Borgarráð - Fundur nr. 5540

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 28. mars, var haldinn 5540. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 8:35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þór Elís Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ari Karlsson og Dagný Magnea Harðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 18. mars 2019. R19010035

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 21. mars 2019. R19010016

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 15. mars 2019. R19010028

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vekja athygli á nýrri stöðu á akstursþjónustu fyrir fólk með fötlun enda tvö stór sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem munu ekki verða þátttakendur áfram með Reykjavík.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð verkefnisstjórnar miðborgarmála frá 12. mars 2019. R19010108

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á síðasta fundi verkefnisstjórnar fór fram kynning á rannsókninni Endurheimt verslunarrýma á miðborgarsvæði Reykjavíkur en rannsóknin fékk styrk úr miðborgarsjóði árið 2017. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði óska eftir að fá sömu kynningu inn í borgarráð.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R19030014

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í embættisafgreiðslum er að finna bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 18. mars 2019, um eftirlit og eftirfylgni með virkni innra eftirlits Reykjavíkurborgar. Í bréfinu er borgin krafin svara vegna vanrækslu. Árið 2015 gerði innri endurskoðandi skýrslu um SEA þar sem komu fram 30 ábendingar um úrbætur. Fjórum árum síðar var eingöngu búið að leysa úr sex af þrjátíu atriðum. Nú er eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að kalla eftir skýringum um hvernig á þessu standi. Það er ámælisvert að vísa bréfi sem stílað er á borgarstjórn með spurningum til innri endurskoðanda og æðstu embættismanna borgarinnar til fjármálasviðs. Bréfið er stílað á borgarstjórn en borgarfulltrúar fá það ekki afhent. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar bréf berast Reykjavíkurborg eru þau sett í farveg þannig að þeim megi svara innan frests. Það gildir um bréf eftirlitsnefndar eins og önnur. Svar vegna fyrirspurna eftirlitsnefndar um störf innri endurskoðunar verður lagt fyrir borgarráð og borgarstjórn þegar þau liggja fyrir, líkt og hefðbundið er.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar leggst gegn frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem felur í sér þrengingu ákvæðis 233. gr. a um hatursorðræðu. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands tekur heilshugar undir þá umsögn mannréttindaskrifstofu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins hefur áréttað í mannréttinda- og lýðræðisráði að flokkurinn getur ekki samþykkt að kosningaaldur verði lækkaður niður í 16 ár nema að full réttindi fylgi til þeirra einstaklinga sem lagabreytingin á við, þ.e. að þau geti einnig boðið sig fram eins og aðrir sem hafa kosningarétt.

    Borgarráðsfulltrúi Pírata leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Pírata styður frumvarp til breytingar á lögum um hatursorðræðu og er því ekki sammála umsögn mannréttindaskrifstofu. Fulltrúinn telur mikilvægt að lögin séu gagnsæ og skýr þegar kemur að hatursorðræðu svo ekki verði gengið á tjáningarfrelsi einstaklinga og telur breytinguna jákvætt skref.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19030016

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma. R19010041
    Samþykkt að veita Með oddi og egg ehf. styrk að upphæð 800.000 kr. vegna útgáfu á hverfisblaði Laugardals, Háaleitis og Bústaða og hverfisblaðs Miðborgar og Hlíða 2019.
    Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. mars 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. mars 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Grensásdeild Landspítala vegna lóðarinnar nr. 1 við Álmgerði, ásamt fylgiskjölum. R19030259
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. agt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. mars 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. mars 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.174.1. vegna lóðanna nr. 98A, 100 og 100A við Hverfisgötu, ásamt fylgiskjölum. R19030258
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 8:48 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning fyrir verslunarhúsnæði að Langholtsvegi 70, ásamt fylgiskjölum. R17090079
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti vegna sölu á Tryggvagötu 11, ásamt fylgiskjölum. R19030226
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. febrúar 2019 á tillögu vegna þjónustusamninga um framlag vegna barna í sjálfstætt reknum grunnskólum í Reykjavík sem nýta frístundaheimili, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu um málið, dags. 25. mars 2019. R18050104
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í umsögn skóla- og frístundasviðs kemur fram að ekki liggi fyrir endanleg útfærsla á samþykkt borgarstjórnar um að barnafjölskyldur greiði einungis námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Í meirihlutasáttmálanum stendur að slíkt fyrirkomulag hafi átt að taka gildi frá og með áramótum 2019. Það er ekki komið í gegn nú í lok mars 2019. Skiljanlegt er að slíkt taki tíma að útfæra en fulltrúi Sósíalistaflokksins telur þá eðlilegt að barnafjölskyldur sem hafa greitt fleira en eitt námsgjald fyrir börn sín í leik- og grunnskólum borgarinnar fái endurgreitt það sem þær hafa greitt umfram eitt námsgjald frá og með 1. janúar 2019 eða verði í það minnsta upplýst um stöðu mála. Borgarbúar lesa eitt en upplifa annað og það er mikilvægt að byggja upp traust, ef ekki er hægt að standa við það sem sagt er væri a.m.k. hægt að upplýsa um af hverju slíkt er ekki orðið að veruleika.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. mars 2019, um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 vegna fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. R19030095
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi umsögn: Kostnaður hefur vaxið mikið í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar undanfarin ár m.a. vegna þessara breytinga. Stjórnkerfið hefur þyngst mikið og ræður illa við þá fjölgun sem orðið hefur, sem m.a. kemur fram í því að mikið er kvartað undan lengd mála og fjölda mála, bæði í borgarstjórn og borgarráði. Tillagan er til þess fallin að styrkja sjálfsákvörðunarrétt Reykjavíkurborgar og því einboðið að styðja hana. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Miðflokkurinn fagnar mjög þessu frumvarpi og styður það heilshugar. Þarna er Reykjavíkurborg að missa af gullnu tækifæri til sparnaðar með því að styðja ekki málið.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 27. mars 2019, um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. R19030045

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sundurliðuð svör vegna fyrirspurna um Nauthólsveg 100, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar 2019. R17080091
    Frestað.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um flutning verkefna milli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviðs, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar 2019. R19010335

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað vegna þátttöku í Bloomberg Harvard City Leadership Initiative, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2019. R18060214

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. mars 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um Rafstöðvarveg 4, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2019. R19020196

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það vantar svör við seinni hluta fyrirspurnarinnar hvað snýr að styrkjum og fjárveitingum til aðila tengdum húseigninni og skal ekkert vera undanskilið. Fyrirspurnin er því lögð fram aftur.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. mars 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um farþegafjölda milli Akraness og Reykjavíkur, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. febrúar 2019. R19020198

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg og Akranes niðurgreiddu þessar ferðir upp á um 30 milljónir króna. Það gerir 8.050 krónur með hverri ferð. Þessir fjármunir hefðu nýst betur í almenningssamgöngur á landi, enda er hér mikil niðurgreiðsla á hvern farmiða.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar borgarlögmanns, dags. 22. mars. 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samskipti þáverandi borgarstjóra eða annarra starfsmanna Reykjavíkurborgar við fulltrúa listamannsins Banksy og heimild þáverandi borgarstjóra til að taka verkið með sér að lokinni borgarstjóratíð hans, sbr. 68. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18110144

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um könnun á mögulegri skaðabótaskyldu vegna förgunar á verki eftir Banksy, sbr. 69. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18110144
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins afturkalla tillögu sína og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að hér sé sett óheppilegt fordæmi þar sem að borgarstjóri þiggur skilyrta listaverkagjöf sem staðsetja skal á skrifstofu borgarstjóra en tekur verkið með sér heim þegar hann hættir störfum. Öllum ætti að vera ljóst að hér er ekki um venjulegt plakat að ræða enda þurfti slípirokk til að eyða verkinu. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti fékk persónulega listaverkagjöf eftir Pablo Picasso í forsetatíð sinni en taldi ekki koma til greina að hún ætti verkið persónulega heldur afhenti það íslensku þjóðinni til eignar. Hér er gengið gegn því fordæmi. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er vandræðalegt að fylgjast með fulltrúum Sjálfstæðisflokksins elta ólar við plakat sem Jón Gnarr fékk í borgarstjóratíð sinni. Umsögn borgarlögmanns upplýsir málið til fulls og undirstrikar að málið var stjórnsýslu borgarinnar óviðkomandi.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Hver tók ákvörðun um að fara í snappverkefnið Hverfið mitt og greiða áhrifavöldum fyrir? Hvernig voru áhrifavaldarnir valdir? Var einhvers konar samkeppni um valið eða voru þeir haldvaldir? Hvað hefur verið varið miklu fjármagni í verkefnið og hvað hefur hver og einn fengið greitt? Hvað hefur verkefnið staðið yfir í mörg ár? Hafa áhrifavaldar fengið borgað fyrir önnur átaksverkefni og í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga?

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg leiti leiða til að hefja starfsemi verkefnisins Tinnu, sem er á vegum Þjónustumiðstöðvar Breiðholts í fleiri hverfum borgarinnar. Tinna verkefnið hefur hjálpað einstæðum foreldrum til betra lífs og tekist að ná upp virkni einstaklinganna sem farið hafa í gegnum það ferli. Ekki einvörðungu hefur tekist að styrkja sjálfa foreldrana í þátttöku í samfélaginu heldur einnig í umgengi við börnin sín og jafnframt að börnin sjálf öðlast meiri lífsgæði í uppeldi sínu. Verkefnið er einstakt sem sýnir og sannar svo ekki verður um villst að aðstoð sem þessi styrkir ekki bara einstaklingana sem taka þátt í henni heldur samfélagið sem heild. Verkefni sem þetta sparar jafnframt opinbert fé þegar til lengri tíma er litið. Tinna er verkefni á vegum velferðarsviðs með styrk frá velferðarráðuneytinu og var tekin ákvörðun um að hefja tilraun með Tinnu í Breiðholtinu. Hvetur því Flokkur fólksins borgaryfirvöld til að leita leiða á næstu misserum til að útvíkka hugmyndafræði Tinnu og koma því á laggirnar í fleiri hverfum borgarinnar og þá í samvinnu við þjónustumiðstöðvar annarra hverfa.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að starfsemi skólaráða í grunnskólum Reykjavíkur verði könnuð með það að leiðarljósi að skoða hversu lýðræðisleg starfsemi þeirra er með tilliti til þess að hlustað sé á rödd nemenda og tekið mark á þeirra framlagi til betra samfélags í grunnskólum borgarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir því að fá Fimm skóla skýrsluna – þarfagreining vegna skólabygginga, inn á næsta fund borgarráðs.

  26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um heildarkostnað við borgarstjórnarsal og Tjarnargötu vegna fjölgunar borgarfulltrúa nú þegar framkvæmdum er lokið.

    Vísað til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

  27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Lóðirnar Bústaðavegur 151B og 151C fóru í útboð en lóð 151D fór ekki í útboð. Hver fékk lóð 151D úthlutað án útboðs? Hvernig var hann valinn? Hvert var fermetraverðið á lóðunum, annars vegar á 151B og 151C og hins vegar 151D?

Fundi slitið klukkan 09:55

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir