No translated content text
Borgarráð
Ár 2018, fimmtudaginn 29. nóvember, var haldinn 5526. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:05. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ebba Schram, Pétur Ólafsson og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 2. október. 2018. R18010031
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. nóvember 2018. R18010016
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 28. nóvember 2018. R18060192
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R18100385
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í embættisafgreiðslum skrifstofu borgarstjórnar er að finna þrjár spurningar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks í borgarráði sem lúta að varðveislu gagna hjá borginni. Í fyrsta lagi er brýnt að fá svör því hvort tölvupóstum starfsmanna og kjörinna fulltrúa sé eytt, í annan stað hvort til sé öryggisafrit af tölvupóstunum og í þriðja lagi hvernig varðveisluskylda skv. lögum sé virt. Í nýrri skýrslu Borgarskjalasafns Reykjavíkur „Skjalastjórn og skjalavarsla hjá Reykjavíkurborg 2017 – Eftirlitskönnun Borgarskjalasafns Reykjavíkur“, sem gefin var út í síðasta mánuði, kemur fram að margar stofnanir Reykjavíkurborgar uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru í lögum um skjalavörslu og úr því þurfi að bæta. Þá segir að grundvallarþættir við skjalavörslu hjá meirihluta skilaskyldra aðila séu ekki í lagi. Jafnframt segir að ástandið hafi almennt versnað frá síðustu eftirlitskönnun sem gefin var út í maí 2014. Einnig kemur fram að meirihluti mála eða erinda sem send eru með tölvupósti séu ekki vistuð í málasafni þrátt fyrir afdráttarlaus fyrirmæli og reglur þar um. Þá er þess getið að áhyggjuefni sé hversu margir varðveiti tölvupósta á einka- og sameiginlegum drifum en ekki í málasafni. Í skýrslunni kemur fram að meirihluti forstöðumanna eininga innan borgarinnar virðist ekki þekkja almennt til ákvæða laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn en 64% svarenda sögðust ekki þekkja til refsiverðra viðurlaga sbr. 47. gr. laganna.
Kl. 9:15 tekur Hallur Símonarson sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R18110013
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði. R18010041
Samþykkt að veita þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða styrk að fjárhæð kr. 270.000 vegna þrettándahátíðar 6. janúar 2019. Styrkurinn greiðist af eftirtöldum kostnaðarstöðum: kr. 90.000 af R1010 vegna hverfisráðs Miðborgar, kr. 90.000 af R1012 vegna hverfisráðs Hlíða, kr. 90.000 af R4010 vegna hverfisráð Vesturbæjar.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu samningaviðræðna Reykjavíkurborgar við Airbnb. R17100199
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 26. nóvember 2018, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 26. nóvember 2018 á tillögu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að fyrirkomulagi samstarfs um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks. R18050082
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna telja mikilvægt að halda áfram með sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Margar gagnlegar ábendingar koma fram í niðurstöðum greiningar og tillögunum sem á þeim eru byggðar. Mikilvægt er að nýta þá reynslu sem myndast hefur innan þjónustunnar frá 2014. Forðast verður að endurtaka þau mistök sem þá voru gerð við innleiðinguna. Mikilvægt er að nýta reynslu notenda þjónustunnar og starfsfólks við breytt fyrirkomulag. Ljóst er að núverandi fyrirkomulag er of flókið og því er lagt til að þjónustan verði á einni hendi og áfram í umsjón Strætó bs. Meta verður með ítarlegri hætti kosti og galla þess að Strætó bs. sinni akstrinum, eða að stofnað verði sérstakt undirfyrirtæki utan um þá þjónustu, samhliða því að unnið verði áfram að útboði. Í tillögunum er auk þess lagt til að skipuð verði sérstök rekstrarstjórn sem verður að teljast til bóta frá núverandi fyrirkomulagi þar sem ábyrgðarsvið milli aðila hefur ekki verið nægilega skýrt. Áður en til breytinga kemur á þessari þjónustu, hvort sem hún er boðin út aftur eða framkvæmd með öðrum hætti, er nauðsynlegt að farið verði í að endurskoða þjónustulýsingarnar í samráði við notendur og hagsmunasamtök, á vettvangi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er nauðsynlegt að tryggja góða þjónustu í ferðaþjónustu fatlaðs fólks og tryggja stöðugleika í þjónustunni. Þó að útboð þjónustunnar geti falið í sér ýmsar kröfur til verktaka til að leitast við að tryggja sem besta þjónustu, telur fulltrúi Sósíalistaflokksins að Strætó bs. ætti að sjá beint um akstursþjónustuna, í stað þess að bjóða hana út. Þannig megi sjá til þess að fastráðið starfsfólk Strætó bs. sjái beint um þessa þjónustu í stað verktaka. Í velferðarráði hefur fulltrúi sósíalista lagt fram tillögu þess efnis að kanna gróflega hvernig fyrirkomulagi og rekstri ferðaþjónustu fatlaðs fólks yrði háttað ef Strætó bs. sæi beint um þá þjónustu með fastráðnu starfsfólki.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Margar gagnlegar ábendingar koma fram í niðurstöðum greiningar og tillögunum sem á þeim eru byggðar. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins veltir samt fyrir sér hversu mikið samráð var haft við notendur við gerð þessarar greiningar. Fulltrúar hagsmunaaðila lögðu fram minnisblað með sínum áherslum. Ekki er alveg ljóst hvort og hvernig áherslur þeirra koma fram í skýrslu NOR eða hvort minnisblað þeirra sé meðal gagna sem unnið var úr. Þegar á heildina er litið virðist ekki vera mikið í skýrslunni sem kemur beint frá hagsmunaaðilum og notendum. Enda þótt margt sé nú betra í þjónustu hjá Strætó þýðir ekki endilega að hagsmunaaðilar séu fyllilega ánægðir með fyrirkomulag akstursþjónustunnar. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á mikilvægi notendasamráðs hér sem ávallt og að notendur komi að málinu frá öllum hliðum og það frá byrjun. Ráðfæra hefði átt sig við notendur og hefur skýrslan ekki verið lögð fyrir fulltrúa notenda til að fá viðbrögð?
Regína Ásvaldsdóttir, Reynir Kristinsson, Sigurborg Fjölnisdóttir og Agnes Sif Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2018, með tillögum að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018. R17100024
Vísað til borgarstjórnar.
Halldóra Káradóttir, Ámundi Brynjólfsson og Ólöf Örvarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármálaskrifstofu og umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. nóvember 2018, ásamt svari Faxaflóahafna, dags. 9. október 2018, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins vegna vita við Sæbraut, sbr. 59. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október og 73. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R18100135
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þegar Höfðatorg byggðist var ljóst að gera þyrfti nýjan vita þar sem byggingarnar skyggðu á vitann sem er á þaki Stýrimannaskólans. Ákveðið var að staðsetja vitann á landfyllingu með útsýnispalli. Kostnaðaráætlun 1 sem lögð er fram í fjárfestingaráætlun fyrir árið 2018 hljóðaði upp á 100 m.kr. Kostnaðaráætlun 1 ber að jafnaði með sér -25% til +35% skekkjumörk. Í ágústmánuði sl. var lögð fram kostnaðaráætlun 2 upp á 150 m.kr. með skekkjumörkin +/- 10%. Faxaflóahafnir greiða undirbúning, skipulagsvinnu og frumhönnun landfyllingar, kostnað við smíði og uppsetningu vita og tengingar við rafmagn, þá greiða hafnirnar 25 m.kr. vegna framkvæmda við landfyllingu og grjótvörn. Uppgjör fer fram að loknu verki.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkomulag var um að Faxaflóahafnir myndu greiða 25 milljónir vegna framkvæmda við landfyllingu og grjótvörn undir vitann en annar kostnaður yrði greiddur af Reykjavíkurborg. Samkvæmt svari Faxaflóahafna er kostnaður á þeirra vegum 15,6 milljónir og hlutur verkfræði- og arkitektavinnu (skipulagsdrættir og frumhönnun undir vitann) 5,4 milljónir. Í svari skrifstofu framkvæmda og viðhalds kemur fram að borgarráði hafi verið kynnt að hlutur borgarinnar yrði 75 milljónir eins og kemur fram á vef Reykjavíkur: https://reykjavik.is/frettir/nyr-innsiglingarviti-vid-saebraut. Nú er því haldið fram að um mistök hafi verið að ræða og að áætlað hafi verið að verkið kostaði 100 milljónir. Nú er gefið út að heildarkostnaður borgarinnar verði 150 milljónir og se hækkunin vegna aukins umfangs við landfyllingu og grjótvarnir sem er hlutur Faxaflóahafna. Svo virðist sem verið sé að greiða tvisvar fyrir sömu verkin. Samkvæmt yfirliti frá fjármálaskrifstofu borgarinnar, sem er ófullnægjandi, kemur fram að rúmar 26 milljónir hafi verið greiddar til arkitekta- og verkfræðistofa. Þegar borgarfulltrúar sinna eftirlitsskyldu sinni er lágmark að þeim séu veittar réttar og fullnægjandi upplýsingar. Áætlað er að verkið fari í 175 milljónir með framlagi Faxaflóahafna sem er ótrúleg framúrkeyrsla eins og í öðrum verkefnum sem borgin hefur staðið fyrir undanfarin ár.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er alvarlegt þegar áheyrnarfulltrúi Miðflokksins er með aðdróttanir í garð fjármálaskrifstofu borgarinnar þess efnis að svör hennar við fyrirspurn um þetta mál séu ekki bara ófullnægjandi heldur einnig rangar. Eins og sjá má í svari við fyrirspurninni er öllum spurningum sem lagðar eru fram svarað með skýrum og afdráttarlausum hætti og aðdróttunum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins vísað til föðurhúsanna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Enn og aftur er verkefni að fara fram úr áætlun. Í þessu tilfelli um 100%. Vegna mistaka í skipulagi borgarinnar var nauðsynlegt að setja upp nýtt siglingaljós. Upphaflega var borgarráði kynnt að Reykjavíkurborg þyrfti að greiða 75 milljónir. Nú er gert ráð fyrir að kostnaður borgarinnar verði 150 milljónir, en auk þess greiða Faxaflóahafnir a.m.k. 25 milljónir. Samtals 175 milljónir hið minnsta. Verkinu er langt frá því að vera lokið en því átti að vera lokið í júní 2018. Rétt er að benda á að kostnaður við grundun og grjótfyllingu er yfir útboðsmörkum borgarinnar sem eru 28 m.kr.
Ámundi Brynjólfsson og Ólöf Örvarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir víkur af fundi við meðferð málsins.
Fylgigögn
-
Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar til september 2018, ásamt umsögn endurskoðunarnefndar, dags. 27. nóvember 2018. Jafnframt er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 29. nóvember 2018. R18110049
Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á sviðsmyndagreiningu í tengslum við gerð 5 ára áætlunar Reykjavíkurborgar 2019-2023, sviðsmyndum og fjárhagslegri greiningu. R18010348
Sævar Kristinsson, Sveinbjörn Ingi Grímsson og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2018, að endurskoðun reglna um fjárstýringu í tengslum við útgáfu grænna skuldabréfa. R18110183
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2018, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu að Grænum ramma Reykjavíkurborgar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja jákvætt að borgin fái betri vaxtakjör með þessum hætti og gefi kost á grænum skuldabréfum, en Reykjavíkurborg þarf að gæta að skuldsetningu sem hefur verið alltof mikil í góðæri.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans í borgarráði þakka fyrir mikilvæga vinnu fjármálaskrifstofu og umhverfis- og skipulagssviðs við undirbúning á útgáfu grænna skuldabréfa. Þá er Reykjavíkurborg fyrst allra til að hefja útgáfu grænna skuldabréfa í íslensku kauphöllinni. Grænu skuldabréfin kallast á við þau metnaðarfullu markmið sem borgin hefur sett sér í loftslagsmálum á borð við borgarlínu, hleðslustöðvanet, skógrækt, göngu- og hjólastíga og umhverfisvænar snjalllausnir.
Fylgigögn
-
Lögð fram bréf slökkviliðsstjóra, dags. 25. október 2018, þar sem óskað er eftir samþykki borgarstjórnar á gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 23. nóvember 2018. R18010213
Vísað til borgarstjórnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2018, með tillögum að breytingum á frumvarpi að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2019-2023. R18010348
Vísað til borgarstjórnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2018, með tillögum að breytingum á frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019. R18010348
Vísað til borgarstjórnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2018, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að samþykkt verði fyrirliggjandi samkomulag við Brú lífeyrissjóð um uppgjör lífeyrisskuldbindinga við A-deild lífeyrissjóðsins og fullnaðargreiðslur Reykjavíkurborgar vegna jafnvægissjóðs, lífeyrisaukasjóðs og varúðarsjóðs í samræmi við lög nr. 127/2016 um breytingu á lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Af hálfu lífeyrissjóðsins er áskilið að samkomulagið sé staðfest af sveitarstjórn, sjá hjálögð fyrirliggjandi óundirrituð drög að samkomulaginu. R16100017
Vísað til borgarstjórnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarritara, dags. 5. nóvember 2018, varðandi áframhaldandi úrvinnslu ábendinga innri endurskoðunar um stjórnskipulega stöðu og verkefni skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, ásamt fylgiskjölum. R15060008
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Innri endurskoðandi skilaði svartri skýrslu um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) árið 2015. Starfshópur var skipaður til að leysa þessi mál. Það er með algerum ólíkindum að nú sé staðfest að enn sé 24 frávikum af 30 í starfsemi SEA ólokið. Það veldur vonbrigðum að starfshópur skili minnisblaði þremur árum eftir að honum var falið að vinna úr ábendingum innri endurskoðunar. Það er átakanlegt að niðurstaða starfshópsins sé sú að skipa aðra þrjá starfshópa til að ljúka verkinu sem enn er að langmestu leyti ólokið. Starfshóparnir eiga svo að skila af sér á næsta ári, fjórum árum eftir að niðurstaða lá fyrir. Nýleg dæmi um óstjórn, framúrkeyrslu og gallaða samninga vegna Braggans, Mathallar og fleiri þróunarverkefna sýna að ábendingar innri endurskoðunar í skýrslunni voru á rökum reistar. Nú er stefnt á að þrír starfshópar vinni úr þessum málum og skili niðurstöðu á næsta ári. Þessi stjórnsýsla er óboðleg.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Starfshópur var skipaður strax í kjölfar úttektar og hafa allar tillögur farið í vinnslu. Sumum þeirra er ólokið og því eru þessir hópar skipaðir til þess að takast á við þær tillögur sem ekki er lokið. Að tala um áfellisdóm yfir stjórnsýslu Reykjavíkur lýsir því afar illa hvernig unnið hefur verið með ábendingar innri endurskoðanda. Gert er ráð fyrir því að öllu verkefninu ljúki í mars nk.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 27. nóvember 2018, um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum, 5. mál, ásamt fylgiskjölum. R18110073
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins furða sig á því að hér sé lögð fram umsögn við þingsályktunartillögu, þar sem hvorki kemur fram hver leggur fram tillöguna á þingi, né hver óskar eftir því að borgarráð fjalli um hana. Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga gefa umsagnir við hundruð mála á ári hverju, raunveruleg mál sem skipta almenning máli. Hér er tillaga sem eingöngu er studd af einum þingflokki; Samfylkingunni, sem er í minnihluta á þinginu og umsögnin ber þess merki að umsagnaraðili hrósar sjálfum sér á 176 glærum í stað þess að takast á við húsnæðisvandann sem hann skapaði sjálfur.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg veitir umsagnir um þingsályktunartillögur og lagafrumvörp að beiðni Alþingis, líkt og í þessu tilviki, og í einstökum tilvikum að eigin frumkvæði. Í öllum tilvikum er það til að halda hagsmunum borgarinnar og stefnu borgarstjórnar til haga og hafa þannig jákvæð áhrif á afdrif þingmála og niðurstöðu. Umrædd þingsályktunartillaga er um húsnæðismál sem er eitt af lykilviðfangsefnum borgarinnar. Það gegnir furðu að athugasemd sé gerð við það að veitt sé umsögn um málið og látið í það skína að húsnæðismál séu ekki „raunveruleg viðfangsefni“. Í bókun minnihlutans er vísað til vel sótts fundar um uppbyggingu í Reykjavík sem var haldinn í Tjarnarsalnum 16. nóvember sl. Á fundinum kom fram að aldrei hafa fleiri íbúðir verið í uppbyggingu í Reykjavík og nú og aldrei hefur fleiri byggingarleyfum verið úthlutað og nú. Og glærurnar voru 160 talsins.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 26. nóvember 2018, þar sem lagt er til að auglýst verði eftir starfsemi til bráðabirgða í húsnæði að Arnarbakka 2-6 og Völvufelli 11-21, ásamt fylgiskjölum. R18110151
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú eru liðnir fimm mánuðir frá því að Reykjavíkurborg keypti húseignir að Arnarbakka 2-6 og Völvufelli 11-21 án þess að fyrir liggi hvað stendur til að gera með húsnæðið. Fimm mánuðum eftir kaupin er nú fyrst lagt til að spyrja íbúa hvað skuli gera við eignirnar undir fyrirsögninni: „Hvað viltu að verði gert við húsin?“ Sjálfstæðismenn vilja að ferlinu verði flýtt og borgin selji reitina með auknum byggingarheimildum og nýti fjármagnið til að lækka skuldir borgarinnar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgaryfirvöld keyptu Arnarbakka 2-6 og Völvufell 11-21 til þess að styrkja hverfiskjarna Breiðholts og efla sjálfbærni hverfisins þannig að íbúar í Breiðholti þurfi ekki að leita langt yfir skammt eftir sjálfsagðri þjónustu. Borgin fær eignirnar ekki afhentar fyrr en á næsta ári og þess vegna er nú verið að auglýsa eftir hugmyndum að starfsemi til þess að nýta byggingar til bráðabirgða. Á meðan er unnið að formlegum deiliskipulagsbreytingum með auknum byggingarheimildum einmitt til þess að kjarnarnir geti blómstrað áfram um ókomna tíð. Borgaryfirvöld kaupa eignirnar til þess að ná þessum markmiðum og hafa fullan hug á því að selja þær síðar meir.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. nóvember 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús að Bergþórugötu 10-12. R17090002
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar á þéttingarsvæðum. R18110150
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. nóvember 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning um Vatnagarða 28, ásamt fylgiskjölum. R17070129
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 26. nóvember 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að hefja söluferli á íbúð við Þórðarsveig 30, ásamt fylgiskjölum. R17100331
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hagsmunaskráningu embættismanna, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018 ásamt umsögn innri endurskoðunar, dags. 10. september 2018, og umsögn borgarlögmanns, dags. 5. nóvember 2018. R18080058
Samþykkt.
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Tilgangur hagsmunaskráningar er aukið gegnsæi. Nú þegar hafa verið reglur í gildi um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa frá árinu 2009. Það er því æskilegt skref að settar verði reglur um hagsmunaskráningu embættismanna. Næst þarf því að skilgreina hvaða embættismenn Reykjavíkurborgar falla þar undir, hvaða upplýsingar skuli veita og eftir atvikum birta opinberlega, hver skuli halda utan um upplýsingarnar og að öðru leyti um það hversu langt slíkar reglur eiga að ná. Við gerð slíkra reglna þarf að líta til reglna Reykjavíkurborgar um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar frá 29. október 2009 og framkvæmd þeirra. Jafnframt er unnt að líta til fyrirkomulags og útfærslu ríkisstjórnar Íslands á ákvörðun um hagsmunaskráningu fyrir aðstoðarmenn ráðherra og ráðuneytisstjóra.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gjaldfrjáls frístundaheimili, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018 ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 29. október 2018. R18070033
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að börn foreldra undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Hér er um pólitíska ákvörðun að ræða og gerir borgarfulltrúi sér grein fyrir að breyting sem þessi kalli á meiri undirbúning. Við yfirferð umsagnar skóla- og frístundasviðs vakna engu að síður spurningar. Þriggja mánaða skuldaskjól er skammgóður vermir fyrir það foreldri sem á ekki fyrir þessu gjaldi eða öðru ef því er að skipta. Ferlið til að sýna fram á greiðslugetu virkar flókið. Þetta myndi geta verið einfaldara ef skóla- og frístundasvið hefði aðgang að upplýsingum um tekjur eða framfærslu forráðamanna barnanna. Hér er verið að tala um fátæka foreldra, fólk sem e.t.v. berst í bökkum kannski vegna þess að allar þeirra tekjur fara í húsaleigu. Hver er staða þessa fólks þegar það stendur frammi fyrir að gera samkomulag við Momentum? Vanskil sem e.t.v. hafa hlaðið á sig dráttarvöxtum? Afskriftarnefnd fundar tvisvar á ári og skuldari með börn í þjónustu greiðir öll áfallandi gjöld meðan unnið er í málinu. Hvað ef hann getur ekki greitt þessi gjöld?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Endurgjaldslaus menntun barna; leikskólar, frístundaheimili og skólamáltíðir, er menntapólitík sem ekki allir flokkar í borgarstjórn hafa sömu sýn á. Í núverandi sáttmála meirihlutans er gert ráð fyrir því að halda gjaldskrám á fjölskyldur barna í lágmarki og að innleiða enn frekari afslætti fyrir barnmargar fölskyldur. Eftir því er unnið á þessu kjörtímabili.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um helmingslækkun á verði skólamáltíða, sbr. 76. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018, ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 29. október 2018. R18110147
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gjaldskrár Reykjavíkurborgar eru þegar lágar samanborið við nágrannasveitarfélög og stefnir meirihlutinn á að lækka þær enn frekar, samanber þau fyrirheit samstarfssáttmálans að barnafjölskyldur skuli mest greiða fæðisgjöld fyrir tvö börn þvert á skólastig frá árinu 2021. Unnið er í samræmi við þá áætlun.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins mun leggja fram þessa tillögu við seinni umræðu fjárhagsáætlunar á fundi borgarstjórnar 4. desember.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun meðal íbúa úthverfa, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018, ásamt umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. október 2018. R18090111
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg gerir iðulega kannanir um þjónustu og ýmsa aðra þætti er varða hagi, viðhorf og þarfir borgarbúa. Eins og segir í umsögn verkefnastjóra miðborgarmála þá er verið að framkvæma gagnlegar kannanir á miðborgartengdum málefnum og að betra sé að bíða eftir niðurstöðum fyrirhugaðra rannsókna áður en ákvörðun er tekin um gerð fleiri kannana.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við þessari tillögu er innihald hennar ekki beinlínis ávarpað heldur frekar er reifað hvað búið er að kanna og hvað stendur til að kanna og fæst af því snýr beint að tillögunni. Allt mjög áhugavert. En það sem borgarfulltrúi Flokks fólksins er að leita eftir er hversu oft og í hvaða tilgangi íbúar úthverfa heimsækja miðborgina sem ekki sækja þangað vinnu. Þetta er forvitnilegt að kanna vegna þess að vel kann að vera að fólk í úthverfum finnist þeir ekki eiga erindi í miðbæinn enda sæki þeir mest alla þjónustu innan hverfis eða í verslanamiðstöðvar eins og Smáralind og Kringluna. Forvitnilegt væri að vita einhverjar tölur í þessu sambandi.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að óháður aðili framkvæmi könnun meðal íbúa úthverfa, sbr. 73. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018, ásamt umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. október 2018. R18090111
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg gerir iðulega kannanir um þjónustu og ýmsa aðra þætti er varða hagi, viðhorf og þarfir borgarbúa. Eins og segir í umsögn verkefnastjóra miðborgarmála þá er verið að framkvæma gagnlegar kannanir á miðborgartengdum málefnum og að betra sé að bíða eftir niðurstöðum fyrirhugaðra rannsókna áður en ákvörðun er tekin um gerð fleiri kannana.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við þessari tillögu er innihald hennar ekki beinlínis ávarpað heldur frekar er reifað hvað búið er að kanna og hvað stendur til að kanna og fæst af því snýr beint að tillögunni. Allt mjög áhugavert. En það sem borgarfulltrúi Flokks fólksins er að leita eftir er hversu oft og í hvaða tilgangi íbúar úthverfa heimsækja miðborgina sem ekki sækja þangað vinnu. Þetta er forvitnilegt að kanna vegna þess að vel kann að vera að fólk í úthverfum finnist þeir ekki eiga erindi í miðbæinn enda sæki þeir mest alla þjónustu innan hverfis eða í verslanamiðstöðvar eins og Smáralind og Kringluna. Forvitnilegt væri að vita einhverjar tölur í þessu sambandi.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að vatns- og fráveitugjald miðist ekki við stærð eignar, sbr. 67. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018 ásamt umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 25. nóvember 2018. R18110143
Samþykkt að vísa tillögunni frá með vísan til umsagnar fjármálaskrifstofu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram kemur í umsögn fjármálaskrifstofu hefur Reykjavíkurborg falið Orkuveitu Reykjavíkur skyldur sínar og réttindi hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna. Það er því ekki í höndum borgarráðs að hlutast til um gjaldskrár þar sem þau mál eru á borði stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ekki er dregið í efa að stjórn fráveitna „semji“ gjaldskrá en hvort sú gjaldskrá taki gildi án staðfestingar borgarstjórnar er spurning. Ekki verður séð í lögunum að borginni sé veitt heimild til að útvista ábyrgð sinni gagnvart notendum fráveitna. Borgarstjórn ber að taka afstöðu sem ábyrgðaraðili gjaldtökunnar, þótt veitustofnun annist reksturinn skv. heimildum í lögum: Í 5. mgr. 15. gr.: „Í stað þess að miða við fasteignamat, sbr. 3. mgr., er heimilt að miða fráveitugjald við fast gjald á hverja fasteign fyrir sig, auk álags vegna annars eða hvors tveggja af eftirfarandi, en þó aldrei hærra en segir í 1. málsl. 3. mgr.: a. rúmmáls allra mannvirkja á fasteign eða b. flatarmáls allra mannvirkja á fasteign og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skv. a- og b-lið skal þó aldrei vera hærri en segir í 1. málsl. 3. mgr.“. Borgarstjórn, en ekki rekstraraðili fráveitna getur farið fram á við ráðherra, að gerð yrði breyting á b. lið 5. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, að í stað heimildar til gjalds samkvæmt mæli, kæmi heimild til gjalds samkvæmt íbúafjölda íbúðar. Einnig er hér vísað til þess sem segir í 7. mgr. sömu laga að: „Heimilt er að lækka eða fella niður gjöld samkvæmt þessum lögum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt reglum sem sveitarstjórn setur.“
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að borgarstjóri hætti að ferðast um með einkabílstjóra, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. nóvember 2018. R18070034
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er afar mikilvægt að sú manneskja sem gegnir embætti borgarstjóra á hverjum tíma geti komist hratt og örugglega milli staða enda getur dagskrá borgarstjóra á hverjum tíma verið þétt. Að auki er það mikilvægt fyrir borgarstjóra að það geti virt þær skuldbindingar sem embættið hefur tekist á hendur. Þá hefur borgarstjóri haft bílstjóra um áratugaskeið, allt frá þeim tíma þegar íbúafjöldi taldi nokkra tugi þúsunda og borgin var mun minni um sig. Eins og ítrekað hefur komið fram sinnir bílstjóri borgarstjóra einnig öðrum skyldum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill bæta hag eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna. Tillögum sem lúta að aukinni þjónustu við börn og aðstoð við hina verst settu kalla á aukin útgjöld sviðanna. Finna þarf fé í þessi verkefni og ein leiðin til að gera það er að hagræða og spara. Hin leiðin er að deila fjármagni út með öðrum hætti en gert er. Þá er átt við að meira fé fari í verkefni sem snúa beint að þjónustu við börn og að aðstoða þá sem eru verst settir og minna í „önnur“ verkefni. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leitar logandi ljósi að fé sem hann telur að verið sé að verja í óþarfa. Margt smátt gerir eitt stórt. Með því að skera niður stóra og smáa kostnaðarliði án þess að það bitni á þjónustu eða skemmi gleði og kátínu væri t.d. hægt að safna peningum til að gefa börnum foreldra sem mælast undir viðmiði velferðarsviðs borgarinnar gjaldfrjáls frístundaheimili. Hér er verið að skrapa saman fé til að rökstyðja tillögur sem lúta t.d. að bættum aðstæðum fátæks fólks. Þetta kann að vera óvinsælt og þykja mesta vesen en ef svo er verður það bara svo að vera.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að ávíta Strætó bs. vegna skorts á gagnsæi við framsetningu gagna, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018 og 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. nóvember 2018. R18110097
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Strætó bs. gerðist milligönguaðili um innheimtu húsaleigu fyrir starfsfólk sem kom tímabundið til starfa í gegnum Elju starfsmannaleiguna, sumrin 2016, 2017 og 2018. Á því tímabili innheimti Strætó bs. 10.251.669 kr. í húsaleigu og annan kostnað. Heildarþóknun Strætó bs. til Elju vegna ráðninga 47 starfsmanna á þessu tímabili nam 17.415.861 krónum án vsk. Í fyrstu framsetningum Strætó um viðskipti við starfsmannaleiguna Elju var heildarumfang viðskiptanna ekki sett skýrt fram. Sem opinbert fyrirtæki er mikilvægt að allar upplýsingar Strætó bs. um viðskiptatengsl við utanaðkomandi fyrirtæki séu settar skýrt fram og að fréttatilkynningar greini þar frá öllum mikilvægum upplýsingum. Það er gott að allar upplýsingar séu nú komnar fram en fyrir þann tíma má líta svo á að einungis hluti upplýsinganna hafi verið settur fram, t.d. með því að greina fyrst einungis frá frádrætti af launum vegna húsaleigu árið 2018, þegar slíkt átti sér einnig stað 2016 og 2017. Það er mikilvægt að skilaboð borgarinnar til fyrirtækja í eigu byggðasamlaga, séu skýr og tali gegn vinnubrögðum þar sem einungis hluti upplýsinganna er settur fram í einu. Þá er einnig mikilvægt að borgin tali gegn ákvæðum um að opinber fyrirtæki innheimti húsaleigugjöld af launum starfsfólks, fyrir hönd starfsmannaleiga.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að stofnanir og fyrirtæki í eigu borgarinnar greini satt og rétt frá. Því miður hefur verið misbrestur á því af hálfu Strætó bs. Rétt er að benda á að Reykjavík er eingöngu með einn stjórnarmann af sex í Strætó bs. og skipar meirihluti S, V, P og C sinn fulltrúa í stjórnina. Þeir flokkar sem eru í minnihluta hafa því enga aðkomu að upplýsingum utan þess sem birtist í fjölmiðlum. Það er mikilvægt að breyta þessu þannig að Reykjavík hafi að minnsta kosti 2 af 6 stjórnarmönnum, enda er Reykjavík langstærsti eigandi Strætó.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Strætó hefur skýrt skilmerkilega frá samstarfi sínu við starfsmannaþjónustuna Elju árin 2016 og 2017. Starfsfólkið sem kom í gegnum Elju var skráð sem starfsfólk Strætó og heyrir allt það starfsfólk undir hefðbundna kjarasamninga og öll þau réttindi og skyldur sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Hluti þessa starfsfólks starfar enn hjá Strætó og hefur ákveðið að setjast hér að. Þá er rétt að halda því til haga að fyrirtækið Strætó sinnir afar mikilvægri þjónustu í almenningssamgöngum alla daga, allan ársins hring.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 26. nóvember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðkomu borgarinnar að sundlaugarbyggingu á Hrafnistu, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018. R18090108
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. nóvember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um torg í biðstöðu við Kaffi Vest, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018. R18070143
Fylgigögn
-
Lagt fram svar Faxaflóahafna, dags. 20. nóvember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kostnað Faxaflóahafna vegna framkvæmda við hús Sjávarklasans, sbr. 8 lið fundargerðar borgarráðs frá 1. nóvember 2018. R18100323
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 23. nóvember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um verkefni sem falla undir kostnaðarstað 07160, atvinnuátak/sóknaráætlun, sbr. 67. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018. R18100357
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Nokkrir borgarbúar hafa farið þess á leit við borgarfulltrúa Flokks fólksins að hann legði fram eftirfarandi fyrirspurnir. Það er hér með gert. Óskað er eftir upplýsingum um sundurliðaðan heildarkostnað við jólaskreytingar Reykjavíkurborgar fyrir jólin 2017. Jafnframt er óskað eftir sundurliðun á kostnaði eftir hverfum. Meðfylgjandi er yfirlit yfir jólaskreytingar frá því í vor en á því er hins vegar enginn verðmiði. https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/svar_jolaskreytingar.pdf. R18110244
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Óskað er eftir upplýsingum um hver kostnaður var við pappírsjólakortasendingar skrifstofu borgarstjóra um síðustu jól. R18110243
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að skrifstofa borgarstjóra leggi af að senda pappírsjólakort þessi jól og fylgi þannig í fótspor annarra skrifstofa og sviða Reykjavíkurborgar og þar með skrifstofu borgarstjórnar meðtalinni. Þær hafa nú allar, eftir því sem næst er komist, komið sér upp þeirri venju að senda rafræn jólakort í tölvupósti. Með þessari tillögu er borgarfulltrúi Flokks fólksins að leita eftir hvar megi spara fé sem varið er í óþarfa svo nota megi það í önnur þarfari verkefni. R18110243
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráð samþykkir að fasteignirnar við Arnarbakka 2-6 og Völvufelli 11-21 verði deiliskipulagðar með auknum byggingarheimildum og seldar. Jafnframt er lagt til að eigandi húseignanna, Reykjavíkurborg, gæti þess að umgengni við húsnæðið sé í lagi og fylgi því eftir í samráði við lögreglu og íbúa. Þá verði söluandvirði notað til að greiða upp þau lán sem meðal annars voru tekin vegna kaupanna en Reykjavíkurborg tók lán upp á tæpan milljarð króna vegna þessa. R18110151
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarráð samþykki að skóla- og frístundasvið hafi aðgang að upplýsingum um tekjur eða framfærslu forráðamanna þeirra barna sem sækja frístundaheimili og afgreiði málefni þeirra innan sviðsins. Þetta kallar á endurskoðun á verklagsreglum og ferlinu öllu. Með þessari breytingu yrði væntanlega létt á ferlinu, það gert skilvirkara fyrir notendur þess. Þessi tillaga er lögð fram í tengslum við umsögn skóla og frístundasviðs við tillögu Flokks fólksins um að börn foreldra sem eru undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. R18110251
Vísað til meðferðar skóla- og frístundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Var heildarkostnaðaráætlun vegna endurbóta Faxaflóhafna á húseigninni Bakkaskemmu við Grandagarði 16 sett fram? Þar er verið að vísa til efri hæðar hússins og neðri hæðar hússins sem nú hýsir Granda mathöll. R18110252
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er upplýsinga um það hvort einhverju sinni sl. 10 ár hafi ummæli eða trúnaðarbrot kjörinna fulltrúa skaðað orðspor Orkuveitu Reykjavíkur, þannig að trúverðugleiki fyrirtækisins hafi verið rýrður gagnvart bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum með þeim afleiðingum að komið var í veg fyrir lánafyrirgreiðslur. R18110253
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Hvernig hyggst Reykjavíkurborg bregðast við erindi Hrafnistu um aðkomu að rekstri sundlaugarinnar? R18110254
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort eitthvert barn eða börn hafi þurft að hætta á frístundaheimili vegna þess að foreldrar hafa ekki efni á að greiða gjaldið. Vísað er í umsögn skóla- og frístundaráðs til að styðja þessa fyrirspurn en umsögnin er með tillögu Flokks fólksins um að börn foreldra sem eru undir fátæktarmörkum fái gjaldrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Það þriggja mánaða skjól sem foreldrum er boðið upp á er skammgóður vermir fyrir það foreldri sem getur ekki borgað þetta gjald eða annað s.s. gjald skólamáltíða. Ferill greiðslumats virðist auk þess flókið. R18110255
Fundi slitið klukkan 14:24
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir
Líf Magneudóttir