Borgarráð - Fundur nr. 5548

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 20. júní, var haldinn 5548. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Valgerður Árnadóttir, Marta Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson og Örn Þórðarson. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarson, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. júní 2019, um kosningu sjö borgarráðsfulltrúa og sjö til vara á fundi borgarstjórnar þann 18. júní 2019. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir var kjörin formaður borgarráðs. R18060082

    Lagt er til að Líf Magneudóttir verði varaformaður borgarráðs.

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. júní 2019, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 18. júní 2019 á tillögu um að fella niður reglulega fundi borgarstjórnar í júlí og ágúst nk. og að borgarráð fari með heimildir borgarstjórnar á þeim tíma. R19050232

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 3. júní 2019. R19010031

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 3. júní 2019. R19010037

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R19060010

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19060024

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tækifæris- og tímabundið áfengisveitingaleyfi fyrir tónleika i Laugardalshöll og útihátíð í tengslum við Secret Solstice 2019. R19050120

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingartillögu: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til styttingu á áfengisleyfi á Secret Solstice Festival. Lagt er til að leyfi til að veita/selja áfengi sé til 23:00 í stað 23:30 eins og til stendur alla daga.

    Breytingartillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Tillaga að umsögn borgarráðs er samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Secret Solstice tónlistarhátíðin hefur verið haldin á ári hverju í Laugardalnum frá árinu 2014. Hátíðin verður með breyttu sniði í ár og er þar tekið ákveðið tillit til umsagna og tillagna sem borist hafa frá hagaðilum s.s. félagasamtökum, foreldrafélögum og íþróttafélögum. Hátíðin verður einum degi styttri í ár, öll dagskrá verður búin kl. 23.30 á kvöldin, ásamt því sem mikil áhersla verður lögð á forvarnir, öryggismál og umhirðu í samstarfi við Reykjavíkurborg. Sett verður saman teymi með tónleikahöldurum, ásamt borginni, lögreglunni, slökkviliði og fleiri aðilum líkt og þegar um viðburði af slíkri stærðargráðu er að ræða.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til í borgarráði 20. júní styttingu á áfengisleyfi á Secret Solstice Festival. Lagt var til að áfengisleyfi verði til 23:00 en ekki 23:30 eins og stefnt er að. Tillagan var felld af meirihlutanum. Ástæðan fyrir þessari tillögu er að margir foreldrar í hverfinu eru kvíðnir fyrir hátíðinni í ljósi neikvæðra reynslu af hátíðinni frá því í fyrra sem tengist börnum og neyslu áfengis- og vímuefna. Hátíðin er umdeild ekki síst vegna staðsetningar hennar þ.e. inn í miðju íbúðahverfi. Kvartað hefur verið yfir hávaða og látum langt fram á nótt. Flokkur fólksins hefur áður rætt og bókað um umsagnir foreldrafélaga sem hafa lýst áhyggjum sínum af hátíðinni og eru óánægð með að hún skuli haldin aftur í Laugardalnum. Þegar kemur að vínveitingaleyfi þá munar um hvern hálftíma og líklegt að ró myndi komast fyrr á ef leyfið væri stytt.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tækifæris- og tímabundið áfengisveitingaleyfi fyrir Hard Rock Café Reykjavík í tengslum við Secret Solstice 2019. R19060082

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma, dags. í dag. R19010041

    Samþykkt að veita félagi um viðburði og vitundarvakningu vegna Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins styrk að upphæð 300.000 kr. vegna Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 2019.

    Samþykkt að veita skákfélaginu Hróknum styrk að upphæð 1.000.000 kr. vegna skákhátíðar í Nuuk 2019.

    Öðrum styrkumsóknum hafnað.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. júní 2019 á auglýsingu á tillögu að verklýsingu vegna breytinga á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna íbúðabyggðar og blandaðrar byggðar 2010-2030/2040 ásamt fylgiskjölum. R11060102

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Haraldur Sigurðsson og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. júní 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 fyrir miðsvæði M1a og M1c innan miðborgar, ásamt fylgiskjölum. R11060102

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Haraldur Sigurðsson og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. maí 2019 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi iðnað og aðra landfreka starfsemi, ásamt fylgiskjölum. R11060102

    Samþykkt. 

    Björn Axelsson og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 10:12 tekur Pétur Ólafsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. júní 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R19030111

    Samþykkt. 

    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. júní 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bergstaðastrætisreits, reits 1.184.0, vegna lóðarinnar nr. 7 við Grundarstíg, ásamt fylgiskjölum. R19060118

    Samþykkt. 

    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. júní 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Heilsuverndarreits vegna lóðarinnar nr. 54 við Snorrabraut, ásamt fylgiskjölum. R19050113

    Samþykkt.

    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar opinna leiksvæða 2019, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. R19060121

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um 26 leiksvæði eru í borginni og því mikilvægt að endurgera þau og halda þeim við en um leið fjölga þeim. Hér eru boðnar út framkvæmdir fyrir 120 m.kr en um er að ræða endurgerð leiksvæða við Berjarima, Flétturima, Hrísrima, Frostaskjól, Granaskjól og Öldugötu. Endurgerðin felur í sér landmótun, endurnýjun gróðurbeða, leiktækja og yfirborðsefna eftir þörfum. Áhersla er á fallvarnarefni og bætta lýsingu og aðgengi fyrir alla. Endurgerðin tekur mið af leiksvæðastefnu Reykjavíkurborgar og unnið er með hugmyndafræði snjallvæðingar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Víða er verk að vinna varðandi endurgerð, lagfæringar og viðhald opinna leiksvæða í borginni. Í því ljósi leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokks til að farið verði yfir ástand opinna leiksvæða í borginni, lagt mat á nauðsynlegt viðhald og framkvæmdir og í framhaldinu gerð aðgerðaáætlun og forgangsröðun. Mikilvægt er að í þeirri vinnu verði leitað eftir sjónarmiðum og áhuga íbúa í nágrenni leiksvæðanna til að koma að endurgerð þeirra.

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út kaup á búnaði og framkvæmdir vegna endurnýjunar á vallarlýsingu við gervigrasvelli Þróttar í Laugardal og Leiknis við Austurberg, ásamt fylgiskjölum. R19060120

    Samþykkt. 

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 4.630 m.kr. R19060117

    Frestað.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúar Miðflokks og Flokks fólksins fagna uppbyggingu íþróttamiðstöðvar, sundlaugar, skóla og menningarmiðstöðvar í Úlfarsárdal enda löngu orðið tímabært að sjálfsagðir innviðir hverfisins verði tilbúnir og séu til staðar fyrir íbúa. Með tilkomu þessarar aðstöðu og innviða upp á 13,5 milljarð er kjörið tækifæri að fjölga íbúum hverfisins enn meira með því að úthluta fleiri lóðum fyrir hagkvæmt húsnæði enda mikill skortur á húsnæði í borginni sem hefur leitt til einnar mestu dreifingar byggðar í sögu borgarinnar og leitt til þess að fólk hefur flutt í nágrannasveitarfélögin og jafnvel út á landsbyggðina. 

    Ámundi Brynjólfsson og Ómar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júní 2019, þar sem lagt er til að við nýja útisundlaug í Úlfarsárdal verði komið fyrir rennibraut, ásamt fylgigögnum. Frumkostnaðaráætlun vegna rennibrautar ásamt tilheyrandi stækkun á sundlaugarsvæði er 200 m.kr. á verðlagi í júní 2019. R19060122

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vatnsrennibraut í Úlfarsárdal er svar við ákalli íbúa í Úlfarsárdal, Grafarholti, Grafarvogi og víðar í borginni. Brautin byrjar í um sjö metra hæð yfir jörðu og hlykkjast niður að nýrri lendingarlaug. Sundlaugarsvæðið mun því stækka um allt að 200 m2.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúar Miðflokks og Flokks fólksins fagna uppbyggingu íþróttamiðstöðvar, sundlaugar, skóla og menningarmiðstöðvar í Úlfarsárdal enda löngu orðið tímabært að sjálfsagðir innviðir hverfisins verði tilbúnir og séu til staðar fyrir íbúa. Með tilkomu þessarar aðstöðu og innviða upp á 13,5 milljarð er kjörið tækifæri að fjölga íbúum hverfisins enn meira með því að úthluta fleiri lóðum fyrir hagkvæmt húsnæði enda mikill skortur á húsnæði í borginni sem hefur leitt til einnar mestu dreifingar byggðar í sögu borgarinnar og leitt til þess að fólk hefur flutt í nágrannasveitarfélögin og jafnvel út á landsbyggðina. 

    Ámundi Brynjólfsson og Ómar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf umhverfis og skipulagssviðs, dags. 13. júní 2019, þars sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út áframhaldandi framkvæmdir vegna uppbyggingar í Vogabyggð. Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda ársins er 250 m.kr. R16010226

    Samþykkt. 

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Fram fer kynning á skýrslu stýrihóps um 2. áfanga tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar. R14050127

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar hefur staðið frá árinu 2015. Í rannsókn Félagsvísindastofnunar á verkefninu koma fram jákvæð áhrif á almenna líðan og líðan í vinnu auk þess sem upplifun af álagi minnkaði. Um fjórðungur þáttakenda töldu sig hafa meiri tíma til að útrétta og samræma fjölskylduábyrgð og atvinnuþátttöku. Lokaskýrslu verkefnisins verður skilað til fulltrúa í samninganefnd borgarinnar og fulltrúa viðsemjenda hennar sem innlegg i yfirstandandi kjaraviðræður.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ánægjulegt að sjá hvað stytting vinnuviku hefur góð áhrif á fjölmarga þætti. Stytting vinnuviku (styttri vaktir og færri vinnuklukkustundir fyrir sömu laun) gæti verið nýtt sem hvatningarþáttur í að laða að fólk til að sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun. Eins og vitað er þá hefur mannekla verið mikil í þessum störfum í mörg ár sem hefur komið illa niður á þjónustuþegum og aðstandendum. Nú er enn eitt sumarið þar sem skera þarf niður þjónustu af þessu tagi og aðeins er hægt að sinna þeim allra veikustu. Að stytta vinnuviku þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun gæti leitt til þess að fleiri sýni þessum mikilvægu en krefjandi störfum áhuga. Þessi störf og mörg önnur aðhlynningarstörf eru afar illa launuð, sennilega ein lægstu laun sem boðið er upp á og má gera því skóna að það sé ein helsta ástæða að ekki tekst að manna þessa stöður betur en raun ber vitni. Eitthvað fleira og annað þarf því að koma til og „stytting vinnuvikunnar“ er hvatningarþáttur sem vel mæti nýta í þessum tilgangi. Það væri ánægjulegt ef þessi hópur sem haldið hefur utan um þetta verkefni myndi leggja til við borgarstjóra að skoða þennan möguleika. Enda þótt þessi mál komi til með að vera hluti af kjarasamningum getur borgarstjóri engu að síður beitt sér í þessa átt með ýmsu móti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarsvið Reykjavíkur rekur heimahjúkrun samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Erfiðlega hefur gengið að ráða nægjanlega marga til starfa í sumarafleysingar þó svo að ástandið sé betra en á sama tíma í fyrra. Ljóst er að staðan er ólík eftir hverfum og vonir bundnar við að verkefnið "endurhæfing í heimahúsum" dragi úr biðlistum þegar það hefur verið að fullu innleitt í þjónustu borgarinnar. Ávallt er tekið við öllum beiðnum um þjónustu og þeim forgangsraðað til þeirra sem eru í mestri þörf. Eins og ávallt verður lagt allt kapp á að veita alla þá þjónustu sem mögulegt er að veita og þjónustuþegum ávallt tilkynnt ef breytingar verða á þjónustunni og leitað er fjölbreyttra leiða til að ráða starfsfólk.

    Ragnhildur Ísaksdóttir, Harpa Hrund Berndsen og Ævar Þórólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12:05 víkur Stefán Eiríksson af fundinum. 

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. júní 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi viðauka við viljayfirlýsingu (Addendum to a Memorandum of Understanding) þar sem frestur til þess að ljúka samningi um fyrirkomulag safnsins, safneignarinnar og öðrum formsatriðum er framlengdur til og með 31. desember 2019.

    Greinargerð fylgir tillögunni.  R18050088

    Samþykkt.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð samþykkir viðauka við viljayfirlýsingu þar sem frestur til þess að ljúka samningi er framlengdur til og með 31. desember 2019. Það er jafnframt áréttað að það er ekkert því til fyrirstöðu að framlengja frestinn enn frekar ef þörf krefur.

    Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. júní, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að kaupa fasteignina að Hringbraut 79, ásamt fylgiskjölum. R19060061

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig, Regína Ásvaldsdóttir og Berglind Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 31. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulagsramma sem byggt verði á í fyrirhuguðum samningum við lóðarhafa á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog, ásamt fylgiskjölum.  R19060001

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Ártúnshöfða enda er skortur á hagstæðu íbúðahúsnæði í borginni. Engu að síður setja fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði fyrirvara við orðalag samkomulagsramma Reykjavíkurborgar í fyrirhuguðum samningum við lóðarhafa um uppbyggingu á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog en þar segir: „Viðkomandi lóðarhafi samþykkir að taka þátt í kostnaði vegna enduruppbyggingar svæðisins og innviða þess, breyttrar nýtingar á lóðum og fasteignum í hverfinu, sbr. 3. tl.“ Á öðrum stað í samkomulagsrammanum segir: „Kostnaður við breytingar á innviðum, bygging skóla og borgarstofnana, endurbygging gatna, stíga, borgarlands veitna og annar kostnaður við uppbyggingu vegna skipulagsbreytinga er áætlaður umtalsverður. Frumáætlun liggur fyrir vegna innviðakostnaður.“ Þá segir enn fremur: „Áformað er að uppbygging á svæði þessu verði á vegum lóðarhafanna og að gert sé sérstakt samkomulag um uppbygginu og innviðagerð á milli lóðarhafanna og Reykjavíkurborgar.“Af þessu má ráða að innviðgjaldið muni hafa bein áhrif til hækkunar á kaup- og leiguverði íbúða á þessu svæði sem hefur svo aftur bein áhrif á vísitölu neysluverðs. Af þessum sökum vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki taka afstöðu til samkomulagsrammans í fyrirhuguðum samningum við lóðarhafa enda ríkir mikil réttaróvissa um lögmæti innviðagjaldsins. 

    Óli Jón Hertervig, Ívar Örn Ívarsson og Einar I. Halldórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á Ártúnshöfða, ásamt fylgiskjölum.  R19060008

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig, Ívar Örn Ívarsson og Einar I. Halldórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 31. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við kaupsamning, dags. 22. mars 2007, vegna sölu á lóðinni Þórðarhöfði 4, ásamt fylgiskjölum. R19060005

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig, Ívar Örn Ívarsson og Einar I. Halldórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R19050047

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Invest er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, í Skerjafirði, Úlfarsárdal og á Gufunesi.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki uppgjör a samkomulagi vegna uppbyggingar á félagssvæði Fylkis, ásamt fylgiskjölum. R17070081

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki húsaleigusamning vegna gæsluvallarhúss að Arnarbakka 8, dags. 7. júní 2019, ásamt fylgiskjölum. R19040263

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 28. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhús við Bergþórugötu 18, ásamt fylgiskjölum. R18080143

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritarara, dags. 14. júní 2019, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til þess að selja þrjár færanlegar kennslustofur við Dalskóla, ásamt fylgiskjölum. R19060104

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki sölu á fasteign við Laufrima 14c, ásamt fylgiskjölum. R19060107

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. júní 2019, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til þess að bjóða verðlaunuðum tillögum alþjóðlegrar keppni um grænar þróunarlóðir, Re-Inventing Cities, til viðræðna um lóðarvilyrði á viðkomandi reitum, ásamt fylgiskjölum. R17020198

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það var mikill heiður fyrir Reykjavíkurborg að fá að taka þátt í svo stóru alþjóðlegu verkefni um græna uppbyggingu. Innlendir og erlendir fjárfestar, hönnuðir, arkitektar og frumkvöðlar sýndu verkefninu mikinn áhuga og unnu afar metnaðarfullar tillögur að uppbyggingu. Dómnefnd skipuð fagfólki valdi vinningsliðin en tilkynnt var um sigurvegara á Urban Future ráðstefnunni í Osló í maí sl. Lóðirnar við Lágmúla og Ártúnshöfða munu því fara í uppbyggingu um leið og fjármögnun, skipulagi og nauðsynlegra leyfa hefur verið aflað.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. júní 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag vegna fyrirhugaðar Bryggjugötu og gangstétt og hjólastíg meðfram Geirsgötu, ásamt fylgigögnum. R19030267

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  35. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 28. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir útsýnispall og tækjaskýli við Úlfarsfellsveg 29, ásamt fylgiskjölum. R19050202

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Athuganir hafa sýnt að toppur Úlfarsfells er raunhæf og góð staðsetningin fyrir þann búnað sem samþykkt hefur verið að reisa. Eins og fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar koma áætlanir um útsýnispall og notkun náttúrulegs efnis sem fellur að umhverfinu, þar sem því verður við komið, til móts við mikilvæga áherslu á útivistargildi svæðisins. Sá kostnaður er allur greiddur af uppbyggingaraðila. Þá skal ítrekað að rannsóknir sýna að geislun frá mastri af þessu tagi eru langt undir öllum viðmiðunarmörkum og af þeim stafar engin heilsufarsógn.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Miðflokkurinn leggst alfarið gegn fyrirhuguðum framkvæmdum á einum vinsælasta útsýnisstað borgarinnar og vísar í fyrri bókanir vegna málsins. Eftirtekt vekur hversu hart Reykjavíkurborg hefur gengið fram í þessu máli þvert gegn vilja íbúa Úlfarsárdals, Grafarholts sem og íbúa borgarinnar almennt. Að reisa 50 metra hátt stálmastur hlaðið tækjabúnaði sem sendir frá sér slíka geislun að búnaðurinn var tekinn niður í Kópavogi vegna nálægðar við íbúahverfi er forkastanlegt. Að ætla sér að færa vandann yfir á íbúa Reykjavíkur er ekki lausn. Það er ósvífni. Fyrir liggur að hér er um að ræða hagsmuni einkafyrirtækis, ekki íbúa. Úlfarsfell er ekki talinn besti kostur, þar trónir efst á lista Þverfellshorn í Esju og Bláfjöll, þar sem fyrir eru sendar frá öðru fyrirtæki. Fjöldi athugasemda komu í kjölfar auglýsingar deiliskipulags á þessu svæði. Þessari aðför verður að ljúka hér og sú gríðarlega andstaða sem fram kemur í aðsendum athugasemdum í kjölfar auglýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir verði virt. Tilgangurinn með auglýsingum af þessu tagi er að fá fram vilja borgaranna. Jafnframt er þess krafist að núverandi óleyfisbúnaður verði fjarlægður tafarlaust.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  36. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 18. júní 2019, að viðauka við fjárhagsáætlun 2019, vegna kaupa á Hringbraut 79. R19010200

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram svar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 14. maí 2019, varðandi takmarkanir á hámarksfjölda umhverfisvænna leigubíla á höfuðborgarsvæðinu, ásamt fylgiskjölum.  R19040028

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn skoraði á fundi sínum 2. apríl sl. á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að fella burt hámarksfjölda umhverfisvænna leigubíla. Það er fagnaðarefni að í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins kemur fram að frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi í nóvember næstkomandi. Fjölbreyttir virkir ferðamátar eru framtíð samgangna í Reykjavík.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Líkt og fram kemur með skýrum hætti í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokks, leggja fulltrúar flokksins áherslu á tryggan starfsgrundvöll og betri nýtingu deilihagkerfis í samgöngum, líkt og fyrri tillögur flokksins hafa undirstrikað. Á þessum nótum megi einnig ýta enn frekar undir betri nýtingu bíla, með auknu samfloti. Eins kemur fram í landsfundarályktun að nýta skuli vistvæna orkugjafa enn frekar í samgöngum og fylgjast vel með tækniframförum og þróun á sviði samgangna. 

    Fylgigögn

  38. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 18. júní 2019, um þátttöku borgarfulltrúa í hátíðinni Takk Ísland í Vilnius, Litháen.  R19060111

    Fylgigögn

  39. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 18. júní 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um starfslokasamninga sl. 8 ár, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18080131

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Milli áranna 2011-2018 var gert samkomulag um starfslok við 23 einstaklinga, á bilinu 2-5 á ári. Launakostnaður borgarinnar árið 2018 var 63 milljarðar króna en hjá borginni starfa um 9000 starfsmenn þar sem fjöldi fólks lætur af störfum og annað ráðið í staðinn. Sérstakt samkomulag um starfslok er því undantekning hjá Reykjavíkurborg, í flestum tilfellum er það gert þegar um er að ræða viðkvæm starfsmannamál eða þegar viðkomandi er beðinn um að klára eða fylgja eftir sérstökum verkefnum eftir að starfslok renna upp.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það kemur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á óvart að Reykjavíkurborg hafi greitt yfir eitt hundrað milljónir vegna starfslokasamninga á árunum 2011 til 2018. Þá kemur það enn fremur á óvart hversu frjálslega hefur verið farið með þá lagaheimild að gera samkomulag um starfslok sem veitt var árið 2016. Sérstaka athygli vekur að árið 2018 voru greiddar yfir 38 milljónir króna vegna starfsloka af þeim 100 milljónum sem greiddar voru út á umræddu tímabili. Þessar 38 milljónir fóru til 5 stjórnenda sem þýðir að meðal starfslokagreiðsla hafi verið 7,6 milljónir króna. Rétt er að vekja athygli á að þetta er til viðbótar við þau umsömdu rétttindi sem starfsmenn hafa almennt við starfslok, s.s. uppsagnafrest. Þessi þróun er uggvænleg og þarfnast frekari skoðunar og skýringar við.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrir 10 mánuðum lagði ég fram fyrirspurn í borgarráði um starfslokasamninga sem borgin hefur gert við starfsmenn. Það er með ólíkindum hvað svarið berst seint þrátt fyrir miklar eftirspurnir eftir svari við fyrirspurninni. Alls hafa verið gerðir 23 starfslokasamningar á árunum 2011-2018 og kostnaðurinn við þá eru rúmar 100 milljónir. Þetta er mikil sóun á almannafé og algjörlega óásættanlegt.

    Fylgigögn

  40. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 18. júní 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um greiðslur vegna starfsmannamála, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. janúar 2019. R19010267

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins voru ekki að óska eftir stöðluðu svari um almennar reglur um starfslok eins svarið sem hér er lagt fram af hálfu borgarinnar. Vera kann að fyrirspurnin hafi ekki verið nægjanlega skýr. Í ljós þess möguleika leggja áheyrnarfulltrúarnir aftur fram fyrirspurn um hvað borgin hefur greitt til yfirmanna/embættismanna vegna ólöglegrar ráðningar, brottreksturs ásamt dómsmálum.

    Fylgigögn

  41. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 29. apríl 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um notkun á frístundakorti til að greiða niður sumarnámskeið, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. R19040222

    Fylgigögn

  42. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umfang vinnu trúnaðarmanns í dómnefnd um listaverk í Vogabyggð, sbr. 67. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2019. R19010428

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Svar hefur borist við fyrirspurn Flokks fólksins um launakostnað dómnefndar um listaverk í Vogabyggð. Spurt var um umfang vinnu trúnaðarmanns í dómnefndinni. Erfitt er að meta þetta svar, greinilegt að allt er týnt til í því skyni að sýna fram á mikilvægi starfsins. Það leiðir hugann að öðrum þáttum þessum tengdum og það er hvaða launaviðmið er notast við í slíkum verkefnum og á hvaða forsendum viðkomandi er valinn.

    Fylgigögn

  43. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júní 2019 vegna vinnu trúnaðarmanns í dómnefnd um listaverk í Vogabyggð:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nú spyrja, hvaða launaviðmið er notast við í slíkum verkefnum? Á hvaða forsendum er viðkomandi valinn? Hvað þarf viðkomandi að hafa að bera til að sinna því sem lýst er? R19010428

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

    -    Kl. 14:02 víkur Daníel Örn Arnarson af fundinum. 

  44. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að vinnuvika þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun verði stytt. Vaktir verði styttri og færri vinnuklukkustundir fyrir sömu laun. Rökin fyrir því að þessir hópar væru teknir út sérstaklega og það sem fyrst væri einfaldlega sá að það er nánast útilokað að manna þessi störf á þessum launum. Nú þarf að skerða þjónustuna og mögulega setur það þjónustuþega í einhverja áhættu. Hér er vissulega um kjarasamningsmál að ræða en borgaryfirvöld geta engu að síður beitt sér af krafti í þessa átt og tekið af skarið t.d. með því að byrja á þessum hópi sem hér er nefndur. Fleiri geta síðan komið í kjölfarið. Það myndi strax muna um að stytta vinnuskylduna um 2-3 tíma án þess að skerða launin. Finna mætti einnig fleiri hvata til að manna þessar stöður t.d. sem lúta að því að létta á álagi eða breyta vaktafyrirkomulagi.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R14050127

    Vísað til umsagnar stýrihóps um tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar.

    Fylgigögn

  45. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins: 

    Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til yfirmanna/embættismanna varðandi ólöglegar ráðningar/brottrekstur hjá borginni tæmandi talið ásamt dómsmálum 2019,2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, 2011 og 2010? R19010267

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfssviðs. 

  46. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Miðflokksins:

    Fulltrúi Miðflokksins í borgarráði fagnar því að nú sé formlega búið að virkja hinn svokallaða bráðabirgðaverkferil/rannsóknarrétt Ráðhússins vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. Það er staðfest tæpum sólarhring eftir að nýjar siðareglur kjörinna fulltrúa voru samþykktar á hitafund borgarstjórnar. Minnihlutinn hefur ítrekað óskað eftir því að bæði siðareglur og skráning fjárhagslegra hagsmuna nái bæði yfir kjörna fulltrúa og æðstu embættismenn borgarinnar og séu samþykktar samhliða. Því hefur ávallt verið hafnað af fyrrverandi forseta borgarstjórnar, Dóru Björt Guðjónsdóttur, og borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni. Nú hefur komið á daginn hvers vegna þessum réttmætu óskum minnihlutans var hafnað. Með bréfi, dags. 12. júní, sem undirritaðri barst í gær með ábyrgðarpósti undirrituðu af eineltis- og áreitniteymi Ráðhúss/miðlægrar stjórnsýslu hefur einstakt fordæmi verið sett. Undirrituð lítur því svo á að nú hafi rétturinn til kvartana verið virkjaður í báðar áttir og sé því orðinn gagnkvæmur á þann hátt að kjörnir fulltrúar hafi því líka feril til að kvarta undan framkomu og háttsemi embættismanna í sinn garð. Á þessum grunni eru eftirfarandi fyrirspurnir settar fram til svars að hálfu borgarinnar. 1. Hvers vegna var borgarráð ekki upplýst um að búið væri að virkja eineltis- og áreitniteymi Ráðhúss/miðlægar stjórnsýslu, vegna meints eineltis borgarfulltrúa? 2. Fram kemur í bréfi eineltis- og áreitisteymi Ráðhúss/miðlægar stjórnsýslu að borgarráð hafi fundað 7. maí, en þá var enginn fundur. Hvernig stendur á því? 3. Er verið að vísa í borgarráðsfund sem haldinn var 9. maí sl.? 4. Hvers vegna er talað um að borgarráð hafi samþykkt bráðabirgðaverkferil vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa, þegar einungis borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata greiddu tillögunni atkvæði en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá? 5. Hvar var erindisbréf eineltisteymisins lagt fram til samþykktar og kynningar? 6. Þarf ekki að samþykkja erindisbréfið í borgarráði? 7. Hver samdi erindisbréfið? 8. Var málið svo hressilega undirbúið að daginn eftir samþykkt málsins var sent erindisbréf á eineltis- og áreitniteymið? 9. Hvernig er hægt að halda því fram að ég hafi lagt skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara í einelti þegar ég hef einungis hitt hana á tveimur eða þremur fundum? 10. Hvaða sérhæfðu og óháðu aðilar eiga að kanna og taka afstöðu til þeirra ásakana er fram kom í erindum Helgu Bjargar Ragnarsdóttur? 11. Hvaða siðfræðingur á að kanna og taka afstöðu til erindis Helgu Bjargar Ragnarsdóttur? 12. Hvað er áætlað að Reykjavíkurborg greiði í þessa þjónustu? 13. Er gert ráð fyrir því að Reykjavíkurborg greiði málskostnað í dómsmáli fyrir kjörinn fulltrúa, eins og borgin gerir fyrir embættismenn, þurfi hann að grípa til þess ráðs að verja mannorð sitt fyrir dómsstólum? 14. Hver var aðkoma borgarritara og borgarlögmanns í málinu? 15. Eiga þessir embættismenn ekki að gæta hagsmuna minna sem kjörins fulltrúa? Jafnframt er óskað eftir að borgarráð fái sent erindisbréf, dags. 10. maí 2019, sem sent var til eineltis- áreitniteymi Ráðhúss/miðlægrar stjórnsýslu. R19060174

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfssviðs.

  47. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir skýringum á þeirri miklu hækkun sem hefur orðið á milli ára vegna starflokasamninga. Þá er enn fremur spurt: Eru til einhver viðmið hjá Reykjavíkurborg hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að starfslokasamningar komi til greina, þ.e. hvaða starfsmönnum bjóðast starfslokasamningar og hverjum ekki? R18080131

    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfssviðs. 

    -    Kl. 14:25 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum. 

  48. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins:

    Í ljósi þess að dómsmálaráðuneytið hefur fellt ákvörðun sýslumanns um að vísa frá kæru Vigdísar Hauksdóttur vegna framkvæmda borgarstjórnarkosninganna í maí í fyrra og skipað þriggja manna nefnd til að taka afstöðu til kærunnar telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks að rétt hefði verið að upplýsa borgarráð um málið og leggja þessa ákvörðun fram í borgarráð til upplýsingar. Óskað er upplýsinga um hvers vegna ekki hafi verið vakin sérstök athygli borgarfulltrúa á málinu í ljósi alvarleika þess. Þá óska borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum um hver hafi verið viðbrögð borgarinnar vegna þessarar ákvörðunar, hver komi fram fyrir hönd borgarinnar í þessu máli og hvort óskað hafi verið eftir gögnum frá Reykjavíkurborg vegna málsins og ef svo er hvaða gögn sé um að ræða. R17040014

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

Fundi slitið klukkan 14:30

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Marta Guðjónsdóttir