Borgarráð - Fundur nr. 5545

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 9. maí, var haldinn 5545. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson og Dagný Magnea Harðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 2. maí 2019. R19010016

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 3. maí 2019. R19010023

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R19040187

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19040189

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á framkvæmdum sem fara fram úr kostnaðaráætlun, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019. R19010187

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskar eftir/leggur til að fengin verði umsögn IE á umsögn SEA frá 4. apríl og 6. maí við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins lagði fram tillögur um að innri endurskoðandi tæki út þrjár framkvæmdir með sambærilegum hætti og braggann, sem farið hafa umtalsvert fram úr fjárhagsáætlun. Þessar framkvæmdir eru Gröndalshús, vitinn við Sæbraut og Aðalstræti 10. Tillaga um úttekt á Gröndalshúsi var felld í borgarráði. Innri endurskoðandi hefur staðfest að umrædd umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar kom aldrei inn á hans borð áður en hún var lögð fram. Í framhaldsfyrirspurn var spurt af hverju kom umsögn SEA ekki til skoðunar innri endurskoðanda. Svar SEA er á þá leið að ekki var óskað eftir umsögn innri endurskoðunar og var ekki gerð athugasemd við þá málsmeðferð í borgarráði. Hvort tveggja er gert hér með enda ekki eðlilegt að SEA veiti umsögn um eigið verk sem leiðir til þess að tillaga um úttekt er felld. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 30. apríl 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um úttekt heilbrigðiseftirlits vegna Landspítala, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. apríl 2019. R19040063

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hlutverk Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) er að fara með hollustuhátta-, matvæla- og mengunarvarnareftirlit í borginni, stuðla að öflugri umhverfisvöktun og fræðslu til almennings í Reykjavík. HER vísar ábyrgð eftirlits með byggingarreit Landspítalans til byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Loftgæðamælingar hafa farið fram og einungis er mælt CO2, hiti og raki. Það er forkastanlegt að ekki hafi verið mælt svifryk, brennisteinsdíoxíð, brennisteinsvetni, koldíoxíð, kolmónoxíð og köfnunarefnisoxíð eins og alltaf er gert í loftgæðamælingum borgarinnar. Það er með ólíkindum að HER skuli vísa á stjórn Landspítalans og/eða landlækni varðandi mengun úr jarðvegi sbr. spurningu 6. Svalir og gluggar hafa verið festir aftur vegna „teórískrar hættu“ á því að jarðvegsbakteríur og myglusveppir smiti spítalann. Hinn 26. febrúar sl. barst svar frá umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur um sama efni. Í svarinu kemur fram að síðustu formlegu samskipti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna Landspítalans komi fram í umsögnum HER frá árunum 2011 og 2012. Segir jafnframt í svarinu að eftirlitið sé ekki hjá ráðuneytinu heldur er eftirlitið með framkvæmdinni á vegum Reykjavíkurborgar. Hér bendir hver á annan en ábyrgðin er skýr, ábyrgðin er hjá Reykjavíkurborg og formanni heilbrigðisnefndar að eftirliti hefur ekki verið nægjanlega sinnt. Er það grafalvarlegt mál og óskiljanlegt að okkar veikasta fólk er látið gjalda fyrir. Starfsfólk Landspítalans yfirgefur svæðið í vaktarlok en það gera sjúklingarnir ekki.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mengunarvarnir, hollustuhættir og matvælaöryggi er á hendi Heilbrigðiseftirlitsins samkvæmt lögum og sinnir eftirlitið því hér eftir sem hingað til. Mælingar eftirlitsins á loftgæðum við Landspítala gefa ekki tilefni til að óttast en loftgæði eru vöktuð og mæld mjög víða í borginni. Ef mengunar í jarðvegi verður vart er verktaka skylt að kalla til Heilbrigðiseftirlitið. Engin slík tilvik hafa komið upp hingað til. Þá hafa tímamörk vegna hávaða verið virt af verktaka. Allt kemur þetta fram í umsögn Heilbrigðiseftirlitsins og samræmist öll starfsemi vegna uppbyggingar á Landspítalareit þeim lögum og reglugerðum sem Heilbrigðiseftirlitið starfar eftir.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 5. maí 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um byggingaráform á Keldnasvæðinu í tengslum við kjarasamninga, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019. R19040124

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar byggingarfulltrúa, dags. 3. maí 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Vesturgötu 24, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019. R19040122

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. maí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um fasteigna- og innviðagjöld af Hafnartorgi, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. R19050016

    -    Kl. 9:08 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna Arnarbakka 2-6 og Völvufells 13-21, ásamt fylgiskjölum. R18110151
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili skrifstofunni að veita frest til að ganga frá samningum og fjármögnun vegna Grandagarðs 2, ásamt fylgiskjölum. R18090026
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 28. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag vegna sumarhússins Hvamms í landi Hólms við Suðurlandsveg, ásamt fylgiskjölum. R19040236
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tilboð í raðhús að Hraunbæ 53, ásamt fylgiskjölum. R19030089
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppgjör á kostnaði Leiruvegar 2 vegna skráningar veiðiréttar Reykjavíkurborgar í Leirvogsá, ásamt fylgiskjölum. R18100211
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili skuldskeytingu á veðskuldabréfi vegna Súðarvogs 2, ásamt fylgiskjölum. R17040103
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Bryggjuhverfi, ásamt fylgiskjölum. R19050039
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Rétt er að endurskoða endanlegar kvaðir í 5. gr. lóðarvilyrðis í þessu verkefni og öðrum sambærilegum áður en endanleg úthlutun á sér stað. Í vilyrðinu er verið að veita ákveðnum framkvæmdaðilum sömu kjör og félög á borð við Bjarg fá, þ.e.a.s. 45.000 kr. á m2. Athygli vekur að frestur til að kaupa íbúð fyrir ungt fólk er afar þröngur eða aðeins 3 vikur.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Lóðarvilyrði til Abakus er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hefur verið úthlutað á Stýrimannaskólareit og í Skerjafirði. Lóðarvilyrði fyrir Bryggjuhverfi og Gufunes eru afgreidd á þessum fundi borgarráðs.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. maí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum. R19050044
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Rétt er að endurskoða endanlegar kvaðir í 5. gr. lóðarvilyrðis í þessu verkefni og öðrum sambærilegum áður en endanleg úthlutun á sér stað. Í vilyrðinu er verið að veita ákveðnum framkvæmdaðilum sömu kjör og félög á borð við Bjarg fá, þ.e.a.s. 45.000 kr. á m2. Athygli vekur að frestur til að kaupa íbúð fyrir ungt fólk er afar þröngur eða aðeins 3 vikur.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lóðarvilyrði til Þorpsins er gefið í kjölfar hugmyndaleitar og samkeppni um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Nú þegar hefur verið úthlutað á Stýrimannaskólareit og í Skerjafirði. Lóðarvilyrði fyrir Bryggjuhverfi og Gufunes eru afgreidd á þessum fundi borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það skilyrði fyrir úthlutun lóðar til Þorpsins að Félagsbústaðir hf. skuli eiga rétt til að kaupa einungis 5% íbúða vera lágt. Þetta hlutfall mætti vera 10%. Einnig þykir sérkennilegt að Þorpið velji einslega þær íbúðir sem kauprétturinn nær til. Þótt sagt sé að þetta sé í einhvers konar samkomulagi þá er ekki betur séð en þetta sé alfarið ákvörðun Þorpsins. Þarna væri eðlilegra að Félagsbústaðir hefðu alla vega einhverja aðkomu að vali á þessum íbúðum sem standa þeim til boða.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 6. maí 2019, með tillögu varðandi rekstur tjaldsvæðisins í Laugardal fyrir húsbíla til langtímaleigu. R18080042
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í vetur var tjaldsvæðið í Laugardal opnað í fyrsta sinn fyrir langtímaleigu. Nú liggur fyrir reynsla af því sem leiðir til þeirrar tillagna sem hér liggja fyrir. Það er mikilvægt að koma til móts við ólíkar þarfir fólks og sýna öllum virðingu og skilning sama hvaða leið fólk kann að velja í lífinu. Sumir kjósa að búa í húsbíl og telja það sveigjanlegan og ódýran búsetukost og með þessum tillögum er verið að liðka fyrir því og gera slíkan búsetukost aðgengilegri.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill byrja á því að þakka þeim sem haldið hafa utan um þetta mál fyrir góða vinnu og upplýsingagjöf til borgarfulltrúa. Huga þarf að skammtíma- sem og framtíðarlausn. Ákveðinn hópur er í Laugardal og hefur borgarfulltrúi ávallt lagt ríka áherslu á að hlusta á væntingar og þarfir hans. Borgarfulltrúi styður þá lausn sem hér er dregin upp svo fremi sem hún samræmist væntingum einstaklinga sem um ræðir. Hafa verður einnig í huga að þessi hópur gæti bæti breyst og stækkað. Ávallt munu verða einhverjir sem velja að búa í húsbíl og huga þarf að staðsetningu til framtíðar hér í borginni. Þegar hugsað er til framtíðar ætti að vera fleiri en ein svona aðstaða, þetta búsetuform er sveigjanlegt og gætu fleiri viljað koma inn í þetta. Í borgum annars staðar er þetta alla vega þannig. Nýta ætti sveigjanleikann sem þetta húsnæðiskerfi á hjólum býður upp á. Það þurfa ekki að vera stór svæði í borginni, mætti t.d. nota svæði sem eru í biðstöðu en sem eru nálægt allri þjónustu og vissulega yrði stofnkostnaður sem snýr að aðgengi að sturtum, snyrtingum, þvottahúsi, eldhúsi og rafmagni. Vandamálið með sumarið verður að leysa og er borgarfulltrúi með tillögu í því sambandi.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 15. apríl 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. apríl 2019 á tillögu að breytingu á reglum um þjónustu félagsmiðstöðva, dags. 4. apríl 2019, ásamt fylgiskjölum, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. R19040228
    Samþykkt. 

    Helgi Grímsson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf innri endurskoðunar, dags. 6. maí 2019, þar sem skýrsla með niðurstöðum úr mati innri endurskoðunar á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. R17120062

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvæg niðurstaða innri endurskoðunar að þær breytingar sem samþykktar hafa verið á stjórnkerfi borgarinnar og koma til framkvæmda um næstu mánaðamót séu til þess fallnar að styrkja eftirlitsumhverfi borgarinnar. Þar er sérstaklega áréttað að verið er að þróa betri leiðir til að fylgja hraðar eftir ábendingum innri endurskoðunar um það sem betur megi fara í eftirlitskerfi borgarinnar. Talið er jákvætt skref að áhættustýringu sé einnig gert hærra undir höfði með nýju sviði fjármála- og áhættustýringar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    „Mat á eftirlitsumhverfi borgarinnar“ er þarft plagg. Mikilvægt er að treysta eftirlit í skipulagsbreytingum, ekki síst varðandi eftirfylgni. Í mati innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar kemur fram að stjórnendur þurfi að bregðast fyrr við ábendingum eftirlitsaðila, en eingöngu 27% ábendinga síðustu fjögurra ára hefur verið lokið samkvæmt gagnagrunni IE. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur kallað eftir skýringum á því hvers vegna ekki var fylgt eftir úttekt IE á SEA frá 2015. Þá er nauðsynlegt að álit endurskoðunarnefndar um réttaráhrif áritunar á ársreikning liggi fyrir áður en ársreikningur fyrir 2018 er afgreiddur endanlega. Vafi hefur verið um lögmæti útgreiðslu fjár og áhrif áritunar ársreiknings samanber minnisblað fjármálaskrifstofu dags. 5. febrúar síðastliðinn. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í skýrslu IE um mat á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar koma fram upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að hinum ýmsu verkþáttum í tengslum við framkvæmdir í borginni. Fram kemur í umsögn endurskoðunarnefndar að fyrst í júlí í fyrra var tekið skref í átt að heildstæðri áhættustýringu. Eitt af áhersluatriðum nefndarinnar er að skjótar verði brugðist við ábendingum og er lögð áhersla á að unnið verði hraðar en verið hefur. Til að átta sig betur á hvað er verið að hnýta í segir í skýrslunni að 10% áhættuflokkaðra ábendinga hafa fengið rauða áhættuflokkun sem ber merki um alvarlega veikleika í innra eftirliti. Flestar ábendingar eða 46% hafa gula áhættuflokkun, 26% appelsínugula og 18% græna sem þýðir að eftirlit er viðunandi. Strategía gerði skýrslu um skipurit og kemur þar fram að umboð og hlutverk er ekki í takt við núgildandi skipurit. Gegnsæi vegna stjórnarhátta borgarinnar sem eiganda B-hluta fyrirtækja er ekki gott. Bæta verður rekstur tölvukerfa hjá borginni. Almennt má velta því fyrir sér af hverju svo miklar brotalamir eru í borginni. Æðstu valdhafar hafa setið við völd í mörg ár og enn hafa 37% ábendinga ekki fengið úrlausn, sumar þeirra eru margítrekaðar.

    Hallur Símonarson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 3. maí 2019, sbr. samþykkt innkauparáðs frá 2. maí 2019 á tillögum að breytingum á innkaupareglum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R19010001
    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð fagnar tillögu að nýjum innkaupareglum og þakkar innkaupadeild, skrifstofu borgarlögmanns, sviðum borgarinnar og öðrum sem að vinnunni komu fyrir hröð og fagmannleg vinnubrögð. Þessar reglur eru mikilvægur hluti af eflingu eftirlits og eftirfylgni með innkaupum á vegum borgarinnar. Með þessum reglum má ætla að kostnaðarvitund aukist og ábyrgð sé skýrari.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að nú sé verið að efla innkauparáð í takt við þær tillögur sem sjálfstæðismenn lögðu fram í vetur. Þá vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokks koma á framfæri þakklæti til starfsfólksins sem kom að þessari vinnu. Sérstaklega viljum við þakka Eyþóru Kristínu Geirsdóttur sem hafði yfirumsjón með vinnunni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar endurskoðun á innkaupareglum Reykjavíkur. Breytingar eru til bóta og greinilega þarfar í ljósi þess að innkaupreglur í braggamálinu og fleiri framkvæmdum voru brotnar. Að sporna við samningagerð við þann sem orðið hefur uppvís af kennitöluflakki er sérstaklega ánægjulegt að sjá í reglunum. Sumt af því sem nefnt er í kynningu hefði maður haldið að væri sjálfsagt eins og að kaupandi skuli ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. En þeim sem unnu þessa endurskoðun hefur engu að síður þótt nauðsynlegt að nefna það sérstaklega. Ekki síst er mikilvægt að lögð er áhersla á aukið eftirlit og að auka upplýsingaflæði til innkauparáðs en á því varð einmitt brestur í braggamálinu. Rúsínan í pylsuendanum er að innkauparáð geti stöðvað framkvæmd tímabundið ef ekki liggur fyrir að samningi hafi verið komið á í samræmi við innkaupareglur og/eða ef fjárheimildir eru ekki fyrir hendi. Löngu tímabært ákvæði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins!

    Jóhanna Eirný Hilmarsdóttir, Eyþóra Kristín Geirsdóttir og Birgir Björn Sigurjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11:50 víkur Skúli Helgason af fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 24. apríl 2019, varðandi erindisbréf stýrihóps um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033. R18030074

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðismenn leggja áherslu á bættar almenningssamgöngur og að nýta tækifæri í tæknilegum lausnum. Margir þættir eru óljósir varðandi fjármögnun og útfærslu rekstrar borgarlínu enda liggur ekki fyrir samkomulag við ríkið. Athygli vekur að önnur sveitarfélög en Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu greiða eingöngu 3% af framlagi ársins 2019 en helmingurinn er greiddur af ríkinu. Það vekur furðu hversu skammt á veg þetta verkefni er komið miðað við fyrri yfirlýsingar borgarstjóra.

    Páll Björgvin Guðmundsson, Hrafnkell Á. Proppé og Birgir Björn Sigurjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að veita borgarstjóra umboð til þess að samþykkja og undirrita meðfylgjandi tvo samninga vegna undirbúningsverkefna borgarlínu. Annars vegar samning milli sveitarfélaganna um samstarf um tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að lagningu hágæða almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar milli Vegagerðarinnar og SSH um fyrirkomulag sameiginlegs verkefnis við undirbúning að lagningu borgarlínunnar á grundvelli fjárveitinga ríkis og sveitarfélaganna 2019 og 2020. R16110082

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkomulagið markar tímamót í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu þar sem ríkið og sveitarfélögin ganga til formlegra viðræðna um fjármögnun á samgöngubótum innan svæðisins. Samkomulagið gerir ráð fyrir fjármögnun undirbúnings Borgarlínu á þessu ári og næsta sem hefur verið skilgreind sem hryggjarstykkið í framtíðarsamgöngum höfuðborgarsvæðisins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðismenn leggja áherslu á bættar almenningssamgöngur og að nýta tækifæri í tæknilegum lausnum. Margir þættir eru óljósir varðandi fjármögnun og útfærslu rekstrar borgarlínu enda liggur ekki fyrir samkomulag við ríkið. Athygli vekur að önnur sveitarfélög en Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu greiða eingöngu 3% af framlagi ársins 2019 en helmingurinn er greiddur af ríkinu. Það vekur furðu hversu skammt á veg þetta verkefni er komið miðað við fyrri yfirlýsingar borgarstjóra.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hverjir eru það sem eru með borgarlínuverkefninu að mjólka sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ríkissjóð? Hér er lagt til að samþykkja 1,6 milljarð úr sjóðum almennings út í loftið. Mynda á sameiginlegan verkefnissjóð sem á að hýsast hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Aðsetur verkefnisins verður hjá SSH og verkefnasjóðurinn verður staðsettur þar. Áætlaður kostnaður sveitarfélaganna innan SSH á árunum 2019 og 2020 eru 800 m.kr. og jafnhátt framlag á að koma frá ríkinu „ef um semst“. Reykjavíkurborg ber 56,5% af þeim kostnaði eða sem nemur tæpum hálfum milljarði á árunum 2019 og 2020. Þessi fjárútlát eiga að standa straum af kostnaði sem fellur til, þ.m.t. launakostnaði núverandi starfsmanna, aðstandenda sem koma að verkefninu, aðkeyptri ráðgjöf og aðstöðusköpun. Öllum má vera ljóst að hér er um gríðarlega sóun á opinberu fé að ræða. Engin aðgerðaáætlun eða tímalína er lögð til grundvallar. Hér er um galopinn tékka upp á 1,6 milljarð að ræða. Undarlegasti hlutinn í þessum „samningi“ er fyrirvarinn sem gerður er á hluta framlags sveitarfélaganna (500 m.kr.) er varðar 2. áfanga undirbúnings (verkhönnun og útboð) náist ekki samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Þvílík blind peningasóun í úrelt verkefni – hér er á ferðinni nýr Landspítalaskandall!

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um gríðarmikið fé að ræða sem Reykjavík leggur út fyrir borgarlínu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að borgarlína muni líklegast verða byggð. Enn er allt fjármagn frá ríkinu þó ekki fast í hendi. Það væri alveg skemmtilegt að ráðast í þetta verkefni ef staða allra borgarbúa hvað varðar grunnþarfir væri í það minnsta viðunandi. En svo er aldeilis ekki. Í þessari litlu borg sem nú skilar hagnaði samkvæmt ársreikningi 2018 hefur ekki tekist að tryggja öllum borgarbúum grunnþjónustu. Raunveruleikinn er blákaldur og eru honum gerð ágæt skil í umsögn fjármálastjóra um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020 til 2024 til fjárlaganefndar Alþingis. Skóinn kreppir víða og ekki síst í velferðarmálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum og skólamálum. Á 9. hundrað umsókna eru eftir félagslegri leiguíbúð í Reykjavíkurborg, tæp 500 börn búa undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík. Slæm staða er víða dregin upp sem hefur alvarleg áhrif á líðan fólks með tilheyrandi afleiðingum, ekki síst á börnin í þeim fjölskyldum sem ekki hafa nóg til að getað lifað áhyggjulausu lífi. Allt þetta hlýtur að lita mögulegan spenning sem fylgir komandi borgarlínu.

    Páll Björgvin Guðmundsson, Hrafnkell Á. Proppé og Birgir Björn Sigurjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki neðangreinda tillögu að samningsmarkmiðum vegna áformaðra viðræðna rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðvalóða í Reykjavík. Jafnframt er lagt til að stofnuð verði sérstök samninganefnd. Samninganefndinni verði veitt heimild til að leiða viðræður við lóðarhafa og rekstraraðila og gera drög að samningum við þá, þar á meðal um endurnýjun lóðaleigusamninga en þó ekki lengur en til tveggja ára, sbr. meðfylgjandi samningsmarkmið og hjálögð drög að erindisbréfi. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R16080049
    Samþykkt.
    Borgarráð samþykkir að herða á því markmiði að fækka bensínstöðvum í borginni um helming. Á grundvelli þeirrar aðferðarfræði og samningsmarkmiða sem liggja fyrir verði stefnt að því að það markmið náist fyrir árið 2025 en ekki árið 2030 eins og segir í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum. Samhliða verði teknar upp viðræður um að umfang olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey minnki með tímanum og markmiðið verði að umfang hennar verði helmingi minna en nú er, eigi síðar en árið 2025.

    Áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins taka undir afgreiðsluna og þau sjónarmið sem þar koma fram.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðismenn í borgarráði og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins fagna því að borgarráð taki hér undir sjónarmið og áherslur okkar um að olíubirgðastöð í Örfirisey sé víkjandi og farið verði hraðar í breytingar á bensínstöðvum í borginni. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samkvæmt aðgerðaáætlun með loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar til 2040 er gert ráð fyrir að bensínstöðvum fækki um helming til 2030. Það er sérstakt fagnaðarefni að nú liggi fyrir skýr aðferðafræði og hvatar fyrir olíufélög til að ganga til samstarfs við borgina um að ná þessu markmiði. Gert er ráð fyrir að fækkun bensínstöðva í íbúahverfum og við rólegar götur verði í forgangi. Það er í góðum takti við áherslu á lífsgæði, loftgæði og loftslagsmál. Samningsmarkmiðin sem hér eru lögð fram til samþykktar eru vel til þess fallin að ná þessum markmiðum og er óskandi að samkomulag um fækkun bensínstöðva við einstök olíufélög liggi fyrir áður en langt um líður.

    Haraldur Sigurðsson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram minnisblað stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 12. mars 2019, um framkvæmd kostnaðarmats lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla 2014-2018. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu um málið, dags. 6. maí 2019. R19030199

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar tillögur matsnefndar um veitingu stofnframlaga. R19050037

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistaflokkurinn fagnar því að umsóknir um stofnframlög til Bjargs íbúðafélags og Brynju hússjóðs Öryrkjabandanlagsins hafi verið samþykkt en vill leggja áherslu á að farið verði í að lækka eða afnema gjöld af þessum, sem og öðrum, óhagnaðardrifnum félögum sem þiggja stofnframlög og hafa þurft að standa straum af. Stofnframlagið kæmi til frekari lækkunar fyrir óhagnaðardrifin félög ef þau myndu ekki þurfa að greiða byggingarréttargjaldið til að byrja með en þau gjöld geta haft hækkandi áhrif á verð sem leigjendur enda með að greiða. 

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13:10 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Daníel Örn Arnarsson tekur sæti.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 7. maí 2019, um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2034, 750. mál. R19030335
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í umsögn fjármálaskrifstofu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2020-2024 er farið yfir mikilvæg fjárhagsleg samskipti ríkis og Reykjavíkurborgar. Þar bendir fjármálaskrifstofa m.a. á að Reykjavíkurborg hafi bent á að ríkið verði að koma að fjármögnun NPA samninga með miklu sterkari hætti. Fjármálaskrifstofa segir einnig að mikilvægt sé að Alþingi tryggi í fjármálaáætlun 2020-2024 fulla fjármögnun á umbótunum sem felast í nýrri löggjöf um notendastýrða persónulega aðstoð. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur gríðarlega mikilvægt að fjárheimildir séu ekki til þess fallnar að mögulega leiða til þess að viðkomandi þurfi að bíða til lengdar eftir þjónustu sem hann á rétt á og ítrekar mikilvægi þess að meira fjármagn verði sett í málaflokkinn af hendi ríkisins, þar sem hér er um mannréttindamál að ræða. Fjármálaskrifstofa tekur einnig fram í umsögninni að brýnt sé að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og tryggja þannig að þau geti mætt nýjum verkefnum. Á síðustu árum hafa fjölmörg verkefni færst yfir til sveitarfélaga án þess að vera full fjármögnuð. Fulltrúi Sósíalistaflokksins undirstrikar hér mikilvægi þess að útsvar verði líka tekið af fjármagnstekjum líkt og við á um launatekjur. Fulltrúi Sósíalistaflokksins skorar á ríkið að leggja útsvar á fjármagnstekjur svo að sveitarfélögin geti sinnt öllum þeim mikilvægu verkefnum sem þau koma að.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enda þótt Alþingi sé ekki að standa sig gagnvart sveitarfélögum í að tryggja fulla fjármögnun í fjölmörgum málum eins og fram kemur í skýrslu fjármálastjóra verður borgin engu að síður að forgangsraða fjármunum borgarsjóðs þannig að fólkið sjálft og þjónusta við það sé ávallt í forgangi. Aðrir hlutir verða þá bara að raðast aftar. En þannig hefur það ekki verið undanfarin ár og hefur vandinn því vaxið. Dæmi um mál sem eiga að vera í algerum forgangi og nefndir eru í skýrslunni eru þjónusta við heimilislausa með flóknar þjónustuþarfir, fjölgun dagdvalarrýma og fjölgun hjúkrunarrýma til þess að fólkið sem ýmist vegna aldurs eða veikinda geti komist heim með stuðningi eða á hjúkrunarheimili allt eftir því sem mætir þeirra þörfum hverju sinni. Borgin státar sig af hagnaði og þennan hagnað þarf að nota til að bæta þjónustuna sem og hagræða í þágu fólksins. Ekki er dregið úr því að Alþingi stendur ekki við sínar skuldbindingar en það réttlætir ekki að láta fólkið bíða í ólíðandi aðstæðum eins og víða er raunin. Áfram verður að þrýsta á Alþingi af krafti að tryggja fjármögnun í fjármálaáætlun sinni og fulla fjármögnun eins og lög gera ráð fyrir.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, varðandi friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði, ásamt fylgiskjölum. R19050031

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Friðlýsing Akureyjar markar tímamót í sögu náttúruverndar í Reykjavík. Um er að ræða fyrstu friðlýsingu í 20 ár eða síðan náttúruvættið Fossvogsbakkar voru friðlýstir árið 1999. Akurey er fyrsta friðlandið í Reykjavík og fyrsta náttúrusvæðið sem er friðlýst vegna líffræðilegrar fjölbreytni og þá sér í lagi fuglalífs. Friðlýsingarferli Akureyjar hófst fyrir um fimm árum með áskorun Fuglaverndar til Reykjavíkurborgar. Borgaryfirvöld samþykktu í kjölfarið að hefja friðlýsingarferli og er nú þessum merka áfanga náð eftir gott samstarf við Umhverfisstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Framundan er vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Akurey og er stefnt að því að klára hana á næstu mánuðum en gerð áætlunarinnar er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka jákvætt í friðlýsingu Akureyjar. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda lífríkið, ekki síst fuglalíf. Sjálfstæðismenn hafa ítrekað lagt til friðlýsingu Elliðaárdalsins sem er stærsta græna svæðið innan þéttbýlismarka borgarinnar. Elliðaárdalurinn gegnir veigamiklu hlutverki í loftslagsmarkmiðum borgarinnar enda dalurinn með stærri grænum svæðum í borgarlandinu. Það er mikilvægt að hlúa að lífríki dalsins, byggja svæðið eingöngu upp til útivistar og tryggja að framsýni ráði för við skipulag þessa verðmæta græna svæðis.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er upplýst hér að þetta er í fyrsta sinn sem borgin sýnir frumkvæði um friðun lands innan borgarmarkanna. Það er gleðiefni í sjálfu sér en þarna talar hægri höndin ekki við þá vinstri ef litið er til Elliðaársdals og strandlengju í Skerjafirði. Á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs sem haldinn var hinn 8. maí sl. voru kynntar tillögur um meiriháttar uppbyggingu í Skerjafirði sem leiðir af sér eitt mesta umhverfisslys í sögu Reykjavíkur. Á fundinum var kynnt að ekki ætti að hverfisvernda ósnortna strandlengju Skerjafjarðar en í stað þess á að ráðast í landfyllingu upp á tæpa 5 hektara. Strandlengjan bæði vestan og austanmegin við þetta svæði er hverfisvernduð og við því verður ekki hróflað til framtíðar. Skerjafjörðurinn býr yfir mikilli líffræðilegri fjölbreytni ekki síður en Akurey. Það er ekkert að marka meirihlutann í umhverfis- og auðlindamálum. Það hefur margsannað sig.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan bráðarbirgðaverkferil og leiðir til úrlausna vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. R19030021

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á gott samstarf í starfsmannamálum. Nýjasta könnun borgarinnar sjálfrar sýnir að áreitni og einelti af hálfu samstarfsfólks hafi aldrei verið minni frá því að mælingar hófust. Það er ánægjuefni. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þessi bráðabirgðaverkferill er hugsaður sem vettvangur og farvegur fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar til að koma kvörtunum á framfæri vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. Hann er hugsaður til þess að skapa sátt og aukið traust í samskiptum starfsfólks Reykjavíkurborgar og kjörinna fulltrúa. Verkferillinn er til bráðbirgða og settur fram í samræmi við leiðbeiningar í áliti siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. desember 2018 og með hliðsjón af þeim skyldum sem á Reykjavíkurborg hvíla sem atvinnurekanda skv. lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. einnig reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjóri er pólitískur framkvæmdastjóri Reykjavíkur og er pólitískur andstæðingur kjörinna fulltrúa. Þessi tillaga er áhlaup á lýðræðiskjörna fulltrúa og vopn til að þagga niður óþægileg mál sem þrifist hafa um langa hríð innan Reykjavíkurborgar. Óhjákvæmilegt er eftir alla þá áfellisdóma og úrskurði sem eftirlitsstofnanir ríkisins hafa fellt yfir Reykjavíkurborg að almenningur viti hvaða starfsmenn eiga í hlut í einstökum málum. Finna má á heimasíðu Reykjavíkurborgar starfsmenn og ábyrgðaraðila hvers máls. Hér eru nefnd dæmi. Héraðsdómur í máli skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara. Voru nöfn málsaðila í málsskjölum og því óhjákvæmilegt annað en að ræða málin á þeim grunni. Sama má segja í þeim lögbrotum sem komið hafa upp er snerta SEA eins og t.d. í bragganum og Mathöll á Hlemmi. Kjörnir fulltrúar bera ekki ábyrgð á því að hin almenna umræða í samfélaginu „feli í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess.“ Hins vegar er mikið áhyggjuefni að borgarstjóri sem framkvæmdastjóri Reykjavíkur taki ekki á starfsmannamálum og hatursorðræðu innan stjórnkerfisins og láti það ótalið að t.d. starfsmaður sem heyrir beint undir hann ráðist að nafngreindum einstaklingum í samfélaginu með orðunum: „ríða, drepa, giftast?“ Eins var látið ógert að áminna borgarritara þegar hann lýsti kjörnum fulltrúum sem „tuddum á skólalóð.“

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa eins og opinbert er orðið. Það er ábyrgðarhluti að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og ill gerlegt að búa hann til vegna ójafnrar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Verið er að gefa þeim sem kvartar falskar vonir um vinnslu til lausnar. Tillagan er órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Hins vegar hefur borgarritari veitt nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn. Að opna fyrir þennan möguleika er ekki réttlátt gagnvart hinum almenna starfsmanni borgarinnar. Formlegt ferli getur leitt til áminningar eða brottrekstrar starfsmanns allt eftir alvarleika málsins. Sama gengur ekki á hinn veginn þar sem hvorki er hægt að reka kjörinn fulltrúa né áminna hann. Kjörinn fulltrúi hefur á hinn bóginn engan stuðning af stéttarfélagi eins og starfsmaðurinn. Komi upp mál milli aðila er dómstólaleiðin eina færa leiðin þegar aðilar eru annars vegar kjörinn fulltrúi og hins vegar starfsmaður.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, þar sem svar borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, við erindi Útlendingastofnunar er varðar þjónustusamninga við umsækjendur um alþjóðlega vernd, er sent borgarráði til kynningar. R19030140

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Reykjavíkurborg hefur borist erindi frá Svanna – lánatryggingasjóði kvenna, dags. 1. mars 2019, þar sem óskað er eftir að starfstími sjóðsins verði framlengdur til næstu fjögurra ára en samkomulag um starfsemina rann út um síðustu áramót. Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur lánatryggingasjóðsins, með vísan til meðfylgjandi umsagnar fjármálastjóra Reykjavíkurborgar. R17060148

    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er með ólíkindum að Reykjavíkurborg stundi lánastarfsemi af þessu tagi. Hér er um eitt málið enn að ræða sem fellur langt fyrir utan lögbundin hlutverk sveitarfélags. Meira en 41% lána hefur verið afskrifað hjá sjóðnum og því er hér um að ræða áhættustarfsemi sem borgin á ekki að standa í. Eins er það gagnrýnt að jafnréttissjónarmiða er ekki gætt í störfum sjóðsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í gögnum málsins er fullt tilefni til að borgin taki þátt í áframhaldandi starfsemi lánasjóðsins. Í verkefninu felast engin fjárframlög, engin fjárútlát umfram þau sem í sjóðnum liggja.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að hækka framlag Reykjavíkurborgar til Vestnorræna höfuðborgarsjóðsins úr DKK 100.000,- í DKK 150.000,- eða úr 1.800.000 kr. í um 2.700.000 kr. miðað við gengi dagsins. Báðar samstarfsborgir Reykjavíkurborgar, Tórhavn og Nuuk/Kommuneqarfik Sermersooq, eru fyrir sitt leyti samþykkar því að hækka framlög sín sem þessu nemur. Lagt er til að kostnaður vegna ársins 2019 verður færður af kostnaðarstaðnum ófyrirséð, 09205, yfir á kostnaðarstaðinn 09320, en í framhaldinu verði gert ráð fyrir kostnaðinum í fjárhagsáætlun.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010094
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á sama tíma og lægri framlög eru til listnáms er ákveðið að hækka þennan styrk um 50%.

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. maí 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, í samráði við skrifstofu samgöngustjóra, verði falið að útfæra áframhald á deilihjólaverkefninu sem stofnað var til árið 2017. Skrifstofu eigna og  atvinnuþróunar, í samráði við samgöngustjóra, verði falið að leita tilboða í verkefnið með verðfyrirspurn og gera, í kjölfar samningaviðræðna, þjónustusamning um rekstur deilihjólaleigu (bike sharing system) í Reykjavík til næstu tveggja ára. Gert er ráð fyrir því að framlag borgarinnar til verkefnisins í þeim tilgangi að tryggja gæði þjónustunnar verði að hámarki fimm milljónir á ári. Á meðan þessu tveggja ára tímabili stendur er umhverfis- og skipulagssviði falið að vinna að frekari greiningum, stefnumörkun og undirbúningi ákvarðana um rekstur deilihjóla og annarra sambærilegra samgangna í Reykjavík til lengri framtíðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19040239
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Deilihjólaleiga var standsett í Reykjavík árið 2017 í samstarfi við WOW Air. Eins og kunnugt er varð flugfélagið gjaldþrota í marsmánuði sl. Reykjavík er hjólaborg og hluti af hjólreiðaáætlun eru deilihjól. Tillagan miðar að því að setja þetta mikilvæga mál í farveg og kalla eftir útfærðri tillögu umhverfis- og skipulagssviðs um fyrirkomulag hjólaleiga í borginni til framtíðar.

    -    Kl. 13:55 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum.
    -    Kl. 14:02 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins leggur til að borgin greiði helminginn af sumargjaldinu fyrir þennan hóp í Laugardalnum. Sumargjaldið er 95 þúsund sem er allt of hátt fyrir þennan hóp sem hefur takmarkaða greiðslugetu og ber borginni að koma til móts við erfiða fjárhagsstöðu þeirra eins og annarra sem ná ekki endum saman. Í þessum hópi kunna að vera aðilar sem eiga ekki heima í Reykjavík og er lagt til að borgin ræði um samræmdar aðgerðir við viðkomandi sveitarfélög eftir atvikum. R18080042

    Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins gerir athugasemd við að ekki var leitað álits innri endurskoðunar áður en tillaga um að taka út Gröndalshús var felld en sú niðurstaða byggði einungis á umsögn skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar. Lagt er til að leitað verði umsagnar innri endurskoðunar á tillögu Flokks fólksins um úttekt á Gröndalshúsi. Óskað er einnig eftir umsögn innri endurskoðunar um stöðu mála á Aðalstræti 10 út frá sjónarhorni eftirlitsaðila og stöðu framkvæmda vegna vita við Sæbraut í tengslum við kostnaðaráætlanir. R19050083

    Tillögunni er vísað frá. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að framkvæmd verði víðtæk skoðanakönnun á meðal borgarbúa víðs vegar um borgina með spurningum sem eru skýrar þannig að svarendur geti áttað sig á um hvað málið snýst sem er að bílar mega alfarið ekki aka um Laugaveg og hluta Skólavörðustígs allt árið um kring hvernig sem viðrar, þegar áætlunin verður framkvæmd. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla því sem ítrekað hefur komið fram, þar á meðal í bókun meirihlutans um málið frá 4. apríl, lið 2, að kannanir hafi staðfest ánægju Reykvíkinga með göngugötur í miðborginni og þar með lokun þeirra fyrir allri bílaumferð árið um kring. Það kann að vera að ánægja sé með lokanir gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann en engar kannanir hafa sýnt að meirihluti Reykvíkinga sé ánægður með varanlega lokun þessara umræddu gatna fyrir allri umferð bíla. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa. R19050084

    Tillagan er felld. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  37. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til af Flokki fólksins að farið verði hið fyrsta í að laga lóðina í kringum Brúarskóla. Eftir því sem næst er komist var búið að teikna lóðina upp en síðan var verkefnið sett til hliðar. Lóðin er verulega illa farin og á henni eru slysagildrur. Á henni eru heldur engin leiktæki eða afþreyingartæki fyrir börnin eða viðundandi svæði til athafna fyrir utan körfuboltakörfu. Þetta er eitt dæmi þess að skólinn virðist vera eins konar afgagnsstærð hjá borginni og hefur umhverfi hans ekki verið sinnt sem skyldi. R19050072

    Vísað til skoðunar í yfirstandandi vinnu við gerð fjárfestingaáætlunar.

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um úttektir á grunnskólum borgarinnar sem framkvæmdar hafa verið, hvenær og á hvaða skólum aðrar en sjálfsúttektir. Hér er verið að spyrja um úttektir sem gerðar eru af utanaðkomandi aðilum. Óskað er yfirlits yfir gerðar úttektir og upplýsingar í samantektarformi um hverja og eina síðustu 10 árin. Úttekt á skólum borgarinnar er afar mikilvæg fyrir alla hlutaðeigandi aðila til að hægt sé að fá það staðfest að verið sé að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið. Aftur er ítrekað að hér er ekki verið að spyrja um sjálfsmatsúttektir. R19050085

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólks leggur til og óskar eftir að fengið verði mat stjórnsýslufræðinga á hvort sú tillaga meirihlutans sem nú hefur verið keyrð í gegn um bráðabirgðaverkferil sem hefur það markmið að skapa farveg fyrir kvartanir starfsfólks yfir kjörnum fulltrúum standist skoðun. Lagt er til að þetta verði metið út frá stjórnsýslulögum og öðrum lögum og reglugerðum sem hún kann að snerta vegna þeirrar ójöfnu stöðu sem kjörinn fulltrúi hefur annars vegar og starfsmaður hins vegar. Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa. Það er ábyrgðarhluti hjá borgarritara að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og útilokað að búa til slíkan vegna ójafnrar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Tillagan er að mati borgarfulltrúa órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Því er því mikilvægt að sérfræðingar leggist yfir hana út frá stjórnsýslulögum. Borgarritari og borgarstjóri byggja þessa hugmynd sína á afar óljósri og loðinni skýrslu frá siðanefnd sveitarfélaga. Þessu er við að bæta að það vakti furðu þegar borgarritari veitti nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19030021
    Vísað til skoðunar í yfirstandandi vinnu við gerð varanlegs verkferils.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  40. Lögð fram svohljóðandi ítrekun á fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins gagnrýnir að enn hafi ekki borist svar við fyrirspurn hvað varðar starfslokasamninga starfsmanna Reykjavíkurborgar. Var fyrirspurnin lögð fram í lok ágúst 2018. Krafist er skýrra svara hvers vegna þessari fyrirspurn hafi ekki verið svarað og er það hér ítrekað að svarið berist borgarráði. R18080131

    Vísað til meðferðar mannauðsdeildar.

Fundi slitið klukkan 14:25

Líf Magneudóttir Dagur B. Eggertsson

Pawel Bartoszek Marta Guðjónsdóttir