Borgarráð - Fundur nr. 5552

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 15. ágúst, var haldinn 5552. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ari Karlsson, Pétur Ólafsson og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 25. júlí 2019. R19010016

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 30. júlí 2019. R19010020

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Vegna vanrækslu á viðhaldi í grunnskólum Reykjavíkur þá hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks áhyggjur af því að slæmt ástand skólahúsnæðis muni bitna illa á skólabörnum næstu árinn. Nú þegar er ljóst að fjöldi barna mun ekki geta hafið skólagöngu sína á þessum vetri í húsnæði sem er fullbúið. Það skapar gríðarlegt álag á börn, foreldra þeirra og allt starfsfólk. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Undanfarin tvö til þrjú ár hafa framlög til almenns viðhalds á skólahúsnæði verið stóraukin og eru aðrar framkvæmdir í traustum farvegi. Allar fullyrðingar um vanrækslu viðhalds eru því úr lausu lofti gripnar og eiga engan veginn við því viðhaldsmál hafa verið sett í sérstakan forgang. Mikið og gott starf er unnið við að bæta aðbúnað bæði nemenda og starfsfólks um alla borg. Full ástæða er til að þakka skólastjórnendum, kennurum, öðru starfsfólki skólanna, foreldrum og nemendum auk starfsfólks skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs fyrir þeirra hlut í að bregðast við þeim vanda sem upp hefur komið og auðsýnda þolinmæði í krefjandi stöðu. Það er í hæsta máta einkennilegt að borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóki með þessum hætti þar sem fulltrúum þeirra í skóla- og frístundaráði er fullkunnugt um að almennt viðhald er í traustum farvegi og hafa fengið upplýsingar um að unnið sé að því af fullum krafti af starfsfólki skóla- og frístundasviðs að leysa úr þeim úrlausnarefnum sem upp komu á árinu svo að skólastarf geti hafist eins og venja er í lok ágúst.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að reyna á að sinna langtíma viðhaldsleysi skólabygginga eitthvað meira en undanfarin ár. Eins og margsinnis hefur komið fram m.a. frá allmörgum skólastjórnendum og foreldrum þá er ástand skólabygginga hrikalegt sums staðar vegna langtíma viðhaldsleysis og mikillar myglu. Nú á að setja 215 milljónir í viðbót í viðhald skólabygginga eftir því sem borgarfulltrúi skilur. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er bara brot af því fjármagni sem þyrfti að leggja í þetta risaverkefni ef ekki á að taka áratug að koma málum í viðunandi horf. Tugir barna og kennara hafa verið og eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Falin gögn vekja tortryggni t.d. hvort ástandið kunni að vera verra en talið er.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 19. júlí 2019. R19010024

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Reykjavíkurborg er frekar aftarlega í flokkunar- og söfnunarmálum jafnvel þegar miðað er við sum minni sveitarfélög á Íslandi. Sveitarfélög á stærð við Reykjavík í nágrannaríkjum okkar eru flest komin mun lengra í flokkun, söfnun og endurvinnslu heldur en Reykjavíkurborg. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að auðvelda fólki söfnun og flokkun með bættu aðgengi og að tryggt verði að endurvinnsla verði aukin. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Þessar fullyrðingar standast ekki skoðun. Reykjavíkurborg er í fararbroddi þegar það kemur að söfnun og meðhöndlun úrgangs. Mikill sveigjanleiki og val er við lýði í Reykjavík. Endurgjaldslausar grenndarstöðvar, endurvinnslustöðvar, Spillivagninn, djúpgámar, græna og bláa tunnan og tunnufyrirkomulag eftir þörfum íbúa eru nokkur dæmi um framsækna og góða þjónustu. Vissulega hefur tafist að sérsafna lífrænum úrgangi en það skiptir máli hvað er gert við hann eftir að honum er safnað. Reykjavík hefur ásamt öðrum sveitarefélögum ráðist í gerð gas- og jarðgerðarstöðvar til að nýta betur lífrænan úrgang sem fellur til. Nýlega var samþykkt að ráðast í tilraunaverkefni í haust um sérsöfnun á lífrænum úrgangi á Kjalarnesi og sérsöfnun á flokkuðu gleri og málum á Kjalarnesi og í Árbæ og aðgerðir til að auka enn frekar flokkun á pappír frá fyrirtækjum og heimilum. Á næsta ári verður það að fullu innleitt um alla borg að sérsafna lífrænum úrgangi og flokkun málma og glers. Stefna hefur verið mörkuð um hringrásarhagkerfið í Reykjavík og er ríkur vilji til að ganga enn lengra í úrgangsmálum með umhverfisvernd og til að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum að leiðarljósi.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 3. júlí 2019. R19010030

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar. 

    Í 14. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Inngrip Reykjavíkurborgar í sumarvinnu ólögráða barna í Vinnuskólanum þar sem þeim var „boðið“ að taka þátt í mótmælum og gerð mótmælaspjalda er eins og í verstu lygasögu. Vinnuskólinn er kominn langt, langt út fyrir sitt lögbundna hlutverk. Nú þegar hefur málinu verið vísað til umboðsmanns barna. Fulltrúar minnihlutans í umhverfis- og heilbrigðisráði hafa einnig vísað til félagsmálaráðuneytisins sem fer með málefni barna til úrskurðar um lögmæti aktívistaaðgerða Vinnuskólans. Hér er um grófan heilaþvott að ræða á ólögráða börnum. Borið hefur verið við að þetta „verkefni“ væri framhald á mótmælunum sem áttu sér stað í vetur þegar ólögráða börn sem hafa skólaskyldu samkvæmt lögum mættu á Austurvöll. Þessar aðgerðir Vinnuskólans nú eru pólitískt drifnar og þær voru ekki lagðar fyrir umhverfis- og heilbrigðisráð. Embættismenn borgarinnar hafa enn og aftur blandað sér í stjórnmálin. Ekkert, nákvæmlega ekkert réttlætir það að Vinnuskólinn standi fyrir því að kenna börnum að gera mótmælaspjöld og leiða þau í kröfugöngu.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum langsóttu samsærisfullyrðingum fulltrúa Miðflokksins um heilaþvott og pólitísk afskipti af námskrá og viðfangsefnum Vinnuskólans enda er það í hæsta máta einkennilegt að kjörnir fulltrúar séu að handstýra og hafa óeðlileg afskipti af störfum starfsfólks borgarinnar sem er ráðið vegna sérþekkingar sinnar og út frá faglegum forsendum, eins og Miðflokkurinn virðist samt vilja gera. Kjörnum fulltrúum ber að virða verkaskiptingu fólks og blanda ekki saman pólitískri stefnumörkun við einstaka starfsmannamál eða afmörkuð verkefni starfsfólks borgarinnar. Borgarráðsfulltrúar meirihlutans treysta því að borgarstarfsmenn sinni störfum sínum af alúð og heilindum og leggja áherslu á að tryggja sjálfstæði þeirra og að starfsfólki sé ekki ógnað af ritskoðunartilburðum og óeðlilegum afskiptum kjörinna fulltrúa.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar:

    Vegna fyrsta liðar fundargerðarinnar; meðal tillagna stýrihóps um aðgerðaráætlun í úrgangsmálum er að hafin verði söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi til jarðgerða í tilraunaskyni, að flokkað verði gler og málmar og að hefja átak flokkunar á pappír til endurvinnslu. Þessu ber að fagna en hér er minnt á tillögu Flokks fólksins um að Sorpa taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi. Þetta hefði átt að vera löngu búið að gera og í raun hefði Reykjavík átt að vera leiðandi með slíkt kerfi sem stærsta sveitarfélag landsins. Nú hafa mörg sveitarfélög tekið þetta upp og má segja að Reykjavík sé að verða gamaldags þegar kemur að flokkun sorps. Þriggja flokka sorpflokkunarkerfi er nú þegar við lýði í tólf bæjarfélögum á landinu. Flokkur fólksins hvetur umhverfis- og heilbrigðisráð til að styðja við þessa tillögu sem vísað var til stjórnar Sorpu.
    Vegna 4. liðar fundargerðarinnar; Flokkur fólksins vill taka undir margt af því sem kemur fram hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í bókun um mál Vinnuskólans, að verkefni s.s. að búa til mótmælaspjöld hefði átt að vera borið undir foreldra. Borgarfulltrúar hafa eftirlitshlutverk og ef grunur leikur á að ekki sé leitað viðeigandi samráðs við foreldra er varðar málefni barna þeirra ber borgarfulltrúum að taka upp málið á vettvangi borgarinnar.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 38. og 39. liðum fundargerðarinnar:

    Fulltrúarnir furða sig á að ekki sé haft samráð við nærumhverfi við gerð framlagðrar deiliskipulagsbreytingar. Glórulaust er að leyfa 18 íbúðir og slíkt byggingarmagn á jafn lítilli lóð og þarna um ræðir, sérstaklega með tilliti til afar þröngrar aðstöðu sem þarna er fyrir. Fyrirliggjandi er að ekki er hægt að uppfylla lágmarks bílastæða kröfur sem mun enn auka á þann vanda sem íbúar í nágrenninu búa við í dag. Sú leið að hægt sé að kaupa sig frá kröfunni gerir örugglega mikið fyrir peningaskúffu borgarstjórnar, en ekkert fyrir íbúa hverfisins. Þessari afgreiðsla málsins er harmað. Borgartún 24 er hluti 3ja hæða stakstæðra húsa þessa götuhluta, sem nær milli Katrínartúns og Nóatúns. Því er ekki að furða að íbúa Mánatúns 7-17 reki í rogastans vegna þeirra breytinga sem hér um ræðir. Allar forsendur íbúa við kaup sinna eigna verða að engu. Ekki er gerð nein tilraun til að koma til móts við íbúana, heldur ekki rekstaraðila í nærumhverfinu sem einnig sendu inn athugasemdir. Sú aðferðafræði sem meirihluti VSPC beitir hér er reyndar kunnugleg: 1. Deiliskipulagsbreyting unnin án nokkurs samráðs við nærumhverfi. 2. Deiliskipulag sett í auglýsingu undir formerkjum samráðs. 3. Allar athugasemdir sem berast virtar að vettugi. Kjörnir fulltrúar virðast ekki skilja að þeir eru kosnir til að framfylgja vilja borgaranna og bera hag þeirra fyrir brjósti í sínum störfum. Góður stjórnandi velur leið samráðs og sátta, ekki stríð. Það að þrettán kærumál hafi verið að dagskrá fundar skipulags- og samgönguráðs segir sína sögu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 56. lið fundargerðarinnar: 

    Hér er verið að leggja fram bréf borgarstjóra um skipulagslýsingu sem er undanfari varanlegrar lokunar Laugavegar. Flokkur fólksins óskaði eftir að þessu máli yrði frestað til að hafa mætti betra samráð við hagsmunaaðila en sú málsmeðferðartillaga var felld á síðasta fundi borgarráðs fyrir sumarhlé. Nú er komið að því að keyra málið áfram í óþökk fjölda rekstraraðila sem sent hafa inn um 230 undirskriftir til að mótmæla þessum aðgerðum. Ekkert frekara samráð hefur verið haft í sumar enda löngu ljóst að allt tal um samráð er fátt nema sýndarmennska borgarmeirihlutans. Óskir Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar hafa einnig verið hunsaðar, þrátt fyrir að þeim hafi verið lofað að haft yrði samráð við samtökin. Minnt er á ný umferðarlög sem heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar. Lögin taka gildi um áramót. Í framhaldi vill borgarfulltrúi spyrja hvort hafinn sé undirbúningur innleiðingar þessarar nýju löggjafar?

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R19080038

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19080035

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi um greiðslu vegna riftunar Reykjavíkurborgar á verksamningi vegna útboðs nr. 14125 að fjárhæð kr. 12.868.533, ásamt fylgiskjölum. R18010110
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vorið 2018 var ákveðið að skynsamlegt væri að hverfa frá kostnaðarsömum endurbótum á grasvöllum Víkings en setja þess í stað gervigras á aðalvöll félagsins. Þetta var að tillögu félagsins og var talin betri nýting á fjármunum borgarinnar þótt ljóst væri að þessi breyfing á framkvæmdinni myndi þýða að greiða þyrfti verktaka vegna samnings um fyrirhugaðar endurbætur. Nú er komin niðurstaða í það og fullkominn heilsársgervigrasvöllur orðinn staðreynd sem nýtist frá morgni til kvölds.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er skaði að borgin þurfi að greiða yfir 8 milljónir í bætur til verktaka og lögfræðikostnað vegna breyttra ákvarðanna eftir að verkið var boðið út. Betra hefði verið ef þessar milljónir hefðu farið í bætta aðstöðu. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta mál er klúður alveg sama hvernig á það er litið. Hér gerir borgin samning sem hún getur ekki staðið við og mun kosta borgarbúa 8 milljónir. 8 milljónir sem hent er út um gluggann. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tvö bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 6. ágúst 2019, með umsögnum og athugasemdum hagsmunaaðila vegna tónleika Secret Solstice í Laugardal, ásamt fylgiskjölum og vegna mögulegrar viðhorfskönnunnar til hátíðarinnar. R18110156

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Við viljum þakka íþrótta- og tómastundasviði ásamt samstarfsaðilum innan borgarinnar hjá skóla- og frístundasviði og velferðarsviði fyrir frábært starf og gott utanumhald. Tónleikahöldurum óskum við til hamingju með góða tónleikahátíð og foreldrum í hverfinu fyrir vel heppnað foreldrarölt og samstarf við forvarnahóp borgarinnar. Íþrótta- og tómstundasviði er falið að skoða dagsetningar á Secret Solstice fyrir 2020, meta hvort slík breyting gangi upp en jafnframt skoða hvort kanna eigi hug íbúa með könnun á viðhorfum til hátíðarinnar innan hverfisins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Allir eru sammála um að það gekk betur í ár en í fyrra og kemur margt til sem skýrir það. Ítarlegar umsagnar liggja fyrir frá ólíkum hagsmunaðilum. Þrátt fyrir aukið eftirlit komu engu að síður upp 40 fíkniefnamál og í athvarfið komu 43 unglingar vegna ölvunar. Vitni voru að því að barþjónar voru að selja gestum lokaðar dósir á barnum sem samræmist ekki lögum og unglingar fengu margir hverjir afgreiðslu á barnum þrátt fyrir að vera með Youth (13-17 ára) armbönd. Ekki var því nægjanlega fylgst með börnum allan tímann. Tímasetning stóðst ekki en skv. starfsleyfisskilyrðum fyrir hátíðina átti tónleikum að vera lokið 23:30. Engu að síður var spilað fram yfir miðnætti. Flokkur Fólksins lagði til á fundi borgarráðs styttingu á vínveitingaleyfi um hálftíma, 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Fram kemur í umsögn Þróttar að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hefur skemmt völlinn og sé svæðið í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu. Nú liggur fyrir ályktun íbúasamtaka Laugardals um að gerð verði viðhorfskönnun meðal íbúa um hvort halda eigi hátíðina aftur í Dalnum. Áætlaður kostnaður er 800 þúsund. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur einfaldlega til að fundinn verði hentugri staður fyrir tónleikahátíð af þessu tagi og af þessari stærðargráðu.

    Steinþór Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 13. ágúst 2019, að viðaukum að fjárhagsáætlun 2019, ásamt greinargerðum. R19010200
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Jákvætt er að Reykjavíkurborg bjóði upp á gjaldfrjáls námsgögn. Borgin gæti stigið stærra skref og boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í átt að því að gera grunnskólana gjaldfrjálsa og þannig aðeins létt álagið af börnum sem búa við slæman efnahag

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning á mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar janúar - maí 2019.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19010075

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning um húsnæði við Norðlingabraut 4, ásamt fylgiskjölum. R19070084
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í ítarlegri og góðri kynningu sem fram fór á helstu framkvæmdum við skólahúsnæði kom fram að unnið er mikið og gott starf við að bæta aðbúnað nemenda og starfsfólks á viðkomandi stöðum og að almennt viðhald á skólahúsnæði er í traustum farvegi. Full ástæða er til að þakka skólastjórnendum, kennurum, öðru starfsfólki skólanna, foreldrum og nemendum auk starfsfólks skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs fyrir þeirra hlut í að bregðast við þeim vanda sem upp hefur komið og auðsýnda þolinmæði í krefjandi stöðu. Lögð er áhersla á að mikilvægt er að bæta húsakost í Norðlingaskóla til að mæta auknum nemendafjölda, sem enn mun aukast á komandi árum í tengslum við uppbyggingu í hverfinu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðisflokkurinn telur tímabært að endurskoða leigu á húsnæði hjá Reykjavíkurborg í heild, en háar fjárhæðir fara í húsaleigu hjá borginni.

    Helgi Grímsson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning um húsnæði við Köllunarklettsveg 4, ásamt fylgiskjölum. R19070076
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðisflokkurinn telur tímabært að endurskoða leigu á húsnæði hjá Reykjavíkurborg í heild, en háar fjárhæðir fara í húsaleigu hjá borginni. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. ágúst 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna matshluta í Arnarbakka 2-6, ásamt fylgiskjölum. R19080034
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram ársskýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 15. ágúst 2019, til borgarstjórnar fyrir árið 2019. R19070126

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð þakkar endurskoðunarnefnd borgarinnar fyrir afar góða vinnu á síðasta ári eins og sjá má í ársskýrslu nefndarinnar. Nefndin hefur eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits ásamt áhættustýringu og styrkir borgarráð og æðstu stjórnendur í störfum sínum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins tekur undir með nefndinni og innri endurskoðun að þurft hefur að takast á við mörg ófyrirséð verkefni utan áætlunar síðasta misseri sem mun hafa áhrif á framgang samþykktar endurskoðunaáætlunar. Síðasta ár hefur komið í ljós margir gallar í borgarkerfinu þegar kemur að eftirliti og skemmst er að minnast opinberunar á hvað fram fór bak við tjöldin við endurgerð braggans og fleiri verkefni sem ýmist voru ekki fullar fjárheimildir fyrir eða gerðir samningar. Allt fékk þetta að viðgangast árum saman sem hlýtur að þýða einhverskonar andvaraleysi eða ofmetið traust? Það er von borgarfulltrúa Flokks fólksins að allir þeir aðilar sem eiga að gæta þess að fjármál og fjármálastjórn borgarinnar sé í samræmi við lög og reglur séu stöðugt á tánum við að prófa og sannprófa virkni eftirlits og í sífelldri leit að veikleikum kerfisins. Erfiðast hefur verið að horfa upp á að ábendingar sem þó hafa verið lagðar fram af eftirlitsaðilum, sumar ítrekaðar, en sem samt hafa verið hunsaðar jafnvel í nokkur ár. Hvað þýðir það þegar ábyrgðaraðilar verkefna komast upp með slíka hunsun? Leiða má líkum að því að ekki hafi verið borin nægjanleg virðing fyrir eftirlitsaðilum fram til þessa og viðvaranir þeirra þess vegna bara látnar lönd og leið? 

    Lárus Finnbogason, Sigrún Guðmundsdóttir og Sunna Jóhannsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um hönnun borgarlínu, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. apríl 2019. R19040062

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokki fólksins finnst þessi svör við fyrirspurn Miðflokksins ansi rýr og telur að borgaryfirvöld geti ekki vel sett sig í spor borgarbúa sem sjá margir hverjir þetta risavaxna verkefni ekki alveg fyrir sér. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur einnig lagt inn fyrirspurnir sem vísað var til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. Enn hefur ekki borist svör við þeim. Þær eru hér með ítrekaðar: 1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin? 2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað? 3.Hversu margir km. verður línan? 4. Hvað þarf marga vagna í hana? 5. Á hvaða orku verður hún keyrð? 6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir? 7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu? 8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna? 9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. ágúst 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda hjólastæða, sbr. 45. lið fundargerð borgarráðs frá 14. mars 2019. R19030159

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 2. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingagjöf velferðarsviðs til eldri borgara, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019. R19060236

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur að velferðarsvið hafi ekki það verklag að hringja í íbúa til að kanna þekkingu þeirra á réttindum sínum eða kanna almenna líðan. Hér er verið að tala um fólk 75 ára og eldri. Þjónustumiðstöðvar vita án efa hverjir eru í viðkvæmustu stöðunni, einstaklingar sem hafa e.t.v. ekki verið virkir félagslega eða í að sækja réttindi sín. Ekki er verið að ætlast til að hringt sé í alla eldri en 75 ára sem eru alls 7570 manns eins og hlýtur að liggja í augum uppi. Vísað er í rannsókn um notkun eldri borgara á tölvum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er að tala um þá sem ekki nota tölvur og eiga ekki auðveldlega heimangengt t.d. á vetrum og sem eiga erfitt með lestur og eru þess vegna mögulega ekki upplýstir um réttindi sín. Af hverju má ekki hringja í þetta fólk og eiga við það samtal um réttindi þeirra og líðan? Finnst velferðarsviði það vera að fara illa með tímann að hringja í þennan skilgreinda hóp? Persónuleg tenging skiptir eldra fólk miklu máli, að heyra rödd einhvers og geta átt samtal við annan aðila. Í slíku samtali er því verið að slá margar flugur í einu höggi.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í svari velferðarsviðs þá eru margvíslegar leiðir farnar til að upplýsa eldri borgara um þá þjónustu sem í boði er. Nýtt er heimasíða, bæklingar sem sendir eru heim til allra 75 ára og eldri og liggja frammi víða t.a.m hjá þjónustumiðstöðvum, sundlaugum og bókasöfnum en þessir aðilar hafa með sér samstarf um upplýsingamiðlun til íbúa. Í aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum eldri borgara er gert ráð fyrir að allir íbúar eldri en 90 ára sem ekki eru með heimaþjónustu verði heimsóttir þar sem þjónusta er kynnt og þjónustuþörf metin, en starfsmenn heimaþjónustu sinna upplýsingagjöf til þeirra sem þeir þjónusta. Virkniþjálfar munu auk þess heimsækja alla sem metnir eru félagslega einangraðir og þeim verður boðið í nýliðakaffi. Engin gögn eru til um það að símtöl séu betur til þess fallin að upplýsa fólk um þjónustu en þessar fjölbreyttu leiðir sem þegar eru nýttar og eru í stöðugri endurskoðun.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 31. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi skort á dagforeldrum, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní 2019. R19060056

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í svari við fyrirspurninni virðist sem þetta líti vel út. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er að reyna að varpa ljósi á ákveðinn veruleika og hér er ein birtingarmyndin: Kona sem komin er 15 vikur á leið er nú að leita dyrum og dyngjum að dagmömmu til að kanna möguleika sína. Hún vill byrja snemma til að eiga sem bestu möguleika. Hún hefur hringt í marga dagforeldra en enginn þeirra treystir sér til að gefa nokkur svör svona fram í tímann og segja óvissu þeirra sjálfra mikla. Er það eðlilegt að dagforeldrar séu í þeirri stöðu að þurfa að rukka fyrir ónotuð pláss (frátekin) til að tryggja starfsöryggi sitt í þeim tilfellum sem foreldrar vilja vera lengur heima með barni sínu? Ákveðinn árstími er verri en annar og við því verður að bregðast. Annað dæmi. Ef kona sem á að eiga barn í desember og vill setja barnið til dagforeldri í lok næsta árs þá er það nánast vonlaust eins og staðan er núna. Varla getur skóla- og frístundarsviði þótt þetta eðlilegt ástand?

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 15. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfslokasamninga hjá Félagsbústöðum, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019. R19070048

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 15. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um greiðslu í hússjóð hjá Félagsbústöðum, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019. R19070047

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Óskað var eftir upplýsingum um gjald sem leigjendur Félagsbústaða eru látnir greiða í hússjóð og þjónustugjald á mánuði og fyrir hvað verið er að greiða nákvæmlega með gjaldinu. Það kemur á óvart að verið sé að rukka leigjendur fyrir rafmagn og hita og þrif og annað sem þarna er nefnt. Eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá leigjendum eru þeir sjálfir að greiða reikninga fyrir þrif og rafmagn sem dæmi. Spurningarmerki er sett við snjómokstur. Snjómokstur og fleira af þessu sem nefnt er kannast ekki allir leigjendur við. Hvað varðar öryggishnappinn ætti hann að vera valkvæður. Þetta svar í heild sinni vekur því upp margar spurningar og vangaveltur sem dæmi hvort ekki sé verið að seilast helst til of mikið í vasa leigjenda með öllum þessum gjöldum sem þeir eru sjálfir að hluta til að greiða beint eins og t.d. rafmagn og þrif. Þegar allt er talið, hússjóðsgjöld og þjónustugjöld ofan á leigu íbúða sem eru í afar misgóðu ástandi er hér orðið um ansi háar upphæðir að ræða. Nokkrar áhyggjur eru af málum hjá Félagsbústöðum. Leigjendur eru viðkvæmur hópur og margir kvarta ekki, hafa ekki vanist að kvarta og aðrir þora hreinlega ekki að kvarta.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar formanns borgarráðs, dags. 9. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um dagskrárvald í borgarráði, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019. R19070055

    Fylgigögn

  23. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um styttingu vinnuvikunnar í heimaþjónustu, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júní 2019. Einnig er lögð fram umsögn stýrihóps um styttingu vinnudags án launaskerðingar, ódags. R14050127
    Tillögunni er vísað frá. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessari tillögu hefur verið vísað frá. Að stytta vinnuvikuna hjá starfsfólki í heimaþjónustu er frábært tækifæri til að laða fólk að í þessi störf en í þessum geira hefur verið gríðarleg mannekla árum saman sem ekkert virðist ráðast við. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf t.d. eins og stytting vinnuviku eða betra fyrirkomulag vakta. Það er borgarmeirihlutans að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau. Það loforð sem gefið var fyrir rúmu ári þegar meirihlutasáttmálinn var kynntur um að taka á þessum málum fyrir alvöru hefur því ekki verið efnt.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, ódags., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslýsingar stöðugilda í miðlægri stjórnsýslu, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018 og 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. desember 2018.  R18070142

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Enginn þáttur í starfsemi borgarinnar hefur vaxið jafn mikið og „miðlæg stjórnsýsla“ borgarinnar á síðustu árum og kostnaður hleypur á milljörðum króna ár hvert, eða 5,5 milljarða á síðasta ári. Það segir sína sögu að svar við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins skuli fylla 613 blaðsíður. Þetta er skýrt dæmi um ofvaxið stjórnkerfi sem bitnar á endanum á grunnþjónustu við íbúa. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins þakka fyrir svarið.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir yfirgripsmikið svar. Að fyrir liggi starfslýsingar vegna allra starfa í miðlægri stjórnsýslu endurspeglar fagmennsku og festu í stjórnsýslu sem er bæði nauðsynleg og þakkarverð.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, ódags., við fyrirspurn borgarráðfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslokasamninga, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júní 2019. R18080131

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þá er ljóst að ofan á starfslokagreiðslur til stjórnenda í dótturfyrirtækjum borgarinnar upp á hundruði milljóna, hefur borgin sjálf borgað yfir 100 milljónir til viðbótar í starfslokagreiðslur til stjórnenda borgarinnar á síðustu tveimur kjörtímabilum. 

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sveigjanleg vinnulok, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019. Einnig er lögð fram umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs, ódags. R19040145
    Tillögunni er vísað frá. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er afar leitt að borgarmeirihlutinn vísi þessari tillögu frá. Núna er sveigjanleiki afar takmarkaður og skilyrtur við alls kyns kvaðir. Fólk sem náð hefur sjötugsaldri er ekki gamalt fólk í dag hvorki í óeiginlegum né eiginlegum skilningi og fyrir því eru margar ástæður. Það ætti að vera markmið borgarinnar leynt og ljóst að halda í starfsfólk sem allra lengst enda gríðarlegur mannauður fólginn í þeim sem komin eru með áratuga reynslu. „Endurráðning í hálft ár, tvö ár í viðbót á tímakaupi“ er lítið fyrir starfsmann í fullu fjöri sem vill fá að sinna starfi sínu áfram. Hvað með að taka bara „þakið“ í burtu, leyfa fólki að vera eins lengi og það vill og getur. Leyfa fólki að stýra sínu lífi sjálft en ekki vera stýrt af borgarkerfinu. Er ekki tími til að við förum að hugsa út fyrir boxið í þessum efnum? Losum um höft, öll þessi skilyrði og kvaðir! Sem dæmi þarf starfsmaður að hafa unnið samfellt hjá borginni í 10 ár til að minnkun á vinnuskyldu feli ekki í sér skerðingar. Hvað með þann sem hefur starfað í 12 ár hjá borginni en ekki samfellt?

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð vísar tillögu áheyrnafulltrúa Flokks fólksins frá þar sem þegar er sveigjanleiki innan borgarinnar til starfsloka. Borgarráð lítur hins vegar svo á að gagnkvæmur ávinningur geti falist í því fyrir Reykjavíkurborg og starfsfólk að núgildandi reglur og ákvæði kjarasamninga varðandi það hvernig og hvenær fólk lýkur atvinnuþátttöku, verði skoðaðar. Annars vegar getur verið óæskilegt að knýja fólk til að láta af störfum meðan það hefur enn gott starfsþrek og vilja til að halda áfram starfi. Hins vegar getur verið æskilegt að gefa fólki kost á að hætta eða draga úr atvinnuþátttöku fyrr en nú er. Borgarráð hvetur nýtt mannauðs- og starfsumhverfissvið til að skoða enn frekar aukinn sveigjanleika og hugmyndir eldra starfsfólks til að mæta væntingum þeirra og óskum.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við aðstoðarmann borgarstjóra, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní 2019. R19060059

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í svari segir einungis að aðstoðarmaður sinnir margvíslegum verkefnum fyrir borgarstjóra. Aðstoðarmaður er með 1,3 m.kr. á mánuði sem hlýtur að þýða að hér er um sérfræðivinnu að ræða. Starf aðstoðarmanna borgarstjóra hefur verið við lýði í aldarfjórðung. Spyrja má hvort þetta starf sé nauðsynlegt. Í fyrsta lagi er spurning hvort borgarstjóri sjálfur sé ekki fullfær um að annast mörg af þessum verkefnum sjálfur eða fela skrifstofu borgarstjóra eitthvað af þessum verkefnum en þar starfa fjöldi sérfræðinga. Aðstoðarmaður borgarstjóra ferðast mikið með borgarstjóra. Ferðakostnaður aðstoðarmanns 2018 er 712 þúsund. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá að fetta fingur út í þetta og með því leggja áherslu á að nota mætti þetta fé sem embættið kostar í beina þágu við borgarbúa en víða í borginni er þjónustu ábótavant. Hér er ekki um neitt persónulegt að ræða að sjálfsögðu og vonar borgarfulltrúi Flokks fólksins að borgarstjóri og aðstoðarmaður hans taki þessari ábendingu vel. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Full þörf er á þvi að borgarstjóri hafi aðstoðarmann enda hefur það embætti verið við lýði í aldarfjórðung. Frekar ætti að vekja máls á þvi að borgarstjóri sé áfram með einn aðstoðarmann á meðan ráðherrar hafa fengið heimild til að ráða tvo og þrjá.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á skrifstofu borgarstjóra á síðasta ári störfuðu yfir 50 manns en skrifstofan kostaði yfir 800 milljónir, þar af kostar pólitískur aðstoðarmaður borgarstjóra skattgreiðendur 20 milljónir á ári hverju.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um eingreiðslu vegna kjarasamninga, sbr. 60. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019. R19070165

    Fylgigögn

  29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Er hafinn undirbúningur innleiðingar nýrrar löggjafar sem taka á gildi um næstu áramót og sem kveða á um að heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar? R19070069

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarbúum verði boðið til fundar við alla borgarfulltrúa í Tjarnarsal Ráðhússins a.m.k. tvisvar til þrisvar á ári. Þar mun borgarbúum gefast kostur á að hitta alla borgarfulltrúa í einu og leggja fram málefni til umræðu eða spyrja spurninga. Hægt er að hugsa sér ýmis konar fyrirkomulag á fundum sem þessum, td. að hafa ákveðna dagskrá en umfram allt að leyfa fundinum að vera dýnamískur, t.d. ef eitthvað málefni brenni á borgarbúum þá verði það ráðandi á fundinum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á lýðræði, lýðræðisleg vinnubrögð, sveigjanleika, tengsl og gagnsæi þegar kemur að samtali við borgarbúa. Mikilvægt er að skapa vettvang sem þennan til að ná almennilegri tengingu við fólkið í borginni í ljósi fjölmargra kvartana um skort á samráði og tillitsleysi borgaryfirvalda gagnvart borgarbúum hvað varðar mýmörg málefni stór sem smá. R19080067

    Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn vegna fjölda skeyta sem borgarfulltrúa Flokks fólksins eins og aðrir borgarfulltrúar hafa fengið send og varðar meint brot skólastjóra Kelduskóla að vísa ekki máli til skólaráðs eins og lögin gera ráð fyrir og andstöðu við fyrirhugaðar breytingar á skólahaldi í Staðarhverfi. Flest skeytin hafa eftirfarandi innihald: „Ég, x og er íbúi í Staðarhverfi í Grafarvogi óska eftir því að borgarstjórn taki til umfjöllunar mögulegt brot skólastjóra Kelduskóla á 8 gr. laga númer 91/2008 þegar hún vísaði ekki máli til skólaráðs eins og lögin gera ráð fyrir. Ykkur hafa þegar verið sendar allar upplýsingar og gögn varðandi þetta mál“. Margir hafa einnig bent á í þessum skeytum að deiliskipulag hverfisins beri að virða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur ekki séð nein viðbrögð við öllum þessum skeytum frá meirihluta borgarinnar í skóla- og frístundaráði og spyr hverju það sæti? R19080068

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúum hefur borist fjölda skeyta frá foreldrum sem lýsa andstöðu sinni á "breytingum á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi" sem standa fyrir dyrum í Staðahverfi í samræmi við gildandi deiliskipulag og gildandi aðalskipulag hverfisins. Meðal raka er bent á að núverandi strætósamgöngur úr Staðahverfi yfir í Víkurhverfi eru ekki beinar og ekki allir árgangar munu eiga rétt á strætómiðum eða skólaakstri og munu börn því þurfa að ganga í skólann um kílómetraleið yfir 2 miklar umferðargötur þar sem ekki eru merktar gangbrautir og ekki umferðarljós. Fram hefur komið hjá íbúum að eftirspurn eftir húsnæði í hverfinu er strax byrjuð að minnka eftir að þessar fyrirhuguðu aðgerðir er varðar skólamálin spurðust út. Íbúar eru afar ósáttir og benda á að með því að nýta bæði húsnæði skólans betur væri hægt að laga vandamál sem staðið hafa árum saman vegna aðstöðuleysi frístundar í Kelduskóla Vík. Flokkur fólksins spyr hvað hyggst Skóla- og frístundaráð gera í þessu máli og hvernig ætlar borgin að finna lausn sem íbúar/foreldrar geta sætt sig við? R19080068

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn Flokks fólksins um búsetuúrræði fyrir fatlaða einstaklinga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum bíða nú 57 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í flokki 1, 45 eftir sértæku húsnæði í flokki 2 og 43 eftir sértæku húsnæði í flokki 3. Til upprifjunar þá er flokkur 3 þeir sem þurfa mikla þjónustu og flokkur 2 minni og flokkur 1 minnst af þeim sem þurfa sértækt húsnæðisúrræði. Samtals eru þetta 145 auk þess eru 35 á bið eftir húsnæði með stuðningi en það þýðir að viðkomandi fær staka íbúð en teymi starfsfólks sér um að veita þjónustu heim. Ef litið er á listann fyrir ca. 5 árum kemur í ljós að hann hefur ekkert styðst. Þetta er stór hópur einstaklinga og hafa margir beðið lengi, jafnvel nokkur ár. Flokkur fólksins spyr: Hver er ástæða þess að fólk með fötlun í Reykjavík þarf ađ bíða mánuðum og árum saman eftir búsetuúrræði? Er það skortur á húsnæði? Skortur á starfsfólki? Hvað er verið að byggja fyrir marga? Er á dagskrá að kaupa húsnæði sem þegar er til staðar? Er til nýleg þarfagreining meðal þeirra sem þurfa sérstök húsnæðisúrræði? R19080069

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins er í sambandi við all marga foreldra fatlaðra einstaklinga sem segjast vera úrvinda vegna langrar biða eftir sérstöku búsetuúrræði. Fullorðinn einstaklingar með fötlun eru heima hjá foreldrum sínum í sumum tilfellum þar sem foreldrar geta engan veginn sinnt þeim ýmist vegna fötlunar þeirra eða veikinda foreldrana. Hér er verið að brjóta á rétti fatlaðs einstaklings sem á rétt á viðeigandi þjónustu frá borginni. Á sumum heimilum eru síðan yngri systkini sem farin eru að sýna streitu- og vanlíðunareinkenni vegna aðstæðna. Þetta fólk hefur verið að banka upp á svo mánuðum og jafnvel árum skiptir í þeirri von að fá sérstakt búsetuúrræði fyrir fulloðin fötluð börn sín. Hvað eiga þessir foreldrar að gera í þessari stöðu? Borgin hefur nýlega keypt hús á Hringbraut fyrir fatlaða einstaklinga og því bera að fagna. En betur má ef duga skal. Það vantar búseturúrræði fyrir 180 manns. Þessi málaflokkur er í lamasessi og ef litið er til síðustu ára hefur hann verið meðal þeirra sem stillt er upp aftast í forgangsröðuninni. R19080069

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill reyna að skilja þessa viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar betur sem koma reglulega inn í borgarráð. Fyrir fólkið í borginni sem vill e.t.v. rýna í þetta væri gott að með viðaukum fylgdi ítarlegri skýringar. Í þessum viðaukum sem lagðir eru fram á fundi borgarráðs 15. ágúst er óskað nánari skýringa. Til dæmis er talað um viðauka vegna samgöngusamninga jan. til jún. 2019. Ekki kemur fram hvað þetta er nákvæmlega, ferðir? Ef svo er af hverju eru þær í viðauka? Hvaða forsendur breyttust þegar gerð var áætlun um þennan lið? Í lið 3, er fjallað um námsgögn sem virðast hafa verið vanáætluð, er verið að tala um að bæta þurfi við 40 millj. vegna vanáætlunar? Þetta hefði mátt koma skýrar fram. Í 8 er talað um velferðartæknismiðju. Hvað er velferðartæknismiðja? Í 9 er talað um að lækka eigi fjárheimildir vegna frestunar á úrræði fyrir tvígreindar konur. Af hverju var þessu úrræði frestað og hvenær er þá reiknað með að því verði komið á? Í lokaliðnum er talað um að stjórnendur munu raðast í lægri flokk. Eru þessi aðilar að lækka í launum? R19010200

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn skilgreini ábyrgð sína gagnvart öllu því fólki sem hafa treyst á að fá mat hjá frjálsum félagasamtökum. Lagt er til að borgarmeirihlutinn upplýsi um hvernig hún ætlar að axla þessa ábyrgð? Auk þess er lagt til að öllum þeim sem hafa treyst á matargjafir frá hjálparstofnunum sé boðið til fundar við félagsráðgjafa sem leggur mat á þörfina og myndi í framhaldi láta fólk fá matarkort (t.d. Bónuskort) til að kaupa sér mat. Markmiðið er að viðkomandi þurfi ekki að treysta á frjáls félagasamtök til að eiga til hnífs og skeiðar enda er það ekki lögbundin ábyrgð þeirra. Í sumar myndaðist neyðarástand þegar 3600 manns sem ekki á peninga til að kaupa mat fékk ekki að borða vegna þess að frjáls félagasamtök sem eru með matargjafir lokuðu. Það er eitthvað að í samfélagi sem þarf að treysta á frjáls félagasamtök til að gefa fátæku fólki að borða. Staða hagkerfisins er góð og borgin segist skila hagnaði en engu að síður er á fjórða þúsund manns sem verður að treysta á frjáls félagasamtök til að fá grunnþörfum sínum fullnægt eins og að fá að borða. Hver er eiginlega ábyrgð stjórnvalda gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélaginu?

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19080070
    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Skólaráð starfa samkvæmt lögum um grunnskóla og eru samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins um skólahald. Skólaráð eru skipuð níu einstaklingum til tveggja ára í senn, þ.m.t. tveimur fulltrúum nemenda. Í reglugerð um skólaráð við grunnskóla kemur fram að miðað skal við að skipað sé í ráðið í upphafi skólaárs fyrir lok septembermánaðar. Ef það kemur til þess að skólaráð grunnskóla þurfi að taka ákvarðanir yfir sumartímann, hvernig sinna þau þá störfum sínum ef ráðið er ekki fullmannað sökum þess að fulltrúar nemenda sitja ekki lengur í skólaráðinu vegna útskriftar úr grunnskólanum? R19080072

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Eru ekki brostnar forsendur fyrir úthlutun borgarinnar til Félags eldri borgara (FEB) við Árskóga? Hefur þetta fordæmi ekki áhrif á aðrar úthlutanir til óhagnaðardrifinna félaga? Hafa skapast forsendur til að endurskoða verð á byggingarrétti þar sem FEB hefur gefið leyfi til endursölu á almennum markaði? Hver er ástæða fyrir þeim drætti sem varð á afhendingu lóðarinnar sem jók á kostnað íbúðanna. R19080075

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hvernig ætlar borgin að bregðast við þeim tíðindum að fjöldi rótgróinna og þekktra rekstraraðila leggja upp laupana á háannatíma? R19080079

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hverjar eru heildargreiðslur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 af leigusamningum af húsnæði sem ekki er í eigu borgarinnar? R19080088

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hver eru heildarkostnaður árlega af rekstri mötuneyta í Höfðatorgi og Ráðhúsinu? R19080089

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hver er heildarkostnaður við starfsfólk á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara á síðasta ári og hver voru meðallaun? R19080090

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

Fundi slitið klukkan 12:36

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir