Borgarráð - Fundur nr. 5518

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 11. október, var haldinn 5518. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 8:05. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Egill Þór Jónsson, Valgerður Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Hallur Símonarson, Birgir Björn Sigurjónsson, Ólöf Örvarsdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 13. september og 4. október 2018.  R18010016

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 1. október 2018. R18010037

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. október 2018 R18060192

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Sorpu bs. frá 21. september og 3. október 2018. R18010024

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 24. september 2018. R18010036

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R18100022

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 18 mál. R18100021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna erindis Minjastofnunar Íslands varðandi undirbúning friðlýsingar á gamla kirkjugarðinum við Aðalstræti: 

    Flokkur fólksins fagnar því að Minjastofnun hefur ákveðið að hefja undirbúning tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra að friðlýsingu Víkurkirkjugarðs við Aðalstræti. Flokkur fólksins fordæmir aðgerðir borgarinnar að ætla að byggja þarna hótel. Mátti ekki þessi litli blettur sem er mörgum borgurum kær fá að vera í friði fyrir hótelbyggingaræðinu í Reykjavík? Sannarlega er hér um gróðravon og stundarhagsmuni að ræða en ekki síður virðingarleysi fyrir stað sem er helgur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga. Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst víða mikill skaði skeður í borginni nú þegar, en að eira ekki litlum gömlum kirkjugarði er með ólíkindum. Það að lagt hafi verið í það verk að grafa upp bein til að rýmka fyrir hóteli er ótrúlegt. Þarna voru 20 heillegar kistur með heillegum beinagrindum. Flokkur fólksins tekur undir og styður áskorun frú Vigdísar Finnbogadóttur og þriggja heiðursborgara sem mótmæla þessari framkvæmd og skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels á þessum bletti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða bréf frá Minjastofnun um fyrirhugaða friðunartillögu um Víkurgarð til mennta- og menningarmálaráðherra. Afmörkun friðunar nær því ekki til byggingarreits hótelsins enda var sýnt fram á það með umfangsmikilli fornleifarannsókn að samfelldur kirkjugarður lægi ekki inn á byggingarreit þess.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, ódags., sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. október 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 151 og 153 við Bústaðaveg. R18100198

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, ódags., sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. október 2018 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Fálkagötureit vegna lóðarinnar nr. 10 við Fálkagötu. R18040174

    Samþykkt.

    -    Kl. 8:30 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram að nýju erindi Samtaka tónlistarskólastjóra í Reykjavík, dags. 14. ágúst 2018, vegna ákvæðis um endurskoðun ársreikninga í þjónustusamningum tónlistarskóla 2017-2018 og 2018-2019, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. september 2018. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 12. september 2018 og umsögn endurskoðunarnefndar, dags. 2. október 2018. R18050102

    Synjað með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tónlistarskólarnir samþykkja ársreikninga í samræmi við lög. Það að ætlast til þess að tónlistarskólar skili endurskoðuðum og árituðum ársreikningi gerir ekkert annað en að íþyngja þeim fjárhagslega umfram það sem lög og reglur segja til um. Tónlistarskólar eru ekki lífeyrissjóðir eða fjármálastofnanir. Tónlistarskólarnir eru menntastofnanir á sviði tónlistar og hafa þannig ekki ótakmarkað fjármagn. Þá hafa þeir enn fremur lítið svigrúm til að auka tekjur sínar og gæti þessi ákvörðun leitt til þess að skólarnir neyðist til að hækka skólagjöld sem íþyngir foreldrum þeirra barna sem stunda nám við tónlistarskólana. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi: 

    Tónlistarskólar eiga eins og aðrir lögaðilar að skila endurskoðuðum ársreikningum og sérstakar kvaðir gilda um þá skóla sem reknir eru sem sjálfseignastofnanir sem á við um þá flesta. Það er eðlilegt að gera kröfur til þeirra aðila sem borgin semur við og fá rekstrarframlög úr borgarsjóði um óháða og faglega skoðun ársreikninga frá hlutlausum sérfræðingum sem hafa hlotið viðeigandi löggildingu. Reykjavíkurborg ber að hafa skilvirkt eftirlit með ráðstöfun fjármuna til að tryggja að þeir fari í það sem um er samið. Það er því réttmæt krafa að fá endurskoðaða og áritaða ársreikninga tónlistarskólanna frá löggiltum endurskoðanda.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning á fyrirhugaðri þátttöku Reykjavíkurborgar í Global Parliament of Mayors í Bristol í Bretlandi sem fer fram dagana 21.-23. október 2018. R18010150

    Fylgigögn

  12. Lagt fram að nýju erindisbréf stýrihóps um aðgerðir gegn umbúðasóun í Reykjavík, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. ágúst 2017. R17080094

    Samþykkt að Egill Þór Jónsson og Dóra Magnúsdóttir taki sæti í stýrihópnum ásamt Líf Magneudóttir sem verður áfram formaður hópsins.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra, dags. 8. október 2018:

    Lagt er til að borgarráð heimili fjármálaskrifstofu að fara í útboð á fjármálaþjónustu vegna færsluhirðingar og boðgreiðsluþjónustu til næstu 5 ára, þ.e. frá 1. janúar 2019 til 31. desember 2023, sem framkvæmt verður með formlegu innkaupaferli í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 120/2016. Í útboðsskilmálum verður gert ráð fyrir að heimilt verði að segja upp síðasta ári samningsins með sex mánaða fyrirvara og að heimilt verði að framlengja samningi tvisvar sinnum um allt að tvö ár í senn. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R18010128

    Samþykkt.

    -    Kl. 8:40 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum og Egill Þór Jónsson víkur sæti.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra, dags. 10. október 2018:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að fjárhæð 460 m.kr. að nafnvirði, á ávöxtunarkröfunni 2,52%, í skuldabréfaflokk borgarsjóðs, RVK 32 1.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R18010204

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 10. október 2018, að viðauka við fjárhagsáætlun 2018 vegna flutnings á afgangi og halla árið 2018. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R17100024

    Vísað til borgarstjórnar.

    -    Kl. 8:48 tekur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum og Valgerður Sigurðardóttir víkur sæti.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 8. október 2018, að viðauka við fjárhagsáætlun 2018 vegna endurskoðunar á útsvarstekjum. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. R17100024

    Vísað til borgarstjórnar.

    -    Kl. 8:50 tekur Óli Jón Hertervig sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  17. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. október 2018, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2108. 

    Greinargerð fylgir viðaukum 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8 og 10. R17100024

    Vísað til borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er kominn fram kostnaðarauki upp á heilar 69 milljónir króna vegna borgarstjórnar. Það var ljóst frá árinu 2011 að kostnaðarauki myndi eiga sér stað vegna fjölgunar borgarfulltrúa. Þrátt fyrir að það hafi verið fyrirséð var áætlun vanáætluð bæði varðandi framkvæmdakostnað og þennan lið sem er meðal annars vegna biðlauna. Þessi frávik eru mikil og kostnaðurinn mjög hár.

    Borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna legggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar fjárhagsáætlun var undirbúin haustið 2017 var ekki unnt að sjá fyrir með fullri vissu hver kostnaður yrði vegna fjölgunar borgarfulltrúa, hver kjör þeirra yrðu vegna ákvörðunar kjararáðs um endurskoðun á kjörum þingmanna og hver útgjaldaaukinn yrði vegna biðlauna. Þetta leiddi til þess að þegar áætlunin var kynnt var borgarráð upplýst um þessa óvissuþætti og að gera yrði viðauka við fjárhagsáætlun á þessu ári. Það er sú tillaga sem nú liggur fyrir.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 8. október 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki að nýju úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna lóðar nr. 26-32 við Silfratjörn, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018, þar sem hæstbjóðandi úr fyrri útboði hefur fallið frá tilboði sínu. R18050188

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

    Borgarráð samþykkir að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér. Enginn angi málsins skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda. Einnig er óskað eftir því að innri endurskoðun Reykjavíkur geri tillögur að umbótum í tengslum við það sem aflaga hefur farið og í bága við vandaða stjórnsýsluhætti.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Borgarráð samþykkir að fela utanaðkomandi aðila að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér þar sem að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er störfum hlaðin. Auk almennra eftirlitsstarfa er innri endurskoðun með sérstaka úttekt á Orkuveitu Reykjavíkur sem mun taka nokkra mánuði. Það geta ekki verið hagsmunir Reykjavíkurborgar eða borgarbúa að tefja rannsókn þessa máls með því að fela aðila sem er störfum hlaðinn rannsókn þessa. Við rannsókn á málinu skal enginn angi málsins undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda. Enn fremur athafnir og athafnaleysi framkvæmdastjóra borgarinnar.  R17080091

    Breytingartillagan er felld með fjórum atkvæðum tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna telja þetta mál grafalvarlegt og vilja allar upplýsingar á borðið til að geta hafist handa við úrbætur á kerfinu svo að koma megi í veg fyrir að svona endurtaki sig. Í ljósi þess leggja þeir fram þessa tillögu sem gengur enn lengra en tillagan sem var send til innri endurskoðunar úr borgarstjórn í síðustu viku. Innri endurskoðun er óháð stofnun og fær utanaðkomandi aðstoð eftir þörfum, við treystum IE til að meta þörf á því í takt við aukin verkefni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eðlilegast væri að fela utanaðkomandi aðila úttekt í þessu máli, enda er innri endurskoðun störfum hlaðin. Innri endurskoðun var falin umfangsmikil úttekt á Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum hennar. Það er mikilvægt að úttekt á braggamálinu bitni ekki á Orkuveitu úttektinni. Þá er braggamálið þess eðlis að mikilvægt er að fá niðurstöðu í úttekt þess sem fyrst og hún sé hafin yfir allan vafa. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um óháða rannsókn vegna braggans í Nauthólsvík um að óháður aðili rannsaki hvers vegna framkvæmdir við endurgerð braggans fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum var ekki samþykkt. Til grundvallar rannsókninni var lagt til að athugað yrði hverjir höfðu umsjón með verkefninu, gáfu heimildir fyrir framúrkeyrslunni, hvort verkefnið hafi verið boðið út og hvaða verktakar unnu að verkinu. Meirihlutinn hafnaði rannsókninni og samþykkti í staðinn til að fela innri endurskoðun að rannsaka málið. Þessi tillaga meirihlutans nú er fáránleg í ljósi þess hvernig málin um braggan hafa þróast undanfarin misseri. Innri endurskoðun hefur allar heimildir til rannsóknar og þessi tillaga er aumt yfirklór og eftirá skýring. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins mótmælir því að innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér. Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna „tengsla“ og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að grípa inn í byggingarferlið jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar af leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við treystum því að kjörnir fulltrúar þekki störf og hlutverk innri endurskoðunar og átti sig á því að hún er óháð og sjálfstæð í sínum störfum. Það er ábyrgðarhlutur að kjörnir fulltrúar þekki stjórnkerfi borgarinnar, hlutverk sitt og störf og valdsvið annarra í stjórnkerfinu.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 3. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um biðtíma eftir sálfræðiþjónustu í leik- og grunnskólum, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018. R18090023

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar Félagsbústaða hf., dags. 4. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lögfræðikostnað Félagsbústaða, sbr. 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18060131

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 5. september 2018, móttekið 2. október 2018, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um hvenær ákveðið var að hætta að selja auglýsingar á strætisvagna, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um heildartekjur vegna sölu auglýsinga á strætisvögnum, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um kostnað við merkingar strætisvagna, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um hversvegna ákveðið var að hætta að selja auglýsingar á strætisvagna, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um kostnað við að heilmerkja strætisvagna, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um kostnað við slagorðamerkingu strætisvagna, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018 og um hugmyndasmið að slagorðaherferð, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R18080193

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 25. september 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um starfshópa, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018, ásamt fylgiskjölum. R18070076

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar Minjaverndar, ódags., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað við endurbætur á steinbæ við Holtsgötu, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018. R18090091

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mörk útivistarsvæðisins vestan megin við Vesturbæjarlaug, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. maí 2018. R18050272

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

     

    Óskað er eftir upplýsingum frá innkaupadeild og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um innkaupaferli á borðum í borgarstjórnarsalinn samkvæmt framlögðu yfirliti yfir viðskipti innkaupadeildar í september 2018.  R14010250

  27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Óskað er eftir sundurliðuðu yfirliti yfir einskiptiskostnað og annan þann kostnaðarauka sem orðið hefur, og sem áætlaður er árlega, fyrir borgarsjóð vegna fjölgunar borgarfulltrúa úr 15 í 23, þ.m.t. vegna launakostnaðar, framkvæmda á borgarstjórnarsal og skrifstofurými borgarfulltrúa, ásamt öllum öðrum tilfallandi kostnaði. R14010250

  28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Óskað er upplýsinga um aðkeypta ráðgjöf og ráðgjafavinnu fyrir borgina, frá árinu 2014 til dagsins í dag. Óskað er eftir svörum við því hvaða fyrirtæki önnuðustu ráðgjöfina og kostnað við hana. R18100246

  29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er sundurliðaðra upplýsinga um laun forstjóra fyrirtækja Reykjavíkurborgar frá 1. janúar 2012 til dagsins í dag. Heildarlaun, hlunnindi og aðrar launagreiðslur sem tengjast starfi þeirra. R18100247

  30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir að öllum fyrirspurnum vegna braggans í Nauthólsvík verði svarað sem allra fyrst enda mikilvægt í ljósi rannsóknar á málinu. Ekki er ásættanlegt að þeim verði ekki svarað fyrr en álit innri endurskoðanda liggur fyrir eins og tilkynnt var um í borgarráði 4. október sl. R17080091

  31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    a) Hver var áætlaður kostnaður við kaup og framkvæmdir á Aðalstræti 10? b) Hver verður endanlegur kostnaður á fermetra á Aðalstræti 10 sem Reykjavíkurborg keypti og færði til upprunalegs horfs? R17070029

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð fól skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg að ganga til samninga við félagið Perlu norðursins um leigu á Perlunni vegna náttúrusýningar árið 2016. Með hliðsjón af því er spurt: 1. Hvaða framkvæmdir var farið í á Perlunni (Varmahlíð 1) vegna náttúrusýningarinnar og hver var sundurliðaður kostnaður Reykjavíkurborgar við framkvæmdirnar? 2. Hverjar eru árlegar tekjur borgarinnar af Perlunni? 3. Hvert var endurgjaldið fyrir afnot af fasteigninni Perlunni til 2038 að frátöldum leigutekjum við Perluna? 4. Er stjórnvöldum líkt og Reykjavíkurborg heimilt að framleigja eignir án útboðs en komið hefur fram að leigusamningurinn sé gerður til 2038? R16030148

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Í fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kom fram að heildarkostnaður við Mathöllina við Hlemm væri um þrefalt hærri en upphaflega var gert ráð fyrir en frumkostnaðaráætlun hljóðaði upp á 107 milljónir króna. Heildarkostnaður við Mathöllina endaði hins vegar í 308 milljónum króna. Með hliðsjón af því er spurt: 1. Hverjar eru árlegar tekjur Reykjavíkurborgar af Mathöllinni? 2. Hvað innheimtir Reykjavíkurborg háa leigu fyrir Mathöllina hvern mánuð? 3. Hvað fær Reykjavíkurborg í sinn hlut af mismun framleigu til þriðja aðila, þ.e.a.s. ávinning af hærra endurleiguverði? R17070118

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð samþykkti í september á síðasta ári að heimila skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að kaupa fasteignina við Grensásveg 12. Kaupverð eignanna var skv. áætlun 785 milljónir króna sem var liður í aukningu á félagslegu húsnæði, en til stóð að útbúa 24 íbúðir í húsinu. Tveimur mánuðum síðar setti vinnueftirlitið bann við vinnu á byggingarvinnustað við Grensásveg 12, en við eftirlitsheimsókn kom í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfs¬manna var síður en svo í samræmi við lög og reglur. Nú síðast var greint frá því að asbest hafi verið fjarlægt úr húsinu, án þess að sótt hefði verið um tilskilin leyfi og viðeigandi hlífðarbúnaður væri til staðar. Í fréttum af málinu var sagt frá því að lífi og heilbrigði starfsmanna væri hætta búin af asbestmengun. Til stóð að af¬henda borginni íbúðirnar 1. apríl 2018. Í ljósi ofangreinds er spurt: 1. Eru þessi kaup í samræmi við 5. gr. innkaupastefnu Reykjavíkurborgar? 2. Hver er staða framkvæmda? 3. Hvenær má gera ráð fyrir að húsnæðið verði tekið til notkunar? 4. Hvað hefur valdið töfum á verkinu? 5. Hvernig er viðbragði Reykjavíkurborgar háttað þegar á starfsfólki er ítrekað brotið eins og hér um ræðir?  R17090010

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

     

    Vísað er til minnisblaðs skrifstofu borgarstjóra og borgarritara um stöður og stöðuheiti í stjórnsýslu borgarinnar, dags. 13. sept. Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum og sundurliðun á starfslýsingu hvers stöðugildis sem tilgreint er í minnisblaði þessu. R18070142

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver sótti um verkefnið torg í biðstöðu fyrir utan Kaffi Vest? Hverjir ákváðu hvaða verkefni í torg í biðstöðu yrðu fyrir valinu? Hverjir sóttu um fyrir hönd verkefnisins torg í biðstöðu í þeim verkefnum sem voru valin til úthlutunar? R18070143

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver var ferðakostnaðurinn við verkefnið braggi/Nauthólsvegur 100? Beðið er um sundurliðað svar. Hvert var farið? Hverjir fóru? Hvert var erindi ferðarinnar? Hversu há upphæð var greidd í dagpeninga? R17080091

    -    Kl. 10:00 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 10:08

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir