Borgarráð - Fundur nr. 5535

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 14. febrúar, var haldinn 5535. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:11. Viðstödd voru auk Stefáns Eiríkssonar staðgengils borgarstjóra Líf Magneudóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ari Karlsson, Pétur Krogh Ólafsson og Dagný Magnea Harðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 7. febrúar 2019. R19010016

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 4. febrúar 2019. R19010036

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 4. febrúar 2019. R19010037

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 1. febrúar 2019. R19010028

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 13. febrúar 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. R19020003

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19020027

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. febrúar 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. febrúar 2018 á tillögu að breytingu á deiliskiplagi reita 1.3 og 1.4, Sundin, vegna lóða nr. 43-45 og 47 við Langholtsveg, ásamt fylgiskjölum. R19020087
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. febrúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. febrúar 2019 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vatnagarða vegna Sundahafnar með áorðnum breytingum, ásamt fylgiskjölum. R18110152
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. febrúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. febrúar 2019 á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði á toppi Úlfarsfells vegna fjarskiptamasturs fyrir loftnet og tækniskýli með útsýnispalli, með áorðnum breytingum, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lagt fram bréf Ingimundar Stefánssonar, dags. 13. febrúar 2019, með viðbótarathugasemdum til borgarráðs. R17110067
    Frestað.
    Viðbótarathugasemdum vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Miðflokkurinn leggst alfarið gegn fyrirhuguðum framkvæmdum á einum vinsælasta útsýnisstað borgarinnar og vísar í fyrri bókanir vegna málsins. Eftirtekt vekur hversu hart Reykjavíkurborg hefur gengið fram í þessu máli þvert gegn vilja íbúa Úlfarsárdals, Grafarholts sem og íbúa borgarinnar almennt. Að reisa 50 metra hátt stálmastur hlaðið tækjabúnaði sem sendir frá sér slíka geislun að búnaðurinn var tekinn niður í Kópavogi vegna nálægðar við íbúahverfi er forkastanlegt. Að ætla sér að færa vandann yfir á íbúa Reykjavíkur er ekki lausn. Það er ósvífni. Fyrir liggur að hér er um að ræða hagsmuni einkafyrirtækis, ekki íbúa. Fyrir liggur að Úlfarsfell er ekki talinn besti kostur, þar trónir efst á lista Þverfellshorn í Esju og Bláfjöll, þar sem fyrir eru sendar frá öðru fyrirtæki. Fjöldi athugasemda í kjölfar auglýsingar téðs deiliskipulags er slíkur að elstu menn muna ekki annað eins. Það er tillaga Miðflokksins að þessari aðför ljúki hér og sú gríðarlega andstaða sem fram kemur í aðsendum athugasemdum í kjölfar auglýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir verði virt. Tilgangurinn með auglýsingum af þessu tagi er að fá fram vilja borgaranna. Jafnframt er þess krafist að núverandi óleyfisbúnaður verði fjarlægður tafarlaust. Því er fagnað sérstaklega að málinu er frestað.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf forsætisráðuneytisins, dags. 28. janúar 2019, vegna kynningar á vinnu sveitarfélaga að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem fer fram þann 15. febrúar nk., ásamt dagskrá.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R19010381

  12. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. febrúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um reglur og viðbrögð varðandi eftirfylgni með styrkjum, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. janúar. R19010421

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Flokkur fólksins telur að við veitingu verkefnastyrkja færi betur á því að greitt sé út samhliða verkframvindu og að lokagreiðsla sé greidd við verkefnislok. Þetta fyrirkomulag má sjá víða annars staðar, t.d. hjá vísindasamfélaginu. Ef fyrirkomulag greiðslu er með þessum hætti eins og núna eru meiri líkur á að vafamál komi upp svo sem í þeim tilfellum þar sem ekki er ljóst hvort að verkefninu var að fullu lokið eða að framlag borgarinnar hafi verið notað í öðru skyni.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. febrúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda og staðsetningu Airbnb íbúða, sbr. 84. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R18100365

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokks og Flokks fólksins um að fá dómkvaddan matsmann til að meta framkvæmd við Nauthólsveg 100, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. janúar 2019. Einnig er lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 12. febrúar 2019. R17080091
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Dómkvaddur matsmaður er fenginn í þeim tilfellum þar sem ágreiningur er milli a.m.k tveggja aðila eins og t.d. þegar ágreiningur er milli aðila að verksamningi um hvort verk sé gallað. Þar sem þetta grunnskilyrði er ekki uppfyllt samkvæmt lögum er tillagan felld.

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er hreint með ólíkindum hvað borgarlögmaður virðist leggja sig í líma við að hylma yfir þeim lög- og reglugerðarbrotum sem framin voru í uppbyggingu á Nauthólsvegi 100/Bragginn og sem rakin eru í skýrslu innri endurskoðunar. Hér á árum áður vann borgarlögmaður faglega og óháð pólitík. Reykjavíkurborg hefur víst lögvarða hagsmuni af því að fá dómskvadda matsmenn til að taka út framkvæmdir við braggann miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir og sér í lagi eftir skýrslu innri endurskoðunar. Ekki er betur séð annað en að meirihlutinn sé að reyna að þagga málið niður. Að borga út 450 milljónir í ónýt hús án þess að rannsaka alla reikninga sem liggja að baki er forkastanlegt. Rétt er að árétta að málinu er ekki lokið og til að mynda er náðhúsið enn fokhelt þrátt fyrir orð borgarstjóra um annað.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Í umsögn borgarlögmanns felst ekkert annað en en mat á því hvort tillagan sé í samræmi við lög. Það er hlutverk borgarlögmanns að veita lögfræðilega ráðgjöf vegna þeirra tillagna meiri- og minnihluta sem til umræðu eru í borgarráði hverju sinni. Bókunin felur í sér dylgjur um starfsheiður og ófagleg vinnubrögð borgarlögmanns að ósekju. Þessum árásum Miðflokksins á einstaka starfsmenn borgarinnar verður að linna.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst fulltrúar meirihlutans oft hafa gengið alltof langt í að reyna að hafa áhrif á bókanir fulltrúa minnihlutans og gert það með alls kyns ráðum, bæði með því að gagnrýna efni bókanna harðlega og sýna hneykslun og jafnvel fyrirlitningu í öllu sínu viðmóti og jafnvel atferli í verstu tilfellum. Borgarfulltrúi vill minna á að bókunarvald borgarfulltrúa er ríkt. Bókanir eru alla vegana eins og gengur, vissulega stundum harðorðar enda málin mörg alvarleg eins dæmin hafa sýnt undanfarna mánuði. Upp úr kafinu hafa verið að koma mörg mál sem hafa ekki einungis misboðið minnihlutanum heldur einnig mörgum borgarbúum. Mörg þessara mála hafa verið efni frétta í fjölmiðlum ítrekað, á öllum fjölmiðlum, ríkisfjölmiðlum sem öðrum, á samfélagsmiðlum og í umræðunni almennt séð. Þar hefur málum verið lýst í smáatriðum með upplýsingum um nöfn í þeim tilfellum sem þau eru opinber. Í bókunum sem hér er vísað til er einungis verið að bóka um mál sem eru að sjálfsögðu á dagskrá og í engu tilfelli er verið að upplýsa um neitt nýtt, hvorki er varðar menn eða málefni sem ekki hefur verið fjallað um opinberlega. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að meirihlutinn láti af afskiptum sínum hvað varðar efni bókana enda eiga þau þess kost að gagnbóka óski þau þess.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Meirihlutinn viðurkennir ekki að lögbrot hafi verið framin í endurgerð braggans. Að það skuli ekki vera í miklum forgangi að rannsaka reikningana sem liggja að baki verkefninu er dæmalaust. Það eru hagsmunir Reykvíkinga að meirihlutinn viðurkenni lögvarða hagsmuni sína því þeir eru gríðarlegir. Annað er mikið ábyrgðarleysi og stenst tæpast sveitarstjórnarlög því í þeim er rík áhersla á að byggðarráð/borgarráð á að hafa eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess. Dylgjum um árásir á embættismenn er hafnað. Öllum er ljóst að skandallinn í kringum braggann hefur verið í öllum fjölmiðlum og þol hins almenna borgara er á þrotum. Þegar viljaleysi meirihlutans um að upplýsa ekki um málið birtist með svo afgerandi hætti eins og í áliti borgarlögmanns er þolinmæðin á þrotum. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Skýrsla innri endurskoðunar liggur fyrir og umbótaferli er hafið. Ásökunum borgarfulltrúans hefur margoft verið svarað. Þær eiga ekki við rök að styðjast.
     

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni forkaupsrétti í fiskiskipið Njál ER 272 sem Reykjavíkurborg hefur skv. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. R19020093
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. febrúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni forkaupsrétti í fiskiskipið Karl Magnús SH-302 sem Reykjavíkurborg hefur skv. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. R19020051
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um friðlýsingu Elliðaárdals, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. ágúst 2018. R18070131
    Frestað.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram minnisblað mannréttindastjóra, dags. 13. febrúar 2019, um frumkvæðisrannsókn Persónuverndar á notkun Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands vegna aðgerða til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningum 2018, ásamt fylgiskjölum. R17090251

    -    Kl. 11:08 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákvörðun Persónuverndar lýtur að því að vinnsla Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum hafi ekki samrýmst lögum. Þessi niðurstaða er litin alvarlegum augum. Persónuverndarmál eru sífellt mikilvægari málaflokkur og áhersla á persónuvernd hvers konar hefur verið aukin og mun verða það enn frekar með þeim stjórnsýslubreytingum sem framundan eru. Persónuverndarfulltrúi hefur tekið til starfa og sérfræðingar í persónuverndarmálum verða ráðnir inn á fagsvið borgarinnar. Það hefur hingað til verið almenn skoðun, jafnt innan Reykjavíkur sem í öðrum sveitarfélögum, að æskilegt sé að leita leiða til að draga úr minnkandi kosningaþátttöku og hafa sveitarfélög sameinast um þá áherslu í stefnumörkun fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga. Ákvörðunin kallar á að ákvarðanir um hvort og með hvaða hætti skuli auka þátttöku verði endurskoðaðar þannig að enginn vafi leiki á lögmæti og hlutleysi slíkra aðgerða í framtíðinni.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Stofnunum ríkisins, Persónuvernd, Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, dómsmálaráðuneytinu, Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun og vísindasiðanefnd var þvælt inn í hina svokölluðu „kosningarannsókn“ sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Aldrei fyrr á Íslandi hefur verið gerð álíka árás á lýðræðið í landinu. Nánast í hverri einustu stofnun loguðu rauð ljós. Dómsmálaráðuneytið gerði alvarlegar athugasemdir auk Persónuverndar. Póst- og fjarskiptastofnun hafnaði beiðni Reykjavíkur um að senda smáskilaboð til kjósenda með þessum ákvörðunarorðum: Umsókn Reykjavíkurborgar, í samstarfi við Háskóla Íslands, um að fá undanþágu frá banni við óumbeðnum fjarskiptum samkvæmt 46. gr. laga um fjarskipti 81/2003 er hafnað. En áfram var haldið. Ekkert í þessu máli varðar almannahagsmuni eins og það hugtak er skýrt í lögum. Það er kristaltært að viljinn til þess að hafa áhrif á kosningarnar var keyrður áfram af ásettu ráði og verknaðurinn var fullframinn og tókst. Reykjavíkurborg hylmdi yfir að svokölluð rannsókn var útvíkkuð á skrifstofum Ráðhússins þegar ákveðið var að bæta konum sem voru 80 ára og eldri og öllum útlendingum með lögheimili í Reykjavík skilaboð/bréf. Það hefur verið metið  ólögmætt samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur ákveðið að senda málið áfram til dómsmálaráðuneytisins til frekari úrskurðar um lögmæti borgarstjórnakosninganna sem fram fóru hinn 26. maí 2018.

    -    Kl. 11:40 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fullyrðingar í bókun fulltrúa Miðflokksins eru ýmist rangar, hæpnar eða mjög gildishlaðnar. Ákvörðun Persónuverndar lýtur að meðferð persónuupplýsinga, ekki öðrum atriðum. Líkt og áður sagði eru þau atriði sem snúa að vinnslu persónuupplýsinga litin alvarlegum augum. Fullyrðingar sem draga í efa úrslit lýðræðislegra kosninga eru hins vegar jafnalvarlegar og þær eru fordæmalausar. Hafi einhver grun um að ágallar á framkvæmd kosninga séu með þeim hætti að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna þarf að meðhöndla þær ávirðingar í samræmi við gildandi lög. Gildishlaðnar fullyrðingar um kosningasvik, líkt og bornar hafa verið fram í opinberri umræðu, eru ábyrgðarhluti í lýðræðissamfélagi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákvörðun Persónuverndar er áfellisdómur yfir þeim aðgerðum sem Reykjavíkurborg stóð að til að auka kosningaþátttöku. Sjálfstæðisflokkur telur sjálfsagt að styðja frjáls félagasamtök til almennra aðgerða sem miða að aukinni kosningaþátttöku, og samþykkti að leggja drög að slíkum aðgerðum, þó með fyrirvara um lokaútfærslu. Þegar útfærslan lá fyrir í apríl 2018 töldu fulltrúar Sjálfstæðisflokks auðsýnt að útfærslan væri varasöm og aðkoma meirihluta borgarstjórnar, sem pólitískt kjörins stjórnvalds, óeðlileg. Töldu fulltrúarnir því nauðsynlegt að afla álits Persónuverndar á aðgerðunum. Þeirri tillögu var frestað en hún loks rædd í borgarstjórn 15. maí 2018. Þar sagði borgarstjóri allt málið hafa verið „unnið eftir réttum leiðum og leikreglum“. Það samræmist ekki ákvörðunarorðum Persónuverndar en verulegar brotalamir voru á upplýsingagjöf til stofnunarinnar varðandi framkvæmdina. Í annan stað sagði borgarstjóri þetta „almenna aðgerð“, sem er einnig rangt. Var um sértæka aðgerð að ræða eins og bent er á í ákvörðuninni. Um svipað leyti sá Persónuvernd ástæðu til að gera dómsmálaráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis viðvart um aðgerðirnar. Ráðuneytið benti á að ungir kjósendur væru ekki upplýstir um að þeir væru andlag rannsóknar. Þá væri í einu bréfanna að finna villandi upplýsingar um borgaralega skyldu til að kjósa. Meirihluti borgarstjórnar virti að vettugi athugasemdir opinberra eftirlitsaðila. Alvarlegar athugasemdir dómsmálaráðuneytis og Persónuverndar undirstrika alvarleika málsins, enda gerðist borgin brotleg við lög.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Málið er háalvarlegt. Borgin braut lög. Upplýsingar um veigamikil atriði voru ekki send Persónuvernd er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Persónuverndar. Í bréfi til unga fólksins var talað um að það væri skylda þeirra að kjósa ella væri lýðræðinu ógnað. Með þessum orðum er verið að leggja óþarfa ábyrgð á herðar ungs fólks. Eins og lýðræðið hvíli á þeirra herðum? Ef þeir mæta ekki til að kjósa er lýðræðinu ógnað? Hér er allt of sterkt tekið til orða og gætu einhverjum þótt sem fælist í  þessu einhvers konar þvingunarívaf. Fram kemur hjá Persónuvernd að rannsóknin var ekki til „að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungs fólks“ enda skilaboðin gildishlaðin og röng. Hópur eldri borgaranna var aldrei hluti af þessari rannsókn. Engin rök eru fyrir að upplýsa konur yfir áttrætt um kosningarétt þeirra. Ef borgarfulltrúi reynir að setja sig í þessi spor þá virkar þetta allt að því niðurlægjandi. Skýrsla Persónuverndar er afgerandi og spyrja má hvernig snerta þessar niðurstöður siðareglur og meðalhóf? Aðkoma sveitarfélags að könnun sem þessari rétt fyrir kosningar getur varla skilað trúverðugum niðurstöðum heldur skapar öllu heldur tortryggni. Rökin um almannahagsmuni í þessu sambandi passa illa hér enda ósennilegt að það sé almennur skilningur manna að hér séu almannahagsmunir í húfi.

    Anna Kristinsdóttir og Magnús Þór Torfason taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að borgaryfirvöld samþykki að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem snúa að borgum og með formlegum hætti. Sérstaklega skal hugað að innleiðingu heimsmarkmiðanna í allt leik- og grunnskólastarf borgarinnar. Heimsmarkmiðin eiga erindi til nemenda á öllum skólastigum og ekki síst til leikskólabarna. Mikilvægt er að borgaryfirvöld samþykki að hefja markvissa vinnu að uppfræða börnin um heimsmarkmiðin strax í leikskóla. Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu. Grunnskólar eru hvattir til að nýta sér þetta og að leggja áherslu á heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Nú þegar ættu að vera komin veggspjöld með heimsmarkmiðunum í alla skóla landsins, á öllum skólastigum. Hægt er að nýta veggspjöld til að gera markmiðin sýnilegri og þannig verði þau nýtt í auknum mæli til að leggja áherslu á mikilvægi hvers einasta heimsmarkmiðs enda eiga þau erindi inn í alla okkar tilveru. Það er von Flokks fólksins að skólar finni fyrir hvata úr öllum áttum til að innleiða heimsmarkmiðin og að sá hvati komi þá allra helst frá Reykjavíkurborg. R19020121

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um hversu mörg bréf voru send út í tengslum við að auka kjörsókn í heild sinni. Hversu mörg þeirra voru send til ungs fólks og í hvaða hverfi borgarinnar? Hversu mörg bréf voru send til innflytjenda og hversu mörg bréf voru send konum 80 ára og eldri? Þá er einnig óskað upplýsinga um hversu mörg smáskilaboð voru send út. R17090251

  21. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Óskað er upplýsinga varðandi skemmdir á útiklefa í Sundhöll Reykjavíkur sem hefur af þeim sökum verið lokaður undanfarið og á þeim frost- og lagnaskemmdum sem orðið hafa í kuldakaflanum í janúar. Þá er óskað upplýsinga um þær rakaskemmdir sem taldar eru vera í nýja inni kvennaklefanum, bilun í loftræsikerfi og þær skemmdir í klæðningu gufubaðs sem leitt hafa til þess að það hefur verið lokað. Hvenær má búast við að viðgerðir hefjist á þessum skemmdum og aðstaðan opnuð aftur? Þá er óskað svara við því hver kostnaðurinn er talinn vera við viðgerðirnar. R19020120

Fundi slitið klukkan 11:58

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

Dóra Björt Guðjónsdóttir Marta Guðjónsdóttir