Borgarráð
Ár 2019, fimmtudaginn 29. ágúst, var haldinn 5554. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:06. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Valgerður Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eyþóra Kristín Geirsdóttir og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 11. júlí 2019. R19010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 19. ágúst 2019. R19010035
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. ágúst 2019. R19010016
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 22. ágúst 2019. R19070016
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins:
Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um að mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar beiti sér fyrir því að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hafi eftirlit með kosningum til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 2022 var sett fram í kjölfar ákvörðunar Persónuverndar frá 31. janúar 2019 en samkvæmt ákvörðuninni fór borgin ekki að persónuverndarlögum við meðferð persónuupplýsinga frá Þjóðskrá Íslands og útsendingu bréfpósta til ákveðinna hópa kjósenda fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2018. Í tilkynningu frá Persónuvernd um ákvörðunina sagði meðal annars: „Bréfin voru með mismunandi hvatningarskilaboðum sem voru gildishlaðin og í einu tilviki röng og voru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum.” Þá sagði í ákvörðuninni að ámælisvert hefði verið að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt Persónuvernd upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi, dagsettu 14. maí 2018.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í umsögn utanríkisráðuneytisins kemur fram að það sé forsenda kosningaeftirlits ÖSE að dómsmálaráðuneyti óski formlega eftir því með aðkomu utanríkisráðneytisins. Það fellur því utan hlutverks mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs að fara formlega fram á slíkt eftirlit ÖSE og var ekki annað hægt en að vísa tillögunni frá. Fulltrúar meirihlutans bæði styðja og fagna almennu kosningaeftirliti ÖSE í Reykjavíkurkjördæmum, enda hafa umsagnir stofnunarinnar verið afar gagnlegar og staðfest fagleg vinnubrögð við kosningaframkvæmd Reykjavíkur.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 20. ágúst 2019. R19010020
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Nauðsynlegt er að starfsfólk og börn í grunnskólum borgarinnar séu í góðu húsnæði og mikilvægt er að unnið sé strax gegn rakaskemmdum og loftgæðavandamálum í grunnskólabyggingum borgarinnar til að tryggja starfsfólki og börnum góðar aðstæður.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins fordæmir að sumir kjörnir fulltrúar fái fyrst að vita af kolsvartri skýrslu um ástand skóla í Reykjavík í fjölmiðlum. Það er óásættanlegt að kjörnir fulltrúar fái ekki sendar skýrslur frá eftirlitsstofnunum borgarinnar um leið og þær eru gefnar út. Þessi vinnubrögð meirihlutans eru einungis til þess fallin að hindra að kjörnir fulltrúar geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu með rekstri borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda að viðhaldi skólanna hefur ekki verið sinnt sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar. Fjárveitingavald borgarinnar virðist ekki skilja að sinna þarf húsum ef þau eiga ekki að grotna niður. Nú á að setja í þetta 300 milljónir sem er eins og dropi í hafið ef tekið er mið af ástandi skólabygginga. Tugir barna og kennara hafa verið og eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Vandi skólanna er mikill og hefur haft alvarleg líkamleg og andleg áhrif á kennara, starfsfólk og nemendur. Gera þarf stórátak í þessum málum og verja í hann 1-2 milljörðum. Stokka þarf upp á nýtt forgangsröðun borgarinnar þegar kemur að útdeilingu fjármagns, setja á fé í þjónustu við börnin og fresta dýrum skreytingarverkefnum á meðan. Hégómleg verkefni eiga ekki við ef börnin þurfa að sækja skóla í ónýtum skólabyggingum. Fjármagnið er of knappt eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar. Ætla mætti að ekki þurfi innri endurskoðanda til að segja valdhöfum borgarinnar að gyrða sig í brók í þessum málum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er afar eðlilegt að innri endurskoðun kynni skýrslu um skólamál í því fagráði sem snertir málaflokkinn, það er að segja - í skóla- og frístundaráði. Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 27. ágúst sl. þar sem skýrslan var kynnt verður á dagskrá borgarráðs í næstu viku.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 24. júní 2019. R19010026
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Í fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að tillaga starfskjaranefndar sé að laun forstjóra hækki úr 2.371.889 í 2.502.343,- (5,5%) þann 1. mars 2019 að undangengnu frammistöðumati. Erfitt er að skilja þá háau launatölu á meðan að aðrir á vegum borgarinnar og lægst launaða starfsfólkið innan sveitastjórna, sem eru með margfalt lægri laun, hefur verið að knýja á breytingar sem snúa að því að hækka lægstu launin, með miklum erfiðleikum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins mótmælir svo mikilli launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Nú hefur starfskjaranefnd ákveðið að hækka laun forstjóra um 5.5% í stað 3.7% og er hækkun afturvirk til 1. mars. Hækkunin nemur um 130.000 krónum á mánuði. Hækkunin hefur verið gagnrýnd enda hafi verið samþykkt á síðasta aðalfundi OR að hækka laun stjórnarmanna um 3,7% en ekki 5,5%. Flokkur Fólksins vill minna á að margt fólk sem er með 300.000 krónur í laun á mánuði er ætlað að greiða rúmlega helminginn af því í húsaleigu og lifa á restinni. Hækkun forstjórans á einu bretti nemur helmingi af launum þeirra sem er lægst launaðir í borginni.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Vakin er athygli á því að þvert á það sem segir í bókun Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands hafa laun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur lækkað milli ára um 13,4% að tillögu starfskjaranefndar OR. Laun forstjóra voru fyrir breytingu 2.888.333 en eru eftir breytingu 2.502.343. Það sem skýrir muninn er að forstjóri OR gegnir ekki lengur stjórnarformennsku í dótturfélögum samstæðunnar. Því hafa laun hans, eins og áður segir, lækkað milli ára. Ekki hækkað.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Gott er að heyra af þessari lækkun. Hér eru há laun samt að hækka.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 16. ágúst 2019. R19010023
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 16. ágúst 2019, ásamt fylgigögnum. R19010028
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R19080055
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um veitinga og gististaði, alls 15 umsagnir. R19080035
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.
Leiðrétt afgreiðsla frá síðasta fundi borgarráðs sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2019. Rétt afgreiðsla er svohljóðandi: R19010041
Samþykkt að veita Rithöfundaskólanum í Gerðubergi styrk að fjárhæð kr. 250.000 vegna skólastarfs.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þegar hefur verið ákveðið að styrkja ráðstefna um málefni Transfólks á Íslandi með afnot af Tjarnarsal Ráðhuss að andvirði kr. 100.000.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. ágúst 2019, varðandi fundadagatal borgarráðs 2019-2020. R18080150
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. ágúst 2019, þar sem erindisbréf samninganefndar Reykjavíkur er lagt fram til kynningar. R18100038
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Samninganefnd hefur það hlutverk að koma að undirbúningi kjarasamningsviðræðna við viðsemjendur, koma að vinnu í samningsviðræðum eftir faghópum og sinna verkefnum samstarfsnefnda stéttarfélaga á gildistíma kjarasamninga. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill undirstrika mikilvægi þess að allir innan Reykjavíkurborgar hafi mannsæmandi kjör og að unnið sé að því að stytta vinnuvikuna enda hefur það sýnt sig að það hefur jákvæð áhrif á líðan í starfi og daglegu lífi.
Fylgigögn
-
Lagt til að Diljá Ámundadóttir taki sæti sem varamaður í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. R18060085
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt til að Diljá Ámundadóttir taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. R18060080
Samþykkt. -
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 21. ágúst 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Seljahverfis vegna lóðarinnar nr. 23 við Hagasel, ásamt fylgiskjölum.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að afgreiðslu deiliskipulags við Hagasel 23 verði frestað þar til að búið er að svara þeim fjölmörgu athugasemdum íbúa, sem bárust vegna málsins. Það er ekki gott fyrir þá sem þarna koma til með að búa ef úrræðið er ekki unnið í sátt og samráði við íbúa. Þá er enn óvissa um öryggisvistun í Rangárseli. R19020020
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Samþykkt skipulags- og samgönguráðs er staðfest.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í dag býr á fimmta hundrað fatlaðra einstaklinga í sambærilegum íbúðakjörnum og fyrirhugað er að byggja í Hagaseli. Fyrirhuguð er mikil uppbygging fyrir fatlað fólk í Reykjavík, eða á annað hundrað íbúðir á næstu 10 árum og er þörfin fyrir lóðir í grónum hverfum því brýn. Hlutverk þessa íbúðakjarna er að vera heimili þeirra sem þar búa og að þar verði hægt að mæta þörfum íbúa á einstaklingsmiðaðan og heildstæðan hátt. Þjónustan verður sveigjanleg og er henni ætlað að styðja við sjálfstætt og innihaldsríkt líf fatlaðs fólks, á heimili og í tómstundum samkvæmt stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum 2013 – 2023. Það er ekki ástæða til að óttast meira ónæði af þessum íbúðum heldur en öðrum íbúðum ef horft er til reynslu Reykjavíkurborgar. Undanteking á því er því miður öryggsivistunin að Rangárseli en unnið er að því að ná samningum við ráðuneyti að loka þeirri starfsemi og verður því þá lokað áður en fólk flytur inn í Hagasel. Þessar íbúðir eru ekki ætlaðar fyrir fólk með virkan vímuefnavanda og mikilvægt að hafa í huga að geðfatlað fólk er í meiri áhættu að verða fyrir ofbeldi en að beita ofbeldi. Um leið og vanda þarf til verka í samtali og samráð við íbúa í hverfinu - þá geta borgaryfirvöld ekki vikist undan þeirri ábyrgð að sjá til þess að þeir 45 Reykvíkingar sem eru geðfatlaðir og bíða eftir húsnæði, fái öruggt heimili.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á mikilvægi þess að finna búsetuúrræðum Velferðarsviðs stað í borginni og styðja það eindregið. Mikilvægt er að ná sátt um staðsetningu úrræðanna og tryggja gott sambýli við nágranna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykktu úrræðið að Hagaseli í trausti þess að (a) öryggisvistun verði fyrst færð úr Rangárseli og (b) íbúar verði ekki í virkri neyslu og (c) að yrði staðið að samráði og upplýsingagjöf til íbúa í næsta nágrenni. Með vönduðu kynningarferli hefði mátt fyrirbyggja misskilning um búsetuúrræðið, koma í veg fyrir áhyggjur íbúa og tryggja meiri sátt innan hverfis. Það hefur ekki orðið. Það er miður að þetta mikilvæga úrræði fái ekki þá kynningu sem þörf er á og ekki sé fallist á tillögu fulltrúa D-lista um frestun svo eðlilegt samráð eigi sér stað.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Margir eru í þörf fyrir heimili og Sósíalistaflokkurinn fagnar húsnæðisuppbyggingu í borginni.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Miðflokksins harmar að ekki eigi að taka tillit til fjölda og að virðist réttmætra athugasemda íbúa í kjölfar auglýsingar um breytingu deiliskipulags lóðar Hagasel 23. Blásið er á réttmætar áhyggjur íbúa og þær í raun auknar með óskýrum svörum. Í ferlinu voru ekki gefin skýr svör um að engin hætta yrði af komandi íbúum/notendum úrræðissins. Íbúar eru því eðlilega áhyggjufullir. Íbúum er lofað að úrræðið verði ekki tekið í notkun fyrr en öðru umdeildu úrræði, öryggisvistun í Rangárseli hafi verið lokað. Íbúar sem hafa búið við mikið óöryggi vegna þess úrræðis í áraraðir horfa nú fram á áframhaldandi óöryggi inn í framtíðina. Að troða þessari byggingu á þennan litla græna blett sem er hjarta þessa svæðis í hverfinu er óskiljanlegt. Græn svæði eru lungu borgarinnar og á þessari lóð fara fram viðburðir á sumrin og svæðið er leiksvæði barna í hverfinu á veturna. Því miður virðist hér um að ræða enn eitt tilfellið um vinnubrögð þar sem ekkert tillit er tekið til íbúa og ekkert samráð er viðhaft.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga að deiliskipulagsbreytingu i Seljahverfis var auglýst auk þess sem sent var bréf í öll nærliggjandi hús þar sem vakin athygli á að breytingin væri í auglýsingarferli og öllum frjálst að senda inn athugasemdir. Fjöldi athugasemda barst sem bendir til að deiliskipulagið hafi náð til allra þeirra sem eiga hagsmuna að gæta, allir þeir aðilar sem sendu inn athugasemd munu fá send svör þau sem lögð voru fund Borgarráðs. Ekki verður séð að frestun málsins á þessu skipulagsstigi mundi skila nokkru. Breytingin nær aðeins yfir eina lóð og er hún skýrt afmörkuð.
Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Berglind Magnúsdóttir og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 21. ágúst 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfi, reitur 1.863.2, vegna lóðarinnar við nr. 26 við Kvistaland, ásamt fylgiskjölum. R19040241
Samþykkt.Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Ágústa Sveinbjörnsdóttir og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. ágúst 2019, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálagða umsögn samgöngustjóra um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi. R19080178
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni að verið sé að vinna grænbók um flugsamgöngur með markmiði um skýra framtíðarsýn. Stefna borgarinnar birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Á það vantar í flugstefnunni að skilgreint sé fullnægjandi flugvallakerfi sem tryggi fullgildan varaflugvöll á SV-horni landsins, líkt og kallað er eftir í skýrslu Þorgeirs Pálssonar um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar frá 2017 og skýrt er dregið fram í umsögn borgarinnar. Líkt og fram kemur í grænbókinni uppfyllir flugvöllurinn í Vatnsmýri ekki skilyrði til að vera sá varaflugvöllur. Jafnframt liggja fyrir skýrar skuldbindingar ríkisins um að gera nýjan völl fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug. Reykjavíkurborg ítrekar að við þær verði staðið. Tímasetta og fjármagnaða áætlun um gerð nýs varaflugvallar og nýjan æfinga-, kennslu- og einkaflugvallar vantar í stefnuna til að hún sé fullnægjandi. Nýr flugvöllur í Hvassahrauni getur leyst mörg af þeim vandamálum sem flug á Íslandi stendur frammi fyrir.
Áheyrnarfulltrúa Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn í borgarstjórn fer fram með ófrið í öllum málum. Allir vita þráhyggju borgarstjóra og vinstri flokkana í borginni gegn flugvellinum í Reykjavík. Enn er hoggið í sama knérunn með umsögn þessari inn í drög að flugstefnu fyrir Ísland. Reykjavíkurflugvöllur gegnir ótvíræðu öryggishlutverki fyrir landsmenn alla. Sú aðför sem átt hefur sér stað að flugvellinum frá pólitískt kjörnum fulltrúum sl. áratugi er með ólíkindum. Algjört skilningsleysi ríkir gagnvart landsbyggðinni og landsmönnum öllum. Auk þess er hlutverk flugvallarins að vera mikilvægur hluti af almenningssamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Stærsti öryggishlutinn sem þó lítið hefur verið ræddur er sá að öryggishlutverk hans er ótvírætt þegar kemur að náttúruvá, ófyrirséðum atburðum og annara ógna sem steðjað geta að á höfuðborgarsvæðinu með rýmingu svæðisins í huga. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er grunnstoð í öryggiskerfi samfélagsins. Líffæraflutningar og líffæraþegaflutningar eru stórvaxandi þó það sé ekki mikið í umræðunni. Það er mikið ábyrgðarleysi hjá meirihlutanum að gera allt sem hann getur til að þrengja að vellinum og í raun að koma honum í burtu úr Vatnsmýrinni. Það er hægt að snúa þessari ógæfuþróun við. Til þess þurfum við nýjan meirihluta.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Allt er í góðu með að vinna grænbók og huga til næstu ára en staðreyndin er engu að síður sú að flugvöllurinn í Vatnsmýri er ekki að fara neitt næstu árin og fer ekki fyrr en ný staðsetning er fundin sem talin er fullkomalega henta, sem þjónar landinu öllu og sem getur þjónað fullnægjandi öryggishlutverki. Þar til verður flugvöllurinn í Vatnsmýrinni áfram öryggisflugvöllur og æfingar- og kennsluflugvöllur.
Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í máli nr. SRN17040840 vegna álagningar Orkuveita Reykjavíkur á vatnsgjaldi ársins 2016. R19070054
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Viðbrögð OR við úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins eru til fyrirmyndar enda hefur fyrirtækið endurgreitt um 440 m.kr. til notenda. Hinsvegar er mikilvægt að OR fái nánari leiðbeiningu frá ráðuneytinu um hvað leggja skuli til grundvallar við álagningu vatnsgjalds. Þá skal því haldið til haga að vatnsgjaldið hefur lækkað umtalsvert frá árinu 2016, um 11,2% í byrjun árs 2017 og aftur um 10% í byrjun árs 2018.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Endurgreiðslan er ánægjuleg og eðlileg viðbrögð við úrskurði um oftekin vatnsgjöld. Álögur hjá borginni og dótturfyrirtækjum eru á mörkum þess sem löglegt er en í þessu tilfelli var farið yfir strikið, sem er áfellisdómur yfir stjórnsýslu samstæðu borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú hefur komið í ljós að ákveðinn hluti „Plansins“ sem Orkuveita Reykjavíkur fór af stað með 2011 og kom til framkvæmda 2012 var ólöglegt a.m.k. hvað varðar álagningu vatnsgjalds. Fyrsta álagning vatnsgjaldsins 2012 leiddi til 10,7% hækkunar, 3,5% árið 2013, 3,3% 2014, 1,3% 2015 og 6,0% 2016. Áður hafði vatnsgjaldið hækkað um 26,9% 2009. Á heimasíðu OR kemur fram að fjárhagslegum markmiðum Plansins var náð um mitt ár 2015, einu og hálfu ári á undan áætlun. Aðgerðaráætlunin var þó í fullu gildi út árið 2016. Lán frá eigendum og gjaldskrárbreytingar skiluðu um 40% af árangri Plansins. OR hefur ákveðið að greiða til notenda 440 milljónir fyrir oftekið vatnsgjald 2016, ásamt 61 milljón í vexti. Það er sigur fyrir borgarbúa og fyrirtæki í borginni. Það sem eftir stendur er þetta: OR ætlar ekki að hafa frumkvæði af því að endurgreiða oftekið vatnsgjald frá upphafi „Plansins“ á árunum 2012, 2013, 2014 og 2015 á þeim grunni að úrskurður ráðuneytisins/kæran náði einungis til ársins 2016. Borgarbúar greiddu gjaldþrot Orkuveitunnar með gríðarlegum hækkunum á gjaldskrám fyrirtækisins. Nú er tíminn runninn upp að endurgreiða það fjármagn a.m.k. það sem var innheimt á ólöglegan máta. Orkuveitan á að hafa frumkvæði að því. Borgararnir eiga ekki að þurfa að sækja þann rétt.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrr á þessu ári komst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vatnsgjöld vegna ársins 2016 hefðu verið of há. Búið er að endurreiknað vatnsgjaldið, leiðrétta og endurgreiða afturvirkt og því ber að fagna. Það er ekki annað hægt að segja en að þetta sé hið mesta leiðindarmál en sem betur fer virðist sem fyrirtækið sýni auðmýkt núna í það minnsta var farið í að leiðrétta þessa oftöku gjalds en það þurfti vissulega úrskurð til. Það var ekki að frumkvæði Orkuveitunar að kanna hvort seilst hafi verið of mikið í vasa borgaranna heldur er það einstaklingur sem fer af stað með málið.
Elín Smáradóttir, Bjarni Freyr Bjarnason og Skúli Skúlason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2019 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Einnig er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. 29. ágúst 2019, og umsögn innri endurskoðunar, dags. 27. ágúst 2019. R19080165
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sex mánaða uppgjör sýnir sterkan rekstur borgarinnar þrátt fyrir slaka í efnhagsumhverfinu. Fjárfestingar borgarinnar eru gríðarlega umfangsmiklar á árinu í skólabyggingum, íþróttamannvirkjum, götum, torgum og hjólastígum. Þá er verulega bætt í framlög til skóla, leikskóla og velferðarmála. Allar rekstrartölur í hálfsárs uppgjörinu eru á grænu og fjármálastjórn borgarinnar traust.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skuldir og skuldbindingar A-hluta vaxa um 5,5, milljarða á sex mánuðum sem er nálægt milljarði á mánuði en skuldir samstæðunnar í heild aukast um 19 milljarða á sama tímabili eða um rúma þrjá milljarða á mánuði.
Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í kynningu fjármálaskrifstofu í 6 mánaða uppgjöri að 49% af nettó útgjöldum í hlutfalli af skatttekjum borgarinnar fer í skóla- og frístundarsvið. Sviðið er með 1 m.kr umfram fjárheimildir. Engu að síður er ástandið í skólamálum slæmt. Ástand skólahúsnæðis vegna viðhaldsleysis sl. 10 ára með tilheyrandi afleiðingum, raka og leka (myglu) er vel þekkt orðið. Nú liggur fyrir skýrsla innri endurskoðanda sem staðfestir þetta og fleiri vandamál. Í skýrslunni segir að mismunandi skilningur er á milli skólastjórnenda og fjárveitingarvaldsins hjá Reykjavíkurborg um hversu mikið fjármagn þarf til að reka grunnskóla í borginni. Lítið svigrúm er til hagræðingar innan skólanna og gripið er til sameiningar og lokana oftast í óþökk foreldra og jafnvel skólastjórnenda. Í sérkennslu fara um 5 milljarðar en hún er ekki árangursmæld og því óljóst hvort hún sé að skila sér sem skyldi til barna sem hennar njóta. Það er erfitt að átta sig á hvert borgarmeirihlutinn er að fara í skólamálum borgarinnar. Kapp er lagt á að allt líti vel út á yfirborðinu, skóli án aðgreiningar og allt það. Af þessu að dæma má ætla að að fé sem veitt er í skólakerfið sé einhvern veginn ekki að nýtast.
Halldóra Káradóttir, Lárus Finnbogason, Gísli H. Guðmundsson, Guðlaug S. Sigurðardóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
- Áritun borgarstjóra og borgarráðs
- Árshlutareikningur janúar - júní 2019
- Skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs við framlagningu árshlutareiknings Reykjavíkurborgar janúar – júní 2019
- Greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta
- Greinargerð B-hluta fyrirtækja við framlagningu árshlutareiknings Reykjavíkurborgar janúar – júní 2019
- Umsögn endurskoðunarnefndar
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara dags. 23. ágúst 2019, varðandi lok leigusamnings vegna hluta húsnæðis að Aðalstræti 2, ásamt fylgiskjölum. R19080157
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingar á úthlutunar- og útboðsskilmálum fyrir sölu byggingarréttar á lóðum við Álfabakka, 2A-2D, ásamt fylgiskjölum. R19030011
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingu á kaupsamningi vegna úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar á Gufunesi, dags. 16. janúar 2019, ásamt fylgiskjölum. R18010112
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaupsamning vegna 19 íbúða fyrir Félagsbústaði og einum leikskóla að Hallgerðargötu 1 við Kirkjusand, ásamt fylgiskjölum. R17100147
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfsstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgaráð heimili uppgjör vegna húsnæðis við Langholtsveg 70 og endurauglýsingu til útleigu með nýjum skilmálum. R17090079
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. ágúst 2019, ásamt fylgiskjölum:
Vísað er til hjálagðs erindis, dags. 21. ágúst 2019, frá framkvæmdastjóra Heimsþings kvenleiðtoga þar sem óskað er eftir afstöðu borgarráðs til nafnabreytingar á enska heiti heimsþingsins þannig að það beri nú nafnið Reykjavík Global Forum - Women Leaders. Lagt er til að borgarráð fallist á nafnabreytingu. R19080166
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjarvíkurborgar, dags. 14. júní 2019, varðandi breytingu á samþykktum sjóðsins, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2019. R19070017
Vísað til borgarstjórnar.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. ágúst 2019, ásamt fylgiskjölum.
Lagt er til að borgarráð samþykki, með vísan til hjálagðrar umsagnar borgarlögmanns, dags. 21. ágúst 2019, erindi frá Malbikunarstöðinni Höfða hf., dags. 4. júlí 2019, þar sem óskað er eftir því að Reykjavíkurborg sem eigandi Malbikunarstöðvarinnar óski eftir því við forsætisráðherra að hann veiti félaginu undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna. R19070062
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 30. lið. fundargerðar borgarráðs frá 6. júní 2019, um álistgerð um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og viðauka. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. ágúst 2019. R19030231
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að vísa tillögunni frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 21. ágúst 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við rekstur mötuneytis í Ráðhúsi og á Höfðatorgi, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019. R19080089
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. ágúst 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úthlutunarreglur Félags eldri borgara, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst 2019. R19080140
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Þessar úthlutunarreglur eru mjög matskendar þar sem ekki ljóst hvaða vægi hver þáttur hefur. Þá vekur athygli að reglurnar lágu ekki fyrir þegar borgin úthlutaði lóðinni. Réttara hefði verið að reglurnar lægju fyrir og væru skýrar áður en borgin úthlutaði gæðum í eigu borgarbúa.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. ágúst 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úthlutun lóðar við Árskóga til Félags eldri borgara, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019. R19080075
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins.:
Þessi svör eru í mótsögn við það sem Ellert B. Schram, formaður Félags eldri borgara sagði í fréttum RÚV, 10. ágúst sl. en þar var haft eftir honum að reynt yrði að koma til móts við kaupendur með því að falla frá öllum kvöðum sem eru á íbúðunum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Uppbyggingin í Úlfarsárdal hefur verið hröð. Nú er þar einn leikskóli og sárlega vantar fleiri. Foreldrar sem búa í Úlfarsárdal hafa þurft að fara með börn sín í leikskóla í öðrum hverfum. Fyrirspurnir frá Flokki fólksins: Hvenær verður annar leikskóli opnaður í Úlfarsárdal? Hvað verða margir leikskólar í hverfinu? Hvenær verða allir leikskólarnir í hverfinu farnir að starfa? R19080204
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fyrirspurn frá Flokki fólksins um rafmagnstrætó og hvernig reynslan hafi verið af þeim: Árið 2017 var sagt frá því að Strætó bs. hafi fjárfest í 9 hreinum rafstrætisvögnum frá kínverska framleiðandanum Yutong. „Hröð skref yrðu stigin í átt að rafvæðingu flotans sem spara myndi yfir 1.000 tonn af útblæstri gróðurhúsaloft tegunda strax á næsta ári. Segir einnig í þessari frétt frá 2017: Í júní næstkomandi mun Strætó bs. taka í notkun fyrstu fjóra rafmagnsvagnana af þeim níu sem fyrirtækið hefur fest kaup á úr verksmiðjum Yutong í Kína. Verða það fyrstu strætisvagnarnir hérlendis sem einvörðungu verða knúnir áfram af rafmagni. Vagnarnir sjást sjaldan í umferðinni og langar borgarfulltrúa Flokks fólksins að fá upplýsingar um hvernig reynslan hefur verið með þessa 9 rafmagnsvagna og hvort bílaflotinn sé ekki allur að rafvæðast? R19080205
Vísað til umsagnar Strætó bs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í Öskjuhlíð var unnið að því að setja upp klifurgrind eða leiksgrind, sjá mynd. Búið var að grafa heilan grunn, steypa undirstöður, setja upp grindina en síðan allt rifið niður og þökur lagðar yfir og ummerkjum eytt. Þetta er í Öskjuhlíð, vestan við Perluna við hliðina á göngustígnum niður í skóginn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvað átti þetta að þýða? Hvað kostaði þetta og af hverju var þetta rifið niður? Með fyrirspurninni fylgir mynd til útskýringa. R19080206
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Að komast upp á brúna sem er yfir Breiðholtsbrautina ef komið er norðan megin við Breiðholtsbrautina (frá Mjódd) er aðeins fyrir þá fótafimustu. Til að komast upp á brúna er nokkra metra all brattur rampur sem er mold og grjót. Það er ekki hægt að ætlast til þess að t.d. eldri borgara eða hreyfihamlaðir komist upp þennan ramp til að komast á brúna. Þessi frágangur er óásættanlegur því það þarf nánsta að skríða þarna upp og á vetrum gæti þetta orðið eins og rennibraut. Sjá myndir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr: Af hverju er þetta skilið eftir með þessum hætti? Hvenær stendur til að ljúka þessu frágangi þannig að aðgengi þarna megin við brúna verði fyrir alla? R19080207
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Nú heyrist æ oftar að meirihlutinn í borginni kynnir með stolti fyrirhugaða innleiðingu Lean/Straumlínustjórnun. Lean er lýst sem umbótarkerfi sem snýst um að finna út hvað er virði fyrirtækisins í augum viðskiptavinarins og finna þær aðgerðir sem skapa virði, sem skapa ekki virði og eru sóun. Það er vissulega gott og blessað. Það er hins vegar alþekkt að sums staðar sem Lean hefur verið innleitt þá hefur það ekki tekist vel, ekki virkað og ekki verið mikil ánægja með það. Sums staðar hefur það hreinlega alls ekki verið virkað og starfsmenn verið því andsnúnir. Hér er um að ræða mikla fjármuni, sem sennilega hleypur á tugi milljóna og ef Lean kerfið á ekki við þá er er þessum fjármunum sóað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvað miklum fjármunum er stefnt að því að verja í innleiðingu Lean og hvar innan borgarkerfisins verður það innleitt? Hvað hefur verið gert í aðdraganda þess að ákveðið er að taka inn Lean sem staðfestir að það muni virka vel á starfsstöðum borgarinnar? Hvaða athuganir/rannsóknir liggja til grundvallar innleiðingunni í borginni? R19080208
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Í nýlegu tölublaði fréttablaðsins er fjallað um stuðning til minni tónleikastaða sem er frábært og af hinu góða en við hliðina á þeirri frétt er frétt um ný útkomna skýrslu ASÍ um brotastarfsemi á vinnumarkaði þar sem rætt er um að helmingur krafna sem stéttafélögin gera fyrir hönd vinnandi fólks komi úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu. Hvað ætlar Reykjavíkurborg að gera til þess að tryggja að þeir staðir sem fá styrki virði að öllu leyti réttindi starfsmanna sinna? R19080209
Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Mengun frá skemmtiferðaskipum hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og neikvæð áhrif á bruna svartolíu á heilsufar og loftslagsmál. Hver er staðan á rafvæðingu hafna og hvernig er eftirliti með bruna eldsneytis í höfnum Reykjavíkur háttað? R19080210
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort það sé rétt sem fram komi í fréttum að öll fjárúthlutun til grunnskólanna sé gerð á grundvelli 20 ára gamals excell skjals sem einn starfsmaður skóla- og frístundarsviðs kann á? Fram hefur komið að mismunandi skilningur er á milli skólastjórnenda og fjárveitingarvaldsins hjá Reykjavíkurborg um hversu mikið fjármagn þarf til að reka grunnskóla í borginni. Lítið svigrúm er til hagræðingar innan skólanna. Þetta kemur fram í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, IE, um rekstur grunnskóla. Í skýrslunni er vikið að sérstöku Excel-vinnuskjali sem hefur verið notað í nær tuttugu ár til að úthluta fjármunum. Er talað um þetta skjal sem „plástrað“ og „úrelt“. „Aðstæður grunnskólanna eru mismunandi að mörgu leyti og það er tæpast hægt að ákvarða fjárhagsramma í Excel-skjali án þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna,“ segir í skýrslunni. Aðeins einn starfsmaður hefur þekkingu til að vinna með skjalið, mun það hafa valdið vandræðum þegar viðkomandi hafi forfallast við úthlutun fjármuna. Flokkur fólksins vill fá staðfestingu á hvort það sé rétt að öll fjárúthlutun til skóla sé gerð á grundvelli 20 ára gamals skjals sem einhver einn starsmaður kann á og ef svo er hver er skýringin? Borgarfulltrúi óskar eftir að þetta skjal verði lagt fram í borgarráði til að borgarfulltrúar geti skoðað það og rætt. R19080211
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að þær 33 milljónir sem Reykjavíkurborg fær í endurgreiðslu frá OR vegna oftekins vatnsgjalds verði varið í viðhald skólahúsnæðis í borginni. R19070054
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Svör við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úthlutunarreglur hjá Félagi eldriborgara eru í mótsögn við það sem Ellert B. Schram, formaður Félags eldri borgara sagði í fréttum RÚV, 10. ágúst sl. en þar var haft eftir honum að reynt yrði að koma til móts við kaupendur með því að falla frá öllum kvöðum sem eru á íbúðunum. Var þá formaður Félags eldri borgara að fara með rangt mál í fréttum RÚV, eða var borgarstjóri hafður með í ráðum? Óskað er eftir skriflegu svari. R19080140
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt er til að Orkuveita Reykjavíkur endurgreiði oftekið kaldavatnsgjald frá upphafi „Plansins“, sbr. úrskurð sveitarstjórnarráðuneytisins frá 15. mars s.l. í máli nr. SRN17040840. R19070054
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 13:13
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir