur. Gul miðavika í ráðhúsinu er ekki samráð, það er sýndarsamráð. Gerræðisleg vinnubrögð sem þessi eru ekki merki um að sátt sé ofarlega á baugi hjá borgarstjóra og meirihlutanum enda hefur nú verið ákveðið að svara í engu fjölda athugasemda og undirskriftalistum frá meginþorra rekstraraðila. Stórkostleg fjárútlát borgarinnar vegna Laugavegarins, sem eru á döfinni hafa ekki verið kynnt borgarráði en tillögur um slíkt voru lagðar fram í trúnaði í umhverfis- og heilbrigðisráði. Sama samráðsleysi er varðandi Borgartún 24. Allar forsendur íbúa við kaup á því svæði eru í uppnámi. Sú aðferðafræði sem meirihlutinn beitir er á þessa leið: Deiliskipulagsbreyting unnin án samráðs við nærumhverfi, deiliskipulag sett í auglýsingu undir formerkjum samráðs og allar athugasemdir sem berast virtar að vettugi. Þessi vinnubrögð eru til skammar og ekki til merkis um góða stjórnsýsluhætti. Reykjavíkurborg er stjórnvald sem ber að fara að stjórnsýslulögum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19., 20., 21. og 22. lið fundargerðarinnar:

    19: Tal um mikið og gott samráð meirihlutans við hagsmunaaðila vegna lokunar gatna er orðið hjákátlegt. Ekki er hægt að draga borgarbúa á asnaeyrum út í hið óendanlega. Minnt er á nýsamþykktar siðareglur þar sem hvatt er m.a. til heiðarleika. Hið meinta íbúasamráð í Ráðhúsinu er fátt annað en grín. Ekki hefur verið tekið mark á kröfum fólksins og kallast það því ekki samráð. Halda á til streitu að loka götum varanlega þrátt fyrir gargandi mótmæli. Ekkert lögformlegt samráð hefur verið haft á grundvelli 40. gr. skipulagslaga 20: Fjöldi ábendinga/kvartana sem borist hafa Strætó bs er sláandi og snúa þær að mestu að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningar eins og segir í svari. Skoða þarf hvað er þarna í gangi. 21: Meirihlutinn hafnar samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila þrátt fyrir margítrekað ákall. Hér er með fordæmalausum hætti gengið fram hjá hagsmunaaðilum sem hafa  haft lífsviðurværi sitt á þessum götum. 22: Tillaga að  heimilt verði að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar í 120 mínútur á dag er felld. Bílastæðahúsin eru illa nýtt. Ekki er áhugi fyrir að kanna ástæður og finna leiðir til að þau verði betur nýtt til að laða t.d. íslendinga í bæinn. Það kostar líka að hafa tóm bílastæðahús.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R19090006

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um veitinga og gististaði, alls 9 mál. R19090005

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. september 2019, þar sem óskað er heimildar til að samþykkja lóðarvilyrði til byggingarfélagsins Miðgarðs vegna uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Bryggjuhverfi. R19090001
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt er að endurskoða endanlegar kvaðir í 5. gr. lóðarvilyrðis í þessu verkefni og öðrum sambærilegum áður en endanleg úthlutun á sér stað. Í vilyrðinu er verið að veita ákveðnum framkvæmdaaðilum sömu kjör og félögum á borð við Bjarg, þ.e. 45.000 kr. á m2. Athygli vekur að frestur til að kaupa íbúð er afar þröngur eða aðeins þrjár vikur. Almenn úrræði væru mun betri frekar en skömmtun, kvaðir og skilyrði. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Hér er um lóðarvilyrði að ræða og því eru kvaðirnar ekki staðfestar með þeirri ákvörðun að veita lóðarvilyrði. Kvaðirnar eru ekki endanlega staðfestar nema við endanlega úthlutun.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Bent er á að byggingafélagið Miðgarður er félag á vegum samtakanna um bíllausan lífsstíl. Hér er verið að samþykkja lóðarvilyrði til aðila sem hefur mikla tenginu inn í borgarstjórn og skipulags- og samgönguráð. Þessi úthlutun er á mjög gráu svæði.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Allir gátu tekið þátt og sent inn hugmyndir í verkefnið Hagkvæmt húsnæði. Gagnsær ferill raðaði áhugasömum hópum og fá Samtökin um bíllausan líffstíl nú tækifæri vegna þess að Heimavellir afþökkuðu lóð. Lóðavilyrði eru á hendi borgarráðs en ekki skipulags- og samgönguráðs og því kemur vanhæfi formanns skipulags- og samgönguráðs ekki til skoðunar.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að selja byggingarétt á lóð C í Bryggjuhverfi með útboðsfyrirkomulagi. R19080098
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 30. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að selja byggingarrétt lóðarinnar Koparsléttu 5 með útboðsfyrirkomulagi. R19080215
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15.ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning við Strætó bs., vegna Þönglabakka 4, ásamt fylgigögnum. R19080016
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að auglýst verði með útboðsfyrirkomulagi eftir kaupendum að byggingarétti á nýju uppbyggingarsvæði við Skerjafjörð á reitum 4 og 10, ásamt fylgiskjölum. R18100338
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikill áhugi er á uppbyggingu í 102 Reykjavík, hvort sem er í Skerjafirði eða á Hlíðarenda. Á borgarstjórnarfundi 3. september sl. var samþykkt að hefja undirbúning að samkeppni um skólabyggingu á svæðinu. Fullbyggður Skerjafjörður verður dásamlegt hverfi á frábærum stað í Reykjavík. Þá mun nálægð við Reykjavíkurflugvöll vonandi leysast á næstu árum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að auglýsa lóðir með útboðsfyrirkomulagi til „stórra byggingaaðila“ á reitum 4 og 6. Athygli vekur að þessir reitir liggja mjög nálægt flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Hér er vísað til rammaskipulags sem borgarráð samþykkti vorið 2018 en eins og oft hefur verið bent á hefur það ekkert gildi samkvæmt lögum. Deiliskipulag fyrir svæðið liggur ekki fyrir og borgin því komin langt fram úr sér í þessu efni. Mikið umferðarálag verður í Skerjafirði af þessari uppbyggingu sem ekki hefur verið kynnt fyrir íbúum.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. september 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni tilboðum í lóðirnar að Urðarbrunni 5 og Urðarbrunni 20,  frá lóðaútboði sem fram fór þann 29. ágúst 2019.  R19090002
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili fjárfestingu vegna endurgerðar fasteignarinnar að Úlfarsvellsvegi 31 svo að fasteignin geti nýst skjólstæðingum velferðarsviðs. R19080009
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að farið verði í endurgerð fasteignarinnar að Völvufelli 7a svo að fasteignin geti nýst fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs. R19080008
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tónleikar Secret Solstice verði haldnir með sambærilegu sniði og var í ár í Laugardal dagana 26. - 28. júní 2020 náist samningar um tónleikahaldið. Samningsdrög verði lögð fyrir borgarráð til afgreiðslu. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að láta framkvæma könnun meðal íbúa áhrifasvæða tónleikanna í þeim tilgangi að bregðast enn betur við ábendingum um það sem betur má fara í framkvæmd verkefnisins. R18110156

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjóri vill að tónleikar Secret Solstice verði haldnir með sambærilegu sniði og var í ár í Laugardal dagana 26. - 28. júní 2020. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að haft verði samráð við íbúa í nágrenninu og foreldrafélög. Framkvæma á könnun og verður það að vera gert af óháðum, viðurkenndum aðila. Flokkur fólksins vill að beðið verði eftir niðurstöðum og verði þær á þann veg að ekki sé vilji til að halda hátíðina í Laugardalnum ber borginni að una því. Hér er verið að segja að íbúar áhrifasvæða tónleikanna ákveði hvort hátíðin skuli haldin aftur á þessum stað. Að leggja fyrir könnun í þeim tilgangi einum að bregðast við ábendingum segir ekkert um hvort fólk sé almennt sátt við að hafa þessa hátíð aftur í Laugardalnum. Íbúar eiga að ráða þessu.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar. Pírata og Vinstri grænna: 

    Gott aðgengi að endurgjaldslausu vatni á tónlistarhátíðum í borgarlandinu er mikilvægt vegna skaðaminnkunarsjónarmiða til að tryggja öryggi gesta, standa vörð um þeirra líkamlegu og andlegu heilsu sem og að stuðla að jákvæðri útkomu viðburða fyrir gesti og umhverfi. Lagt er til að borgarráð samþykki að gera kröfu um aðgengi að endurgjaldslausu vatni á tónlistarhátíðum í borgarlandinu og að slíkt ákvæði verði framvegis að finna í öllum samningum og leyfum Reykjavíkurborgar og verði hluti af öryggisviðbúnaði hátíðanna.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19080164
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að stíga jákvætt skref til skaðaminnkunar í Reykjavíkurborg. Mikilvægt er að tryggja öryggi og velferð gesta tónlistarhátíða í Reykjavík og með því að tryggja aðgengi að endurgjaldslausu vatni er hægt að draga úr skaða vegna notkunar áfengis og annarra vímugjafa. Ef þú þarft að kaupa vatn á verði sem er ekki svo langt frá verði á áfengi þá er það freistandi að sleppa því að drekka vatn á milli áfengra drykkja, sérstaklega fyrir efnalítið fólk og stúdenta. Að auki getur það að þurfa að standa í langri röð til að geta neytt vatns verið letjandi hvað varðar vatnsneyslu og þar með er aðgengið skert. Hér er brugðist við þessu. Tillagan er að auki til þess fallin að draga úr plastnotkun því að besta leiðin til að tryggja gott aðgengi að endurgjaldslausu vatni er að setja upp vatnshana á svæðinu og þá er hægt að nýta eigin vatnsílát í stað þess að þurfa að kaupa vatn í plastflöskum. Þetta er því spurning um skaðaminnkun ekki bara fyrir fólkið í borginni heldur líka fyrir umhverfið.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

    Lagt er til að borgarráð staðfesti umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu að þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaráætlun fyrir árin 2019-2023. Hjálagt er minnisblað og umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. september 2019.  R18010060

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 28. ágúst 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs á breytingu á fulltrúa menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs í hússtjórn Borgarleikhússins þannig að Hjálmar Sveinsson taki sæti í stað Pawel Bartoszek. R18090149
    Samþykkt. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 29. ágúst 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta og tómstundaráðs frá 24. júní 2019 um stofnskrár fyrir Borgarbókasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur. R19090007
    Samþykkt. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf borgarstjóra og formanns borgarráðs með yfirliti yfir ábendingar og niðurstöður í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 dags. 3. september 2019.  R17080091

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Yfirlitið sem hér er lagt fram geymir þær ábendingar, athugasemdir og önnur atriði úr skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100, sem með einum eða öðrum hætti hafa kallað á viðbrögð borgarráðs og stjórnenda hjá Reykjavíkurborg. Brugðist hefur verið við þessum atriðum og í yfirlitinu er það dregið fram. Gríðarlega mikil vinna hefur verið unnin á undanförnum mánuðum við að einfalda, skýra og skerpa stjórnkerfið til að tryggja betur að saman fari umboð og ábyrgð. Að því tilefni viljum við þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sem hafa unnið að því hörðum höndum að undirbúa og skipuleggja þær umfangsmiklu skipulagsbreytingar sem tóku gildi 1. júní sl.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka yfirlitið og leggja áherslu á vandaða eftirfylgni þeirra ábendinga sem fram komu í skýrslu innri endurskoðunar. Endurbætur og uppbygging fasteigna í eigu sveitarfélags til almennrar útleigu er ekki hluti af lögbundnum verkefnum Reykjavíkurborgar sem sveitarfélags, líkt og fram kemur í umsögn borgarlögmanns dags. 15. apríl 2019. Að sama skapi er  frumkvöðla-, nýsköpunar- og háskólatengd starfsemi ekki hluti af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga. Taka verður undir með borgarlögmanni, að það hefði vissulega verið í betra samræmi við 7. gr. sveitarstjórnarlaga og vandaða stjórnsýsluhætti ef í tilvitnaðri tillögu til borgarráðs hefði komið fram hvernig aðkoma Reykjavíkurborgar að verkefninu samræmdist ákvæðum sveitarstjórnarlaga um ólögbundin verkefni. Kalla fulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir því að slíkur rökstuðningur sé framvegis veittur áður en ákvarðanir eru teknar um það hvort Reykjavíkurborg skuli taka að sér ólögbundin verkefni svo betur sé unnt að taka ákvarðanir um forgangsröðun fjármuna. Í tilfelli Nauthólsvegs 100 var umfangsmiklu opinberu fé varið í ólögbundið verkefni en það er mat Sjálfstæðisflokks að fjármununum hefði betur verið varið til grunnþjónustu við borgarbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lögð fram hvítþvottaskýrsla í málefnum Nauthólsvegar 100 – bragginn. Enn á eftir að rannsaka fleiri hundruð milljóna framúrkeyrslu. Enn er því ósvarað hvað kostar að klára verkið og náðhúsið stendur enn fokhelt þrátt fyrir að borgarstjóri hafi marg lýst yfir verklokum. Skýrslan fjallar um viðbrögð meirihlutans við því að framúrkeyrsla geti ekki orðið á ný. Þetta er lélegur brandari því mörg framúrkeyrsluverkefni bíða rannsóknar/athugunar eins og t.d. framkvæmdir við Klettaskóla. Skipuriti Reykjavíkur var breytt í upphafi kjörtímabils sem gerir rannsókn og eftirgrennslan með framúrkeyrsluverkefnum erfiðari fyrir kjörna fulltrúa sem hafa gríðarlega sterka eftirlitsskyldu. Borgarstjóri á enn eftir að svara hvað varð um peningana sem hurfu í bragganum. Fagmenn telja útilokað að hægt hafi verið að koma 450 milljónum í verkefnið. Það er harmað að innri endurskoðandi hafi ekki farið í þá vinnu að rannsaka reikninga og sannreyna þá með útgefendum. Einnig er á það minnt að tillaga um rannsókn þess bærra aðila var felld í borgarstjórn. Á meðan ekki er farið í rannsókn þá stendur braggaverkefnið galopið og án svara.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram yfirlit yfir ábendingar og niðurstöður í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100. Það er gott að vita til þess að ekki sé búið að gleyma braggamálinu og annað þar sem farið var á svig við sveitarstjórnarlög s.s. ekki gerðir samningar og ekki farið í útboð svo fátt sé nefnt. . Skýrslan um braggann er ein sú svartasta sem sést hefur og  áfellisdómur á borgarkerfið. Fleiri slíkar skýrslu fylgdu í kjölfarið.  Í skýrslunni rakti innri endurskoðandi fjölda atriða sem brást, þætti sem ekki er hægt að setja á reikning mistaka. Margstaðfest hefur verið að ábendingar hafa verið hunsaðar árum saman og hafa eftirlitsaðilar ítrekað bent á það í opinberum gögnum. Hvað þessu yfirliti líður og að fara eigi í að laga hluti þá er engu að síður langt í land með að byggja upp traust í garð borgarkerfisins. En vonandi liggur núna einhver alvara hér að baki.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða yfirlýsingu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. júní 2019, er varðar samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með vísan til hjálagðrar umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júlí 2019. R19010059

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. ágúst 2019 á reglum um stofnstyrki vegna daggæslu barna í heimahúsum, ásamt fylgiskjölum. R19080214
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er hluti af stefnu núverandi meirihluta að efla dagforeldrakerfið í borginni og bæta gæði þess samhliða markvissri uppbyggingu á leikskólaþjónustu í borginni í tengslum við aðgerðaáætlunina Brúum bilið. Einn liður í því að styrkja dagforeldraþjónustuna er að hvetja til fjölgunar dagforeldra með því að bjóða nýjum dagforeldrum svokallaða stofnstyrki. Nýir dagforeldrar geta sótt um að fá 300 þúsund krónur í stofnstyrk og með samþykkt reglna um hann á þessum fundi er aðgerðin formlega komin til framkvæmda.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2019, þar sem skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun og rekstur grunnskóla Reykjavíkur, dags. júlí 2019 er vísað til borgarráðs, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. ágúst 2019, ásamt fylgigögnum. R19050085
    Samþykkt að fela skóla- og frístundasviði og fjármála- og áhættustýringarsviði að gera tillögu borgarráðs um næstu skref vegna ábendinga í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun og rekstur grunnskóla Reykjavíkur.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Heildarrekstur aðalsjóðs borgarinnar nemur 125 milljörðum. Af þeirri heild nemur rekstur skóla og frístundasviðs 53 milljarða á ári – en af þeim fara 28 milljarðar til rekstur grunnskóla. Framlög til sviðsins hafa hækkað um 46% frá árinu 2013 en auk þess eru framlög per nemanda í Reykjavík með því hæsta á höfuðborgarsvæðinu. Úthlutunarlíkan sem notað er til að útdeila fjármagni til skólanna er nú endurskoðað af starfshópi sem skilar nú um áramótin. Þá er innri endurskoðun þakkað fyrir gagnlegar ábendingar. Sumar þeirra þarf að greina frekar en öðrum hlutum þarf að taka á, eins og félagslegt tillit varðandi úthlutanir til einstakra skóla. Í skýrslu innri endurskoðunar eru uppbyggilegar ábendingar sem kalla ekki á gífuryrði í þessum mikilvæga málaflokki.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir vel unna skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla borgarinnar. Skýrslan staðfestir það sem bent hefur verið á árum saman að fjármagn til skólanna hefur verið vanáætlað með þeim afleiðingum að skólarnir fara ítrekað fram úr fjárhagsramma sínum. Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að viðhaldi skólanna hefur ekki verið sinnt sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar. Tekið er undir meginniðurstöður skýrslunnar að mismunandi skilningur virðist vera á milli skólastjórnenda og skóla- og frístundasviðs annars vegar og fjárveitingavalds borgarinnar hins vegar um hvað er nauðsynlegt fjármagn til reksturs á grunnskólum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa miklum áhyggjum á þessu alvarlega skilnings- og áhugaleysi meirihluta borgarstjórnar á nauðsynlegri fjárveitingu til skólamála. Kallað er eftir tafarlausri leiðréttingu á ósamræmi milli fjárúthlutunar og nauðsynlegrar fjárþarfar, ósamræmi sem hefur látið viðgangast allt of lengi með tilheyrandi rekstrarvanda skólastjórnenda og erfiðleikum í skólastarfi í borginni. Grunnskólar borgarinnar standa almennt frammi fyrir því að nánast allir rekstrarliðir fá of knappt fjármagn segir í vandaðri og vel unninni skýrslu innri endurskoðunar, við það verður ekki unað lengur og er beinlínis virðingarleysi gagnvart þeim mikilvæga málaflokki sem skólastarf er.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það ríkir neyðarástand í málefnum grunnskóla Reykjavíkur. Svört skýrsla innri endurskoðanda staðfestir það. Þessu neyðarástandi er svarað með skipun starfshóps sem vonir eru bundnar við að ljúki störfum í árslok 2019. Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Hér fara hljóð og mynd ekki saman. Skóla og frístundasvið tekur til sín tæplega 50% af útgjöldum Reykjavíkur sem gerir rúma 50 milljarða samkvæmt fjárhagsáætlun 2019. Þar af fara rúmir 30 milljarðar í málefni grunnskólana. Athyglisvert er að yfirstjórn sviðsins kostar 1,5 milljarða. Ljóst er að mikil sóun á sér stað í þessum málaflokki og brýnt er að fara í heildar endurskoðun á sviðinu öllu. Viðhaldi hefur ekki verið sinnt þó það hafi verið tekjufært. Nemendur eru um 15.000 í 36 grunnskólum í Reykjavík og eru  þeir af mismunandi stærð, allt frá því að vera með tæpa 70 nemendur í að vera með 650 nemendur. Einboðið er að fara þarf í sameiningu grunnskóla til að ná fram hagstæðari rekstrareininga og minnka stjórnunarkostnað. Bestun er ekki náð í rekstri grunnskólanna með sameiginlegum innkaupum. Það er óskiljanlegt að ekki skuli vera litið á grunnskólana sem eina einingu í rekstri. Mikil eineltismenning ríkir hjá Reykjavíkurborg og er hún ef til vill skýringin á miklum veikindaforföllum. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ef litið er til síðustu ára sést að áhersla hefur verið á framkvæmdir ýmissa verkefna sem snúa ekki beint að þörfum fólks.  Við höfum fengið skýrslur um framúrkeyrslur og að sveitarstjórnarlög hafi verið brotin, hunsað að gera samninga eða fara í útboð skv. innkaupareglum.  Á meðan hefur skólakerfið verið vanrækt með vaxandi vanlíðan barna og skólabyggingar hafa drabbast niður. Hróp skólastjórnenda hafa ekki náð eyrum borgarstjóra og skólaráðs. Alla vega hafa þessi aðilar ekki beitt sér í því að beina meira fjármagni til skólanna. Eftir hrun var erfið staða en 10 ár eru frá hruni og nú er borgin rekin með hagnaði.  Í skýrslunni segir „viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi og safnast upp „innheimt óunnið viðhald“ þar sem SEA hefur tekjufært þetta án þess að viðhaldið væri unnið“. Skýrslan er kjaftshögg og svartari en von var á.  Það er ekki haft samráð við fólkið á gólfinu og skólastjórar geta aðeins sent inn óskalista og svo bara beðið og vonað. Svona vinnubrögð geta aldrei leitt til góðs. Flokki fólksins finnst að börn séu ekki hátt skrifuð hjá borgarstjóra og finnst að skóla og frístundaráð hafi brugðist. Endurskoða þarf þetta kerfi frá grunni.

    Helgi Grímsson, Guðjón Hlynur Guðmundsson og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram tillaga borgarstjóra að viðauka við fjárfestingaráætlun fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2019. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar. 

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2019, um innheimtuþjónustu borgarinnar, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19080154

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf Sorpu bs., dags. 2. september 2019, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs fyrir lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga, ásamt fylgiskjölum. R19090009
    Vísað til borgarstjórnar.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða einfalda ábyrgð eigenda Sorpu vegna lántöku í ljósi breytinga á fjárfestingaráætlun samlagsins. Lánið er tekið til að fjármagna viðbótarkostnað við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi ásamt nauðsynlegum tækjabúnaði. Þá skal því haldið til haga að málið er á borði stjórnar Sorpu enda hefur hún tekið málið föstum tökum og falið formanni og varaformanni stjórnar að fá óháðan aðila til að framkvæma úttekt á starfsemi félagsins og leggja tillögur fram á næsta stjórnarfundi Sorpu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er farið fram á að veðsetja útsvarstekjur Reykjavíkurborgar svo SORPA geti tekið lán vegna framúrkeyrslu upp á einn og hálfan milljarð króna. Engar haldbærar skýringar eru fyrir því hvernig þetta gat gerst og kallar það á óháða úttekt. Eðlilegast er að fela innri endurskoðanda borgarinnar slíka úttekt og munu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja það til á þessum fundi. Ekki er forsvaranlegt að samþykkja að borgin gangist í ábyrgð fyrir nýjum skuldum SORPU án þess að málið sé skoðað í kjölinn. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ekki komu fram skýr svör á fundinum hvernig standi á því að það vantar rúman 1,6 milljarð inn í rekstur Sorpu bs. Ekkert kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 að staðan væri með þessum hætti. Í honum undirritar ytri endurskoðandi reikninginn með þessum orðum: „Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu félagsins 31. desember 2018 og afkomu þess og breytingu á handbæru fé á árinu 2018, í samræmi við lög um ársreikninga.“ Athygli vekur að skipt var um ytri endurskoðun Sorpu bs. á milli endurskoðunarára eins og hjá Reykjavíkurborg. Kynnt var á fundinum að til stæði að lengja í lánum hjá Íslandsbanka úr 5 árum í 15 en það lán stendur í einum milljarði. Óskað var eftir nýrri lántöku hjá lánasjóði sveitarfélaga upp á milljarð. Þá á að framlengja 500 milljóna framkvæmdalán um 2 ár. Ekki stendur steinn yfir steini í rekstri Sorpu. Það er óhjákvæmilegt að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki vitað af þessari gríðarlegu framúrkeyrslu og er að grafalvarlegt mál að stjórn félagsins hafi ekki verið upplýst um málið fyrr en í júní á þessu ári.  Hér á sér stað hylming sem kallar á viðamikla, utanaðkomandi rannsókn. Velta má fyrir sér að félagið sé að verða ógjaldfært.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kostnaður við framkvæmdir Sorpu er  vanáætlaður um 1.6 milljarð. Reikningurinn er sendur til eigendanna.  Ætlar borgarmeirihlutinn að sætta sig við þetta? Stjórn Sorpu ber ábyrgð en stjórnkerfi Sorpu er ekki í lagi, frekar en hjá öðrum byggðarsamlögum.  Byggðasamlög eru ekki góð tilhögun þar sem  ábyrgð og ákvarðanataka fara ekki saman. Í þessu tilfelli er Reykjavík með einn fulltrúa í stjórn af 6 (17 % vægi), en á  rúm 66 % í byggðarsamlaginu. Ábyrgð fulltrúa Reykjavíkur er  um 20 sinnum meiri en stjórnarmanns frá fámennasta  sveitarfélaginu. Formaður Sorpu ætti því að koma frá Reykjavík.  Sorpa ætlar að fresta framkvæmdum. Frestun er tap á umhverfisgæðum og fjármunum. Fresta á kaupum á tækjabúnað til að losa matvöru úr pakkningum. Ótal margt þarf að skoða annað t.d. er Sorpa ekki að flokka nægjanlega mikið á  söfnunarstað. Flokkun er forsenda fyrir þvi að nýta úrganginn. Verðmæti eru í úrgangi sem verða að engu þegar mismunandi vöruflokkum  er blandað saman. Hér er tekið undir orð formanns borgarráðs í fjölmiðlum að svona eigi ekki að geta gerst. Borgarfulltrúi er á móti því að veðsetja útsvarstekjur borgarinnar vegna vanáætlunar Sorpu sem sögð er vera vegna mistaka. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð.

    Halldóra Káradóttir, Björn H. Halldórsson, Guðrún Eva Jóhannesdóttir og Birkir Jón Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. ágúst við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2019, um hagkvæmt húsnæði, ásamt fylgiskjölum. R19080153

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 30. ágúst 2019 við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019, um úthlutunarreglur Félags eldri borgara ásamt fylgiskjölum. R19080140

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019, um viðauka í fjárhagsáætlun, ásamt fylgiskjölum. R19010200

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 30. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks sbr. 37. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019, um starfssemi skólaráða yfir sumartímann, ásamt fylgiskjölum. R19080072

    Fylgigögn

  29. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins sbr. 43. lið. fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019, um endurgreiðslu oftekins vatnsgjalds. R19070054
    Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni frá.

    -    Kl. 12.45 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að innri endurskoðun verði falið að gera óháða úttekt á málefnum SORPU hvað varðar fjárfestingar og framúrkeyrslu þeirra. Nú er ljóst að það vantaði um einn og hálfan milljarð króna í fjárhagsáætlun og margvíslegt virðist hafa gleymst. Það er rannsóknarefni að kanna hvernig svona mörg mistök geti átt sér stað sem nú leiðir til þess að borgarbúar fá háan bakreikning eftir á. R19090071

    Frestað.

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að hámarkshraði á Laugarásvegi verði lækkaður úr 50 km/klst. í 30 km/klst. Nauðsynlegt er að lækka hámarkshraða á Laugarásvegi úr 50 km/klst. í 30 km/klst. í samræmi við aðrar götur í hverfinu þar sem íbúðarhúsnæði er þétt. Ökumenn aka  jafnan vel yfir 50 km/klst. á Laugarásvegi sem skapar mikla hættu en mikið af börnum búa í götunni og leika sér fyrir framan húsin. Gatan er löng og þ.a.l. eiga ökumenn það til að auka hraðann verulega. Íbúar við Laugarásveg eru uggandi um börn sín og telja að það auki öryggi þeirra til muna verði hámarkshraði lækkaður í 30 km/klst. R19090067

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Bílastæðaskortur er vaxandi vandamál í miðborg Reykjavíkur. Íbúar borgarinnar finna fyrir þeim skorti en lítið bólar á úrræðum til úrlausnar á vandanum. Á sama tíma rekur Reykjavíkurborg 6 bílastæðahús með yfir þúsund bílastæðum. Bílastæðahúsin eru alls ekki nógu vel nýtt yfir daginn og notkun þeirra er enn minni á nóttinni. Gjaldskylda í bílastæði fellur niður á kvöldin en gjaldskylda er allan sólarhringinn í bílastæðahúsum. Til að stemma stigu við bílastæðavanda miðborgarinnar er því lagt til að það verði gjaldfrjálst að leggja í bílastæðahús á nóttinni, nánar tiltekið milli kl. 22:00 og kl. 8:00. Þannig er hægt að koma til móts við bílastæðavanda miðborgarinnar og auka notkun bílastæðahúsa. Þá er það einnig íbúum til góðs að leggja bílum sínum þar sem þeir njóta skjóls frá veðri og vindum. R19090068

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Skóla og frístundarsvið heldur utan um skjal með breytingum frá fyrra ári og óskum skólastjóra um viðbótarfjármagn. Þetta grunnskjal fer síðan til skoðunar og yfirferðar hjá fjármálaskrifstofu (FMS) og eftir atvikum tekur fjármálahópur og/eða meirihluti borgarstjórnar skjalið til meðferðar og samþykkir eða hafnar óskum skólastjórnenda sem þar koma fram. Flokkur fólksins  óskar eftir að fá að sjá þetta breytingarskjal  SFS frá síðasta ári og sjá hvaða meðferð óskir skólastjóra fengu,  hvaða óskir voru samþykktar og hverjum var hafnað. Flokkur fólksins fer einnig fram á að fá í hendur hina svokölluðu 5 skóla skýrslu. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Borgarstjóri hefur neitað að opinbera þetta skjal.  Óskað er eftir að hin  svokallaða  5 skólaskýrsla verði opinberuð strax. R19050085

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að fundnar verði leiðir til að tryggja að börn sem eru af erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem oftast til að auka líkur þeirra á að tileinka sér íslensk mál sem fyrst. Þátttaka þeirra í umhverfi þar sem töluð er íslenska skiptir sköpum Fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjármagns til grunnskóla að börn af erlendu bergi sem eru fædd á Íslandi komu ekki nógu vel út úr prófi sem ætlað er að greina færni þeirra í íslensku. Fjármagni er úthlutað sérstaklega til grunnskóla vegna kennslu barna af erlendu bergi. Grunnur fyrir úthlutun er svokallað Milli mála málkönnunarpróf sem mælir færni þeirra í íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í grænan, gulan, og rauðan. Þau sem fá gulan eða rauðan þurfa aðstoð. Fjöldi barna sem fengu rauða niðurstöðu árið 2018 voru 1.797. 45 % af þeim eru börn sem fædd eru á Íslandi af erlendum foreldrum. Það er sláandi hvað mörg börn sem fædd eru á Íslandi og hafa alist upp í leik- og grunnskólakerfinu séu  engu að síður svo illa stödd í íslensku. Þetta þarf sérstaklega að leggjast yfir. Finna þarf leiðir til að tryggja að þessi börn heyri íslensku nægjanlega oft og vel til að geta meðtekið hana sem sitt fyrsta mál.

    Greinargerð fylgir tillögunni.  R19090069
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Á fundi borgarráðs 2. maí lagði ég fram eftirfarandi spurningar  um fjármögnun á breytingum á Klettaskóla. Þeim hefur ekki verið svarað. Því eru þær lagðar fram á ný: Óskað er efir að svar berist ekki seinna en 25. september. 1. Hver var upphafleg kostnaðaráætlun vegna Klettaskóla samtals? 2. Hver var endalegur kostnaður samtals? 3. Hver var kostnaðaráætlun og endanlegur kostnaður við eldra húsnæði Klettaskóla og hver var kostnaður pr. fm2 fyrir hverja einingu fyrir sig? a. Skólalóð? b. Kennslurými? c. Húsnæði frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar? d. Starfsmannaaðstaða? e. Verkgreinastofur? 4. Hver var kostnaðaráætlun og endanlegur kostnaður við nýja uppbyggingu í Klettaskóla og hver var kostnaður pr. m2 fyrir hverja einingu fyrir sig? a . Sundlaug? b. Íþróttahús? c. Dagþjónustu? d. Hjálpartækja- og geymslurými? e. Hvíldar- og slökunarrými? f. Önnur rými, s.s. rými fyrir blinda og sjónskerta, rými fyrir talþjálfun og rými fyrir tjáskiptatækni? 5. Hver var kostnaðaráætlun og endanlegur kostnaður við aðra sérhæfingu í Klettaskóla og hver var kostnaður pr. fm2 fyrir hverja einingu fyrir sig? a. Matsal í nýbyggingu? b. Lyftubúnað? c. Hljóðvist og lýsingu? d. Hurðir og annað öryggi? 6. Hver er kostnaðarhlutdeild ríkisins í verkinu öllu sundurgreint eftir verkefnum? 7. Var verkið boðið út í heild eða hluta? 8. Ef mikið misræmi er á milli kostnaðaráætlunar og endalegs kostnaðar hver er þá ástæðan? 9. Hver var eftirlits- og ábyrgðaraðili með verkinu? 10. Hefur Reykjavíkurborg greitt allar greiðslur sem undir verkið falla? R19050018

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Til hversu marga innheimtukrafna hefur verið stofnað á tímabilinu 1. janúar 2018 til dagsins í dag? Þ.e.a.s. hvað hafa margar innheimtukröfur verið sendar út  frá 1. janúar 2018 til dagsins í dag, frá Gjaldheimtunni ehf. annarsvegar og Momentum ehf. hinsvegar vegna skuldar borgarbúa við Reykjavíkurborg? Hversu mörg innheimtubréf hafa verið send út í milliinnheimtu og undir hvaða einingarverð féllu þau (einingaverðið er mismunandi eftir upphæð kröfunnar)? Hversu mörg símtöl hafa verið hringd vegna innheimtu og lendir allur sá kostnaður á þeim sem standa í skuld við borgina? (Kostnaður við símtal er 273 krónur). Hversu margar skuldir hafa farið í löginnheimtu? Lendir sá kostnaður allur á skuldaranum? Í upplýsingum um þessu mál kemur m.a. fram að kostnaður við að senda út löginnheimtubréf sé 3.968 krónur með vsk. og greiðsluáskorun fyrir upphæð lægri en 3.000 krónur kosti 4.340 krónur m. vsk. Hvað hafa mörg löginnheimtubréf verið send út vegna skuldar borgarbúa við Reykjavíkurborg? Hver hefur kostnaður borgarbúa verið vegna framhaldskostnað í löginnheimtu? R19080154

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Fundi slitið klukkan 12:54

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir