Borgarráð - Fundur nr. 5531

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 17. janúar, var haldinn 5531. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:04. Viðstödd voru auk borgarstjóra Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram og Pétur Ólafsson.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð Sorpu bs. frá 9. janúar 2019. R19010024

    -    Kl. 9:07 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R19010132

    Fylgigögn

  3. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013, ásamt fylgiskjölum. R19010133

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. janúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Köllunarkletts, ásamt fylgiskjölum. R19010209

    Samþykkt.

    Borgarráð auk áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Auglýsing þessa deiliskipulags er gerð í kjölfar ákvörðunar borgarráðs frá í sumar þar sem samþykkt var að fela umhverfis- og skipulagssviði að finna lóðir fyrir allt að 25 smáhýsi í borgarlandinu. Þessi lóð er sú fyrsta og er hér rými fyrir 5 smáhýsi. Um afar mikilvægt úrræði fyrir notendur þjónustu velferðarsviðs er að ræða.

    Örn Sigurðsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9:12 tekur Vigdís Hauksdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 16. janúar 2019. R19010022

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. janúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Héðinsreit, ásamt fylgiskjölum. R19010210

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur efasemdir um þessa inngarða sem þarna eru sýndir í kynningu umhverfis og skipulagssviðs hvað varðar birtumagn. Ætla má að skuggahornin og skuggasvæðin í slíkum görðum verði mörg og spurt er þá hvernig plöntur og gróður eigi þar að þrífast en fram kemur að hver garður, en þeir eru þrír talsins eigi að hafa mismunandi plöntuþema. Minnumst þess að íslensk sumur eru stutt og svöl og flestum plöntum og gróðri veitir ekki af þeirri sól sem þau geta fengið. Sjá má dæmi um slíkan inngarð í vesturbæ og má segja að sá garður, (milli Hringbrautar og Ásvallagötu) geti varla talist sérlega aðlaðandi. Aðrar áhyggjur eru að þessar íbúðir muni seljast dýrar eins og gjarnan er raunin á þessu svæði. Hér er um mikinn fjölda íbúða 330 íbúðir og hótel með 230 hótelherbergjum. Áheyrnarfulltrúi hefur áhyggjur af umferðinni á þessu svæði sem nú þegar er mikil.

    Borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þróun skipulags á Héðinsreit hefur tekið jákvæðum breytingum. Í tillögunni er gert ráð fyrir meira en 300 íbúðum með samnýtingu bílastæða í kjallara. Inngarðar, sem verða mismunandi að stærð og gerð, verða öllum opnir og því verið að gera nýja almenningsgarða á besta stað í Reykjavík.

    Örn Sigurðsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 16. janúar 2019 á uppfærðum uppdráttum vegna breytingar á deiliskipulagi fyrir lóð A við Hlíðarenda, ásamt fylgiskjölum. R18060058

    Samþykkt.

    Örn Sigurðsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2019 á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir athafnasvæði á Hólmsheiði, ásamt fylgiskjölum. R18120136

    Samþykkt

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð leggur til að framkvæmd deiliskipulagsins og uppbygging á svæðinu verði unnin í góðu samstarfi við Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur til að tryggja innleiðingu og örugga útfærslu þeirra ofanvatnslausna sem eru settar fram í greinargerð skipulagsins.

    Örn Sigurðsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. janúar 2019 á auglýsingu um umsóknir um styrki úr húsverndarsjóði Reykjavíkur 2019, breytingu á reglum fyrir húsverndarsjóð Reykjavíkurborgar og tilnefningu fulltrúa ráðsins í starfshóp um styrki úr húsverndarsjóði Reykjavíkur 2018. R19010087

    Samþykkt.

    Örn Sigurðsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. janúar 2019 á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Hólaland á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R18100014

    Samþykkt.

    Örn Sigurðsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 14. janúar 2019, sbr. samþykkt mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 10. janúar 2019 vegna úthlutunar styrkja mannréttinda- og lýðræðisráðs fyrir árið 2019, ásamt fylgiskjölum. R19010220

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins telur það afar brýnt að notaðir séu óháðir staðlar þegar kemur að styrkveitingum mannréttinda- og lýðræðisráðs. Við síkar ákvarðanir getur alltaf komið upp sú staða í litlu samfélagi eins og okkar að einhverjar tengingar, tengsl, eða kunningsskapur þvælist fyrir þegar velja á úr stórum hópi. Þetta er mjög erfið staða fyrir þá sem vinna að valinu. Það er einnig mat Flokks fólksins að leggja skal áherslu á að veita þeim styrk fyrir verkefni sem ekki tengist fastri vinnu sem viðkomandi er að fá  full laun fyrir. Hér ættir frekar að horfa til þeirra sem hafa lagt á sig sjálfboðavinnu til að koma á koppinn verkefni, fólk sem hefur átt frumkvæði, lagt á sig mikla vinnu oft án nokkurra vissu um hvernig takast muni að fjármagna þau.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. janúar 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar 2019 á samningi við Félag skólastjórnenda í Reykjavík ásamt fylgiskjölum. R19010208

    Samþykkt.

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með samningum við Kennarafélag Reykjavíkur og Félag skólastjórnenda í Reykjavík er stigið skref í að efla samstarf við fagfélög stjórnenda og starfsmanna í reykvískum grunnskólum. Það er gert vegna þeirrar viðamiklu vinnu sem framundan er vegna innleiðingar nýrrar menntastefnu. Það er öllum mikill hagur að árangur náist þegar kemur að þeim markmiðum sem tilgreind eru í samningnum, má þar nefna átak til að draga úr veikindafjarvistum, bæta líðan starfsfólks og ímynd kennarastarfsins.

    Helgi Grímsson og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. janúar 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar 2019 á samningi við Kennarafélag Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. R19010206

    Samþykkt.

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með samningum við Kennarafélag Reykjavíkur og Félag skólastjórnenda í Reykjavík er stigið skref í að efla samstarf við fagfélög stjórnenda og starfsmanna í reykvískum grunnskólum. Það er gert vegna þeirrar viðamiklu vinnu sem framundan er vegna innleiðingar nýrrar menntastefnu. Það er öllum mikill hagur að árangur náist þegar kemur að þeim markmiðum sem tilgreind eru í samningnum, má þar nefna átak til að draga úr veikindafjarvistum, bæta líðan starfsfólks og ímynd kennarastarfsins.

    Helgi Grímsson og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. október 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2018 á tillögu að breytingu á reglum um leikskólaþjónustu, ásamt fylgiskjölum, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18040070

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í reglum skóla- og frístundasviðs um leikskólaþjónustu kemur m.a. fram að foreldrar sem eru í háskólanámi eigi rétt á námsmannaafslætti á leikskólagjöldum barna sinna. Skilyrðin eru þau að foreldri sé skráð í að lágmarki 22 ECTS einingar á misseri. Það er jákvætt að sjá að nóg sé að viðkomandi sé skráður í 22 ECTS einingar á misseri til að eiga rétt á námsmannaafslætti í stað þess að þurfa að ná 22 ECTS einingum á misseri eins og á við um kröfur LÍN varðandi lánshæfni. En til þess að eiga rétt á námslánum þarf að ljúka a.m.k. 22 ECTS einingum á misseri sem getur verið erfitt fyrir námsmenn að ná. Þess má geta að fullt nám er metið til 30 ECTS eininga og námskeið í framhaldsnámi eru oft 6, 8 eða 10 ECTS einingar og því eru dæmi um að fullt nám byggi á þremur 10 ECTS einingum. Slíkt setur námsfólk oft í mjög erfiða stöðu þar sem lítið má út af bregða til að uppfylla ekki skilyrði LÍN til lánveitingar. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarráði fagnar því að réttur foreldra í námi til afsláttar af leikskólagjöldum borgarinnar séu ekki skilyrtar svo þröngum ákvæðum frá LÍN.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokki fólksins finnst margar breytingar góðar og nauðsynlegar. Áheyrnarfulltrúi vill ítreka mikilvægi þess að séð sé til þess að foreldrar fái pláss fyrir barn sitt innan hverfis síns. Fyrir sum börn getur það verið mjög erfitt að skipta um leikskóla á leikskólatímabilinu og jafnvel getur það haft einhverjar afleiðingar er varða tengsl og tengslamyndun fyrir þau allra viðkvæmustu. Það eru fleiri atriði sem huga þarf og vill áheyrnarfulltrúi nefna eitt atriði hér er varðar forgangsmál á leikskóla. Í því sambandi má nefna að Flokkur fólksins telur að gera eigi breytingar  á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof. Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella, þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi. Áheyrnarfulltrúi hefur lagt fram tillögu þess efnis á fundi borgarráðs 17. janúar 2019.

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með þessum breytingum á reglum um leikskólaþjónustu er komið til móts við foreldra með ýmsum hætti. Lögð er til breyting sem ætti að styrkja systkinatillit og auka líkur á að systkini komist að jafnaði á sama leikskóla. Nýtt ákvæði kemur inn í reglurnar um lokun leikskóla á aðfangadag og gamlársdag og heimildarákvæði um að foreldrar geti fengið endurgreiðslu á leikskólagjöldum ef þeir nýta ekki þjónustu leikskóla fyrir börn sín milli jóla og nýárs. Síðast en ekki síst er staðfest sú breyting að miðað er við að börn, sem orðin eru 18 mánaða 1. september ár hvert, fái boð um leikskóladvöl það sama haust. Áður var miðað við að börn gætu hafið leikskóladvöl á því ári sem þau verða tveggja ára.

    Helgi Grímsson og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. október 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. október á tillögu að breytingum á reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum, ásamt fylgiskjölum, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18100257

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með tillögunum eru gerðar margskonar breytingar til eflingar á dagforeldraþjónustu. Niðurgreiðslur hækka um 15%, stofnstyrkjum er komið á, dagforeldrar sem starfa einir fá öryggishnapp og námsefni fyrir dagforeldra af erlendum uppruna útbúið. Hér er um að ræða eina mestu prósentuhækkun framlaga í mörg ár. Aðgerðunum er ætlað að fjölga dagforeldrum með því að bæta starfsumhverfi þeirra.

    Helgi Grímsson og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. október 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundasviðs frá 9. október 2018 á tillögu um innleiðingu tillagna úr skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18100256

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði fagna því að dagforeldrar og þeirra þjónusta verði efld í Reykjavík. Biðlistar eru langir og kvíðavaldandi fyrir foreldra og ekki síður verðandi foreldra. Þjónusta dagforeldra er almennt vel metin meðal þeirra sem nota þjónustuna. Mikilvægt er að taka tillit til þeirra úrlausna sem bent var á í skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks myndu þó vilja sjá hærri niðurgreiðslur, líkt og tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks gekk út á, svo foreldrar sitji allir við sama borð og einu gildi hvort barnið þeirra dvelji hjá dagforeldri eða í leikskóla.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með þessum breytingum er skotið sterkari stoðum undir dagforeldraþjónustuna í Reykjavík. Tilgangurinn er þríþættur, í fyrsta lagi að bæta rekstarskilyrði starfandi dagforeldra, í öðru lagi að fjölga dagforeldrum og síðast en ekki síst að auka gæði og öryggi þjónustunnar. Niðurgreiðslur til dagforeldra hækka um 15% og stofnstyrkur til nýrra dagforeldra er tekinn upp, námsstyrkir eru hækkaðir og faglegur stuðningur aukinn. Þá er gripið til ýmissa aðgerða til að auka öryggi, faglegt mat og eftirlit með þjónustunni auk þess að efla upplýsingagjöf til foreldra um þjónustu dagforeldra. Með aðgerðunum er lagður grunnur að því að þjónusta dagforeldra verði öruggari valkostur fyrir foreldra ungra barna samhliða þeirri kröftugu uppbyggingu á leikskólaþjónustu sem framundan er.

    Helgi Grímsson og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. janúar 2019, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 9. janúar 2019 á tillögu að breytingu á reglum um fjárhagsaðstoð. R19010221

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að borgin stuðli enn frekar að því hjálpa fólki til sjálfshjálpar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti borgarstjórnar lagði fram tillögu við gerð fjárhagsáætlunar 2019 um að hækka fjárhagsaðstoð um 6% frá og með áramótum. Það er hækkun umfram vísitölu. Fjárhagsaðstoð er neyðaraðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, hugsuð til skamms tíma. Reykjavíkurborg  er með þessari hækkun fyrsta sveitarfélagið til að fara yfir 200 þúsund krónur á mánuði til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili. Mikilvægt er að samhliða hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar verði áfram unnið af krafti að innleiðingu rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð hjá velferðarsviði með þjónustu við notendur að leiðarljósi. Þá eru önnur sveitarfélög hvött til að hækka fjárhagsaðstoð sína líkt og Reykjavíkurborg hefur gert.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar öllum hækkunum til þeirra sem búa við fjárhagsörðugleika og þurfa fjárhagsaðstoð. Þessar hækkanir hefðu þó mátt vera meiri en raun ber vitni. Hafa skal í huga að fyrir suma er þetta ekki tímabundið ástand heldur ástand til lengri tíma. Það er einfaldlega staðreynd. Fram kemur í reglunum að gert sé ráð fyrir að húsnæðiskostnaði sé mætt með greiðslu vaxtabóta, húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð. Það eru tilfelli þar sem fólk á ekki rétt á vaxtabótum eða húsnæðisstuðningi. Sumir búa í ósamþykktu húsnæði sem dæmi og eru þar fastir, eiga ekki möguleika á að koma sér úr þeim aðstæðum vegna annarra vandamála. Athuga verður að hafa í huga að enginn velur að vera í erfiðri stöðu eins og hér um ræðir.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fjárhagsaðstoð til framfærslu er veitt þeim sem ekki geta séð sér farboða án aðstoðar og er hugsuð sem öryggisnet til skemmri tíma en vegna aðstæðna þurfa sumir að lifa af þeirri upphæð til lengri tíma. Grunnupphæð til einstaklings sem rekur eigið heimili, þ.e.a.s. býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning um húsnæðið, er 201.268 krónur á mánuði. Grunnupphæðin er lægri ef slíkt á ekki við. Þó að upphæð fjárhagsaðstoðar hafi nýlega hækkað um 6%, í takt við  launavísitölu, þá er upphæðin samt sem áður um þriðjungi lægri en lágmarkslaun sem margir hafa greint frá að dugi vart til framfærslu. Gert er ráð fyrir að vaxtabætur, húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur hjálpi til við að greiða húsnæðiskostnað þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð en það er stuðningur sem einstaklingar á lágmarkslaunum fá einnig en slíkt dugar samt sem áður oft ekki til að láta enda ná saman. Sósíalistaflokkurinn undirstrikar mikilvægi þess að upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækki svo að einstaklingar búi aldrei við skort á þeim viðkvæma tímapunkti að geta ekki séð sér farboða án aðstoðar. Þá er mikilvægt að upphæðin sé til þess fallin að einstaklingar búi aldrei við fátækt eða lendi í fátækargildru.

    Dís Sigurgeirsdóttir og Agnes Sif Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram erindi Félags atvinnurekenda, dags. 19. september 2018, varðandi álagningu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði. Einnig er lögð fram umsögn fjármálastjóra og borgarlögmanns um erindið, dags. 14. janúar 2019. R16090142

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna legga fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í umsögn fjármálastjóra og borgarlögmanns við erindi Félags atvinnurekenda kveða ákvæði laga skýrt á um heimild og fyrirkomulag álagningar fasteignaskatta og hvernig reikna skuli stofn álagningar fasteignagjalda. Á þessum grundvelli tekur borgarstjórn Reykjavíkurborgar árlega ákvörðun um álagningu fasteignaskatts á fasteignir í sveitarfélaginu. Þá skal því haldið til haga að á árinu 2021 lækkar hlutfall fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í 1,63 og lækka þá tekjur ársins um 206 milljónir króna. Á árinu 2022 mun skatthlutfallið lækka í 1,60 og munu tekjur borgarinnar vegna þess lækka um 552 mkr. og tekjur ársins 2023 um 592 mkr. Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði voru lækkuð á síðasta kjörtímabili.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í fyrradag fengu húseigendur álagningarseðil sem er 15% hærri að jafnaði en sá síðasti. Þetta er mikið högg. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu í borgarstjórn hinn 18.10.2018 og aftur 4.12.2018  þess efnis að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækkuðu úr 1,65% í 1,60% enda fyrirséð að fasteignamat myndi hækka sem leiðir til hærri fasteignaskatta. Tillagan var felld tvívegis á fundi borgarstjórnar. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga segir að skatthlutfall fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði skuli vera að hámarki 1,32% af fasteignamati ásamt lóðaréttindum. Lögin veita þó heimild til að innheimta 25% álag. Reykjavíkurborg beitir þessu álagi og innheimtir því 1,65% af fasteignamati, sem er það hámark sem lög leyfa. Félag atvinnurekenda hefur greint frá því að í greinargerð með lögum um tekjustofna sveitarfélaga komi fram að álag á fasteignaskatta eigi að vera endurgjald fyrir veitta þjónustu, innheimtan sé hugsuð sem fasteignagjöld, en ekki eiginlegir eignaskattar. Það er því áhugavert, og kannski ámælisvert, að þegar Félag atvinnurekenda innti Reykjavíkurborg eftir svörum um skýringar á innheimtu álagsins, hafi borgin ekki geta veitt neinn efnislegan rökstuðning sem sýndi fram á að beiting álagsins væri nauðsynleg vegna kostnaðar við að veita fyrirtækjum borgarinnar þjónustu. Af þessum ástæðum og fleiri, höfðaði Trausttak dómsmálið sem um ræðir. Fyrirtækið á u.þ.b. 80 fermetra fasteign í Kringlunni. Fasteignamat eignarinnar var árið 2014 40,5 milljónir og voru greiddar 667.590 krónur í fasteignagjöld. Árið 2017 hafði fasteignamat og þar með fasteignaskattar vegna eignarinnar hækkað sem nam 98% frá árinu 2014. Það er löngu tímabært að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í Reykjavík. Líklegt má telja að álag hafi verið sett í lög til að veita sveitarfélögum viðbótarheimild þar sem fasteignamat er lágt. Það á ekki við um Reykjavík þar sem fasteignamat er með því hæsta.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavík er með eitt al-lægsta álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði í landinu. Verðlagseftirlit ASÍ komst því þannig að hverfi í Reykjavík eru meðal þeirra allra hagstæðustu á landinu þegar horft hefur verið til álagningar á fasteignaeigendur, þegar tekið hefur verið mið af álagningarhlutfalli annars vegar og fasteignaverði hins vegar. Meirihluti borgarstjórnar hefur jafnframt kynnt áform um lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á síðari hluta kjörtímabilsins, í samræmi við samstarfsyfirlýsingu flokkanna. Það er ábyrg afstaða sem tekur mið af fjárhagsstöðu borgarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og þeim brýnu verkefnum sem borgin er að fást við og fjármagna.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 14. janúar 2019, þar sem skýrsla starfshóps um áhættustýringu Reykjavíkurborgar er send borgarráði til kynningar. R17110013

    Samþykkt að vísa skýrslu og tillögum starfshópsins til umsagnar innri endurskoðunar og endurskoðunarnefndar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfshópur um áhættustýringu hjá Reykjavíkurborg hefur lagt fram góða og vandaða skýrslu sem geymir mikilvægar tillögur um heildarumgjörð áhættustýringar hjá Reykjavíkurborg. Rétt er að óska eftir umsögnum frá bæði innri endurskoðun og endurskoðunarnefnd áður en ákvarðanir um næstu skref verða teknar í borgarráði. Umrædd skýrsla verður einnig höfð til hliðsjónar í þeirri vinnu sem borgarráð setti í gang í október sl. um endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, sem mun einnig vinna úr ábendingum innri endurskoðunar vegna Nauthólsvegar 100. Rétt er að árétta, líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum, að borgarráð hefur tekið við því hlutverki að fjalla um umbótatillögur á grundvelli niðurstaðna skýrslu um Nauthólsveg 100 og annarra gagna, í stað þess hóps sem borgarráð bókaði um á fundi sínum 20. desember sl.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Löngu tímabært er að efla formlega áhættustýringu borgarinnar, en árið 2013 benti innri endurskoðun á að formleg áhættustýring sé að litlu leyti til staðar hjá Reykjavíkurborg. Áhættustefna fyrir borgina í heild sinni hafi ekki verið sett fram. Og að vinna þurfi tillögu að stjórnskipulegri umgjörð áhættustýringar og leggja hana fyrir borgarráð til samþykktar. Móta þurfi skýran farveg fyrir miðlun upplýsinga til borgarráðs um helstu áhættuþætti í starfsemi borgarinnar. Þetta var ekki gert. Innri endurskoðun gerði könnun meðal stjórnenda og sérfræðinga borgarinnar árið 2013 og aftur 2018 sem nú er birt í skýrslunni. Staðan er að mestu leyti óbreytt, en þar kemur samt fram að umtalsvert færri telja nú að áhættugreining sé nægjanlega skjalfest en árið 2013. Þrátt fyrir ábendingar innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar árið 2013 virðist því sem ástandið hafi heldur versnað. Nýleg dæmi um stjórn verkefna sýna brýna þörf á bættri áhættustýringu og upplýsingagjöf. Þessi skýrsla sýnir að of lengi hefur því ekki verið sinnt sem skyldi.

    Birgir Björn Sigurjónsson, Svavar Jósefsson, Ingunn Þórðardóttir og Ólafur Sindri Helgason taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. janúar 2019, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki tillögur starfshóps um miðlæga stefnumótun, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R18020089

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfshópur um miðlæga stefnumótun hefur skilað vandaðri skýrslu með skynsamlegum tillögum sem nú hafa verið samþykktar. Þar á meðal eru tillögur um gerð fjármálastefnu, reglur um stefnur og stefnumarkandi áætlanir auk fleiri tillagna sem allar miða að umbótum og samræmdri framkvæmd í stefnumótun og stefnuframkvæmd. Skýrsla starfshópsins geymir mikilvægar upplýsingar um stöðu mála hjá Reykjavíkurborg og tillögurnar fela allar í sér úrbætur og sterkari umgjörð um stefnumótun og hvernig megi betur vinna að markvissri framfylgd þeirra.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfshópnum var falið það hlutverk að vinna að „umbótum og samræmdri framkvæmd í stefnumótun og stefnuframkvæmd, einkum í miðlægri stjórnsýslu og miðlægri stefnumótun. Að fá bætta yfirsýn yfir þær miðlægu stefnur og stefnumarkandi skjöl sem eru fyrir hendi og tengingu við undirstefnur og áætlanir málaflokka. Jafnframt fá yfirsýn yfir þær aðferðir sem notaðar eru við miðlæga stefnumótun. Á grundvelli greiningarvinnu setji starfshópur fram viðmið um bestu framkvæmd við stefnumótun.“ Niðurstaða hópsins er að fela öðrum framhaldsverkefni, en kynna drög að reglum sem er skref í rétta átt. Ágæt greining starfshópsins á gildandi stefnum leiðir í ljós að markmiðasetningu og árangursmati er ábótavant í flestum tilfellum.

    -    Kl. 11:46 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Valgerður Sigurðardóttir tekur þar sæti.

    Birgir Björn Sigurjónsson, Svavar Jósefsson og Ingunn Þórðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram yfirlit fjármálaskrifstofu, dags. 14. janúar 2019, yfir tímaáætlun vegna mánaða- og árshlutauppgjöra á árinu 2019. R19010075

    Samþykkt.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. janúar 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lögð er fram hjálögð tíma- og verkáætlun vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar og fimm ára áætlunar 2020-2024. Borgarráð felur sviðum og fagráðum að hefja undirbúning að vinnu við fjárhagsáætlun og fjárfestingaáætlun næsta árs og til næstu fimm ára á grundvelli gildandi fimm ára áætlunar. Jafnframt er sviðum og fagráðum falið að gera áætlun um greiningar, framkvæmd og eftirlit vegna kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Að öðru leyti er vísað í framlagða tíma- og verkáætlun og ábyrgðaraðilum falið að fylgja eftir framkvæmd hennar. R19010204

    Samþykkt.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 10. janúar 2019, varðandi úthlutun úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen sem fór fram þann 9. janúar 2019. R16020043

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð fagnar því að Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen hafi styrkt starfsemi Frú Ragnheiðar sem er afar mikilvægt skaðaminnkandi úrræði sem hefur sannað gildi sitt á stuttum tíma.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. janúar 2019, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki afnotasamning um lóðarskika við Hátún 2. R18100390

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. janúar 2019, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að farið sé á leit við póstnúmeranefnd Íslandspósts hf. að Vatnsmýrin fái póstnúmerið 102. Lagt er til að sá hluti póstnúmers 101 sem er sunnan Hringbrautar breytist í póstnúmerið 102 og að mörk við póstnúmer 107 og 105 haldist óbreytt.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R15090119

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Marta Guðjónsdóttir og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það þarf ekki leyfi til að borgarstjóri skrifi bréf. Mikilvægt er að benda á að það er ekki í höndum borgarráðs að breyta póstnúmerum heldur póstnúmeranefndar Íslandspósts hf. Borgarráð hefur kallað eftir sjónarmiðum íbúa en það er marklaust ef ekkert tillit er tekið til athugasemda. Hægðarleikur hefði verið að koma til móts við alla aðila með því að breyta póstnúmerinu í 102 á Hlíðarenda og leyfa póstnúmerinu í Skerjafirði og vestan Njarðargötu að halda sér meðan flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni. Íbúar í Skerjafirði hafa margítrekað komið þeim sjónarmiðum sínum á framfæri við borgaryfirvöld að óeðlilegt sé að breyta póstnúmeri hverfisins úr 101 í 102 til samræmis við Hlíðarendasvæðið. Íbúar telja að á meðan flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni sé ekki tímabært að breyta póstnúmerinu enda þá um tvö aðskilin hverfi að ræða sem sækja alla sína þjónustu á sitt hvoru svæðinu og eiga lítið sameiginlegt. Þá benda íbúar í Skerjafirði réttilega á að þeir sæki sína þjónustu í vesturbæinn sem tilheyrir póstnúmerinu 107 s.s. skóla, leikskóla, kirkju, sund, íþrótta- og tómstundastarf, frístundamiðstöðina í Frostaskjóli og félagsstarf eldri borgara. Það væri því nærtækara, ef nauðsyn krefur, að breyta póstnúmerinu frekar í 107 en ekki 102. Með því að borgaryfirvöld fari fram á breytingu á póstnúmeri Skerjafjarðar er farið þvert gegn vilja íbúa og sannar eina ferðina enn að allt tal meirihlutaflokkanna í borgarstjórn um íbúalýðræði er innantómt orðagjálfur á tyllidögum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi umfangs póstnúmers 101 fer vel á því að póstnúmer 102 verði stofnað. 102 Reykjavík mun því spanna þá byggð sem er sunnanmegin við Hringbraut, þ.e.a.s. Hlíðarendi, Vatnsmýri og Skerjafjörður. Póstnúmer 107 og 105 haldist óbreytt. Þá myndi 102 Reykjavík hýsa Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og alla þá þekkingar- og vísindastarfsemi sem nú byggist upp í Vatnsmýrinni.

    -    Kl. 12:40 víkur Ebba Schram af fundinum.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. janúar 2019, ásamt fylgiskjali:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. R18020115

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér staðfestir Reykjavíkurborg að ráðning í embætti borgarlögmanns var ólögleg með því að samþykkja eingreiðslu upp á 3 milljónir króna og fría sig þannig frá frekari dómsmálum. Kærunefnd jafnréttismála mat ráðninguna ólöglega og var ljóst að hætta var á að borgin væri skaðabótaskyld vegna þess. Rétt er að árétta að sjálfstæðismenn vöruðu við málsmeðferðinni í upphafi.

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þetta samkomulag Reykjavíkurborgar, annars vegar og Ástráðs Haraldssonar (ÁH) hins vegar að greiða honum 3 milljónir staðfestir skömmina að borgin skyldi hafa brotið jafnréttislög, borg sem hefur hreykt sér fyrir að jafnrétti sé í heiðri haft.  Þetta var brot á jafnréttislögum, sem er háalvarlegt mál. Hér er dæmi um enn eitt málið sem útsvarsgreiðendur þurfa að standa skil á í arfaslakri stjórnsýslu  og ráðningarmálum í Ráðhúsi Reykjavíkur

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að ljúka samkomulagi vegna úrskurðar kærunefndar með sátt. Niðurstaðan er viðunandi fyrir Reykjavíkurborg en þar kemur fram að hún feli ekki í sér viðurkenningu á sérstakri skaða- eða miskabótaskyldu Reykjavíkurborgar vegna þeirra atvika sem um ræðir. Í samkomulaginu felst einnig að niðurstaða kærunefndar jafnréttismála verði ekki undir dómstóla borin. Eru þetta því lok málsins.

    -    Kl. 12:42 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. janúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mötuneyti borgarinnar, ásamt fylgiskjölum, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018. R18090109

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði ýmissa spurninga er varða mötuneyti, nýtingu, næringu, vanskil og matarsóun. Sum svör eru skýr.  Svör um beinan fjölda eru ekki alveg nákvæm og gefa vísbendingu um að ekki sé haldið utan um rekstur allra þessara mötuneyta á einum stað.  Umfangið er nokkuð mikið, má ætla  3,8 milljónir matarskammta á ári, skv. svörunum.  Má þá ætla að heildarkostnaður, þ.e. hráefni, laun og rekstur, gæti verið 2,5 til 3,0 milljarðar á ári í öllum þessum mötuneytum? En hráefniskostnaður er auðvitað aðeins hluti þeirrar upphæðar, t.d. 30 til 50%.   Athygli vekur að ekki er nefnt að starfsfólk leik- og grunnskóla nýti sér mötuneytin.  Það gæti þó auðvitað verið og er líklegt, en er samt ekki nefnt. Smávægilegt ósamræmi er í svari um fjölda mötuneyta á velferðarsviði, eru þau 14 eða 15 ? Það sem eftir er tekið er að ekkert er rætt um fjölda máltíða til starfsfólks skólanna, er verið að selja þeim mat?. Hversu margir sem greiða fyrir mat, nýta sér þjónustuna er einnig óljóst. Vanskil eru 23 milljónir, er það uppsafnað frá fyrra ári, eða fyrir eitt ár? Einnig eru óljós svör hvað varðar matarsóun í mötuneytum og ekki er vitað hversu mikið er hent af þeim sem nýta þjónustuna.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í svari við fyrirspurn eru mötuneyti rekin af þremur sviðum. Að öðru leyti er vísað í matarstefnu Reykjavíkur  og framlagt svar.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar borgarritara, dags. 11. janúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hvort ráðið verði tímabundið í starf skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. desember 2018. R18120104

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Miðað við fyrirliggjandi svar er ljóst að ekki þarf að ráða í stöðuna og réttast væri að leggja stöðuna niður og minnka þannig kostnaðinn við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 14. janúar 2019, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi ráðningu borgarlögmanns, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018. R17080023

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í ráðningarferlinu hefði verið hægt að koma fyrir mistök með því að hluta á varnaðarorð og sýna almenna skynsemi. Nú hefur borgin viðurkennt niðurstöðu úrskurðarnefndar jafnréttismála.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að það sé hafið yfir allan vafa að ráðningar hjá Reykjavíkurborg séu faglegar. Það gildir um allar ráðningar, en þetta er sérstaklega brýnt hvað varðar æðstu stjórnendur. Ráðningar hjá borginni ganga nær alltaf vel og eiga sér stað án vandkvæða. Þó hefur verið ákveðið að yfirfara ráðningarferli við ráðningar æðstu stjórnenda hjá Reykjavíkurborg til þess að auka gagnsæi og traust á ráðningarferlum og niðurstöðum þeirra. Að auki er í vinnslu ný gæðahandbók um ráðningar almennt. Traust á ráðningum ýtir undir traust á stofnunum. Fagleg og gagnsæ ferli styðja við faglegar niðurstöður.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð samþykkir að hætt verði eyðingu á tölvupóstum hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar sem láta af störfum á meðan skjalavistun er ekki komin í viðunandi horf hjá borginni. Reykjavíkurborg ber að gæta þess að gögn, skjöl og aðrar upplýsingar sem ekki hafa verið vistuð í skjalakerfum borgarinnar séu varðveitt. Óskað er eftir umsögn innri endurskoðunar og Borgarskjalasafns vegna málsins. Ennfremur að UTD gefi umsögn um hvort nokkuð komi í veg fyrir að þetta verði gert. R19010251

    Frestað.

  31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð samþykkir að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar (IE) verði falið að sannreyna reikninga sem tilheyra Nauthólsvegi 100. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að fá utanaðkomandi matsmenn til að fara yfir reikningana. R17080091

    Frestað.

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

    Fram hefur komið að 70 milljónir fóru í að gera upp minjar í tengslum við braggann í Nauthólsvík. Óskað er eftir upplýsingum um hvað nákvæmlega þessar 70 milljónir fóru í vegna vinnu við að gera upp minjar. Óskað er eftir nákvæmum lista yfir hvað skilgreint var sem minjar og sundurliðun á verkefninu. R17080091

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir skilamati vegna framkvæmda við  Gröndalshús, Braggann, Hlemm mathöll, Sundhöllina og Írabakka 2-16. R19010254

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um brú yfir Breiðholtsbraut. Hver verður kostnaður við byggingu hennar? Hver var aðdragandi að ákvörðun byggingar hennar? Hverjar eru óskir hverfisins? Hver hefur nýtingin verið frá opnun hennar? Þegar komið er frá Seljahverfi yfir brúna þ.e. frá suðvestri til norðausturs er ekki hægt að fara niður í neðra Breiðholt. Spurt er hvort það sé endanlegt skipulag? R19010255

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

    Félagsbústaðir seldu hinn 19. september s.l. bifreiðir í eigu félagsins til Helga Bjarna Birgissonar. Er það hlutverk Félagsbústaða að selja bíla? Ef svo er, hverjar eru þá reglurnar? Varðandi þessa bíla: Voru bílarnir settir í faglegt söluferli á bílasölu? Hver er Helgi Bjarni Birgisson og tengist hann Félagsbústöðum á einhvern hátt? Hvert var söluverð bílanna OZ704, US391, AE308, VIJ28, allir af gerðinni Honda Jazz og RI484, Toyota Yaris? R19010256

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof. Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella, þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi. R19010257

    Frestað.

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

    1. Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt í leigubílakostnað á árunum 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, og 2011? 2. Hvaða kjörnir fulltrúar hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar? 3. Hvaða embættismenn hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar? 4. Hver er kostnaður við innkaup, viðhalds og rekstur bíla fyrir starfsmenn borgarinnar ef velferðasvið er frá talið árin 2018, 2017, 2016, 2015,2014, 2013, 2012 og 2011? 5. Er farið í útboð ef Reykjavíkurborg kaupir bíla? 6. Hver var kostnaður Reykjavíkurborgar við flugmiðakaup 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012 og 2011 sundurliðað eftir kjörnum fulltrúum og starfsmönnum? 7. Er farið í útboð þegar flugmiðar eru keyptir? 8. Falla vildarpunktar við flugmiðakaup í hlut borgarinnar eða þeirra starfsmanna sem ferðast út fyrir landsteinana? R19010265

  38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

    Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til yfirmanna/embættismanna varðandi starfslok/ólöglegar ráðningar/brottrekstur hjá borginni tæmandi talið ásamt dómsmálum 2019,2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, 2011 og 2010? R19010267

  39. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins óska eftir að dómkvaddur matsmaður verði fenginn tafarlaust til að meta virði framkvæmda á Nauthólsvegi 100 (Bragganum) R17080091

    Frestað.

  40. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Það sem eftir er tekið er að ekkert er rætt um fjölda máltíða til starfsfólks skólanna, er verið að selja þeim mat?. Vanskil eru 23 milljónir, er það uppsafnað frá fyrra ári, eða fyrir eitt ár? Er verið að selja starfsfólki skólanna mat og ef svo er hver er sá fjöldi máltíða? R18090109

Fundi slitið klukkan 13:21

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Marta Guðjónsdóttir