No translated content text
Borgarráð
Ár 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, var haldinn 5553. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir, Pétur Ólafsson og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 15. ágúst 2019. R19010016
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 16. ágúst 2019. R19010024
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. ágúst 2019. R19010020
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins við 7. lið fundargerðarinnar:
Sviðsstjóri bendir í svari sínu á verklagsreglur milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs sem samþykktar voru 2013. Þar er gert ráð fyrir að „fram fari mat á aðstæðum hverju sinni í stað þess að tekjurnar einar og sér ráði gjaldi foreldra“. Flokkur fólksins vill benda á að tengsl eru á milli tekna og aðstæðna. Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Skóla- og frístundasvið á að hafa heildarmynd af hverri fjölskyldu til að afgreiðsla geti verið skilvirkari. Til að fá þriggja mánaða skuldaskjól þarf foreldri oft að bíða lengi eftir viðtali hjá félagsráðgjafa. Ef skuldari er metinn hafa greiðslugetu er skuldin send í innheimtu þar sem hún margfaldast fljótt sem gerir foreldri enn erfiðara fyrir að greiða skuldina. Sé greiðslugeta neikvæð er beðið eftir greinargerð og stimpill frá afskriftarnefnd sem fundar tvisvar á ári. Á meðan skal skuldari greiða áfallandi gjöld. Af hverju er fólk sem þarf aðstoð látið ganga slíkar þrautargöngur? Bak við hvert mál eru börn sem oft fara ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum foreldra sinna og hér eru verið að tala um frístund fyrir börnin á meðan foreldrið vinnur.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Gjaldskrár í Reykjavík eru með því lægsta á öllu landinu hvort sem litið er til leikskóla eða frístundaheimila, þá eru systkinaafslættir ríflegir. Ef foreldrar eiga erfitt með að greiða fyrir þá þjónustu er leitast við að leysa þau mál með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Verklag skóla- og frístundasviðs í þessu tilliti er því til mikillar fyrirmyndar.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill árétta hér að enginn var að tala um gjaldskrá í þessu sambandi þ.e. að hún væri of há eða verið væri að bera gjaldskrá borgarinnar saman við önnur sveitarfélög. Ef fólk á erfitt með að greiða skuld sína fyrir þjónustu svo sem frístund bíður þeirra langur og tyrfinn vegur sbr. verklagsreglur um þriggja mánaða skuldaskjól. Ef meirihlutinn efast um þetta ætti hann bara að ræða við þennan hóp foreldra og heyra það beint frá þeim hver þeirra reynsla er.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 21. ágúst 2019. R19010022
B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins undir 3. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á mikilvægi þess að finna búsetuúrræðum Velferðarsviðs stað í borginni. Æskilegt er að ná sátt um staðsetningu úrræðanna og tryggja ánægjulegt sambýli við nágranna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja úrræðið að Hagaseli í trausti þess að a) öryggisvistun verði fyrst færð úr Rangárseli og b) íbúar verði ekki í virkri neyslu. Betur hefði mátt standa að samráði og upplýsingagjöf til íbúa í næsta nágrenni. Með vönduðu kynningarferli hefði mátt fyrirbyggja misskilning um búsetuúrræðið, koma í veg fyrir áhyggjur íbúa og tryggja meiri sátt innan hverfis.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins við 18, 20, 21, 23, 24, 25, 26 og 27 liði fundargerðarinnar:
Bókanir meirihlutans í skipulags- og samgönguráði við liði 18, 20, 21, 23, 24, 25, 26 og 27, allt umferðartillögur Flokks fólksins, lýsa talsverðum hroka, andúð gegn bílanotkun og forræðishyggju meirihlutans í ráðinu. Allar tillögur Flokks fólksins í umferðarmálum voru felldar. Meirihlutinn í skipulagsráði getur ekki sett sig í spor t.d. eldri borgara sem finnst mörgum bílastæðahúsin ógnvænleg. Hvað varðar Lækjargötuna (liður 20) skapar ástandið þar núna slysahættu bæði fyrir gangandi, hjólandi og akandi. Þarna er óreiða og hefur verið lengi. Með þessu einstrengingslega viðhorfi sem meirihlutinn sýnir í bókunum græða þau fátt annað en að vekja reiði borgarbúa. Nú er ástandið á Laugavegi þannig að fólk er sífellt að ruglast. Fyrir þessum breytingum voru engin rök og lokanir gatna eru eins og margstaðfest er í óþökk meirihluta hagsmunaaðila. Reynt er að fegra alla hluti og hausnum stungið í sandinn þegar blasir við að bærinn er að tæmast af Íslendingum. Það er langur vegur í að almenningssamgöngur verði fýsilegur kostur. Ótal atriði þarf að bæta eins og fjöldi kvartana hefur sýnt. Tíðni þarf að vera mun meiri ef þetta á að vera alvöru kostur. Borgarlína er enn bara mynd á blaði og einhver ár í að hún verði alvöru kostur ef hún verður það einhvern tímann.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tíu tillögur um umferðarmál í skipulags- og samgönguráði sem allar miðuðu að því að gera borgina að meiri bílaborg en hún er nú þegar. Bílaeign á Íslandi er ein sú mesta í heiminum og mikilvægt að gera öðrum samgöngumátum hátt undir höfði með því að leggja nýja hjólastíga, auka forgang strætó og gera gangandi vegfarendum auðveldara um vik að komast á milli staða. Hamfarahlýnun krefst þess að brugðist sé við með róttækum hætti til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki fæst séð hvernig rétturinn til að menga skipti meira máli en rétturinn á hreinu lofti og framtíðar jarðarinnar.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Hér er um hreina útúrsnúninga meirihlutans að ræða og reynt er að slá ryki í augu fólks sem kunna að lesa þessar bókanir. Ekkert af þessum umferðartillögum miða að því sérstaklega að gera borgina að meiri bílaborg en hún er. Þær miða hins vegar að því að skipulagsyfirvöld í borginni noti heilbrigða skynsemi, sanngirni og virðingu gagnvart fólki í borginni og þeim sem koma lengra að og þeim lífstíl í ferðamáta sem það kýs sér. Andúð gagnavart bílaeigendum sem meirihlutinn í skipulagsráði og borgarstjórn sýnir er komin út yfir öll velsæmismörk. Það er mat Flokks fólksins að allt á að gera til að minnka tafir, alls konar tafir og auðvelda öllum aðgengi að miðbænum okkar án tillits til hvernig þeir ferðast.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R19080038
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19080035
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R19010041
Samþykkt að veita Markúsi Má Efraím Sigurðssyni styrk að upphæð 250.000 kr. vegna rithöfundaskólans í Gerðubergi.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.Fylgigögn
-
Lögð fram beiðni Gunnlaugs Braga Björnssonar varaborgarfulltrúa um tímabundna lausn frá störfum sbr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. R19080110
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lögð fram beiðni Vilborgar Guðrúnar Sigurðardóttur varaborgarfulltrúa um tímabundna lausn frá störfum sbr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. R19080131
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, þar sem óskað er staðfestingar borgarráðs varðandi leiðréttingu skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019 á samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 fyrir miðborg M1A og M1C vegna túlkunar á sérákvæðum vegna hlutfalls gististaða í nýrri uppbyggingu/enduruppbyggingu samkvæmt ákvörðun í deiliskipulagi. R11060102
Samþykkt.Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill gera athugasemdir við orðalag í bréfi frá umhverfis- og skipulagssviði. Á bls. 8 er talað um „lifandi jarðhæð“. Þetta er afar sérkennilega orðað og leggur borgarfulltrúi til að sviðið leggist yfir eitthvað skárra til að lýsa því sem verið er að reyna að lýsa sem er sennilega að á jarðhæð sé einhvers konar starfsemi. Á bls. 9 er talað um „Takmarka ónæði og umferð vegna lestunar og losunar ferðamanna“. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst skrýtið að nota lestun og losun þegar vísað er til fólks, að lesta og losa fólk? Á sömu blaðsíðu er talað um „Húsnæði fyrir alla og er það þá ekki orðalag sem er gagnrýnt heldur mætti bæta við setninguna „Leitast verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosts fyrir alla félagshópa“ og svo mætti bæta við: sem gert yrði með fjárhagslegum aðgerðum, svo sem styrkjum, kvóta eða miðstýringu. Að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta á dýrasta svæði borgarinnar verður nefnilega ekki gert nema með handstýringu en ekki markaðsöflum.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. ágúst 2018 á trúnaðarmerktum tillögum, að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir 2019. R19080109
Samþykkt.
Trúnaður er um efni tillagnanna fram að afhendingu viðurkenninganna.Lögð fram bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem færð var í trúnaðarbók borgarráðs.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Gufuness, ásamt fylgiskjölum. R19080111
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Stakkahlíðar vegna lóðarinnar nr. 17. við Hamrahlíð. R19080113
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands austan Suðurgötu vegna lóðanna nr. 41-43 við Suðurgötu og 29 og 31 við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum. R19040242
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- sog skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. águst 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bykoreitar fyrir lóð nr. 77 við Sólvallagötu og nr. 116 við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum. R19080112
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019 á umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við deiliskipulag athafnasvæðis á Hólmsheiði, ásamt fylgiskjölum. R18120136
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar vegna lóðarinnar nr. 22 við Skógarhlíð, ásamt fylgiskjölum. R19050115
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá afstöðu að kynning og samráð sé vandað. Þetta á ekki síst við í grónum hverfum þegar verið er að fjölga íbúðum eða þyngja umferð.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2019, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 19. ágúst 2019.
- Kl. 9.45 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum. R19080167
Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Allt starfsfólk á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur hefur lagst á eitt við að ráða í lausar stöður fyrir skólabyrjun. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa enda eru mönnunarmálin í mun betri farvegi í ár en undanfarin ár, þökk sé skýrri stefnumörkun og ötulli vinnu þeirra sem standa að ráðningum. Tölur um lausar stöður breytast frá degi til dags enda er allt kapp lagt á að skólastarf raskist ekki vegna vöntunar starfsfólks. Nú hefur verið ráðið í 96% stöðugilda í leikskólum, 98% stöðugilda í grunnskólum en 78% stöðugilda í frístundaheimilum. Mikill fjöldi háskólanema starfar á frístundaheimilum meðfram námi og sýnir reynslan að þegar þeir fá stundatöflu geta þeir betur skipulagt vinnu sína og ráðið sig til starfa. Einnig má halda því til haga að verið er að fjölga leikskólaplássum yngri barna og það kallar á fleiri starfsgildi en hafa verið í leikskólum. Alla daga er verið að ganga frá ráðningum og er starfsfólki færðar bestu þakkir fyrir að hreyfa sig hratt og örugglega í krefjandi umhverfi með hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Því miður þá þarf að hafa hraðar hendur varðandi ráðningar til þess að geta veitt þá þjónustu sem foreldrar hafa verið að sækja um fyrir börn sín. Það á eftir að ráða í 237 stöðugildi hjá skóla- og frístundasviði. Ótækt er að enn séu 1328 börn á biðlista í frístund. Fulltrúarnir leggja áherslu á að þung vinna verði áfram lögð í að klára ráðningar og biðlistum verði eytt. Enda bitna allar tafir á innritun mjög illa á börnum og foreldrum þeirra. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka starfsfólki skóla- og frístundasviðs fyrir góða vinnu við að ráða í lausar stöður í leikskólum, skólum og frístundaheimilum.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Starfsfólk skóla- og frístundasviðs sinnir gríðarlega mikilvægri vinnu og mikilvægt er að manna í stöður sviðsins. Samkvæmt bréfi skóla- og frístundasviðs á eftir að ráða í 206 stöðugildi, mest í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum. Það er mikilvægt að ráða í stöðurnar barnanna vegna svo að inntökum barna sé ekki seinkað. Það er ekki síður mikilvægt að ráða í stöður starfsfólksins vegna svo það sé ekki mikið álag og streita á þeim sem starfa í skólum, frístundamiðstöðvum og sértækum félagsmiðstöðvum. Það er sennilega ekki auðvelt að starfa á þessum starfsstöðum og vita af því að fleiri aðila vantar á vinnustaðinn til að ná að taka á móti öllum börnunum sem bíða eftir plássi. Í almennri umræðu hafa launamál verið nefnd í tengslum við stöðuráðningar en mörg störf innan skóla- og frístundasviðs eru láglaunuð og nauðsynlegt er að búa starfsfólki aðstæður þar sem laun eru mannsæmandi. Auglýsingaherferð skóla- og frístundasviðs sýnir fram á mikilvægi starfanna og því er erfitt að skilja misskiptingu innan borgarkerfisins, þar sem þeir sem eru hæst launaðir hafa margfalt hærri laun en margir sem starfa hjá sviðinu. Nauðsynlegt er að leiðrétta launamál í þessu samhengi sem óneitanlega hlýtur að spila inn í hvort fólk ákveði að ráða sig til starfa.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins lýsir yfir þungum áhyggjum að ekki sé búið að manna allar stöður í grunnskólum, leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar. Slíkt er óásættanlegt og setur allt heimilislíf barnafjölskyldna í óvissu og uppnám.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði að enn á eftir að ráða í 60.8 grunnstöðugildi í leikskólum, 40 stöðugildi í grunnskólum og 102,5 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum. Enn er óljóst hvort staða ráðningarmála seinki áætlun um inntöku barna í leikskóla. Það má sjálfsagt deila um hvort þetta sé slæmt eða viðunandi í ljósi þess að það taki tíma að ná inn fólki. Staðreyndin er sú hvernig sem litið er á málið að það er langt í land með að fullmanna þessar stöður. Borgarmeirihlutinn getur gert betur í þessum málum. Það að sé biðlisti í leikskóla yfir höfuð er óverjandi. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að gera þessi störf aðlaðandi og eftirsótt og strax að vori þarf að fara af krafti í að ná í fólk með öllum ráðum. Ef horft er á málið í víðara samhengi t.d. í tengslum við kjaramálin þá er það borgin sem setur stefnuna og getur falið samninganefnd sinni að koma með tillögur í samningaviðræður sem stuðla að því að störfin verði eftirsóttari t.d. stytta vinnuviku til að létta á álagi. Ofan á þetta bætast viðgerðir á skólabyggingum vegna viðhaldsleysis og myglu. Þá eru ótalin veikindatilfelli sem rekja má beint til myglu í skólabyggingum.
Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 10.10 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 19. ágúst 2019, að breytingu á fjárfestingaráætlun A-hluta Reykjavíkurborgar 2019. Greinargerð fylgir tillögunni. R19010200
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:Athygli vekur að í viðauka við fjárhagsáætlun 2019 fer rúmur milljarður sérstaklega í miðborgina og enn bætist við kostnaður við vitann við Sæbraut upp á 15 milljónir en kostnaðurinn vegna hans var þegar kominn í 170 milljónir.
Guðlaug S. Sigurðardóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði í Bryggjuhverfi til Sedrus ehf. vegna uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. R19080048
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lóðarvilyrði til Sixtar er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, í Skerjafirði, Úlfarsárdal og á Gufunesi.
Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir atvinnulóð við Bústaðaveg 151B. R18040220
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir atvinnulóð við Bústaðaveg 151C. R18040220
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir atvinnulóð við Bústaðaveg 151D. R17090188
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði til Malbikunarstöðvarinnar Höfða á Esjumelum í Reykjavík, með fyrirvara um gildistöku deiliskipulags. R19070109
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að auglýsa lóðirnar Lambhagaveg 8 og 10 til sölu á föstu verði, ásamt fylgiskjölum. R19080104
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að auglýsa lóðina Krókháls 7A til sölu á föstu verði, ásamt fylgiskjölum. R19080105
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti að þessu sinni vegna sölu íbúðar að Vesturgötu 7, nr. 01-0408, ásamt fylgiskjölum. R19080057
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu málsins.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. ágúst 2019, ásamt fylgiskjölum.
Með vísan til umsagnar borgarlögmanns er lagt til að borgarráð samþykki að breyta þeirri kvöð er varðar lágmarksaldur til kaupa á íbúðum þannig að aldurstakmark færist úr 67 árum yfir í 60 ár og yfirlýsingu þess efnis verði þinglýst af hálfu Reykjavíkurborgar á fasteignina Hólaberg 84. Ekki þykja vera forsendur til niðurfellingar þeirrar kvaðar er varðar söluverð íbúða. R19060150
Samþykkt.
Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 11.10 tekur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stefnu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2025. R19070015
Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð vill nota tækifærið og þakka lögreglunni fyrir afar gott samstarf á undanförnum árum í mörgum mikilvægum verkefnum sem stuðla að öryggi og vellíðan borgarbúa. Gott samstarf lögreglu og borgaryfirvalda er mikilvægt við skipulagningu og framkvæmd viðburða og það er sannarlega þakkavert nú þegar viðburðadagatal borgarinnar er orðið svo þétt.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir og Theódór Kristjánsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju bréf skrifstofu þjónustu og reksturs, dags. 17. maí 2019, varðandi Kyndilborgarstyrk til Reykjavíkur úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun ESB, ásamt fylgiskjölum sem færð var í trúnaðarbók á fundi borgarráðs þann 20. júní 2019. R18110185
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:
Það er gríðarlegt fagnaðarefni að fá svona háan styrk úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Styrkurinn rennur til sjö borga í Evrópu en alls fara 85 m.kr. til Reykjavíkur og 73 m.kr. til Orkuveitu Reykjavíkur á næstu fimm árum. Styrkurinn verður nýttur til að stuðla að kolefnishlutleysi, orkuskiptum í samgöngum, snjallvæðingu bygginga og orkuspörun, sjálfbæru borgarskipulagi og sjálfbærum samgöngum. Þá er nýju sviði rekstrar og þjónustu hrósað fyrir frumkvæði í málinu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf yfirkjörstjórnar Reykjavíkur, dags. 20. ágúst 2019, varðandi úrskurð dómsmálaráðuneytisins vegna kæru Vigdísar Hauksdóttur á úrskurði kjörnefndar skv. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Einnig er lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. ágúst 2019, með upplýsingum um kostnað Reykjavíkurborgar vegna kærunnar, í samræmi við ákvæði 100. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. R17040014
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagatæknileg atriði hindra að hægt sé að taka kæru mína til efnismeðferðar í efstu lögum stjórnsýslu ríkisins. Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins segir: „Á grundvelli framangreindrar niðurstöðu tekur ráðuneytið því kæruna ekki til efnislegrar meðferðar.“ Alvarlegar athugasemdir dómsmálaráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar og Persónuverndar sem bárust borgaryfirvöldum fyrir kosningar undirstrika alvarleika málsins. Þær voru að engu hafðar og sífellt fundnar nýjar hjáleiðir til að hrinda verkefninu í framkvæmd og var því um einbeittan ásetning að ræða að snerta við þessum hópum. Persónuvernd sem er eftirlits- og undirstofnun dómsmálaráðuneytisins úrskurðaði um lögbrot á persónuverndarlögum. Meirihlutinn er rúinn trausti og situr á valdastólum á grunni vafans um hvernig úrslit kosninganna væru hefði ekki verið farið í ólöglegar snertingar við kjósendur. Ljóst er að breyta þarf lögum á þann hátt að hægt sé að ógilda kosningar komist upp um kosningasvindl eftir sjö daga kærufrest laganna. Er því beint til dómsmálaráðuneytisins ásamt því að kosningaeftirliti verði komið á í næstu borgarstjórnarkosningum og hvatt er til þess að ráðuneytið geri lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE viðvart. Kosningaeftirlitinu er ætlað að tryggja frjálsar og lýðræðislegar kosningar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Leiðangur áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í borgarráði er orðinn afar vandræðalegur og hefur borgarfulltrúinn enn á ný magalent út í skurði. Í leiðinni hefur fulltrúinn sóað tíma og fjármunum borgarinnar. Reikningurinn sem greiðist úr borgarsjóði vegna þessarar erindisleysu hans er um tvær milljónir.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Hroki, ósvífni og óheiðarleiki einkennir bókun meirihlutans. Það er ekki borgarfulltrúi Miðflokksins sem komst að því Reykjavíkurborg braut lög í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Það var Persónuvernd sem er undir- og eftirlitsstofnun dómsmálaráðuneytisins. Rétt er að benda meirihlutanum á að áfallinn kostnaður hefði aldrei komið til hefði borgarstjóri og þáverandi meirihluti fallið frá áformum um aðgerðir að snerta þrjá hópa fyrir kosningar eins og eftirlitsstofnanir ráðlögðu. Ekki var farið að ábendingum dómsmálaráðuneytisins og þeirra eftirlitsstofnana ríkisins sem gerðu athugasemd við kosningaverkefnið. Verkefnið var allt rekið af skrifstofum borgarstjóra og ráðhússins en alvarlegast er þó að erindi dómsmálaráðuneytisins sem sent var 23. maí 2018 til borgarinnar, var ekki tekið fyrir af yfirkjörsókn fyrr en að afloknum kosningum sem haldnar voru 26. maí. Ítrekað er að kosningaeftirliti verði komið á í næstu borgarstjórnarkosningum og hvatt er til þess að dómsmálaráðuneytið geri lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE viðvart. Í stað þess að iðrast og biðjast afsökunar er ráðist að borgarfulltrúanum sem borið hefur úrskurð Persónuverndar uppi til að tryggja að farið sé að lögum og koma í veg fyrir að vegið sé að lýðræðinu í lögbundnum kosningum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ekki verður brugðist við innihaldslausum ásökunum og dylgjum áheyrnafulltrúa Miðflokksins en það lá í augum uppi sem allflestir lögfróðir menn vissu að leiðangur borgarfulltrúans var á sandi byggður enda hafið yfir allan vafa að kærufrestur var liðinn og ekkert að finna í lögum né athugasemdum með frumvarpi til laganna um heimild til að framlengja kærufrestinn. Borgarfulltrúinn hefði betur mátt hafa vaðið fyrir neðan sig í stað þess að eyða tíma í erindisleysu með tilheyrandi kostnaði.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Ekki er hægt að taka kosningasvindlið til efnisúrskurðar vegna lagatæknilegra ágalla. Það er alvarlegt lýðræðinu að heimilt er að svindla í kosningum ef ekki kemst upp um svindlið innan sjö daga ákvæðis laganna. Skömmin er öll borgarstjóra. Það fríar borgarstjóra og þáverandi meirihluta ekki ábyrgð þar sem samkvæmt úrskurði Persónuverndar voru lög brotin. Ítrekað er að kostnaðurinn hefði aldrei komið til hefði verið hlustað og farið eftir ráðleggingum eftirlitsstofnana og dómsmálaráðuneytisins fyrir kosningar. Bókanir meirihlutans eru smjörklípa til að skauta yfir alvarleika málsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja óheppilegt að ekki sé hægt að taka kæru vegna borgarstjórnarkosninganna til efnislegrar meðferðar. Fyrir liggur að borgin braut lög um persónuvernd í aðdraganda kosninganna og virti að vettugi varnaðarorð. Lögum samkvæmt er kærufrestur mjög þröngur og mætti endurskoða þau ákvæði þegar fram koma lögbrot eftir að kærufresti lýkur líkt og gerðist eftir borgarstjórnarkosningarnar 2018.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 19. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umhirðu Árbæjarsafns, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019. R19060233
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill byrja á að þakka gott svar og segja kannski það eitt hvað varðar slátt og önnur verk að útboð á verkum mega fara fram þótt kostnaður sé undir viðmiðunarmörkum. Gott var þó að leitað var tilboða í sláttinn en enn betra er ef verkið fari í útboð.
Fylgigögn
-
Lagt til að Geir Finnsson taki sæti sem varamaður í mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráði í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. R18060083
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt er til að Pawel Bartoszek taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Diljár Ámundadóttur. Jafnframt er lagt til að Geir Finnsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. R18060086
Samþykkt. -
Lagt er til að Diljá Ámundadóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Pawels Bartoszek. Jafnframt er lagt til að Geir Finnsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Vilborgar Guðrúnar Sigurðardóttur. R18060087
Samþykkt. -
Lagt er til að Geir Finnsson taki sæti sem varamaður í ofbeldisvarnarnefnd í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. R18060106
Samþykkt. -
Lagt er til að Diljá Ámundadóttir taki sæti í samstarfsnefnd Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. R18060114
Samþykkt. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að gerð verði tilraun í samvinnu Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar í Reykjavík með að koma upp eftirlitsmyndavélum í tilteknum hverfum borgarinnar sem eru afskekkt eða í útjaðri borgarinnar. Um er að ræða sambærilegar vélar og settar hafa verið upp í öðrum sveitarfélögum m.a. Seltjarnarnesi, Garðabæ og Selfossi. Slíkar vélar yrðu settar upp í samráði við íbúa og lögreglu sem bæri ábyrð á framkvæmdinni og upptökunum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19080139
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. -
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er upplýsinga um hvort skýrar úthlutunarreglur eru til varðandi úthlutun íbúða hjá Félagi eldri borgara? Ef svo er lágu þessar upplýsingar fyrir þegar félaginu var úthlutað lóð í Árskógum? R19080140
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að borgin og skipulagsyfirvöld í borginni gangi í það verk að einfalda byggingarreglukerfið. Sveitarstjórnir hafa skipulagsvaldið og ættu að geta einfaldað kerfið ef þær vilja. Margir kvarta yfir hversu þungt í vöfum umsóknarferlið er t.d. er ekki hægt að senda öll gögn rafrænt. Afgreiðsla umsókna tekur oft langan tíma og framkvæmdaraðili veit oft ekki hvenær hann fær leyfið og getur því ekki skipulagt sig. Setja þyrfti skýr tímamörk um hvenær afgreiðsla liggur fyrir eftir að umsókn berst. R19080141
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort það hafi aldrei komið til greina við skipulag einstakra reita að setja inn ákvæði um meðalstærð íbúða. Sem dæmi ef ákvæði væri að meðaltalið væri 80 fm. íbúð, myndi það þýða að ef byggingarverktakinn byggði eina 100 fm. íbúð, þyrfti hann að byggja aðra 60 fm. íbúð á móti til að ná 80 fm. meðaltali. Borgaryfirvöld gætu sett slík meðaltalsmörk til að stuðla að breytilegri stærð íbúða á ákveðnum reitum/svæði og þar með að margar stærðir íbúða stæðu til boða. R19080142
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Eins og vitað er eru komin ný umferðarlög. Samkvæmt þeim mega hreyfihamlaðir, með svokölluð P-kort, keyra á göngugötum. Borgarfulltrúi Viðreisnar hefur nýlega tjáð sig um þetta ákvæði í fjölmiðlum á þann hátt að það vekur upp áhyggjur af því hvort borgarmeirihlutinn ætli kannski að hunsa þetta ákvæði og þar með brjóta lög? Borgarfulltrúi Viðreisnar segir að löggjafinn hafa verið á villigötum þegar ný umferðarlög voru samþykkt. Það þykir nokkuð alvarlegt þegar borgarfulltrúi er farinn að segja að löggjafinn „sé á villigötum“. Með því að segja það er hann að grafa undan trausti fólks á löggjafanum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það sérstaklega alvarlegt að kjörinn fulltrúi tjái sig með þessum hætti um löggjafann. Borgarfulltrúi Viðreisnar hefur áhyggjur af heildarásýndinni en tjáir sig ekkert um þarfir fatlaðs fólks og að gefa þeim kost á að komast inn á göngugötu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er feginn að frumvarpið kom aldrei fyrir sjónir borgarmeirihlutans sem hefði þá lagt allt kapp á að beita sér gegn því og þar með hefta möguleika fatlaðra að komast leiðar sinnar. Ætlar meirihlutinn að virða ný umferðarlög, það ákvæði sem kveður á um að hreyfihamlaðir geti ekið og lagt á göngugötu? R19080143
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarráð samþykki að tekjur foreldra/forsjármanna hafi bein áhrif á gjaldskrá frístundaheimila. Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Flokkur fólksins hefur lagt til að þeir foreldrar sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis fái gjaldfrjáls frístundarheimili en þeirri tillögu hefur verið hafnað. Á árinu 2017 fengu 466 foreldrar 777 barna fjárhagsaðstoð til framfærslu. Margir þessara foreldra geta ekki greitt frístundargjaldið og lenda í vanskilum. Þá hefst afar tyrfin vegferð þeirra til að reyna að fá skuld sína afskrifaða. Flókið ferli er aldrei ódýrt. Ferli sem er á mörgum stigum og kemur inn á borð margra starfsmanna kostar peninga. Ferlið er auk þess óþarflega snúið því skóla- og frístundasvið hefur ekki heildarmyndina hjá sér, starfsmenn hafa engar upplýsingar um tekjur foreldra. Árið 2017 fengu 466 foreldrar 777 barna í Reykjavík fjárhagsaðstoð til framfærslu. Það sem verra er að enn fleiri þyrftu aðstoð en fá ekki. Hægt er að sækja um þriggja mánaða skuldaskjól. Matsreglur og umsóknarferlið er flókið og kemur inn á borð margra.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19080144
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð frá borginni fái sérstakan styrk til að standa straum af gjaldi frístundaheimilis og þurfi því ekki að nota frístundakortið í þeim tilgangi enda ekki markmið þess. Markmið og tilgangur frístundakorts er eftirfarandi: „Að öll börn og unglingar í Reykjavík 6 - 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.“Það er mikilvægt að öll börn sitji við sama borð þegar kemur að tækifærum til að upplifa reynslu og nám. Frístundakortið er hugsað til þess að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundaiðju. Það er því mjög mikilvægt að frístundakortið sé notað til þess einvörðungu en að foreldrar sem eru fjárhagslega aðþrengdir séu ekki þvingað til að nota kortið til að greiða upp í gjald frístundaheimilis. Til að foreldrar geti unnið úti þarf barnið að hafa gæslu a.m.k. þar til það nær 9-10 ára aldri. Dvöl barns á frístundaheimili er því nauðsynleg til að foreldrar geti unnið úti. Það er því ekki sanngjarnt að þessir foreldrar verði að nota frístundakort sem hugsað er til að auka jöfnuð til að greiða upp í gjald frístundaheimilis.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19080146
Vísað til meðferðar velferðarráðs. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga Flokks fólksins um að öll mál Flokks fólksins: fyrirspurnir, tillögur og bókanir sem Flokkurinn hefur lagt fram frá upphafi kjörtímabilsins og afgreiðsla hvers máls fyrir sig verði sett inn á vefsvæði oddvita á heimasíðu Reykjavíkurborgar í því skyni að auka aðgengi borgarbúa að málum Flokks fólksins í borginni og afgreiðslu þeirra. Hér er um sjálfsagt mál að ræða enda fordæmi fyrir sambærilegu kerfi hjá Alþingi. Borgarbúar eiga rétt á að hafa þetta aðgengi sem auðveldast. R19080148
Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að heimilt verði að leggja frítt í bílastæðahúsin í borginni í 120 mínútur á dag. Tillaga Flokks fólksins sem hér er lögð fram er að heimila að leggja frítt í bílastæðahúsin í 120 mínútur á dag. Lagt er til að viðbótarkostnaður sem af þessu hlýst verði tekinn af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205. Áður hefur Flokkur fólksins lagt til að heimila að leggja frítt í 90 mínútur í bílastæði Miðbæjarins og einnig að komið verði á bifreiðastæðaklukku í borginni sem reynst hefur frábærlega vel þar sem slíkt fyrirkomulag er. Enn hafa ekki borist viðbrögð borgarmeirihlutans við þessum tillögum. Bílastæði Miðborgarinnar eru ekki fullnýtt og kemur þar margt til. Að heimila frítt stæði í 2 tíma á dag er hvatning fyrir íslendinga að skjótast í Miðbæinn. Auka mætti sýnileika þessara bílastæðahúsa, t.d. með því að auglýsa þau betur með myndrænum hætti. Annað mál er síðan hvernig ástatt er um bílastæðahúsin en mörg þeirra eru því miður afar óaðlaðandi og aðkoma þröng og hafa þar að leiðandi fælingaráhrif. Mjög margt eldra fólk forðast þau. Eins og vitað er hefur miðbærinn svo gott sem tæmst af íslendingum og er nú fátt að finna þar nema ferðamenn og þá sem búa á svæðinu auk gesta sem sækja skemmtanalífið.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19080149
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga Flokks fólksins að meirihlutinn í borgarstjórn og skipulags- og samgönguráði eigi alvöru og heiðarlegt samtal við hvern einn aðila sem sendi borgarstjórn opið bréf í maí s.l. og ræði afstöðu þeirra og óskir hvað varðar fyrirkomulag á Laugavegi og Skólavörðustíg. Í bréfinu segir: „Við sem skrifum þetta opna bréf rekum öll fyrirtæki sem hafa starfað í miðbænum í 25 ár eða lengur. Samanlögð viðskiptasaga fyrirtækjanna er 1.689 ár. Við höfum því lifað tímana tvenna. Við höfum staðið vaktina þrátt fyrir tilkomu Kringlu, Smáralindar og fleiri verslunarkjarna víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Sumarlokanir gatna í miðbænum frá árinu 2012 og síendurteknar skyndilokanir hafa leitt af sér mikinn samdrátt í verslun. Viðskiptavinir venjast af því að versla hér á þessu svæði þegar götunum er lokað og ástandið versnar í hvert sinn sem lokað er að nýju. Á þetta hefur ítrekað verið bent, meðal annars með veltutölum, en við höfum talað fyrir daufum eyrum borgaryfirvalda. Svo fór að Miðbæjarfélagið kærði ákvörðun um lokun gatna til ráðherra og það mál fór einnig fyrir umboðsmann Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að staðið hefði verið að lokunum með ólögmætum hætti. Borgaryfirvöld létu það álit sem vind um eyru þjóta og héldu uppteknum hætti.“
Greinargerð fylgir tillögunni. R19080150
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs. -
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Þegar eftir á að ráða í stöður á leikskólum og frístundaheimilum og sértækum frístundamiðstöðvum þá er inntöku barna frestað og fleiri börn tekin inn eftir því sem fjölgar í starfsmannahópnum. Skólaskylda er í grunnskóla og því ekki hægt að fresta inntöku barna ef skortur er á starfsfólki. Hvernig er málunum t.d. háttað þegar skortur er á skólaliðum? Fá starfandi skólaliðar þá greitt auka álag fyrir að sinna stærri barnahópi en þeir eiga að vera að sinna? Hver eru viðmiðunarmörkin í þessum málum? R19080151
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Er ákvörðun sem tekin var um lækkun framkvæmdargjalds á Lindargötu komin til framkvæmda? Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort búið sé að lækka framkvæmdargjald á Lindargötu 57-66 eins meirihluti fundarmanna ákvað að gera skyldi á félagsfundi dags 4. júlí 2018? R19080152
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Í umfjöllun um verkefnið Hagkvæmt húsnæði hefur komið fram að takmörk séu á því hversu mikið verð íbúðanna getur hækkað. Í samningum á milli Reykjavíkurborgar og þeirra sem fá lóðarvilyrði vegna verkefnisins um hagkvæmt húsnæði kemur fram að seljist íbúð ekki til forgangshópsins (einstaklingar 18-40 ára, þar sem þeir ganga fyrir sem eru að kaupa sínu fyrstu íbúð) innan þriggja vikna frá auglýsingu í fjölmiðlum (þ.m.t. vefmiðla) er heimilt að selja hana á almennum markaði. Ef það kæmi til þess yrðu íbúðirnar þá seldar úr kerfinu um hagkvæmt húsnæði á markaðsverði? Eða yrði verð íbúðinna takmarkað við ákveðnar upphæðir? R19080153
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Momentum greiðsluþjónusta ehf. og Gjaldheimtan ehf. voru lægstbjóðendur í útboði Reykjavíkurborgar um innheimtuþjónustu fyrir tímabilið eða 2018 – 2022. Hvað greiðir Reykjavíkurborg fyrir þennan samning við Momentum greiðsluþjónustuna ehf. og Gjaldheimtuna ehf. Hver hefur hagnaður þessara tveggja innheimtufyrirtækja verið árið 2018 og 2019 vegna skuldar borgarbúa? Þ.e.a.s. hversu mikið fjármagn hafa fyrirtækin fengið inn á sitt borð fyrir að sinna innheimtu fyrir Reykjavíkurborg? R19080154
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
- Kl. 12.55 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum.
Fundi slitið klukkan 12:57
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir