No translated content text
Borgarráð
Ár 2019, fimmtudaginn 11. apríl, var haldinn 5542. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ari Karlsson og Dagný Magnea Harðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 4. apríl 2019. R19010016
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir ofbeldisvarnarnefndar frá 7. janúar og 1. apríl 2019. R19010037
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. apríl 2019. R19010022
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Borgarfulltrúar taka undir sjónarmið Umhverfisstofnunar sem koma fram í 5 blaðsíðna bréfi stofnunarinnar frá 4. mars sl. sem sent var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Þar koma fram verulegar efasemdir um breytinguna enda gengið á einstakt grænt svæði í borgarlandinu.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðarinnar:
Miðflokkurinn harmar, sem fyrr, að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila, íbúa og rekstraraðila, við ákvörðunartöku um varanlegar göngugötur. Yfirlýsing borgarstjóra á fundi borgarstjórnar 4. september síðastliðinn um að Laugavegur skyldi verða göngugata frá Hlemmi vekur sérstaka eftirtekt, enda myndi slíkt þýða að aðkoma að 200 stæða bílastæðahúsi Bílastæðasjóðs borgarinnar lokaðist.Gerræðislegar yfirlýsingar sem þessi eru ekki merki um að samráð og sátt við menn og þjóð séu ofarlega á baugi hjá borgarstjóra enda hefur nú verið ákveðið að svara í engu fjölda athugasemda og undirskriftalistum er málið varða. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar gerræðisleg vinnubrögð eru viðhöfð. Slíkt kallar á röð vandamála og tillagan sem hér er til umfjöllunar skýrt dæmi um það: Lagt er til að aksturstefnu á hluta Laugavegs verði breytt! Fyrirvaralaust og sem fyrr án nokkurs samráðs! Engin umræða – ekkert samráð.Miðflokkurinn mótmælir slíkum vinnubrögðum sem eru með öllu ólíðandi. Krafa okkar um vinnulag hvað varðar breytingar er einföld: Umræða – samráð –sátt. Þetta vinnulag þekkja góðir stjórnendur en slæmir ekki. Sá misskilningur hrjáir borgarstjóra að telja sig í síðustu kosningum hafa fengið umboð kjósenda til að framfylgja vilja sínum. Svo er ekki, hann fékk umboð til að framfylgja vilja kjósenda.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins gerir alvarlega athugasemd að hafist verði handa við vinnu og forhönnun á Laugavegi og Skólavörðustíg sem var á dagskrá skipulags- og samgönguráðs 3. apríl 2019. Í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór í borgarstjórn 2. apríl sl. vegna tillögu Flokks fólksins þar sem farið var fram á nánara samráð um framkvæmdir við hagsmunaaðila, eldri borgara, fatlaða og almenna borgarbúa víðs vegar í borginni m.a. með vel útfærðri skoðanakönnun. Áréttað er að í ljós hefur komið að ekki er hægt að hefja undirbúning eða framkvæmdir fyrr en grenndarkynning hefur átt sér stað. Jafnframt þarf að kanna vilja allra Reykvíkinga áður en hafist er handa við svo stórtækar aðgerðir á einu vinsælasta svæði borgarinnar. Það skal jafnframt bent á að ekki stendur til að hreyfihamlaðir né aldraðir hafi aðgang að götunum þegar veður eru válynd, tal um samráð virðist hjómið eitt. Það er með ólíkindum hvernig borgarmeirihlutinn ætlar að keyra áfram þessar lokanir þrátt fyrir mótmæli ýmissa aðila. Hér skortir alla auðmýkt hjá meirihlutanum. Hér er sýndur ótrúlegur ósveigjanleiki og barnaleg þrákelkni borgarfulltrúa meirihlutans. Flokkur fólksins gerir kröfu um fullt samráð við alla borgarbúa. Annað er ólíðandi í lýðræðislegu samfélagi.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Meðan göngugötur verða opnar á komandi sumri verður áfram unnið að skipulags- og hönnunarvinnu í tengslum við fyrirætlanir borgarstjórnar um göngugötur allt árið. Í þeirri vinnu verður áfram lögð rík áhersla á samráð við íbúa, atvinnulíf og aðra hagsmunahópa.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 29. mars 2019. R19010023
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir öldungaráðs frá 7. janúar og 1. apríl 2019. R19010036
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R19040002
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð eigendanefndar Strætó bs.:
Í fundargerð eigendafundar Strætó bs. frá 8. apríl er farið yfir fyrirhugaða innleiðingu á nýju greiðslukerfi sem byggir á snjalllausnum þar sem farþegar skanna sig inn með korti eða appi. Slíkt auðveldar líklega málin fyrir marga farþega og vagnstjóra og er jákvætt skref í átt að fjölbreyttari greiðslulausnum. Í fjárhagsáætlun Strætó bs. var gert ráð fyrir fjárfestingu og innleiðingu á hinu nýja greiðslukerfi, alls 300 m.kr., 200 m.kr. á árinu 2019 og 100 m.kr. á árinu 2020. Samkvæmt eigendastefnu Strætó bs. skal fjárhæð einstakra nýrra skuldbindinga sem er yfir 5% af bókfærðu eigin fé Strætó bs. lögð fyrir eigendafund til samþykktar áður en til hennar er stofnað. Miklar umræður hafa átt sér stað um þjónustu Strætó bs. þar sem farþegar telja að það þurfi að bæta ýmislegt. Það er spurning hvort að strætófarþegarnir sem treysta á almenningssamgöngur hefðu mögulega viljað ráðstafa þessum 300 m.kr. á annan hátt til bætingar á þjónustunni t.d. hvað varðar leiðakerfið. Strætó er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og eðlilegt að rödd íbúanna; strætófarþeganna, komi að borðinu þegar svo viðamikil ákvörðun er tekin hjá Strætó bs., félagi sem er í eigu íbúanna í þessum sveitarfélögum.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19040003
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R19010041
Samþykkt að veita Einari Bárðarsyni styrk að upphæð kr. 400.000 vegna Plokkdagsins mikla 2019.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. apríl 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. apríl 2019 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Hólmsheiði, athafnasvæði, ásamt fylgiskjölum. R18120136
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. apríl 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs á umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við birtingu auglýsingar um deiliskipulagsbreytingu vegna Sundahafnar norðan Vatnagarða, ásamt fylgiskjölum. R18110152
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir í nýbyggingahverfum 2019. Kostnaðaráætlun 2 er 400 m.kr. R19040104
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. apríl 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. apríl 2019 á tillögu að göngugötum 2019, ásamt fylgiskjölum. R19040106
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir áhyggjum með ástand verslunar og þjónustu við Laugaveg. Fasteignagjöld hafa hækkað gríðarlega og margir þurft að hætta starfsemi. Mikilvægt er að útfærsla varðandi göngugötur verði unnin í samráði við hagsmunaðila eins og samþykkt hefur verið af öllum flokkum.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Miðflokkurinn hafnar alfarið að lokað verði fyrir bílaumferð á þessu svæði. Fyrir síðasta borgarstjórnarfund sem haldinn var hinn 2. apríl sl. var undirskriftarlistum tæplega 300 rekstraraðila eða um 90% skilað til borgarstjóra og mörg hundruð stuðningsundirskriftum um að ekki eigi að loka á umferð á þessu svæði. Unnið er grímulaust að varanlegri lokun og er þetta fyrsta skrefið í þá átt. Rekstraraðilar sjálfir eiga að ráða lokun en ekki borgaryfirvöld. Bílar, gangandi umferð, fólk í hjólastólum og hjólandi fara vel saman. Eitt útilokar ekki annað. Engin haldbær rök hafa verið færð fram um hvers vegna meirihlutinn leggur svo þunga áherslu á lokun. Þetta lýsir mikilli firringu og skilningsleysi í garð þessa svæðis.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins mótmælir því sem fram kemur undir þessum lið en það er að verið sé að vinna að varanlegri lokun og það jafnvel þótt það hafi verið sýnt fram á að kannanir sýni að fólk sé alls ekki sátt nema síður sé. Enn á ný á að reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja að kannanir sýni „ánægju“ og keyra af afli áfram eitthvað sem ekki hefur verið unnið í sátt við borgarbúa. Ljóst er að valta á yfir borgarbúa og ekki síst rekstrar- og hagsmunaaðila á þessu svæði. Þetta kallast fátt annað en ofbeldi þegar hunsuð er beiðni um eðlilegt samráð. Laugavegssamtökin hafa sem dæmi fullyrt að aldrei hafi verið talað við þau enda flýja rekstraraðilar nú unnvörpum frá þessu svæði.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Meðan göngugötur verða opnar á komandi sumri verður áfram unnið að skipulags- og hönnunarvinnu í tengslum við fyrirætlanir borgarstjórnar um göngugötur allt árið. Í þeirri vinnu verður áfram lögð rík áhersla á samráð við íbúa, atvinnulíf og aðra hagsmunahópa.
Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ljúka undirbúningi og hönnun og bjóða út framkvæmdir við umferðaröryggismál 2019. Kostnaðaráætlun 2 er 150 m.kr. R19040099
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við 1. áfanga vegna endurgerðar lóðar Vesturbæjarskóla. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. R19040098
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 8. apríl 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. apríl 2019, á tillögu að breytingum á 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. R19010221
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tilkoma rafræns viðmóts fyrir borgarbúa til að sækja um fjárhagsaðstoð er stórt og mikilvægt framfaraskref í velferðarþjónustu borgarinnar. Það er mikið fagnaðarefni að hér er tekið skref í þá átt að einfalda umsóknarferli fyrir íbúa sem auðveldar þeim að nálgast mikilvæga þjónustu. Rafvæðing umsókna og gagna sem þeim þurfa að fylgja er lykilskref í því að bæta þjónustu, gera hana skilvirkari, fljótlegri og einfaldari fyrir notendur. Ákaflega gott er að sjá hve mikill metnaður hefur verið lagður í undirbúning hins nýja viðmóts til að tryggja að það standist kröfur nútímans og anni sem best þörfum þeirra sem það nota.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykja þessar reglur enn alltof flóknar og mætti einfalda þær mun meira. Þau gögn sem umsækjanda ber að reiða fram eru óþarflega ítarlegar, t.d. upplýsingar um skráningu í nám og/eða upplýsingar um greiðslur t.d. frá sjúkrasjóðnum eru dæmi um upplýsingar sem mættu e.t.v. missa sín. Markmiðið ætti ávallt að vera að kalla eftir sem minnstum upplýsingum og unnt er að komast af með í slíkri umsókn. Sjálfsagt er að fá leyfi hjá viðkomandi að aflað verði upplýsinga t.d. um skráningu hans í nám við lánshæfar menntastofnanir. Hafa skal í huga að mörgum reynist það afar erfitt að þurfa að sækja um fjárhagsaðstoð. Sumir upplifa það niðurlægjandi og því er óþarfi að flækja þetta ferli meira en þörf er á. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda þetta ferli enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað Strætó bs., dags. 9. apríl 2019, varðandi átak um gráa daga og frítt í Strætó með appmiða. R19040123
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti borgarráðs þakkar Strætó fyrir afar vel heppnað átak þar sem svifryk mældist mun minna en á venjulegum degi. Meira en 5000 manns notuðu frímiða í appinu og nýir notendur voru 1.846. Það er gríðarlega mikilvægt að minnka svifryk og auka loftgæði í Reykjavík en lykilþáttur í því verkefni er að fjölga notendum strætó og fækka þar með bílum. Það tókst í byrjun vikunnar þar sem einkabílar voru mun færri á götum borgarinnar en á venjulegum degi í Reykjavík. Því ber að fagna sérstaklega.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. apríl 2019, með drögum að erindisbréfi samninganefndar Reykjavíkurborgar vegna viðræðna við ríkið um uppbyggingu hjúkrunarrýma í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R19030147
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. apríl 2019, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki fjárveitingu til Tónlistarfélags Árbæjar vegna leigu á húsnæði við Stangarhyl fyrir tónlistarmiðstöð fyrir ungt fólk. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð hefur samþykkt að styrkja stafsemina um 2,5 m.kr. Lagt er til að borgarráð samþykki að gera þriggja ára samning um tilraunaverkefni með viðbótarstyrk árið 2019 að upphæð 5 m.kr. og síðar styrk 2020 og 2021 að upphæð 6,5 m.kr. á ári að því gefnu að styrkur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs haldist óbreyttur. Lagt er til að sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs verði falið að gera samning við Tónlistarfélag Árbæjar og hafa eftirfylgni með samningnum. Viðauki fylgir tillögunni. R19030193
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna er kveðið á um að fjölga æfingahúsnæði fyrir ungt tónlistarfólk, að styðja grasrótarstarf í lista- og menningarmálum og að tryggja jafnara aðgengi að menningu og tómstundum óháð efnahag og stöðu. Hér er verið að bregðast við þessum fyrirætlunum með því að styðja við að koma á fót nýju lágþröskuldstónlistarrými fyrir ungt tónlistarfólk sem tónlistarmiðstöð ungs fólks. Álíka rými hefur verið til staðar í vesturborginni og er hér verið að bæta öðru við í austurborginni undir stjórn grasrótarsamtaka í hverfinu.
- Kl. 11:04 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Daníel Örn Arnarsson tekur sæti.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármálastjóra, dags. 6. apríl 2019, við erindi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 7. mars 2019, varðandi 66. gr. sveitarstjórnarlaga um miklar fjárfestingar og skuldbindingar vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2019. R19030133
Vísað til borgarstjórnar.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta ári fóru fjárfestingar yfir 23% sem hlutfall af skatttekjum borgarinnar. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar verði rétt tæp 20% á árinu 2019. Ljóst er að þetta eru mjög háar fjárhæðir eða tvöföld EBITDA og meira en tvöfalt veltufé frá rekstri. Best væri ef fjárfestingar væru meiri í niðursveiflu en minni í uppsveiflu, bæði til að vega á móti hagsveiflum, auk þess sem kostnaður við framkvæmdir er meiri í uppsveiflu en lægð.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil uppbygging hefur verið undanfarin ár í Reykjavík. Eftir efnahagshrun á árunum 2009-2013 ákvað íslenskt samfélag að fjárfesta í samfélaginu, þ.e. fólkinu í landinu, menntun og uppbyggingu atvinnulífs. Á meðan beið fjárfesting í byggingum, s.s. skólum og leikskólum, vegum og göngustígum. Reykjavíkurborg var nánast ein um að reyna að halda uppi framkvæmda- og fjárfestingastigi. Engu að síður var ýmislegt sem þurfti að bíða. Undanfarið hefur því sérstaklega verið unnið að uppbyggingu sem við erum að sjá árangur af í dag. Afar mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu og viðhaldi til að tryggja að húsnæði borgarinnar haldi virði sínu og gæðum. Við fögnum þessari skýru framsetningu í bréfinu sem gefur góða mynd af þeim breytingum sem eiga sér stað í fjárfestingum borgarinnar.
Birgir Björn Sigurjónsson og Ólafur Sindri Helgason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram ársskýrsla Reykjavíkurborgar 2018, dags. apríl 2019, vegna útgáfu grænna skuldabréfa, ásamt fylgiskjölum. R19040085
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík er fyrst allra á landinu til að hefja útgáfu grænna skuldabréfa til að fjármagna græn verkefni. Grænu skuldabréfin hafa gengið afar vel en dæmi um verkefni sem þau hafa fjármagnað eru Sundhöll Reykjavíkur, Dalskóli og hjólastígar í borgarlandinu. Þessi ársskýrsla er lögð fram í samræmi við ákvæði í Grænum ramma Reykjavíkurborgar og sýnir þær fjárfestingar borgarinnar sem uppfylla kröfur rammans og voru fjármagnaðar á síðasta ári með grænum skuldabréfum.
Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram greinargerð fjármálaskrifstofu, dags. 7. apríl 2019, um framkvæmd styrkjareglna 2018.
Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19010405
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 9. apríl 2019, um möguleg áhrif af gjaldþroti WOW Air á rekstur Reykjavíkurborgar. R19010098
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjármálaskrifstofu er þakkað fyrir afar vandaða samantekt á ólíkum sviðsmyndum sem gefa nauðsynlega innsýn inn í möguleg áhrif gjaldþrots WOW á fjármál Reykjavíkurborgar. Minnisblaðið er jafnframt fóður í áherslur og viðbrögð borgarinnar í kjölfar gjaldþrotsins. Nær allir ferðamenn sem koma til Íslands koma til Reykjavíkur og meginþungi allra fyrirtækja í ferðaþjónustu gerir út frá Reykjavík. Þess vegna hefur borgin gríðarlega hagsmuni að því að ferðamenn haldi áfram að koma til Íslands svo ferðamennska haldi áfram að blómstra.
Birgir Björn Sigurjónsson og Ólafur Sindri Helgason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga fjármálastjóra, dags. 11. apríl 2019, um að borgarráð samþykki tilboð að fjárhæð 1.500 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 4,95% í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1.
Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R19010352
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. apríl 2019, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 vegna fjárfestingaráætlunar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19010200
Vísað til borgarstjórnar.Birgir Björn Sigurjónsson, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 9. apríl 2019, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019.
Greinargerð fylgir tillögunum. R19010200
Vísað til borgarstjórnar.Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra, dags. 9. apríl 2019, ásamt fylgiskjali:
Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar. Gert er ráð fyrir að tillagan verði afgreidd sérstaklega af borgarráði en upplýsingar um þessi atriði ber að veita í skýringargögnum með ársreikningi. R17120062
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagður fram trúnaðarmerktur ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2018. Einnig er lögð fram umsögn endurskoðunarnefndar, dags. 9. apríl 2019, um ársreikninginn, skýrsla fjármálaskrifstofu, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, greinargerð B-hluta fyrirtækja, samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2018 og ábyrgða- og skuldbindingayfirlit 2018.
Öll gögn eru trúnaðarmerkt fram að framlagningu ársreikningsins á aukafundi borgarráðs 30. apríl nk. R17120062
Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 hefur verið undirbúinn af fjármálaskrifstofu í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ársreikningur Reykjavíkurborgar telst fullgerður og tilbúinn til endurskoðunar.
Vísað til ytri endurskoðunar.Birgir Björn Sigurjónsson, Gísli Hlíðberg, Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi Brynjólfsson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 12:40 víkja Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Pawel Bartoszek tekur sæti. Líf Magneudóttir, varaformaður borgarráðs, tekur við fundarstjórn.
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 8. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili afléttingu leigukvaða og kvaða um kauprétt fyrir Barónsreit, ásamt fylgiskjölum. R19040078
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um breytingu á leigusamningi fyrir húsnæði fyrir heimahjúkrun að Hraunbæ 119, ásamt fylgiskjölum. R18040151
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 8. apríl 2019, varðandi stöðu verkefnisins ódýrar íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur.
Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R17100200
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita vilyrði fyrir úthlutun lóðar við Sjómannaskólann til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, ásamt fylgiskjölum. R19040008
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita vilyrði fyrir úthlutun lóðar í Skerjafirði til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, ásamt fylgiskjölum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að málinu verði frestað.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. R19040007
Vilyrði fyrir úthlutun lóðar er samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða lóðarvilyrði sem er í samræmi við framlagða úthlutunaráætlun í Skerjafirði og er ekki á svæði fyrirhugaðrar landfyllingar. Þá fékk rammaskipulag Skerjafjarðar sem unnið er af ASK arkitektum, Eflu og Landslagi nýverið verðlaun sem besta skipulag undanfarinna tveggja ára.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja ótímabært að taka afstöðu til fyrirliggjandi þróunarsvæðis enda liggur nýtt deiliskipulag ekki fyrir. Áður en lengra er haldið er rétt að fá niðurstöður úr umferðarlíkani, umhverfismati og flugöryggismati, svo fátt eitt sé nefnt. Það er ótímabært að veita vilyrði og vekja væntingar um lóðaúthlutun þegar fagleg vinna er svo skammt á veg komin. Langur skipulagsferill er framundan þar sem borgaryfirvöldum er skylt að efna til víðtæks samráðs um skipulagslýsingu, aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagsgerð auk umhverfismats. Það er vissulega mikilvægt að finna frekari húsnæðisuppbyggingu stað í borginni, þá sérstaklega fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis og íbúða fyrir stúdenta og eldri borgara. Meirihlutinn hefur því miður þegar hafnað skynsamlegum tillögum Sjálfstæðisflokks um slíka uppbyggingu við BSÍ-reit og í Örfirisey.
Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, dags. 28. mars 2019, að úthlutunaráætlun fyrir norðurhluta skipulagssvæðisins í Skerjafirði þar sem gert er ráð fyrir um 750 íbúðum á reitum 1-15, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. apríl 2019. R18100338
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni að íbúðir muni nú byggjast á svæði sem áður var vannýtt. Um er að ræða a.m.k. 750 íbúðir ásamt verslun og þjónustu þar sem það á við. Úthlutunaráætlunin gerir ráð fyrir að Bjarg reisi 100 íbúðir í Skerjafirði, Félagsstofnun stúdenta um 160 íbúðir og reitur 5 fari undir verkefnið Hagkvæmt húsnæði sem snýr að uppbyggingu á íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Þá verður gæði gatna, torga og grænna svæða tryggð í deiliskipulagi.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja ótímabært að taka afstöðu til fyrirliggjandi þróunarsvæðis enda liggur nýtt deiliskipulag ekki fyrir. Áður en lengra er haldið er rétt að fá niðurstöður úr umferðarlíkani, umhverfismati og flugöryggismati, svo fátt eitt sé nefnt. Það er ótímabært að veita vilyrði og vekja væntingar um lóðaúthlutun þegar fagleg vinna er svo skammt á veg komin. Langur skipulagsferill er framundan þar sem borgaryfirvöldum er skylt að efna til víðtæks samráðs um skipulagslýsingu, aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagsgerð auk umhverfismats. Það er vissulega mikilvægt að finna frekari húsnæðisuppbyggingu stað í borginni, þá sérstaklega fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis og íbúða fyrir stúdenta og eldri borgara. Meirihlutinn hefur því miður þegar hafnað skynsamlegum tillögum Sjálfstæðisflokks um slíka uppbyggingu við BSÍ-reit og í Örfirisey.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Ég get ekki stutt framkomna tillögu að úthlutunarskilmálum vegna reita 1-3 í Skerjafirði en þeir gera ráð fyrir að efnahagsleg staða ráði eingöngu hverjir fái byggingarrétt. Að mínu mati er réttlátara að dregið sé úr lóðaumsóknum enda sitja þá allir áhugasamir við sama borð, án tillits til fjárhagslegrar stöðu. Varðandi þá reiti sem ætlaðir eru til stærri verktaka vill Sósíalistaflokkurinn leggja áherslu á að þau séu frekar boðin til óhagnaðardrifinna félaga eða að samvinnufélögum sé gert kleift að kaupa þá. Einnig er Sósíalistaflokkurinn þeirrar skoðunar að Reykjavíkurborg ætti að temja sér þá vinnureglu að bjóða óhagnaðardrifnum félögum og samvinnufélögum lóðir áður en einkarekin fyrirtæki fái að komast að borðinu. Sósíalistaflokkurinn vill leggja áherslu á að lóðirnar fyrir hagkvæmt húsnæði fari ekki til hagnaðardrifinna leigufélaga þótt þar séu varnaglar fyrir hækkun leigu þar sem við viljum ekki auka veg þessara fyrirtækja. Sósíalistaflokkurinn vill einnig enn og aftur ítreka að Reykjavíkurborg ætti sjálf að byggja til þess koma t.d. þeim um 900 einstaklingum sem bíða eftir félagslegu húsnæði í öruggt skjól.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að samþykkja úthlutunaráætlun á svæði sem er mjög umdeilt þar sem engar lóðir eru og hafa ekki verið samþykktar. Uppbygging á þessu svæði hefur mætt mikilli gagnrýni enda er um að ræða gríðarlega mikið byggingarmagn eða sem nemur bæjarfélagi á stærð við Stykkishólm með 4000-5000 íbúum. Ekkert alvöru samráð hefur átt sér stað við íbúa frekar en fyrri daginn í lykilákvörðunum í skipulagsmálum. Eingöngu er til rammaskipulag af svæðinu sem hefur enga lagalega þýðingu enda greiddu borgarráðsfulltrúar minnihlutans atkvæði gegn þessu skipulagi í fyrra. Í aðalskipulagi 2010-2030 er talað um 650 íbúðir á þessu svæði en skv. rammaskipulaginu er um 1250 íbúðir að ræða sem kallar á aðalskipulagsbreytingu. Allt lögformlegt ferli á að vera samkvæmt skipulagslögum og því er um eina glærukynninguna enn að ræða. Umhverfismat hefur ekki farið fram, hvorki vegna landfyllingar við Skerjafjörð, eða vegna olíumengaðs jarðvegs eða þeirra umhverfisáhrifa sem uppbygging og uppgröftur á þessu svæði mun hafa á Vatnsmýrina. Borgarfulltrúar Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir fundi í umhverfis- og heilbrigðisráði en því hefur ekki verið sinnt. Athygli vekur að formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs stjórnar borgarráðsfundi þegar þetta mál er samþykkt. Þessi vinnubrögð eru fordæmd og eru Reykjavíkurborg ekki bjóðandi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi vill minna á sveitarstjórnarlög sem varða innkaupareglur og útboð í þessu sambandi sem öðru. Verðviðmið vegna útboðsskyldu vegna verklegra framkvæmda er 28 m.kr. og ætlar borgarfulltrúi rétt að vona að þessum reglum verði fylgt í hvívetna í framkvæmdum í Skerjafirði. Borgarfulltrúi vill gera athugasemdir við landuppfyllingu og spyr af hverju mega fjörur ekki fá að vera í friði? Af hverju landfylling. Á það skal minnst að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Ætlar borgin að hunsa álit sérfræðinga hér og fara gegn viðvörunum? Flokkur fólksins gerir körfu um að hér sé staldrað við og fengið álit frá sérfróðum aðilum svo sem Vegagerðinni og Veðurstofunni. Tekið er undir áhyggjur af umferðarþunga ekki síst meðan á framkvæmdum stendur. Hafa skal í huga að borgarlína kemur ekki á næstunni og ekki er heldur fyrirsjáanlegt að flugvöllurinn fari næstu árin.
Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 7. apríl 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á Gröndalshúsi, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. apríl 2019. R19010187
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sundurliðuð svör vegna fyrirspurna um Nauthólsveg 100, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar 2019. R17080091
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi vill byrja á að þakka ítarleg svör. Þessi svör staðfesta enn og aftur hvílíkur skandall Nauthólsvegur 100 er. Í framkvæmdinni allri úir og grúir af óráðsíu og bruðli og vanvirðing gagnvart fé almennings er átakanleg. Kunningja- og vinavæðing er áberandi. Hugmyndir arkitekta flæða og gildir þá einu hvað þær kosta. Allt þetta er stjórnlaust, án nokkurs eftirlits. Hér er dæmi: Þegar framkvæmdir síðan hófust var óskað eftir að Efla sæi um alla verkfræðilega hönnun á byggingunum. Strax í upphafi var arkitektastofan Arkibúllan valin til að hanna endurbyggingu húsanna við Nauthólsveg 100. Ekki var farin sú leið sem stundum er valin að hafa samkeppni um hönnunina og sigurvegarinn fái að hanna verkið. Ekki var heldur haft samband við fleiri arkitektastofur til að leita eftir tilboðum í hönnunina. Ástæður fyrir því að þessi arkitektastofa var valin liggja ekki ljósar fyrir. Enn fremur var starfsmaður stofunnar, sem síðar varð verkefnisstjóri, fyrrverandi starfsmaður borgarinnar og því kunnugur fyrrverandi skrifstofustjóra og verkefnastjóra SEA. Í fundargerð verkefnisstjórnar, dags. 31. október 2016, kemur fram að landslagsarkitekt hafi verið ráðinn til að hanna lóðina. Mun það hafa verið að tillögu verkefnisstjóra á byggingarstað sem hafði samband við Dagný Land Design (DLD) og óskaði eftir að fyrirtækið tæki að sér þetta verkefni.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 8. apríl 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um listaverkaeign borgarinnar, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. janúar 2019. R19010424
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Markmiðið með fyrirspurninni var að fá einhverja hugmynd um þann hluta af listaverkaeign borgarinnar sem ekki er fólki sýnileg vegna þess að hún er lokuð inn í geymslum. Fram kemur að reynt er að hafa safnkost borgarinnar aðgengilegan eins og kostur er og er það gott. Fram kemur að útilistaverk á skrá eru 182. Þeirri hugsun sló niður í haus borgarfulltrúa hvort borgin ætti t.d. ekki útilistaverk sem er ekki í notkun en sem mætti t.d. skreyta Vogahverfið með eða önnur hverfi ef því er að skipta.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 8. apríl 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um leigubílakostnað, sbr. 64. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2019. R19010265
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar þetta svar sem staðfestir það sem borgarfulltrúi Flokks fólksins taldi að það er ekki stór hluti af leigubílaútgjöldum velferðarsviðs sem fer í að aka með skjólstæðinga borgarinnar. Stærsti hlutinn er vegna starfsmanna, þeirra sem mæta eiga í vinnu þegar almenningsvagnar ganga ekki og er það hluti af kjarasamningum. Þar segir eins og fram kemur í svari að annað hvort sé starfsmanninum séð fyrir ferð eða greiddur ferðakostnaður. Það er búið að afnema aksturssamninga eins og fram kom í síðasta svari. Spurning er hvort leita eigi að hagkvæmari leiðum hér t.d. að borgin leggi enn meiri áherslu á að leggja til bíla þar sem nauðsyn er s.s. vegna heimahjúkrunar og heilbrigðiseftirlits.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 1. apríl 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um Viðeyjarferju sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. mars 2019. R19030158
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 29. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um skilgreindar minjar vegna Nauthólsvegar 100, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. janúar 2019. R17080091
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins:
Þessi svör bera með sér enn frekari staðfestingu að í þessari framkvæmd, Nauthólsvegur 100, var opnað fyrir peningakrana. Margir sem þarna komu að hafi heldur betur „komist í feitt“ eins og það er stundum orðað. Hvert sérstakt viðvik/verk kostaði mikið, sem dæmi kostaði einn gluggi á gaflvegg kr. 1,25 milljónir. Vá! (Endursmíði, en gamli glugginn var til og er fyrirmynd. Ekki þarf því að teikna, bara smíða.) Margt hefði átt að vera vitað fyrirfram t.d. að niðurrif yrði viðkvæmt. Hér er glefsa úr svarinu sem segir mikið „Efni sett til hliðar, geymt til síðari nota sem síðan reyndist ekki hægt“ er dæmi um vitleysisganginn. Gaflveggur er gerður upp í stað endursteypunar kemur fram á einum stað og enn aftur síðar „smíðaðar voru stálstyrkingar til styrkingar á gömlum rústum, allir veggir voru ójárnbendir og vandasamt að koma þessu á húsið“. Af hverju voru ekki steyptir nýir veggir? Að styrkja með stáli er eins mikil sögufölsun og að steypa að nýju. Þessi atriði sem varða gaflveggina kostuðu rúmlega 7 milljónir. Einn liður í svarinu er: Gamlir stálbogar endurnýttir. Segir þar að hluti stálboga var endurnýttur sem stöllun á lóð, hreinsaðir og styrktir. Þetta eitt kostaði 1,8 milljónir. Þarna er verið að leika sér með fé borgarbúa eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta er hneyksli og slæmt að frá þessu ganga ábyrgðaraðilar eins og ekkert sé.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 28. mars 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við borgarstjórnarsal og Tjarnargötu vegna fjölgunar borgarfulltrúa, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. mars 2019. R14010250
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins undrast einstaklega rýr svör varðandi heildarkostnað vegna fjölgunar borgarfulltrúa. Ljóst er að kostnaðurinn skiptir tugum milljóna og framkvæmdir eru á lokastigi. Ef ekki er haldið utan um þennan kostnað er það ámælisvert.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að gera bólusetningar að skilyrði við innritun barna á leikskólum í Reykjavík, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. mars 2019. Einnig er lögð fram umsögn sóttvarnarlæknis um tillöguna, dags. 2. apríl 2019. R18090041
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sóttvarnarlæknir segir að leiðin til að auka þátttöku í bólusetningum sé meira eftirlit heilsugæslunnar. Það er engin lausn að jaðarsetja börn foreldra sem þurfa frekar aðstoð og hjálp og við núverandi aðstæður eru boð og bönn ekki skynsamlegasta leiðin til að fjölga bólusettum börnum, líkt og fram kemur hjá sóttvarnarlækni.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráð samþykkir að leita samstarfs við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um aukna þátttöku barna í almennum bólusetningum. Leitast verði eftir því að heilsugæslan tryggi viðveru hjúkrunarfræðings í leikskólum borgarinnar með sambærilegum hætti og tíðkast í grunnskólum landsins. Hjúkrunarfræðingi yrði falið að framkvæma almennar bólusetningar leikskólabarna við 12 mánaða, 18 mánaða og 4 ára aldur inni á leikskólunum, að höfðu samráði við og gefnu samþykki foreldra. Þannig mætti tryggja aukna þátttöku barna í almennum bólusetningum. Eins yrði kannað hvort fela mætti hjúkrunarfræðingi þroskamat og þroskaskimun barna inni á leikskólum við 12 mánaða, 18 mánaða, 2 ½ árs og 4 ára aldur. Ætla má að leikskólar barnanna séu æskilegra umhverfi fyrir slíka þroskaskimun enda hefðbundið umhverfi barnanna. Eins gæti viðvera hjúkrunarfræðings stuðlað að bættu lýðheilsustarfi innan leikskólanna og betri viðbrögðum við þeim lýðheilsuvandamálum sem upp geta komið.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19040149
Frestað.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins óskar eftir að fá nýjar upplýsingar um stöðu eldri borgara er varða bið eftir heimaþjónustu og hjúkrunarrýmum. Staðan í desember 2018 var sú samkvæmt velferðarsviði að 53 einstaklingar lágu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið myndar eitt heilbrigðisumdæmi, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur. Á annan tug biðu eftir heimahjúkrun. Borgarfulltrúi er ósáttur við að tillögunni um hagsmunafulltrúa eldri borgara var hafnað. Öldungaráð Reykjavíkur veitti umsögn þar sem segir að nú þegar sé verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi sé umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara og taldi ekki þörf á stofnun sérstaks hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða. Engu að síður berast fréttir af eldri borgurum í neyð. Tillagan um hagsmunafulltrúann fól í sér að hann myndi skoða málefni eldri borgara ofan í kjölinn, halda utan um hagsmuni þeirra og fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hagsmunafulltrúinn átti að kortleggja stöðuna í heimahjúkrun, dægradvöl og heimaþjónustu fyrir aldraða. Sá „þjónustufulltrúi“ sem meirihlutinn leggur til að verði ráðinn kemur ekki í staðinn fyrir „hagsmunafulltrúa“ Flokks fólksins enda sinnir sá fyrrnefndi aðeins upplýsingamiðlun. R19040141
Vísað til umsagnar velferðarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fyrirspurn um stöðu mála Hólaborgar og Suðurborgar hvað varðar tillögu meirihlutans um sameiningu þessara tveggja leikskóla. Óskað er eftir upplýsingum um hvenær niðurstaða þessa máls mun liggja fyrir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að svör berist sem fyrst þar sem málið allt er farið að hafa virkilega mikil áhrif á starfsmenn tilfinningalega og fólk er farið að finna fyrir vonleysi. Málið hefur legið á borði skóla- og frístundasviðs síðan 8. janúar ásamt umsögnum frá starfsfólki og er því tímabært að starfsfólk og foreldrar fari að fá svör. R19030028
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fyrirspurnir vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins lagði fyrir stuttu fram tillögur um að innri endurskoðun tæki út þrjár framkvæmdir með sambærilegum hætti og braggann, sem farið hafa umtalsvert fram úr fjárhagsáætlun. Þessar framkvæmdir eru Gröndalshús, vitinn við Sæbraut og Aðalstræti 10. Tillaga um úttekt á Gröndalshúsi var felld í borgarráði. Innri endurskoðun hefur upplýst að umsögn SEA kom ekki til skoðunar hans áður en hún var lögð fram. Spurt er af hverju kom umsögn SEA sem lögð var til grundvallar þess að tillögunni var synjað ekki til skoðunar innri endurskoðunar áður en hún var lögð fram? Munu tillögur Flokks fólksins um úttekt á vitanum við Sæbraut og Aðalstræti 10 koma til skoðunar innri endurskoðanda áður en þær verða afgreiddar, felldar, vísað frá eða samþykktar? R19010187
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga um fjölbreyttar leiðir til að upplýsa borgarbúa um réttindi þeirra, þar með talið útgáfa upplýsingabæklings. Það er staðreynd að ekki tekst að upplýsa alla borgarbúa sem eiga tilkall til sértækra réttinda um réttindi þeirra. Það er skylda borgarmeirihlutans að láta einskis ófreistað til að koma upplýsingum til þessa hóps með eins fjölbreyttum hætti og mögulegt er. Leiðir sem hægt er að fara er að hringja í fólk, senda tölvuskeyti, auglýsa, heimsækja fólk eða senda bréfapóst. Með hverju ári sem líður er borgin að vera æ meira bákn og flækjustig fjölmargra ferla hefur aukist. Nú glittir vissulega í einhverja einföldun á einhverju af þessu og er það gott. Flokkur fólksins leggur til að borgarmeirihlutinn ráðist í að gefa út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar. R19040142
Frestað. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að Reykjavíkurborg setji það á stefnuskrá sína að grípa til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum. Það eru tæpar 500 fjölskyldur með um 800 börn sem eru með fjárhagsaðstoð. Á annað þúsund barna býr í félagslegu leiguhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar og 1.000 barnafjölskyldur fá sérstakan húsnæðisstuðning. Borgin ætti að horfa mun meira til tekna foreldra og forráðamanna þegar gjald sem snýr að börnum, sem dæmi skólamáltíðir, dvöl á frístundaheimili/félagsmiðstöð og tómstundir er ákvarðað. Framtíðarmarkmiðið ætti að vera að ofangreindir þættir séu gjaldfrjálsir fyrir fjölskyldur sem eru undir framfærsluviðmiði. Áður hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins lagt til að gjald skólamáltíða verði lækkað til að tryggja að ekkert barn væri svangt í skólanum en þær tillögur voru felldar. Það er ekki verið að gera nóg fyrir fjölskyldur sem eru í mestri neyð eins og staðan er núna. Börnum fátækra foreldra er mismunað á grundvelli efnahags foreldra þeirra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar sértækar aðgerðir til að létta byrði þeirra er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19040143
Frestað.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Spurt er hvort það liggi fyrir upplýsingar um hver ávinningur hefur verið af sameiningu leikskóla og grunnskóla í Reykjavík undanfarin ár. Svar óskast sundurliðað eftir skólum. Bæði er spurt um fjárhagslegan ávinning sem og faglegan ávinning, þ.e. m.v. ef ekkert hafi verið gert. R19040144
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgin sem vinnuveitandi leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Fjölmörg störf er hægt að bjóða upp á þar sem sérstakrar líkamlegrar færni er ekki krafist. Aldrað fólk býr yfir umtalsverðum kostum, menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki með öllum þeim störfum sem þar bjóðast og bjóða upp á sveigjanleika þegar komið er að starfslokum. Sumir vilja hætta áður en „70 ára“ markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá. Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu. Ekki er vitað hversu auðfengin slík undanþága er. Einnig er hægt að hafa starfsmenn lausráðna í tímavinnu eftir 70 ára og um það höfum við reynslu af t.d á Droplaugarstöðum sem er hjúkrunarheimili. En betur má ef duga skal. Hér er hægt að gera svo miklu meira enda það sem nú er í boði afar stíft og ósveigjanlegt. R19040145
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að reglur um frístundakort verði rýmkaðar til að hægt sé að nota það til þátttöku í stuttum verkefnum. Lagt er til að reglur um frístundakortið verði víkkaðar þannig að hægt sé að nota það með rýmri hætti en nú er hægt. Reglurnar eru allt of strangar eins og þær eru í dag og niðurnjörvaðar. Eins og reglurnar eru nú er einungis hægt að nota kortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi. Þetta eru allt of strangar reglur. Um þetta þyrfti að losa. Hægt ætti að vera nota kortið til þátttöku í stuttum íþrótta- og félagslega tengdum verkefnum. Í þessu tilfelli skiptir húsnæði ekki miklu máli og mætti t.d. taka út þann þátt. 10 vikur er allt of langur tími og hentar ekki öllum börnum og unglingum. Sjálfsagt ætti að vera að systkini noti sama kortið ef það hentar þeim.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19040147
Frestað.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga um enn frekari einföldun á reglum um fjárhagsaðstoð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt. R19040146
Frestað.
- Kl. 13:20 víkja Daníel Örn Arnarsson og Vigdís Hauksdóttir af fundi.
Fundi slitið klukkan 13:38
Líf Magneudóttir Dagur B. Eggertsson
Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir
Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir