Borgarráð - Fundur nr. 5551

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 18. júlí, var haldinn 5551. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:
 

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 4. júlí 2019. R19010016

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 21. og 26. júní 2019. R19010028

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að sjá að unnið sé að því að leysa hluta af vandræðum á leið 5 vegna umferðartafa á háannatíma frá Nauthól að BSÍ. Stjórn strætó bs. leggur til að skipta leið 5 upp í tvær leiðir á virkum dögum frá og með haustinu 2019, leið 5 myndi þá aka hefðbundna leið úr Norðlingaholti/Árbæ en enda á BSÍ og ný leið, leið 8 myndi aka frá BSÍ að Nauthól. Þá óskar stjórn Strætó bs. jafnframt eftir því að rýnt verði með hagaðilum á svæðinu hvernig hægt sé að leysa umferðartafirnar til framtíðar með öðrum mótvægisaðgerðum. Fulltrúi Sósíalistaflokksins gerir sér grein fyrir því að þessar breytingar eru að öllum líkindum komnar fram vegna ábendinga farþega og vagnstjóra en leggur áherslu á mikilvægi þess að útfæra leiðakerfisbreytingar með notendum strætó, sérstaklega með þeim sem ferðast reglulega með þessum vagni. Þannig má tryggja að ekkert komi strætófarþegum á óvart og að tillagan sé útfærð sem best með þeim sem eiga í hlut. Tillagan var sett á vef Strætó en það væri jákvætt að sjá tillögur að breytingum gerðar sýnilegri áður en þær koma til framkvæmda, þannig að strætófarþegar geti bent á hvort eitthvað við tillöguna megi betur fara.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Undir lið 3 í fundargerð Strætó bs., dags. 21.6.2019, segir að stjórn hafi fundað með samstarfssveitarstjórnum sem standa að Strætó og kynnt niðurstöður stefnumótunarvinnu. Áfram á að halda kynningum þar til öll sveitafélög hafa verið heimsótt. Borgarfulltrúa finnst þessi aðferð hljóti að vera æði tímafrek og dýr. Það blasir við að Strætó bs. verður að fara endurnýja og nútímavæða sig sem þjónustufyrirtæki til að það verði ekki úrelt ef tekið er mið af almenningssamgöngukerfi í borgum sem við berum okkur við. Það verður því að fara að spýta í lófana.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun við bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Strætó hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Farþegum fjölgar jafnt og þétt, þjónustan verður betri og betri á hverju ári og framtíðarsýn fyrirtækisins skýr. Borgarfulltrúar eru hvattir til að kynna sér metnaðarfulla starfsemi Strætó og strauma og stefnur í almenningssamgöngum.

    Fylgigögn

  3. Lagðar fram fundargerðir verkefnisstjórnar miðborgarmála frá 9. apríl og 14. maí 2019. R19010108

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 9. apríl:

    Eftir því er tekið í þessari fundargerð að enginn frá borginni hafði áhuga á að ræða mótmæli 247 rekstraraðila (90%) og þá staðreynd að ekkert samráð hefur verið haft við þá hvorki nú né undanfarin ár. Öryrkjabandalagið telur einnig að ekki hafi verið haft samráð við þá af einhverri alvöru. Ef fundir verkefnastjórnar miðborgarmála eru eins einhliða og fundargerðir þeirra sýna er ljóst að allt sem kallast lýðræði hefur verið varpað fyrir róða. Þessi vinnubrögð eru með öllu óásættanleg og krefst borgarfulltrúi Flokks fólksins að verkefnastjórn miðborgarmála bjóði umsvifalaust Miðbæjarfélaginu á fund og Öryrkjabandalaginu. Ef göngugötur að eiga að vera skulu þær vera á forsendum rekstraraðila og annarra hagsmunasamtaka og einnig vera gerðar í samráði við alla borgarbúa. Miðbærinn er okkar allra. Hafa skal í huga að hjá þeim 247 rekstraraðilum sem skrifuðu undir mótmæli við göngugötum vinna 1.870 manns. Þeirra lífsviðurværi er líka í hættu. Frá febrúar 2019 hafa 16 verslanir lokað.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 14. maí:

    Fregnir hafa borist af þessum fundi frá aðilum sem vildu ræða afgerandi andstöðu rekstraraðila við lokunum en fengu ekki hlustun. Ekki eitt orð er um könnun Zenter rannsókna og Samtök þjónustu og verslunar sem fjármagnaði hana. Það er sérkennilegt þar sem stjórnarmaður í Miðborgin okkar situr einnig í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu. Því hefði mátt halda að könnunin fengi vægi á fundi verkefnastjórnar miðborgarmála. Könnunin er vissulega áfall fyrir meirihlutann í borgarstjórn sem vill loka götum fyrir umferð þrátt fyrir hávær mótmæli og óánægju rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila. 247 rekstraraðilar hafa sent borgarstjóra skrifleg mótmæli sín. Aldrei voru þessir aðilar spurðir um forsendur sínar fyrir þessum framkvæmdum. Meirihluti rekstraraðila á svæðinu og borgarbúa, utan þeirra sem búa þar eru óánægðir með varanlegar göngugötur. Niðurstöður sýna skýrt að bærinn er að verða einsleitur. Ferðamenn og búendur miðborgarinnar njóta hans og aðrir sem leggja leið sína í bæinn eru að sækja skemmtanalífið frekar en að versla enda tugir verslana farnir af svæðinu. Verði haldið áfram að keyra þessa stefnu verður ekkert eftir í bænum nema veitingastaðir, barir og minjagripabúðir. Er meirihlutinn og Miðborgin okkar að reyna að þagga þessa könnun þar sem niðurstöður hennar voru þeim ekki þóknanlegar?

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Ekki er verið að þagga niður þá könnun sem Miðborgin okkar lét gera enda var hún alfarið í höndum félagsins og var hún kynnt ítarlega bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð mikilvægt leiðarstef, þannig hefur það verið hingað til og verður áfram. Sem dæmi má nefna opið samráð í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 28. janúar til 3. febrúar 2019 og opinn samráðsfund með veitingafólki, verslunarrekendum, ferðaþjónustu- og vöruflutningaaðilum. Þá á borgin í reglulegu og góðu samtali við Öryrkjabandalag Íslands og fleiri hagsmunafélög auk þess sem á vegum borgarinnar starfar öflug aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Einnig er rétt að nefna þá skipulagslýsingu sem verið er að samþykkja í borgarráði 18. júlí sem er grunnurinn að því víðtæka lögformlega samráði sem í deiliskipulagsferlinu felst.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19070005

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti jákvæða umsögn um tímabundið tækifæris- og áfengisveitingaleyfi vegna lengri opnunartíma um verslunarmannahelgi á Gauknum, Tryggvagötu 22. R19070043
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R19070004

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið:

    Engin haldbær rök eru fyrir því að koma Malbikunarstöðinni Höfða undir undanþáguákvæði upplýsingalaga. Leyndarhyggjan er algjör hjá meirihlutanum. Þau verkefni sem malbikunarstöðin hefur á sínum snærum eru af þeirri stærðargráðu að þau fara öll í útboð. Það er einkennilegt að stofnunin birti ársreikning sinn einungis að hluta. Hvað er það sem ekki þolir dagsljósið? 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið:

    Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar því sérstaklega að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi óskað eftir því að Umhverfisstofnun vinni tillögur að nýrri stefnu um meðhöndlun úrgangs fyrir landið allt. Er það alveg í takti við málflutning borgarfulltrúans um langa hríð. Úrgangsmál á Íslandi verða ekki í lagi fyrr en sveitarfélögin á landinu öllu gangi í takt og hugsi málið á landsvísu í stað hvers sveitarfélags fyrir sig.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjun götutrjáa 2019, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 20 m.kr. R19070115
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Endurnýja á götutré við gönguleiðina „Ormurinn langi“ í Rimahverfi fyrir 20 m.kr. og er hér aðeins um 1. áfanga að ræða. Fjarlæga á 25 aspir og setja lágvaxnari tegundir sem sagt er að auki „líffræðilega fjölbreytni“. Ef breyta á einu beði eykur það varla „líffræðilega fjölbreytni“, slík hugtök eru notuð á heldur stærri skala. Það sem borgarfulltrúi vill þó leggja áherslu á hér er þessi mikli kostnaður. Það er eins og ráðamenn í borginni hugsi aldrei út í kostnað og farið er af stað með tugi verkefna af alls kyns tagi fyrir stórar upphæðir eins og milljónin skipti engu máli. Fyrir 20 milljónir væri hægt að gera mikið fyrir börn þessarar borgar og skólana sem nú eru víða í lamasessi vegna viðhaldsleysis og myglu. Það er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að einhver veruleikafirring sé í gangi þegar kemur að peningum og ráðstöfun þeirra. Þetta er útsvarsfé borgarbúa sem hér er verið að sýsla með og er það skylda og ábyrgð þeirra sem ráða að horfa í hverja krónu og umfram allt sjá til þess að borgarbúar allir sem einn fái fullnægjandi þjónustu. Út á það gengur hugmyndafræði samneyslunnar. Þegar sú þjónusta er trygg er hægt að fara skoða verkefni ætluð til skreytinga.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Meirihlutinn telur óljóst hvað borgarfulltrúi Flokks fólksins á við með sinni túlkun á hugmyndafræði samneyslunnar. Almenningsrými eru sameiginleg rými allra borgarbúa og það er á ábyrgð borgarinnar að tryggja aðgengi allra að öruggum og vönduðum almenningsrýmum. Það er löngu orðið tímabært að endurnýja viðkomandi aspartré við Langarima vegna þess að þau eru þegar búin að skemma verulega út frá sér og er umhverfi þeirra farið að valda hættu fyrir gangandi vegfarendur. Ef ekkert verður að gert munu þær aðstæður versna. Að auki er líffræðileg fjölbreytni grundvallarþáttur í starfsemi heilbrigðra vistkerfa í borginni og þar með forsenda umhverfisgæða sem eru fólki, ekki síst sem búa í borg, mjög mikilvæg. Borgir víða um heim hafa mótað sér sérstakar stefnur eða áætlanir í málaflokknum og stefna þannig að því að ná fram markmiðum sem uppfylla alþjóðlega samning Sameinuðu þjóðanna. Það er því ljóst að endurnýjun þessara trjáa er bæði þörf og mikilvæg framkvæmd og hluti af því ábyrgðarhlutverki að fara með útsvarsfé borgarbúa.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við áframhaldandi gatnagerð í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 300 m.kr. R19070117
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eðlilegra væri að búið væri að greiða fyrir byggingarlóðir á svæðinu sem hafa verið seldar áður en borgin fer í kostnaðarsama gatnagerð.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við 1. áfanga gatnagerðar vegna stækkunar á iðnaðar- og athafnasvæði á Esjumelum, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 250 m.kr. R19070116
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs, frá 3. júlí 2019, á tillögu um gerð viðbragðsáætlunar um aukin loftgæði í kringum leikskóla í borginni, ásamt fylgiskjölum. R19070124
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
    Sigurborg Ósk Haraldsdóttir víkur af fundi undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs, frá. 3. júlí 2019, á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Freyjubrunn 23, ásamt fylgiskjölum. R18030129
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Miðflokkurinn hefur á fyrri stigum málsins bókað að afar óheppilegt sé, að téð umsókn um breytingu deiliskipulags og útgáfa nýs byggingaleyfis þar sem íbúðum er fjölgað úr 5 í 8 o.fl. sé yfirhöfuð tekin til meðferðar meðan mál vegna áður útgefins byggingaleyfis er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Mögulega neikvæður úrskurður ÚUA yrði þannig marklaus. Ljóst er að mistök voru gerð við útgáfu byggingaleyfis á sínum tíma og á það var bent af íbúum. Mistök eru partur af lífinu, hvernig unnið er úr þeim skiptir öllu máli. Rétt viðbrögð hefðu verið að draga til baka áður útgefið byggingaleyfi, harma mistökin og láta gildandi deiliskipulag halda sér. Það var ekki gert. Þess í stað var farið í þá vegferð að breyta deiliskipulagi og athugasemdir íbúa þannig virtar að vettugi. Að teknu tilliti til forsögunnar leggst Miðflokkurinn alfarið gegn afgreiðslu málsins. Mistök borgarinnar eiga aldrei að vera á kostnað íbúa.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf. umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Köllunarkletts vegna lóðar að Héðinsgötu 8, ásamt fylgiskjölum. R19010209
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna styðja eindregið uppbyggingu smáhýsa fyrir heimilislausa einstaklinga sem margir hverjir búa við fjölþættan vanda. Eins og fram kemur í umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þá eru þetta úrræði sem geta skipt sköpum og aukið líkur á bata fyrir heimilislaust fólk. Vegur þar þyngst virk nærþjónusta og nálægð við fjölbreytt meðferðarúrræði. velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur þegar fundað með Draumasetrinu varðandi fyrirhuguð smáhýsi og þá verður einnig haft samráð við Al-anon klúbbinn eins og kemur fram í kynningu frá forsvarsmönnum sviðsins. Mörg dæmi eru um það í borginni að heimili fólks með fjölþættan vanda séu í nálægð við úrræði fyrir fólk í bata og hefur það reynst vel.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt áherslu á búsetuúrræði til lengri og skemmri tíma. Þessi úrræði eru mikilvæg, enda hefur fjöldi heimilslausra tvöfaldast á fáum árum. Hér hafa komið fram sterk andmæli frá aðilum sem eru að vinna í bataferli og er vert að virða sjónarmið þeirra. Þá er nauðsynlegt að heimildin sé til fyrirfram skilgreinds tíma þar sem búseta er óheimil samkvæmt aðalskipulagi.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Miðflokksins mótmælir harðlega samþykkt deiliskipulagsbreytingar vegna Héðinsgötu 8 í ljósi þeirra athugasemda sem bárust við auglýsingu breytingar. Lítum nánar á tvær þeirra athugasemda sem bárust: Draumasetrið, nálægð, 30 metrar: Síðastliðin 6 ár hefur líknarfélag rekið áfangaheimilið Draumasetrið fyrir 42 sálir að Héðinsgötu 10 með samþykki borgarráðs og skipulagsyfirvalda Reykjavíkur og Faxaflóahafna. Íbúar hússins er undantekningarlaust fólk sem er í bataferli eftir að hafa verið í neyslu áfengis og fíkniefna og koma flestir frá SÁÁ, Hlaðgerðarkoti, Krísuvík og fangelsum. Allt er gert til að íbúum líði sem best, með miklu aðhaldi, ströngum reglum, fundum og hjálp til að komast aftur til betra lífs. Alanó, nálægð,10 metrar: Alanó rekur líknarfélag við Héðinsgötu 1-3 þar sem starfræktar eru yfir 50 12 spora deildir AA samtakanna. Varlega áætlað sækja 250-500 manns þessa þjónustu daglega og er stór hluti þeirra nýliðar sem eru að stíga fyrstu og erfiðustu skrefin að nýju lífi án áfengis og fíkniefna. Samantekt: Það frábæra starf sem Draumasetrið og Alanó hafa staðið fyrir í fjölda ára er sett í algjört uppnám þar sem ein stærsta forsenda bata alkahólista og fíkla er að slíta með öllu samgangi við neyslustaði og þá sem eru í neyslu. Að setja bata þúsunda í hættu fyrir úrræði fyrir 5 einstaklinga er glapræði.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á svari skipulagsfulltrúa, dags. 28. júní 2019, við athugasemdum Skipulagsstofnunar við tillögu að breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, ásamt fylgiskjölum. R19010210
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á auglýsingu á tillögu að lýsingu fyrir deiliskipulag Laugavegar sem göngugötu, ásamt fylgiskjölum. R19070069

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins leggur til að þessum lið um skipulagslýsingu verði frestað. Hér er verið að afgreiða breytingu á skipulagslýsingu sem er undanfari lokunar Laugavegar varanlega. Þetta á að gera þrátt fyrir hávær mótmæli en 230 rekstraraðilar hafa skilað inn undirskriftum. Óskir Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar hafa einnig verið hunsaðar, þrátt fyrir bókun sl. haust um að fundað yrði með þeim um algilda hönnun. Öryrkjabandalags Íslands hitti arkitekt, sem hefur ekkert pólitískt vald. Enda þótt þessum aðilum hafi e.t.v. verið leyft að tjá sig um málið hefur ekkert verið hlustað á þeirra sjónarmið og rök. Niðurstöður könnunar Zenter rannsókna sýna einnig megna óánægju meirihuta rekstraraðila og borgarbúa nema ákveðins hóps. Farið er fram á að það verði rætt við öll þessi félög og samtök og að tekið verði tillit til þeirra forsendna og þarfa áður en haldið er áfram með þetta mál. Ný lög eru skýr á að heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar. Varla ætlar borgin að brjóta lög. Það er ekki tímabært að afgreiða skipulagslýsingu núna. Almennt séð er aðgengi hreyfihamlaðra að miðborginni afar slæmt. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða af skornum skammti og aðgengi að lokuðum götum mjög erfitt. Reyndin er að fyrirtæki flýja nú bæinn og fólk er farið að forðast hann.

    Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Erindið er samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef. Svo hefur verið hingað til og verður áfram. Rekstraraðilar í miðbænum hafa beðist vægðar á umræðum sem tala niður rekstur á svæðinu. Miðborgin er í blóma og hefur fjöldi verslana og veitingastaða aldrei verið meiri í sögu Reykjavíkur. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Borgarfulltrúi frábiður sér þöggunartilburði meirihlutans með því að segja við þá sem vilja tjá sig um stöðu miðbæjarins að þeir séu að „tala niður bæinn“. Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Það er vissulega handhægt fyrir þá, þar með meirihlutann í borgarstjórn, sem vilja ekki virða lýðræðislega umræðu að beita þessari aðferð. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs verði kynnt þannig að umsagnaraðilar, rekstraraðilar og íbúar geti komið athugasemdum sínum á framfæri. Rétt væri að fleiri aðilar fengju að vera formlegir umsagnaraðilar en eru taldir upp. Má hér nefna Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur og Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra. Verslun og þjónusta á mjög undir högg að sækja í Reykjavík meðal annars vegna þess að fasteignaskattar hafa hækkað gríðarlega. Mikilvægt er að breytingar á rekstrarumhverfinu eins og þessi tillaga felur í sér fái ítarlega og sanngjarna skoðun og umsögn þeirra sem málið varðar áður en hún kemur til samþykktar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hagar sér eins og ríki í ríkinu sem ekki þarf að fara að lögum. Ekkert tillit er tekið til nýrra umferðarlaga hvað varðar göngugötur. Stefna sú sem kynnt er hér er í andstöðu við lög sett af Alþingi. Firringin er algjör og því beinlínis logið að samráð hafi verið haft við íbúa, verslunareigendur, rekstraraðila og félög hreyfihamlaðra.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins hreinlega blöskrar þau ósannindi sem reifuð eru í kafla skýrslunnar um samráðsferli. Ekkert alvöru samráð hefur verið haft við Miðbæjarfélagið, Öryrkjabandalag Íslands og Sjálfsbjörgu en fullyrt er án þess að blikna að „víðtækt samráð hefur þegar verið haft við hagsmunaaðila“. Borgarfulltrúi vill spyrja hvort skrifleg mótmæli um 247 rekstraraðila hafi farið fram hjá borgarstjóra en honum voru afhentir undirskriftarlistar fyrir fund borgarstjórnar í byrjun apríl. Er borgarstjóri búinn að henda þessum listum? Eða skoðaði hann þá aldrei? Hér stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi meirihlutans sem viðhafði aldrei neitt samráð um ákvörðun um varanlega lokun gatna. Svokallað samráð gekk í mesta lagi út á að leyfa fólki að tala en ekkert var hlustað. Flokkur fólksins gerir þá kröfu til meirihlutans og borgarstjóra að hann fundi umsvifalaust með Miðbæjarfélaginu, Öryrkjabandalagi Íslands og Sjálfsbjörgu um þessar fyrirætlanir. Hvorki hefur verið tekið mark á undirskriftum né Zenter könnun sem Miðborgin okkar fékk þó gerða. Miðbæjarfélagið hefur haft samband við á annað hundrað rekstraraðila og kannast engin við samráð hvorki nú né undanfarin ár. Allt tal um samráð eru því ósannindi og blekkingar. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Rétt er að nefna þá skipulagslýsingu sem verið er að samþykkja núna í auglýsingu í borgarráði 18. júlí sem er grunnurinn að því víðtæka lögformlega samráði sem í deiliskipulagsferlinu felst. Innihaldslausum upphrópunum fulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um ósannindi er vísað á bug.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á tillögu um varanlegan regnboga í Reykjavík, ásamt fylgigögnum. R19060051
    Samþykkt.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands fagnar því að settur verði upp varanlegur regnbogi á Skólavörðustíg. Þessi fallega mannlífsgata hentar afar vel undir slíkt verk og viðeigandi að borgin ráðist í verkefnið á stórafmæli réttindabaráttu hinsegin fólks og sendi þar með ekki bara litríkar, heldur táknrænar og virðingarverðar kveðjur til hinsegin samfélagsins.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga er svo sjálfsögð að borgarfulltrúa Miðflokksins finnst óþarfi að ræða hana í borgarstjórn og borgarráði. Skipulags- og samgönguráð hefði getað afgreitt þetta á einum funda sinna án athugasemda. Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi hvað varðar réttindi hinsegin fólks og sama á við löggjafann hér á landi. Á hverju ári er haldin hátíð í Reykjavík, Hinsegin dagar. Dregur hátíðin til sín fólk alls staðar úr heiminum sem tekur þátt í gleðigöngunni og ríkir karnivalstemmning í borginni sem lífgar mjög upp á annars litlausa borg. Gleðigangan og viðhorfið til hinsegin fólks er orðin samofin íslensku samfélagi á fordómalausan hátt. Borgarfulltrúi Miðflokksins lýsir yfir miklum stuðningi við þetta verkefni og bendir á að því miður er Reykjavík ekki í fararbroddi hér á landi hvað varðar varanlegan regnboga allt árið því Seyðisfjörður hefur haft slíkt um langa hríð og er það alveg til fyrirmyndar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar því að ákveðið var að setja regnbogagötu á eina götu borgarinnar enda samþykkt af öllum flokkum í borgarstjórn. Skólavörðustígur hefur verið valinn án nokkurs samráðs við rekstraraðila götunnar eða íbúa þrátt fyrir tal meirihlutans um samráð. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð. Skólavörðustígur er vissulega heppileg gata en í lýðræðissamfélagi er leitað eftir samráði við fólk þegar svona ákvörðun er tekin. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 16. júlí 2019, að viðauka við fjárhagsætlun Reykjavíkurborgvíkurborgar 2019 vegna fjárfestingaráætlunar. R19010200
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er gert ráð fyrir hverfisbækisstöð sem mun kosta heilar 950 milljónir samkvæmt nýjustu upplýsingum, en kostnaðaráætlun frá síðasta ári var upp á 800 milljónir. Nýting á lóðinni er sorglega lítil á besta stað í vesturbæ Reykjavíkur í Örfirisey sem hefði nýst til mikilvægrar uppbyggingar. Aðrir valkostir hefðu því hentað betur. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hverfisbækistöðvar í Reykjavík eru gríðarlega mikilvægar til að sinna nauðsynlegri þjónustu við borgarbúa og tekur staðsetning þeirra mið af verkefnum og þjónustuþunga. Staðsetningin er jafnframt niðurstaða ítarlegrar skoðunar umhverfis- og skipulagssviðs. Verkefni hverfisbækistöðva eru allt viðhald almenningsgarða, sláttur, snjóruðningar á stígum, hirðing trjágróðurs, útplöntun sumarblóma og niðursetning haustlauka, ásamt hirðingu allra blómabeða og umhirðu á blómakerjum og körfum, bæði á opnum svæðum og stofnanalóðum. Þá er ræktun, grisjun, útivistarstígar, viðhald stíga, hellulagnir, bekkir, ruslastampar og hreinsun veggjakrots meðal verkefna hverfisbækistöðva. Frá nýrri hverfisbækistöð verður allri vesturborginni þjónað. Uppbyggingin hennar er löngu tímabær og hafa Vinnueftirlit og Heilbrigðiseftirlit bæði kallað eftir betri starfsaðstöðu fyrir verkafólk borgarinnar og annað starfsfólk hverfisbækistöðvar. Með samþykkt viðaukans er verið að flýta framkvæmdinni sem stefnt er að því að ljúka á þessu ári. Frávik frá fyrstu kostnaðaráætlun er innan eðlilegra vikmarka. Hönnun breyttist og tilboð verktaka reyndist aðeins hærra en gert hafði verið ráð fyrir.

    Helga Benediktsdóttir, Ólöf Örvarsdóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Fram fer kynning á mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-apríl 2019.

    Helga Benediktsdóttir og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R19010075

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. júlí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að velferðarsvið greiði Félagsbústöðum leigu af eignum sem velferðarsvið hefur til afnota, samkvæmt sérstökum samningi og verði leiguverð ákvarðað með sambærilegum hætti og innri leiga borgarinnar, en hún nemur 8,5% af stofnvirði eignar, sbr. meðfylgjandi minnisblað sviðs fjármála- og áhættustýringar. R19070135

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eðlilegt er að leiga Félagsbústaða til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á þeim eignum sem tilteknar eru verði byggð upp með sambærilegum hætti og innri leiga borgarinnar, en hún nemur 8,5% af stofnvirði eignar. Hefði Reykjavíkurborg byggt húsnæðið eða keypt í stað Félagsbústaða hefði velferðarsvið leigt húsnæðið af eignasjóði og greitt fyrir það með þessum hætti. Þessi leiðrétting er liður í að tryggja fjárhagslega sjálfbærni Félagsbústaða til frambúðar en hingað til hefur leiga ekki verið greidd fyrir þennan hluta húsnæðis.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 15. júlí 2019, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019. R19010200
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Helga Benediktsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um launagreiðslur til fyrrum framkvæmdastjóra Félagsbústaða fyrir árið 2018 vegna starfsloka hans, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019. R19060235

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Laun fráfarandi forstjóra Félagsbústaða eru regin hneyksli. Forstjórinn var með rúmar 1,6 m.kr á mánuði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er orðlaus yfir þessari upphæð sem sennilega er á pari við sjálfan borgarstjórann. Fram kemur í svari að viðkomandi átti um 2 mánuði ógreitt orlof og ógreidda yfirvinnutíma. Upplýst hefur verið með yfirvinnu. Við starfslok voru greiddir út  128 tímar í yfirvinnu á tímabilinu 2017 til 2018 samtals 1.961.023. Þetta var ofan á föst laun. Flokkur fólksins gerir skilyrðislausa kröfu til stjórnar að laun núverandi forstjóra verði lækkuð séu þau í einhverju samræmi við þessa upphæð. Laun viðkomandi sem sinnir þessu starfi þarf að vera í einhverju samræmi við þann veruleika sem við lifum í. Hér er um firringu að ræða sem æ oftar virðist vera raunin hjá meirihluta borgarstjórnar og fyrirtækjum í eigu borgarbúa þegar sýslað er með skattfé borgarbúa. Einhver meðvirkni virðist vera í öllu þessu máli.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi:

    Félagsbústaðir eru langstærsta leigufélag landsins og eitt stærsta fasteignafélag landsins, auk þess að hafa verið í miklum vexti. Eins og fram kemur í yfirlýsingu frá Félagsbústöðum og skýru svari við fyrirspurn borgarfulltrúa var einvörðungu farið eftir íslenskum lögum og ráðningarsamningi framkvæmdastjóra við starfslok. Heildargreiðsla til framkvæmdastjóra á árinu 2018 er laun fyrir þá 10 mánuði sem hann starfaði, uppgjör á óteknu orlofi og 6 mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi sem ákveðið var að gjaldfæra árið 2018. Enginn sérstakur starfslokasamningur var gerður né fékk framkvæmdastjóri greiðslu umfram rétt sinn samkvæmt lögum og áður gerðum samningum. Það er með ólíkindum að reynt sé að gera það tortryggilegt að réttindi starfsmanns séu virt við starfslok og er það borgarfulltrúum sem það gera ekki til sóma. Auðun Freyr Ingvarsson var ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins 2013 og á því tæp 5 ár í starfi að baki, þess má geta að fyrirtækið var valið fyrirmyndarfyrirtæki af Viðskiptablaðinu og Keldunni 2017 og framúrskarandi fyrirtæki af Creditinfo 2016 og 2018.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni að þessu sinni forkaupsrétti í fiskiskipið Guðný SU-31, ásamt fylgiskjölum. R19030305
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhús við Hraunbæ 143, ásamt fylgiskjölum. R19030012
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  23. Lagt fram bréf borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingu á skilmálum fyrir úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir lóðina Hraunbæ 133. R19030012
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  24. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. júlí 2019, varðandi stöðu verkefnisins Ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur. R17100200

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verkefnið Hagkvæmt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur er að verða að veruleika. Verkefnið snýst um nýja hugsun í uppbyggingu íbúða fyrir venjulegt fólk þar sem nýsköpun, hraði og gæði réðu för þeirra aðila sem tóku þátt í verkefninu. Borgin hefur nú lokið við að veita lóðarvilyrði fyrir um 500 íbúðum af öllum stærðum og gerðum sem tilheyra Hagkvæmt húsnæði verkefninu.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skort á hagkvæmu húsnæði má rekja til þess að yfirvöld hafa treyst á að markaðurinn muni að miklu leyti leysa húsnæðiskreppuna í stað þess að einblína á félagslegar húsnæðislausnir. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur mikilvægt að gera breytingar á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar þar sem áhersla verði lögð á aukna félagsvæðingu húsnæðiskerfisins í stað þess að koma félagslegri húsnæðisuppbyggingu að hér og þar. Þó að kveðið sé á um að þau félög sem koma að verkefninu um hagkvæmt húsnæði skuli halda íbúðaverði sem hagkvæmustu er mikilvægt að borgin taki málin í eigin hendur og sjái um að byggja yfir þá sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði og haldi þannig kostnaði fyrir borgarbúa í lágmarki með óhagnaðardrifni að leiðarljósi. Þó það sé alltaf gott að fá fram ólíkar og fjölbreyttar hugmyndir að húsnæðislausnum, þá er mikilvægt að félagsvæða húsnæðisstefnuna. Borgin gæti t.d. séð um að byggja fyrir þá sem eru í þörf fyrir húsnæði og litið til reynslu Helsinki sem rekur t.a.m. sitt eigið byggingarfélag. Jákvætt er að sjá að Heimavellir hafi sagt sig frá verkefninu um hagkvæmt húsnæði þar sem fyrirtækið hefur haft neikvæð áhrif á leigumarkaðinn og það er mikilvægt að Reykjavíkurborg auki ekki veg hagnaðardrifinna leigufélaga. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er framsækin, róttæk og ábyrg. Hún gerir ráð fyrir endurreisn verkamannabústaðakerfisins sem nú þegar hefur átt sér stað. Hún gerir ráð fyrir umfangsmikilli uppbyggingu leigu- og búseturéttaríbúða sem drifinn er áfram af óhagnaðardrifnum félögum. Hún gerir ráð fyrir hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur þar sem afar mikil nýsköpun í formi og tækni hefur átt sér stað. Hún gerir líka ráð fyrir kaupum Félagsbústaða á félagslegum íbúðum á nær öllum uppbyggingarsvæðum í Reykjavík. Nú á sér stað mesta uppbyggingarskeið íbúða í sögu Reykjavíkur þar sem húsnæði fyrir alla er leiðarljósið. Betra væri að hvetja nágrannasveitarfélög til jafn öflugrar uppbyggingar og nú á sér stað í Reykjavík.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. júlí 2019, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að uppfæra lóðarvilyrði til Hoffells til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Gufunes. R19050043
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Hoffells er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, Kjalarnesi, í Skerjafirði, Úlfarsárdal og á Gufunesi.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. júlí 2019, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að uppfæra lóðarvilyrði til Þorpsins til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Gufunes. R19050044
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Þorpsins er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, Kjalarnesi, í Skerjafirði, Úlfarsárdal og á Gufunesi.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. júlí 2019, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að slíta viðræðum um lóðarvilyrði til Abakus vegna uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Bryggjuhverfi. R19050039
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. júlí 2019, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að samþykkja uppfært lóðarvilyrði til Variat til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Veðurstofuhæð, ásamt fylgiskjölum. R19050042
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Variat er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, Kjalarnesi, í Skerjafirði, Úlfarsárdal og á Gufunesi.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 11. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ganga til samninga um frjálsíþróttaaðstöðu í Egilshöll. R19070103
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. júlí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði heimilað að gera samning við Arnarskóla vegna umsókna fjögurra foreldra reykvískra nemenda um skólagöngu í Arnarskóla skólaárið 2019-2020 þar sem fram koma skýr ákvæði um greiðslur til skólans á grundvelli greininga og mats á þjónustuþörf hvers barns. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið í samstarfi við skóla- og frístundasvið að gera fjárhagslega greiningu á kostnaði við hvert barn í sérskólum og sérdeildum Reykjavíkurborgar með hliðsjón af framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til Reykjavíkurborgar. Samningur við Arnarskóla tryggi ofangreindum fjórum börnum skólavist næsta vetur en verði með fyrirvara um fjárhagslega þætti sem leitt geti til endurskoðunar byggt á ofangreindum greiningum. R18110260

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það verður að teljast ámælisvert að borgin hafi ekki afgreitt erindi barna sem hafa sótt um skólavist í Arnarskóla fyrr en löngu eftir að beiðni þeirra um skólavist barst til Reykjavíkurborgar. Þetta eru börn í mjög viðkvæmri stöðu og því mikilvægt að þau og þeirra foreldrar fái svör við sínum umsóknum sem fyrst eftir að þær berast. Reykjavíkurborg verður að tryggja það að þjónusta við borgarbúa sé í lagi með því að afgreiða mál sem berast hratt og örugglega.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Er ekki tímabært að borgin setji á fót svona úrræði, sinn eigin „Arnarskóla“? Kostnaður vegna fjögurra nemenda sem borgin greiðir fyrir 4 börn er kr. 4.949.956,- á mánuði skv. gjaldi í maí 2019 og á ári miðað við 12 mánaða þjónustu kr. 59.399.472,-. Svona úrræði hefur Flokkur fólksins ítrekað kallað eftir enda bráðvantar það í borginni. Það er blinda gagnvart þeirri staðreynd að Skóli án aðgreininga eins og honum er stillt upp er ekki að virka fyrir öll börn. Börnum hefur verið úthýst úr skólakerfinu vegna djúpstæðs vanda, send heim og ekki boðið neitt úrræði fyrr en eftir dúk og disk og þá fyrst eftir að foreldrar hafa gengið þrautargöngu innan kerfisins. Hvað þarf margar kannanir og upphróp til að meirihlutinn hætti að stinga hausnum í sandinn og horfist i augu við að hópur barna sem forðast skólann sinn fer stækkandi, barna sem sýna einkenni kvíða og depurðar sem rekja má beint til líðan í skóla þar sem þau hafa ekki fundið sig meðal jafningja. Svona úrræði geta önnur sveitarfélög stofnað en ekki stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavík, sem er því upp á náð og miskunn annars sveitarfélags með að fá inni fyrir 4 reykvísk börn að þessu sinni. Flokkur fólksins vill þakka Kópavogi fyrir að redda meirihlutanum í borgarstjórn í þessu efni.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það úrræði sem kallað er eftir að Reykjavíkurborg reki er til og heitir Klettaskóli. Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi og þjónar öllu landinu. Hann tók til starfa árið 2011 og var ný viðbygging, sundlaug og íþróttahús opnað síðastliðið vor. Klettaskóli þjónustar því börn með miklar sérþarfir úr nágrannasveitarfélögum. Þá eru sérstakur þátttökubekkir í almennum grunnskólum reknir með stuðningi frá Klettaskóla. Mikil og metnaðarfull fagþróun hefur átt sér stað í sérkennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttar þarfir í borginni. Því er ósanngjarnt að halda því fram að borgin dragi lappir í málaflokknum eða sé upp á náð og miskunn annarra sveitarfélaga komin. Arnarskóli er sjálfstætt starfandi sérskóli, hann er ekki rekinn af öðru sveitarfélagi þótt hann starfi á svæði þess. Samningar við skólann og fjárveitingar til hans vegna reykvískra barna hafa ekkert með uppgjöf að gera.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. júlí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að Landakotsskóla verði heimilað að hafa allt að 100 nemendur í alþjóðadeild skólans með vísan til umsóknar dags. 18. júní 2019. Viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til Landakotsskóla taki því breytingum með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 260 í stað 234 frá upphafi skólaárs 2019-2020. Framlag verði greitt óháð því hvort reykvískur nemandi sé í almennum hluta skólans eða í alþjóðadeild. Engu að síður verði skýrt í hvorum hluta skólans reykvískir nemendur eru. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að gera samninga við Landakotsskóla til þriggja ára á grundvelli reglugerðar nr. 699/2012 með síðari breytingum, um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, sem og reglugerðar nr. 1150/2018 um sjálfstætt rekna grunnskóla, í samræmi við samþykkt drög að þjónustusamningum við sjálfstætt rekna grunnskóla frá fundi borgarráðs þann 7. febrúar 2019. Samningur við Landakotsskóla verði gerður með fyrirvara um staðfestingu mennta- og menningarmálaráðuneytis á þjónustusamningnum, sem og fjárhagslega greiningu á kostnaði vegna framlaga Reykjavíkurborgar til skólans þegar heildarfjöldi nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar liggur fyrir eftir 1. október nk.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19070105
    Samþykkt.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 24. júní 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 19. júní 2019 á tillögu um tímabundna undanþágu frá reglum um fjárhagaðstoð vegna IPS-verkefnis, ásamt fylgiskjölum. R19010221
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. júlí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð taki jákvætt í erindi Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. um úthlutun lóðar á Esjumelum og samþykki að hafnar verði viðræður um útfærslu og skilmála úthlutunar undir forystu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í samráði við umhverfis- og skipulagssvið. R19070109

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram bréf LMB Mandat slf., dags. 26. júní 2019, varðandi kvörtun Exton ehf. vegna framkvæmdar útboðs 14504 – sjúkrakallkerfi fyrir Droplaugarstaði. Einnig er lögð fram umsögn innkaupaskrifstofu um málið, dags. 11. júlí 2019. R19040155
    Samþykkt að hafna kröfum Exton ehf. með vísan í umsögn innkaupadeildar.

  35. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um endurgreiðslu oftekins kaldavatnsgjalds, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019. R19070054
    Samþykkt að vísa tillögunni frá.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mötuneytismál í Dalskóla, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. maí 2019. Einnig er lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 27. júní 2019. R19050138
    Samþykkt að vísa tillögunni frá.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nemendum í Dalskóla verða tryggðar heitar skólamáltíðir í haust með tímabundnum ráðstöfunum þar til nýtt mötuneyti skólans verður tekið í notkun. Unnið er ötullega að málinu og er það í góðum farvegi.

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokks og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er í takt við allt hjá borginni að ekki er gripið til ráðstafana fyrr en allt er komið í óefni. Foreldrar þrýstu mjög á að þetta sjálfsagða mál fengi framgang. Við fögnum því að þessi pressa sem skapaðist hefur nú leitt til að því er virðist jákvæðrar niðurstöðu.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu á sameiningu yfirstjórnar leikskólanna Hólaborgar og Suðurborgar, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019. R19030028

    Fylgigögn

  38. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við tilraunaverkefni með vetnisstrætó, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní 2019. R19060058

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta svar við fyrirspurninni um kostnað við tilraunaverkefni með vetnisstrætó í kringum árið 2001 ekki fullnægjandi. Varla hefur þetta verið ókeypis fyrir borgarbúa. Verkefninu var stýrt og kostað m.a. af Íslenskri NýOrku sem er dótturdótturfyrirtæki borgarinnar. Sérstakt þykir að ekki finnist nein gögn um að Reykjavíkurborg hafi lagt fjármuni beint í verkefnið utan 730 þ.kr vegna ráðstefnu. Æ oftar má sjá hvað fyrirtæki B-hluta borgarinnar virðast vera dottin úr tengslum við Reykjavíkurborg og farin að haga sér eins og einkafyrirtæki en ekki fyrirtæki í eigu borgarinnar. Reykjavíkurborg á fulltrúa í stjórnum B-hluta fyrirtækjanna og er meirihlutaeigandi í öllum byggðasamlögum en engu að síður er talað um þessi fyrirtæki eins og borgin hafi ekkert um þau að segja. Auðvelt ætti að fá upplýsingar um hvað NýOrka, félag sem er dótturdótturfyrirtæki borgarinnar greiddi í þetta tilraunaverkefni. Verkefni var sérstakt fyrir margar sakir. Hér var um þýska vagna að ræða sem gerð var tilraun með hér á land. Hér var ekki verið að prófa íslenska tækni. Af hverju var þessi tilraun ekki gerð í Þýskalandi? En sú spurning er sjálfsögðu ekki tengd fyrirspurninni um kostnaðinn þótt hún fái að fylgja hér með.

    Fylgigögn

  39. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 1. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnustaðakönnun Strætó bs., sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019. R18070145

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um vinnustaðakönnun Strætó bs ekki síst í ljósi allra þeirra fjölmörgu kvartana sem fyrirtækið hefur fengið á sig sem er langt umfram það sem teljast má eðlilegt. Enn er beðið eftir nánari sundurliðun en fram kom í síðasta svari að meirihlutinn væri vegna framkomu, tímasetningar og aksturlags. Í þessari könnun er eftir því tekið að meiri en helmingur svarenda finnur fyrir streitu í vinnu, sbr. 10 og 15% segjast hafa orðið fyrir einelti á vinnustað (skv. síðustu glærunni). Þetta er hátt hlutfall. Þegar meiri en helmingur svarenda segist finna fyrir streitu í vinnunni má velta fyrir sér hvort streita kunni að tengjast eitthvað þessu háa hlutfalli ábendinga/kvartana t.d. þeim hluta sem snúa að framkomu og aksturslagi? Hjá fyrirtækinu er afar skekkt kynjahlutfall. Hlutfall kvenna sem eru vagnstjórar er aðeins 12%. Heildarfjöldi 185 vagnstjórar, konur 20 og karlar 165. Kvartanir/ábendingar voru, árið 2018, 2.778 og hafði fjölgað nokkuð frá árinu áður. Ef streita hleðst upp í starfi þekkjum við það öll að hún getur laðað fram einkenni sem hefur áhrif á framkomu okkar og atferli. Því ber þó að fagna að vinnustaðarmenningin á staðnum virðist fara batnandi.

    Fylgigögn

  40. Lagt til að til að Diljá Ámundadóttir taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. Jafnframt er lagt til að Gunnlaugur taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Vilborgar Guðrúnar Sigurðardóttur. R18060083
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  41. Lagt til að Diljá Ámundadóttir taki sæti í ofbeldisvarnarnefnd í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. Jafnframt er lagt til að Gunnlaugur taki sæti sem varamaður í nefndinni í stað Vilborgar Guðrúnar Sigurðardóttur. R18060106
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  42. Lagt til að Diljá Ámundadóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. Jafnframt er lagt til að Gunnlaugur taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Vilborgar Guðrúnar Sigurðardóttur. R18060086
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  43. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver var fjöldi heimilslausra 1. júní 2018? Hver er fjöldi heimilslausra 1. júní 2019? Til hvaða úrræða hefur verið gripið í þessum málaflokki á liðnu ári? Hvað eru margir heimilislausir skráðir í úrræði hjá Reykjavíkurborg miðað við 1. júní 2019? R19070148

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

  44. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Í lok maí 2019 greindi Strætó bs. frá því að vinna væri hafin við nýtt leiðanet Strætó, en það er skipulagt með því markmiði að tengja vagna Strætó við fyrsta áfanga borgarlínu. Í því tilefni setti Strætó fram könnun á Facebook síðu sína og óskaði eftir því að sem flestir gætu tekið þátt í þeirri könnun. Könnunin var líka sett inn á vefsíðu Strætó. Var könnunin auglýst á fleiri stöðum? Hversu margir tóku þátt í könnunni? Ef að þátttaka var ekki mikil verður þá leitast við að fá fleiri strætónotendur til að svara könnuninni? Það er mikilvægt að sem flestar raddir komi fram og ekki allir sem sjá tilkynningar sem eru einungis á vefnum. R19070149

    Vísað til umsagnar Strætó bs.

  45. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvers vegna var sett á laggirnar ný stofnun verkefnastofa borgarlínu? 2. Hvað er áætlað að rekstur stofnunarinnar kosti á ársgrundvelli? 3. Hvað eru/verða margir starfsmenn í stofnuninni? 4. Hver er kostnaður Reykjavíkur við rekstur stofnunarinnar? R19070150

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  46. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að haldinn verði fundur umsvifalaust með Miðbæjarfélaginu um fyrirætlanir um lokun gatna í miðbænum. Hafa þarf beint samráð við rekstraraðila félagsins og að allar breytingar séu á þeirra forsendum og annarra hagsmunaaðila. Tugir rekstraraðila hafa flúið vegna þess að verslun þeirra hefur hrunið samhliða lokun gatna fyrir umferð. Í skýrslu sem ber heitið Laugavegur sem göngugata og er dags. 28. júní 2019 er kafli sem heitir Samráðsferli. Þar er því haldið fram að „víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað við hagsmunaaðila. Það samráð er einhliða. Ekkert samráð hefur verið haft við Miðbæjarfélagið. Samráð sem hér er talað um er sagt hafa verið dagana 28. janúar til 3. febrúar 2019. Þar var ekki hlustað einu orði á rekstraraðila Miðbæjarfélagsins. Afstaða þeirra er skýr sbr. undirskriftalista. Zenter rannsóknir staðfesta í niðustöðum sínum víðtæka óánægju með varanlega lokun enda ekki á forsendum rekstraraðila og meirihluta borgarbúa. R19070151

    Frestað.

  47. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að meirihlutinn haldi fund umsvifalaust með Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu um þær tillögur um breytingu á skipulagi sem meirihlutinn og borgarstjóri vill knýja fram án samráðs og varðar varanlega lokun gatna í miðbænum. Ekkert raunverulegt samráð hefur farið fram við Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörgu. Óskir um fundi hunsaðar, þrátt fyrir bókun sl. haust um að fundað yrði með þeim um algilda hönnun. ÖBI hefur verið boðið að hitta arkitekt, sem hefur ekkert pólitískt vald og getur ekki ákvarðað um annað en ákveðnar útfærslur, svo sem um hækkun götunnar til að auðvelda inngöngu í verslanir. ÖBI hefur verið mjög skýr um það frá upphafi að það verði að hleypa fólki með P-merki inn á göngugötur og hafa bílastæði þar. Nú verður borgin að taka mark á þeim kröfum skv. lögum. Þessi mál þarf að ræða við notendur og skal ekkert um þá gert án þeirra R19070152

    Frestað.

  48. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hve mörg fyrirtæki hafa leigt bílastæði fyrir starfsfólk sitt í bílastæðahúsum í miðborginni og hve mörg? R19070153

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  49. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hve mörg bílastæði verða fyrir almenning á Hafnartorgi? R19070154

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  50. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Óskað er upplýsinga um hvað forstjórar B-hluta fyrirtækja hafa í laun og yfirlit yfir launahækkanir síðustu 2 ár. Í fréttum nýlega var sagt frá því að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi samþykkt að hækka mánaðarlaun forstjóra um 5,5% eða sem nemur tæplega 130.000 krónum á mánuði. Hækkunin er afturvirk til 1. mars síðastliðins. Eftir hækkunina nema grunnlaun forstjórans 2,5 milljónum króna. Hækkunin var gagnrýnd enda hafi verið samþykkt á síðasta aðalfundi OR að hækka laun stjórnarmanna um 3,7% en ekki 5,5%. Flokkur Fólksins vill minna á að margt fólk sem er með 300.000 krónur í laun á mánuði er ætlað að greiða rúmlega helminginn af því í húsaleigu og lifa á restinni. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst auk þess mikilvægt að fá þessar upplýsingar til að bera saman við hæstu laun sem greidd eru í borginni þar á meðal laun borgarstjóra. Mörgum finnst sem B-hluta fyrirtæki borgarinnar séu orðin eins og ríki í ríkinu og ákveða stjórnir þeirra að hafa hlutina eins og þeim sýnist eins og gleymst hafi að þetta eru fyrirtæki í eigu borgarbúa. R19070155

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  51. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að fulltrúi úr röðum leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins frá og með næsta aðalfundi sem verður 2020. Mikill meirihluta íbúða á Lindargötu 57-66 eru leiguíbúðir í eigu Félagsbústaða. Minnihluti eru eignaríbúðir. Engu að síður á fulltrúi eignaríbúða sæti í stjórn húsfélagsins en ekki fulltrúi leigjenda. Það segir sig sjálft að engin sanngirni er í þessu fyrirkomulagi og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja til að úr þessu verði bætt hið fyrsta. Aðalfundur er nýlega afstaðinn. Fyrir næsta fund er lagt til að gerðar verði breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar t.d. lagabreytingar til að hægt sé að kjósa fulltrúa leigjenda í stjórn á næsta aðalfundi 2020. Lindargata 57-66 er, eftir því sem næst er komist eina húsfélagið þar sem leigjendaíbúðir eru í meirihluta. Verði um fleiri slík tilfelli að ræða skal ávallt tryggja að fulltrúi leigjenda eigi sæti í stjórn húsfélagsins. R19070156

    Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

  52. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að stofnuð séu húsfélög í þeim fjölbýlishúsum þar sem Félagsbústaðir eiga allar íbúðirnar (Félagsbústaðir eini eigandinn). Ávallt þarf að tryggja að rödd leigjenda heyrist og húsfélag er formleg leið til þess og í stjórn sitji leigjendur. Eins og flestum er kunnugt hafa leigjendur í tugatali upplýst um að kvartanir þeirra, um langvarandi viðhaldsleysi og heilsuspillandi myglu í húsnæði þeirra, til stjórnenda Félagsbústaða hafi hreinlega verið hunsaðar eða í það minnsta ekki teknar nægjanlega alvarlega til að gert hafi verið við með fullnægjandi hætti. R19070157

    Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

  53. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn um hvað hyggst skóla- og frístundarráð gera fyrir þau börn í vanda sem eiga ekki inni í „venjulegum skólum“. Hvert eiga þau að fara? Hvar eiga þau að stunda nám? Vitað er að í öll sérúrræði er langur biðlisti t.d. í Klettaskóla og Brúarskóla. Nýlega fékk Flokkur fólksins svar við fyrirspurn sinni um hve mörg börn hafa undanfarin 5 ár ekki fengið skólavist vegna þess að þau glími við djúpstæðan tilfinningar- og hegðunarvanda. Sagt var að engu barni hafi verið vísað úr skóla vegna alvarlegs hegðunarvanda á þessu tímabili sem spurt var um. Þetta er ekki rétt. Síðan þetta svar var birt hafa nokkrir foreldrar haft samband og segjast einmitt hafa verið í þessum sporum auk þess sem við öll þekkjum eitt mál sem var nýlega í fréttum. Minnt er á að ef börn eru sett í aðstæður þar sem þau fá ekki notið styrkleika sinna og almennt séð fá ekki notið sín er hætta á að þau fari að sýna einkenni depurðar og kvíða. Sé barn látið vera í aðstæðum sem þessum lengi, jafnvel árum saman mun það einfaldlega hætta að vilja fara í skólann. Biðlisti í flest öll sérskólaúrræði hvort sem eru deildir eða skólar er langur og jafnvel þótt kennarar, foreldrar og fagfólk meta svo að barn eigi heima í sérúrræði þá fær það ekki inni í slíku úrræði. R19070158

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  54. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    1. Hvað kosta í heild nýjar fyrirhugaðar breytinga á Laugaveginum sem þegar hafa verið kynntar í umhverfisráði? 2. Hver eru rökin fyrir því að fara í þessar breytingar? R19070159

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  55. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundarráð kalli markvisst og kerfisbundið eftir upplýsingum frá foreldrum sem telja að börn þeirra fái ekki náms-, félags, og/eða tilfinningalegum þörfum sínum mætt í hinum „almenna skóla“ byggðan á stefnu borgarinnar sem kallast Skóli án aðgreiningar. Eins og Flokkur fólksins hefur margítrekað þá er verið að taka áhættu með andlega heilsu barna ef þau eru sett í aðstæður til langs tíma þar sem þau fá ekki notið sín í. Barn sem upplifir sig ekki vera meðal jafningja og finnur sig einangrað er í áhættu með að þróa með sér depurð og kvíða. Eins og fram hefur komið m.a. í könnun Velferðarvaktarinnar er hópur barna sem neitar að fara í skólann vegna vanlíðan sem þau tengja skólanum. Hópurinn hefur farið stækkandi undanfarin ár. Þessi börn geta verið alla ævi að byggja sig upp eftir áralanga veru í skólaaðstæðum sem ekki hentar þeim.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19070160
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  56. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur/Veitur og Reykjavíkurborg stefni að því að hafa margar litlar rafbílahleðslustöðvar í stað fárra stórra. Fyrir þá sem hyggjast kaupa rafbíl eru stærstu áhyggjur að komast ekki að stöð. Ef aðeins eru fáar stórar stöðvar munu myndast biðraðir. Vænta má að margir haldi að sér höndum við að kaupa rafbíl því þeir óttast að þeir þurfi að bíða efir að komast í rafmagn. Meðan þetta er raunveruleikinn þá eykst rafbílaflotinn hægt. Reykjavíkurborg á stóran meirihluta í OR/Veitum og því er eðlilegt að borgarstjórn hafi skoðun á þessu máli þrátt fyrir að þetta sé B-hluta fyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga. Reykjavík er langstærsti eigandinn. Benda má reynsluna t.d. Osló en þar hefur einmitt fjöldi stöðva skipt öllu máli.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19070161
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

    Fylgigögn

  57. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í fundargerð Strætó bs., dags. 21. júní 2019, segir að stjórn Strætó óski eftir að fengin verði utanaðkomandi ráðgjafi til að gera greiningu á mismunandi orkugjöfum vagna þar sem meðal annars komi fram reynsla, hagkvæmni og heildar líftímakostnaður. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins vill spyrja hvort Strætó bs. hyggst skoða metan sem orkugjafa vagna og horfa þá til þess metans sem Sorpa brennir engum til gagns? R19070162

    Vísað til umsagnar Strætó bs.

  58. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í fundargerð Strætó bs., dags. 21. júní 2019, segir að fyrir fundinum liggi drög að forsendum nýrrar fargjaldastefnu. Hefur sú stefnu verið kynnt opinberlega og kallað eftir viðbrögðum borgarbúa? Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins minna á allt tal meirihlutans um að hafa samráð við borgarbúa og hafa framkvæmdir og breytingarferli gegnsætt. Kallað er eftir meirihluti borgarstjórnar efni þetta loforð. Strætó er í meirihuta eigu borgarinnar og ætti borgin því að hafa bæði skoðun og áhrif á málefni Strætó bs. R19070163

    Vísað til umsagnar Strætó bs.

  59. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í fundargerð verkefnastjórnar miðborgarmála kemur fram undir lið 2 að Edda Ívarsdóttir hafi haldið kynningu um göngugötur sumarið 2019 ásamt kynningu á tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði að útfærslu á áfangaskiptingu á varanlegum göngugötum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá senda þá kynningu sem Edda Ívarsdóttir flutti um göngugötur sumarið 2019 og spyr auk þess hvort þessi kynning hafi verið kynnt hagsmunaaðilum öllum og óskað eftir viðbrögðum þeirra? R19070164

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  60. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Það er gott að sjá að Reykjavíkurborg muni greiða starfsfólki sínu eingreiðslu 1. ágúst vegna frestunar á kjarasamningsviðræðum en Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur lagst gegn því að starfsfólk annarra sveitastjórna sem eru félagar Starfsgreinasambandsins fái slíka greiðslu og vísar til þess að viðræður séu komnar til ríkissáttasemjara og viðræðuáætlun fallin úr gildi. Slíkt á ekki við um Reykjavíkurborg þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki umboð í kjarasamningaviðræðum fyrir Reykjavíkurborg. Hver er ástæða þess að SÍS hefur umboð fyrir öll sveitarfélögin en ekki Reykjavíkurborg. Er þetta nýlegt eða hefur þetta lengi verið svona? Hefur SÍS umboð frá Reykjavíkurborg í einhverjum tilfellum, þ.e.a.s. umboð til kjarasamningsgerðar sem takmarkast við ákveðin störf innan Reykjavíkurborgar? Hvaða störf eru það? R19070165

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissvið.

  61. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvað er áætlað oftekið vatnsgjald Orkuveitu Reykjavíkur sundurgreint eftir árum: 2016, 2017, 2018 og það sem af er ári 2019 sbr. úrskurður sveitastjórnarráðuneytisins í máli nr. SRN17040840? Hver voru laun og hlunnindi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur árin 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018 og það sem af er ári 2019 í krónum talið? R19070166

    Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.

  62. Fram fer umræða um fundarsköp. R19010002

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    1. Að mál eru send út í dagskrá en er síðan tekin af dagskrá án samráðs við aðila og sagt að þau séu ekki tilbúin. Þetta eru vond vinnubrögð enda borgarfulltrúar búnir að undirbúa málið. 2. Flokkur fólksins óskar eftir að áður en fundum er slitið að það sé kannað meðal fundarmanna hvort eitthvað sé eftir, hvort einhver eigi eftir að skila bókunum og hvort menn séu sáttir við að fundi sé slitið á þessum tímapunkti. Þetta er almenn kurteisi enda eftir að fundi er slitið er engu hægt að koma til skila.

Fundi slitið klukkan 12:37

Líf Magneudóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Pawel Bartoszek Hildur Björnsdóttir