Borgarráð - Fundur nr. 5537

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 7. mars, var haldinn 5537. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:06. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Dagný Magnea Harðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um fundarsköp. R19010002

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er óeðlilegt að borgarritari sitji fund borgarráðs með kjörnum fulltrúum sem hann hefur harðlega gagnrýnt opinberlega. Hann hefur ekki enn séð sér fært að koma á fund forsætisnefndar þar sem óskað var eftir því sérstaklega að hann kæmi og gerði grein fyrir máli sínu. Allir fulltrúar minnihlutans liggja undir grun vegna ásakana hans í garð kjörinna fulltrúa, auk þess sem hann hefur opinberlega lýst því yfir að hann sækist ekki eftir að njóta trausts þeirra. Þessi staða er óásættanleg.  

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarritari er æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra undanskildum og staðgengill í fjarveru borgarstjóra. Hann á því að sjálfsögðu sæti á fundum borgarráðs og er það í samræmi við verklagsreglur um fundi borgarráðs þar sem segir að skrifstofustjóri borgarstjórnar, borgarlögmaður og borgarritari sitji fundi ráðsins. Tilefni þess að borgarritari skrifaði starfsfólki borgarinnar er hegðun, atferli og framkoma kjörinna fulltrúa. Nú þegar hafa tveir starfsmenn borgarinnar hrökklast úr starfi vegna slæms starfsumhverfis og hegðunar kjörinna fulltrúa auk þess sem fulltrúar um 70 manns hafa leitað til mannauðsþjónustu borgarinnar vegna meiðandi og særandi ummæla, orðræðu og framkomu kjörinna fulltrúa. Það að fulltrúar 70 starfsmanna sjái ástæðu til að koma á framfæri kvörtunum vegna hegðunar kjörinna fulltrúa á sér ekki fordæmi í sögu borgarinnar. Þó hefur þolinmæði starfsmanna gagnvart ummælum kjörinna fulltrúa verið mikil og því mat borgarritari það nauðsynlegt að stíga fram fyrir hönd starfsfólks borginnar og segja að nú sé komið nóg. Þetta gerði hann vegna þess að starfsfólk og embættismenn borgarinnar geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér þegar kjörnir fulltrúar ganga fram með slíkum hætti. Það er dapurlegt að nærvera starfsfólks borgarinnar á fundum borgarráðs skuli misbjóða borgarfulltrúa Miðflokksins. Þá er rétt að halda því til haga að borgarritari kom ekki á fund forsætisnefndar þar sem forseti borgarstjórnar ákvað í samráði við fulltrúann sem hafði óskað eftir umræðunni að bíða með málið á þeim vettvangi.

  2. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 18. febrúar 2019. R19010035

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 5. febrúar 2019. R19010016

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vakin er athygli á eftirfarandi sameiginlegri bókun innkauparáðs: Innkauparáð óskar eftir samantekt innkaupadeildar á gildandi rammasamningi um prentun og ljósritun og óskar jafnframt eftir upplýsingum um fylgni við samninginn.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. janúar 2019. R19010026

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 22. febrúar 2019. R19010023

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð verkefnisstjórnar miðborgarmála frá 12. febrúar 2019. R19010108

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 6. mars 2019. R19010022

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur en framlagningu fundargerðarinnar er frestað að öðru leyti.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fundargerð skipulags- og samgönguráðs barst ekki fyrr en eftir að fundur borgarráðs hófst. Borgarráðsfulltrúum gafst því ekki tækifæri til að kynna sér efni fundargerðarinnar og er sérstaklega óskað eftir því að þess sé gætt að borgarráð fái fundargerðir í tæka tíð.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R19030014

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði. R19010041

    Samþykkt að veita Team Reykjavíkurborg styrk að upphæð kr. 750.000 vegna þátttöku í WOW Cyclothon.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19030016

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. febrúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. febrúar 2019 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna landfyllingar við Klettagarða við Sundahöfn, ásamt fylgiskjölum. R11060102

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar fela umhverfis- og skipulagssviði að setja inn eftirfarandi þætti/skilmála við vinnu deiliskipulags í kjölfar breytinga á aðalskipulagi við Sundahöfn er varðar landfyllingu í nágrenni við Laugarnestanga: - Ásýnd og útsýni frá Laugarnesi til Viðeyjar verði eins lítið raskað og hægt er. Síðasta upprunalega strandlína í Reykjavík sem vísar í norður vestan Elliðaáa er á Laugarnesi og taka þarf tillit til þess við útfærslu og hönnun á landfyllingu sem komi í beinu framhaldi. - Fuglalíf á svæðinu verði vaktað bæði á meðan framkvæmdir standa yfir og eftir. - Unnið verði sérstaklega með útivist á svæðinu og göngutengingar. - Sjóvarnargarðar verði mótaðir með tilliti til ásýndar og á eins náttúrulegan hátt og kostur er. - Unnið verði sérstaklega með gróður og blágrænar ofanvatnslausnir.

    Mikilvægt er að landfyllingin og öll uppbygging á henni taki mið af verndar- og minjasvæði Laugarnestanga og að útivistargildi svæðisins aukist.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. febrúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. febrúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóða nr. 1 og 3 við Borgartún, ásamt fylgiskjölum. R19020214

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. febrúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. febrúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Freyjubrunn 23, ásamt fylgiskjölum. R18030129

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. febrúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. febrúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.140.5, Pósthússtrætisreits, vegna lóðarinnar nr. 8 við Lækjargötu, ásamt fylgiskjölum. R19010362

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. febrúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 20. febrúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir skíðasvæðið í Skálafelli, ásamt fylgiskjölum. R19020213

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir því að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við byggingu sýningarskála í Árbæjarsafni, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 114,8 m.kr. R19010098

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Varðveisla menningarminja skapar nauðsynlegar forsendur fyrir aðgengi að upplýsingum um söguna sem aftur er grunnstoð í lýðræðinu okkar. Mikilvægt er að hlúa að öllum kjarnaþáttum safnastarfseminnar, ekki bara fræðslu heldur einnig varðveislu. Húsakostur og umgjörð verða að vera í takti við mikilvægi þeirra menningarverðmæta sem söfnin hafa að geyma. Árbæjarsafn er perla í menningarflóru borgarinnar og er ánægjulegt að hér sé verið að bæta geymslukost og bæta við sýningarrýmum fyrir mikilvæga safnmuni.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir því að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út ýmsar framkvæmdir vegna endurbóta og meiriháttar viðhaldsverkefna í fasteignum á árinu 2019, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 200 m.kr. R19010098

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurbætur og lagfæringar á alls 19 lóðum við leik- og grunnskóla, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 500 m.kr. R18010384

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð útivistarsvæðis milli Síðumúla og Fellsmúla, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 45 m.kr. R19030027

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 vegna 1. áfanga verkefnisins er 20 m.kr. R19030017

    Samþykkt. 

    Vísað til kynningar í umhverfis- og heilbrigðisráði og skipulags- og samgönguráði.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Stefna meirihlutans í Reykjavík er að viðhalda og hreyfa ekki við mýrum og öðru votlendi. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að endurheimt votlendis auki kolefnisbindingu. Hér er lagt til að leggja fram 150 milljónir í endurheimt votlendis á þessu svæði. Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar því að hreinsa eigi svæðið af rusli og að girðingar verði fjarlægðar. Það eru sannarlega góð umhverfismál. Talið er að einhver losun hljótist af uppmokstri á mýrarsvæðum og bent er á að Reykjavíkurborg stendur fyrir mikilli röskun í Vatnsmýrinni með ómældum áfrifum á lífríki og verndun votlendissvæða. Nú þegar eru komin fram staðbundin áhrif á Hlíðarendarsvæðinu. Reykjavíkurborg ætti að líta sér nær þegar kemur að þessum málum og stöðva nú þegar röskun Vatnsmýrarinnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Endurheimt votlendis er umhverfislega mikilvægt verkefni. Fjöldi rannsókna sýnir einmitt að endurheimt votlendis auki bindingu kolefnis þótt endurheimt þess færist eingöngu að takmörkuðu leyti inn í loftslagsbókhald. Varðandi Vatnsmýrina er þegar búið að skilgreina friðland í hluta hennar þótt vissulega sé verið að byggja fjölda íbúða í nágrenninu. Það er gert til þess að minnka vegalengdir milli heimilis og vinnu og minnka þannig kolefnisspor samgangna.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skemmdir á útiklefa Sundhallar Reykjavíkur, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. febrúar 2019. R19020120

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það verður að teljast óeðlilegt að fara þurfi í kostnaðarsamt viðhald við nýbyggða sundlaug sem tekin var í notkun fyrir aðeins rétt rúmu ári. 

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. mars 2019, þar sem erindisbréf starfshóps um ylströnd í Gufunesi er lagt fram til kynningar.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19030023

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að erindisbréfi stýrihóps um framtíðarstefnumótun í íþróttum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010293

    Samþykkt. 

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 28. febrúar 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. febrúar 2019 á samningi við Knattspyrnufélagið Þrótt vegna Rey-Cup fyrir næstu þrjú ár, ásamt fylgiskjölum. R19030025

    Samþykkt. 

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 27. febrúar 2019, varðandi viðburðasamning milli Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. R19030026

    Samþykkt. 

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 28. febrúar 2019 á tillögu um sameinaða yfirstjórn leikskólanna Hólaborg og Suðurborg, með áorðnum breytingum, ásamt fylgiskjölum. R19030028

    Frestað.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  27. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 19. febrúar 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2018 á nýju rekstrarleyfi fyrir leikskólann Öskju, ásamt fylgiskjölum. R18120140

    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 19. febrúar 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2018 á rekstrarleyfi fyrir leikskólann Krílasel, ásamt fylgiskjölum. R18120141

    Samþykkt. 

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. febrúar 2019, þar sem samþykkt skóla- og frístundaráðs um úthlutun almennra styrkja fyrir árið 2019 er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19020178

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 4. mars 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. febrúar 2019 á leiðréttingu á styrkfjárhæð til Styrktarfélags klúbbsins Geysis við úthlutun styrkja velferðarráðs, ásamt fylgiskjölum. R19030030

    Samþykkt. 

    Berglind Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 4. mars 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 20. febrúar 2019 á tillögu um stækkun leigurýmis í þjónustu- og félagsmiðstöð aldraðra við Sléttuveg. R19030029

    Samþykkt.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ný stefna í málefnum eldri borgara 2018-2022 var samþykkt af öllum flokkum í borgarstjórn í mars 2018. Í stefnunni er lögð áhersla á Reykjavík sem aldursvæna og heilsueflandi borg sem tekur mið af þörfum allra íbúa. Það er mikilvægt að eldri borgarar hafi tækifæri til að viðhalda færni sinni og dagþjónusta er mikilvægur liður í því og því fagnaðarefni að ný dagdvöl muni opna í Reykjavík.

    Berglind Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. mars 2019, þar sem erindisbréf starfshóps um skoðun og þróun þjónustu á Kjalarnesi er lagt fram til kynningar. R18050222

    Fylgigögn

  33. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. mars 2019, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Aþenu í Grikklandi 18.-19. mars 2019 vegna þátttöku í OECD Champion Mayor Initiative for Inclusive Growth, ásamt fylgiskjölum. R19010178

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. mars 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að auglýsingu um starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, hjálögð drög að erindisbréfi um skipan ráðgefandi hæfnisnefndar vegna ráðningar í starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs auk hjálagðra draga að áætlun um ráðningarferil vegna starfs sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19020229

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 3. mars 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að auglýsingu um starf sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs, hjálögð drög að erindisbréfi um skipan ráðgefandi hæfnisnefndar vegna ráðningar í starf sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs auk hjálagðra draga að áætlun um ráðningarferil vegna starfs sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19020230

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  36. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 26. febrúar 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort börn hafi þurft að hætta á frístundaheimili vegna fjárhagsvanda foreldra, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. febrúar 2019. R18110255

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur að það eru þrjár leiðir í boði til að afturkalla uppsögn á vistun á frístundaheimili. Í öllum tilfellum er það skuldarans (foreldra/foreldris) að aðhafast eitthvað. Einnig kemur fram að ef skuldari aðhefst ekkert þá mun barn þurfa að hætta í frístundastarfi. Af þessu hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins miklar áhyggjur. Hvers á barna að gjalda ef foreldri/skuldari aðhefst ekkert? Það hlýtur að vera öllum ljóst að barn á ekki að líða fyrir aðgerðaleysi foreldris sem semur ekki um skuld vegna frístundaheimilis. Hafa skal í huga að gildar ástæður kunna að vera fyrir því að skuldari aðhafist ekkert. Um ástæður er einfaldlega ekki alltaf hægt að vita. Að barn þurfi að gjalda fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi foreldris sem hér er í stöðu skuldara er óásættanlegt. Hugsanlega líður skuldara mjög illa yfir að skulda og skortir kjark til að hafa samband og aðhafast eitthvað. Ástæður geta verið fjölmargar eins og gengur. borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir þá kröfu til borgaryfirvalda að undir engum kringumstæðum sé barn rekið úr frístundastarfi jafnvel þótt foreldri/skuldari aðhafist ekkert vegna skuldar vegna vistunar barns á frístundaheimili.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og fram kemur í svari skóla- og frístundasviðs þá eru alltaf leiðir í boði. Hægt er að greiða skuldina upp, semja um skuldina og greiða hana upp á ákveðnum tíma eða fara í gegnum verklag velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs þar sem tvennt er í boði. Annars vegar getur viðkomandi talist með greiðslugetu og þá er gert samkomulag um greiðslugetu. Teljist viðkomandi ekki hafa greiðslugetu getur afskriftarnefnd samþykkt að skuldin verði endanlega felld niður. Þá skal því haldið til haga að frístundakortið getur dekkað kostnað vegna frístundaheimilis, um 50.000 kr. á ári.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 3. mars 2019, við framhaldsfyrirspurn um álagningu fasteignaskatta, sbr. fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins frá 21. febrúar 2019. R19020079

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg notar allar matarholur sem hægt er til öflunar tekna og er með alla gjaldstofna í hámarki. Hér er spurt um undanþágu frá fasteignagjöldum sem sveitarfélög geta nýtt sem nemur 25% álagi á fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í viðkomandi sveitarfélagi. Á tyllidögum er talað um að borgin sé vel rekin. Ekki er samræmi á milli þessarar fullyrðingar og raunveruleikans þegar staðreyndir eru skoðaðar eins og t.d. í þessu tilfelli. Þetta hefur mikinn fælingarmátt á fyrirtæki í borginni og svo virðist að lítið sé gert til að hlúa að fyrirtækjum og meirihlutanum virðist standa á sama hvort fyrirtæki fari eða veri innan borgarmarkanna.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Álagningarhlutfall fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði í Reykjavík er með því lægsta á landinu og var til að mynda lækkað á síðasta ári. Þá munu fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði lækka eins og fram kemur í sáttmála meirihlutaflokkanna í borgarstjórn. Rekstur borgarinnar gengur afar vel, fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum flykkjast til borgarinnar og uppbygging atvinnuhúsnæðis hefur aldrei verið meiri.

    Fylgigögn

  38. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrarbraut, sbr. 58. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. janúar 2019. R19010426

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur fengið svar um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrabraut og er hann áætlaður 270 m.kr. sem og svör er varða hljóðveggi. Fram kemur að hvorki sé talið að steyptur veggur hefði verið ódýrari en hlaðnir grjótveggir né fljótlegri í framkvæmd. Borgarfulltrúi vill leyfa sér að draga orð skrifstofustjóra í efa enda er séð á svarinu að ekki hefur verið gerð sérstök könnun á því hvor tegundin af vegg sé ódýrari og fljótlegri.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti borgarráðs sér ekki ástæðu til að draga orð skrifstofustjórans í efa líkt og fulltrúi Flokks fólksins gerir. Hann telur að steyptur veggur hefði hvorki verið ódýrari né fljótlegri í framkvæmd.

    Fylgigögn

  39. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 3. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við erindi Hrafnistu um aðkomu að rekstri sundlaugarinnar, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. nóvember 2018. R18110254

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sundlaugin við Hrafnistu hefur oft verið til umræðu á vettvangi borgarstjórnar enda var bygging hennar samvinnuverkefni Sjómannadagsráðs og Reykjavíkurborgar á sínum tíma. Reykjavíkurborg greiddi tæplega helming byggingarkostnaðar við mannvirkið á sínum tíma og ekki er óeðlilegt að hún komi einnig að viðhaldi þess og endurbótum. Í heimsókn borgarfulltrúa Flokks fólksins til íbúa þjónustuíbúða við Norðurbrún og þeirra sem sækja þangað dagdvöl og félagsstarf kom fram að langþráð ósk þeirra er að sundlaugin verði opnuð að nýju. Eins og fram hefur komið í svörum frá borginni við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins hefur ekki verið veitt fé til viðgerðar hússins. Í upphafi var loftræsting ekki í lagi sem olli myglu og raka. Borgarfulltrúi Flokks fólksins furðar sig á aðgerða- og andvaraleysi ábyrgðaraðila að leyfa þessari byggingu að fara svo illa sem raun ber vitni. Umrædd bygging er um 1.500 fermetrar að grunnfleti og var hún tekin í notkun árið 1997 eða fyrir 22 árum. Ekki er því hægt að halda því fram að stærð eða aldur byggingarinnar hafi torveldað eðlilegt viðhald hennar nema síður sé.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjómannadagsráð á og rekur Hrafnistu. Í svari borgarstjóra við erindinu kemur fram að sundlaugin nýtist einkum gestum utan Hrafnistu. Bent er á að í sama borgarhluta rekur Reykjavíkurborg Laugardalslaug. Að auki opnaði á síðasta ári laug í hjúkrunarheimilinu við Mörkina. Báðar þessar laugar ættu að geta annað eftirspurn og þjónustu við þá borgarbúa sem vilja og þurfa að sækja sundlaugarnar í þessum borgarhluta á meðan Hrafnista finnur fjármagn til viðhalds og endurbóta við laugina.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Reykjavíkurborg ber vissulega ábyrgð, Reykjavíkurborg lagði fram fé til byggingar hússins og sundlaugarinnar á sínum tíma. Það hlýtur að fela í sér einhverjar skyldur gagnvart viðhaldinu, a.m.k. siðferðilegar skyldur. Borgin hefur t.d. styrkt byggingu fjölmargra húsa í eigu íþróttafélaga. Borgin hefur einnig styrkt viðhald og endurbætur á þessum húsum enda litið svo á að hún beri ákveðna ábyrgð á þeim þar sem hún stóð straum af byggingu þeirra á sínum tíma. Auðvitað er hægt að togast á um þetta með ábyrgðina og sennilega ber borginni ekki lögbundin skylda til þess að sinna þessu viðhaldi. En eðlilegt að hún veiti fjárstyrk til viðhalds í sama hlutfalli og hún styrkti byggingu hússins á sínum tíma sem dæmi.

    Fylgigögn

  40. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 4. mars 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokks og Flokks fólksins um leigubílakostnað, rekstrar- og stofnkostnað bifreiða, kaup á flugmiðum og meðhöndlun vildarpunkta, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. janúar 2019. R19010265

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á undanförnum árum hefur verið farið yfir aksturs- og bifreiðakostnað borgarinnar til hagræðingar og sparnaðar. Líkt og fram kemur sparaðist mikið með afnámi aksturssamninga við starfsfólk borgarinnar árið 2015 en í stað aksturssamninga hafa komið akstursdagbækur og notaðir eru leigubílar í völdum tilvikum. Alls hafa sparast um 700 milljónir vegna afnáms aksturssamninga á síðustu árum, en annar kostnaður aðeins hækkað á móti að hluta. Kostnaður vegna leigubíla hefur aukist á sama tímabili en vert er að benda á að kostnaðarauki vegna leigubíla á sama tímabili nemur tæplega 60 m.kr. sem er mun lægri fjárhæð. Þannig hafa sparast meira en 600 milljónir vegna þessarar einföldu aðgerðar. Afnám aksturssamninga var einnig mikilvæg aðgerð til að jafna kynbundinn launamun þar sem dýrari aksturssamningar fóru frekar til karla en kvenna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kostnaður borgarinnar vegna leigubíla nam 431 milljón króna á síðustu 8 árum. Kostnaðurinn hefur aukist á hverju einasta ári frá árinu 2011 og var 69 milljónir á árinu 2018. Þá vekur athygli að Reykjavíkurborg hefur greitt starfsmönnum tvo milljarða í akstur á eigin bifreiðum frá árinu 2011. Samtals um milljón á dag. Loks hefur borgin keypt flugmiða fyrir tæpar þrjú hundruð milljónir á síðustu átta árum. 

    Ekki hefur verið farið í útboð í þessum málum þó fjárhæðirnar séu langt yfir viðmiðunarfjárhæðum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur greitt sem nemur heilum bragga á átta árum í leigubíla. Á árinu 2018 voru greiddar tæpar 70 milljónir og hefur kostnaðurinn aukist ár frá ári. Það eru þó kannski ekki stóru upphæðirnar í þessu máli því borgin hefur greitt rúma tvo milljarða vegna aksturssamninga á eigin bifreiðum á sama tíma. Rétt er að minna á að stefna meirihlutans er að koma öllum almenningi í strætó á sama tíma. Getur hræsnin orðið meiri? Eyðslan er bæði stjórn- og eftirlitslaus og alla yfirsýn vantar því fram kemur að yfirmaður hvers sviðs, skrifstofu eða stofnunar ákveður hvaða starfsmenn hafa heimild til að nota leigubíla að vild. Eins er það með ólíkindum að Reykjavík hafi greitt rúman hálfan milljarð í bílaleigubíla á þessu tímabili. Samtals gerir þetta um þrjá milljarða á átta árum. Hvernig er þetta hægt? Á þessu átta ára tímabili hafa verið greiddar út tæpar 300 milljónir í flugfargjöld, leigubíla, rútur lestir og fleira. Ekki hefur verið farið í útboð á flugmiðakaupum þrátt fyrir að útgjöld á ársgrundvelli fari langt yfir viðmiðunarmörk útboða. Einnig er bent á að vildarpunktar færast á viðkomandi starfsmann en falla ekki borginni í skaut í formi sparnaðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kostnaður sem hér um ræðir er hár að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins, bæði notkun leigubíla og akstur á eigin bifreiðum í vinnutengdum verkefnum. Yfirmenn hvers sviðs, skrifstofu eða stofnunar ákveða hvaða starfsmenn hafa heimild til að nota leigubíla. Það er í höndum þeirra að stýra og bera ábyrgð á notkun leigubifreiða. Fram kemur að hluti af leigubílakostnaði er vegna aksturs með skjólstæðinga borgarinnar en hvað er það stór hluti af þessum tölum? Eftir lestur á þessu svari koma óneitanlega upp spurningar um hvort aðhald kunni að skorta í þetta kerfi eða hvort ekki þyrfti að skoða skipulagið eitthvað nánar. Það er einnig sláandi að sjá hækkun sem hefur orðið t.d. frá 2011 til 2018 á kostnaði við leigubíla jafnvel þótt að skýra megi hækkunina að einhverju leyti vegna þess að árið 2014 var öllum aksturssamningum við starfsmenn borgarinnar sagt upp. Árið 2011 er kostnaður rúmar 37 milljónir en 69,5 milljónir árið 2018. 

    Fylgigögn

  41. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra, dags. 2. mars 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að haga álagningu ábyrgðargjalds á Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2019 þannig að 0,60% ábyrgðargjald verði lagt á lán sem tekin hafa verið vegna samkeppnisrekstrar fyrirtækisins og 0,89% á lán vegna sérleyfisrekstrar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19020151

    Samþykkt.

    Borgarráðsfultrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg er í ábyrgð fyrir meira en 100 milljörðum króna skulda Orkuveitunnar. Slíkt er tímaskekkja og er bein áhætta fyrir borgarsjóð að mati borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins . Rétt væri að endurskoða fyrirkomulag þetta. 

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  42. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra og fjárstýringarhóps, dags. 6. mars 2019:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 2.820 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 2,30%, í græna skuldabréfaflokk borgarsjóðs, RVKG 48 1.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R19010352

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna. 

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11:55 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum og Baldur Borgþórsson tekur sæti.

  43. Lagt fram bréf borgarskjalavarðar, dags. 20. nóvember 2018, varðandi niðurstöður eftirlitskönnunar Borgarskjalasafns um skjalastjórn og skjalavörslu hjá Reykjavíkurborg fyrir árið 2017, ásamt fylgiskjölum. R18110052

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Misbrestur er á skjalavistun hjá Reykjavíkurborg samkvæmt eftirlitskönnun Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Eingöngu 20% aðspurðra vista viðeigandi skjöl í skjalakerfum úr tölvupóstum. Svipað hlutfall telur sig þekkja til laga og reglna um skjalavörslu. Aðeins þriðjungur telur sig upplýstan um viðurlög við brotum á lögum um opinbera skjalavörslu sem tóku gildi árið 2014. Skortur á skjölun í kerfinu gerir eftirliti mjög erfitt fyrir eins og glögglega kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar um braggamálið. Þá er ólíðandi að skjöl séu lítið vistuð úr tölvupóstum og þeim tölvupóstum síðan eytt án þess að mikilvæg skjöl séu vistuð. Hér þarf að tryggja breytt verklag frá því sem nú er. Loks leggja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á sjálfstæði Borgarskjalasafns sem eftirlitsaðila. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skjölun er mikilvæg og snýst um aðgengi að upplýsingum og möguleika á að fylgja eftir ákvarðanatöku. Margt má færa til betri vegar í þessum efnum bæði hjá ríki og Reykjavíkurborg. Brugðist hefur verið við ábendingum úr skýrslu Borgarskjalasafns með skýrum hætti af hálfu allra sviða borgarinnar sem og miðlægrar stjórnsýslu og skýrar úrbótaáætlanir gerðar. Eins og fram kom á fundinum er ekkert hægt að fullyrða um að skjalavistun hjá borginni sé verri en hjá ríkinu. Til þess að geta sinnt skjalavistunarskyldum sínum, þá vantar sárlega reglugerð eða reglur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þess að opinberir aðilar geti unnið sína skjalavistun samkvæmt lögum. Þá er rétt að halda því til að haga að nú eru í undirbúningi kaup á nýju skjalavörslukerfi og mun það auka þægindi við skjölun.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Þjóðskjalasafnið hefur gefið út reglur og leiðbeiningar fyrir sveitarfélög. Þar eru skilgreind lágmarksviðmið. Ljóst er að borgin hefur ekki farið eftir þessum reglum og brotið lög um skjalasöfn eins og staðfest er í skýrslu innri endurskoðunar. Það þarf því ekki að bíða eftir frekari lögum eða reglugerðum þegar misbrestur í skjalavörslu er annars vegar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það kemur borgarfulltrúa Flokks fólksins á óvart hvað skjalastjórnun og skjalavarsla er í miklum lamasessi hjá Reykjavíkurborg. Vitað var að pottur væri brotinn sbr. braggamálið en í kynningu borgarskjalavarðar sem borgarráð hefur nú fengið á niðurstöðum eftirlitskönnunnar Borgarskjalasafns hlýtur öllum að vera brugðið. Rætt er um að það sem er ekki komið í gagnið í dag hefði átt að vera komið í gagnið jafnvel fyrir mörgum árum. Fram kemur sem dæmi að um 76% halda ekki málaskrá og 74% nota ekki rafrænt kerfi til að varðveita skjöl. Ekki er betur séð en hér verði borgin að taka á honum stóra sínum. Skjalastjórn og skjalavarsla hjá borginni verður að vera í lagi.

    Svanhildur Bogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  44. Lagt fram svar borgarritara, dags. 5. mars 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samskipti vegna skýrslu Borgarskjalasafns, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. janúar 2019. R18110052

    -    Kl. 12:30 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Valgerður Sigurðardóttir tekur sæti.

    Fylgigögn

  45. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. mars 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að endurskoðaðri stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem og drög að nýjum verkferlum í eineltis- og áreitnimálum. R18060221

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins sem fór fyrir stýrihópi um endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi vill þakka hópnum gott samstarf og sérstakar þakkir eru til starfsmanns hópsins, Lóu Birnu Birgisdóttur sem sinnti hlutverki sínu af alúð og fagmennsku.

    Alexandra Briem tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  46. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. mars 2019: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan bráðabirgðaverkferil og leiðir til úrlausna vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. R19030021

    Frestað.

  47. Lagt fram bréf persónuverndarfulltrúa, dags. 1. mars 2019, varðandi drög að persónuverndarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R17050041

    Vísað til borgarstjórnar.

    Dagbjört Hákonardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  48. Lagt fram bréf persónuverndarfulltrúa, dags. 4. mars 2019, þar sem minnisblað vegna öryggisbrests í Mentor og viðbrögð vegna hans er sent borgarráði til kynningar. R19020242

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Mikilvægt er að öryggi persónuupplýsinga sé tryggt og því er þessi öryggisbrestur alvarlegt atvik sem mikilvægt er að komið sé í veg fyrir að geti endurtekið sig.

    Dagbjört Hákonardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  49. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutunar- og útboðsskilmála fyrir sölu byggingarréttar á lóðunum við Álfabakka 2a-2d, ásamt fylgiskjölum. R19030011

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að skipuleggja Mjóddina í heild. Mjóddin er á stærð við Kringlusvæðið. Þá hefur lóðarvilyrði til Heklu ekki komist á framkvæmdastig og er óvissa um verkefnið.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  50. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. mars 2019, varðandi stöðu söluferlis vegna Grandagarðs 2.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R18090026

    Fylgigögn

  51. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Félagsbústöðum hf. vilyrði fyrir lóð fyrir íbúðarhús að Hagaseli 23 með fyrirvara um samþykki á deiliskipulagi. R19020187

    Frestað. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  52. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutunar- og útboðsskilmála fyrir sölu byggingarréttar á lóðunum nr. 133 og 143 við Hraunbæ, ásamt fylgiskjölum. R18100322

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  53. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tilboð Fjarskiptasjóðs vegna ljósleiðaravæðingar í dreifbýli í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R17090130

    Samþykkt.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ánægjulegt er að stuðla að frekari ljósleiðaravæðingu í Reykjavík og á landinu öllu með þessu góða verkefni fjarskiptasjóðs. Tilkoma ljósleiðara hefur valdið byltingu í samskiptatækni. Aukinn hraði við flutning upplýsinga og gagna er forsenda betra upplýsingaaðgengis.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  54. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. mars 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasamning vegna borgarlands austan við Malarhöfða 8, ásamt fylgiskjölum. R19020113

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  55. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. febrúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um Rafstöðvarveg 4, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. febrúar 2019. R19020196

    Fylgigögn

  56. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. febrúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um launakostnað dómnefndar um listaverk í Vogabyggð, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráð frá 31. janúar 2019. R19010428

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur í svari að dómnefndarmenn voru þrír og fengu hver um sig greiddar kr. 150 þúsund fyrir dómnefndarstörfin. Trúnaðarmaður dómnefndar fékk greiddar 765.000. Ekki kemur fram umfang vinnu dómnefndar eða trúnaðarmannsins og eftir því er tekið að trúnaðarmaður dómnefndar fékk fimmfalt hærri laun en dómnefndarmenn fengu. Í ljósi þessa óskar borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað felst í því að vera trúnaðarmaður dómnefndar og hvert er umfang slíkrar vinnu.

    Fylgigögn

  57. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. mars 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnaðarþátttöku íbúa á Kjalarnesi vegna lagningar ljósleiðara, sbr. 80. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R18100362

    Fylgigögn

  58. Lagt fram svar byggingarfulltrúa, dags. 19. febrúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfsreglur byggingarfulltrúa, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. febrúar 2019. R19020081

    Fylgigögn

  59. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. febrúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytt póstnúmer á Kjalarnesi, sbr. 80. lið  fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R18100361

    Fylgigögn

  60. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingar á forgangsreglum í leikskóla, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. janúar 2019. Einnig er lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2019. R19010257

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fylgigögn

  61. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingar á reglum um styrkveitingar, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. janúar 2019. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. mars 2019. R19010422

    Vísað til meðferðar starfshóps um aukið gagnsæi styrkjaúthlutana Reykjavíkurborgar.

    Fylgigögn

  62. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um friðlýsingu Elliðaárdals, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. ágúst 2018. R18070131

    Vísað til meðferðar í yfirstandandi vinnu við endurskoðun deiliskipulags Elliðaárdals.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 var Elliðaárdalur í fyrsta skipti skilgreindur sem borgargarður og þar eru Elliðaárnar, bakkar þeirra og báðir hólmarnir hverfisvernduð. Verðmætustu náttúruminjar Elliðaárdals eru því nú þegar undir hverfisvernd og eru Háubakkar, sem er setlagasyrpa í Elliðaárvogi, þegar friðlýstir. Í gildandi deiliskipulagi Elliðaárdals er verið að varðveita samfellda náttúrulega heild dalsins sem útivistarsvæði fyrir almenning og tryggja til frambúðar tengingu milli byggðar og útmerkur Reykjavíkur. Hins vegar þarf að ljúka við endurskoðun deiliskipulags Elliðaárdals, gera náttúrufarsúttekt og meta þau verndarákvæði sem geta komið fram við þá vinnu. Sú vinna er þegar hafin og vonandi lýkur henni sem fyrst en hún felur m.a. í sér afmörkun hverfisverndarsvæðisins sem skilgreint er í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggur áherslu á að miklu máli skiptir að tengja dalinn aðgerðum á sviði loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni og standa vörð um náttúru hans og sem fjölbreytts útivistarsvæðis. Að þessu sögðu vísar meirihlutinn þessari tillögu inn í yfirstandandi vinnu til að meta friðlýsingarkosti og svæði dalsins.

    Fylgigögn

  63. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Hvaða embættismenn borgarinnar tæmandi talið, taka þátt í leiðtogaþjálfun Bloomberg Harvard City Leadership Initiative? Hver er kostnaður borgarinnar af þessu verkefni tæmandi talið sundurliðað eftir aðilum? a. Flugmiðar? b. Hótelkostnaður? c. Dagpeningar? R18060214

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

  64. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Hve stór er sá hluti leigubílakostnaðar sem ekið er með skjólstæðinga borgarinnar síðustu þrjú ár a.m.k.? R19010265

    Vísað til umsagnar fjármálaskrifstofu.

  65. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Af hverju var ekki hægt að halda húsnæði sundlaugarinnar við Hrafnistu við, hafa eðlilegt og reglulegt viðhald í stað þess að láta það skemmast með þeim hætti sem raun ber vitni? Hefur Reykjavíkurborg sem ábyrgðaraðili lært eitthvað af þessum mistökum? R18110254

  66. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Borgarfulltrúi Miðflokksins  þakkar fyrir svör vegna fyrri fyrirspurnar  og óskar eftir viðbótarupplýsingum: Allar upplýsingar um kostnað borgarinnar vegna eignarinnar frá 01.01.2008 til dagsins í dag. Þar með talið viðhald, endurnýjanir og breytingar hvaða nafni sem þær nefnast, sem og kostnaður fasteignagjalda, rafmagns, hita o.fl. Allar upplýsingar um styrki og fjárveitingar til aðila tengdum húseigninni og skal ekkert undanskilið. R19020296

  67. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Óskað er upplýsinga um umfang vinnu trúnaðarmanns í dómnefndinni um listaverk í Vogabyggð sem fær 765 þús. fyrir að vera trúnaðarmaður dómnefndar um listaverk í Vogabyggð. R19010428

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  68. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Leikskólagjöld borgarinnar voru 9,3% af heildarkostnaði við rekstur leikskólanna árið 2018. Hvað var það há upphæð? Hver er áætlaður kostnaður við að afnema vistunar- og fæðisgjöld í leikskólum borgarinnar, þ.e.a.s. að gera þá gjaldfrjálsa? Er vitað hversu hátt hlutfall reykvískra barna á leikskólaaldri eru í leikskólum borgarinnar? R19030070

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

  69. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hver er kostnaður borgarinnar vegna strætóferða kjörinna fulltrúa og starfsmanna vegna vinnu þeirra? R19030071

    -    Kl. 13:48 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundi.

Fundi slitið klukkan 13:50

Líf Magneudóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek

Marta Guðjónsdóttir