Borgarráð - Fundur nr. 5530

Borgarráð

Ár 2019, fimmtudaginn 10. janúar, var haldinn 5530. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um fundarsköp. R19010002

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði gera alvarlegar athugasemdir við að ekki hafi verið orðið við beiðni þeirra um kynningu borgarskjalavarðar á skýrslu um skjalastjórn og skjalavörslu hjá Reykjavíkurborg frá síðasta ári. Ennfremur yfirferð skjalavarðar á meðferð skjala og gagna í tengslum við braggamálið. Það er skýlaus réttur borgarfulltrúa í samþykkt um um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar að setja mál á dagskrá í ráðum og nefndum borgarinnar. Miðað hefur verið við að mál séu send tveimur sólarhringum fyrir fund en staðreyndin er sú að í þessu tilfelli var beiðnin send fyrir fjórum sólarhringum síðan. Skýrsla Borgarskjalasafns, sem hér um ræðir, sýnir að verulegur misbrestur er á skjalavörslu borgarinnar. Þá er staðfest í skýrslu Innri endurskoðunar að lög um opinber skjalasöfn voru brotin. Skv. 47. gr. laganna getur brot á lögunum varðað allt að þriggja ára fangelsisvist. Það veldur vonbrigðum að þetta mál skuli ekki vera tekið fyrir í borgarráði eins og beðið var um.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þann 8. nóvember sl. var umrædd skýrsla send borgarráðsfulltrúum og hún lögð fram á vettvangi borgarráðs án þess að nokkrar fyrirspurnir bærust um hana. Í skýrslunni koma fram ábendingar um atriði sem betur mega fara í skjalavörslu borgarinnar og byggjast þær niðurstöður á upplýsingum í spurningakönnun sem lögð var fyrir stjórnendur og einkum forstöðumenn einstakra stofnana Reykjavíkurborgar. Könnunin veitir yfirstjórn Reykjavíkurborgar, sviðum og skrifstofum nauðsynlegar upplýsingar um ástand skjalamála og þær úrbætur sem þarf að gera. Þá mun könnunin nýtast Borgarskjalasafni vel við að skipuleggja fræðslu, ráðgjöf og eftirlit á næstu árum eins og fram kemur í umræddri skýrslu. Sú vinna hófst um leið og Borgarskjalasafn kynnti sína skýrslu og er við það miðað að skýrslan ásamt upplýsingum um viðbrögð við því sem fram í henni kemur verði kynnt á fundi borgarráðs í febrúar nk. Samkvæmt samþykkt um stjórn  Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er það formaður borgarráðs sem undirbýr borgarráðsfundi í samráði við borgarstjóra og hefur allar heimildir til þess að ákveða tímasetningu á umbeðnum kynningum m.a. með hliðsjón af málafjölda borgarráðs.

  2. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 17. og 19. desember 2018 R18010031

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 20. desember 2018. R18010016

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 9. janúar 2019. R19010022
    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Fylgigögn

  5. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 21. nóvember og 14. desember 2018. R18010024

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 7. og 21. desember 2018. R18010028

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 7. desember 2018, er fjallað um faghóp um leiðakerfisbreytingar. Þar er vísað í skýrslu Mannvits og Strætó um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og tillögu sem þar er að finna um að stofna þverfaglegan faghóp um leiðakerfið. Hlutverk hópsins verði að koma með tillögur að heildstæðu leiðakerfi sem taki tillit til uppbyggingar borgarlínu og hámarksskilvirkni kerfisins. Í fundargerðinni kemur fram að framkvæmdastjóra og stjórnarformanni Strætó hafi verið falið að koma með tillögu að því hvernig faghópurinn verði skipaður í samstarfi við sveitarfélögin sem standa að Strætó og að gert sé ráð fyrir að hópurinn verði skipaður fulltrúum hvers sveitarfélags, Vegagerðarinnar og fleiri fagaðilum á sviði samgangna. Leggur áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarráði til að faghópurinn verði einnig skipaður almennum strætónotendum svo að raddir þeirra komi einnig að hugmyndum að leiðakerfisbreytingum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Leiðakerfisbreytingar eru fyrst og fremst tæknilegt úrlausnarefni þar sem rekstur strætó og þarfir farþega eru í forgrunni. Einn helsti sérfræðingur veraldar í virkni almenningssamgangna Jarret Walker skilaði umfangsmikilli skýrslu til SSH í marsmánuði árið 2016. Þar kemur fram að lykillinn að velgengni í meiri gæðum almenningssamgangna væri sú að leggja áherslu á stóru leiðirnar frekar en að reyna að þjónusta alla alltaf. Allar rannsóknir um velgengni almenningssamgöngukerfa benda til þess að þetta sé rétt nálgun. Hærri tíðni og betri þjónusta er því rauður þráður í öllu starfi strætó um þessar mundir. Það hefur skilað fleiri farþegum og betri vaxtarmöguleikum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R19010132

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna erindis Hlemms mathallar:

    Stjórnarformaður Hlemms mathallar  greinir frá því í erindi sínu að þau hafi velt fyrir sér hvernig megi útfæra útisvæðið við Hlemm þannig að það geti betur orðið nýtilegt fyrir gesti þeirra og að þau hafi aðallega horft til svæðisins austur af Hlemmi, þ.e. við Rauðarárstíg. Í erindi sínu lýsa þau yfir áhuga á því að byggja 120-200 fermetra glerskála við hlið Hlemms Mathallar. Í þessum skála yrðu borð fyrir gesti auk mögulegra uppákoma og vörumarkaða. Hlemmur Mathöll óskar eftir viðræðum við Reykjavíkurborg um lán á lóð undir þennan skála. Hugmynd þeirra verði að Hlemmur mathöll ehf. sjái alfarið um þessa framkvæmd og þann kostnað sem af henni hlýst. Verði slíkt samþykkt er mikilvægt að slíkt stuðli ekki að frekari afmörkun almannarýmis en í ljósi þess að Hlemmi var breytt úr strætóstoppistöð í mathöll hafa raddir komið fram þess efnis að almenningur sem komi á Hlemm í þeim erindagjörðum að nota strætó, upplifi að rými mathallarinnar sé aðallega hugsað fyrir greiðandi viðskiptavini í mathöllinni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands varðandi Hlemm Mathöll.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Allt frá því að hugmyndir um Hlemm Mathöll komu fyrst fram hefur verið gert ráð fyrir því að staðurinn yrði áfram helsta miðstöð samgangna í borginni. Síðan Hlemmur opnaði fyrir 40 árum hefur hann ávallt verið iðandi af lífi og hefur mathöllin styrkt það enn frekar. Þá er ekkert sem bendir til þess að upplifun strætófarþega sé sú að þeir séu ekki velkomnir inn á Hlemm án þess að versla. Sé það hins vegar svo þá verður að ítreka þær upplýsingar til þeirra að þeir eru sannarlega velkomnir eins og allir aðrir sem eiga leið þar hjá.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R19010133

    Fylgigögn

  9. Lagt fram fundadagatal borgarráðs fyrir árið 2019.

    -    Kl. 10:20 tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum. R18080150

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, ásamt fylgiskjölum, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á miðsvæði M2c-M2g, Múlar-Suðurlandsbraut, í aðalskipulagi Reykjavíkur varðandi kröfu um gerð deiliskipulags við breytingu húsnæðis á svæði M2e. R11060102
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. ágúst 2018 á breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar vegna lóðarinnar nr. 22 við Skógarhlíð, ásamt fylgiskjölum. R18020100
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hesthúsabyggðar á Hólmsheiði, Almannadal, ásamt fylgiskjölum. R18120128
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2018 á breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, ásamt fylgiskjölum. R18120131
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulag Austurhafnar, ásamt fylgiskjölum. R18120132
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskiplagi neðan Sléttuvegar vegna lóðanna nr. 20, 22, 24 og 26 við Lautarveg, ásamt fylgiskjölum. R18120133
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2018 á svörum við umsögn Skipulagsstofnunar vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Vogabyggð, svæði 5, ásamt fylgiskjölum. R18030152
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt er að staldra við og vernda lífríki Elliðáa, enda ýmis aðvörunarljós sem blikka. Í umsögnum Umhverfisstofnunar, Vegamálastofnunar og Veiðimálastofnunar eru gerðar talsverðar athugasemdir við deiliskipulagið.  Í umsögn Veiðimálastofnunar segir meðal annars: „Nýlega er komin fram „Stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík“ sem umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur unnið að. Þar er meðal annars getið um verndun lífríkis fjöru og strandsjávar sem og lífríkis í ferskvatni. Önnur hönd umhverfissviðs er því að vernda búsvæði lífvera á meðan hin höndin er að granda þeim. Það eru því allmargar röksemdir fyrir því að fara með ýtrustu varfærni gagnvart lífríki Elliðaánna og ósasvæðis þeirra.” Við teljum því rétt að sitja hjá við þessa afgreiðslu og ítrekum þá skoðun okkar að friðlýsa eigi Elliðaárdalinn og nærumhverfi hans.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vogabyggð er eitt glæsilegasta uppbyggingarverkefni borgarinnar. Þar er gert ráð fyrir a.m.k. 1.300 íbúðum. Í deiliskipulaginu sem er samþykkt hér í dag er gert ráð fyrir nýrri lóð fyrir allt að 5000 m² leik- og grunnskóla á 2-3 hæðum sem er mikilvægur hluti þessa nýja borgarhluta.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. janúar 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. janúar 2019 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands, lóðum G, H og I, ásamt fylgiskjölum. R19010181
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka Þ73, ásamt fylgiskjölum. R19010136
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til ákvæða samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins  leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu sem gengið gæti nærri slíkum svæðum. Græn svæði í borgarlandinu á að þróa sem útivistarsvæði og ekki á að ganga á þau með uppbyggingu húsnæðis. Árið 2014 var lögð fram tillaga í borgarráði um friðun Elliðaárdals í deiliskipulagi með svokallaðri hverfisvernd. Eins liggur fyrir að friðun með hverfisvernd í deiliskipulagi hefur ekki sömu réttaráhrif og friðlýsing samkvæmt náttúruverndarlögum. Elliðaár og nærliggjandi svæði virðast því hvorki friðuð með hverfisvernd né samkvæmt náttúruverndarlögum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins telja rétt að unnið verði að því, í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun, að Elliðaárdalur og nærliggjandi svæði verði friðlýst með þeim hætti sem kveðið er á um í 38. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Elliðaárdalurinn er eitt af vinsælustu útivistarsvæðum borgarinnar. Það er einstakt að eiga slíka náttúruperlu inni í miðri borg og mikilvægt að vanda vel til allrar uppbyggingar í kringum dalinn. Helgunarsvæði Elliðaáa vernda mikilvægasta svæði dalsins og því er mikilvægt að öll uppbygging á útjaðri útivistarsvæðisins bæti aðgengi fólks og stuðli að jákvæðri upplifun þess af dalnum. Deiliskipulagið sem hér er samþykkt í auglýsingu gerir m.a. ráð fyrir matjurðargörðum og svæði til útikennslu sem er í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur þar sem gert hefur verið ráð fyrir grænni og umhverfisvænni uppbyggingu. Áform Aldin BioDome samræmast skipulagi svæðisins og fylgja BREEAM sjálfbærnistöðlum og WELL stöðlum um heilsusamlegar byggingar. Miklar umræður hafa farið fram um þetta mál og eru teikningarnar gjörbreyttar frá fyrstu hugmyndum – nú er búið að fækka bílastæðum og fækka byggingum sem eru mun fínlegri í sniðum og fögnum við því. Er því öll uppbygging á þessu svæði í góðu samræmi við áherslur borgarinnar á skapandi greinar í grænni, umhverfisvænni og lifandi borg.

    Fylgigögn

  19. Lagður fram dómur Landsréttar, dags. 18. desember 2018, í máli 846/2018; Trausttak ehf. gegn Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg. R18020074

    Fylgigögn

  20. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 21. desember 2018, í máli nr. E-3811/2017. R17120019

  21. Fram fer umræða um ákvörðun Minjastofnunar um skyndifriðun Víkurkirkjugarðs. R16050188

  22. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á tillögu að reglum um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R19010134
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í stýrihópi um bíla- og hjólastæðastefnu telur að heppilegra hefði verið að afgreiða bílastæðastefnu Reykjavíkurborgar með þeim hætti að tekin væri afstaða til stefnunnar í heild. Afgreiðslu málsins er þannig háttað nú að ekki hefur verið tekin afstaða til m.a. bílastæðasjóðs eða íbúakorta. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks munu því sitja hjá við afgreiðslu málsins þar til stefnan hefur verið kláruð í heild.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Miðflokkurinn leggst alfarið gegn takmörkunum á fjölda bílastæða sem og hjólastæða í borginni, hvort heldur um er að ræða við íbúðar-, verslunarhúsnæði eða húsnæði almennt. Slíkar takmarkanir geta í besta falli komið í veg fyrir skynsamlega niðurstöðu að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni. Réttara er að meta slíkt eftir atvikum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér hefur verið mótuð ítarleg stefna og reglur um bíla- og hjólastæði sem taka mið af þróun í erlendum samanburðarborgum. Hér er því um að ræða mjög mikilvægan áfanga í þróun borgarinnar í átt að vistvænni og hagkvæmari uppbyggingu og samgöngum. Stefnan og reglurnar eru unnar á grundvelli aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 en þar eru settar fram reglur um bíla- og hjólastæði eftir svæðum í Reykjavík. Þar er um almenn hámarksviðmið að ræða fyrir viðkomandi svæði sem mögulegt er að víkja frá sé það rökstutt sérstaklega en bílastæðakröfur skulu taka mið af þéttleika byggðar, almenningssamgöngum og staðsetningu í borginni. Með þessari nýju stefnu eru leikreglur og viðmið skýrari auk þess sem leitast er við að meta raunverulega þörf bílastæða í borginni en hagkvæmnisjónarmið þess að byggja íbúðarhúsnæði með fáuum eða engum bílastæðum ættu að vera öllum ljós.

    Þorsteinn Rúnar Hermannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11:20 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að leiðbeiningum um hverfisskipulag, ásamt fylgiskjölum. R19010131
    Frestað.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20.desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á samþykkt á málsmeðferð leiðbeininga fyrir hverfisskipulag Reykjavíkurborgar, dags. 17. desember 2018, ásamt fylgiskjölum. R19010131
    Frestað.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.1 Ártúnsholt, ásamt fylgiskjölum. R19010131
    Frestað.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.2 Árbær, ásamt fylgiskjölum. R19010131
    Frestað.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.3 Selás, ásamt fylgiskjölum. R19010131
    Frestað.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 12. desember 2018, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. nóvember 2018 á tillögu styrkjahóps íþrótta- og tómstundasviðs um styrki ráðsins árið 2019 vegna íþrótta- og æskulýðsmála, ásamt fylgiskjölum. R18120127

    -    Kl. 11:35 tekur Birgir Björn Sigurjónsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  29. Fram fer kynning á mánaðarlegu uppgjöri A-hluta janúar-október 2018. R18010076+

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. janúar 2018, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð staðfesti meðfylgjandi samkomulag Reykjavíkurborgar og Brúar lífeyrissjóðs um endurgreiðslu á framlögum borgarsjóðs í jafnvægis-, lífeyrisauka- og varúðarsjóð vegna A-deildar Brúar lífeyrissjóðs vegna starfsmanna hjúkrunarheimila borgarinnar, þ.e. Droplaugarstaða og Seljahlíðar, þar sem þessi verkefni eru fjármögnuð að meirihluta af ríkissjóði. Þetta er í samræmi við samning Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins um uppgjör lífeyrisskuldbindinga vegna A-deildar Brúar m.v. 31. maí 2017 en heildaruppgjör borgarsjóðs skv. þessu samkomulagi fór fram 28. desember 2017. R16100017

    Vísað til borgarstjórnar.

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 18. desember 2018, varðandi erindi borgarstjóra Reykjavíkur frá 15. nóvember 2018 þar sem skorað er á ríkisvaldið að beita sér fyrir afnámi fjármagnstekjuskatts á sveitarfélög. R18100261

    Birgir Björn Sigurjónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11:50 tekur Helgi Grímsson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  32. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 29. nóvember 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. nóvember 2018 á tillögu um meðferð umsókna foreldra reykvískra nemenda í sjálfstætt rekna sérskólann Arnarskóla, ásamt fylgiskjölum. R18110260
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Viðmið um inntöku í sérskóla eru of ströng í Reykjavík og hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins lagt fram tillögu um að þau verði rýmkuð. Sú tillaga hefur ekki verið afgreidd. Vissulega þurfa línur að vera dregnar einhvers staðar en meiri sveigjanleika vantar þegar kemur að afgreiðslu umsókna sem veldur því að hópur barna lendir á milli, þ.e. líður illa og finna sig ekki meðal jafningja í almennum bekk jafnvel með stuðningi/sérkennslu en ná síðan ekki viðmiðunum til að komast í skóla eins og Klettaskóla og Arnarskóla. Auknar fjárheimildir þarf til að fjölga þessum rýmum og er það ábyrgð kjörinna fulltrúa að sjá til þessa að það fáist. Í framhaldi af þessari bókun er lögð fram tillaga þess efnis að fundið verði meira fé í þennan málaflokk.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  33. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2018 á tillögu varðandi framlag vegna 20 barna í ungbarnaleikskólanum Krílaseli, ásamt fylgiskjölum. R18120141
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  34. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. desember 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2018 á tillögu um ungbarnadeildir í sjálfstætt reknum leikskólum með samning við Reykjavíkurborg vegna barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára, ásamt fylgiskjölum. R18120137
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  35. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. desember 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2018 á tillögu um breytt framlag vegna opnunar ungbarnakjarna í leikskólanum Öskju, ásamt fylgiskjölum. R18120140
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  36. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 14. desember 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2018 á drögum að samningi skóla- og frístundasviðs og Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R18120150
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  37. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 14. desember 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2018 á drögum að samstarfssamningi skóla- og frístundasviðs og Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni, ásamt fylgiskjölum. R18120149
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  38. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 17. desember 2018, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 12. desember 2018 á tillögu að breytingum á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis, ásamt fylgiskjölum. R17030049
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna sammæltist um það að flýta uppbyggingu á búsetuúrræði fyrir konur með geð- og fíkinvanda. Sú samþykkt sem hér um ræðir á tilfærslu milli tímabila í metnaðarfullri áætlun velferðarsviðs í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk er því til staðfestingar að úrræðið mun taka til starfa árið 2019 enda um mikilvægt úrræði að ræða.

    Berglind Magnúsdóttir og Ólafía Magnea Hinriksdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  39. Lagt fram bréf skrifstofu þjónustu og reksturs, dags. 12. desember 2018, þar sem fram kemur að Reykjavík hlýtur styrk til uppsetningar á þráðlausu neti í almannarými innan WiFi4EU verkefnis Evrópusambandsins. R18100394

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er gleðilegt að hér sé verið að fá styrk til að efla nettengingu í almannarými í Reykjavík með þráðlausum internetpunktum. Nýlega hefur snjallborgin verið öflug í því að sækja um styrki til frumkvöðlastarfsemi og bættrar þjónustu. Hér er sérstaklega verið að bæta þjónustu við ferðamenn og auðvelda þeim að afla sér upplýsinga og gera þeim veruna í miðborginni þægilegri. Nettenging er orðin hálfgerð forsenda nútímalífsins með öllu því sem því tilheyrir og því getur það verið afar heftandi að ferðast um óþekkta borg án internets. Gott aðgengi að netinu er góð þjónusta og eykur aðgengi að upplýsingum almennt.

    Fylgigögn

  40. Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir og Örn Þórðarson taki sæti í stjórn Skógarbæjar og að Gunnlaugur Bragi Björnsson og Inga María Hlíðar Thorsteinsson taki sæti varamanna. Jafnframt er lagt til að Sjöfn Ingólfsdóttir, Gunnar Alexander Ólafsson, Egill Þór Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir taki sæti í fulltrúaráði Skógarbæjar og Ellen Jaqueline Calmon, Ingólfur Hjörleifsson, Alda María Vilhjálmsdóttir og Jórunn Pála Jónasdóttir til vara. R18060119
    Samþykkt.

  41. Lagt fram bréf Umhverfisstofnunar, dags. 14. desember 2018, þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurborg tilnefni fulltrúi í vatnasvæðanefnd. R18120166
    Samþykkt að tilnefna Snorra Sigurðsson sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í vatnasvæðanefnd. Ólöf Örvarsdóttir er tilnefnd til vara.

    Fylgigögn

  42. Lagt fram ódags. erindisbréf viðburðastjórnar Ráðhúss Reykjavíkur. R19010076

    Fylgigögn

  43. Lagt fram bréf borgarstjóra og formanns borgarráðs, dags. 8. janúar 2018, varðandi yfirlit yfir ábendingar og niðurstöður í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100, ásamt fylgiskjölum. R17080091

    Hallur Símonarson, Kristíana Baldursdóttir og Sigrún Lilja Sigmarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  44. Fram fer umræða um skýrslu innri endurskoðunar vegna framkvæmda við Nauthólsveg 100 að beiðni áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. R17080091

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á síðustu árum hefur Reykjavíkurborg eytt fleiri hundruð milljónum í endurbætur á húsnæði fyrir veitingarekstur. Þessum fjármunum hefði verið mun betur varið í grunnþjónustu við borgarbúa. Skv. Innri endurskoðun um Nauthólsveg 100 (Braggann) voru lög brotin þar sem greiðslur áttu sér ítrekað stað án heimildar. Innri endurskoðun hefur staðfest að enn vantar formlegar fjárheimildir vegna 73 milljóna króna, að gögnum hafi verið eytt og að landslög og reglur borgarinnar hafi verið brotnar við framkvæmdina. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á mikilvægi þess að vel verði unnið úr skýrslu innri endurskoðunar vegna Nauthólsvegar 100, en eins að lokið verði við úrvinnslu skýrslu innri endurskoðunar frá 2015 um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar þar sem 30 ábendingar komu fram en enn hefur lítið verið unnið með þær. Ljóst er að ef farið hefði verið að varnaðarorðum Innri endurskoðunar árið 2015 um SEA hefði þessi atburðarrás ekki átt sér stað. Þá hefur Borgarskjalasafn bent á verulega misbresti við meðferð skjala hjá Reykjavíkurborg og brot á lögum um opinber skjalasöfn en ekki var orðið við beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við því að fá borgarskjalavörð á fund borgarráðs vegna skýrslu Borgarskjalasafns.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lýsir furðu sinni á því að borgarstjóri, borgarritari og borgarlögmaður hafi ekki vikið af fundi undir dagskrárliðunum. Þessir aðilar eru persónur og leikendur þegar kemur að braggamálinu. Kjörnir fulltrúar verða að hafa frelsi til beinna samskipta við skýrsluhöfunda í svo alvarlegum málum án áheyrnar þeirra sem um er fjallað í skýrslunni. Það er mjög nauðsynlegt ekki síst í ljósi þess að mikilvægt er að aðilar geti ekki samræmt framburð sinn eftir því hvernig spurningum borgarfulltrúa og svörum innri endurskoðunar framvindur. Hér er upplýst að borgarfulltrúi Miðflokksins og Flokks fólksins ætla að flytja tillögu á næsta borgarstjórnarfundi, sem haldinn verður þriðjudaginn 15. janúar nk., um að vísa skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkur sem ber heitið Nauthólsvegur 100 til héraðssaksóknara til frekari yfirferðar og rannsóknar. Innri endurskoðandi hefur eftirlátið borgarfulltrúum úrvinnslu skýrslunnar og teljum við okkur vera að bregðast ríku eftirlitshlutverki okkar sem kjörinna fulltrúa ef við myndum ekkert aðhafast í kjölfar hennar. Mjög alvarlegar athugasemdir og ábendingar eru í skýrslunni m.a. um alvarleg lögbrot sem of langt mál er að fara yfir í bókun þessari. Rökstyðjum við þessa ákvörðun okkar m.a. með 140 gr. og 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjalla um skyldur opinberra starfsmanna í störfum sínum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Yfirlitið sem hér er lagt fram geymir þær ábendingar, athugasemdir og önnur atriði úr skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100, sem með einum eða öðrum hætti kalla á viðbrögð borgarráðs og stjórnenda hjá Reykjavíkurborg. Eins og rakið er í bréfi innri endurskoðanda til borgarráðs með skýrslunni telur IE að í skýrslunni séu nægar upplýsingar til að stjórnendur geti gert viðeigandi úrbætur á verklagi, eftirlitsaðgerðum og eftir atvikum breytingum á stjórnkerfi til þess að tryggja að markmið borgarstjórnar nái fram að ganga. Fyrsta greining á skýrslu IE felur í sér að gildandi lögum, reglum og samningum var ekki fylgt með fullnægjandi hætti. Þetta á við um gerð áætlana, eftirlit, skjölun og fleira. Í öðru lagi var eftirliti og upplýsingagjöf ekki sinnt af þeim aðilum sem stýrðu verkefninu. Bregðast þarf við þessum atriðum, og öðrum eftir því sem við á, með þeim hætti sem dregið er fram í skýrslunni með viðeigandi úrbótum á verklagi, eftirlitsaðgerðum og eftir atvikum með breytingum á stjórnkerfi. Í yfirlitinu er því dreginn fram kjarninn í skýrslu Innri endurskoðunar og verður framhaldið unnið jafnt og þétt áfram í samvinnu við borgarráð. Eins og fram hefur komið þá er þessi framúrkeyrsla frávik í framkvæmdum á vegum borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðum 43 og 44 í fundargerðinni.

    Nú hefur IE farið yfir ábendingar úr skýrslu sinni og svarað ýmsum spurningum. Það er margt skýrt í skýrslunni um braggann en fara hefði mátt dýpra t.d. í embættisfærslur og stjórnsýsluhætti borgarstjóra og borgarritara í tengslum við braggaverkefnið. Sjá má nú og hefur það verið staðfest af IE að þar var um alvarlega brotalöm að ræða. Mikið ábyrgðarleysi er í gangi, samskipti laus í reipunum og í engum tilfellum setjast yfirmenn niður með undirmönnum (skrifstofustjóra SEA) og spyrja um stöðu verkefna af því er virðist. Það er mat Flokks fólksins að IE hefði sjálf átt að skoða tölvupósta borgarstjóra og borgarritara sem og pósta þeirra á milli upp á trúverðugleika. Aðeins voru skoðaðir póstar tveggja starfsmanna og ekki var farið í að endurheimta eydda pósta þar sem það þótti tímafrekt og flókið en engu að síður vel gerlegt. Það er einnig sláandi að það hafi verið alfarið ábyrgð starfsmanna að vista skjöl í tengslum við verkefni í skjalakerfi borgarinnar og geri þeir það ekki þá er fátt við því að gera. Svona hefur stjórnsýslan verið.  Sjá má af öllu þessu að þarna leika ákveðnir starfsmenn sér að vild og án eftirlits með fé borgaranna. Stór spurning er hvort hér sé ekki um misferli að ræða. Í það minnsta hafa lög verið brotin, sveitarstjórnarlög og lög um skjalavörslu og spurning er með meintar blekkingar.

    Hallur Símonarson, Kristíana Baldursdóttir og Sigrún Lilja Sigmarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  45. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um upptökur á fundum borgarráðs og forsætisnefndar, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. desember 2018. R18120172
    Tillagan er felld.

    Fylgigögn

  46. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að hætta að senda pappírsjólakort, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. desember 2018. R18110243
    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  47. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 11. desember 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins um framtíðarnýtingu á Víðinesi, sbr. 71. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18110145

    Fylgigögn

  48. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 13. desember 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, dags. 4. október 2018, um fjölda starfsfólks í verktöku hjá B-hluta fyrirtækjum. R18100035

    Fylgigögn

  49. Lagt fram svar Faxaflóahafna, dags. 20. desember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kostnaðaráætlun vegna Bakkaskemmu við Grandagarð 16, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. nóvember 2018. R18110252

    Fylgigögn

  50. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 2. janúar 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins varðandi vörusamninga, verksamninga og þjónustusamninga, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. nóvember 2018. R18110007

    Fylgigögn

  51. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 23. nóvember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um hvenær kennsla í Dalskóla hefjist, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. nóvember 2018. R18110067

    Fylgigögn

  52. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, fjármálaskrifstofu og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 2. janúar 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um hvaða upphæð Reykjavíkurborg lagði af mörkum, tæmandi talið, vegna Landsmóts hestamanna sl. sumar, sbr. 75. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R14120157

    Fylgigögn

  53. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 11. desember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvers vegna sé ekki heimilt að taka mat í eigin ílát í mötuneytum borgarinnar, sbr. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018. R18110148

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í þessu sambandi eru helstu rök gegn þessari tillögu ótti við krosssmengun. En hvernig verður þannig smit til ef matarílátið sem gesturinn kemur með er aldrei snert með áhöldum afgreiðslumannsins og eða matur sé afhentur á öðrum stað ef komið er með ílát að heiman? Í þessu sambandi má vega og meta alla möguleika og vissulega þarf að gæta hreinlætis og taka sem minnsta áhættu. Það hækkar matarverðið til muna að afgreiða í umhverfisvænar umbúðir. En svonefnt krosssmit fer fram með margvíslegum hætti til dæmis þegar verið er að borga með peningum. Einnig þó greitt sé með greiðslukorti, þar er sama smithætta. Það er mat borgarfulltrúa að borgin megi hvorki slaka á né hunsa að taka ábyrgð en e.t.v. er ótti hér óþarfur. Þessu má vel halda aðskildu. Margir eldri borgarar hafa upplifað þetta sem valdníðslu af hálfu Reykjavíkurborgar á eldri borgara og finnst að með því að hafna þessari tillögu sé verið að niðurlægja þau.  Á það skal minnt að aldur er ekki sjúkdómur og hér er ekki verið að tala um sjúkrahúsaðstæður eða veikt fólk. Flokkur fólksins leggur til að þessi mál séu skoðuð með opnum huga og fordómalaust.

    Fylgigögn

  54. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 7. janúar 2018, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna yfirlits yfir móttökur Reykjavíkurborgar, sbr. 72. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R16010200

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Langur listi fyrirtækja sem skipt er við í tengslum við móttökur er hér birtur í svari. Óumdeilanlegt hlýtur að vera að þetta er mikill kostnaður sem fer í allt mögulegt sem kostar að halda eina veglega veislu. Það er mat borgarfulltrúa að þetta sé einn af þeim útgjaldaliðum sem þarf að endurskoða með það fyrir augum að draga úr kostnaði. Í þessu sambandi er ekki um nein útboð að ræða þannig að spurt er hvort ekki eigi að fylgja hér innkaupareglum? Í þessu tilfelli er það aðeins einn aðili, móttökufulltrúi borgarinnar, sem ákveður við hvaða aðila er skipt varðandi fyrrnefnd kaup og má teljast víst að mörgum þætti það skjóta skökku við.

    Fylgigögn

  55. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. október 2018, sem færð var í trúnaðarbók og samþykkt á fundi borgarráðs 8. nóvember 2018:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg gefi öllu starfsfólki sínu gjafakort fyrir tvo á sýningar í Borgarleikhúsinu í jólagjöf árið 2018. Heildarkostnaður við jólagjöfina er 43,5 m.kr. og færist af liðnum ófyrirséð.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfsagt og eðlilegt er að starfsfólki Reykjavíkurborgar séu gefnar jólagjafir. Hinsvegar væri eðlilegt að leita tilboða þar sem fleiri en einn aðili geta veitt þessa þjónustu. Reynslan sýnir að með því móti færi meira fyrir peningana.

    Eyþór Laxdal Arnalds víkur af fundi við afgreiðslu málsins. R18100403

    Fylgigögn

  56. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarráði leggur til að almennir strætónotendur verði hafðir með í faghópnum um leiðakerfisbreytingar, svo að raddir þeirra komi einnig að þeirri vinnu. R19010186

    Frestað.

  57. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir svörum um hvaða samskipti hafa átt sér stað milli embættismanna og borgarskjalavarðar eftir að skýrsla borgarskjalavarðar kom út. Þetta er í tengslum við svar borgarskjalavarðar, Svanhildar Bogadóttur, dags, 20. nóvember 2018 er varðar skýrslu um skjalavörslu og skjalastjórnun hjá Reykjavíkurborg í embættisafgreiðslum. Skýrslan hefur enn ekki fengið kynningu hjá borgarráði þrátt fyrir beiðnir um slíkt. R18110052

  58. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins vill enn og aftur leggja það til að borgarmeirihlutinn setji málaflokk sérskóla í forgang og veiti í hann meira fé. Nú hefur fjárhagsáætlun nýlega verið samþykkt og var ekkert í henni sem liðkar til í þessum efnum. Lagt er til að fjármálaskrifstofan leggist yfir þetta í samvinnu við fjármálastjóra skóla- og frístundarsviðs og komi með tillögur til borgarráðs hvar taka megi fjármagn til að fjölga rýmum í skóla eins og Klettaskóla og mögulega í Arnarskóla. Arnarskóli er að öllu leyti til fyrirmyndar og einmitt sá skóli sem Reykjavík ætti að horfa til þegar stofna skal nýjan sérskóla í Reykjavík. R18080049

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  59. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gerð var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100.  Gröndalshúsið fór 198 milljónir fram úr áætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust og uppfullt af misferlum. Eftir því sem fram hefur komið hjá Innri endurskoðun er á borði skrifstofunnar úttekt á framkvæmdum við Mathöll Hlemmi, Sundhöll, Vesturbæjarskóla og hjólastíg við Grensásveg.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R19010187
    Frestað.

    -    Kl. 14:00 víkja Dóra Björg Guðjónsdóttir og Líf Magneudóttir af fundinum.

  60. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins varðandi framkvæmdir við Fossvogsskóla:

    1. Voru breytingar/bráðabirgða skólastofur og vinna við framkvæmdina boðin út? 2. Ef ekki, var farið í verðfyrirspurn? 3. Ef ekki, hvernig voru verktaki/verktakar valdir? 4. Hvenær byrjuðu framkvæmdir við Fossvogsskóla? 5. Hver var áætlaður heildartími til framkvæmdanna? 6. Hvenær eru verklok áætluð? 7. Hver var upphafleg kostnaðaráætlun við framkvæmdirnar? 8. Hvað hefur verið greitt út á verkið miðað við 1. janúar 2019? 9. Hvert er markmiðið með þessum breytingum? 10. Hvað er verið að bæta við mörgum skólaplássum? 11. Ef þetta eru bráðabirgðastofur, hvað eru þær þá hugsaðar til langs tíma? 12. Var athugað með hagkvæmari möguleika? R19010188

  61. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Á 33. fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2013, var samþykkt að stofna átakshóp um bætt aðgengi fatlaðra að Laugaveginum. Tillagan sem lá til grundvallar var svohljóðandi: „Nú þegar Laugavegur er að fara í endurhönnun er mikilvægt að nýta það tækifæri til þess að leggja áherslu á aðgengi fatlaðra. Lagt er til að skipaður verði sérstakur átakshópur í þeim tilgangi. Hann móti áherslur og stefnu Reykjavíkurborgar og verkferla vegna umsókna sem berast um bætt aðgengi. Átakshópur vinni með kaupmönnum og öðrum rekstraraðilum.“ Á fundinum var ákveðið að fresta skipun hópsins. 1.    Er búið að skipa í hópinn og hefur hann tekið til starfa? 2.    Ef ekki er búið að skipa í hópinn hver er ástæðan? 3.    Ef ekki er búið að skipa í hópinn hvenær stendur til að gera það? R19010189

Fundi slitið klukkan 14:05

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Hildur Björnsdóttir Marta Guðjónsdóttir