Borgarráð - Fundur nr. 5549

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 27. júní, var haldinn 5549. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:06. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Heiða Björg Hilmisdóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Þorsteinn V. Einarsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ari Karlsson og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kosning formanns borgarráðs í forföllum formanns og varaformanns með vísan til ákvæða 2. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir sinni formennsku á fundinum. R19010002

    Samþykkt.

  2. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 13. og 20. júní 2019. R19010016

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 26. júní 2019. R19010022

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðarinnar: 

    Tillögu Flokks fólksins um að komið verði á markvissu samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar varanlegrar lokunar verslunargatna í miðborginni hefur verið vísað frá. Með tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð. Nú hefur það verið staðfest í viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og SVÞ fjármagnaði að meirihluti rekstraraðila á svæðinu og borgarbúa, utan þeirra sem búa þar eru mjög óánægðir með varanlegar göngugötur. Skemmdarverk hefur verið unnið með þessum breytingum og stefnir í einsleitan miðbæ verði ekki horfið frá þessari stefnu. Þau fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og selja minjagripi munu þrífast og þeir sem heimsækja miðbæinn eru í meirihluta yngra fólk sem sækir skemmtanalífið. Búið er með þessum breytingum án samráðs að hrekja tugi verslana úr bænum og æ færri leggja leið sína á svæðið. Það er kaldhæðnislegt að Miðborgin okkar sem vænti án efa annarrar niðurstöðu skuli nú verða að kyngja blákaldri staðreyndinni. Göngugötur eru samkvæmt þessu að fæla fólk frá. Bærinn er að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Þetta blasti við þótt meirihlutinn í borgarstjórn reyndi hvað hann gat að slá ryki í augu fólks. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en 25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef, svo hefur verið hingað til og verður áfram. Rekstraraðilar í miðbænum hafa beðist vægðar á umræðum sem tala niður rekstur á svæðinu. Miðborgin er í blóma og hefur fjöldi verslana og veitingastaða aldrei verið meiri í sögu Reykjavíkur. Það er mál að ósanngjarnri gagnrýni einstaka borgarfulltrúa á starfsemi í miðbænum linni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi frábiður sér þöggunartilburði meirihlutans með því að segja við þá sem vilja tjá sig um stöðu miðbæjarins að þeir séu að „tala niður bæinn“. Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Það er vissulega handhægt fyrir þá, þar með meirihlutann í borgarstjórn, sem vilja ekki virða lýðræðislega umræðu að beita þessari aðferð. Þöggun er ein birtingarmynd kúgunar

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Ásökunum um þöggunartilburði og kúgun er vísað á bug. Borgarfulltrúa Flokks flokksins er að sjálfsögðu heimilt að tjá skoðun sína á stefnu meirihlutans. Á sama hátt er það réttur okkar að benda á þær afleiðingar sem sú orðræða kann að hafa.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. júní 2019. R19010020

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins að borgaryfirvöld samþykki að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á sérstaka fræðslu um heimsmarkmiðin á leikskólum. Tillagan var felld, Sjálfstæðisflokkur og Sósialistaflokkur sátu hjá. Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykir leitt að þessi tillaga skyldi ekki fá náð fyrir augum meirihlutans. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þ.e. innleiðing á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er sérstaklega til að fjallað verði um þau í leikskólum borgarinnar. Þessi tillaga getur auðveldlega fallið að menntastefnunni sem kemur einnig inn á heimsmarkmiðin. Flokkur fólksins er hér að huga að þeim yngstu ekki síður enda geta flestir verið sammála því að með því að byrja snemma og einmitt á leikskólaaldri er líklegt að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Mikilvægt er ekki síður að grunnskólar leggi áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Það er því leitt að þessi tillaga fékk ekki brautargengi eins og hún væri ekki þess verð að fá nánari skoðun. Vel hefði mátt leyfa henni að fljóta með samhliða innleiðingu menntastefnu. Borgin á að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Rétt er að taka fram að vinna við innleiðingu menntastefnunnar er í fullum gang og rétt þótti að setja þá vinnu í forgang. Menntastefnan endurspeglar með mjög markvissum hætti þá grundvallarsýn sem birtist í heimsmarkmiðunum. Ekki þótti skynsamlegt að ráðast í víðamikið innleiðingarferli á hliðstæðum markmiðum samhliða þeirri vinnu og af þeim ástæðum var tillagan felld. Þá skal því haldið til haga að ýmsar starfsstöðvar sviðsins eru í reynd að innleiða heimsmarkmiðin að eigin frumkvæði, m.a. undir merkjum Réttindaskóla Sameinuðu þjóðanna.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 14. júní 2019. R19010023

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 4. júní 2019. R19010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 8. lið: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tilboð Strætó bs. að bjóða út kaup á vetnisvögnum hefur runnið út í sandinn. Borgarfulltrúi spyr hvort menn séu búnir að gleyma tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000. Ætla borgaryfirvöld að láta plata sig aftur eins og þá, tilraunaverkefni sem kostaði milljarð. Vitað er að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á tillögu sem lögð var fram í borgarstjórn 18. júni þess efnis að Strætó og Sorpa sem bæði eru fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar vinni saman og að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs. Það er sárt að sjá hvernig metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna. Hér er um eðlilegt og sjálfsagt sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ræða. Undir 8. lið í fundargerðinni kemur fram að rætt er um niðurstöður vinnustaðakönnunar þar sem sérstaklega er spurt um einelti, áreitni og ofbeldi. Borgarfulltrúi vill minna á ný endurskoðaða stefnu og verkferli í eineltismálum sem stýrihópur sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fór fyrir og hvetja Strætó bs til að tileinka sér hvorutveggja, stefnu og verkferli.

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 12. og 19. júní 2019. R19010030

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið í fundargerð frá 12. júní: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar öllum tillögum sem snúa að því að gera aðgengi fjölskyldubílsins betri að götum borgarinnar. Orkuskipti í samgöngum er nauðsynlegur þáttur framþróunar í samgöngum sem er framtíðin hér á landi. Hugmyndir um borgarlínu eru fortíðarhugsun.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið í fundargerð frá 19. júní: 

    Athugasemd er gerð við kostnað á endurgerð Óðinstorgs fyrir framan heimili borgarstjóra, sérstaklega í ljósi þess hve viðhaldi skólabygginga hefur verið ábótavant með þeim afleiðingum að húsnæði er víða orðið heilsuspillandi og í sumum tilfellum þurft að loka því. Þetta er skýrt dæmi um ranga forgangsröðun en í innkaupayfirliti kemur fram að kostnaðurinn við Óðinstorg sé tæpar 280 milljónir en viðhald á skóla- og leikskólabyggingum sé aðeins rúmar 100 milljónir.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið í fundargerð frá 19. júní: 

    Endurgerð Óðinstorgs er hluti af verkefninu Torgin þrjú sem eru Óðinstorg, Freyjutorg og Baldurstorg sem er hugmynd sem kom frá íbúa á svæðinu árið 2002. Hugmyndin var svo samþykkt formlega á kjörtímabilinu 2006-2010 undir heitinu Torgavæðing í Þingholtunum þar sem umhverfis- og skipulagssviði var falið að útfæra breytingar á torgunum. Í kjölfarið urðu torgin hluti af verkefninu Torg í biðstöðu með afar góðum árangri en á síðasta ári var breyting á deiliskipulagi samþykkt og framkvæmdir hafnar.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 19. júní 2019. R19010029

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

    Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og enn þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan greidd eru fyrir þau svo lág laun. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf t.d. eins og stytting vinnuviku eða betra fyrirkomulag vakta. Það er borgarmeirihlutans að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau. Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Það loforð sem gefið var fyrir ári að taka á þessum málum hefur ekki verið efnt. Svona hefur staðan verið í mörg ár eins og mannekla og biðlistar séu orðnir einhvers konar lögmál hjá borgaryfirvöldum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Velferðarsvið Reykjavíkur rekur heimahjúkrun samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Erfiðlega hefur gengið að ráða nægjanlega marga til starfa í sumarafleysingar þó svo að ástandið sé betra en á sama tíma í fyrra. Ljóst er að staðan er ólík eftir hverfum og vonir bundnar við að verkefnið „endurhæfing í heimahúsum“ dragi úr biðlistum þegar það hefur verið að fullu innleitt í þjónustu borgarinnar. Ávallt er tekið við öllum beiðnum um þjónustu og þeim forgangsraðað til þeirra sem eru í mestri þörf. Eins og ávallt verður lagt allt kapp á að veita alla þá þjónustu sem mögulegt er að veita og þjónustuþegum ávallt tilkynnt ef breytingar verða á þjónustunni og leitað er fjölbreyttra leiða til að ráða starfsfólk.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar: 

    Tillaga um tilraunaverkefnið IPS (Individual Placement Support) sem samþykkt var í velferðarráði inniheldur ákvæði til bráðabirgða um að þátttakendur í tilraunaverkefninu eigi rétt á undanþágu frá ákvæði 1. mgr. 12. gr. hvað varðar frádrátt tekna við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Heimilt verður að veita undanþágu vegna atvinnutekna sem nema allt að 50.000 kr. á mánuði. Sósíalistaflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að horfið sé frá skerðingum á öllum stigum fjárhagsaðstoðarinnar. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðarinnar sem er til framfærslu er til að mynda miklu lægri en lágmarkslaun og lágmarks framfærslutrygging þeirra sem fá örorku- og endurhæfingarlífeyri og þær upphæðir duga skammt. Ef að einstaklingur á fjárhagsaðstoð treystir sér á einhverjum tímapunkti til þess að vinna eitthvað þá ætti ekki að skerða þessa grunnupphæð krónu á móti krónu eins og gert er ráð fyrir í reglum Reykjavíkurborgar. Grunnupphæðin ætti ekki að skerðast á meðan hún er lægri en lágmarksframfærslutrygging og lægstu mánaðarlaun.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R19060010

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjóra voru afhentar tæplega 300 undirskriftir íbúa Skerjafjarðarsvæðisins í upphafi borgarstjórnarfundar sem haldinn var hinn 18. júní s.l. Þar var því mótmælt að breyta eigi póstnúmerinu í 102 auk Vatnsmýrarinnar. Þetta svæði er allt sunnan Hringbrautar, en mörk póstnúmera 105 og 107 haldist óbreytt. Þessi mótmæli eru að engu höfð hjá meirihlutanum. Það er til skammar hvernig haldið hefur verið á málinu þvert á vilja íbúanna. Íbúalýðræði er bara upp á punt og notað í ræðu og riti á tyllidögum. Borgarbúar verða að vita það að þessi þvingaða póstnúmerabreyting kostar þá tæpar 3 milljónir og skal kostnaðurinn tekinn af kostnaðarliðnum ófyriséð. Meirihlutinn velur ætíð ófrið þegar friður er í boði.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19060024

    Fylgigögn

  11. Lagðar fram styrkumsóknir til borgarráðs utan umsóknartíma, dags. 27. júní 2019. R19010041

    Öllum styrkumsóknum hafnað.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. júní 2019, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki úthlutunarreglur styrktarsjóðs fyrir fjöleignarhús til að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla, ásamt fylgigögnum. R19060195

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reglur um styrki vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús setja vandaðan ramma utan um þá innviðauppbygging sem nauðsynleg er fyrir orkuskipti í samgöngum. Það er ánægjulegt að sjá hversu fljótt reglurnar eru tilbúnar enda um mikilvægt skref að ræða fyrir fjöleignarhús í Reykjavík.

    Guðmundur B. Friðriksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal, ásamt fylgigögnum. Kostnaðaráætlun 2 er 4.630 m.kr. R19060117

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Íþróttamiðstöðin í Úlfarsárdal verður sú glæsilegasta á landinu þegar hún verður tilbúin. Íþróttafélagið Fram mun þá sinna íbúum í Úlfarsárdal, Grafarholti og Reynisvatnsás og gerir upptökusvæði íþróttafélagsins afar víðfemt og fjölmennt. Mannvirkið sem verið er að reisa í dalnum rúmar skóla, leikskóla, menningarmiðstöð, bókasafn, sundlaug og íþróttaaðstöðu fyrir krakkana í hverfinu til leikja og kappleikja. Tímaáætlun verkefnisins sem gerð var árið 2015 hefur staðist að langmestu leyti en íþróttahlutinn tafðist vegna nýrra samningaviðræðna við Fram. Fjölgun fermetra er meðal þess sem verið er að samþykkja og er gerð til þess að auka nýtingu á mannvirkjunum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Frekari tafir á uppbyggingu íþróttamiðstöðvar í Úlfarsárdal koma illa niður á íbúum. Íbúar eru langþreyttir á því að loforð verði uppfyllt og ekki er hægt að bjóða íbúum upp á endalausar tafir á uppbyggingu í hverfinu. Ef uppbygging á íþróttamiðstöð tefst núna þá er hætta á því að það hafi keðjuverkandi áhrif á allar aðrar framkvæmdir á svæðinu.

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. júní 2019:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að íþrótta- og tómstundasviði (ÍTR) verði falið, í samvinnu við Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), að ganga til samninga við Knattspyrnufélagið Fram í Safamýri eftir flutning Fram á nýtt félagssvæði þess í Úlfarsárdal. Gert er ráð fyrir að núverandi íþróttamannvirki Fram í Safamýri, íþróttahús og gervigrasvöllur, verði eign Reykjavíkurborgar og verði falin Knattspyrnufélaginu Víkingi til reksturs með sérstökum þjónustusamingi þegar Fram hefur flutt starfssemi sína í Úlfarsárdal. Núverandi grasæfingasvæði í Safamýri verða tekin til annarar þróunar. Nauðsynlegt er að Knattspyrnufélagið Fram, Knattspyrnufélagið Víkingur, fulltrúar íbúa, ÍBR og íþrótta- og tómstundasvið hefji þegar þessa breytingu á íþróttastarfi í Safamýri. Menningar- íþrótta- og tómstundarráði skal falið að sinna stefnumótun og eftirliti með verkefninu af hálfu borgarinnar. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R17100122

    Samþykkt.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það var einróma álit stýrihóps um íþróttastefnu að ganga skuli til samninga við Knattspyrnufélagið Víking um að þjónusta Safamýri til framtíðar. Litið var til samgangna, hverfisskiptinga og sterkrar framtíðarsýnar félagsins fyrir Safamýrarsvæðið. Jafnframt er tryggt jafnvægi milli hverfisfélaga. Tillagan skapar einnig svigrúm til annarrar uppbyggingar á svæðinu. 

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram minnisblað sviðstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 24. júní 2019, vegna tónleika Secret Solstice sem fóru fram í Laugardal 21.-23. júní 2019. R18110156

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Secret Solstice hátíð er lokið og bendir margt til að þær breytingar sem gerðar voru á hátíðinni í ár hafi almennt verið til bóta. Rétt er þó að bíða eftir þeim ábendingum sem munu berast frá íbúum og öðrum, sbr. minnisblað sviðsstjóra. Sjálfboðaliðum, viðbragðsaðilum sem og öðrum sem störfuðu á hátíðinni er þakkað fyrir þeirra framlag.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að vísbendingar eru um að Secret Solstice hátíðin gekk betur en í fyrra. Beðið er eftir frekari upplýsingum áður en hægt er að leggja endanlegt mat á hversu vel gekk raunverulega. Það er þó mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að ekki skuli halda þessa hátíð aftur á sama stað enda staðsetningin alls ekki hentug inn í miðju íbúðarhverfi.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 18. júní 2019, þar sem lagðar eru fram til kynningar niðurstöður úr viðhorfskönnun til ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu, ásamt fylgiskjölum.

    Arna Schram og Birgir Rafn Baldursson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R18090010

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 24. júní 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 24. júní 2019, á tillögu um afslátt á menningarkorti fyrir eldri borgara. R19060194

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Menningarkortið veitir aðgang að öllum reykvískum söfnum, auk fjölda afslátta á önnur söfn og aðra viðburði. Með tillögunni er lagt til að komið verði á menningarkorti fyrir eldri borgara sem kosti því sem jafngildi einsskiptis aðgangi að söfnum. Sú ráðstöfun að gefa öllum 67 ára og eldri frítt á söfn hefur ekki skilað sér í teljandi aukningu í aðsókn þessa aldurshóps, eins og vonast var eftir. Ráðgert er að ráðast í markaðsátak til að kynna kortið, í samstarfi við Félag eldri borgara í Reykjavík.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er jákvætt að öryrkjar og börn og unglingar fái ókeypis á söfn borgarinnar. Hins vegar á að afnema þau réttindi sem eldri borgarar hafa haft hingað til þannig að þeir muni ekki fá frítt inn á söfn lengur. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og skoðað t.d. listasöfnin í borginni, heimsótt Árbæjarsafnið og Sjóminjasafnið en það gæti orðið liður í að draga úr félagslegri einangrun og eflt lýðheilsu þessa aldurshóps. Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Frír aðgangur fyrir eldri borgara er hvati fyrir starfsfólkið að fara á söfn með hópinn eða frá dagvist aldraðra. Mjög margir eldri borgarar geta ekki einu sinni leyft sér að fara á söfn því miður. Ef fara á skipulagða ferð á vegum félagsmiðstöðvar gæti komið í ljós að einhver á ekki kort og fer því ekki með. Til að koma í veg fyrir tekjumissi af ferðamönnum í þessum aldurshópi sem fá þá líka frítt inn mætti hafa þann hátt á að sækja þarf um menningarkortið sem yrði endurgjaldslaust hjá félags- eða þjónustumiðstöðvum. Það er miður að Reykjavíkurborg skuli ganga fram með þeim hætti að rýra kjör eldri borgara enn frekar.

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. júní 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að sú leið sem verði farin til að tryggja húsnæði fyrir nemendur Seljaskóla, skólaárið 2019-2020, eftir bruna í húsnæði skólans þann 12. maí sl. verði að útbúa aðstöðu fyrir nemendurna í húsnæði Fellaskóla, sbr. hjálagt minnisblað sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2019. Með því móti fer kostnaður í framkvæmdir sem þörf er á til frambúðar í stað tímabundinnar lausnar ásamt því að talið er æskilegt að Reykjavíkurborg eigi traust húsnæði sem hægt sé að nýta fyrir starfsstöðvar sem eru í neyð og þá væri hægt að nýta þetta húsnæði í Fellaskóla til þess. Fjármögnun á tillögunni er lögð fram samhliða í viðauka við fjárfestingaráætlun. R19050108

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákveðið hefur verið að gera nauðsynlegar úrbætur á húsnæði Fellaskóla til að hýsa hluta nemenda úr Seljaskóla, meðan unnið er að því að laga og bæta húsnæði Seljaskóla. Þetta var sú lausn sem metin var hagkvæmust, og best fyrir nemendur, til langs og skamms tíma. Starfsfólki sviðsins og starfsfólki Seljaskóla er þökkuð þrotlaus vinna á erfiðu ári.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: Mikil og brýn þörf var á því að ráðast í stækkun Seljaskóla. Þar sem gríðarleg vinna er framundan á því að endurnýja stóran hluta af skólanum vegna bruna sem hafa komið upp í tvígang þá vonast fulltrúar Sjálfstæðisflokks til þess að ráðist verði í þær aðgerðir sem þurfti til þess að hafa viðunandi aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk skólans.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Viðhald á skólahúsnæði hjá Reykjavíkurborg er í molum. Vikulega berast fréttir af stóralvarlegum veikindum í skólahúsnæði skólanna vegna myglu, raka og silfurskottna. Húsnæði sumra skóla er verulega heilsuspillandi. Hætta er á að þessir þættir smiti heimili þeirra sem í skólunum starfa, hvort sem um er að ræða nemendur, kennara eða starfsfólk skólanna. Hruninu er kennt um þetta viðhaldsleysi sem eru lélegust rök sem hægt er að finna. Ekki hefur verið forgangsraðað í lögbundin verkefni og grunnþjónustu, í stað þess hefur peningum verið sóað í gæluverkefni. Braggi, mathallir, hálfviti við Höfða, torg fyrir framan heimili borgarstjóra, tilgangslausar götuþrengingar, Gröndalshús, framkvæmdir við Perluna, listinn er ótæmandi. Sífellt er verið að slökkva elda og koma með skyndilausnir eins og t.d. þá sem liggur fyrir fundinum að færa skólastarf Seljaskóla í Fellaskóla. Minnt er á að það er skólaskylda á Íslandi og það er lögbundið hlutverk sveitarfélaga að sinna því. Það er slíkt hneyksli að borgin hafi skólastarf í heilsuspillandi húsnæði. Þær tillögur sem kynntar eru hafa gríðarlegt rask í för með sér fyrir nemendur. Til stendur að kenna nemendum Seljaskóla í tveimur skólum næsta vetur. Það er á engan hátt boðlegt. Reykvíkingar borga hæsta mögulega útsvar sem leyft er samkvæmt lögum. Svona er því varið.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það má kenna meirihlutanum um margt. Það er hins vegar ósanngjarnt að tengja saman meintan skort á viðhaldi við þann harmleik að kveikt hafi verið í Seljaskóla með þeim afleiðingum sem það hafði fyrir nemendur og starfsfólk. Torséð er hvernig sá sorglegi atburður tengist bröggum og mathöllum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þegar alvarlegur atburður gerist eins og bruni í Seljaskóla bætist enn ofan á hið alvarlega ástand sem er í skólanum. Það er einstakt að það brenni tvisvar í sama skóla eins og í Seljaskóla. Miklar áhyggjur eru af því hvort gerðar verði nauðsynlegar lagfæringar ofan á annað sem þarf að laga í Seljaskóla. Nú bíður barnanna mikið rask en börnin hafa lengi búið við mikið rask. Í dag er óljóst hver framkvæmdatími á endurnýjun Seljaskóla verður. Börnum í Seljaskóla hefur lengi verið þeytt fram og til baka. Fram hefur komið hjá foreldrafélagi að það gengur ekki að vera í kirkjunni, í ÍR heimilinu né hjá KSÍ. Alls konar reddingar eru í gangi núna þegar afleiðingar brunans bætast ofan á allt annað. Það er ljóst að Seljaskóli þarf auka fjármagn/mannafla til að fylgja eftir verkefnum og til að tryggja að framkvæmdatími haldist. Fyrri verk í Seljaskóla hafa nærri öll dregist úr hófi fram. Þá þarf fjármagn fyrir þá innanstokksmuni sem töpuðust í brunanum, t.d. tölvur, bækur og annan búnað ef að tryggingafélagið, VÍS, bætir ekki innanstokksmuni. Svona mætti lengi telja og veit borgarfulltrúi Flokks fólksins að starfsfólk, foreldarar og nemendur eru uggandi. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 18. júní 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs, dags. 5. júní 2019, á tillögu um hækkun á eignamörkum varðandi sérstakan húsnæðisstuðning, ásamt fylgiskjölum. R19020148

    Samþykkt. 

    Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Fram fer kynning á stefnumótunarvinnu Strætó bs. R19060123

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stefnumótunarvinna Strætó endurspeglar metnað fyrirtækisins í að fjölga farþegum, auka forgang strætó, bæta ímynd fyrirtækisins og gera Strætó að aðlaðandi vinnustað. Farþegum Strætó hefur fjölgað mikið á undanförnum árum vegna þess að áherslan hefur verið á að bæta þjónustu stærstu leiðanna með aukinni tíðni og auknum forgangi strætisvagna í almennri umferð. Sú nálgun nefnist "ridership” aðferðarfræði og snýst hún um að betri þjónusta er veitt þar sem fjöldi farþega er meiri. Hún er einnig grunnurinn í hugmyndafræði Borgarlínu og því ánægjulegt að sjá þessa nálgun hér festa í sessi í stefnu Strætó. Sú nálgun hefur fjölgað farþegum á undanförnum árum, sem ber að fagna.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þó að það sé gríðarlega mikilvægt að stytta ferðatímann og tryggja að fólk komist fljótt á áfangastað með strætó, þá er líka mikilvægt að kerfið sé þannig hannað að strætisvagnar fari líka vel inn í hverfin en dæmi eru um að það þurfi að labba talsverðan spöl til að komast á leiðarenda. Þó að það sé mikilvægt að auka tíðni strætóferða, þá þarf líka að hanna kerfið þannig að fólk komist auðveldlega á leiðarenda og þar þarf að huga vel að tengingum á milli svæða. Ábendingar strætónotenda hafa t.d. snúið að því að það sé erfitt að taka marga vagna til að komast á leiðarenda og að vagnar fari ekki á milli ákveðinna svæða sem gerir strætónotendum erfitt fyrir. Með því að laga kerfið að þörfum notenda má skapa betri almenningssamgöngur og slíkt leiðir að öllum líkindum til þess að fleiri sjái sér fært að treysta á almenningssamgöngur en einungis 4% ferða á höfuðborgarsvæðinu eru farnar með strætó og yfirlýst markmið sveitarfélaganna snýr að því að auka þá tölu upp í a.m.k. 12% eigi síðar en árið 2040.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Framtíðarsýnin lítur vel út en langt er í að þessi fallega sýn verði að veruleika. Fullt af flottum fyrirætlunum en ekki útskýrt nóg hvernig. Talað er um minnkun gróðurhúsalofttegunda – grænt bókhald, kolefnishlutlaust fyrirtæki. Strætó getur varla orðið kolefnishlutlaust eftir 10 ár nema með því að nýta metan eða rafmagn og þá helst með sítengingu við veiturafmagn, þ.e. að stöðug tenging sé við rafstreng, svo sem eru í sporvögnum í borgum erlendis. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr. Það á að kolefnisjafna en það er ekki hægt að kolefnisjafna á meðan mikilli olíu er brennt. Áður hefur borgarfulltrúi lagt til notkun metans frá Sorpu en ekki er unnið að því að auka hlut metans sem eldsneyti hjá Strætó. Nýlega bárust upplýsingar um fjölda kvartana sem Strætó fær. Tölur eru sláandi sem getur varla talist eðlilegt. Beðið er eftir upplýsingum um sundurliðun og nánar um eftirfylgni. Gróflega reiknað eru um tífalt fleiri kvartanir hér en í sambærilegu vagnafyrirtæki í London. Borgarfulltrúi fær vikulegar ábendingar frá óánægðum notendum strætó vegna þjónustu strætó. Ekkert er minnst á fjölda kvartana í kynningunni en hér er eitthvað sem vel mætti taka á af krafti og það strax.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í svörum strætó kemur fram fjöldi ábendinga en ekki kvartana. Ábendingar eru margskonar og snúa bæði að fjölbreyttum frávikum sem og skilaboðum sem notendur strætó vilja koma til skila. Lögð er áhersla á að öll frávik séu skráð til þess að gera þjónustuna sem besta. Það er óábyrgt að halda því fram að allar ábendingar sem berast strætó séu kvartanir og er ómálefnaleg nálgun á mikilvægri starfsemi strætó og skapar óþarflega neikvæða ímynd Strætó.

    Jóhannes S. Rúnarsson og Björg Fenger taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  21. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 25. júní 2019, að fjárhagsramma vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020, ásamt fylgiskjölum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010204

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Rammaúthlutun er lykilþáttur í undirbúningi fjárhagsáætlunar næsta árs og fimm ára áætlunar. Þá er sviðum úthlutað fjárhagsrömmum sem þau útfæra svo með tillögu til borgarstjóra að fjárhags- og starfsáætlun til næsta árs og næstu fimm ára. Fagráðin rýna svo og skoða hvort tilefni sé til að breyta forgangsröðun og áherslum í ljósi rammaúthlutunar. Skilafrestur sviða á drögum að fjárhagsáætlun ársins 2020 er 20. september nk. Þá er gert er ráð fyrir að frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna ársins 2020 og fimm ára áætlun vegna áranna 2020-2024 verði lagt fram í borgarstjórn þriðjudaginn 5. nóvember nk. og afgreitt úr borgarstjórn eftir síðari umræðu þriðjudaginn 3. desember 2019.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í tillögu borgarstjóra um rammaúthlutun í tengslum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að „Gert er ráð fyrir að nýju kjarnasviði mannauðs- og starfsumhverfis verði falið að taka aukin útgjöld vegna langtímaveikinda til rýningar með sérstaka áherslu á skóla- og frístundasvið og leita leiða til úrræða og aðgerða með það að markmiði að draga úr óhagstæðri þróun.“ Kjarasamningar starfsmanna Reykjavíkurborgar eru lausir eða losna í lok júní 2019, samningar liggja ekki fyrir og gert er ráð fyrir að launahækkanir vegna nýrra kjarasamninga leiði til endurskoðunar á fjárheimildum. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins og mikilvægt að hún sýni ábyrgð með því að veita öllu starfsfólki sínu mannsæmandi kjör með því að hverfa af braut láglaunastefnunnar. Slíkt hefur verið áberandi í ýmsum störfum Reykjavíkurborgar, þá sérstaklega á skóla- og frístundasviði, þar má t.d. nefna launatekjur leiðbeinenda á leikskólum borgarinnar. Til að vinna gegn langtímaveikindum er nauðsynlegt að skapa gott starfsumhverfi og að laun dugi fyrir helstu nauðsynjum og að starfsfólk Reykjavíkurborgar þurfi ekki að ganga í gegnum það álag sem lágar tekjur og fjárhagserfiðleikar fela í sér. Lág laun geta leitt til þess að fólk ráði sig síður til starfa, sem leiðir til manneklu og álags á starfsfólk sem getur ýtt undir langtímaveikindi. 

    Halldóra Káradóttir og Guðlaug S. Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 26. júní 2019, að viðauka við fjárhagsáætlun 2019 vegna fjárfestingaráætlunar, ásamt fylgiskjölum. R19010200

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Viðauki við fjárfestingaráætlun gerir borginni kleift að stilla af útgjöld vegna framkvæmda. Sumum fjárfestingum er frestað á meðan ráðist er í aðrar framkvæmdir sem verða að eiga sér stað af ýmsum ástæðum. Til að mynda kallaði bruninn í Seljaskóla á kostnað vegna endurbóta á skólanum sem aftur kallar á framkvæmdir í Fellaskóla til að geta tekið á móti krökkunum í Seljaskóla. Sú hækkun var til dæmis upp á alls 200 milljónir króna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að reyna á að sinna langtímaviðhaldsleysi skólabygginga eitthvað meira en undanfarin ár. Eins og marg sinnis hefur komið fram m.a. frá all mörgum skólastjórnendum og foreldrum þá er ástand skólabygginga hrikalegt sums staðar vegna viðhaldsleysis og langtímamyglu. Nú á að setja 215 milljónir í viðbót í viðhald skólabygginga eftir því sem borgarfulltrúi skilur. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er bara brot af því fjármagni sem þyrfti að leggja í þetta risaverkefni ef ekki á að taka áratug að koma málum í viðunandi horf.

    Halldóra Káradóttir og Guðlaug S. Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Fram fer kynning á trúnaðarmerktu mánaðarlegu rekstaruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-mars 2019. R19010075

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Rekstrarniðurstaða fyrstu þrjá mánuði þessa árs er 508 m.kr. lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Það skýrist af því að tekjuspá borgarinnar í útsvarsgreiðslum var 738 m.kr. hærri sem skýrist af fækkun starfandi. Þriggja mánaða uppgjör gefa einhverjar vísbendingar um stöðuna en ber þó alltaf að taka með fyrirvara enda nær uppgjörið aðeins yfir fáa mánuði.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Afkoma A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrsta ársfjórðungi er mun lakari en á síðasta ári og er greinilegt að einskiptistekjur fara ört minnkandi. Þrátt fyrir að tekjur af fasteignaskatti hækki um 17,5% og útsvarsprósenta sé í lögleyfðu hámarki hækka skuldir og skuldbindingar um meira en milljarð á mánuði, eða 4.304 milljónir frá áramótum. Rétt er að benda á að gjaldþrot WOW átti sér stað í lok þessa tímabils og eru áhrif þess því ekki komin fram. Réttast væri að endurskoða áætlanir Reykjavíkurborgar líkt og ríkið hefur gert. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur óskað eftir umræðu um fimm ára fjárhagsáætlun Reykjavíkur á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir sumarfrí vegna forsendubrests. Nú er ljóst að tekjusamdráttur árið 2019 er um einn milljarður vegna samdráttar í útsvari og fasteignagjöldum frá fjármálaáætlun. Skýrist það af því að uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur ekki gengið eins hratt og spár gerðu ráð fyrir hvað varðar fasteignagjöldin og auknu atvinnuleysi hvað varðar útsvarið. A-hluti borgarsjóðs er mjög undir áætlunum. Það eru vonbrigði að í stað þess að mæta tekjusamdrætti með hagræðingu og niðurskurði er farið í nýjar lántökur og þeim flýtt miðað við upphaflega áætlun. Ný lántaka er um 3 milljarðar en afborganir lána einungis rúmar 200 milljónir. Meirihlutinn virðist ekki horfast í augu við þá staðreynd að mikill tekjusamdráttur er yfirvofandi og viðsnúningur efnahagslífs þjóðarinnar er staðreynd. 

    Halldóra Káradóttir, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Gísli H. Guðmundsson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  24. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. júní 2019, þar sem lögð er fram áhættuskýrsla vegna fyrsta ársfjórðungs ársins 2019, ásamt fylgiskjölum. 

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19060015

  25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. júní 2019, um úrskurð kjörnefndar skv. 93.gr. laga um kosningar til sveitastjórna nr. 5/1998, ásamt fylgiskjölum. R17040014

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt úrskurði kosninganefndar er ljóst að yfirkjörstjórn Reykjavíkur lagði í vörn sinni allan þunga á villandi upplýsingar. Ekki er að finna neitt í úrskurðinum að farið hafi verið efnislega inn í málið, og það hrakið sem rakið er í greinargerð minni í kærunni, enda er það óhrekjanlegt. Svo virðist að yfirkjörstjórn hafi blekkt kosninganefndina, því í IV kafla úrskurðarins kemur fram að á fundi borgarstjórnar 15. maí 2018 hafi komið fram tillaga um að vísa tillögum um leiðir og aðgerðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum 2018 til umsagnar Persónuverndar. Þetta er hálfsannleikur því vissulega var tillagan flutt en hún var felld af þáverandi meirihluta sem flutti tillögu um að vísa tillögunni til borgaráðs sem var samþykkt af sömu aðilum. Er hér um afar villandi málatilbúnað að ræða hjá yfirkjörstjórn Reykjavíkur og því er ekki ljóst á þessari stundu hvort kjörnefnd hafi sannreynt þessa rangfærslu yfirkjörstjórnar. Síðan segir að málið hafi verið rætt ítarlega á fundi borgarráðs hinn 31. maí 2018 sem eru kaldhæðnisleg rök því sveitastjórnarkosningarnar voru þá yfirstaðnar. Ekki er minnst einu orði á borgarráðsfund sem fór fram 17. maí þar sem málið var rætt og allar bókanir voru færðar í trúnaðarbók fram yfir kosningar til að ekki kæmist upp um brotin.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Kjörnefnd hefur ákveðið að vísa frá kæru borgarfulltrúa Miðflokksins, sem var fyrirséð enda kærufrestur löngu liðinn. Niðurstaðan er skýr og talar sínu máli. Sú málsvörn sem borgarfulltrúinn rekur í bókun sinni sem og fullyrðingar um kosningasvindl eru tilhæfulausar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það eru vonbrigði að kæra vegna borgarstjórnarkosninga hafi ekki verið tekin til efnislegrar meðferðar. Samkvæmt 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórnar nr. 5/1998 er kærufrestur 7 daga frá því að lýst er úrslitum kosninga. Vissulega var sá frestur liðinn þegar kæran var lögð fram. Persónuvernd gerði frumkvæðisathugun á málinu og úrskurðaði 7. febrúar 2019 að vinnubrögð Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands samræmdust ekki lögum. Því telja fulltrúarnir að taka hefði átt kæruna til efnislegrar meðferðar.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. júní 2019, um samkomulag Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæ, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness um tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að lagningu hágæða almenningssamgangna, dags. 14. júní 2019, ásamt fylgiskjölum.  R16110082

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sterk samstaða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er grunnurinn að því samkomulagi sem hér er lagt fram og undirstrikar hún þá miklu umhverfisvitund sem staða loftslagsmála í heiminum hefur kallað fram. Verkefni sem draga úr áhrifum loftslagsáhrifa verða sífellt stærri hluti af öllum fjárfestingum og fyrirséð að hlutur þeirra mun halda áfram að aukast. Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verða stór og nauðsynlegur hluti af framtíðarfararmátum og gert er ráð fyrir að framkvæmdir við borgarlínu hefjist 2021. En borgarlína er ekki einungis samgönguverkefni heldur einnig hluti af einu stærsta húsnæðisverkefni höfuðborgarsvæðisins og leggur sú undirbúningsvinna sem hér hefur verið samþykkt grunninn að henni.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram samkomulag um samstarf um tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að lagningu hágæða almenningssamgangna. Þetta verkefni er keyrt áfram af offorsi undir stjórn Reykjavíkurborgar. Hvað þýðir nákvæmlega tæknilegur og fjárhagslegur undirbúningur? Þetta verkefni lyktar allt af meðvirkni og peningasóun nákvæmlega eins og gerðist í Hringbrautarverkefni Landsspítalans. Enginn þorði að stíga fram og segja sannleikann um ómöguleika þess verkefnis en gríðarlegu fjármagni var sóað út í loftið (sokkinn kostnaður). Á árunum 2019 – 2020 á að eyða 1.600 milljónum í „nauðsynlega undirbúningsvinnu, þ.e. forhönnun, skipulagsvinnu og gerð útboðsganga“ vegna fyrsta áfanga borgarlínu. 800 milljónir falla á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og 800 milljónir falla á ríkið. Þessu fjármagni væri betur varið í raunhæf verkefni sem þola ekki bið í stað þess að sólunda því í úrelta tækni sem nýtur ekki vinsælda borgarbúa, enda vilja fáir sleppa fjölskyldubílnum í hinu daglega lífi. Það eiga nefnilega „allir hinir“ að nota borgarlínu og í þessari hugsun skýrast vel viðhorf ákveðinna stjórnmálaflokka í „við og þið“.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. júní 2019, varðandi ferð formanns borgarráðs á 19. fundi sveitastjórnarvettvangs EFTA sem haldinn verður í Hurdal í Noregi dagana 27.- 28. júní nk.  R19060200

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar formanns borgarráðs, dags. 25. júní 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um starfsánægjukannanir B-hluta fyrirtækja. sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. maí 2019. R18070145

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er óviðunandi að það taki tæpt ár að svara erindi um starfsánægjukönnun Félagsbústaða sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir vegna B- hluta fyrirtækja. Það að borgarfulltrúum hafi öllum verið boðið á aðalfund Félagsbústaða er ánægjulegt en verður þó að teljast óheppilegur vettvangur til þess að kynna þeim niðurstöður úr starfsánægjukönnun.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Gert er ráð fyrir að viðhorfs- og starfsánægjukannanir B-hluta fyrirtækja séu kynntar jafn óðum og fjárhagsáætlun viðkomandi fyrirtækja er kynnt í borgarráði. Á aðalfundi Félagsbústaða var viðhorfs- og starfsánægju könnun kynnt og var öllum borgarfulltrúum boðið á þann fund.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. júní 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kæru vegna borgarstjórnarkosninga 2018 sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júní 2019. R17040014

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt úrskurði kosninganefndar er ljóst að yfirkjörstjórn Reykjavíkur lagði í vörn sinni allan þunga á villandi upplýsingar. Ekki er að finna neitt í úrskurðinum um að farið hafi verið efnislega inn í málið, og það hrakið sem rakið er í greinargerð minni í kærunni, enda er það óhrekjanlegt. Svo virðist að yfirkjörstjórn hafi blekkt kosninganefndina, því í IV. kafla úrskurðarins kemur fram að á fundi borgarstjórnar 15. maí 2018 hafi komið fram tillaga um að vísa tillögum um leiðir og aðgerðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum 2018 til umsagnar Persónuverndar. Þetta er hálfsannleikur því vissulega var tillagan flutt en hún var felld af þáverandi meirihluta sem flutti tillögu um að vísa tillögunni til borgaráðs sem var samþykkt af sömu aðilum. Er hér um afar villandi málatilbúnað að ræða hjá yfirkjörstjórn Reykjavíkur og því er ekki ljóst á þessari stundu hvort kjörnefnd hafi sannreynt þessa rangfærslu yfirkjörstjórnar. Síðan segir að málið hafi verið rætt ítarlega á fundi borgarráðs hinn 31. maí 2018 sem eru kaldhæðnisleg rök því sveitastjórnarkosningarnar voru þá yfirstaðnar. Ekki er minnst einu orði á borgarráðsfund sem fór fram 17. maí þar sem málið var rætt og allar bókanir voru færðar í trúnaðarbók fram yfir kosningar til að ekki kæmist upp um brotin.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Kjörnefnd hefur ákveðið að vísa frá kæru borgarfulltrúa Miðflokksins, sem var fyrirséð enda kærufrestur löngu liðinn. Niðurstaðan er skýr og talar sínu máli. Sú málsvörn sem borgarfulltrúinn rekur í bókun sinni sem og fullyrðingar um kosningasvindl eru tilhæfulausar.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 20. júní 2019 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttektir í grunnskólum borgarinnar sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. maí 2019. R19050085

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ytra mat grunnskóla hefur verið framkvæmt frá 2007 og lauk fyrstu umferð á árinu 2013. Við erum nú stödd í annarri umferð ytra mats, líkt og fram kemur í svari sviðins. Allar matsskýrslurnar má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi úttektarmál á skólum virðast býsna ruglingsleg. Innra og ytra mat er hluti af lögbundinni skyldu og sýnist borgarfulltrúa Flokks fólksins á öllu að skólar eru að vinna sínar innri úttektir vel enda mikil vinna ásamt því að sinna öllum öðrum verkum. Aðeins flóknarar virðist vera með ytra mat og það kannski meira háð tilviljunum? Stundum hefur það líka verið þannig að Menntamálastofnun gerir úttekt en ekki er ljóst hvað ákvarðar það eða hverjir taka ákvörðun um slíkt. Til eru alls konar úttektir, úttektir á kennslunni og námsárangri en einnig úttektir heilbrigðiseftirlits, vinnueftirlits, úttekt vegna brunamála og fleira þess háttar. Skilja má að almennt séð er „ytra mat“ framkvæmt af sveitarfélaginu og er það samkvæmt lögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins myndi telja að betra væri að fá óháðan, utanaðkomandi aðila til að annast ytra mat. Til dæmis gæti verið gott að Menntamálstofnun annaðist allar úttektir en ekki bara einstaka.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 21. júní 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks um stöðu vagnstjóra Strætó bs. sem ráðnir eru í gegnum ólík fyrirtæki sbr. 8. liður fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. R19040221

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vegna útvistunar fer um helmingur af akstri Strætó bs. fram í gegnum verktaka en aðrir vagnstjórar eru ráðnir beint í gegnum Strætó bs. Í svari Strætó bs. við fyrirspurn um stöðu vagnstjóra sem ráðnir eru í gegnum ólík fyrirtæki kemur fram að vagnstjórar taki laun samkvæmt þeim kjarasamningi sem stéttarfélag þeirra er með við viðkomandi atvinnurekenda sem þeir vinna hjá. Hjá vagnstjórum eru a.m.k. þrjú stéttarfélög með kjarasamninga vegna starfsfólks sem sinnir akstri strætisvagna og réttindi, skyldur og kjör geta verið mismunandi milli stéttarfélaga og kjarasamninga sem þau gera við sína viðsemjendur. Fulltrúi Sósíalsitaflokksins vill koma á framfæri að ef allir vagnstjórar yrðu fastráðnir í gegnum Stræó bs. væri hægt að tryggja að kjör þeirra sem sinna sömu störfum innan Strætó bs. væru þau sömu, þannig mætti tryggja að þeir sem eru ráðnir í gegnum verktaka fái ekki lakari kjör en þau sem strætó bs. býður upp á.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. júní 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um innheimtuaðgerðir borgarinnar, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. maí 2019. R19050140

    Fylgigögn

  33. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. maí 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samninga vegna kvikmyndavera, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. maí 2019. R19050141

    Fylgigögn

  34. Lagt fram svar skrifstofustjóra borgarstjórnar og borgarritara, dags. 24. maí 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Mörtu Guðjónsdóttur, og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um hvernig tekið er á ósiðlegri umræðu starfsmanna Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. R19050020

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Svarið ber með sér að vísað sé í tiltekna starfsmenn sem vekur furðu þar sem ekkert í fyrirspurninni gefur slíkt til kynna. Það er fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar komi með hinar ýmsu spurningar sem snúa að stjórnsýslunni enda hafa þeir ríkt eftirlitshlutverk. Til að geta rækt það hlutverk sitt verða þeir að geta aflað upplýsinga. Í þessari tilteknu fyrirspurn var verið að spyrja almennt um verkferla ef mál af tilteknum toga kæmu upp. Það er því einkennilegt að breyta almennri fyrirspurn í svar á einstaka starfsmenn. Það er ekki sæmandi þeim sem bera ábyrgð á svarinu að ræða einstök mál starfsmanna þegar verið er að spyrja almennra spurninga. Þá er þess getið í svarinu að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóti líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og þeim er veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum. Þessi ábending hlýtur þá að eiga við kjörna fulltrúa sömuleiðis þannig að tjáningarfrelsi þeirra sé veitt vernd með sama hætti.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019, um aukna upplýsingagjöf til borgarbúa um réttindi þeirra. Einnig er lögð fram umsögn upplýsingastjóra, dags. 24. júní 2019. R19040142

    Tillagan er felld.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

     

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019. Áhugavert væri að vita í hvað marga í þessum aldurshópi hefur verið haft samband við símleiðis?

    Fylgigögn

  36. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní 2019, um að fá gögn um kæru vegna borgarstjórnarkosninga á fund borgarráðs. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. júní 2019. R17090251

    Samþykkt að vísa tillögunni frá. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt úrskurði kosninganefndar er ljóst að yfirkjörstjórn Reykjavíkur lagði í vörn sinni allan þunga á villandi upplýsingar. Ekki er að finna neitt í úrskurðinum að farið hafi verið efnislega inn í málið, og það hrakið sem rakið er í greinargerð minni í kærunni, enda er það óhrekjanlegt. Svo virðist að yfirkjörstjórn hafi blekkt kosninganefndina, því í IV. kafla úrskurðarins kemur fram að á fundi borgarstjórnar 15. maí 2018 hafi komið fram tillaga um að vísa tillögum um leiðir og aðgerðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum 2018 til umsagnar Persónuverndar. Þetta er hálfsannleikur því vissulega var tillagan flutt en hún var felld af þáverandi meirihluta sem flutti tillögu um að vísa tillögunni til borgaráðs sem var samþykkt af sömu aðilum. Er hér um afar villandi málatilbúnað að ræða hjá yfirkjörstjórn Reykjavíkur og því er ekki ljóst á þessari stundu hvort kjörnefnd hafi sannreynt þessa rangfærslu yfirkjörstjórnar. Síðan segir að málið hafi verið rætt ítarlega á fundi borgarráðs hinn 31. maí 2018 sem eru kaldhæðnisleg rök því sveitastjórnarkosningarnar voru þá yfirstaðnar. Ekki er minnst einu orði á borgarráðsfund sem fór fram 17. maí þar sem málið var rætt og allar bókanir voru færðar í trúnaðarbók fram yfir kosningar til að ekki kæmist upp um brotin.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Kjörnefnd hefur ákveðið að vísa frá kæru borgarfulltrúa Miðflokksins, sem var fyrirséð enda kærufrestur löngu liðinn. Niðurstaðan er skýr og talar sínu máli. Sú málsvörn sem borgarfulltrúinn rekur í bókun sinni sem og fullyrðingar um kosningasvindl eru tilhæfulausar.

    Fylgigögn

  37. Samþykkt að taka kosningu í skóla- og frístundaráð á dagskrá.

    Lagt er til að Valgerður Sigurðardóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Katrínar Atladóttur. Einnig er lagt til að Katrín taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Valgerðar. R18060087

    Samþykkt.

  38. Samþykkt að taka kosningu í skipulags- og samgönguráð á dagskrá.

    Lagt til að Katrín Atladóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Valgerðar Sigurðardóttur. Einnig er lagt til að Valgerður taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Katrínar. R18060086

    Samþykkt.

    -    Kl. 13.50 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum.

  39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um niðurstöður vinnustaðakönnunar Strætó bs. 2019 þar sem sérstaklega var spurt um einelti, áreitni og ofbeldi og sem minnst er á í fundargerð Strætó bs. frá 4. júní og lögð var fyrir borgarráð 27. júní 2019. R18070145

    Vísað til umsagnar hjá stjórn Strætó bs.

  40. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir og leggur til að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi. Sýnt hefur að það getur skapast ófremdarástand ef tæknivandamál koma upp á miðjum fundi og ekki er hægt að ná í tölvumann. Slíkt ástand getur leitt til þess að viðkomandi borgarfulltrúi getur ekki komið frá sér málum sínum og bókunum þar sem ekki er hægt að gera það eftir að fundi er slitið. R19060224

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  41. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn. Markmiðið er að upplýsa almenning um afstöðu einstakra flokka til málsins/málanna. Ávinningurinn af þessu gæti verið að stuðla að upplýstri stjórnmálaumræðu í samfélaginu þar sem þá sést hvaða flokkar styðja mismunandi mál og varpar jafnframt ljósi á stefnu og afstöðu flokka í viðkomandi málum. Það hlýtur að vera gott fyrir lýðræðislega umræðu að vitað sé hverjir stóðu að baki einstaka málum. R19060226

    Vísað til umsagnar upplýsingastjóra Reykjavíkur.

  42. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að settar verða á laggirnar skipulagðar, reglulegar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum á ýmis söfn og aðra viðburði. Margir eldri borgarar hafa löngun til að sækja sýningar og viðburði en treysta sér ekki til að komast á staðinn eða hafa engan til að fara með. Auk þess er vetrarfærð misjöfn og getur hæglega komið í veg fyrir að fólk treysti sér út úr húsi.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19060227

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

    Fylgigögn

  43. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að hringja á félagsmiðstöðina sína og biðja um að láta sækja sig í félagsstarfið. Ef þeir af einhverjum ástæðum geta ekki komið sér sjálfir þann daginn væri akstursþjónusta lykillinn að félagslífi þeirra. En til þess að þetta virki vel, þarf þessi þjónusta að vera tiltæk og að ekki sé nauðsynlegt að panta hana fyrirfram. Viðkomandi er síðan ekið heim eftir á, þegar hann óskar. Hægt er að hafa einhverja lágmarksupphæð fyrir hverja ferð. Möguleiki væri að hanna einhvers konar áskrift á akstursþjónustu. Ítrekaður leigubílakostnaður, væri öldruðum ofviða og væri líklegur til að hindra eða draga úr þátttöku í félagslífi sem væri samt brýn þörf fyrir. Félagslíf eykur virkni og og vellíðan og minnkar þörf fyrir lyf svo það er nauðsynlegt að ýta undir félagslífið. R19060229

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  44. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju tillögunni um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðaveg hvern virkan dag frá kl 16 til 18 í tilraunaskyni var ekki vísað til Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á fundi skipulags- samgönguráðs 26. júní. Tillagan fjallaði um að þar yrðu ljósin tekin úr notkun á þessum tíma. Með slíkri framkvæmd má draga verulega úr töfum vegfarenda á leið sinni suður og norður eftir Breiðholtsbrautinni. Það eru fjölmargir sem styðja þessa tillögu enda myndi þetta geta virkilega leyst úr mjög erfiðum flöskuháls sem þarna myndast. Enda þótt mæling hafi einhvern tímann sýnt að þetta sé ekki til bóta er ekki þar með sagt að það myndi ekki gera það núna. Þetta er eitt dæmi þess að borgarmeirihlutinn virðist einfaldlega ekki vilja gera neitt í umferðarmálum og þráast við þegar koma góðar tillögur til bóta. Er það vegna þess að verið er að gera stöðuna eins erfiða og hægt er til að sýna fram á mikilvægi borgarlínu og útrýma bílnum úr miðbænum? En eitt útilokar ekki annað. Borgarlína kemur ekki á morgun og þangað til er sjálfsagt að grípa til aðgerða strax sem leysir helsta vandann. Borgarfulltrúa finnst borgarmeirihlutinn sýna mikið andvaraleysi og áhugaleysi en vill þessi meirihluti lítið gera fyrir bílaeigendur í borginni. Lágmarksviðbrögð væru að vísa þessum tillögum í vinnu Vegagerðarinnar og Samtök sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu og er spurt hér af hverju það var ekki gert. R19060230

    Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  45. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um hvað margar fjölskyldur í Fella- og Hólahverfi glíma við félagslega einangrun og hvað mörg börn í hverfinu eru undir fátækramörkum? Það hefur vissulega verið margt gert og ekki er dregið úr því. Hins vegar má segja að Breiðholti sé einstakt vegna fjölbreytileika. Eins og vitað er hefur félagsleg blöndun mistekist á þessu svæði og þarna búa fjölskyldur og einstaklingar sem hafa einangrast mikið. Þar er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Það væri því eðlilegt og sjálfsagt að borgin sinnti þessu hverfi sérstaklega. Því vill borgarfulltrúi Flokks fólksins fá þessar upplýsingar til að hægt sé að leggja mat á stöðuna og skoða hvað þarf að gera til að bæta hana komi í ljós að hún sé óviðunandi. Ekki er óeðlilegt að Breiðholtið og þá sérstaklega Fella- og Hólahverfi fái sérstaka aðhlynningu enda mesta fjölmenningin þar í allri Reykjavík. R19060231

    Vísað til meðferðar velferðarráðs.

  46. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Það er almennt til háborinnar skammar hversu lengi skólabyggingar hafa fengið að drabbast niður í Reykjavík. Seljaskóli er þar engin undantekning. Vandamálin eru víðtæk og öll má rekja til vanrækslu á viðhaldi þessa og síðasta meirihluta í borginni. Það hefur „brunnið“ mest á Seljaskóla í heil 15 ár frá skýrslunni 2004 og svo eftir brunann. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja borgaryfirvöld eftirfarandi spurninga: 1. Fær skólinn bætt þá innanstokksmuni sem skemmdust í brunanum, bækur, tölvur o.s.frv. 2. Verða húsgögn og búnaður almennt uppfærð? 3. Verður smíðastofan áfram í bráðabirgðahúsnæðinu sem hún fór í fyrir 20 árum? Og með búnaði í Miðbæjarskólanum frá 1950? 4. Verður húsnæði skólans áfram sprungið þar sem enn er ekki búið að klára málin gagnvart teikningunni sem fór af stað eftir ofangreinda skýrslu? 5. Hvenær verður hætt að kenna í 60-70 manna bekkjum? Allt þetta er óboðlegt fyrir nemendur sem og kennara - allof stórar einingar. Óskað er skýrra svara við þessum spurningum hið fyrsta. R19050108

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  47. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins er með fyrirspurnir er varða umhverfi Árbæjarsafns.Borist hafa ábendingar um að mikil óhirða er í kringum Árbæjarsafn. Grasið er úr sér vaxið og þétt af fíflum. Húsveggir þarfnast viðhalds. Sjá má glöggt að þarna skortir verulega á viðhald og snyrtingu. Óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum er varða umhirðu á lóð Árbæjarsafns. 1. Hvaða stofnun/ fyrirtæki sér um umhirðu á lóðum eins og í kringum Árbæjarsafn? 2. Hversu oft er farið og kannað ástand umhirðu á slíkum lóðum? 3. Ef einkaaðilar, þá er spurt hefur verk/eftirlit verið boðið út? R19060233

    Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

  48. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Óskað er upplýsinga um hve margir starfa á sviðunum hvoru um sig og hversu margir af þeim hafa veikst til langs tíma, annars vegar þeirra sem starfa undir velferðarsviði og hins vegar skóla- og frístundarsviði, helstu ástæður, gróflega flokkað og tímabil veikindanna. Fram hefur komið í fréttum að á árunum 2009-2017 varði Reykjavíkurborg samtals um 5,3 milljörðum (miðað við verðlag 2018) í langtímaveikindi starfsmanna, aðeins á skóla- og frístundasviði. R19060234

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs.

  49. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins óskar skýringa á háum greiðslu til fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða á árinu 2018 en samkvæmt ársreikningi 2018 á bls. 12 nema þær 36.9 milljónum. Var gerður starfslokasamningur við fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða? Hafi svo verið er óskað allra upplýsinga sem varða þann samning. R19060235

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

  50. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um í hversu marga borgara sem eru 75 ára og eldri hefur velferðarsvið hringt í til að kanna hvort viðkomandi er upplýstur um réttindi sín og almennt séð hvernig viðkomandi líður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019. R19060236

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

  51. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um fjárhæðir og fjölda starfslokasamninga sem gerðir hafa verið árin 2012-2019 hjá öllum dótturfélögum Reykjavíkurborgar.  R18080131

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

Fundi slitið klukkan 13:58

Heiða Björg Hilmisdóttir Pawel Bartoszek

Hildur Björnsdóttir