Borgarráð - Fundur nr. 5533

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 31. janúar, var haldinn 5533. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:01. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Dagný Magnea Harðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fara umræður um fundarsköp. R19010002

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:  

    Við undrumst að þessar tvær tillögur um framhald braggamálsins séu ekki teknar fyrir þrjá borgarráðsfundi í röð, þ.e. tillagan um að tekið verði fyrir eyðingu tölvupósta annars vegar og tillaga um að innri endurskoðun sannreyni reikninga v. Nauthólsvegar 100. Þá er ítrekuð fyrirspurn um samskipti borgarstjóra við leigufélagið Bjarg, sérstaklega hvernig félaginu var svarað en eingöngu eitt bréf frá Bjargi má finna í svari borgarstjóra í fundargerð borgarráðs frá 8. nóv. 2018 undir lið 39. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun. 

    Aftur hefur það gerst að ekki var orðið við beiðni minni um að fjármálastjóri Reykjavíkur mæti fyrir borgarráð og geri grein fyrir þeim 73 milljónum sem þegar hafa verið greiddar út á braggann án heimilda en slíkt er skýrt brot á sveitarstjórnarlögum. Bragginn hverfur ekki þó hann sé ekki settur á dagskrá funda hjá Reykjavíkurborg. Eins er það fordæmt að ekki skuli vera tekin á dagskrá tillaga Miðflokksins og Flokks fólksins um að kveða tafarlaust til dómskvaddan matsmann til að meta virði framkvæmda á Nauthólsvegi 100. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Til að auka gagnsæi og betri vinnslu fyrirspurna og tillagna, sem hafa margfaldast eftir kosningar, hefur meirihluti borgarráðs innleitt betra og agaðra verklag til að fá glögga yfirsýn yfir farveg þeirra. Listi embættisafgreiðslna er hluti af þessu verklagi. Það er mikilvægt að vanda til verka og taka upplýstar ákvarðanir þegar tillögur koma til afgreiðslu. Ábyrgð borgarfulltrúa er mikil í þeim efnum. Samþykktir kveða ekki á um tafarlausa afgreiðslu tillagna eða fyrirspurna því eðli málsins samkvæmt eru þær efnisólíkar og misjafnar að umfangi þó ávallt sé málmeðferðarhraðinn hafður að leiðarljósi.

  2. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 21. janúar 2019. R19010035

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 24. janúar 2019. R19010016

    Borgarráðfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að endurskoða samþykktir innkauparáðs Reykjavíkurborgar. Ljóst er að innkaupráð hefur ekki hlotið áheyrn embættismanna og borgarráðs sem það heyrir jafnframt undir. Þess vegna er augljóst að auka þarf eftirlitshlutverk og valdsvið Innkauparáðs. Það verður m.a. gert með því að valdefla ráðsmenn með því að tveir af fimm fulltrúum hafi heimild til að vísa málum til innri endurskoðunar. innkauparáð gegnir mikilvægu eftirlitshlutverki og verkefnin sem ráðinu eru falin eru oft á tíðum flókin og viðamikil. Í þeim tilgangi að styrkja ráðið í störfum sínum og auðvelda því eftirlitshlutverk sitt er lagt til að kjörnum fulltrúum verði fjölgað í ráðinu úr þremur í fimm. Eru þessar aðgerðir hugsaðar sem fyrsta skref í að styrkja innkauparáð og auka vægi þess enda gegnir ráðið m.a. mikilvægu eftirlitshlutverki.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019. R19010022

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sú stefnubreyting að hverfa frá landfyllingum við Örfirisey og fara í landfyllingar við Sundahöfn og í ósum Elliðaáa gengur gegn umhverfissjónarmiðum aðalaskipulags. Áform um eina milljón rúmmetra landfyllingu við ósa Elliðaá mun hafa neikvæð áhrif á lífríki og búsvæði fiska. Þá væri skynsamlegra að búa til byggingarland á verðmætu svæði í vesturbæ og nýta Örfirisey til búsetu. Sú stefna að vera með olíubirgðastöð í vesturbæ Reykjavíkur til langs tíma er tímaskekkja. Huga ber að flutningi og minnkun þessarar starfsemi enda er stefnt að orkuskiptum í samgöngum. Þá væri uppbygging í Örfirisey þáttur í bæta þann skipulagshalla sem er í borginni og minnka þannig samgönguvanda borgarinnar í heild. Ljóst er að bæta þyrfti samgöngur samhliða uppbyggingu, en með því að leyfa ekki neina byggð við Örfirisey er verið að glata einstöku tækifæri til uppbyggingar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hámarkshraði á þessum hluta Hringbrautar er í dag 50 km/klst. Skv. hraðamælingum lögreglu (tímabundið eftirlit með hraðamyndavél). Frá síðustu árum er meðalhraði bílaumferðar á bilinu 42-48 km/klst. en meðalhraði brotlegra 62-64 km/klst. og mesti hraði brotlegra 70-84 km/klst. Miðflokkurinn tekur undir nauðsyn þess að  umbætur verði gerðar á svæðinu, en eins og sjá má á ofanrituðu eru langflest slys á svæðinu tilkomin vegna þess að hámarkshraði er ekki virtur og ekið er gegn rauðu ljósi. Við setjum því spurningamerki við hvort rétt er að lækka hraða á svæðinu úr 50 km. á klst. í 40 km. á klst. Það er því umhugsunarvert hvort ekki er rétt að teppaleggja svæðið með eftirlitsmyndavélum sem taka á hraða og akstri gegn stöðvunarskyldu. Samhliða verði öll lýsing við gangbrautir endurbætt og gerð eins góð og kostur er. Miðflokkurinn lýsir yfir ánægju með að hafnar séu viðræður við Samgönguráðuneyti um gerð Sundagangna/brautar. Miðflokkurinn harmar jafnframt að tillaga þessi hafi ekki verið til lykta leidd með atkvæðagreiðslu þegar hún var lögð fram þann 8. október. Með því hefðu verið send skýr skilaboð um að ekki verði lengur beðið með þessa nauðsynlegu samgönguúrbót, sem nú þegar er um það bil 20 árum á eftir áætlun.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 11. janúar 2019. R19010028

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit yfir fundi borgarstjóra með fulltrúum stjórnvalda í nóvember 2018. R18010078

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur  fram svohljóðandi bókun:  

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi ítreka mikilvægi þess að oddvitar minnihlutans fari með borgarstjóra á fundi  með stjórnvöldum eftir atvikum. Í yfirliti sem hér er lagt fram undir þessum lið eru t.d. fundir með mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, lögreglustjóranum og forsætisráðherra. Með því að bjóða oddvitum minnihlutans að taka þátt í þessum fundum má leiða líkum að breiðari sýn á þau mál sem eru til umræðu hverju sinni svo ekki sé minnst á breiðari sátt í borgarstjórn.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R19010132

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Bréf frá Heklu, dags. 21. janúar, stílað á borgarráð hefur enn ekki verið lagt fram í borgarráði. Þess er óskað að bréfið verði lagt fram í borgarráði á þessum fundi.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19010133

    Fylgigögn

  9. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. janúar 2019, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 06:00 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir Keiluhöllina, Egilshöll, vegna Superbowl 2019. R19010339

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. janúar 2019, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir American Bar, Austurstræti 8-10, vegna Superbowl 2019. R19010149

    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:  

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill bóka mótmæli sem honum hefur borist vegna tímabundinna áfengisleyfa í tengslum við Superbowl á American Bar í Austurstræti, aðfararnótt mánudagsins 4. febrúar 2019. Í þessu sambandi er vísað í 4. grein lögreglusamþykktar frá 19. nóvember 2008: "Bannað er að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri ef ástæða er til að ætla að hún valdi verulegu ónæði eða truflun. Borgarstjórn getur bannað neyslu áfengis á almannafæri á tilteknum tíma á tilteknum svæðum í þéttbýli. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. janúar 2019, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 05:00 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir Bjarna Fel/Hressó, Austurstræti 20, vegna Superbowl 2019. R19010169

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. janúar 2019, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:30 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir Sportbarinn Ölver, Álfheimum 74, vegna Superbowl 2019. R19010167

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. janúar 2019, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir Ægisgarð, Eyjaslóð 5, vegna Superbowl 2019. R19010216

    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  14. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. janúar 2019, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir Bryggjan brugghús, Grandagarði 8, vegna Superbowl 2019. R19010240

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. janúar 2019, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir Bastard brew and food, Vegamótastíg 4, vegna Superbowl 2019. R19010174

    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  16. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. janúar 2019, um tækifærisleyfi til lengri opnunartíma til kl. 02:00, aðfaranótt 8. febrúar nk., vegna árshátíðar Verzlunarskóla Íslands í Origo höllinni, Hlíðarenda. R19010326

    Samþykkt.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:  

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hafði samband við skólastjóra Verzlunarskólans til að kanna hvort fyrir liggi umsögn foreldrafélagsins vegna beiðni um að árshátíðin megi standa til 02:00 enda helmingur nemenda væntanlega undir 18 ára. Fram kemur í svari hans að ekki liggi fyrir formleg umsögn en ekki hafi borist neinar athugasemdir frá foreldrafélaginu. Enn fremur segir í svari frá skólastjóra að það sé góð samvinna milli skólans og foreldrafélagsins, t.a.m. kemur alltaf hópur foreldra (ca. 10 manns) sem aðstoða við vakt fyrir utan ballstaðinn við að halda röð og reglu og hjálpa til við að láta allt fara vel fram.

    Fylgigögn

  17. Lagt er til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti í stýrihópi um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar í stað Magnúsar Más Guðmundssonar. Jafnfram er lagt til að Elín Oddný Sigurðardóttir verði formaður stýrihópsins. R14050127

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði. R19010041

    Samþykkt að veita Neytendasamtökunum styrk að fjárhæð kr. 1.500.000 vegna starfsársins 2019 og Main Course ehf. styrk að fjárhæð kr. 2.000.000 vegna Food and fun 2019.

    Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. janúar 2019 á tillögu að breytingu á deiliskiplagi fyrir lóðirnar nr. 151 og 153 við Bústaðarveg, ásamt fylgiskjölum. R18100198

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. janúar 2019 á tillögu að deiliskipulagi vegna lagningu brúar yfir Fossvog, ásamt fylgiskjölum. R18110153

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðisflokkur leggur ríka áherslu á samgöngubætur fyrir fjölbreyttar samgöngur en samgönguvandi borgarinnar hefur vaxið gífurlega síðustu ár. Væntingar standa til þess að Fossvogsbrú verði mikil samgöngubót fyrir höfuðborgarsvæðið. Áformað er að flutningsgeta brúarinnar verði slík að draga muni úr umferðarálagi og hvetja muni fólk til að nýta vistvæna samgöngumáta. Þó liggur ekki fyrir hvernig staðið verður að fjármögnun mannvirkisins sem talið er að kosti 2.500 milljónir. Mikilvægt er að kalla fram skýr svör frá ríki og Kópavogsbæ um skiptingu kostnaðar við uppbyggingu brúarinnar, en talsverð óvissa er um fjármögnun.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fossvogsbrú hefur frá upphafi verið hugsuð sem leið fyrir virkar samgöngur, það er að segja fyrir fótgangandi og hjólandi vegfarendur og vistvænar almenningssamgöngur. Mikilvægt er að hleypa ekki almennri bílaumferð um hana. Fossvogsbrúin verður því mikil samgöngubót á höfuðborgarsvæðinu og afar ánægjuleg tímamót að sveitarfélögin samþykki endanlega sameiginlegt deiliskipulag sem mun tengja saman Reykjavík og Kópavog með vönduðu samgöngumannvirki.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019, með  leiðréttri bókun við samþykkt á tillögu um leiðbeiningar að hverfisskipulagi, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar 2019, ásamt fylgiskjölum. R19010131

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019, á leiðréttri bókun við samþykkt á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.1 Ártúnsholt, ásamt fylgiskjölum. R19010131

    Samþykkt.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í hverfisskipulagi birtist framtíðarsýn fyrir gróin hverfi og heimildir til breytinga og minniháttar uppbyggingar verða til. Allt miðast að því að hverfin verði sjálfbærari og grænni og að íbúar geti þekkt hverfin sín vel og þær heimildir sem þar er að finna hvort heldur sem það er í verslunarkjörnum eða á einkalóðum. Aldrei hefur verið farið í eins viðamikið samráð við íbúa eins og við gerð hverfisskipulags og hafa þúsundir borgarbúa á öllum aldri komið að vinnunni, allt frá vinnu grunnskólabarna við líkön af hverfunum sínum til einstaklinga sem sitja í rýnihópum. Með hverfisskipulaginu fylgja leiðbeiningar til að auðvelda skilning á skipulagi og því hvað sjálfbært hverfi er. Um tímamót er að ræða þar sem verið er að auka gagnsæi í deiliskipulagi og heimildir borgarbúa til að breyta húsnæði sínu með betri og einfaldari hætti. Gerð heildstæðs skipulags fyrir hverfi borgarinnar hefur verið lengi í vinnslu enda viðamikið verkefni. Það er því fagnaðarefni að leiðbeiningar og fyrsta hverfisskipulag borgarinnar hafi nú verið samþykkt samhljóða af borgarráði. Eðlilegt er að taka afstöðu til þess hvort hverfisskipulag verði endurskoðað að fjórum árum liðnum byggða á fenginni reynslu.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019, á leiðréttri bókun við samþykkt á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.2 Árbær, ásamt fylgiskjölum. R19010131

    Samþykkt.

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í hverfisskipulagi birtist framtíðarsýn fyrir gróin hverfi og heimildir til breytinga og minniháttar uppbyggingar verða til. Allt miðast að því að hverfin verði sjálfbærari og grænni og að íbúar geti þekkt hverfin sín vel og þær heimildir sem þar er að finna hvort heldur sem það er í verslunarkjörnum eða á einkalóðum. Aldrei hefur verið farið í eins viðamikið samráð við íbúa eins og við gerð hverfisskipulags og hafa þúsundir borgarbúa á öllum aldri komið að vinnunni, allt frá vinnu grunnskólabarna við líkön af hverfunum sínum til einstaklinga sem sitja í rýnihópum. Með hverfisskipulaginu fylgja leiðbeiningar til að auðvelda skilning á skipulagi og því hvað sjálfbært hverfi er. Um tímamót er að ræða þar sem verið er að auka gagnsæi í deiliskipulagi og heimildir borgarbúa til að breyta húsnæði sínu með betri og einfaldari hætti. Gerð heildstæðs skipulags fyrir hverfi borgarinnar hefur verið lengi í vinnslu enda viðamikið verkefni. Það er því fagnaðarefni að leiðbeiningar og fyrsta hverfisskipulag borgarinnar hafi nú verið samþykkt samhljóða af borgarráði. Eðlilegt er að taka afstöðu til þess hvort hverfisskipulag verði endurskoðað að fjórum árum liðnum byggða á fenginni reynslu.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019, á leiðréttri bókun við samþykkt á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.3 Selás, ásamt fylgiskjölum. R19010131

    Samþykkt. 

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í hverfisskipulagi birtist framtíðarsýn fyrir gróin hverfi og heimildir til breytinga og minniháttar uppbyggingar verða til. Allt miðast að því að hverfin verði sjálfbærari og grænni og að íbúar geti þekkt hverfin sín vel og þær heimildir sem þar er að finna hvort heldur sem það er í verslunarkjörnum eða á einkalóðum. Aldrei hefur verið farið í eins viðamikið samráð við íbúa eins og við gerð hverfisskipulags og hafa þúsundir borgarbúa á öllum aldri komið að vinnunni, allt frá vinnu grunnskólabarna við líkön af hverfunum sínum til einstaklinga sem sitja í rýnihópum. Með hverfisskipulaginu fylgja leiðbeiningar til að auðvelda skilning á skipulagi og því hvað sjálfbært hverfi er. Um tímamót er að ræða þar sem verið er að auka gagnsæi í deiliskipulagi og heimildir borgarbúa til að breyta húsnæði sínu með betri og einfaldari hætti. Gerð heildstæðs skipulags fyrir hverfi borgarinnar hefur verið lengi í vinnslu enda viðamikið verkefni. Það er því fagnaðarefni að leiðbeiningar og fyrsta hverfisskipulag borgarinnar hafi nú verið samþykkt samhljóða af borgarráði. Eðlilegt er að taka afstöðu til þess hvort hverfisskipulag verði endurskoðað að fjórum árum liðnum byggða á fenginni reynslu.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. janúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Lækjargötu 10-12, Vonarstræti 4 og 4b og Skólabrú 2 vegna lóðarinnar nr. 4 við Vonarstræti, ásamt fylgiskjölum. R19010360

    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Fram fer kynning á mánaðarlegu uppgjöri A-hluta janúar-nóvember 2018.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R18010076

  27. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 27. janúar 2019, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tímaáætlun vegna skuldabréfaútboðs á fyrsta ársfjórðungi 2019. R19010352

    Samþykkt. 

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  28. Lögð fram auglýsing Reykjavíkurborgar, dags. 28. janúar 2019, um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem undanþegin eru verkfallsheimild. R19010244

    Samþykkt. 

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 27. desember 2018, um þróun tekna og útgjalda málaflokka 2008-2018.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R18080070

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. janúar 2019, ásamt minnisblaði fjármálastjóra um einföldun á eignarhaldi Neyðarlínunnar ohf.:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg kaupi 7,89% hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Neyðarlínunni ohf. á kr. 12,5 m.kr. Jafnframt er lagt til að hlutabréfin verði afhent Reykjavíkurborg sem hluti af væntanlegri arðgreiðslu til Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010192

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera ekki athugasemdir við kaupin, en leggja áherslu á að Orkuveitan hafi hóflegar gjaldskrár og setji lækkun gjalda í forgang fram yfir arðgreiðslur. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kaupin eru liður í því að einfalda eignarhald á Neyðarlínunni enda mun ríkið kaupa hlut Landsvirkjunnar á sama hátt og borgin er nú að kaupa hlut Orkuveitu Reykjavíkur.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Hildur Björnsdóttir víkur af fundinum við afgreiðslu málsins. 

    Fylgigögn

  31. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 24. janúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að framlengja framkvæmdafresti vegna byggingar kirkjubyggingar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar – Safnaðar Moskvu-Patriarkatsins, Öldugötu 44, um 4 ár vegna fyrirhugaðrar kirkjubyggingar á lóðunum Bræðraborgarstígur 2 og Bakkastígur 8, ásamt fylgiskjölum. R18110202

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þótt skylda sveitarfélaga nái einvörðungu til að láta kirkjum þjóðkirkjunnar í té endurgjaldslausar lóðir þá markaði Reykjavíkurborg sé þá stefnu á árinu 1999, með vísan til almennra jafnræðissjónarmiða, að ekki ætti að gera upp á milli trúfélaga þegar kemur að réttindum þeirra til lóða eða undanþágu frá gjaldtöku af lóðum eða tilbeiðsluhúsum trúfélaga. Hér er verið að gefa frest til að hefja framkvæmdir vegna þess að trúfélagið vill minnka mannvirkið og með því er verið að verða við ósk borgarinnar. Þess vegna er fallist á þennan frest. En hér skal undirstrikað að þetta er frestur til að hefja framkvæmdir innan tveggja ára og þetta er lokafrestur.

    Óli Jón Hertervig og Einar I. Halldórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. janúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki sölu á byggingarrétti fyrir bílskúr að Lindarvaði 2, ásamt fylgiskjölum. R19010125

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig og Einar I. Halldórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. janúar 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi tilboð í íbúð að Þórðarsveigi 30, ásamt fylgiskjölum. R17100331

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig og Einar I. Halldórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. janúar 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að nýjum samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á nýjum uppbyggingarsvæðum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010303

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja breytingar á samningsmarkmiðum um uppbyggingu á nýjum uppbyggingarsvæðum skv. aðalskipulagi 2010-2030. Góð reynsla er nú komin á samningsmarkmiðin enda búið að samþykkja margar skipulagsáætlanir þar sem hluti íbúða á svæðnum verði leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir eða íbúðir í eigu Félagsbústaða. Þá geta Félagsbústaðir keypt 5% íbúða á uppbyggingarreitum á því verði sem kveðið er á um í lögum um almennar íbúðir. Þá hefur í nokkrum tilfellum verið samið um framlag lóðarhafanna og Reykjavíkurborgar á sérstöku framlagi til listsköpunar í almenningsrýmum. Samningsmarkmiðin hafa reynst borginni vel og uppbyggingaraðilum enda fást út úr samstarfinu vandaðri innviðir, fjölbreyttari íbúasamsetning og betri borg.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Gildandi samningsmarkmið Reykjavíkurborgar hafa verið íþyngjandi fyrir húsbyggjendur og skilað sér í hærra húsnæðisverði sem og leiguverði. Mörg verkefni hafa tafist vegna íþyngjandi krafna Reykjavíkurborgar. Þessi inngrip í markaðinn hafa valdið auknum kostnaði hjá húsbyggjendum. Með lækkun á söluverði ákveðins fjölda íbúða til borgarinnar leggst enn meiri kostnaður á íbúðir á almenna markaðnum. Niðurstaðan 2019 er að offramboð af dýrum íbúðum á þéttingarsvæðum er staðreynd og fólk flytur annað. Áframhaldandi stefna mun auka enn á vandann. 

    Áheyrnarfullltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í IV. kafla myndlistarlaga nr. 64/2012, sem fjallar um listaverk í opinberum byggingum og útisvæðum er engin kvöð á sveitarfélög um að verja fjármagni í listskreytingar. Myndlistarlög taka eingöngu til bygginga ríkisins. Það er óverjandi að útsvarsgreiðslum Reykvíkinga sé varið í rándýr listaverk sem eru andvirði fjölmargra félagslegra íbúða eins og nýjasta dæmið sannar í Vogabyggð. Borgin á að sinna sínu lögbundna hlutverki fyrst og síðast.

    Áheyrnarfullltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst margt í þessum markmiðum í ágætum farvegi en veltir því þó upp hvort hægt sé að breyta hlutföllum meira í hverfum, t.d. auka vægi félagslegra íbúða eða minnka ef svo ber undir. Einnig mætti auka fjölbreytileika í hverfum. Nú eru smáheimili af öllum gerðum mikið í umræðunni sem og krafa um rými fyrir hjólhýsabyggð. Þegar verið er að ræða um uppbyggingu á nýjum svæðum þarf að horfa til allra átta og taka tillit til þess að þarfir og óskir sem og greiðslugeta borgarbúa er afar misjöfn. Sem dæmi í Vogabyggð er einungis talað um að 5 % íbúða séu félagslegar. Þetta er afar lítil prósenta í svo stóru hverfi og þarna hefði prósentan alveg mátt vera hærri. 

    Fylgigögn

  35. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 28. janúar 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 23. janúar 2019 á tillögum starfshóps um úthlutun styrkja og þjónustusamninga velferðarráðs fyrir árið 2019, ásamt fylgiskjölum. R19010364

    Samþykkt. 

    Tillögurnar eru trúnaðarmerktar fram að afhendingu styrkjanna.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram bókun undir þessum lið sem er færð í trúnaðarbók borgarráðs fram yfir afhendingu styrkjanna. 

    Kristjana Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  36. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 29. janúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um erindi heiðursborgara Reykjavíkur vegna Víkurgarðs, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar 2019. R16050188

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Erindi heiðursborgara Reykjavíkur var tekið til umræðu á fundi borgarráðs 8. nóvember 2018 auk þess sem borgarráð hefur ítrekað fjallað um málefni sem garðinum tengjast á fundum sínum undanfarnar vikur og mánuði. Í ljósi þess að til meðferðar eru mál Minjastofnunar er varða friðun Fógetatorgs og síðar skyndifriðun á hluta framkvæmdasvæði Landssímarreits var ákveðið að boða heiðursborgara Reykjavíkur til fundar þegar lyktir þeirra mála lægju fyrir og fjalla frekar um málið í borgarráði í kjölfarið.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Hið rétta er að erindi heiðursborgara var lagt fram í borgarráði 8. nóvember 2018 en fékk ekki umfjöllun né afgreiðslu á þeim fundi. Þess var getið að umrætt erindi kæmi fljótlega inn í borgarráð til umfjöllunar en erindið hefur  ekki enn verið tekið fyrir þar.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna deiliskipulags Óðinstorgs, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní 2018. R18030026

    Fylgigögn

  38. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. janúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um jólaskreytingar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. nóvember 2018. R18110244

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun : 

    Enda þótt jólaskreytingar séu ávallt skemmtilegt viðfangsefni og sannarlega ekki gaman að vera að agnúast út í þær er hér engu að síður um háa upphæð að ræða. Í þessu sambandi vill áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins minna á að ætíð skal gæta hófs, hagkvæmni og útsjónarsemi þegar verið er að sýsla með fé borgarbúa. Það stingur einnig nokkuð í augu í þessu svari hversu stórt hlutfall það er sem fer í skreytingar í miðbænum. Í borginni eru fleiri hverfi.

    Fylgigögn

  39. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. janúar 2019, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um verkefni skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R18100133

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Starfsemi og verkefni SEA hafa reynst borginni afar mikilvæg á undanförnum árum. Sum stór verkefni hefðu aldrei orðið ef ekki hefði verið fyrir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Þar má nefna umfangsmikil fasteignaþróunarverkefni í Gufunesi og víðar, náttúrusýning í Perlunni og hótelþróunarverkefni á borð við Alliance reit. Í svarinu gefur að líta langan lista yfir verkefni skrifstofunnar og eignir sem undir hana heyra.

    Fylgigögn

  40. Lagt fram svar Strætó bs, ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til Nýtækni/Prime tours vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. nóvember 2018. R18080193

    Fylgigögn

  41. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. janúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað við framkvæmdir við Miklubraut við Klambratún, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. nóvember 2018. R18110068

    Fylgigögn

  42. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. janúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað við framkvæmdir við Miklubraut neðan við Rauðagerði, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. nóvember 2018. R18110069

    Fylgigögn

  43. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að Félagsbústaðir setji sér þjónustustefnu, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. nóvember 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn Félagsbústaða, dags. 24. janúar 2019. R18110061

    Tillögunni er vísað frá með vísan til þess sem kemur fram í umsögn Félagsbústaða.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ástæða til að vekja athygli á því og fagna sérstaklega að Félagsbústaðir hafa unnið mikla og góða vinnu við að bæta þjónustu, samskipti við leigjendur og vinnu við mótun siðareglna í samræmi við eigendastefnu. Stefnt er að því að siðareglur verði lagðar fyrir stjórn Félagsbústaða í marsmánuði og því er málið þegar í undirbúningi í Félagsbústöðum. Að auki mótar borgin vinnu Félagsbústaða í gegnum eigendastefnu og því er ekki talið fara vel á því að samþykkja slíka tillögu í borgarráði. Tillögunni er því vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hafinn sé undirbúningur við mótun þjónustustefnu Félagsbústaða. Segir í svari að stefnan muni m.a. taka mið af þjónustustefnu Reykjavíkurborgar og ábendingum áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem koma fram í tillögunni. Áheyrnarfulltrúa finnst að greina megi vísbendingar í framlögðu svari nýs framkvæmdarstjóra Félagsbústaða að hún sé vel meðvituð um mikilvægi þess að taka þetta skref og gera það af alvöru. Eins og flestir vita sem fylgst hafa með Félagsbústöðum í hinni almennu umræðu hafa kvartanir af ýmsu tagi borist m.a. vegna óásættanlegrar framkomu, neikvæðs viðmóts og fleira sem varðar samskipti fyrirtækisins við notendur þjónustu Félagsbústaða. Það er von borgarfulltrúa að nú verði gerðar grundvallar breytingar á Félagsbústöðum hvað þetta varðar enda er krafan einfaldlega sú að þjónustan verði framúrskarandi og að notendur hennar mæti aldrei öðru en virðingu, hlýju og skilningi í samskiptum sínum við Félagsbústaði.

    Fylgigögn

  44. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um siðareglur fyrir samskipti Félagsbústaða við leigutaka, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. nóvember 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn Félagsbústaða, dags. 24. janúar 2019. R18110062

    Tillögunni er vísað frá með vísan til þess sem kemur fram í umsögn Félagsbústaða. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnar jákvæðum viðbrögðum sem lesa má í svari frá framkvæmdarstjóra Félagsbústaða við tillögu Flokks fólksins að gerðar verði siðareglur í samskiptum Félagsbústaða við leigutaka. Tillaga var lögð fram að gefnu tilefni en fjölmargar kvartanir af ýmsu tagi hafa borist áheyrnarfulltrúa sem gefa sterkar vísbendinga um að slíkra reglna er þörf. Árið 2017 var samþykkt leiðarljós í 6 liðum fyrir Félagsbústaði þar sem m.a. er kveðið á um starfsskyldur sem og má finna þar siðferðislegar leiðbeiningar. Í ljósi fjölmargra sumra alvarlegra kvartanna virðist sem umrætt „leiðarljós“ væri ekki að lýsa sem best alla vega ekki í öllum tilfellum. Í svari kemur fram að vinna standi yfir við mótun mannauðsstefnu og siðareglna sem vænta má að verði lagðar fyrir stjórn Félagsbústaða í mars. Þetta eru góð tíðindi. Eitt af því sem einkennir allar siðareglur er heiðarleiki. Félagsbústaðir væru ekki til nema vegna allra þeirra sem þarfnast þjónustu þeirra, þ.e. leiguhúsnæðis til að hafa þak yfir höfuðið. Önnur grundvallarlögmál siðareglna eru að starfsfólk forðist alla hagsmunaárekstra og misnoti ekki aðstöðu sína á nein hátt. Upplýsa skal um spillingu sem og ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi verði hennar vart er meðal fjölmargra atriða sem ávarpa þarf í siðareglum.

    Fylgigögn

  45. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um breytingu á fyrirkomulagi við svörun fyrirspurna, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar 2019. R18060129

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins afturkalla tillöguna.

    -    Kl. 12:10 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  46. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samning við ríkið um skipulagningu Keldnalands, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar 2019. R18090164

    Tillagan er felld. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að Reykjavíkurborg hafi lóðir fyrir stofnanir og fyrirtæki í austurhluta borgarinnar. Keldur gegna þar lykilhlutverki. Ennfremur skortir hagstæðar byggingarlóðir fyrir íbúðir, en Keldur geta verið mikilvægur þáttur í að leysa þann vanda. Mikilvægt er að farið verði í úrbætur í samgöngumálum svo sem uppbyggingu Sundabrautar og bættar almenningssamgöngur. Sú leið að skilyrða kaup á Keldnalandi við ákveðnar úrbætur í samgöngumálum kann að verða til þess að tefja samninga eða koma hreinlega í veg fyrir uppbyggingu á næstu árum.  

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að Reykjavíkurborg verði í fararbroddi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með framtíðarskipulag og fyrir staðsetningu nýs þjóðarsjúkrahúss. Reykjavík er höfuðborg landsins og ber skyldur umfram önnur sveitarfélög. Einnig ber höfuðborginni að vera leiðandi og hafa forystu um svo stórt verkefni sem nýtt þjóðarsjúkrahús er fyrir landsmenn alla. Engum dylst að uppbygging Landspítalans við Hringbraut er óráðsía. Fréttir undanfarnar vikur hafa leitt í ljós óbærileg óþægindi fyrir inniliggjandi sjúklinga, aðstendur þeirra og ekki síður starfsfólk sem reynir að sinna sínum verkum af natni. Þingsályktunartillaga um staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús var felld á Alþingi á síðasta þingi en hefur nú verið lögð fram að nýju. Reykjavíkurborg verður að taka forystu meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefja strax undirbúning og skipulag að því að finna nýjum spítala nýjan stað. Beinast liggur við að staðsetja nýjan spítala á Keldum og hefja þarf strax viðræður við ríkið um að kaupa Keldnalandið og var tillaga þess efnis lögð fram af áheyrnafulltrúa Miðflokksins á fundi borgarráðs 6. september 2018 en hlaut hún ekki brautargengi. Uppbygging nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað þolir enga bið.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillagan sem nú er afgreidd fjallar um að tafarlaust verði farið í að skipuleggja Keldnalandið og m.a. verði gert ráð fyrir sjúkrahúsi. Mikilvægt er að halda því til haga í þessu sambandi að uppbygging á Keldnalandinu er algjörlega háð því að borgarlína verði að veruleika. Þess vegna er ekki talið æskilegt að hefja vinnu við svæðið fyrr en fjármögnun borgarlínu og tímalína framkvæmda á henni liggja fyrir í samstarfi við ríkið og hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þá þarf að jafnframt að liggja fyrir mat á því hvenær Keldnalandið skuli fara í uppbyggingu með tilliti til framboðs húsnæðis á markaði og þess hve margar íbúðir eru nú þegar í uppbyggingu og á undirbúningsstigi.

    Fylgigögn

  47. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvaða reglur borgin styðst við  hvað varðar eftirfylgni verkefna sem hún styrkir og til hvaða ráða er gripið ef styrkþegar standa ekki við samninga? R19010421

  48. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að reglur um styrkveitingar, sérstaklega skil verkefna séu samræmdar þeim sem gilda sem dæmi hjá vísindasamfélaginu og víðar.  Þar er m.a. almenna reglan að lokagreiðsla kemur ekki fyrr en skýrslu um framvindu verksins hefur verið skilað. Algengt er að við upphaf verkefnis fái  umsækjandi greitt 40% af heildarvilyrði fyrirfram. Lokagreiðsla fer fram þegar borist hefur staðfesting á að verkefni er að fullu lokið. R19010422

    Frestað.

  49. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir skriflegu svari frá formanni borgarráðs hvert kjörinn fulltrúi getur snúið sér þegar dagskrárvaldið er tekið af honum. Ítrekað hefur það gerst að ekki hafa mál komist á dagskrá borgarráðs þrátt fyrir beiðnir þar um þrátt fyrir að það sé skýrt í samþykktum borgarinnar að borgarfulltrúum sé heimilt að leggja fram mál. R19010427

  50. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að börn geti nýtt frístundakort borgarinnar til kaupa á sundkorti. Mikilvægt er að víkka út notkunarmöguleika frístundarkortsins þar sem aðeins 70% til 80% barna er að nýta frístundarkortin sín, þó eitthvað misjafnt eftir hverfum. Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst að kortið eigi ekki einungis að dekka frístund heldur tómstundir og hreyfingu eins og t.d. almennar sundferðir. Markmið borgarinnar ætti að vera að öll börn í Reykjavík nýti frístundarkortið sitt til að iðka íþróttir, tómstundir eða til að sinna almennri hreyfingu í frítíma sínum. Til að þetta megi verða er mikilvægt að víkka út notendaskilyrðin og taka allt sem vitað er að geri börnum gott andlega og líkamlega inn í notkunarskilgreininguna. Þessi tillaga er liður í því. R19010423

    Frestað.

  51. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Borgarráð samþykkir að endurskoðuð verði áform um að setja upp listaverk í formi tveggja pálmatrjáa í glerhjúpi í Vogabyggð fyrir 140 milljónir króna. Fjárhæðin í þetta verk er tíföld listaverkakaup í fjárhagsáætlun borgarinnar og því mikilvægt að vel takist til. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010428

    Frestað.

  52. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    A. Hversu margir eldri borgarar verða af afslætti af fasteignagjöldum af þeim sökum að þeim er gert að flytja lögheimili sitt á sjúkrastofnun eða dvalarheimili tímabundið eða til lengri tíma? B. Hversu háar upphæðir er um að ræða og hvernig hefur niðurfelling fasteignaskatta áhrif á þennan hóp? C. Hver er rökstuðningurinn fyrir því að þessi háttur sé hafður á? R19010429

  53. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Í viðtali við DV þann 20. desember 2018 var borgarstjóri spurður að því hvort farið hefði verið yfir tölvupósta borgarstjóra og hann sagði svo vera en haft var eftir honum orðrétt: „Það hefur verið farið yfir þá. Og það sem áður hefur komið fram í þessu er að ég fékk ekki upplýsingar og borgarráð fékk ekki upplýsinga og skýrslan staðfestir þá niðurstöðu.“  Þrátt fyrir þessi orð borgarstjóra kemur fram í skýrslunni að innri endurskoðandi hafi eingöngu skoðað fyrirliggjandi gögn í tölvupóstum tveggja starfsmanna sem komu að framkvæmdinni en orðrétt segir í skýrslunni:  „Skoðuð voru fyrirliggjandi gögn í tölvupósthólfum tveggja starfsmanna sem komu að framkvæmdunum (Sjá bls. 2).“ Með hliðsjón af framanrituðu er óskað eftir upplýsingum um hvers vegna svör borgarstjóra í DV eru á skjön við upplýsingar frá innri endurskoðun. Óskað er eftir skriflegu svari frá borgarstjóra sjálfum. R17080091

  54. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um hvort jólaskreytingar hafi verið boðnar út. R18110244

  55. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um listaverkaeign borgarinnar sem eru ekki í notkun (eru geymd í geymslum). Óskað er eftir lýsingu á þeim og sundurliðun annars vegar á innanhúslistaverkum og hins vegar verkum sem ætluð eru til skreytinga utanhúss. R19010424

  56. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

    Óskað er upplýsinga um sundurliðaðan launakostnað vegna dómnefndar vegna samkeppni um listaverk í Vogabyggð og hver greiddi þann kostnað? R19010428

  57. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að lýsing við gangbrautir verði stóraukin og að líftími ljósa á ljósastaurum verði lengdur. Til að auka öryggi gangandi vegfarenda þarf að stórauka lýsingu við gangbrautir, t.d. með því að auka ljósmagn á ljósastaurum, beina ljósi að gangbrautum sem liggja að brautum yfir vegi og/eða fjölga ljósastaurum. Einnig þarf að lengja líftíma ljósa sem þjóna gangandi vegfarendum. R19010425

    Frestað.

  58. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrarbraut, veggi og stíga. Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við hlaðna veggi í járngrindarbúrum á milli Miklubrautar og Tunguvegar. Sjá má hluta veggjanna frá horni Tunguvegar og Ásenda, vinna við þetta hefur staðið mánuðum saman. Líkur eru á að lagt hafi verið í óþarfa kostnað við framkvæmdir tengdar gangandi vegfarendum við Miklubraut. Hlaðnir veggir í járngrindarbúrum eru líklega dýrari en veggir úr jarðvegi og steinsteypu. Það þarf að réttlæta það sérstaklega ef farið er í dýrari framkvæmd en nauðsynleg er. Óskað er eftir viðbrögðum við þeirri fullyrðingu að ódýrara og fljótlegra hefði verið að steypa veggina. R19010426

Fundi slitið klukkan 12:50

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Líf Magneudóttir Skúli Helgason

Marta Guðjónsdóttir