Borgarráð - Fundur nr. 5516

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 20. september, var haldinn 5516. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Valgerður Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir, Ebba Schram og Bjarni Þóroddsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 13. september 2018. R18010033

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 13. september 2018. R18010016

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

    Ískyggilegt er að fara yfir yfirlit skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar varðandi innkaup í Reykjavíkurborg yfir 1 m.kr. á 2. ársfjórðungi 2018. Athygli vekja m.a. kaup af Verkís hf. vegna Varmahlíðar, Perlunni upp á u.þ.b. 27 milljónir kr. Þá eru innkaup af fjölda verkfræðistofa, m.a. upp á 5 milljónir án útboðs keypt af Mannvit vegna breytinga á umferðarmiðstöðinni. Enn fremur kemur í ljós að kostnaður við þróunarverkefni eins og VSÓ – vegna ráðgjafar upp á 23 milljónir kr. og fjölmargt fleira. Enn fremur kemur í ljós að Yrki arkitektar fá greiðslu vegna sölu byggingarréttar upp á 18 milljónir kr. og Arkís arkitektar vegna sölu byggingarréttar upp á 12 milljónir. Um er að ræða fjölmarga aðra kostnaðarliði sem verða ekki taldir upp hér. Hins vegar á allur þessi kostnaður sammerkt að vera óútskýrður. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í innkaupráði gerði alvarlegar athugasemdir við þennan kostnað enda er hann allur án útboðs. Jafnframt telur hann rétt að fenginn verði aðili frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar á næsta fund ráðsins til að útskýra ýmis innkaup borgarinnar sem listuð eru upp í þessu yfirliti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

    Daglegur rekstur Reykjavíkurborgar felur í sér innkaup af ýmsu tagi, einkum nú þegar borgin er að stækka sem aldrei fyrr. Sjálfsagt er að fulltrúi á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar geri grein fyrir kostnaði vegna alls þess fjölda verkefna sem skrifstofan sinnir hverju sinni með tilheyrandi kostnaði. Um leið vekur furðu að Sjálfstæðismenn kjósi að gera útgjöldin tortryggileg.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 10. september 2018. R18010037

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 11. september 2018. R18010027

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 19. september 2018. R18060192
    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar: 

    Úlfarsfellið er orðin ein helsta útivistarperla Reykvíkinga og fjöldi manns gengur á Úlfarsfell dag hvern. Þá er Ferðafélag Íslands með skipulagðar göngur á Úlfarsfell vikulega. Það er ljóst að með þéttingu byggðar í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási þá verður ekki prýði, hvorki fyrir þá sem stunda útivist á Úlfarsfelli eða þá er búa á svæðinu, af 50 metra háu fjarskiptamastri á toppi Úlfarsfells. Sjónræn áhrif verða því alltaf mikil af mastrinu. Fullt samráð þarf að vera við íbúa svæðisins og Ferðafélag Íslands þegar farið er í jafn viðamiklar framkvæmdir og fyrirhugaðar eru á Úlfarsfelli. Skv. upplýsingum frá Ferðafélaginu og íbúasamtökunum hefur þetta samráð ekki átt sér stað og því leggjast fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði gegn málinu.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar: 

    Miðflokkurinn leggst alfarið gegn fyrirhuguðum framkvæmdum á einum vinsælasta útsýnisstað borgarinnar. Eftirtekt vekur hversu hart Reykjavíkurborg hefur gengið fram í þessu máli þvert gegn vilja íbúa Úlfarsárdals, Grafarholts og íbúa borgarinnar. Það má sjá á þeim óleyfisframkvæmdum sem þegar hefur verið ráðist í og standa nú á Úlfarsfelli. Nú eiga téðar óleyfisframkvæmdir að vera notaðar sem helstu rökin fyrir frekari framkvæmdum. Samkvæmt upplýsingum er helsti ávinningur af framkvæmdum tengdur fm útvarpssendum. Á sama tíma eru fm rásir á undanhaldi víðast hvar í Evrópu. Málsrök bera með sér að slá skuli ryki í augu almennings með fyrirheitum um útsýnipalla og náttúruleg byggingarefni. Það er ekkert náttúrulegt við 50 metra hátt stálmastur sem hlaðið verður tækjabúnaði sem sendir frá sér slíka geislun að búnaðurinn var tekinn niður í Kópavogi vegna ógnar við heilsu íbúa. Að ætla sér að færa vandann yfir á íbúa Reykjavíkur er ekki lausn, það er ósvífni. Fyrir liggur að hér er um að ræða hagsmuni einkafyritækis, ekki íbúa. Afstaða Miðflokksins er skýr. Gæta skal hagsmuna íbúa og er það tillaga Miðflokksins að þessari aðför ljúki hér og vilji íbúa verði virtur og að núverandi óleyfisbúnaður verði fjarlægður án tafar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar: 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lýsa yfir ánægju með útfærslu útsýnispalls í tengslum við nýtt mastur á Úlfarsfelli. Fyrirhugað mannvirki mun stórbæta þá almannaþjónustu sem útvarpssendingar eru og auk þess mun verða til fyrsti og eini útsýnisstaðurinn í borginni sem verður aðgengilegur öllum. Mastrið sem um ræðir er hátt og mikið mannvirki og mun sjást víða að, mikilvægt er að útlit og val á byggingarefnum taki tillit til þess. Lagt er til að haldinn verði opinn íbúa- og hagsmunaðilafundur á auglýsingatíma.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 12. september 2018. R18010024

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Hér er verið að taka lán upp á einn og hálfan milljarð íslenskra króna þar sem vextir eru ekki tilgreindir. Eina aðkoma Reykjavíkurborgar er í gegnum einn stjórnarmann frá Reykjavíkurborg, Líf Magneudóttur. Reykjavíkurborg er fjölskipað stjórnvald og því er óeðlilegt að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa meirihluta atkvæða á bak við sig skuli ekki hafa neinn fulltrúa í stjórn Sorpu bs. Rétt er að benda á að Reykjavíkurborg ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum Sorpu í gegnum eignarhald sitt. Skuldir Sorpu munu meira en tvöfaldast við þessa lántöku.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

    Jarð- og gasgerðarstöð er hluti af loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar sem fulltrúar allra flokka samþykktu í borgarstjórn. Sorpa hefur safnað verulega í sjóði vegna undirbúnings og framkvæmda við jarð- og gasgerðarstöð en þarf um leið að taka lán fyrir framkvæmdinni líkt og með allar stórar framkvæmdir á vegum einkaaðila og opinberra aðila hér á landi.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 30. ágúst 2018. R18010028

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gera athugasemd vegna kynningar á skýrslu Mannvits um eflingu almenningssamgangna en í kynningunni kemur fram að verkefnið hafi skilað árangri og flestir þeir mælikvarðar sem þar eru notaðir sýni jákvæðar niðurstöður. Lykilmælikvarði skv. samningi við ríkið 2012 er að hlutfall almenningssamgangna fari úr 4% í 8% en enginn árangur hefur náðst í þessum efnum og er hlutfallið ennþá 4%, þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Þá er ítrekað að Reykjavíkurborg er fjölskipað stjórnvald og því er óeðlilegt að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa meirihluta atkvæða á bak við sig skuli ekki hafa neinn fulltrúa í stjórn Strætó.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

    Í skýrslu Mannvits um tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að flestir þeir mælikvarðar sem þar eru notaðir sýni jákvæðar niðurstöður og verkefnið því skilað árangri. Enn hefur þó ekki tekist að ná viðunandi árangri í hlutfalli ferða með almenningsvögnum af heildarfjölda ferða á höfuðborgarsvæðinu og er það mat Strætó og Mannvits að til að bregðast við því þurfi að fjölga sérakreinum og forgangsljósum fyrir Strætó, ásamt því að auka tíðni ferða (e. ridership) á fleiri leiðum. Markvissara samráð á milli einstaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélaganna og Strætó þarf að eiga sér stað til að hægt verði að ná árangri.

    -    Kl. 9:16 tekur Hallur Símonarson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R18090011

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi Miðflokks gera m.a. athugasemd við að yfirlit yfir viðskipti við innkaupadeild í ágúst 2018 skuli vera falið inn í embættisafgreiðslum. Hér er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða án útboðs og því mikilvægt að listinn sé birtur opinberlega. Þarna eru tilvik sem eru óútskýrð og hljóðar upp á 277 milljónir kr.

  9. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R18090141

    Fylgigögn

  10. Lagt fram erindi eigenda Akrasels 8, dags. 7. maí 2018, þar sem óskað er eftir ákvörðun borgarráðs varðandi álagningu gatnagerðargjalds í samræmi við ákvæði samþykktar Reykjavíkurborgar um gatnagerðargjöld. Einnig eru lagðar fram umsagnir umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. apríl 2018 og ódags. R18060201
    Afgreiðsla umhverfis- og skipulagssviðs um endurskoðun álagningu gatnagerðargjalda staðfest. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. september 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. september 2018 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar markmið um göngugötur í miðborginni, ásamt fylgiskjölum. R11060102
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. september 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. september 2018 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna breytingar á landnotkun atvinnusvæðis að Gufunesi, ásamt fylgiskjölum. R11060102
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. september 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. september 2018 á tillögu að deiliskipulagi fyrir 1. áfanga í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum. R18050130
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. september 2018, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. september 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis vegna lóða nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg. R16060108
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þetta mál hefur tafist í óheyrilega langan tíma, m.a. vegna mistaka borgarinnar. Þetta er dæmi um óskilvirkni og hægvirkari stjórnsýslu sem á endanum skilar sér í hærri kostnaði og hærra húsnæðisverði.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fullyrðingar um hærra húsnæðisverð á viðkomandi uppbyggingu eru ótímabærar. Mikilvægt er að tryggja fagmennsku í hvívetna og ástæða er til að yfirfara almennt skipulagsferla og þjónustu við borgarbúa líkt og meirihlutinn stefnir að því að gera á kjörtímabilinu.

    Líf Magneudóttir víkur af fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  15. Lagður fram að nýju dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-3132/2017 gegn Reykjavíkurborg. Einnig er lögð fram greinargerð Vigdísar Hauksdóttur dags. 20. september 2018, og bréf JS lögmannsstofu, dags. 31. ágúst 2018. R17100046

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í ljósi nýrra upplýsinga staðfestist að eineltisrannsókn hefur staðið yfir hjá Reykjavík vegna fjármálastjóra Ráðhússins. Æðstu embættismenn borgarinnar hafa þrætt ítrekað fyrir að stjórnsýslumál þetta stæði yfir. Á fundi borgarstjórnar hinn 4. september sl. lét borgarstjóri ítrekað hafa eftir sér þau ummæli  „að engin eineltisrannsókn væri í gangi“ og jafnframt „að málið væri ekki lengur á dagskrá“. Þessi ummæli borgarstjóra eru því alröng en nú er upplýst að eineltisrannsókninni sé nú lokið. Máli getur aldrei lokið nema að það hafi hafist. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur þurft að sitja undir ásökunum og svívirðingum á opinberum vettvangi um að hafa brotið starfsskyldur og trúnað fyrir það eitt að rækja eftirlitsskyldu sína skv. samþykktum borgarinnar. Það gefur tilefni til íhugunar hvaða úrræði kjörinn fulltrúi hafi, sýni borgarritari og skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra ekki sóma sinn í því að axla ábyrgð og biðjast afsökunar á framkomu sinni. Sömu kröfu er jafnframt beint að borgarstjóra. Dómsmálið og eftirmál þess er mikill álitshnekkir fyrir æðstu stjórnendur Ráðhússins og hefur það valdið fjárhagslegu tjóni fyrir borgina. Þá hefur málið valdið þolandanum og fjölskyldu hans ómældum skaða. Jafnframt ættu æðstu stjórnendur Reykjavíkurborgar, sem komið hafa að máli fjármálastjórans, að sýna þann manndóm að virða dóm héraðsdóms og biðja hann afsökunar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólks leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Á fundi borgarráðs 13. september lét áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bóka undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um dómsmál E-3132-2017 gegn Reykjavíkurborg að sér fyndist „stjórnsýsla borgarinnar vera komin á hálan ís að ætla að ákveða að einhver sé aðili í máli án þess að hann hafi tilkynnt um einelti og það að fara ítrekað fram á þátttöku hans í „rannsókn“ mætti jafnvel  túlka sem áreitni“. Í bókuninni segir enn fremur að áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins „finnist vísbending vera um meðvirkni af hálfu stjórnsýslunnar með hinum meinta geranda þar sem allt kapp virtist lagt á að verða við kröfu hennar um einhvers konar vinnslu þrátt fyrir að meintur þolandi hafi margsinnis hafnað því að vilja koma nálægt nokkru slíku enda lauk málinu, að hans mati, með fullnægjandi hætti í dómsalnum með umræddum dómi.“ Daginn eftir bárust oddvitum minnihlutans upplýsingar frá kjarafélaginu um að fjármálastjóra Ráðhúss hafi borist svar þar sem því er lýst yfir af settum mannauðsstjóra, að „eineltisrannsókn sú sem skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara óskaði eftir í apríl sl. og borgarritari varð við, henni sé nú lokið enda séu ekki til staðar forsendur til að fram fari rannsókn á meintu einelti”. Þessari niðurstöðu stjórnsýslunnar vill áheyrnarfulltrúinn fagna.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg tapaði dómsmáli E-3132/2017 með afgerandi hætti. Málið varðar starfshætti á skrifstofu borgarstjóra. Enn hefur borgin ekki brugðist við með viðeigandi hætti gagnvart þeim starfsmanni á skrifstofu borgarstjóra sem brotið var á. Þetta tómlæti á sjálfri skrifstofu borgarstjóra er óviðunandi og sendir afar neikvæð skilaboð til starfsmanna borgarinnar og dótturfélaga hennar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Einstaka starfsmannamál eru ekki á hendi borgarráðs en dómurinn sem er vissulega á borði ráðsins snérist um að ekki væri um eineltismál að ræða, heldur áminningu í starfi. Ekkert annað.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. september 2018, þar sem tilkynnt er um ferð formanns borgarráðs á Vestnorden kaupstefnuna 2018 sem fer fram á Akureyri 3. október nk. R18090162

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 13. september 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. september 2018 á tillögu varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila, ásamt fylgiskjölum. R15050003
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði fagna þessum samningi en um leið er minnt á að fyrir borgarstjórn liggur tillaga Sjálfstæðisflokks um jöfn fjárframlög úr borgarsjóði með börnum í grunnskólum og frístundaheimilum, óháð rekstrarformi skólanna sem lögð var fram í þeirri viðleitni að jafna aðstöðumun. 

    Helgi Grímsson og Soffía Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram erindi Samtaka tónlistarskólastjóra í Reykjavík, dags. 14. ágúst 2018, vegna ákvæðis um endurskoðun ársreikninga í þjónustusamningum tónlistarskóla 2017-2018 og 2018-2019. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 12. september 2018. R18050102
    Vísað til umsagnar endurskoðunarnefndar.

    Helgi Grímsson og Soffía Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  19. Lagt er til að Pawel Bartoszek, Arna Schram og Óli Jón Hertervig taki sæti í hússtjórn Borgarleikhússins. R18090149
    Samþykkt. 

    Eyþór Laxdal Arnalds víkur af fundi við afgreiðslu málsins. 

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. september 2018, ásamt drögum að samstarfssamningi:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg styðji við Matarhátíð Reykjavíkur og að gerður verði sérstakur samstarfssamningur við hátíðina til þriggja ára. Lagt er til að stuðningur við hátíðina verði 2.000.000 kr., fært af kostnaðarstaðnum ófyrirséð 09205 yfir á kostnaðarstaðinn 03113, styrkir/samstarfssamningar, vegna hátíðarinnar árið 2018. Þá er lagt til að fjárhæðin verði 3.000.000 kr. árið 2019 sem og árið 2020 og skal þeim kostnaði bætt við ramma menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Markmið samstarfsins er að auka enn við hátíðarflóru borgarinnar en engin önnur sambærileg hátíð er nú haldin í borginni. Markmiðið er jafnframt að hlúa að grasrót og sjálfsprottnum viðburðum og gefa bændum og matvælaframleiðendum möguleika á að kynna vörur sínar og styrkja þannig bönd milli landsbyggðar og borgar. Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar er falið að halda utan um samstarf Reykjavíkurborgar við hátíðina.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R18040180
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Matur er mannsins megin og það er fagnaðarefni að Reykjavíkurborg fái sína eigin alhliða matarhátíð sem fellur vel að matarstefnu borgarinnar sem var samþykkt í vor. Það er mikilvægt að efla beina tengingu milli framleiðenda og neytenda og stuðla að gagnkvæmum skilningi, auka umhyggju fyrir náttúrunni og vekja fólk til umhugsunar um hvernig við göngum um hana og komum fram við dýr. Það er því gott skref að breikka hátíðina sem áður hét Reykjavik Bacon Festival og setja fókus á allt matarkyns og fjölbreytta matarmenningu undir merkjum Matarhátíðar Reykjavíkur. Það felur í sér að lyfta einnig upp veganisma og grænmetisframleiðslu, ekki síður en annarri matvælaframleiðslu.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 3. september 2018, þar sem drög að erindisbréfi fyrir stýrihóp um endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar í erlendum samskiptum er lögð fram til samþykktar, ásamt fylgiskjölum. R18090019
    Samþykkt að Dóra Björt Guðjónsdóttir, Skúli Helgason og Eyþór Laxdal Arnalds taki sæti í hópnum.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. september 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki að tilnefna fulltrúa í stýrihóp og í samráðsvettvang um mótun menntastefnu samkvæmt framlögðum drögum að erindisbréfi. R17010123
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. september 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna bragga að Nauthólsvegi 100 og fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um yfirlit yfir framkvæmdir við braggann í Nauthólsvík, sbr. 5. og 36 lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018. R17080091

    Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólks leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Braggaverkefnið óx stjórnlaust, frá 155 milljónum sem var áætlun í 404 milljónir. Þetta er óásættanlegt. Hér hafa verð gerð stór mistök og eins og þetta lítur út núna mun þetta koma verulega við pyngju borgarbúa á meðan enn er húsnæðisvandi og biðlistar í flesta þjónustu s.s. heimaþjónustu aldraðra og sálfræðiþjónustu barna. Rétt er að nefna að um 200 manns með heilabilun hafa ekki hjúkrunarrými. Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins hafa fundið það á fjölmörgum að mikil óánægja er með þessa framkvæmd, mörgum finnst þetta ekki vera  í neinu samhengi við dapran raunveruleika sem margir búa við hér í Reykjavík. Fjölmargt í þessu ferli ber keim af fljótræði og vanhugsun auk þess sem borgin tók ákvörðun um að opna krana án þess að blikna. Bara rétt til að almenningur átti sig á því bruðli sem hér átti sér stað kostaði náðhúsið eitt kr. 46 milljónir.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Endurgerð braggans í Nauthólsvík er orðin að sannkölluðum braggablús. Upphaflega var ákveðið að varðveita braggann með tilheyrandi kostnaði sem fór langt fram úr áætlun. Nú er komið í ljós að ekki er um raunverulega varðveislu að ræða heldur er verið að byggja nýja bragga þar sem fátt er upprunalegt í honum annað en tveir húsgaflar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð þakkar fyrir góða yfirferð yfir kostnað við bragga við Nauthólsvík og tengd hús og harmar að verkefnið hafi reynst mun dýrara en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Yfirferðin dregur fram þá miklu áhættu sem felst í því verklagi að hanna verk samhliða framkvæmd þess en það hefur stundum verið talið óumflýjanlegt þegar um varðveisluhús eða minjar er að ræða. Það hlýtur að vera áleitin spurning hvort ekki sé eðlilegt að húsafriðunarstyrkir frá ríkinu fylgi með ráðgjöf Minjastofnunar í þeim tilvikum þegar ljóst er að leiðbeiningar stofunarinnar eða umsagnir leiði til mjög aukins kostnaðar í verkefninu. Óskar borgarráð eftir tillögum frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um nýja og sérstaka verkferla þegar um  endurgerð friðaðra húsa eða verndaðra minja er að ræða sem framkvæmd er með aðkomu borgarinnar. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hörmuð eru þau sjónarmið sem koma fram í bókun meirihlutans. Í henni er verið að fría sig allri pólitískri ábyrgð og bent á aðra. Það eru óásættanleg en gamalkunnug vinnubrögð.

    Ólafur I. Halldórsson og Margrét Leifsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. september 2018:

    Lagt er til að borgarsjóður veiti sérstök hlutafjárframlög til uppbyggingar félagslegra leiguíbúða sem nemi 4% af stofnverði þeirra, sem komi til viðbótar 12% stofnframlagi borgarsjóðs og 22% (18%+6%) framlagi ríkisins í gegnum Íbúðalánasjóð. Þá er lagt til að við þær aðstæður að Íbúðalánasjóður samþykki umsókn um stofnframlög en lækki reiknað stofnverð, t.d. ef íbúð fer yfir stærðarmörk og verð m.v. reglugerð, komi sérstakt viðbótarhlutafjárframlag allt að 4% af stofnverði. Í þessum tilvikum geti sérstaka hlutafjárframlagið náð allt að 8%. Jafnframt er lagt til að borgarsjóður auki hlutafé Félagsbústaða um 12% við kaup á íbúðum sem eru ætlaðar til útleigu sem félagslegar leiguíbúðir en uppfylla ekki kröfur laga um almennar íbúðir og fá ekki stofnframlög. Þá er lagt til að ákvæði Reykjavíkurborgar um félagslega blöndun og staðsetningu íbúða verði rýmkuð tímabundið til að Félagsbústaðir geti hraðar leyst úr brýnasta vanda þeirra sem rétt eiga á félagslegu leiguhúsnæði. Hér gæti t.d. verið um að ræða tímabundna heimild fyrir Félagsbústaði til að eiga allt að 100% íbúða í minni fjölbýlishúsum. Að lokum er lagt til að reyndir verði til þrautar möguleikar á því að fá ráðherra til að tryggja að fjármagnstekjuskattur verði afnuminn af lánum sem borgarsjóður veitir Félagsbústöðum vegna uppbyggingar félagsins á félagslegum leiguíbúðum. Tilgangurinn væri að lækka fjármagnskostnað Félagsbústaða og bæta aðgengi að hagkvæmu fjármagni vegna uppbyggingar á félagslegu leiguhúsnæði. Nýta mætti þessa aðgerð til að endurfjármagna óhagstæð eldri lán.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R18020215
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að húsnæðiskostnaður leigjenda Félagsbústaða sé í lágmarki, en leiguverð hefur snarhækkað í borginni á síðustu árum. Tillagan er opin og og háð mikilli óvissu um heildarútgjöld borgarinnar og er því rétt að sitja hjá við afgreiðsluna. Hér er gert ráð fyrir að verja allt að eitt þúsund milljónum íslenskra króna af borgarfé til að vega upp á upp á móti heimatilbúnum verðhækkunum. Markaðsbrestur á íbúðamarkaði eins og segir í greinargerð með tillögunni en „ástæða þess hve illa hefur gengið eru nokkrar en fyrst og fremst er skortur á íbúðum í Reykjavík sem uppfylli ákvæði laga um almennar íbúðir hvað varðar stofnverð, þ.e. stofnverð er yfir þeim mörkum sem áskilin eru í reglugerð um stofnframlög.“ Húsnæðisverðið er of dýrt í Reykjavík. Það hefur snarhækkað á vakt núverandi meirihluta. Þess vegna hefur áætlunin ekki staðist og þess vegna er þörf á viðbótarfé.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. september 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð heimili að ráðstafað verði allt að 450 m.kr. vegna kaupa á smáhýsum. R18080115
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Svo Reykjavíkurborg geti mætt öllum íbúum með húsnæði við hæfi þarf að fjölga smáhýsum sem úthlutað er fyrir fólk sem á við margháttaðan félags- og heilbrigðisvanda að stríða, er félagslega einangrað og á oft að baki fangelsisvistir, sjúkrahúsdvalir og aðra félagslega erfiðleika. „Húsnæði fyrst“ er leið sem nýst hefur vel og því er mikilvægt að fjölga smáhýsum og veita þannig félagslegan stuðning.

    Fylgigögn

  26. Fram fer umræða um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar. R18090147

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólks leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Á heimasíðu OR eru engar upplýsingar um forvarnaráætlun hjá fyrirtækinu né er að finna viðbragðsáætlun eða upplýsingar um úrvinnsluferli eineltis- og ofbeldismála eða hvernig skuli fara með kvörtun um kynferðisáreitni. Allir vinnustaðir ættu að hafa viðbragðsáætlun og slík áætlun ætti að vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækis sem og tilkynningareyðublað. Þau fyrirtæki sem hafa þessi mál í góðu lagi eru einnig með á heimasíðum skilgreiningar á hegðun og framkomu og þar með hvaða hegðun er ekki liðin í fyrirtækinu. Ábyrgð stjórnenda er mikil. Starfsmenn eiga allt undir yfirmanni bæði þegar kemur að forvörnum og réttum viðbrögðum. Áheyrnarfulltrúinn fagnar röskleg inngripi stjórnar inn í þetta mál og að nú sé að hefjast óháð úttekt innri endurskoðanda á vinnustaðarmenningu sem og að forstjóri hafi vikið tímabundið. Vanda þarf vel við val á öðrum fagaðilum sem kunna að vera fengnir til verksins og að það sé tryggt að þeir aðilar fylgi persónuverndarlögum og að meintur brotaþoli (-þolar) hafi aðgang að ferli máls síns og er upplýstur um hvert skref vinnslunnar. Áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins hefði viljað sjá að gengið hefði verið jafn rösklega fram í viðbrögðum við því ástandi sem ríkt hefur í Ráðhúsinu undanfarin misseri og lesa má um í dómi E-3132/2017.

    Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, og Sigríður Rut Júlíusdóttir stjórnarmaður taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  27. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. september 2018, varðandi niðurstöður úr fyrsta fasa í alþjóðlegri samkeppni Reinventing Cities. R17020198
    Frestað.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. september 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki samstarfssamning við Kjósárhrepp um lagningu ljósleiðararöra frá Kiðafelli í Kjós til Grundarhverfis á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R17090130
    Frestað.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. september 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um íbúðir í eigu borgarinnar, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018. R18090112

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar borgarritara, dags. 10. september 2018, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sbr. 44. og 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R18080192

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi borgarráðs hinn 13. september sl. barst svar við fyrirspurn frá borgarfulltrúa Miðflokksins vegna ráðningar skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og hvers vegna hann væri ekki kominn til starfa. Þegar svarið var lesið var það mjög loðið og svaraði ekki spurningunni. Því var borgarritara gefinn kostur á að endurskrifa svarið en sama svar kom á ný. Því verður að leggja spurninguna fram aftur og er hún svohljóðandi: Með hvaða hætti urðu starfslok skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar? Óskað er eftir að öll skrifleg gögn sem varaða málið fylgi svarinu til staðfestingar.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. september 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna breytinga á vinnuaðstöðu borgarfulltrúa að Tjarnargötu 12, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018. R14010250

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að heildarkostnaður við fjölgun borgarfulltrúa vegna breytinga á aðstöðu er kominn yfir hundrað milljónir íslenskra króna.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samskipti óhagnaðardrifinna leigufélaga og borgarstjóra og formanns borgarráðs, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R18080156

    Fylgigögn

  33. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um verkbókhald á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, sbr. 64. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. Einnig er lagt fram minnisblað fjármálastjóra og mannauðsstjóra um tilraunaverkefni um verkbókhald, dags. 18 september 2018. R18080137
    Frestað.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjónustu mötuneyta, sbr. 26. lið fundagerðar borgarráðs frá 13. september 2018. R18090110
    Frestað.

    Fylgigögn

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Borgarfulltrúi vill  spyrja um kostnað við ferðir erlendis og er hér ekki verið að vísa í hótel- og flugkostnað heldur annan kostað sem veittir eru dagpeningar í og ætlaðir fyrir fæði og annan kostnað sem lítur að uppihaldi á ferðum erlendis. Í mörgum ferðum er boðið upp á fæði að hluta til og jafnvel öllu leyti en engu að síður er fólk að fá fulla dagpeninga. Dagpeningakerfið er dýrt kerfi og barn síns tíma að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Mörg fyrirtæki eru komin með svokölluð viðskiptakort sem á er ákveðið eðlilegt hámark. Í þessu er mikil hagræðing,  gagnsæi og á sama tíma er tryggt að sá sem ferðast þarf ekki að leggja út kostnað fyrir nauðsynjahlutum á ferðalaginu hvort heldur sem það er matur eða ferðir innan borgar/staðar t.d. til og frá ráðstefnu/námskeiði. Spurt er hver var dagpeningakostnaður (ekki hótel- eða flugkostnaður) árið 2016 og 2017 hjá borgarfulltrúum og starfsmönnum skrifstofu borgarstjóra og borgarstjórnar? Einnig er óskað upplýsinga um dagpeninga á ferðum innanlands fyrir sama hóp að frátöldum hótel- og flugkostnaði. R18090187

  36. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki auknar fjárheimildir til skrifstofu borgarstjórnar  eða fundnar séu aðrar hagræðingarleiðir til þess að skrifstofa borgarstjórnar geti haldið opinbera skrá yfir tillögur, fyrirspurnir og bókanir flokkanna og birt skrána á heimasíðu borgarfulltrúa á vef Reykjavíkurborgar. Samkvæmt minnisblaði skrifstofustjóra borgarstjórnar sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar var gerð lausleg þarfgreining á þessu auka verkefni sem borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að sinnti. Segir í minnisblaði skrifstofustjóra sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar eftirfarandi: „Við upphaflega þarfagreiningu voru teknar saman allar fyrirspurnir og tillögur eins flokks á kjörtímabilinu, ásamt greinargerðum og afgreiðslum og settar upp með samræmdu sniði í eitt skjal. Það skjal reyndist vera 21.190 orð á 54 blaðsíðum.“ Vísað er að öðru leyti í umrætt minnisblað. Yrði sambærileg vinna gerð fyrir hina flokkana er ljóst að frekara fjármagn þarf eða finna þarf aðrar leiðir til að gera skrifstofunni kleift að sinna þessu verkefni sem er mikilvægt fyrir margar sakir m.a. að auka gagnsæi og gera borgarbúum auðveldara að fylgjast með málum sem lögð eru fram í borginni. R18090188

    Frestað.

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Óskað er eftir öllum samningum/styrkjum sem Reykjavíkurborg hefur gert við aðila. Skal listinn vera tæmandi talinn. a. Hverjir eru styrkþegar? b. Hvaða upphæð er hver og einn að fá og til hvað margra ára eru samningarnir? R18090189

  38. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að fundnar verði leiðir til að leiðrétta þau mistök sem orðið hafa í öllu ferli er varðar uppbyggingu/byggingu braggans á Nauthólsvegi. Á þetta verkefni opnaði borgin krana, gaf út opinn tékka. Þessar leiðir sem áheyrnarfulltrúinn vill að fundnar verði miðast að því að HR og Minjastofnun greiði þann umframkostnað sem orðið hefur á þessu verkefni að fullu en áætlun nam 155 milljónir en endaði í 404 milljónum. Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að una þessari niðurstöðu f.h. borgarbúa og krefst þess að máli linni ekki fyrr en þeir aðilar sem hér eru nefndir og eru ábyrgir fyrir útþenslu verkefnisins greiði þennan umframkostnað eins og eðlilegt og réttlátt þykir. R17080091

    Frestað.

  39. Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    1. Hver var ástæðan fyrir því að Reykjavíkurborg seldi skrifstofur sem hún átti og ákvað að flytja alla starfsemi í Borgartún? 2. Hvaða fasteignir voru seldar þegar þessi ákvörðun var tekin? 3. Hvert var þáverandi söluverð þeirra niðurgreint eftir fasteignum? 4. Hvað er Reykjavíkurborg að greiða samtals mikla leigu í Borgartúni sundurgreint eftir sviðum? 5. Er borgin að leigja skrifstofuhúsnæði á fleiri stöðum og ef já, hvar og hver er leigan? R18090190

Fundi slitið klukkan 12:55

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir