Borgarráð - Fundur nr. 5546

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 16. maí, var haldinn 5546. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 29. apríl og 6. maí 2019. R19010031

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir áliti endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar vegna áritunar ársreiknings. Fram hafði komið það sjónarmið af hálfu borgarinnar að áritun veitti afturvirka heimild. Því vorum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ósammála. Ljóst er að álitsgerð Trausta Fannars Valssonar sérfræðings í sveitarstjórnarlögum sem gerð var fyrir endurskoðunarnefnd staðfestir skilning borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Afar óheppilegt er að álitsgerðin hafi ekki verið birt fyrir afgreiðslu ársreiknings fyrir árið 2018. Málið varðar greiðslur án fjárheimilda, en slíkt er á skjön við sveitarstjórnarlög. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Endurskoðunarnefnd lagði til að umsögn fjármálaskrifstofu yrði fengin vegna álitsgerðar Trausta Fannars. Sú vinnsla er í eðlilegum farvegi og mun verða lögð fyrir borgarráð þegar því ferli er lokið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð endurskoðunarnefndar frá 29. apríl:

    Í áliti Trausta Fannars Valssonar eru öll sjónarmið sem borgarfulltrúi Miðflokksins hefur haldið fram en þar segir: „Undirritaður er ekki sammála þeirri afstöðu skrifstofu fjármála hjá Reykjavíkurborg að samþykkt eða staðfesting á ársreikningi feli í sér samþykki þeirra fjárhagslegu ráðstafana sem þar er lýst.“ Í afdráttarlausri grein 3.2. í leiðbeinandi verklagsreglum vegna viðauka fjárhagsáætlunar frá reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga, kemur fram að Reykjavíkurborg hefur misnotað viðauka við fjárhagsáætlanir undanfarin ár. Þar segir m.a. „Viðauka við fjárhagsáætlun skal ekki gera til að leiðrétta í fjárhagsáætlun, útgjöld í rekstri eða fjárfestingar, sem þegar hefur verið stofnað til“ og leiðréttingar á fjárhagsáætlun með gerð viðauka undir lok árs, vegna útgjalda eða fjárfestinga sem stofnað hefur verið til án samþykkis sveitarstjórnar, samræmast þannig ekki reglum um viðauka. Bragginn, Mathöll á Hlemmi, Vitinn og fleiri verkefni voru öll keyrð áfram á viðaukum við fjárhagsáætlun eftir að stofnað hafði verið til kostnaðarins. Einungis 152 milljónir voru samþykktar í fjárhagsáætlun vegna braggans, 200 milljónir voru teknar í gegnum viðauka og 73 milljónir hafa verið greiddar út án fjárheimilda. Einungis 20 milljónir voru samþykktar í fjárhagsáætlun í Mathöll á Hlemmi og 247 milljónir fóru í viðauka. Enn verri sviðsmynd birtist þegar fjárheimildir vegna Vesturbæjarskóla eru skoðaðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð endurskoðunarnefndar frá 29. apríl:

    Loksins liggur allt uppi á borði er varðar hvað þýðir að skrifa undir ársreikning en nú er lögfræðiálit stjórnsýslufræðings sýnilegt öllum borgarráðsfulltrúum. Nokkur atriði er vert að leggja áherslu á og það er að staðfesting ársreiknings felur ekki í sér samþykki einstakra ráðstafana sem liggja til grundvallar í því reikningshaldi sem ársreikningurinn lýsir. Með undirskrift borgarfulltrúa Flokks fólksins, með fyrirvara, var þá ekki verið að staðfesta á neinn hátt eða samþykkja fjárútlát framúrkeyrsluverkefna og því þá síður fjárútlát sem voru án heimildar borgarráðs. Eins og menn muna var borgarráð platað, ýmist var haldið frá borgarráði upplýsingum eða því veittar rangar upplýsingar. Ekki síður mikilvægt er þessi niðurstaða (leiðbeiningar) reikningsskila- og upplýsinganefndarinnar sem máli skiptir þ.e. um meðferð og samþykktir viðauka við fjárhagsáætlun. Viðauka skal ekki gera til að leiðrétta fjárhagsáætlun, útgjöld eða fjárfestingu sem stofnað er til utan fjárheimildar en þessi leikur virðist leikinn í borginni og það ítrekað. Sveitarstjórn verður að hafa vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálum borgarinnar. Í borgarfjármálunum þarf því margt að laga!

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð endurskoðunarnefndar frá 6. maí:

    Eftir að hafa fengið gögn sem eftirlitsnefnd Reykjavíkur kallaði eftir að beiðni oddvita Sjálfstæðisflokksins er ljóst að ekki stendur steinn yfir steini í rekstri borgarinnar. Sveitarstjórnarlög og lög um opinber skjalasöfn hafa verið brotin og farið hefur verið gegn reglum frá reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga. En í reglunum kemur fram að mælst er til að útgjöld eða fjárfesting sem stofnað er til utan fjárheimildar og ekki að undangengnum viðauka, séu sett á dagskrá sveitarstjórnar og bókað sérstaklega. Sveitarstjórn hefur þannig vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun og getur þannig sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálunum. Leiðréttingar á fjárhagsáætlun með gerð viðauka undir lok árs, vegna útgjalda eða fjárfestinga sem stofnað hefur verið til án samþykkis sveitarstjórnar, samræmast þannig ekki reglum um viðauka. Slíkar samþykktir þjóna ekki tilgangi laganna um fyrirfram samþykki sveitarstjórnar vegna breytinga á samþykktri fjárhagsáætlun. Nú blasir við hvers vegna meirihlutinn barðist hatrammlega á móti tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um að vísa braggaskýrslunni til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar en tillagan var felld á fundi borgarstjórnar hinn 15. janúar sl.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 9. maí 2019. R19010016

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 6. maí 2019. R19010037

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 15. maí 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 6. maí 2019. R19010036

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R19040187

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19040189

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurnýjun gönguleiða í eldri hverfum á árinu 2019. Kostnaðaráætlun 2 er 200 m.kr. R18040062
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt er að nýta heitt vatn, sérstaklega affallsvatn, til upphitunar göngu- og hjólaleiða eins og Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í skipulags- og samgönguráði.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í framkvæmdir vegna gatna- og umhverfislýsingar 2019. Kostnaðaráætlun 2 er 530 m.kr. R19050106
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. mars 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. mars 2019 á breytingu á deiliskipulagi Heilsuverndarreits vegna lóðarinnar nr. 60 við Snorrabraut, ásamt fylgiskjölum. R18100372
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð útivistarsvæðis og landmótun við Leirtjörn í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. R19050104
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Leirtjörnin við Úlfarsárdal verður sannkölluð útivistarperla í borginni. Grjótkantur verður gerður við suðurhluta tjarnarinnar, votlendisgróður við bakka hennar og útivistarstígur lagður umhverfis hana. Þegar landmótun verður lokið mun Leirtjörnin í Úlfarsárdal kallast á við hina tjörnina í borginni, Reykjavíkurtjörn.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9:57 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum og Rannveig Ernudóttir víkur af fundi.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. maí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. maí 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Héðinsreit, ásamt fylgiskjölum. R19010210
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. maí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. maí 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðarinnar nr. 24 við Kirkjuteig, ásamt fylgiskjölum. R19050114
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. maí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. maí 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar vegna lóðarinnar nr. 22 við Skógarhlíð, ásamt fylgiskjölum. R19050115
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita lóðarvilyrði fyrir lóð við Álfsnesvík á Álfsnesi fyrir atvinnuhúsnæði með fyrirvara um gildistöku deiliskipulags, ásamt fylgiskjölum. R16060086
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Staða lóðamála fyrir Björgun er komin í óefni. Nú þegar komið er að því að fyrirtækið þarf að rýma athafnasvæði sitt er úthlutun lóðar á byrjunarreit. Má segja að vinnan sé um tveimur árum of sein. Á meðan Björgun hefur ekki aðstöðu í Reykjavík leiðir það til hækkunar á kostnaði húsbyggjenda. Ekki er á það bætandi. Nú hálfum mánuði áður en Björgun á að rýma lóð sína er verið að gefa út vilyrði af hálfu borgarinnar um nýtt athafnasvæði en það er háð skipulagsbreytingum sem eru afar skammt komnar. Þetta er skipulagsklúður sem eykur bæði byggingarkostnað og kolefnisspor.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að vilyrði liggi nú fyrir um lóð fyrir Björgun í Álfsnesi. Það er hins vegar skautað yfir það í bókun Sjálfstæðisflokksins að bæði þurfti skýr skilaboð og festu af hálfu borgarinnar til að ná samningum um brottflutning fyrirtækisins úr Bryggjuhverfi. Farsælar lyktir þessa máls eru góðar fyrir bæði borgina og íbúa hennar og vonandi tekst að ljúka umhverfismati og skipulagi í Álfsnesi á farsælan og markvissan hátt. Hitt stendur óbreytt að Björgun víkur úr Bryggjuhverfi á þessu sumri.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hefja söluferli á íbúð við Háaleitisbraut 49, ásamt fylgiskjölum. R17100131
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að tilkynna sigurteymi Reykjavíkurborgar í alþjóðlegu samkeppninni Reinventing Cities á ráðstefnunni Urban Future Global Conference í Osló þann 22. maí 2019. R17020198
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðalvilyrði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Bryggjuhverfið, ásamt fylgiskjölum. R19050042
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Variat er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, í Skerjafirði, Úlfarsárdal og á Gufunesi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Rétt er að endurskoða endanlegar kvaðir í 5. gr. lóðarvilyrðis í þessu verkefni og öðrum sambærilegum áður en endanleg úthlutun á sér stað. Í vilyrðinu er verið að veita ákveðnum framkvæmdaðilum sömu kjör og félögum á borð við Bjarg, þ.e. 45.000 kr. á m2. Athygli vekur að frestur til að kaupa íbúð fyrir ungt fólk er afar þröngur eða aðeins þrjár vikur.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skort á hagkvæmu húsnæði má rekja til þess að yfirvöld hafa treyst á að markaðurinn muni að miklu leyti leysa húsnæðiskreppuna í stað þess að einblína á félagslegar húsnæðislausnir. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur mikilvægt að gera breytingar á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar þar sem áhersla verði lögð á aukna félagsvæðingu húsnæðiskerfisins í stað þess að koma félagslegri húsnæðisuppbyggingu að hér og þar. Þó það sé alltaf gott að fá fram ólíkar og fjölbreyttar hugmyndir að húsnæðislausnum, er mikilvægt að borgin taki málin í eigin hendur og sjái um að byggja yfir þá sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði. Þörfin er mikil og nauðsynlegt að tryggja að hagnaðardrifnir aðilar komi ekki þar að uppbyggingunni en ýmsir aðilar koma að verkefninu um hagkvæmt húsnæði. Þó kveðið verði á um að þau fyrirtæki skuli halda íbúðaverði sem hagkvæmustu fyrir íbúana þá ítrekar Sósíalistaflokkurinn mikilvægi þess að auka ekki veg hagnaðardrifinna félaga á íbúðamarkaði borgarinnar. Sem dæmi má nefna að Heimavellir eru með aðkomu að verkefninu um hagkvæmt húsnæði, þó að skilyrði séu sett um að leigufélagið megi ekki hækka leigugjald íbúða nema með leyfi borgarinnar, þá er mikilvægt að Reykjavíkurborg styðji ekki enn frekar við hagnaðardrifin félög í þeirri gríðarlegu húsnæðiskreppu sem við búum nú við.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi vill aftur árétta það sama hvað varðar þetta vilyrði og annað sem áður hefur verið kynnt borgarráði. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það skilyrði fyrir úthlutun lóðar að Félagsbústaðir hf. skuli eiga rétt til að kaupa einungis 5% íbúða vera lágt. Þetta hlutfall mætti vera 10%. Fram kemur að Variat skulu bjóða Félagsbústöðum hf. íbúðirnar til kaups þegar hönnun liggur fyrir og skulu Félagsbústaðir hf. þá hafa einn mánuð til að taka afstöðu til kaupréttarins. Ef Félagsbústaðir hf. bregðast ekki við innan þeirra tímamarka er Variat rétt að líta svo á að Félagsbústaðir hf. hyggist ekki nýta sér kaupréttinn. Hér er um allt of skamman tíma að ræða. Við yfirferð þessara skilmála er smávegis eins og margt sé gert til að gera Félagsbústöðum erfiðara fyrir en ella að fjárfesta þarna.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Gufunes, ásamt fylgiskjölum. R19050043
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Hoffells er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, í Skerjafirði, Úlfarsárdal og í Bryggjuhverfi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Rétt er að endurskoða endanlegar kvaðir í 5. gr. lóðarvilyrðis í þessu verkefni og öðrum sambærilegum áður en endanleg úthlutun á sér stað. Í vilyrðinu er verið að veita ákveðnum framkvæmdaðilum sömu kjör og félögum á borð við Bjarg, þ.e. 45.000 kr. á m2. Athygli vekur að frestur til að kaupa íbúð fyrir ungt fólk er afar þröngur eða aðeins þrjár vikur.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skort á hagkvæmu húsnæði má rekja til þess að yfirvöld hafa treyst á að markaðurinn muni að miklu leyti leysa húsnæðiskreppuna í stað þess að einblína á félagslegar húsnæðislausnir. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur mikilvægt að gera breytingar á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar þar sem áhersla verði lögð á aukna félagsvæðingu húsnæðiskerfisins í stað þess að koma félagslegri húsnæðisuppbyggingu að hér og þar. Þó það sé alltaf gott að fá fram ólíkar og fjölbreyttar hugmyndir að húsnæðislausnum, er mikilvægt að borgin taki málin í eigin hendur og sjái um að byggja yfir þá sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði. Þörfin er mikil og nauðsynlegt að tryggja að hagnaðardrifnir aðilar komi ekki þar að uppbyggingunni en ýmsir aðilar koma að verkefninu um hagkvæmt húsnæði. Þó kveðið verði á um að þau fyrirtæki skuli halda íbúðaverði sem hagkvæmustu fyrir íbúana þá ítrekar Sósíalistaflokkurinn mikilvægi þess að auka ekki veg hagnaðardrifinna félaga á íbúðamarkaði borgarinnar. Sem dæmi má nefna að Heimavellir eru með aðkomu að verkefninu um hagkvæmt húsnæði, þó að skilyrði séu sett um að leigufélagið megi ekki hækka leigugjald íbúða nema með leyfi borgarinnar, þá er mikilvægt að Reykjavíkurborg styðji ekki enn frekar við hagnaðardrifin félög í þeirri gríðarlegri húsnæðiskreppu sem við búum nú við. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. R19050046
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Urðarsels er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir sambærilega uppbyggingu á Stýrimannaskólareit, í Gufunesi, Skerjafirði, Úlfarsárdal og í Bryggjuhverfi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Rétt er að endurskoða endanlegar kvaðir í 5. gr. lóðarvilyrðis í þessu verkefni og öðrum sambærilegum áður en endanleg úthlutun á sér stað. Í vilyrðinu er verið að veita ákveðnum framkvæmdaðilum sömu kjör og félögum á borð við Bjarg, þ.e. 45.000 kr. á m2. Athygli vekur að frestur til að kaupa íbúð fyrir ungt fólk er afar þröngur eða aðeins þrjár vikur.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skort á hagkvæmu húsnæði má rekja til þess að yfirvöld hafa treyst á að markaðurinn muni að miklu leyti leysa húsnæðiskreppuna í stað þess að einblína á félagslegar húsnæðislausnir. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur mikilvægt að gera breytingar á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar þar sem áhersla verði lögð á aukna félagsvæðingu húsnæðiskerfisins í stað þess að koma félagslegri húsnæðisuppbyggingu að hér og þar. Þó það sé alltaf gott að fá fram ólíkar og fjölbreyttar hugmyndir að húsnæðislausnum, er mikilvægt að borgin taki málin í eigin hendur og sjái um að byggja yfir þá sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði. Þörfin er mikil og nauðsynlegt að tryggja að hagnaðardrifnir aðilar komi ekki þar að uppbyggingunni en ýmsir aðilar koma að verkefninu um hagkvæmt húsnæði. Þó kveðið verði á um að þau fyrirtæki skuli halda íbúðaverði sem hagkvæmustu fyrir íbúana þá ítrekar Sósíalistaflokkurinn mikilvægi þess að auka ekki veg hagnaðardrifinna félaga á íbúðamarkaði borgarinnar. Sem dæmi má nefna að Heimavellir eru með aðkomu að verkefninu um hagkvæmt húsnæði, þó að skilyrði séu sett um að leigufélagið megi ekki hækka leigugjald íbúða nema með leyfi borgarinnar, þá er mikilvægt að Reykjavíkurborg styðji ekki enn frekar við hagnaðardrifin félög í þeirri gríðarlegri húsnæðiskreppu sem við búum nú við. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 13. maí 2019, þar sem drög að samningi um tónleikahald í Laugardal í júní 2019 eru send borgarráði til samþykktar. R18110156
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Secret Solstice tónlistarhátíðin hefur verið haldin á ári hverju í Laugardalnum frá árinu 2014. Hátíðin verður með breyttu sniði í ár og er þar tekið ákveðið tillit til umsagna og tillagna sem borist hafa frá hagaðilum s.s. félagasamtökum, foreldrafélögum og íþróttafélögum. Hátíðin verður einum degi styttri í ár, öll dagskrá verður búin kl. 23:30 á kvöldin, ásamt því sem mikil áhersla verður lögð á forvarnir, öryggismál og umhirðu í samstarfi við Reykjavíkurborg. Sett verður saman teymi með tónleikahöldurum ásamt borginni, lögreglunni, slökkviliði og fleiri aðilum líkt og þegar um viðburði af slíkri stærðargráðu er að ræða.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á virkt forvarnarstarf. Miðað við framlögð gögn munu beinar greiðslur tónleikahaldara fyrir utan óbeinar tekjur borgarinnar verða tíu milljónir króna. Það væri vel við hæfi að þeim fjármunum yrði varið til forvarnastarfs barna og unglinga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun.

    Nú stendur til að halda aftur Secret Solstice í skugga himinhárra óuppgerðra skulda frá hátíðinni í fyrra. Einnig hafa borist fjölmargar umsagnir frá foreldrum og íbúum sem eru uggandi um börn sín. Fullyrt er að ekki sé hlustað á áhyggjur þeirra og að ekki hafi fengist viðtal við borgarstjóra vegna málsins. Gagnrýnt hefur verið að halda hátíð af þessari stærðargráðu þar sem íbúðarhverfi eru allt um kring ekki síst vegna þess að mikill misbrestur hefur auk þess verið á eftirliti. Fram hefur komið hjá foreldrum í kjölfar síðustu hátíðar „að stórfelld brotalöm var á skipulagi hátíðarinnar og framfylgd áfengiskaupalaga auk þess sem neysla og sala fíkniefna var mikil í tengslum við hátíðarhöldin“. Borgarfulltrúi Flokks fólksins bókaði um málið á þessum nótum í nóvember sl. þegar ljóst var að eigendur hátíðarinnar stóðu ekki í skilum. Engu að síður hófst undirbúningur hátíðarinnar fyrir 2019. Borgarfulltrúi vill styðja það sem fram kemur í umsögnum foreldrafélaga í hverfinu sem telja að þessi hátíð eigi ekki heima í Laugardalnum. Borgarfulltrúi veit að reynt hefur verið að gera ráðstafanir til að þessir hlutir fari ekki úr böndum. Engu að síður eru foreldrar áhyggjufullir vegna barna sinna enda eiga hagsmunir barna ávallt að vera í fyrirrúmi.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Fram fer umræða um bruna í Seljaskóla þann 12. maí sl. R19050108

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Slökkviliðinu er þakkað fyrir fagmannleg og snör handtök við að slökkva eldinn í Seljaskóla á dögunum. Stjórnendum, starfsfólki, nemendum og forráðamönnum þeirra eru einnig færðar þakkir fyrir að hafa sýnt ótrúlega þrautseigju og æðruleysi við erfiðar aðstæður vegna brunans. Nauðsynlegt er að tryggja öryggi barna og starfsfólks bæði til bráðabirgða og langframa og vinna við að kortleggja þá valkosti er þegar í fullum gangi. Einnig verður unnið hratt og örugglega í nánu samstarfi skólasamfélagsins og sviðsins að því að tryggja menntun og frístundastarf barna næsta haust.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn liggja ekki fyrir eldsupptök í Seljaskóla og er lögregla enn að rannsaka vettvang. Er bruninn þriðja áfallið sem kemur upp í skólum borgarinnar í vor. Grunnskólastarf er lögbundið og tryggja verður öryggi allra innan skólanna hvort sem um nemendur, starfsmenn eða stjórnendur skólanna er um að ræða á skólatíma eða ekki. Það er á allra vörum að viðhaldi hjá borginni hefur ekki verið sinnt í rúman áratug og veldur það miklum áhyggjum. Ástandið er grafalvarlegt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Bruni í tvígang í Seljaskóla er mikið áfall. Öllum er brugðið. Orsakir liggja ekki fyrir en fullyrt er að eftirlit sé gott og strangt. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er hugsað til eldri skólabygginga sem ekki hefur verið haldið við en þær eru fjölmargar í Reykjavík. Byggingar í eigu borgarinnar hafa margar drabbast niður undanfarin ár. Því til staðfestingar er fjöldi tilvika um myglu í fasteignum borgarinnar. Í fréttum segir að á einhverjum tíma var verið að segja upp vöktunarsamningum á brunaviðvörunar- og vatnsúðakerfum og viðhaldssamningum þrátt fyrir að það hafa verið brunar af og til. Viðhald skiptir öllu máli og hafa viðhaldsmál einfaldlega rekið á reiðanum í borginni undanfarin ár. Brunavörnum þarf einnig að sinna. Ef brunavörnum er ekki sinnt dags daglega eru þær ekki til neins. Svo ábyrgð borgarinnar er mjög mikil. Ég spyr eins og margir, eru skólarnir á höfuðborgarsvæðinu öruggir fyrir börnin? Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að allt fór vel og þakkar slökkviliði og stjórnendum. Borgarfulltrúi er hins vegar ekki tilbúinn að bíða eftir næsta bruna. Hér verður að setja peninga í að taka út stöðu viðhalds bygginga þar sem börn stunda nám eða tómstundir. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Rétt er að árétta að framlög borgarinnar til viðhalds og endurbóta á fasteignum hafa margfaldast hin síðari ár og hafa leikskólar og grunnskólar notið þess sérstaklega. Nýleg úttekt Heilbrigðiseftirlitsins sýnir að almennt er staða skólahúsnæðis góð og fer batnandi. Engu að síður eru einstök dæmi um húsnæði þar sem þörf er á miklum endurbótum og þau eru í forgangi. Fulltrúar meirihlutans í borgarráði vilja þó ítreka að ekkert hefur komið fram sem bendir til að skortur á viðhaldi brunavarna eða skortur á að brunavörnum hafi verið sinnt hafi átt nokkurn þátt í þeim bruna sem hér um ræðir í Seljaskóla. Það er ábyrgðarleysi að veita slíkum sögusögnum vægi með bókun í borgarráði þegar engin gögn liggja því til grundvallar og rannsókn á eldsupptökum stendur enn yfir.

    Jón Viðar Matthíasson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12:45 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Skúli Helgason tekur sæti.

  23. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins, dags. 8. maí 2019, þar sem starfsáætlun nefndarinnar 2019-2022 og drög að rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið eru send borgarráði til kynningar. R19050103

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt og löngu tímabært skref að nú sé komin rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Því ber að fagna. Þessi rýmingaráætlun tekur á rýmingu innan höfuðborgarsvæðisins en ekki út úr borginni. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að slík áætlun verði unnin til viðbótar þeirri sem nú hefur verið unnin. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun.

    Loksins, loksins er komin rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Hinn 22. maí 2012 lagði ég fram á Alþingi fyrirspurn um rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið kæmi upp vá eins og t.d. eldgos. Svar innanríkisráðherra var birt hinn 10. september og er að finna á þessari slóð https://www.althingi.is/altext/140/s/1712.html. Í stuttu máli má segja að engin rýmingaráætlun var til. Í fyrirspurninni komu m.a. fram þær spurningar hvað yrði gert ef Reykjavíkurflugvöllur lokaðist yrði eldgos í nágrenni borgarinnar og hvort talið væri að Reykjavíkurhöfn myndi ná að sinna brottflutningi á fólki og hvort samið hafi verið við útgerðaraðila um að hafa tiltæk skip til að flytja fólk í burtu. Einnig var spurt um hvort samið hefði verið við Strætó bs. um að hafa tiltæka nógu marga vagna til mannflutninga og hvenær mætti búast við að stjórnvöld ráðist í nýjar vegaframkvæmdir til að tryggja öryggi íbúa höfuðborgarsvæðisins. Gleðilegt er að sjá að ýmislegt í þessari fyrirspurn er að skila sér í rýmingaráætluninni en mikið áhyggjuefni er að Sundabraut er ekki komin og að ekki er búið að festa flugvöllinn í Vatnsmýri í sessi. Enn á ný bendir fulltrúi Miðflokksins á það mikla hættuástand sem er yfirvofandi vegna umfangsmikilla olíuflutninga úr Örfirisey í gegnum Geirsgötu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi þakkar þessa kynningu og telur að slökkviliðið og almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins standi vakt sína með sóma. Engu að síður vill borgarfulltrúi nefna í tengslum við þessa umræðu að ekki er hægt að útiloka að það þurfi að koma til brottflutnings fólks af stóru svæði Reykjavíkur og Seltjarnarness. Þess myndi mögulega þurfa ef upp kæmi sú staða að ekki væri hægt að rýma milli svæða. Það er aldrei neitt útilokað í þessu lífi. Ef sú staða kæmi upp t.d. vegna náttúruhamfara sem gerði það að verkum að fólk þyrfti að komast í snarheitum frá Reykjavík og Seltjarnarnesi þá er alveg ljóst að engar raunhæfar áætlanir eru til. Þar er vissulega ekki við almannavarnarnefnd og slökkviliðið að sakast en því fyrr sem borgarpólitíkin er tilbúin að horfast í augu við þessa staðreynd því betra.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Eins og slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarna fór vel yfir á fundinum eru til áætlanir yfir fjölda mögulegra sviðsmyndir og hættur sem kunna að vofa yfir. Rýmingaráætlun almannavarna höfuðborgarsvæðisins byggist á þessum greiningum og áhættumati fyrir höfuðborgarsvæðið.

    Jón Viðar Matthíasson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa hjálögðum drögum að svari borgarstjóra við bréfi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 18. mars 2019, varðandi eftirlit og eftirfylgni með virkni innra eftirlits Reykjavíkurborgar, til staðfestingar á fundi borgarstjórnar. R19030231

    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga er stílað á borgarstjórn en ekki borgarstjóra. Nú eru 30 dagar síðan að frestur eftirlitsnefndarinnar til að svara bréfinu rann út. Innri endurskoðandi skilaði yfirgripsmikilli skýrslu árið 2015 með 30 ábendingum um það sem aflaga var á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA). Þessar ábendingar voru skýrar og bar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að tryggja eftirfylgni enda heyrir SEA þar undir. Starfshópur var skipaður 15. júní 2015 en skilaði litlu. Þar sofnaði málið. Það er ljóst að framkvæmdastjórn og eftirfylgni hennar brást. Ekki eftirlitið, enda voru ábendingar innri endurskoðunar skýrar og mikilvægar.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram tillaga fjármálastjóra, dags. 15. maí 2019, um fjölgun verkefna sem heimilt er að fjármagna með grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R19010350
    Samþykkt. 

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13:00 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum. 

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að endurnýja lóðaleigusamninga í hesthúsahverfinu í Víðidal þegar farið er fram á slíkt. Verði tímalengd endurnýjaðra samninga til 25 ára og uppkaupsákvæði verði óbreytt frá eldri samningum eftir endurnýjun þeirra, með vísan til hjálagðs minnisblaðs borgarlögmanns, dags. 13. maí 2019.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R16020258
    Frestað.

    Fylgigögn

  27. Lagður fram dómur héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 9. maí 2019, í máli E-1528/2018. R18050038

  28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. maí 2019:

    Lagt er til að tekið verði upp samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur um gróðursetningu loftslagsskóga Reykjavíkur. Markmið verkefnisins er að einstaklingar, fjölskyldur, fyrirtæki og stofnanir geti gróðursett tré í því skyni að koma til móts við útblástur gróðurhúsalofttegunda, svo kallað kolefnisfótspor viðkomandi. Á þetta til að mynda við um flugferðir en vaxandi áhugi er á að kolefnisjafna ferðalög, svo dæmi sé tekið. Reykjavíkurborg taki forystu, fyrst með kolefnisjöfnun allra ferða en síðar með kolefnisjöfnun alls reksturs og starfsemi borgarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19050109
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Afar mikilvægt er að halda áfram þeirri vinnu sem umhverfis- og heilbrigðisráð hóf í ágústmánuði á síðasta ári um að kolefnisjafna ferðalög á vegum borgarinnar. Tillagan sem hér er samþykkt styður þá aðgerð og verður útfærsla hennar, undirbúningur og samningagerð við skógræktarfélög og önnur félagasamtök á ábyrgð umhverfis- og heilbrigðisráðs. Markmiðið með tillögunni er að fyrst verði allar ferðir á vegum borgarinnar kolefnisjafnaðar en síðar verði allur rekstur og starfsemi borgarinnar kolefnisjöfnuð. Þá sýna rannsóknir að kolefnisbinding í vistkerfi skóga er mest á fyrstu áratugum en margt annað þarf einnig að koma til þó binding í jarðvegi með skógrækt vegi afar þungt.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram tillaga borgarritara, dags. 13. maí 2019, um úthlutun úr Miðborgarsjóði 2019, ásamt fylgiskjölum. R19040237
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. maí 2019, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Lóu Birnu Birgisdóttur í starf sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar en hún var metin hæfust til þess af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af borgarráði þann 7. mars 2019.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19020229
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð óskar nýráðnum sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs innilega til hamingju með ráðninguna. Megi henni farnast vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem bíða hennar á vettvangi borgarinnar.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. maí 2019, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Halldóru Káradóttur í starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar en hún var metin hæfust til þess af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af borgarráði þann 7. mars 2019.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19020229
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð óskar nýráðnum sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs innilega til hamingju með ráðninguna. Megi henni farnast vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem bíða hennar á vettvangi borgarinnar.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hlut leikskólagjalda í rekstri leikskólanna og hlutfall reykvískra barna á leikskólaaldri í leikskólum borgarinnar, sbr. 68. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2019. R19030070
    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í svari skóla- og frístundasviðs kemur fram að börn á leikskólaaldri með lögheimili í Reykjavík séu 7.220. Leikskólaaldur er skilgreindur sem börn fædd 2013-2017 þar sem ekki er gert ráð fyrir börnum fædd í desember 2017 því þau eru ekki orðin 18 mánaða við innritun í maí 2019 og því ekki á leikskólaaldri. Börn í borgarreknum leikskólum eru 5.238 eða 72,5% af börnum á ofangreindum leikskólaaldri í Reykjavík. Þá eru 1.120 börn með lögheimili í Reykjavík í sjálfstætt reknum leikskólum hér í borginni eða 15,5% barna á leikskólaaldri. Þau börn sem ekki eru með í þessari talningu eða u.þ.b. 12% barnanna eru í leikskólum utan Reykjavíkur, almennum og sjálfstætt reknum, ekki í leikskóla eða byrjuð í grunnskóla. Í svarinu kemur einnig fram að leikskólagjöld borgarinnar voru 9,3% af heildarkostnaði við rekstur leikskólanna árið 2018. Leikskólagjöldin, þ.e.a.s. námsgjöld og fæðisgjöld, námu 1,4 milljarði á árinu 2018. Það er fjárhæðin sem myndi kosta að gera leikskóla borgarinnar gjaldfrjálsa.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. maí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um auglýsingar fyrir Hverfið mitt, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. mars 2019. R19010096

    Fylgigögn

  34. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins svo auka megi þátttöku barna í almennum bólusetningum, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019. Einnig er lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga borgarstjóra, dags. 14. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem lögð var fram á fundi borgarráðs þann 21. apríl 2019, verði vísað inn í þær viðræður sem Reykjavíkurborg hefur óskað eftir með bréfi til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. apríl 2019. R19040149

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að taka saman upplýsingar um kolefnislosun af starfsemi borgarinnar. Eins samþykkir borgarráð að fela sviðinu samantekt tillagna um kolefnisjöfnun á starfseminni, t.d. þeim ferðum sem starfsmenn og kjörnir fulltrúar fara á vinnutíma, jafnt innanlands sem utan, auk úrgangs sem verður af starfsemi borgarinnar, t.d. með gróðursetningu trjáa og endurheimt votlendis.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19050139
    Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðs og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins: 

    Lagt er til að skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og íþrótta- og tómstundasviði verði falið að gera tillögu um forvarnarstarf og viðbúnað borgarinnar, m.a. í tengslum við borgarhátíðir, tónleikahald og aðra viðburði í borginni í sumar. Útfært verði samstarf við foreldra, grasrótarsamtök og lögreglu í tengslum við þessa viðburði. Útfærðri áætlun verði skilað til borgarráðs ásamt skilgreiningu ábyrgðaraðila og með kostnaðaráætlun vegna sumarsins 2019. R19050150

    Samþykkt.

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir upplýsingum um þá samninga sem hafa verið gerðir í tengslum við kvikmyndaver. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um á hvaða kjörum viðkomandi félög fengu lóðirnar og hvað hefur verið innheimt sbr. ársreikning 2018. R19050141

    Vísað til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

  38. Lögð fram svohljóðandi ítrekun á fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins gagnrýnir að enn hafi ekki borist svar við fyrirspurn hvað varðar starfslokasamninga starfsmanna Reykjavíkurborgar. Var fyrirspurnin lögð fram í lok ágúst 2018. Krafist er skýrra svara hvers vegna þessari fyrirspurn hafi ekki verið svarað og er það hér ítrekað að svarið berist borgarráði. R18080131

    Vísað til meðferðar mannauðsdeildar.

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins ásamt borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að fundin verði viðunandi lausn fyrir skólabyrjun í haust hvað varðar mötuneytismál Dalskóla þar sem mötuneyti skólans verður ekki tilbúið fyrr en 2020 þar sem gleymst hafði að gera ráð fyrir því við hönnun skólans. Það stefnir í að Dalskóli muni ekki geta uppfyllt þær lagalegu kröfur sem gerðar eru til skóla um sbr. einkum 1. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem segir að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Vísað er í erindi sem birt var skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, hinn 16. maí. R19050138

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs.

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Í hvaða ferli fara skuldir fyrirtækja við Reykjavíkurborg? Fara þær í sama innheimtuferli sem á við þegar um er að ræða einstaklingsskuldir borgarbúa við Reykjavíkurborg, þ.e.a.s. inn á borð Momentum og Gjaldheimtunnar? Reiknast sömu dráttarvextir á vanskil fyrirtækja og einstaklinga? Er það rétt skilið að fyrrum tónleikahaldarar Secret Solstice hafi staðið í skuld við Reykjavíkurborg en að nýir tónleikaaðilar sem nú sjái um tónlistarhátíðina, taki að sér þá skuld? Af hverju lendir sú skuld ekki á fyrri aðila sem stóð í skuldum við borgina? R19050140

    Vísað til umsagnar fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

  41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Afsláttur er veittur af leikskólagjaldi vegna ýmissa ástæðna. Einstæðir foreldrar, námsmenn og öryrkjar eiga til að mynda rétt á afslætti. Óskað er eftir upplýsingum um fjölda þeirra sem fengu afslátt og þá upphæð. Fyrirspurnin er lögð fram til að leitast við að draga upp mynd af fjölda þeirra sem þurfa á þessum afslætti á að halda. R19050146

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað var eftir því í borgarráði 23. ágúst í fyrra að farið yrði þess á leit við stjórnir B-hluta fyrirtækjanna að fram fari kynning í borgarráði á viðhorfskönnunum fyrirtækjanna. Tillögunni var frestað og enn hefur borgarráð ekki fengið kynningu á viðhorfs- og starfsánægjukönnun Félagsbústaða og því er óskað eftir að þessi kynning fari fram á næsta fundi borgarráðs eða tæpu ári frá því að ósk um slíkt kom fram. R18070145

Fundi slitið klukkan 14:00

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Skúli Helgason

Líf Magneudóttir Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir