Borgarráð
Ár 2018, fimmtudaginn 20. desember, var haldinn 5529. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Óli Jón Hertervig, Ebba Schram og Dagný Magnea Harðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf innri endurskoðanda, dags. 17. desember 2018, og skýrsla innri endurskoðunar, dags. í desember 2018, um endurgerð bygginga við Nauthólsveg 100. Einnig er lögð fram umsögn endurskoðunarnefndar, dags. 19. desember 2018. R17080091
Borgarráð felur borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarráðsfulltrúa að móta tillögur að viðbrögðum við skýrslu innri endurskoðunar.
Kl. 10:13 tekur Birgir Björn Sigurjónsson sæti á fundinum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti borgarráðs þakkar innri endurskoðun fyrir vandaða og faglega úttekt á framkvæmdum við Nauthólsveg 100. Úttektin er ítarleg og tekur á öllum þáttum verkefnisins, bæði aðdraganda framkvæmdanna, hvernig að þeim var staðið og þeim alvarlegu frávikum sem urðu. Áhyggjuefni er að sjá hvernig verkferlar og upplýsingagjöf brugðust í þessu verkefni og kalla þau á viðbrögð. Þau viðbrögð þurfa að tryggja að áhætta á slíku sé í lágmarki og að ef frávik verði, þá berist upplýsingar sem fyrst til borgarráðs svo hægt sé að grípa inn í í samræmi við samþykkt verklag. Nú þegar hefur vinna verið hafin við að koma í veg fyrir að svona geti endurtekið sig. Borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarráðsfulltrúa verði falið að hafa forystu um að móta tillögur að viðbrögðum við ábendingum í skýrslu IE og gera tillögur um að breyta og formfesta skipulag, verkferla og vinnubrögð til að draga úr líkum á að frávik sem þessi endurtaki sig.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skýrslan dregur upp mun dekkri mynd en okkur óraði fyrir. Þar kemur fram að farið var fram úr samþykktum fjárheimildum og þess ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar, sem er hvort í senn brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar. Eins kemur fram að borgarráði hafi verið veittar villandi og rangar upplýsingar um verkefnið. Niðurstöður innri endurskoðunar benda til þess að kostnaðareftirliti, upplýsingastreymi og skjölun hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg. Fram kemur í skýrslunni að fyrrverandi skrifstofustjóri SEA hafi ekki sinnt sinni stjórnendaábyrgð, enda hefði honum borið að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og upplýsa sína yfirmenn og borgarráð um gang mála. Þó kemur fram í skýrslunni að þetta leysi þó ekki næstu yfirmenn skrifstofustjórans, þ.e. borgarritara og borgarstjóra, undan þeirri ábyrgð að hafa heildarsýn yfir rekstur einingarinnar og verkefni hennar. Borgarstjóri, sem starfaði sem næsti yfirmaður skrifstofustjóra SEA, hefði átt að gegna þeirri stjórnunarlegu skyldu að fara yfir veruleg frávik í verkefnum skrifstofunnar. Þess var ekki gætt og skýrslan því mikill áfellisdómur yfir borgarstjóra. Á síðustu árum hefur Reykjavíkurborg eytt fleiri hundruð milljónum í endurbætur á húsnæði fyrir veitingarekstur. Þessum fjármunum hefði verið mun betur varið í grunnþjónustu við borgarbúa.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ein af niðurstöðum skýrslunnar er að upplýsingagjöf til borgarstjóra, borgarritara, innkauparáðs og borgarráðs var ábótavant. Það er ógerlegt að bregðast við einhverju sem ekki liggur fyrir og því er það eitt af verkefnunum framundan að styrkja og bæta alla upplýsingagjöf til viðeigandi aðila.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skýrsla innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 er svört og mikið áfall. Í henni er rakið hvernig hver þáttur á eftir öðrum stríddi gegn góðum stjórnsýsluháttum. Nefna má að verkefnin voru ekki boðin út, kostnaðareftirliti var ábótavant, ekki voru gerðir samningar, margar vinnustundir skrifaðar og á einum tímapunkti voru 18 verktakar í vinnu. Reikningar voru samþykktir en ekki fylgst með að útgjöld væru innan fjárheimildar. Í frumkostnaðaráætlun vantaði marga þætti og sú áætlun sem gerð var, var ekki virt. Fram kemur að innkauparáð fékk ekki réttar upplýsingar, skýrslu ráðsins var ekki fylgt eftir. Biðlund ráðsins var of mikil eftir því sem fram kemur. Eitt það alvarlegasta er að borgarráð fékk rangar upplýsingar. Flokkur fólksins myndi vilja fá álit frá aðila utan borgarkerfisins á broti á innkaupareglum og umboðsþáttum. Fram kemur að misferlisáhætta er mikil en skortur er á sönnunum. En liðið er liðið og ekki er efast um borgarmeirihlutinn mun draga af þessu lærdóm og breytingar gerðar í kjölfarið til að koma í veg fyrir að svona lagað endurtaki sig. En er þar með verið að draga eitt stórt pennastrik yfir Nauthólsveg 100? Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst enn mörgum spurningum ósvarað og er þá kannski helst sú, mun einhver ætla að axla á þessu ábyrgð?
Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Sigrún Lilja Sigmarsdóttir og Kristíana Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 21. og 23. nóvember og 5. desember 2018. R18010031
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 29. nóvember og 6. og 13. desember 2018. R18010016
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við 4. lið fundargerðarinnar frá 13. desember:
Þó Reykjavíkurborg sé ekki að brjóta eigin reglur við orkukaup þá er ekkert sem bannar það að setja raforkukaup í útboð. Þannig væri hægt að spara talsverðar upphæðir á ári hverju enda ekki um neina smápeninga að ræða, kr. 665 milljónir sem eingöngu A-hluti borgarinnar greiðir árlega. Leiða má líkur að því að borgin sé að brjóta sínar eigin reglur enda er hvergi kveðið á um undanþágu í innkaupareglum hvað raforkukaup varðar. Þá státar borgin sig af því að ganga lengra en lög um opinber innkaup kveða á um, að minnsta kosti láta þau hafa það eftir sér á tyllidögum. Reykjavíkurborg á að ganga framar en reglur nákvæmlega kveða á um, þegar kemur að ráðdeild og hagkvæmni í rekstri. Slíkt væri til fyrirmyndar í opinberri stjórnsýslu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans ítreka það sem fram hefur komið í innkauparáði, að innkaup milli opinberra aðila um raforku falla ekki undir lög um opinber innkaup. Þar að auki er um viðskipti milli a- og b-hluta borgarinnar að ræða og mögulegur sparnaður a-hluta, jafnvel þó hann væri verulegur, kæmi alfarið á kostnað b-hluta sömu samstæðu.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 2. og 16. nóvember og 7. desember 2018. R18010028
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018. R18060192
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R18110261
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R18120069
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. desember 2018, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að veita jákvæðar umsagnir um tímabundin áfengisveitingaleyfi vegna jóla og áramótaskemmtana 2018. R18120069
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 12. desember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna jólakorta, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. nóvember 2018. R18110243
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í stóra samhenginu er hálf milljón e.t.v. ekki stór upphæð. Engu að síður er hér um að ræða tveggja mánaða laun fjölmargra borgarbúa. Rafræn jólakort kosta ekkert. Sé valið að fara þá leið myndi það sýna að borin sé virðing fyrir peningum útsvarsgreiðenda. Jólakveðja er jólakveðja og eru umbúðirnar aukaatriði, það er hugurinn sem skiptir máli.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. desember 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki að lækka kaupverð byggingarréttar án gatnagerðargjalds fyrir lóð að Urðarbrunni 10-12, ásamt fylgiskjölum. R18050181
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2018, ásamt fylgiskjölum: R18100369
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu valnefndar um fjármögnun grænna framkvæmda með grænum skuldabréfum í samræmi við Grænan ramma Reykjavíkurborgar.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2018, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu matsnefndar um veitingu stofnframlaga. R18110001
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Kl. 11:50 taka Ólöf Örvarsdóttir og Haraldur Sigurðsson sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. desember 2018 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. R18120134
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. desember 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 19. desember 2018 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna stækkunar á hafnarsvæði og landfyllingar við Klettagarða og Skarfabakka-Kleppsbakka. R11060102
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. október 2018, þar sem skýrsla sviðsins um framfylgd aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, ásamt fylgiskjölum, er send borgarráði. R11060102
Kl. 12:15 víkur Haraldur Sigurðsson af fundinum.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á innleiðingu á þjónustustefnu Reykjavíkurborgar. R18040190
Óskar Jörgen Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir og Þröstur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í kynningunni kemur fram að leggja á áherslu m.a. á notendamiðaða hönnun og notendasamráð almennt séð. Flokkur fólksins hefur það staðfest að notendasamráð ekki síst þegar verkefni eru á fyrstu stigum þróunar og skipulagningar er víða ábótavant. Eins og fram hefur komið er það á ábyrgð fagsviðsins. Engu að síður þurfa markmiðin að vera ávörpuð með sama hætti á öllum stigum. Aðeins notendur þjónustu geta staðfest hvort haft sé fullnægjandi notendasamráð. Lagt er til að gerð sé könnun hjá Öryrkjabandalaginu og öðrum hagsmunahópum þar sem spurt er um upplifun þeirra á notendasamráði og notendamiðaðri hönnun. Ef tala á um raunverulegt notendasamráð sem dæmi þurfa notendur helst sjálfir að vera með í að stýra verkefninu. Þá vill Flokkur fólksins hvetja til ríkra tengsla milli hugmyndsviðs og framkvæmdasviðs til að tryggja að þjónustan verði útfærð með þeim hætti að notandinn upplifi að hann sé hafður með í ráðum frá hugmynd til framkvæmdar.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að frá og með næstu jólum leggi skrifstofa borgarstjóra það af að senda pappírsjólakort og sendi þess í stað rafræn jólakort eins og önnur svið borgarinnar. R18110243
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarmeirihlutinn vinni markvisst og fljótt að því að gera öll gönguljós þannig úr garði að þau séu með skynjunarbúnað sem gefi frá sér hljóðmerki þegar fótgangandi nálgast og sem nema og laga sig að umhverfishljóðum. R18120169
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarmeirihlutinn beiti sér fyrir að vinnutími þeirra sem starfa í miðborginni verði breytilegur og þá er átt við enn breytilegri en nú er í þeim tilgangi að létta á umferðarteppu í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis. R18120170
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarmeirihlutinn beiti sér í ríkari mæli fyrir að atvinnufyrirtæki rísi í úthverfum frekar en í miðborginni. Einnig að skoða hvaða fyrirtæki sem nú eru í miðbænum mætti hugsanlega færa í úthverfin í þeim tilgangi að létta á umferð í og úr miðborginni sem er orðin óbærilega þung. R18120170
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Miðflokkurinn gerir tillögu um að borgarráð biðji forsætisnefnd að boða til aukafundar vegna ávirðinga forseta borgarstjórnar Dóru Bjartar Guðjónsdóttur í garð varaborgarfulltrúa Miðflokksins, Baldurs Borgþórssonar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18120171
Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Miðflokkurinn leggur fram tillögu um að framvegis verði allir fundir borgarráðs sem og forsætisnefndar hljóðritaðir í heild sinni og upptökur geymdar. Þetta verði gert til þess að borgarfulltrúar sem og aðrir er fundina sitja geti borið af sér mögulegar ávirðingar og rangmæli, en þó helst til að koma með öllu í veg fyrir að slíkt eigi sér stað.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18120172
Frestað.
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 13:00
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir
Hildur Björnsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir