Borgarráð - Fundur nr. 5541

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 4. apríl, var haldinn 5541. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þór Elís Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Dagný Magnea Harðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 28. mars 2019. R19010016

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að borgin hefur keypt leigubílaþjónustu án útboðs fyrir tugi milljóna, tæpar 70 milljónir á síðasta ári, sem er langt yfir útboðsmörkum. Mikilvægt er að borgin hagræði með útboðum eins og kostur er.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 3. apríl 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að samráð verði haft við hagsmunaaðila eins og samþykkt hefur verið.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Miðflokkurinn fordæmir að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila við ákvörðunartöku um varanlegar göngugötur. Yfirlýsing borgarstjóra á fundi borgarstjórnar 4. september síðastliðinn um að Laugavegur skyldi verða göngugata frá Hlemmi vekur sérstaka eftirtekt, enda myndi slíkt þýða að aðkoma að 200 stæða bílastæðahúsi Bílastæðasjóðs borgarinnar myndi lokast. Gerræðislegar yfirlýsingar sem þessi eru ekki merki um að samráð og sátt sé ofarlega á baugi hjá borgarstjóra enda hefur nú verið ákveðið að svara í engu fjölda athugasemda og undirskriftalistum er málið varða. Fyrir borgarstjórnarfund sem haldinn var 2. apríl sl. komu fulltrúar 90% rekstraraðila á þessu svæði og afhentu borgarstjóra undirskriftir þar sem öllum lokunum er mótmælt harðlega. Miðflokkurinn stendur með þessum aðilum í baráttu sinni gegn gerræðislegum vinnubrögðum borgaryfirvalda. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins gerir alvarlega athugasemd við að hafist verði handa við vinnu og forhönnun á Laugavegi og Skólavörðustíg sem er á dagskrá skipulags- og samgönguráðs 3. apríl 2019, liður 2 og 3. Í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór í borgarstjórn 2. apríl sl. vegna tillögu Flokks fólksins þar sem farið var fram á nánara samráð um framkvæmdir við hagsmunaaðila, eldri borgara, fatlaða og almenna borgarbúa víðs vegar í borginni, m.a. með vel útfærðri skoðanakönnun. Í ljós hefur komið að ekki er möguleiki að hefja undirbúning eða framkvæmdir fyrr en grenndarkynning hefur átt sér stað. Jafnframt þarf að kanna vilja allra Reykvíkinga áður en hafist er handa við svo stórtækar aðgerðir á einu vinsælasta svæði borgarinnar. Það skal jafnframt bent á að ekki stendur til að hreyfihamlaðir né aldraðir hafi aðgang að götunum þegar veður eru válynd. Þá verða göturnar lokaðar þeim stærsta hluta ársins. Ljóst er að meirihluti borgarstjórnar ætlar að troða sínum hugmyndum og áætlun á lokun þessara gatna yfir alla borgarbúa og taka lítið sem ekkert mark á óskum hópa sem hafa áhyggjur af þessum framkvæmdum, þá sérstaklega hagsmunaaðila við þessar götur. Þessir aðilar eru þeir sem halda lífinu lifandi í götunum, en það virðist meirihlutanum engan veginn ljóst.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk, bæta mannlíf og auka verslun. Meðan göngugötur verða opnar á komandi sumri verður áfram unnið að skipulags- og hönnunarvinnu í tengslum við fyrirætlanir borgarstjórnar um göngugötur allt árið. Í þeirri vinnu verður áfram lögð rík áhersla á samráð við íbúa, atvinnulíf og aðra hagsmunahópa. Í ljósi bókana minnihlutaflokkanna er rétt að halda því til haga að aðgengismál verða tryggð á Laugavegi við endurhönnun götunnar sem göngugötu.

    Fylgigögn

  3. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. febrúar og 14. mars 2019. R19010026

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R19040002

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19040003

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við breytingar á húsnæði við Grandagarð 1a. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. R19040013
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þó þessi verkefni séu jákvæð er óvissa með endanlegan kostnað og því sitjum við hjá.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Hverfisgötu milli Smiðjustígs og Ingólfsstrætis. Kostnaðaráætlun 2 er 180 m.kr. R19040014
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þó þessi verkefni séu jákvæð er óvissa með endanlegan kostnað og því sitjum við hjá.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 1. apríl 2019, þar sem drög að erindisbréfi þverfaglegs starfshóps um húsnæði fyrir alla er lagt fram til kynningar. R18020215

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir umfangsmikilli uppbyggingu húsnæðis. Hluti þeirrar uppbyggingar eru íbúðir fyrir tekjulága hópa og heimilislaust fólk með flóknar og miklar þjónustuþarfir. Þegar eru hundruð íbúða í uppbyggingu með stofnframlögum frá ríki og borg sem reist eru af félögum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Tilgangur með stofnun þessa starfshóps er að skerpt verði á hlutverkum aðila innan Reykjavíkurborgar til að hraða einkum uppbyggingu íbúða fyrir skilgreinda forgangshópa, auka skilvirkni milli ólíkra aðila, auka skilning þeirra á milli og þekkingu á mismunandi hlutverkum og ábyrgðarsviðum innan borgarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mikilvægt að borgarkerfið sé skilvirkt og er skipan þessa starfshóps mikilvægt skref til að stytta boðleiðir í húsnæðis- og skipulagsmálum. Veitir ekki af. Rétt er að benda á að erindi Bjargs til borgarstjóra frá 22. júní í fyrra hefur enn ekki verið formlega svarað. Þá þarf áfram að bæta skilvirkni í byggingarverkefnum aldraðra, hjúkrunarheimila og svo almennra borgara, en afgreiðsla erinda hefur ítrekað tekið of langan tíma.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þessu verkefni, en vill árétta að byggingarfélög aldraðra og jafnframt öryrkja verði tekin með inn í þetta góða verkefni og gleymist ekki í þeirri þróun sem er á áætlun í verkefninu.

    Ólöf Örvarsdóttir, Óli Jón Hertervig og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. apríl 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samkomulagi við Orkuveitu Reykjavíkur og Veitur ohf. um uppbyggingu innviða til hleðslu á rafbílum í Reykjavík. Markmið samkomulagsins er að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla þeim til afnota sem síður geta komið upp slíkum búnaði heima fyrir og starfsfólk Reykjavíkurborgar. Þá er markmið samkomulags þessa að hvetja húsfélög fjöleignarhúsa til að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Gert er ráð fyrir kostnaði Reykjavíkurborgar vegna samkomulagsins, 20.000.000 kr. árlega í þrjú ár, á fjárfestingaáætlun. R18020215

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með því að tryggja innviði fyrir rafbíla gerum við íbúum borgarinnar auðveldara um vik að eiga og reka rafbíl. Um er að ræða þrenns konar aðgerðir; 30 hleðslur við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar, ýmist við skóla, stofnanir eða aðra starfsemi borgarinnar, 60 hleðslur víðsvegar á landi borgarinnar og loks 120 milljóna króna sjóð til að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði.

    Ólöf Örvarsdóttir, Óli Jón Hertervig, Guðmundur B. Friðriksson og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 28. mars 2019,  að úthlutunaráætlun fyrir norðurhluta skipulagssvæðisins í Skerjafirði þar sem gert er ráð fyrir um 750 íbúðum á reitum 1-15. R18100338
    Frestað. 

    Ólöf Örvarsdóttir, Óli Jón Hertervig, Óli Örn Eiríksson og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  11. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 29. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti að þessu sinni í fiskiskipinu Guðnýju SU 31, ásamt kauptilboði. R19030305
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 29. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð afturkalli úthlutun lóðar að Skúlagötu 11, ásamt fylgiskjölum. R14070033
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram skýrsla innri endurskoðunar, dags. 18. mars 2019, um verklegar framkvæmdir og innkaupamál. Einnig er lögð fram umsögn endurskoðunarnefndar, dags. 12. mars 2019, og minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 28. mars 2019. Einnig er lagt fram minnisblað innri endurskoðanda, dags. 4. apríl 2019.  R19030110

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga borgarstjóra, dags. 2. apríl 2019:

    Lagt er til að skýrslu innri endurskoðunar um verklegar framkvæmdir og innkaupamál og þeim ábendingum sem hún felur í sér verði vísað í eftirfarandi farveg: Í fyrsta lagi til meðferðar í þeirri umbótavinnu sem stendur yfir varðandi innleiðingu á nýju skipuriti og stjórnkerfisbreytingum. Í öðru lagi að nýju innkaupa- og framkvæmdaráði verði falið að fylgja eftir þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni. Þar til innkaupa- og framkvæmdaráð tekur til starfa 1. júní nk. verði þess gætt að borgarráð fái ítarlegri kynningar á kostnaðaráætlunum í tengslum við samþykkt útboð verklegra framkvæmda.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Niðurstaða skýrslu innri endurskoðunar er að frávik þriggja verkframkvæmda sem skoðaðar voru reyndust innan viðmiða kostnaðaráætlana en það voru Sundhöllin, viðbygging við Vesturbæjarskóla og framkvæmdir við Grensásveg. Eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum fóru framkvæmdir við Hlemm Mathöll umfram áætlun. Endurgerð þessa mannvirkis hefur reynst ofanverðum Laugavegi afar mikilvæg og myndar nú akkeri mannlífs, verslunar og þjónustu í þessum hluta miðborgar. Til stendur að fara í frekari fjárfestingar í torgum, götum og grænum svæðum í nágrenni við Hlemm. Eins og kunnugt er var endurgerðin kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir vegna þess að þakið var ónýtt og að auka þurfti getu hússins m.t.t. rafmagns vegna starfsemi leigutaka í húsinu. Leigusamningar um húsnæðið byggðu á auglýsingaferli og mati þriggja fasteignasala og eru metnir eðlilegir af hálfu innri endurskoðunar. Þá setti innri endurskoðun fram ábendingar í skýrslunni um þau atriði sem betur megi fara í tengslum við verklegar framkvæmdir og innkaupamál hjá borginni. Innri endurskoðun hefur farið yfir þær ábendingar sem gerðar voru í skýrslunni með stjórnendum og tengiliðum og eins og segir í skýrslunni er það mat innri endurskoðunar að viðbrögð stjórnenda séu við hæfi og að viðbrögð þeirra og tillögur myndi ágætan grunn svo hægt sé að bæta úr þeim atriðum sem bent var á.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Innri endurskoðun birti borgarráði í dag bréf þar sem gerðar eru athugasemdir við minnisblað fjármálastjóra. Ljóst er að stofnanir borgarinnar eru ósammála um mikilvæg atriði svo sem öflun og meðferð fjárheimilda, en innri endurskoðun er eftirlitsaðilinn. Í minnisblaðinu kemur fram að auk þess hefur endurskoðunarnefnd borgarinnar þessi mál til skoðunar. Þá hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sent borgarstjórn bréf þar sem óskað er skýringa á hvers vegna ábendingum innri endurskoðunar frá 2015 hafi ekki verið sinnt. Rétt er að benda á að þrír eftirlitsaðilar eru því að skoða þessi framúrkeyrslumál.  

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í vandaðri skýrslu innri endurskoðunar koma fram ellefu ábendingar um það sem betur má fara í fjórum framkvæmdum borgarinnar. Ein þeirra er merkt á rauðu áhættustigi; gerð kostnaðaráætlana. Þá eru mikil frávik frá upphaflegum fjárhagsáætlunum, en þær liggja til grundvallar ákvörðunum um að fara í verk. Frávik frá upphaflegum fjárhagsáætlun eru 72% í þessum fjórum verkefnum, samtals 1.372 milljónir króna. Frávikið er mest 193% í Mathöll við Hlemm en þar fór kostnaður auk þess fram úr samþykktum fjárheimildum, sem er óheimilt samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Þá voru útboðslýsingar ófullnægjandi og hefur það orðið til þess að innkaupaferlið raskaðist. Í skýrslunni segir orðrétt: „Í þessari úttekt hefur komið í ljós að hlítni við innkaupareglur og innkaupastefnu Reykjavíkurborgar er ábótavant þegar kemur að útboðum og innkaupaferilsskyldu. Svo virðist sem lauslegar áætlanir séu gerðar um einstaka verkþætti sem eru jafnvel undir viðmiðum um útboðsskyldu en endanlegur kostnaður leiðir í ljós að viðhafa hefði þurft útboð ef áætlanir hefðu verið raunhæfari.“ Rétt er að benda á að í engu þessara verkefna lá skilamat fyrir, þvert á reglur borgarinnar. Nauðsynlegt er að gerð verði úttekt á öðrum verkefnum svo sem Gröndalshúsi og vitanum við Sæbraut. Ennfremur telur Sjálfstæðisflokkurinn nauðsynlegt að kanna hvernig staðið var að samningum og riftun verkefnis á Grensásvegi 12.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú liggja fyrir niðurstöður úttektar innri endurskoðunar (IE) á Mathöll, Sundhöll, hjólastíg við Grensásveg og Vesturbæjarskóla. Öll verkefni fóru fram úr áætlun. Mathöllin fór 102% fram úr kostnaðaráætlun og útgjöld án heimilda voru 46,9 m.kr. Niðurstaða IE er að hugsanlega voru sveitarstjórnarlög brotin. Útboði var verulega ábótavant, sem dæmi voru endurbætur utanhúss gerðar á grundvelli innkaupaferlis en trésmíðavinna innanhúss var ekki boðin út. Kostnaðaráætlanir voru ítrekað vanmetnar. Áætlanir um eftirlit reyndust einnig stórum vanmetnar. Segir í skýrslunni að ítrekaðar vanáætlanir skaði ekki bara orðspor heldur veki upp spurningar um hvort önnur sjónarmið liggi að baki, s.s. „að fá samþykki á grundvelli vanmetinnar áætlunar í trausti þess að sækja viðbót síðar enda ekki hægt að stöðva framkvæmdir“. Rauð ábending er vegna alvarlegra veikleika í innra eftirliti og rautt áhættustig snýr að gerð kostnaðaráætlana fyrir alla verkþætti sem umhverfis- og skipulagssvið ber ábyrgð á. Fram hefur komið hjá endurskoðunarnefnd að alltof langur tími (2-4 ár) líður oft frá því að úttekt er gerð af IE og þar til skrifstofan fylgir eftir eigin ábendingum. Hefði IE fylgt ábendingum skýrslu 2015 eftir, hefði aldrei orðið neinn braggaskandall. Þetta er grafalvarlegt og innihald skýrslunnar allrar er enn eitt áfallið sem dynur á borgarbúum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Niðurstaða innri endurskoðunar var að sveitarstjórnarlög voru ekki brotin. Frávik þriggja verkframkvæmda sem skoðaðar voru reyndust innan óvissuviðmiða en eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum fóru framkvæmdir við Hlemm Mathöll fram úr áætlun. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Innri endurskoðandi Reykjavíkur sá sig knúinn til að leggja fram minnisblað vegna minnisblaðs fjármálastjóra, dags. 28. mars 2019. Upp er kominn mikill túlkunarágreiningur á milli embættanna vegna 63. og 66. gr. sveitarstjórnarlaga. Innri endurskoðandi vekur athygli á því að endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar hefur tekið fyrrgreint minnisblað fjármálaskrifstofu til umfjöllunar og samþykkt að óska eftir áliti sérfróðs lögfræðings til úrskurðar í málinu. Fjármálastjóri vísar til 63. gr. laganna og fjallar um meðferð fjárheimilda hjá Reykjavíkurborg. Þar kemur fram að meginreglan sé sú að ákvörðun um auknar fjárheimildir skuli taka áður en fjármunum er ráðstafað sé þess kostur en ella svo fljótt sem verða má. Fjármálastjóri vísar í minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 5. febrúar 2019, þar sem sagt er að með samþykkt á ársreikningi séu öll fjárútlát samþykkt. Þessu er borgarfulltrúi Miðflokksins algjörlega ósammála. Slík vinnubrögð gætu leitt til þess að slá ryki í augu kjörinna fulltrúa og ekki síður endurskoðenda Reykjavíkur sem árita ársreikninga. Enn standa eftir útborgaðar, ósamþykktar 48 milljónir vegna Mathallar á Hlemmi og 73 milljónir á braggann. Þessar staðreyndir eru skýrt brot á sveitarstjórnarlögum og verður að taka mjög alvarlega. Borgarfulltrúi Miðflokksins fékk ekki svör til hvaða ráða kjörnir fulltrúar geti gripið þegar um svo alvarlegt brot er að ræða. Mathöllin fór 102% fram úr kostnaðaráætlun.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Niðurstaða innri endurskoðunar var að sveitarstjórnarlög voru ekki brotin. Frávik þriggja verkframkvæmda sem skoðaðar voru reyndust innan óvissuviðmiða en eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum fóru framkvæmdir við Hlemm Mathöll fram úr áætlun. 

    Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Jenný Stefanía Jensdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. apríl 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að framsetning og uppgjör kostnaðar vegna fjárfestinga og framkvæmda í öllum gögnum borgarinnar, þar með talið samanburður á raunkostnaði og áætlunum, verði samræmdur við framsetningu framkvæmdasýslu ríkisins, sbr. meðfylgjandi skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins, Lykiltölur úr skilamötum FSR 1998-2016, dags. janúar 2019. Jafnframt verði skilgreiningar og hugtök samræmd, sem og önnur framsetning, eftir því sem kostur er. Markmiðið er að auka gagnsæi og skýrleika, auðvelda samanburð og eftirlit milli ólíkra verkefna og mismunandi verkkaupa. R19040010

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt er að benda á að skilamöt vantar fyrir ýmsar framkvæmdar og er það brot á reglum Reykjavíkurborgar. Má hér nefna verkefnin sem fjallað er um í skýrslu IE um fjögur framúrkeyrsluverkefni, dags. 18. mars 2019.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 1. apríl 2019, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019, ásamt fylgiskjölum. R19010200
    Vísað til borgarstjórnar.

    -    Kl. 12:30 víkur borgarstjóri af fundinum. 

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. mars 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að þjónustusamningi til þriggja ára við Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) um samvinnu á sviði menningarmála fyrir árin 2019-2021. Reykjavíkurborg og BÍL hafa gert þjónustusamning frá árinu 2007. Markmið samstarfsins er gagnkvæmur ávinningur á sviði menningarmála þar sem Reykjavíkurborg styrkir starf BÍL sem veitir Reykjavíkurborg ráðgjöf og aðstoð samkvæmt nánara samkomulagi. Árleg greiðsla Reykjavíkurborgar til BÍL er 1.060.000 kr. og færist af kostnaðarstaðnum 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur. R19030339

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. apríl 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að veita Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi 1.500.000 kr. fjárframlag vegna framleiðslu á fræðsluþáttaröð um loftslagsmál. Fjárhæðin skal færast af kostnaðarstaðnum ófyrirséð, 09205. Þáttaröðin Hvað höfum við gert? fjallar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið um skuldbindingar í loftslagsmálum til ársins 2030. Fræðsluþættirnir eru gerðir fyrir sjónvarp og samfélagsmiðla og fer sýning þáttaraðarinnar fram á RÚV. R19010399

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í loftslagsstefnu Reykjavíkur er kveðið á um að borgin stuðli að vitundarvakningu um loftslagsmál. Þess vegna styrkir borgin Félag SÞ á Íslandi sem notar fjármagnið til framleiðslu á þáttaröð um loftslagsmál. Ríkisstjórnin er meðal bakhjarla verkefnisins enda afar mikilvægt að landsmenn séu meðvitaðir um afleiðingar loftslagsbreytinga sem hafa m.a. orsakað öfgar í veðurfari, súrnun sjávar og óvissu um náttúruauðlindir, hækkun hita í andrúmslofti með bráðnun jökla, hækkun yfirborðs sjávar og almennt ófyrirséðum afleiðingum fyrir náttúru og lífríki. Þættirnir eru afar vandaðir og hafa þeir vakið verðskuldaða athygli. Borgin er með framsækna og tímasetta áætlun í mörgum liðum til þess að ná kolefnishlutleysi árið 2040 og samræmist þessi styrkur þeirri áætlun vel.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins bendir á að óljósar reglur eru hjá Reykjavíkurborg um styrkveitingar til kvikmyndagerðar. Kvikmyndagerðarmenn og fyrirtæki þeirra leggja mikla vinnu í umsóknir og undirbúningsvinnu við kvikmyndaverkefni sín. Þessi vinna er bæði kostnaðarsöm og tímafrek sem er oftast eigið framlag kvikmyndagerðarmanna til verkefnisins. Að þeirri vinnu lokinni hefst umsóknarferli um styrki eða með öðrum orðum fjármögnun. Það væri eðlilegt að stærsta sveitarfélag landsins hafi skýrari reglur og jafnvel sjóð til að kvikmyndagerðarmönnum sé ljóst hvert þeir eigi að beina umsóknum sínum, en ekki bíða í óvissu þar sem umsókn fer á milli ráða og stofnana innan borgarinnar áður en þeim er svarað.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. mars 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að styrkja Reykjavik Crossfit® Championship, fyrstu alþjóðlegu Crossfit® keppnina á Íslandi, sem haldin verður í Laugardalshöllinni dagana 3.-5. maí 2019. Búist er við að um 2.200 aðilar sæki viðburðinn auk þess sem bein útsending verður frá viðburðinum um allan heim. Lagt er til að styrkur Reykjavíkurborgar vegna viðburðarins verði 9.000.000 kr., fært af kostnaðarstaðnum ófyrirséð 09205, til að mæta kostnaði við leigu á Laugardalshöll og skal styrkurinn greiðast beint til Íþrótta- og sýningarhallarinnar. R19010363

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. mars 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. mars 2019, á samningi um samstarf Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs um starfsþróun og nýsköpun í menntun. R19040015
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju umsögn borgarlögmanns, dags. 27. mars 2019, um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. mars 2019. R19030045
    Samþykkt með 5 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins Hildar Björnsdóttur gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins Mörtu Guðjónsdóttur. 
    Borgárráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Eyþór Arnalds situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Viðræður um framtíð Reykjavíkurflugvallar eru í góðum farvegi milli ríkisins og Reykjavíkurborgar þar sem verið er að kanna aðra kosti undir staðsetningu innanlandsflugs. Það vekur því furðu að slík þingsályktunartillaga liggi fyrir þinginu á meðan verið er að vinna í málinu. Undirskriftir íbúa um allt land urðu til þess að niðurlagningu flugvallarins var frestað. Niðurstaða Rögnunefndarinnar var afdráttarlaust að besta staðsetningin væri í Hvassahrauni. Um langa hríð hefur það verið stefna Reykjavíkurborgar að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri og er það jafnframt stefna þeirra flokka sem mynduðu meirihluta eftir kosningar sl. vor. Stór flugvöllur í miðborg er tímaskekkja en betur færi á að hafa hann á eða við höfuðborgarsvæðið. Þá gengur þessi tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar um að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum. Löggjafinn getur með engu móti einhliða samþykkt verulega skerðingu á stjórnarskrárvörðum rétti Reykjavíkurborgar. Meirihluti borgarráðs hvetur ríkisvaldið til að hraða vinnu við að finna stað fyrir æfingaflug og kennslu. Þá vekur það jafnframt furðu að tillagan gerir ráð fyrir að færa miðstöð sjúkraflugs frá Akureyri til Reykjavíkur án nokkurs samráðs við bæjaryfirvöld á Akureyri.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Innanlandsflugið eru mikilvægar almenningssamgöngur fyrir landsmenn alla. Efni þessarar þingsályktunartillögu er að efna skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni en ekki um skipulagsmál í Reykjavík eins og kemur fram í áliti borgarlögmanns. Hér er því um mikinn misskilning að ræða hjá borgaryfirvöldum. Minnt er á að um 70.000 landsmanna skrifuðu nafn sitt á undirskriftarlista til stuðnings þess að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Þær undirskriftir hafa verið hafðar að engu. Markmið tillögunar er að landsmenn allir fái tækifæri til þess að segja hug sinn um málið og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna. Ljóst er að ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innanlands og að staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og sem varaflugvöllur. Þá gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins. Það skal áréttað hér að það er skoðun borgarfulltrúa Miðflokksins að skipulagsvald þeirra sveitarfélaga sem hafa alþjóðaflugvelli verði fært til ríkisins.

    Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:

    70 þúsund einstaklingar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Sú undirskriftasöfnun fór fram á vegum félagsins Hjartað í Vatnsmýrinni 2013 og var afhent þáverandi borgarstjóra Jóni Gnarr og þáverandi formanni borgarráðs Degi B. Eggertssyni. Meirihluti borgarstjórnar virti þau sjónarmið sem þar komu fram að vettugi og sópuðu undirskriftasöfnuninni undir teppi og hefur haldið áfram að fara gegn vilja meirihluta borgarbúa og landsmanna í þessu máli. Nú setur meirihlutinn sig upp á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og leggur til að þjóðin fái ekki að segja álit sitt á málinu á lýðræðislegan hátt. Þessi framganga er til marks um það að allt tal meirihlutans um íbúalýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð er markleysa. Það getur ekki talist réttlætanlegt að einungis 23 borgarfulltrúar taki endanlega ákvörðun í þessu mikilvæga máli sem snertir ekki bara borgina heldur alla landsbyggðina. Reykjavíkurflugvöllur er ein meginsamgönguæð við landsbyggðina og mikilvægur fyrir sjúkraflug þar sem eina hátæknisjúkrahús landsins er staðsett í Reykjavík. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja mikla áherslu á íbúalýðræði. Raunverulegt, beint íbúalýðræði fæst með reglulegri og góðri upplýsingagjöf, samráði, virkri þátttöku íbúa á öllum stigum ferlisins og möguleikum á inngripum eftir lýðræðislega skilgreindum leiðum í kjölfar upplýstrar umræðu um málefnið en ekki með beinum kosningum eftir hentisemi kjörinna fulltrúa.

    Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það getur ekki talist íbúalýðræði að fara gegn vilja meirihluta borgarbúa og landsmanna og vinna að því að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt stærsta hagsmunamál borgarbúa og þjóðarinnar allrar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins er andvígur því að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um Reykjavíkurflugvöll, en áréttum að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni þangað til að annað hentugra stæði finnst fyrir þennan nauðsynlega flugvöll fyrir alla landsbyggðina.

    Fylgigögn

  21. Lagður fram úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2891/2018, Iðnó ehf. gegn Reykjavíkurborg. R18110094

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf borgarstjóra, 29. mars 2019, þar sem bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins varðandi þjóðarleikvang fyrir frjálsar íþróttir og innanhússíþróttir er sent borgarráði til kynningar. R15020197

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 28. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um Bústaðaveg 151, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. mars 2019. R19030312

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. mars 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við erindi Hrafnistu um aðkomu að rekstri sundlaugarinnar, sbr. 65. lið fundargerðar borgarráð frá 7. mars 2019. R18110254

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sundlaug við Hrafnistu er í eigu Sjómannadagsráðs. Reykjavíkurborg kemur ekki að viðhaldi á fasteignum í eigu Sjómannadagsráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að ef borgin er á annað borð að leggja fé í byggingar ætti hún vissulega að hafa áhrif á hvernig því fé er varið og þar með talið hvernig byggingunni er haldið við. Auðvitað er hægt að togast á um þetta með ábyrgðina og sennilega ber borginni ekki lögbundin skylda til að annast þetta viðhald.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 31. mars 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um viðbótaupplýsingar vegna Rafstöðvarvegar 4, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2019. R19020196

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 27. mars 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gögn og skýrslur um viðhaldsþörf í fasteignum borgarinngar, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. mars 2019. R19030156

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 1. apríl 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna strætóferða kjörinna fulltrúa og starfsmanna, sbr. 69. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2019. R19030071

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Athygli vekur að engar upplýsingar eru um ferðir starfsmanna með almenningssamgöngum. Ennfremur liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um framkvæmd „samgöngusamninga“ sem gerðir hafa verið við starfsmenn. Á sama tíma liggur þó fyrir að starfsmenn hafa fengið greiðslur upp á tvo milljarða króna vegna aksturs á einkabílum sínum á síðustu átta árum.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 2. apríl 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hvort ummæli eða trúnaðarbrot kjörinna fulltrúa hafi skaðað orðspor Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. nóvember 2018. R18110253

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2011 var Orkuveitu Reykjavíkur gert að greiða 1,5 milljón króna sekt til Kauphallarinnar sökum þess að atriði í aðgerðaáætlun Orkuveitunnar sem lögð var fram í mars sama ár birtust í fjölmiðlum áður en þau voru formlega kynnt. Hjálagt er bréf Kauphallarinnar til Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki var upplýst hvaðan lekinn kom en í kjölfarið var farið í gegnum þann hóp sem hefði aðgang að fundargögnum borgarráðs, aðgangsstýring var hert og í sumum tilvikum hafa gögn verið sérstaklega merkt, m.a. í tengslum við umfjöllun um ársreikning.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 28. mars 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins um stöðu þeirra sem áður bjuggu á Njálsgötu 74, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18110145

    Fylgigögn

  30. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á Gröndalshúsi, sbr. 59. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. janúar 2019. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 20. mars 2019. R19010187
    Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna telja ekki ástæðu til að gera úttekt á Gröndalshúsi. Verkefnið var unnið á vegum Minjaverndar og hófust framkvæmdir fyrir um 10 árum og var lokið fyrir 2 árum. Ekki er rétt með farið að Gröndalshús hafi farið 198 milljónir fram úr áætlun. Verið er að blanda saman atvinnutengdu samstarfsverkefni með Völundarverki og endurgerð hússins að Vesturgötu. Gerð hefur verið grein fyrir þessu áður í umsögn við fyrirspurn í borgarráði.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn samþykkti þann 15. desember 2015 að Gröndalshús yrði gert upp og nýtt af menningar- og ferðamálasviði. Þá hljóðaði kostnaðaráætlun upp á 40 milljónir króna. 4. apríl 2016 var óskað eftir heimild borgarráðs um að haldið yrði áfram með endurgerð Gröndalshúss þrátt fyrir aukna kostnaðarþörf vegna skemmda og galla í húsinu sem komu í ljós þegar vinna hófst á ný í húsinu. Endurgerð og framkvæmdir við Gröndalshús fóru langt fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun eða úr 40 milljónum í 238 milljónir. Framkvæmdirnar voru því næstum fimmfalt dýrari en gert var ráð fyrir. Þetta kom fram í svari í borgarráði í desember 2018 við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks um kostnað vegna framkvæmda við Gröndalshús. Þá segir einnig í svarinu að endurgerð hússins hafi ekki verið boðin út, heldur hafi hún verið hluti rammasamnings sem gerður var við Minjavernd. Ljóst er af ofangreindum staðreyndum að hér er um að ræða enn eitt dæmið um óhóflega framúrkeyrslu verkefna á vegum borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Óskað var eftir að gerð yrði úttekt á Gröndalshúsi sambærileg þeirri sem gerð var á Nauthólsvegi 100. Í svari frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar segir að ekki sé ástæða til að gera úttekt á Gröndalshúsi þar sem verkefnið var unnið á vegum Minjaverndar og þeir starfsmenn sem komu að þessu verkefni á vegum skrifstofunnar hafi látið af störfum. Flokkur fólksins telur þetta engin rök. Ennfremur segir að ekki sé rétt með farið að Gröndalshús hafi farið 198 milljónir fram úr áætlun og að verið sé að blanda saman atvinnutengdu samstarfsverkefni með Völundarverki og endurgerð hússins að Vesturgötu. Er hér verið að fullyrða að frétt sem birtist 15.12.2018 sé röng en í henni segir: Mygla í nokkurra ára gamalli þakklæðningu, óþéttir útveggir, laust gler í gluggum og mikil vinna við að endurnýta innanhússklæðingu er allt meðal skýringa á því hvers vegna framkvæmdir á Gröndalshúsi í Reykjavík spóluðu nær 200 milljónir fram úr áætlun.
    Segir ennfremur í fréttinni að þetta hafi komið fram í svari skrifstofu eigna og atvinnuþróunar við fyrirspurn um kostnað við endurbæturnar. Bent er á upphafleg fjárhagsáætlun hafi hljóðað upp á 40 milljónir en verkið hafi að endingu kostað borgina 238 milljónir.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

    Tillaga Sósíalistaflokks Íslands um gjaldfrjálsar félagsmiðstöðvar var felld á síðasta skóla- og frístundaráðsfundi. Í umsögn skóla- og frístundasviðs með tillögunni kom fram greinargóð útlistun á kostnaði félagsmiðstöðva. Kemur til greina að setja það inn í fjárhagsáætlunargerð á næstu árum svo að félagsmiðstöðvar fyrir börn verði alveg gjaldfrjálsar? R18100036

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Tilkynnt var um sölu lóðanna að Blesugróf 30, 32 og 34 í desember 2014 en lóðarleigusamningi er þinglýst á Blesugróf 34 í september 2017. a) Hvað gerist á þessu þriggja ára tímabili? b) Hver er eigandi lóðarinnar? c) Var kaupverð greitt? 2. Hvorki kaupsamningi né afsali hefur verið þinglýst á lóðina. Hvernig getur Sýrfell ehf. leitt eignarrétt sinn að lóðinni til lóðarleigusamnings, dags. 17. ágúst 2017? 3. Samkvæmt frétt um sölu lóða frá desember 2014 var kaupverð pr. lóð kr. 13.000.000. Af þinglýstum skjölum virðist Sýrfell ehf. hafa gefið út veðskuldabréf til Reykjavíkurborgar þann 18. desember 2014, að höfuðstólsfjárhæð kr. 10.400.000, sem ætla verður að hafi átt að vera hluti af greiðslu kaupverðs. Þrátt fyrir það áttu afborganir ekki að hefjast fyrr en þann 23. október 2017. a) Er þetta eðlilegur framgangur við kaup á lóð af Reykjavíkurborg, þ.e. að borgin láni fyrir nánast öllu kaupverðinu? b) Hvernig getur Sýrfell ehf. verið skráður eigandi lóðarinnar þegar kaupverð hefur að nánast engu leyti verið greitt (þ.e. ef þinglýst skjöl eru rétt að þessu leyti)? c) Ef þinglýst skjöl eru ekki rétt, er búið að greiða kaupverð lóðanna og með hvaða hætti var það gert? 4. Af skilmálabreytingu veðskuldabréfsins, dags. 5. janúar 2018, verður helst ráðið að ekkert hafi verið greitt af veðskuldabréfinu, sem gefið hafði verið út 14. desember 2014. Þrátt fyrir það var tiltekið í skilmálabreytingunni að höfuðstóll lánsins væri óbreyttur og að vextir skyldu fyrst reiknast frá 17. ágúst 2017 með óbreyttum vaxtakjörum. a) Hvernig kom þessi skilmálabreyting til? b) Er það í tengslum við gerð lóðarleigusamnings? c) Af hverju er veðskuldabréf, dags. 14. desember 2014, vegna ætlaðra kaupa á lóð, sem þegar hafa verið framkvæmd samkvæmt skráningu í þinglýstum gögnum, vaxtalaust til 17. ágúst 2017? 5. Hvaða aðili er það sem gerir tillögu að hinu breytta deiliskipulagi Blesugrófar? Er það Sýrfell ehf. eða Reykjavíkurborg? R19040060

    Vísað til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Hvaða sérfræðingar/verkfræðistofur sjá um að hanna borgarlínuna? 2. Hafa þeir reynslu af slíku verkefni? 3. Var hönnunin boðin út? 4. Þegar um svo stórt verkefni að ræða þá á að bjóða það út á EES svæðinu – var það gert? 5. Er búið að vera samráð við sérfræðinga sem eru nýbúnir að hanna og framkvæma sambærilegt verk í Edinborg og var þeim boðin þátttaka? R19040062

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gert úttekt á byggingarreit nýs Landspítala við Hringbraut hvað varðar mengunarvarnir, hollustuhætti og matvælaöryggi? Ef svo er, hvenær var úttektin gerð? Ef úttektin hefur ekki verið gerð, stefnir HER á það að gera slíka úttekt? 2. Hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gert úttekt úr hvort að mengun komi úr jarðvegi við byggingu nýs Landspítala? 3. Hver eru loftgæðin innan núverandi húsnæðis Landspítalans við Hringbraut og loftgæði í umhverfi byggingastaðar? 4. Hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gert úttekt á hávaða frá framkvæmdum við byggingu nýs Landspítala? 5. Hvers vegna hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki gert úttekt á þessum hlutum, í kjölfar fréttaflutnings síðan framkvæmdirnar byrjuðu? 6. Hversu mikil áhrif hefur mengun úr jarðvegi og hávaðamengun frá byggingarstað haft á sjúklinga Landspítalans við Hringbraut? R19040063

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  35. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Vísað er til svars skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 27. mars 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gögn og skýrslur um viðhaldsþörf í fasteignum borgarinnar, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. mars 2019. Borgarráðsfulltrúar óska eftir þeim skýrslum sem unnar hafa verið af Reykjavíkurborg eða fyrir Reykjavíkurborg á síðustu fimm árum um viðhaldsþörf. R19030156

  36. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Spurt er þá hvort eftirfarandi frétt sem birtist í Vísi.is 15.12.2018 sé röng. En í henni segir: Mygla í nokkurra ára gamalli þakklæðningu, óþéttir útveggir, laust gler í gluggum og mikil vinna við að endurnýta innanhússklæðingu er allt meðal skýringa á því hvers vegna framkvæmdir á Gröndalshúsi í Reykjavík spóluðu nær 200 milljónir fram úr áætlun. Segir enn fremur í fréttinni að þetta hafi komið fram í svari skrifstofu eigna og atvinnuþróunar við fyrirspurn um kostnað við endurbæturnar. Bent er á að upphafleg fjárhagsáætlun hafi hljóðað upp á 40 milljónir en verkið hafi að endingu kostað borgina 238 milljónir. R19010187

    -    Kl. 13:20 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi. 
    -    Kl. 13:28 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.

Fundi slitið klukkan 13:29

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir