Borgarráð - Fundur nr. 5550

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 4. júlí, var haldinn 5550. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:06. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarson, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 20. júní 2019. R19060011

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 19. júní 2019. R19010035

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs frá 13. júní 2019. R19070016

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram fundargerðir skipulags- og samgönguráðs frá 12. júní og 3. júlí 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar frá 3. júlí samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar frá 12. júní:

    Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar öllum tillögum sem snúa að því að gera aðgengi fjölskyldubílsins betri að götum borgarinnar. Orkuskipti í samgöngum er nauðsynlegur þáttur framþróunar í samgöngum sem er framtíðin hér á landi. Hugmyndir um borgarlínu er fortíðarhugsun.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar frá 12. júní:

    Svo oft virðist það gleymast að tryggja aðgengi fyrir alla þegar verið er að framkvæma í borginni. Áður en framkvæmdir hefjast verður að setjast niður með hagsmunasamtökum t.d. hreyfihamlaðra til að hafa öflugt samráð um hvernig málum verði háttað er varðar aðgengi á viðkomandi stað. Þetta hefur ekki verið gert. Núna er víða vonlaust fyrir hreyfihamlaða að fara um. Bílastæði fyrir P merkta bíla eru fá. Núverandi borgarmeirihluti verður að virða þá staðreynd að ekki allir eru gangandi eða hjólandi vegfarendur. Hverfisgata eins og aðrir hlutar borgarinnar á að vera fyrir alla, hvaðan sem þeir koma og með hvaða leiðum. Búið er að fjarlægja fjölda bílastæða á götum með alls kyns þrengingum. Bílastæðahús eru vissulega til staðar en aðkoma og aðgengi að þeim er víða slæmt. Margir eldri borgarar, fatlaðir og einnig ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8., 12., 13., og 18. lið fundargerðarinnar frá 3. júlí:

    Vegna 8. liðar um Freyjubrunn 23 hefur Miðflokkurinn á fyrri stigum málsins bókað að afar óheppilegt sé, að umsókn um breytingu deiliskipulags og útgáfa nýs byggingarleyfis þar sem íbúðum er fjölgað úr 5 í 8 ofl. sé tekin til meðferðar á meðan mál vegna áður útgefins byggingarleyfis er til meðferðar hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Mögulega neikvæður úrskurður nefndarinnar yrði þannig marklaus. Ljóst er að mistök voru gerð við útgáfu byggingarleyfis á sínum tíma og á það var bent af íbúum. Vegna 12. liðar um Laugaveg sem göngugötu, harmar Miðflokkurinn að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila við ákvörðunartöku um varanlegar göngugötur. Yfirlýsing borgarstjóra á fundi borgarstjórnar 4. sept. síðastliðinn um að Laugavegur skyldi verða göngugata frá Hlemmi vekur sérstaka eftirtekt, enda myndi slíkt þýða að aðkoma að 200 stæða bílastæðahúsi Bílastæðasjóðs borgarinnar myndi lokast. Gerræðislegar yfirlýsingar sem þessi eru ekki merki um að samráð og sátt sé ofarlega á baugi hjá borgarstjóra enda hefur nú verið ákveðið að svara í engu fjölda athugasemda og undirskriftalista er málið varða. Vegna 13. liðar um Héðinsgötu 8, mótmælir fulltrúi Miðflokksins harðlega samþykkt deiliskipulagsbreytingar í ljósi þeirra athugasemda sem bárust við auglýsingu, frá Draumasetrinu, sem rekur áfangaheimili fyrir 42 sálir að Héðinsgötu 10 og frá Alanó, sem rekur líknarfélag við Héðinsgötu 1-3 þar sem starfræktar eru yfir 50 12 spora deildir AA samtakanna. Það frábæra starf sem Draumasetrið og Alanó hafa staðið fyrir í fjölda ára er sett í algjört uppnám þar sem ein stærsta forsenda bata alkóhólista og fíkla er að slíta með öllu samgangi við neyslustaði og þá sem eru í neyslu. Að setja bata þúsunda í hættu fyrir úrræði fyrir 5 einstaklinga er glapræði. Vegna 18. liðar stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum, leggur Miðflokkurinn til að fyrstu 15-20 mínútur verði gjaldfrjálsar. Þannig er sannarlega komið til móts við þá sem stoppa stutt við og eru að sækja þjónustu og þeim ekki refsað með allt að 80% verðhækkun á einu bretti eins og tillagan mun leiða til að óbreyttu. Að leggja fjölskyldubílnum í miðborginni á að vera á færi allra, ekki eingöngu þeirra efnuðustu. Að öðru leyti er vísað til bókana Miðflokksins í heild í fundargerð skipulags- og samgönguráðs.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 25. júní 2019. R19010020

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Enn eina ferðina hefur verið gerð tilraun til þess að koma skólastarfi í Grafarvogi í uppnám án þess að fyrir lægju nægjanlegar forsendur þegar farið var af stað með hugmyndir um að loka Korpuskóla. Farið var í vegferðina þrátt fyrir að fyrir lægi ítarleg úttekt ráðgjafafyrirtækisins Intellecta vegna sameininga skóla og leikskóla í Grafarvogi sem hafi leitt í ljós ýmsa vankanta á framkvæmd fyrri sameininga. Í skýrslunni voru sett fram ígrunduð varnaðarorð og rökstudd gagnrýni á sameiningarnar. Bent var á að samráð hafi verið ófullnægjandi og framtíðarsýn hafi skort. Nýta mætti betur þann lærdóm sem fá má af umræddri skýrslu. Kröftug mótmæli íbúa og foreldra ásamt athugasemdum minnihlutans í skóla- og frístundaráði þrýstu á stofnun starfshóps til að skoða sameiningarhugmyndir nánar, fyrir það ber að þakka. Sömuleiðis er starfshópnum þökkuð vönduð og fagleg vinna. Mikilvægt er að niðurstöður skýrslu starfshópsins fái góða og almenna kynningu í hverfunum og allar ákvarðanir verði í framhaldinu teknar í sátt og samráði við íbúa og foreldra skólabarna á skólasvæðinu.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. maí 2019. R19010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Það er með öllu vonlaust að átta sig á hvað er verið að ræða á stjórnarfundum Orkuveitu Reykjavíkur út frá fundargerð. Þarna er einungis sagt hvað er á dagskrá. Fundargerð er ekki sama og dagskrá. Skiljanlega er ekki hægt að fara í mikla dýpt í málin eða segja hver sagði hvað. En það má eitthvað á milli vera. Í þessa fundargerð vantar kjöt á beinin til þess að þeir sem vilja fylgjast með og hafa eftirlitsskyldu geti með einhverju móti áttað sig á umræðunni sem þarna fer fram.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 25. júní 2019. R19010024

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins fagnar því að fjalla eigi um noktun sveitarfélaganna á metani á eigendafundi Sorpu. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 18. júní þess efnis að Strætó og Sorpa sem bæði eru fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar vinni saman og að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs. Hér er um eðlilegt og sjálfsagt sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ræða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins batt vonir við að tillagan fái upplýsta umræðu í stjórn Strætó bs. Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. júní 2019. R19010019

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. og 16. lið fundargerðarinnar:

    Nú er ekki lengur frítt inn á söfn fyrir eldri borgara. Það var mikill hvati fyrir eldri borgara að hafa frítt á söfn og óttast borgarfulltrúi Flokks fólksins að með því að þurfa að kaupa menningarkort þótt ódýrt sé, þá muni það hafa letjandi áhrif að taka þátt í menningarlífi borgarinnar. Nóg er nú samt sem letur eldri borgara að sækja miðbæinn. Aðgengi að miðbænum er slæmt t.d. ef eldri borgari vill koma akandi. Mjög margir treysta sér ekki í bílahúsin vegna erfiðrar aðkomu að sumum bílastæðahúsum, flókins greiðslumáta og ótta við að lokast inni ef þeim tekst ekki að greiða gjaldið. Með þessari breytingu er verið að rýra kjör eldri borgara til muna. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og er liður í að draga úr félagslegri einangrun. Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Vegna liðs nr. 16., pylsuvagninn bannaður. Flokkur fólksins skilur ekki afstöðu meirihlutans að banna pylsuvagninn við Sundhöllina. Telur það „ekki heppilegt“. Hvað er eiginlega átt við hérna? Þetta er enn eitt dæmi um forræðishyggju flokka meirihlutans. Þeir vilja ekki aðeins ráða samgöngumáta fólks heldur einnig hvort þeir fái sér pylsu eftir sund.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R19070004

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið yfirlitsins:

    Það er óskiljanlegt af hverju ekki má gera þeim sem velja að aka vistvænum bíl eða rafbíl hátt undir höfði. Sú var tíðin að þeir sem vildu skipta yfir í vistvæna bíla fengu ákveðna umbun. Sú umbun var tekin af. Það hefur komið skýrt fram að þessi meirihluti ætlar ekki að gera neinn greinarmun á hvort bíll er bensínbíll eða rafbíll. Á hinn bóginn vill meirihlutinn gjarnan draga úr mengun en gerir afar lítið til að stíga öll möguleg skref í þeim efnum. Að taka upp eldri reglur í þessu sambandi væri hvorki flókið né kostnaðarsamt en afar jákvæð skilaboð til almennings. Eigi að loka fyrir aðkomu bíla úr miðbænum endar með að bærinn tæmist alveg og má hann varla við því nú þegar rekstraraðilar í tugatali hafa verið hraktir burt með verslun sína. Staðreyndin er að almenningssamgöngur eru ekki hagstæðar fjölmörgum borgarbúum. Að umbuna þeim sem velja að aka vistvænum bílum ætti að vera á forgangslistanum fremur en að setja allt púður í að útiloka bíla frá miðbænum. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að draga úr öfgum. Með því að leyfa þeim sem aka vistvænum bílum að fá frítt bílastæði í 90 mín. muni auka líkur á að fleiri sjái slíka fjárfestingu sem góðan kost.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19070005

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júlí 2019, sbr. samþykkt ráðsins frá 3. júlí 2019 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 fyrir miðsvæði M2c-M2g, Múlar - Suðurlandsbraut, ásamt fylgiskjölum. R11060102
    Samþykkt. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, 28. júní 2019, sbr. samþykkt ráðsins frá 3. júlí 2019, á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 fyrir Sjómannaskólareit og Veðurstofuhæð, ásamt fylgiskjölum. R11060102
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þessi verkefni bera þess merki að farið var að stað í miklum flýti á kosningaári. Þau eru enn í flýtimeðferð samkvæmt fundarboði. Hinn 8. ágúst 2018 auglýsti Reykjavíkurborg eftir samstarfsaðilum, þar sem fullyrt er að íbúðafjöldi á Veðurstofureit verði u.þ.b. 50. Í tilkynningu til Kauphallarinnar hinn 14. febrúar á síðasta ári tilkynna Heimavellir hf. að félagið sé í „viðræðum við Reykjavíkurborg um 100 smáíbúðir á Veðurstofuhæðinni.“ Nú ber svo við að borgarráði er ætlað að samþykkja nýtt skipulag, þar sem leyfa á allt að 250 íbúðir. Hér vakna margar spurningar, s.s. varðandi jafnræði aðila á markaði þegar verið er að úthluta gæðum borgarinnar. Tímalína: Auglýst var eftir áhugasömum aðilum og var skilafrestur 8. ágúst 2018: sjá hér
    Fjöldi íbúða: „Íbúðafjöldi: u.þ.b. 50“ Í febrúar 2019 var eftirfarandi tilkynnt í Kauphöll: „Félagið er í viðræðum við Reykjavíkurborg um lóðarvilyrði vegna 100 smáíbúða á Veðurstofuhæðinni.“ sjá hér

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er forkastanlegt og í anda lélegrar stjórnsýslu að taka mál með flýtimeðferð í gegnum borgarráð þegar borgarstjórn er í sumarleyfi. Hér er um að ræða breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030. Þetta mál er mjög umdeilt hjá íbúum í kringum Sjómannaskólareit eins og segir í umsögn þeirra: „Íbúafélagið Vinir Saltfiskmóans skorar á borgaryfirvöld að falla frá fyrirhuguðum byggingaráformum á Sjómannaskólareit.“ Þessi áform eru keyrð í gegnum borgarráð til samþykktar en borgin er á engan hátt undirbúin innviðalega séð undir þessa uppbyggingu eins og t.d. hvað varðar skóla, bílastæði, veitukerfi og fl. Um gríðarlegt byggingamagn er að ræða og íbúar hafa miklar áhyggjur af skuggavarpi. Meirihlutinn kýs ófrið þegar friður er í boði. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í þessu málefni Sjómannaskólareitsins hafa komið óvenju mikið af alvarlegum athugasemdum frá fólki á öllum aldri og þar með börnum sem er annt um umhverfi sitt. Þetta svæði er afar mikilvægt í borgarlandinu enda einstakt. Flokkur fólksins vill hvetja meirihlutann til að staldra við og ana ekki að neinu sem ekki verður aftur tekið. Hér er auðvelt að gera alvarleg mistök svo stórslys verði. Meirihlutinn í borgarstjórn verður að fara rækilega ofan í saumana á umsögnum og athugasemdum og kynna sér vandlega þau málefni er varða sjálfsprottnu grænu svæðin á Sjómannaskólareitnum í Reykjavík. Þegar slíkur mótbyr er, er varla þess virði að keyra áfram af offorsi og öfgum. Flokkur fólksins vill vekja athygli á óskum nemenda í Háteigsskóla og draga fram þeirra framtíðarsýn á svæðinu. Flokkur fólksins vill taka undir með Vinum Saltfiskmóans að gengið er um of á gróðurþekju Háteigshverfis sem er nú þegar of lítil samkvæmt úttekt borgarinnar sjálfrar. Gríðarlegt byggingarmagn með tilheyrandi skuggavarpi mun ekki aðeins rýra verðgildi þeirra eigna sem fyrir eru heldur einnig rýra gildi stakkstæðisins í Saltfiskmóanum og Vatnshólsins sem útivistarsvæðis. Ástæða er til að hafa áhyggjur af umferðaröryggi. Vandi Háteigsskóla vegna þéttingar í Háteigshverfi er enn óleystur. Fyrirliggjandi byggingaráform fela í sér skipulagsslys sem varað er eindregið við 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júlí 2019, sbr. samþykkt ráðsins frá 3. júlí 2019 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Sjómannaskólareit 1.254.2, ásamt fylgiskjölum. R19050196
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er forkastanlegt og í anda lélegrar stjórnsýslu að taka mál með flýtimeðferð í gegnum borgarráð þegar borgarstjórn er í sumarleyfi. Hér er um að ræða breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030. Þetta mál er mjög umdeilt hjá íbúum í kringum Sjómannaskólareit eins og segir í umsögn þeirra: „Íbúafélagið Vinir Saltfiskmóans skorar á borgaryfirvöld að falla frá fyrirhuguðum byggingaráformum á Sjómannaskólareit.“ Þessi áform eru keyrð í gegnum borgarráð til samþykktar en borgin er á engan hátt undirbúin innviðalega séð undir þessa uppbyggingu eins og t.d. hvað varðar skóla, bílastæði, veitukerfi og fl. Um gríðarlegt byggingamagn er að ræða og íbúar hafa miklar áhyggjur af skuggavarpi. Meirihlutinn kýs ófrið þegar friður er í boði. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vill taka undir með Vinum Saltfiskmóans að gengið er um of á gróðurþekju Háteigshverfis sem er nú þegar of lítil samkvæmt úttekt borgarinnar sjálfrar. Gríðarlegt byggingarmagn með tilheyrandi skuggavarpi mun ekki aðeins rýra verðgildi þeirra eigna sem fyrir eru heldur einnig rýra gildi stakkstæðisins í Saltfiskmóanum og Vatnshólsins sem útivistarsvæðis. Ástæða er til að hafa áhyggjur af umferðaröryggi. Vandi Háteigsskóla vegna þéttingar í Háteigshverfi er enn óleystur. Fyrirliggjandi byggingaráform fela í sér skipulagsslys sem varað er eindregið við. Í þessu málefni Sjómannareitsins hafa komið óvenju mikið af athugasemdum frá fólki á öllum aldri og þar með börnum sem er annt um umhverfi sitt. Á ekki að hlusta neitt á allt þetta fólk? Flokkur fólksins vill hvetja meirihlutann til að staldra við og ana ekki að neinu sem ekki verður aftur tekið. Hér er auðvelt að gera alvarleg mistök svo stórslys verði. Meirihlutinn í borgarstjórn verður að fara rækilega ofan í saumana á umsögnum og athugasemdum og kynna sér vandlega þau málefni er varða sjálfsprottnu grænu svæðin á Sjómannaskólareitnum í Reykjavík. Þegar slíkur mótbyr er, er varla þess virði að keyra áfram af offorsi og öfgum. Flokkur fólksins vill vekja athygli á óskum nemenda í Háteigsskóla og draga fram þeirra framtíðarsýn á svæðinu. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs, frá. 26. júní 2019, á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 23 við Furugerði, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lagt fram bréf Land lögmanna, dags. 3. júlí 2019, með athugasemdum frá íbúum Furugerðis 10 og 12. R18110053
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Arkís arkitekta að nýjum íbúðum við Furugerði 23 hefur tekið talsverðum breytingum til samræmis við athugasemdir íbúa sem bárust við fyrri deiliskipulagsauglýsingu. Húsin hafa verið lækkuð úr þremur hæðum í tvær. Þau hafa einnig verið færð fjær núverandi fjölbýlishúsabyggð og dvalarsvæði íbúa fært að norðurhlið húsanna þar sem hljóð- og svifryksmengun frá Bústaðarvegi verður talsvert minni. Einnig hefur breyting verið gerð á B-reit sem felur nú í sér raðhúsabyggð í stað fjölbýlis. Meirihluti borgarráðs fagnar þessari uppbyggingu og áorðnum breytingum á deiliskipulagstillögunni, enda eftirsótt svæði í nálægð við almenningssamgöngur, skóla og stóra vinnustaði Reykjavíkur og í samræmi við markmið gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Málið er keyrt áfram þvert á vilja íbúa og þeirra efnislegu raka. Í málinu liggja fyrir álitsgerðir lögmanna sem ekkert er gert með að hálfu borgarinnar og í álitsgerð frá 3. júlí s.l. segir: „skýrt er því að framangreind breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina að Furugerði 23 er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag og ber því að hafna samþykkt hennar, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2011. Einnig kemur fram að framangreind breyting mun raska alvarlega hagsmunum íbúa í nágrenni Furugerðis 23 vegna aukinnar umferðar og tilheyrandi mengunar, ónæðis, bílastæðaskorts, skerts útsýnis og skuggavarps. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er svæðið að mestu fullbyggt og fastmótað en að möguleikar á lítilsháttar þéttingu íbúabyggðar upp á 4 – 6 íbúðir. Verið er að leggja til allt að fjórum til fimm sinnum meira byggingamagn. Því er ljóst að þessi áform fara gegn ákvæðum gilandi aðalskipulags og er ólögmæt. Þegar hefur verið kynnt að málið verði kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem síðan er kæranlegt til dómstóla.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs, frá. 26. júní 2019, á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Ártúnshöfða eystri vegna lóðarinnar nr. 5 við Höfðabakka, ásamt fylgiskjölum. R19060225
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur unnið að endurskoðun stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir í vetur. Liður í því að veita þeim einstaklingum sem tilheyra þeim hópi sem besta þjónustu er að bjóða "húsnæði fyrst" þjónustu, þar sem húsnæði býðst með einstaklingsbundnum stuðningi og þjónustu. Auglýsing þessa deiliskipulags er gerð í kjölfar ákvörðunar borgarráðs frá 2018 þar sem samþykkt var að fela umhverfis- og skipulagssviði að finna lóðir fyrir allt að 25 smáhýsi í borgarlandinu. Það hefur reynst tímafrekara að koma upp smáhýsum í borgarlandi en upphaflega var áætlað, en þess er gætt að veita þeim sem bíða eftir smáhýsi þjónustu. Meðal annars með fjölgun rýma í gistiskýli, Konukoti og tímabundið í Víðinesi auk þess sem VOR teymið veitir hverjum og einum þjónustu þar sem viðkomandi kýs að búa með mannvirðingu, valdeflingu og skaðaminnkun sem leiðarljós.

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 3. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Gufunes vegna lóðarinnar nr. 11 við Jöfurbás, ásamt fylgiskjölum. R19070026
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að kynna uppbyggingu hagkvæmra íbúða. Til að tryggja að íbúðir séu hagkvæmar fyrir þá sem koma til með að búa þar, þarf að félagsvæða húsnæðisstefnu borgarinnar í mun ríkari mæli en hefur verið gert. Þeir sem eru í mestri þörf fyrir íbúðarhúsnæði hafa þurft að bíða til lengdar eftir öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Í þessari deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir íbúðum í stærðarviðmiðum frá 30-70 fermetrar, þar sem minnstu íbúðirnar eru 30-35 fermetrar. Þó að margir hafi verið að kalla eftir litlum íbúðum þá er samt mikilvægt að ekki sé mikið tekið af stærð íbúða og þar með gæðum þeirra til að íbúðir uppfylli skilyrði um hagkvæmt húsnæði. Íbúðir eru ekki endilega hagkvæmar þó að þær séu litlar og henta ekki endilega öllum sem eru að leita að íbúð á viðráðanlegu verði. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 26. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. júní 2019 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir reit 1.240.1 sem afmarkast af Grettisgötu, Rauðarárstíg, Njálsgötu og Snorrabraut, ásamt fylgiskjölum. R19060232
    Samþykkt. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. júní 2019. sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 26. júní 2019 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka Þ73, ásamt fylgiskjölum. R19010136
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu ásamt greinargerð: 

    Lagt er til málinu verði frestað svo unnt sé að taka það til umfjöllunar og afgreiðslu í borgarstjórn. 

    Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun vegna afgreiðslu málsferðartillögunnar. 

    Í ljósi þeirra viðamiklu og alvarlegu athugasemda sem meðal annars koma fram í athugasemdum Umhverfisstofnunar frá. 4. mars 2019, vegna deiliskipulags við Stekkjarbakka, er gerð krafa um að efnisleg grein verði gerð fyrir því með hvaða hætti Reykjavíkurborg hefur brugðist við athugasemdunum sem þar koma fram, áður en málið verður tekið til efnislegrar afgreiðslu í borgarráði. Hvað liggur svona á?

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna afgreiðslu málsferðartillögunnar:

    Borgarfulltrúi Miðflokksins tekur undir bókun Sjálfstæðismanna og skilur ekki hvers vegna meirihlutinn vilji ekki ræða þetta umdeilda mál í borgarstjórn. 

    Tillaga að deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka Þ73 er samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Deiliskipulagstillagan sem nú er samþykkt hefur tekið miklum og góðum breytingum. Þegar hún kemur til framkvæmda mun hún glæða lífi á röskuðu svæði í útjaðri dalsins. Mannvirkin sem þar eru fyrirhuguð verða að hluta til niðurgrafin og mótuð inn í landið og er landnotkunin í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Mannvirkin geta orðið tengipunktur við útivistarperlu Elliðaárdalsins og jafnframt boðið upp á þjónustu fyrir nálæg íbúðarhverfi sem og sjálfbæra borgarræktun og náttúru í borg.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að samþykkja í flýti gríðarlegar breytingar á umhverfi Elliðaárdalsins. Þetta er gert í sumarleyfi borgarstjórnar til þess eins að takmarka umræðu. Þetta er gert þrátt fyrir hávær mótmæli íbúa og alvarlegar athugasemdir Umhverfisstofnunar sem ekki hefur verið svarað. Það sætir furðu að sumir þeir sem standa að núverandi meirihluta stóðu að starfshópi um framtíðarfyrirkomulag og afmörkun Elliðaárdalsins (Sjálfbær Elliðaárdalur – Stefna Reykjavíkur Lokaskýrsla starfshóps, dags. 31. ágúst 2016). Í skýrslunni sem starfshópurinn skilaði voru mörk dalsins dregin við Stekkjarbakka (bls. 13). Hvað hefur breyst? Hér hafa fjórir flokkar sammælst um að keyra þetta mál í gegn, Samfylking, VG, Píratar og Viðreisn.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggst alfarið gegn uppbyggingu Aldin Biodome á Stekkjarbakka Þ73 og tekur undir flest sjónarmið íbúa og hagsmunasamtaka sem vara við raski, mengun og umferð. Elliðaárdalurinn er einstök náttúruperla sem ætti alltaf að fá að njóta vafans og við, íbúar Reykjavíkur, eigum það skilið að dalurinn okkar verði verndaður og friðaður.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Miðflokkurinn telur friðun Elliðaárdals algjört forgangsverkefni og að það verði gert í góðri sátt við íbúa borgarinnar. Telja verður með öllu óásættanlegt að fyrirhugað deiliskipulag fái afgreiðslu eða sé yfirhöfuð tekið til umræðu þar til afmörkun og friðlýsing Elliðaárdals hefur verið afgreidd í sátt við hagsmunaaðila, það er borgarbúa. Þrákelkni meirihluta Sf-Vg-C og P í þessu mikilvæga hagsmunamáli borgarbúa er með öllu óskiljanleg og virðist í engu samræmi við yfirlýst markmið þeirra um verndun grænna svæða í borginni. Að reisa glerhallir sem gnæfa yfir einni af náttúruperlum borgarbúa og fylla upp í eyðurnar með hundruðum bílastæða er óásættanlegt. Hér þarf að forgangsraða með hag borgarbúa í öndvegi. Að lokinni auglýsingu um breytt deiliskipulag hefur borist slíkur fjöldi athugasemda frá samtökum og íbúum að ekki er verjandi að halda lengra. Miðflokkurinn mótmælir því harðlega að málinu verði framhaldið. Krafa okkar um vinnulag hvað varðar umdeilanlegar breytingar er einföld: Umræða-Samráð- Sátt. Þetta vinnulag þekkja góðir stjórnendur en slæmir ekki. Meirihluti S-Vg-C og P fékk í síðustu kosningum umboð til að framfylgja vilja borgaranna, ekki eigin vilja. Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa boðað undirskriftasöfnun um íbúakosningu og óskar Miðflokkurinn þeim velgengi þar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er stórmál sem varðar fjölmarga. Það verður að vera íbúakosning um þetta nýja deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka. Elliðaárdalurinn skiptir fjölmarga máli, tilfinningamáli. Þetta er viðkvæmt svæði fullt af dýrmætu dýralífi. Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu. Borgarráð samþykkti, á fundi miðvikudaginn 6. desember, að veita félaginu Spor í sandinn ehf. vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti en ætlunin er að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir Aldin BioDome. Þetta er afar umdeilt mannvirki. Hér er um að ræða 20 metra hátt mannvirki, hjúpað gleri. Borgarmeirihlutinn virðist vera sérlega hrifinn af háum glerhjúpamannvirkjum. Skemmst er að minnast verksins Pálma í Vogahverfi. Í þessu máli er talað um að það hafi verið haft samráð við íbúana og fólk hafi verið afar ánægt með þetta en um var að ræða einn samráðsfund eftir því sem næst er komist? Hér hefði átt að fresta málinu og taka það aftur upp í haust og þá í borgarstjórn. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir á svæði Stúdenta- og Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri á árinu 2019, ásamt fylgigögnum. Kostnaðaráætlun 2 er 130 m.kr. R19070023
    Samþykkt. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags 3.júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á verklagsreglum um starfsemi hjólaleiga sem nýta borgarlandið, ásamt fylgiskjölum. R19070027
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er jákvætt að sjá fleiri valmöguleika í samgöngum. Hér er miðað við að utanaðkomandi aðilar sjái um reksturinn og í verklagsreglum kemur jafnframt fram að þjónustuaðilar beri ábygð á að markaðsetja þjónustu sína. Fulltrúi Sósíalistaflokksins veltir því fyrir sér hví borgin sjái ekki beint um að bjóða upp á hjól til leigu og halda þannig kostnaði í lágmarki fyrir borgarbúa sem kjósa að ferðast um með slíkum fararmáta. Fulltrúi Sósíalistaflokksins hefur áhyggjur af markaðsvæðingu samgöngukerfisins ef einkaframtakinu er falið að sjá um þennan hluta samgangna. Ef borgin sér beint um að veita þessa þjónustu er hægt að tryggja að hún yrði veitt út frá óhagnaðardrifnum forsendum en slíkt er alls ekki víst með utanaðkomandi aðila. 

    Glóey Helgudóttir Finnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 1. apríl 2019, varðandi uppsögn á ótímabundnum lóðarleigu- og afnotasamningum á Ártúnshöfða sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 20. júní 2019 og fært í trúnaðarbók, ásamt fylgiskjölum. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. R19040004

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Ártúnshöfðinn er afar mikilvægt byggingarland í Reykjavík. Þar er mikil veðursæld og því hentugt svæði fyrir íbúðarhúsnæði. Helstu atriði sem lóðarhafar undirgangast eru að þeir skuldbindi sig til að taka þátt í kostnaði vegna endurbyggingar og innviða. Að byggingaframkvæmdir á hverri lóð skuli lokið innan við 36 mánuðum frá útgáfu byggingaleyfis, að 20% íbúða verði leiguíbúðir eða búseturéttar-íbúðir og að Félagsbústaðir hafi kauprétt að 5% íbúða. Þá er lóðarhöfum vel kunnugt um þennan ramma og áform borgarinnar á svæðinu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Ártúnshöfða enda er skortur á hagstæðu íbúðarhúsnæði í borginni. Engu að síður setja fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði fyrirvara við orðalag samkomulagsramma Reykjavíkurborgar í fyrirhuguðum samningum við lóðarhafa um uppbyggingu á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog en þar segir: „Viðkomandi lóðarhafi samþykkir að taka þátt í kostnaði vegna enduruppbyggingar svæðisins og innviða þess, breyttrar nýtingar á lóðum og fasteignum í hverfinu, sbr. 3. tl..“ Á öðrum stað í samkomulagsrammanum segir: „Kostnaður við breytingar á innviðum, bygging skóla og borgarstofnana, endurbygging gatna, stíga, borgarlands veitna og annar kostnaður við uppbyggingu vegna skipulagsbreytinga er áætlaður umtalsverður. Frumáætlun liggur fyrir vegna innviðakostnaður.“ Þá segir enn fremur: „Áformað er að uppbygging á svæði þessu verði á vegum lóðarhafanna og að gert sé sérstakt samkomulag um uppbygginu og innviðagerð á milli lóðarhafanna og Reykjavíkurborgar.“ Af þessu má ráða að innviðgjaldið muni hafa bein áhrif til hækkunar á kaup- og leiguverði íbúða á þessu svæði sem hefur svo aftur bein áhrif á vísitölu neysluverðs. Af þessum sökum vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki taka afstöðu til samkomulagsrammans í fyrirhuguðum samningum við lóðarhafa enda ríkir mikil réttaróvissa um lögmæti innviðagjaldsins.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 26. júní 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 25. júní 2019 á tillögu um breytingar á reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar og akstur nemenda með hópbifreiðum, tillaga að breytingum á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar og drög að reglum um um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R19070010
    Frestað.

    Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 26. júní 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 25. júní 2019 á tillögu um hámarksfjölda reykvískra grunskólanema sem heimilt er að greiða framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. R19070009
    Samþykkt. 

    Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11.59 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti. 

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. júlí 2019:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar tillögur samráðsnefndar um forvarnir, sem skipaður er fulltrúum fjögurra sviða Reykjavíkurborgar, um forvarnir í tengslum við hátíðir og viðburði í borginni í ár. Áætlaður kostnaður vegna tillaganna er um 5.678.739 kr. Viðauki vegna þeirra verður lagur fram á næsta fundi borgarráðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni.  R19050150
    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg er heilsueflandi samfélag með það að markmiði að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum og vellíðan allra íbúa. Með skipulögðu og rannsóknamiðuðu forvarnastarfi borgarinnar í samstarfi við grasrótarsamtök, háskóla, lögreglu og stofnanir hefur náðst góður árangur í forvörnum meðal barna og unglinga. Mikilvægt er að standa vörð um verndandi þætti og mikilvægi foreldra í forvörnum og öflugu samstarfi. Borgarráð óskaði í vor eftir að fá tillögur frá samráðsnefnd um forvarnir, sem skipuð er fulltrúum fjögurra sviða Reykjavíkurborgar, um forvarnir í tengslum við hátíðir og viðburði í borginni í ár og þær eru hér samþykktar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði töldu við hæfi að nýta 10 milljónir af beinum tekjum borgarinnar af Secret Solstice í forvarnarstarf. Hér er lagt til að 5,7 milljónir fari til forvarnarstarfs. Því ber að fagna. Við hefðum þó viljað ganga skrefinu lengra eins og fram kemur í fundargerð borgarráðs frá 16. maí sl.

    Soffía Pálsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Ingibjörg Sigurþórsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 1. júlí 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. júní 2019 á nýjum verklagsreglum vegna úrbótasjóðs tónleikastaða, ásamt fylgiskjölum. R19070011
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavík er menningar- og tónlistarborg og það er mikilvægt að skapa umhverfi og góðar aðstæður svo tónlist og menning fái að flæða um og nýjar grasrótarhljómsveitir og listamenn fái tækifæri til að sanna sig og sýna í bland við þekktara tónlistarfólk. Þessi úrbótarsjóður er mikilvægur stuðningur við þetta. Það er einnig mikilvægt að vera í góðu samtali við íbúa og rekstraraðila svo allir geti sáttir við unað.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Litlir tónleikastaðir skipta máli í menningarflóru borgarinnar. Hærra fasteignaverð og stórhækkaðir fasteignaskattar borgarinnar stefna rekstri þessara staða í hættu, líkt og mörgum öðrum rekstraraðilum í miðborg Reykjavíkur. Rétt er að gæta þess vel að styrkir þessir raski ekki eðlilegri samkeppni og jafnræðis sé gætt. Jákvæðir hvatar sem kalla ekki á bein fjárútlát úr borgarsjóði eru heppilegastir. Lækkun gjalda og skatta í Reykjavík myndu bæta rekstrarumhverfi þessara aðila. Mikilvægt er að þessi úthlutun auki ekki útgjöld borgarinnar umfram það sem nú er. Rétt væri að aðkoma hagsmunasamtaka og hagaðila verði sem mest í beinum styrkjum og borgin tryggi jákvæða umgjörð í rekstri og skipulagi. Sú leið að hækka gjöld og niðurgreiða á móti með skattfé er ekki skilvirkasta leiðin til að bæta starfsumhverfi rekstraraðila í Reykjavík. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú tekur steininn úr hvað varðar rekstur Reykjavíkur. Taka á tæpar 16 milljónir næstu 2 ár af útsvarstekjum borgarinnar til að styrkja veitingastaði til tónleikahalds. Sett markmið með þessum greiðslum er að styðja við tilvist minni og miðlungs stórra tónleikastaða með því að veita styrki til úrbóta á tónleikastöðum hvað varðar aðstöðu, aðbúnað og aðgengi. Styrkjum okkar góðu tónlistarmenn en ekki veitingamenn í borginni sem eru að reka fyrirtæki af fúsum og frjálsum vilja. Reykjavíkurborg er með öðrum orðum komin í veitingarekstur. Hvað dettur meirihlutanum í hug næst?

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ekkert samráð hefur verið haft við íbúa í þessu máli. Þessar reglur hefði átt að senda til stjórnar íbúasamtaka Miðborgar til umsagnar. Hér skortir allt tillit. Þetta er sérlega mikilvægt því hér er verið að ræða um tímasetningar, hljóð og mögulega hljóðmengun. Staðsetningin skiptir miklu máli og að tryggt sé að tónlistaatriðum sé ávallt lokið á þeim tíma sem nágrannar eru sáttir við. Þætti sem þessa þurfa íbúasamtök að fá tækifæri til að fjalla og álykta um. Hvað varðar afstöðu Flokks fólksins þá snýst hún um 16 milljónir úr borgarsjóði (verkefni til tveggja ára). Í hvert sinn sem tillaga eins og þessi er lögð fram er borgarfulltrúa Flokks fólksins hugsað til skertrar grunnþjónustu, biðlista barna eftir þjónustu, börn sem búa við skert kjör og eldri borgara sem bíða eftir heimaþjónustu og fleira af sama meiði. Vissulega er mikilvægt að gleyma ekki tónlistinni og gefa listamönnum tækifæri en hér er ekki verið að tala um hefðbundna „tónleikastaði“ heldur veitingastaði og bari og ættu tónlistabönd að semja beint við þá og auðvitað ávallt að fylgja reglum Heilbrigðiseftirlits um hljóðmengun sem og öðrum reglum.

    Arna Schram og María Rut Reynisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf formanns borgarráðs, dags. 2. júlí 2019, þar sem lagt til að borgarráð samþykki verklagsreglur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs um menningarstyrki Reykjavíkurborgar 2020, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. júní 2019, ásamt fylgiskjölum. Einnig eru lagðar fram breytingartillögur formanns borgarráðs dags. 3. júlí 2019. R19070012
    Framlagðar breytingartillögur eru samþykktar. 
    Verklagsreglur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs um menningarstyrki Reykjavíkurborgar 2020 og borgarhátíðir Reykjavíkur 2020-2022 eru samþykktar svo breyttar. 

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram ábyrgða- og skuldbindingayfirlit vegna ársreiknings Reykjavíkurborgar 2018, dags. 4. júlí 2019.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R17120062

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. júlí 2019, þar sem lagðar eru fram forsendur fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 og forsendur fimm ára áætlunar 2020 - 2024. R19010204
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fjárhagsáætlun vegna ársins 2020 er í undirbúningi. Fjármálaskrifstofa fylgist vel með þróun efnahagsmála eins og rétt er að gera við núverandi aðstæður. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fullt tilefni er til að endurskoða fjárhagsáætlun enda gefur þriggja mánaða uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins ástæður til að hafa áhyggjur af rekstrarstöðu borgarinnar. Þá er rétt að minna á nýgerða kjarasamninga þar sem miðað er við að verðskrár og gjöld hækki ekki umfram 2,5 prósent en fasteignagjöld hafa hækkað umtalsvert meira. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur óskað eftir umræðu um fimm ára fjárhagsáætlun Reykjavíkur á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir sumarfrí vegna forsendubrests. Nú er ljóst að tekjusamdráttur árið 2019 er um einn milljarður vegna samdráttar í útsvari og fasteignagjöldum frá fjármálaáætlun. Skýrist það af því að uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur ekki gengið eins hratt og spár gerðu ráð fyrir hvað varðar fasteignagjöldin og auknu atvinnuleysi hvað varðar útsvarið. A-hluti borgarsjóðs er mjög undir áætlunum. Það eru vonbrigði að í stað þess að mæta tekjusamdrætti með hagræðingu og niðurskurði er farið í nýjar lántökur og þeim flýtt miðað við upphaflega áætlun. Ný lántaka er um 3 milljarðar en afborganir lána einungis rúmar 200 milljónir. Mikill tekjusamdráttur er yfirvofandi hjá Reykjavíkurborg og viðsnúningur efnahagslífs þjóðarinnar er staðreynd. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkur leggur til aðhald á fimm ára áætlun og tekið verði mið af hófsömum vexti útgjalda til rekstrar og fjárfestinga. Það segir okkur ekki neitt á meðan lögbundið hlutverk Reykjavíkur er ekki skilgreint ásamt grunnþjónustu. Rosaleg viðhaldsþörf blasir við ásamt útgjöldum á velferðarsviði á meðan fjármunum borgarinnar er sáldrað út um allt í gæluverkefni, sbr. tæpar 300 milljónir í Óðinstorg. Fjárhagsstaða Reykjavíkur er býsna skuggaleg svo ekki verði meira sagt.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf matsnefndar um veitingu stofnframlaga, dags. 31. maí 2019, um leiðréttingu á tillögu matsnefndar vegna umsóknar Nauthólsvegar 83 hses. um stofnframlag frá Reykjavíkurborg. R19050037
    Samþykkt. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 26. júní 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019, um fjölda barna sem fær ekki skólavist vegna hegðunarvanda, ásamt fylgiskjölum. R19050014

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins þakkar svarið við fyrirspurninni, sem finna má í lokamálsgrein: það er að ekki eru til nein dæmi þess síðastliðin 5 ár að barn hafi ekki fengið skólavist vegna þess að það glímir við djúpstæðan hegðunarvanda tengda röskun af einhverju tagi. Þetta er náttúrulega ekki rétt enda skemmst að minnast máls stúlku sem ítrekað var rætt um í fréttum nýlega en henni hafði verið úthýst úr skólakerfi borgarinnar vegna félags- og tilfinningalegra vandkvæða. En nokkur orð um svarið sjálft: Borgarfulltrúi veit að oft er mikil vinna við að svara fjölda fyrirspurna frá borgarráði og vill benda á að alveg óþarfi er að eyða of mikilli orku í að rekja ákvæði laga og reglugerða. Betra er að koma sér beint að því að svara fyrirspurninni með skýrum hætti. Fyrirspurnin var lögð fram af tilefni þar sem alvarlegt dæmi um að barn var utan skóla vegna hegðunarvanda hafði verið reifað í fjölmiðlum og var ósk Flokks fólksins að vita hvort um fleiri slík tilfelli væri að ræða. Svo virðist ekki vera samkvæmt þessu svari.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins telur að enn sé mörgum fyrirspurnum ósvarað sem og tillögur óafgreiddar í borgarkerfinu, dæmi er um að málum hafi verið frestað t.d. tillögu um sveigjanleg starfslok eldri borgara. Ekki er vitað hvar það mál er statt. Fleira mætti telja upp. Sagt er að búið sé að svara og afgreiða 94% af málum Flokks fólksins í borgarráði. Flokkur fólksins þiggur að fá nákvæman lista yfir öll mál flokksins frá upphafi með upplýsingum um hvernig þau voru afgreidd á sérstökum lista og hvaða mál eru óafgreidd og hvar þau eru þá stödd. Hér er einnig átt við allar fyrirspurnir. R19070045

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Hvernig var ferli þess að Skólavörðustígur var valinn regnbogagata en ekki einhver önnur gata og hverjir komu að ákvörðuninni? Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um ferlið lið fyrir lið og hverjir sátu í hópi þeirra sem ræddu um hvaða gata yrði fyrir valinu. Flokkur fólksins telur mikilvægt að þegar val eins og þetta stendur fyrir dyrum þarf ferlið að vera gegnsætt og rétt hefði verið að leggja fram nokkra valmöguleika og leyfa fleirum að hafa eitthvað um þetta val að segja. R19060051

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að allir rekstraraðilar verslana og fyrirtækja sem og íbúar Skólavörðustígs verði spurðir um afstöðu þeirra gagnvart því að gatan þeirra hefur verið valin regnbogagata. Ákveðið var með öllum greiddum atkvæðum í borgarstjórn að gera eina götu að regnbogagötu og var það hið besta mál. Vissulega var ávallt reiknað með að haft yrði viðhlítandi samráð við íbúa og fyrirtæki við þá götu sem borgin vildi stinga upp á að yrði fyrir valinu enda er meirihluti borgarinnar sífellt að monta sig af því að hafa samráð við borgarbúa og hlusta á raddir þeirra. Nú eru sterkar vísbendingar eftir því sem heyrist að ekkert samráð hafi verið haft við þá sem starfa og búa við Skólavörðustíg og vekur það furðu. Nú stendur til að Skólavörðustígur verði opnaður aftur fyrir umferð 1. október samanber tillögu meirihlutans frá 1. apríl 2019. Gatan verður því ekki göngugata a.m.k. næsta ár. Vissulega breytir það engu þótt bílaumferð fari eftir regnbogagötu sem er gata eins og hver önnur gata. R19060051

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Í allri þessari umræðu um borgarlínu er afar margt loðið og óljóst og sumt eiginlega óskiljanlegt. Þess vegna vill borgarfulltrúi freista þess að koma með nokkrar fyrirspurnir: 1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin? 2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað? 3.Hversu margir km. verður línan? 4. Hvað þarf marga vagna í hana? 5. Á hvaða orku verður hún keyrð? 6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir? 7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu? 8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna? 9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning? R19070046

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um gjald sem leigjendur Félagsbústaða eru látnir greiða í hússjóð og þjónustugjald á mánuði og fyrir hvað verið er að greiða nákvæmlega með gjaldinu. Óskað er upplýsinga um alla hússjóði sé mikill munur á þessu gjaldi milli sjóða. R19070047

    Vísað til umsagnar hjá stjórn Félagsbústaða.

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um fjárhæðir og fjölda starfslokasamninga sem gerðir hafa verið árin 2015-2019 hjá Félagsbústöðum. R19070048

    Vísað til umsagnar hjá stjórn Félagsbústaða.

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Reykjavíkurborg hyggst ráðast í 440 milljóna króna framkvæmdir við LED-væðingu götulýsingar á árinu 2019. LED-væðingin er næst stærsti kostnaðarliðurinn í umhverfis- og aðgengismálum borgarinnar á eftir göngu- og hjólastígum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru nærri 30.000 götuljós í borginni en þar af hafa rúmlega 3.000 lampar verið endurnýjaðir. Það er því fyrirséð að framundan er töluverð vinna og kostnaður við LED-væðingu götuljósa borgarinnar. Hve langan tíma er áætlað að LED-væðing allra götuljósa borgarinnar muni taka? Hver er áætlaður heildarkostnaður við LED-væðingu, sundurliðaður eftir árum? Með hvaða hætti hefur verið og verður staðið að kaupum á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum vegna LED-væðingar? Er fyrirhugað að ráðast í útboð vegna kaupa á vörum, þjónustu og verkreglum framkvæmdum vegna LED-væðingar? Hvaða aðilar sjá í dag um rekstur götulýsingar fyrir Reykjavíkurborg, þ.e. orku, viðhald og endurnýjun? R19070049

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í reglugerð og leiðbeinandi viðmiðunarreglum Vinnuskólans er talað um hefðbundin hreinsunar- og garðyrkjustörf og að námsefnið samanstandi af þremur þáttum: fræðslu, tómstundum og vinnu. Í ljósi frétta um að börnin í Vinnuskólanum læri að gera kröfuspjöld og fara í kröfugöngur og þess háttar langar borgarfulltrúa Flokks fólkins að spyrja nánar um: Hver ákveður hvaða verkefni börnin taka sér fyrir hendur í Vinnuskólanum hverju sinni og er verkefnavalið borið undir foreldra þeirra? R19070050

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Lagt er til að Orkuveita Reykjavíkur endurgreiði oftekið kaldavatnsgjald frá árinu 2016, sbr. úrskurð sveitarstjórnarráðuneytisins frá 15. mars s.l. í máli nr. SRN17040840. Greinargerð: Þessi tillaga er byggð á framangreindum úrskurði og þarfnast því ekki frekari rökstuðnings í greinargerð: sjá hér R19070054

    Frestað.

    Fylgigögn

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir svörum við því hvort búið er að taka dagskrárvaldið af kjörnum fulltrúum í borgarráði í ljósi neðangreinds. Það er sérlega alvarlegt þar sem borgarstjórn er í sumarleyfi og borgarráð fer með valdheimildir borgarstjórnar á meðan. Þetta er skýrt brot á samþykktum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Miðflokksins hefur í þrí- eða fjórgang óskað eftir að koma á dagskrá ráðsins úrskurði sveitastjórnarráðuneytisins frá 15. mars s.l., sem úrskurðaði að álagning vatnsgjalds hjá Orkuveitu Reykjavíkur var ólögmæt. Einnig var dagskrárbeiðninni fylgt eftir á þann hátt að óskað var eftir að ábyrgðaraðilar OR kæmu til fundar við borgarráð. Ekki hefur orðið við þessari beiðni og það kynnt í tölvupósti að formaður borgarráðs hafi ákveðið að fresta þessum dagskrárlið til haustsins. Þetta eru þöggunartilburðir. Í annan stað óskaði borgarfulltrúi Miðflokksins eftir því að aktívistaaðgerðir vinnuskólans fyrir ólögráða börn yrðu á dagskrá borgarráðs í dag. Eins og flestir vita fór vinnuskólinn af stað með verkefni er snéri að því að kenna börnum að útbúa mótmælaspjöld og leiða þau í mótmælagöngu á vinnutíma. Þessari tillögu var vísað til aukafundar í umhverfis- og heilbrigðisráði þar sem fulltrúar allra flokka sem kjörnir eru í borgarstjórn eiga ekki sæti. Þetta eru líka þöggunartilburðir. R19070055

  41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurn Flokks fólksins um hugmyndir um búsetuhús sem hópur foreldra barna með þroskahömlun lagði fyrir fyrrverandi skrifstofustjóra SEA og fyrrverandi formann velferðarráðs fyrir ca. 5 árum síðan. Spurt er um afdrif þessa máls. Fundað var all oft um þessar hugmyndir og fjöldi bréfaskrifta fóru á milli aðila en síðan er ekki vitað hvað varð um þær. Foreldrar og börnin bjuggu til sérstaka bók með hugmyndum um búsetuhús. Þessir foreldrahópur skilaði inn mikið af gögnum frá þeim og börnum þeirra. Systir eins barnsins var arkitekt og bauðst til að teikna húsið frítt og börnin máluðu málverk sem á stóð „Ekki gleyma okkur“. Þáverandi skrifstofustjóri lét að því liggja að þetta hús gæti risið í Skerjafirði. Nú vill borgarfulltrúi Flokks fólksins vita hvað varð um alla þessa vinnu?  R19070056

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Fundi slitið klukkan 13:50

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir