Borgarráð - Fundur nr. 5515

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 13. september, var haldinn 5515. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:07. Viðstödd voru auk borgarstjóra: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Valgerður Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson, Ebba Schram og Bjarni Þóroddsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 5. september 2018. R18010035

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 12. september 2018. R18060192

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir liðum 20 og 21 í fundargerð skipulags- og samgönguráðs: 

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að uppbygging sé að hefjast í Gufunesi. Kvikmyndaþorpið er spennandi hugmynd og góð viðbót við þau fjölbreyttu atvinnutækifæri sem eru í Grafarvogi. Fulltrúarnir lýsa yfir fullum stuðningi við menningarverkefni af þessu tagi. Ítrekað skal þó að miklar athugasemdir hafa verið gerðar við deiliskipulagsgerðina vegna hæða fyrirhugaðra bygginga á svæðinu. Þar hefur meðal annars verið óskað eftir að 20 hæða turn verði lækkaður. Ekki hefur verið tekið tillit til þessara athugasemda við deiliskipulagsgerðina sem ítrekað hafa verið lagðar fram bæði af íbúasamtökum Grafarvogs og íbúum og fyrirhuguð hæð á turninum er óbreytt. Háhýsi á þessum stað stingur í stúf við þá byggðaþróun sem fyrir er á svæðinu og skerðir útsýni íbúa. Því veldur þessi niðurstaða miklum vonbrigðum.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skipulag kvikmyndaþorpsins í Gufunesi er niðurstaða umfangsmikils samstarfs íbúa Grafarvogs, Rvk Studios, borgarinnar, Faxaflóahafna og annarra aðila. Í kjölfar samráðsins var haldin arkitektasamkeppni þar sem fagleg og þverpólitísk dómnefnd skilaði niðurstöðu sem er þetta spennandi skipulag. Þá skal tekið fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um hæð byggingarinnar sem um ræðir í bókun minnihlutans og er sú bygging ekki til samþykktar í þessu deiliskipulagi. Þá er byggingin það neðarlega í landi og það langt frá næstu byggð í Grafarvogi að ekki er víst að hún muni skyggja á útsýni svo nokkru nemi. Kvikmyndaþorpið í Gufunesi er nú þegar orðið eitt stærsta atvinnusvæðið í austurhluta borgarinnar, sannkallað þorp skapandi greina eða fríríki frumkvöðlanna eins og segir í tillögu hollensku arkitektastofunnar Jvantspikjer + Felixx sem sigraði skipulagssamkeppnina um kvikmyndaþorpið í Gufunesi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að því sé til haga haldið að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í dómnefnd um skipulag í Gufunesi gerði athugasemdir við hæð turnsins. Þá hafa ítrekað komið athugasemdir og ábendingar frá íbúum í Grafarvogi um að turninn sé ekki í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er og stingur í stúf við umhverfið auk þess að skerða útsýni.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 20 mál. R18090011

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemdir við að innsendar fyrirspurnir séu settar undir embættisafgreiðslu á dagskránni. Tilgangurinn með að senda inn fyrirspurnirnar áður en dagskráin er send út er að þær verði settar á dagskrá fundarins undir almennum liðum svo tækifæri gefist til að fylgja þeim eftir og hafa áhrif á hvert þær eru sendar til umsagnar. Það eru ekki boðleg vinnubrögð að fyrirspurnir og tillögur séu afgreiddar með einhliða ákvörðun meirihlutans um meðferð þeirra. Neðangreindar fyrirspurnir sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrir fundinn kalla allar á eftirfylgni og umræðu: Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna breytinga á vinnuaðstöðu borgarfulltrúa að Tjarnargötu 12. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað við endurbætur á steinbæ við Holtsgötu. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áhrif fasteignaverðs og fasteignagjalda á leiguverði félagsbústaða. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa um samskipti Reykjavíkurborgar við Félagsbústaði eftir álit umboðsmanns Alþingis.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. september 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. september 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Laugarás Hrafnistu vegna lóðarinnar nr. 13 við Brúnaveg. R18090080

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. september 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. september 2018 á breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 2 vegna lóðarinnar nr. 2 við Hallarmúla. R18030083

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

    Það skýtur skökku við að hér sé samþykkt breyting á deiliskipulagi sem leyfir einstaka nýbyggingu, þar sem breytingu á Ármúla 7 var nýlega hafnað með þeim rökum að þar þyrfti breytingu á deiliskipulagi í heild. Það gerðist 22. ágúst síðastliðin. Það er ekki gert hér þó reiturinn sé á sama skipulagssvæði. Miðað við framlögð rök hefði átt að samþykkja breytingar á Ármúla 7, enda voru þær í samræmi við hæð nærliggjandi húsa. Mikilvægt er að ákvarðanir í skipulagsmálum séu ekki óhóflega matskenndar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Afgreiðsla þessa máls er eðlisólík afgreiðslu máls er varðar breytingar á Ármúla 7 þótt lóðirnar séu í sama hverfi. Í Hallarmúla er um ófullbyggða lóð að ræða en lóðin við Ármúla er fullbyggð. Fyrirhuguð breyting við Hallarmúla gerir ráð fyrir stakstæðu húsi sem er bæði í takt við þau hús sem fyrir eru sem og skipulagsheimildir á svæðinu. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna taka undir mikilvægi þess að málsmeðferð þurfi að vera skýr og fagleg og í þessu máli er tekið undir og farið eftir áliti og ábendingum sérfræðinga umhverfis- og skipulagssviðs.

    Sigurborg Ósk Haraldsdóttir víkur af fundi við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og heilbrigðissviðs, dags. 7. september 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. september 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis vegna lóðarinnar nr. 54-60 við Jörfagrund. R18090079

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skipulags- og samgönguráðs, dags. 7. september 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 5. september 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 2 við Norðurbrún. R17050190

    Samþykkt.

    -    Kl. 9:19 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 3. september 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð skipi 3 fulltrúa í stýrihóp um endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar í erlendum samskiptum ásamt forseta borgarstjórnar, sem verður formaður hópsins. Einnig lögð fram drög að erindisbréfi. R18090019

    Frestað.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. september 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð skipi sjö fulltrúa í stýrihóp um endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi ásamt borgarfulltrúa Flokks fólksins sem verður formaður hópsins. Einnig lögð fram drög að erindisbréfi. R18060221

    Samþykkt að skipa Kolbrúnu Baldursdóttur, Líf Magneudóttur, Geir Finnsson, Guðrún Ögmundsdóttur, Alexöndru Briem, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur og Vigdísi Hauksdóttur í stýrihópinn.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga Arndísar Maríu Ólafsdóttur frá ungmennaráði Vesturbæjar um aukin atvinnutækifæri unglinga, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 27. febrúar 2018 og 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018. Jafnframt eru lagðar fram umsagnir mannauðsdeildar, dags. 6. apríl 2018, skóla- og frístundasviðs, dags. 14. júní 2018, og velferðarsviðs, dags. 21. ágúst 2018. R18020254

    Tillagan er felld með vísan til framlagðra umsagna. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þakkað er fyrir frumkvæði og tillögu ungmennaráðs Vesturbæjar um aukin atvinnutækifæri unglinga. Mikilvægt er að huga að fjölbreyttum og skapandi atvinnutækifærum ungmenna yfir sumartímann og hefur slíkt verið gert á vettvangi Vinnuskóla Reykjavíkur. Tilvalið er að slíkar hugmyndir séu ræddar á vettvangi ungmennaráðanna. Það er hins vegar umdeilanlegt að grunnskólanemar á aldrinum 13-16 ára stundi launaða vinnu með skóla yfir vetrartímann þegar skóladagurinn tekur meira en hálfan daginn og frístundastarfið tekur síst minni tíma. Þá er vandasamt að ráða ungmenni í flókin og krefjandi störf með eldri borgurum eða börnum og ungmennum í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Eins og fram kemur í umsögnum er almennt ekki heimilt skv. lögum að ráða börn undir 15 ára aldri í launaða vinnu nema í léttari störf eins og garðyrkju- og þjónustustörf. Það að ráða ungmenni til launaðra starfa mun fela í sér ábyrgð sem oft á tíðum hæfir ekki aldri þeirra og þroska. Mikilvægt er að kynna ungu fólki spennandi atvinnutækifæri sem gefast í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Nýmæli hafa gefist vel á síðustu misserum eins og sumarstörf fyrir framhaldsskólanema á leikskólum. Ungmennaráð borgarinnar geta orðið mikilvægir samstarfsaðilar í því að þróa fleiri nýjar leiðir í þessum efnum, t.d. í formi starfsþjálfunar eða atvinnulífsfræðslu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja það jákvætt að auka atvinnutækifæri unglinga með því að veita þeim tækifæri að vinna hluta úr degi á elliheimilum, frístundaheimilum og leikskólum. Slík störf efla samfélagsvitund þeirra og veita þeim góða innsýn í störfin og gæti ýtt undir áhuga þeirra á að vinna við umrædd störf í framtíðinni eða mennta sig á þessum sviðum. Útfæra mætti tillöguna með því að hlutastörfin gætu verið hluti af námi unglinganna í valáföngum og þannig orðið jafnframt eins konar starfskynning skólanna.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra, dags. 13. september 2018:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að fjárhæð 100 m.kr. að nafnvirði, á ávöxtunarkröfunni 2,50%, í skuldabréfaflokk borgarsjóðs, RVK 32 1.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R18010204

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók borgarráðs.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. september 2018, þar sem lagt er til að borgarráð falli frá forkaupsrétti á skipinu Garðar ÍS – 22 nr. 1650, ásamt fylgiskjölum. R15060006

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. september 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir lóð að Gerðarbrunni 1. R18050164

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um stöður og stöðuheiti í stjórnsýslu borgarinnar, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. R18070142

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.

    Athygli vekur að á skrifstofu borgarstjóra starfi 55 starfsmenn. Til samanburðar starfa 75 starfsmenn  á skrifstofu skóla- og frístundasviðs sem sér um leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili í borginni. Undir það svið heyra 62 leikskólar með 6.000 börn. Þá eru 39 frístundarheimili fyrir 4.100 börn, 24 félagsmiðstöðvar með 175.000 heimsóknir á ári og margt fleira. Undir sviðið heyra 4.300 starfsmenn og um er að ræða eitt stærsta og viðamesta svið Reykjavíkurborgar. Miðað við þennan umfangsmikla rekstur skóla- og frístundasviðs hlýtur að vakna sú spurning af hverju 75 starfsmenn geta sinnt þeim umfangsmikla rekstri á meðan 55 starfi á skrifstofu borgarstjóra. Þá vekur athygli í þessum samanburði að eingöngu 8 manns starfa á  íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar en fjórðungi fleiri eða 10 manns starfa á mannréttindaskrifstofu borgarinnar. Kostnaður við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara hefur á undanförnum árum vaxið úr 157 í yfir 800 milljónir. Ekki er haldið verkbókhald á skrifstofunni en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögu þess efnis í borgarráði sem enn er óafgreidd.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara heyra margar deildir sem sinna stoðþjónustu fyrir alla starfsemi Reykjavíkurborgar, þar á meðal mannauðsdeild sem jafnframt sinnir starfsmatsverkefnum fyrir önnur sveitarfélög, upplýsingadeild sem sinnir upplýsingamiðlun þvert á borgarkerfið, deild tölfræði og greiningar og borgarskjalasafn. Jafnframt er á skrifstofunni haldið utan um verkefni á borð við Hverfið mitt, innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar og margt margt fleira.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. september 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna breytinga á borgarstjórnarsal, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. R14010250

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun. 

    Ljóst er að kostnaður við aðstöðu vegna fjölgunar borgarfulltrúa og breytinga í sal Ráðhússins er umtalsverður. Þannig eru breytingarnar einar og sér á borgarstjórnarsalnum 84 milljónir en hér er ekki um heildarkostnað að ræða eins og sjá má á svarinu enda á eftir að tilgreina kostnað við skrifstofuaðstöðu borgarfulltrúa. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

     

    Fjölgun kjörinna fulltrúa samkvæmt sveitarstjórnarlögum hefur viðbótarkostnað í för með sér. Hluti af kostnaðinum vegna breytinga á sal borgarstjórnar er þó ekki vegna fjölgunarinnar heldur eðlilegt viðhald. Fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 er kostnaðarsöm en minnt er á að Alþingi samþykkti árið 2011 lög sem ákvörðuðu fjölda kjörinna fulltrúa miðað við íbúafjölda. Sveitarfélög með 100.000 íbúa eða fleiri var því gert skylt samkvæmt lögum að fjöldi kjörinna fulltrúa skyldi vera á bilinu 23-31. Tekin var ákvörðun um að fjöldi kjörinna fulltrúa yrði eins lítill og mögulegt væri samkvæmt lögum til þess að draga úr rekstrarkostnaði og framkvæmdakostnaði vegna þessara breytinga.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram trúnaðarmerkt svar borgarritara, dags. 12. september 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um dóm héraðsdóms í máli E-3132/2017 sem færð var í trúnaðarbók á fundi borgarráðs þann 16. ágúst 2018. R17100046

  17. Fram fer kynning á 2. áfanga tilraunaverkefnis um styttingu vinnudags án launaskerðingar. R14050127

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð þakkar fyrir kynningu á tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar án launa- og þjónustuskerðingar. Um 2.200 af starfsfólki borgarinnar á yfir hundrað starfseiningum taka nú þátt í verkefninu en einingarnar eru afar þær ólíkar að stærð og gerð. Með tilraunaverkefninu hefur Reykjavíkurborg aukið lífsgæði starfsmanna á starfsstöðunum sem taka þátt, það dró úr fjarvistum og hugarfar fólks var almennt jákvætt til styttingar eða því að hafa einhvern sveigjanleika í starfi. Að auki hefur borgin rutt brautina og verið í fararbroddi í að stytta vinnuvikuna hér á landi og fleiri sveitarfélög hafa sýnt verkefninu áhuga. Það er von borgarráðsfulltrúa að verkefninu vaxi fiskur um hrygg og að stytting vinnuvikunnar verði að veruleika um land allt, samfélaginu til góða.

    Magnús Már Guðmundsson, Ragnhildur Ísaksdóttir og Harpa Hrund Berndsen taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  18. Lagt fram svar borgarritara, dags. 12. september 2018, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um dómsmál E-3132/2017, sbr. 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 17. ágúst 2018 og 71. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R17100046

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Margir komu að áminningarferli fjármálastjóra Ráðhússins sem endaði fyrir héraðsdómi og hafði fjármálastjórinn fullan sigur. Borgarstjóri, borgarritari, borgarlögmaður, starfsmannastjóri Reykjavíkur, lögmenn hjá embætti borgarlögmanns auk Antons Björns Markússonar hrl. vissu öll um áminninguna og veittu ráð um ferlið. Nú hefur komið í ljós að málarekstur borgarinnar í máli 3132/2017 hefur kostað 3.743.750 krónur. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og borgarfulltrúi Miðflokksins kallar eftir því að einhver axli ábyrgð á þessu alvarlega máli. Það virðist vera meðvituð ákvörðun þeirra sem stjórna borginni að bregðast ekki við dómi héraðsdóms.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Einstaka starfsmannamál eru ekki á hendi borgarráðs en dómurinn sem er vissulega á borði ráðsins snérist um að ekki væri um eineltismál að ræða, heldur áminningu í starfi. Ekkert annað.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins mótmælir því að stjórnsýsla borgarinnar geti tekið punkta úr umræddum dómsskjölum og litið á það sem kveikju, að kröfu meints geranda, til að gera rannsókn eða einhvers konar forathugun á meintu einelti skrifstofustjóra gegn fjármálastjóra. Meintur þolandi er ekki aðili þessa máls, hann hefur ekki lagt fram eineltiskvörtun og frábiður sér nokkra þátttöku í forathugun, rannsókn eða hvað á að kalla það. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst stjórnsýsla borgarinnar hér vera komin á hálan ís. Að ákveða að einhver sé aðili í máli af þessu tagi án þess að tilkynning eða kvörtun liggi fyrir frá viðkomandi og fara ítrekað fram á þátttöku hans má jafnvel túlka sem áreitni. Borgarfulltrúa finnst vísbending um meðvirkni af hálfu stjórnsýslunnar með hinum meinta geranda. Allt kapp virðist lagt á að verða við kröfu hans um einhvers konar vinnslu þrátt fyrir að meintur þolandi hafi margsinnis hafnað því að vilja koma nálægt nokkru slíku enda lauk málinu, að hans mati, með fullnægjandi hætti í dómsalnum með umræddum dómi. Stjórnsýslan er hvött til að virða að fullu afstöðu fjármálastjórans og horfast í augu við þá staðreynd að ekki verði um frekari vinnslu í þessum máli.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í öllum málum sem varða starfsmannamál er farið eftir skýrum verkferlum. Svo er einnig í þessu máli. Báðir málsaðilar fá að koma að sjónarmiðum sínum. Svo er einnig í þessu máli. Dylgjum um meðvirkni er vísað á bug.

    -    Kl. 11:15 víkur Stefán Eiríksson af fundi. 

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um opinbera afsökunarbeiðni, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R17100046

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með tillögunni er komin fram sú ósk eins borgarfulltrúa að tiltekinn aðili biðji hana afsökunar. Afsökunarbeiðnir og fyrirgefningar eru fallegar mannlegar athafnir sem geta, ef vel tekst til, grætt sár og sætt fólk. Það er ekki okkar mat að slíkum athöfnum sé greiði gerður með því að opinber ráð fyrirskipi þær eða hafi skoðun á réttmæti þeirra.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögu Miðflokksins um að æðstu embættismenn borgarinnar biðji afsökunar á framferði sínu gagnvart kjörnum fulltrúa var vísað frá á fundi borgarráðs. Með því eru kjörnir fulltrúar að slá skjaldborg um gjörðir og orð embættismannana. Slíkt er óásættanlegt fyrir lýðræðið.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um tvöföldun upphæðar frístundakortsins, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018. R18090016

    Tillagan er felld. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Frístundastyrkur til barna og ungmenna í Reykjavík hefur í tvígang verið hækkaður á undanförnum 5 árum og nemur nú 50 þúsund krónum á hvert barn, sem er tvöföldun frá árinu 2013. Árlega er varið rúmlega 700 milljónum króna í frístundastyrki og njóta börn og forráðamenn þeirra góðs af þessum stuðningi sem ætlað er að stuðla að fjölbreyttum frístundum ungu kynslóðarinnar í Reykjavík.  Reykjavík hefur dregið vagninn þegar kemur að frístundastarfi í landinu og nýsamþykkt frístundastefna undirstrikar mikinn metnað borgarinnar í málaflokknum.  Umrædd tillaga myndi kalla á að lágmarki 700 milljóna króna viðbótarútgjöld úr borgarsjóði en ekki liggur fyrir nein þarfagreining að baki tillögunni. Meirihlutinn áréttar að brýnasta verkefnið þegar kemur að frístundakortinu er að tryggja að öll börn og ungmenni 6-18 ára nýti sér þessa styrki til fjölbreyttra frístunda en bent hefur verið á að tilteknir hópar, ekki síst börn af erlendum uppruna nýti ekki styrkina sem skyldi. Við því þarf að bregðast fremur en að grípa til útgjaldaauka af þeirri stærðargráðu sem hér er lagt upp með.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eðlilegt hefði verið að vísa tillögunni til fjárhagsáætlunargerðar og til menningar- og íþróttaráðs til umsagnar. Mikilvægt er að upplýsingar liggi fyrir um notkun frístundakortsins og þörfin fyrir hækkun metin áður en afstaða er tekin til tillögunnar.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögu fulltrúa Miðflokksins um að tvöfalda upphæð frístundakorts var hafnað á fundi borgarráðs í dag. Lítill skilningur virðist vera hjá þeim sem stjórna borginni gagnvart fjölskyldufólki. Það sýnir sig best í þessari málsmeðferð. Tvöföldun frístundakorts kostar um 700 milljónir króna og rétt er að minna á að rekstur skrifstofu borgarstjóra er 800 milljónir á ári.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kaup á Keldnalandi, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018. R18090058

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það liggur fyrir að huga þurfi að staðsetningu nýs sjúkrahúss með góðum fyrirvara áður og þegar sjúkrahúsið við Hringbraut verður fullnýtt. Því þarf að fara í óháða og faglega staðarvalsgreiningu sem fyrst áður en hægt er að slá því föstu að Keldur séu besti kosturinn fyrir slíka uppbyggingu. Í því ljósi er tillagan felld enda væri það einkennilegt að borgin keypti land af ríkinu til þess eins að gefa ríkinu það aftur til þess að byggja spítala sem ekki liggur fyrir að ríkið hafi áform um að byggja á þessum stað.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Keldur eru eitt hagkvæmasta óbyggða svæði borgarinnar sem er með góðum vegtenginum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja mikla áherslu á uppbyggingu fjölskylduvæns hverfis við Keldur. Þangað er kjörið að skipuleggja lóðir fyrir stofnanir og fyrirtæki. Það mun bæta þann skipulagshalla sem hefur valdið auknu álagi á vegakerfið. Lóðaskortstefna meirihlutaflokkanna hefur komið í veg fyrir eðlilega uppbygginu sem hefur leitt til þess að stofnanir, fyrirtæki og borgarbúar hafa þurft að flytja í önnur sveitarfélög.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um nýtingu jarðhæðar Ráðhússins, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018. R18090057

    Samþykkt. 

    Vísað til vinnslu hjá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. september 2018, við fyrirspurn borgarráðfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um reglur um greiðslufresti vegna lóðaúthlutana, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018, ásamt fylgiskjölum. R17040005

    Fylgigögn

  24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    1) Hvort og með hvaða hætti borgin hafi komið að sundlaugarbyggingunni á Hrafnistu og Norðurbrún á sínum tíma. 2) Gaf borgin lóðina, styrkti hún byggingu mannvirkisins, bæði sundlaugar og búningsklefa? 3) Hvernig var notkuninni á sundlauginni háttað á meðan hún var í lagi, var samið sérstaklega um afnot borgarinnar af henni eða fengu þjónustuþegarnir við Norðurbrún að nota hana ókeypis í ljósi góðra samskipta borgarinnar og Hrafnistu? 4) Hefur Hrafnista í hyggju að opna laugina að nýju og hvað stendur í vegi fyrir því ef svo er ekki? R18090108

  25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

    Það er stefna Flokks fólksins að skólamatur verði helst gjaldfrjáls í Reykjavík. Þess vegna finnst Flokki fólksins mikilvægt að vita heildarumfangið og vanskilin og hvernig brugðist er við vanskilum á fæðisgjaldi skólamáltíða og leikskólamáltíða.  

    Hér eru eftirfarandi fyrirspurnir: 1. Hversu mörg mötuneyti rekur Reykjavíkurborg, t.d. fyrir leik- og grunnskólanemendur, eldri borgara eða starfsfólk Reykjavíkurborgar? Hversu mörgum stendur til boða að nýta sér þessa þjónustu? 2. Hversu margir greiða að jafnaði fyrir mat í mötuneytum borgarinnar á hverjum degi? 3. Hversu margir af þeim sem greiða fyrir mat nýta sér að jafnaði þjónustuna á hverjum degi? 4. Hver eru vanskil á fæðisgjaldi mötuneyta Reykjavíkurborgar ? og hvernig er innheimtu háttað? Hvaða úrræði standa þeim sem ekki greiða fæðisgjald til boða? 5. Eru til næringaútreikningar fyrir mat í mötuneytum borgarinnar? 6. Ef já, er  einhver sem fylgist með þeim útreikningum? 7. Er starfandi næringarfræðingur sem þjónustar mötuneyti borgarinnar og ef svo er hvernig er störfum hans háttað? 8. Er vitað hver matarsóun í  mötuneytum borgarinnar er? 9. Er vitað hversu miklum mat er hent í mötuneytum borgarinnar? 10. Er til stefna hjá borginni eða leiðir til að nýta matarafganga? R18090109

  26. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að skilgreini þjónustusamninga mötuneyta Reykjavíkurborgar og bjóði rekstur þeirra út.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R18090110

    Frestað.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að láta gera könnun meðal íbúa úthverfa Reykjavíkur um hversu oft þeir sækja miðbæinn 101 og í hvaða tilgangi s.s. til að sækja þangað vinnu eða sækja þangað í öðrum tilgangi en vinnu t.d. til skemmtunar/nýta veitingastaði. R18090111

    Frestað.

  28. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 14. liður. fundargerðar borgarstjórnar frá 4. september 2018:

    Það er mikilvægt að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að aðgerð af þessu tagi mun lækka tekjur skóla- og frístundasviðs um meira en 1 milljarð kr. á ári sem er vissulega stór biti af öllum tekjum sviðsins. Í stað þess að fara í sparnaðaraðgerðir innan sviðsins er það ábyrgð borgarinnar að forgangsraða í fjárreiðum borgarinnar og í þessari tillögu er Flokkur fólksins að legga til að borgin forgangsraði fjármunum í þágu barnanna. R18090045

    Frestað.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um íbúðir í eigu borgarinnar m.v. 1. september 2018, staðsetningu, fermetrafjölda og útleiguverð. Óskað er eftir að greinarmunur sé gerður á eignum sem hefur verið úthlutað í félagslega kerfinu og öðrum eignum. R18090112

  30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um kaup og vöru og þjónustu frá stærstu birgjum á árinu 2017 og til 1. september 2018. Fyrirspurn þessi varðar heildarkaup frá birgjum hvort heldur þau eru gjaldfærð eða eignfærð í bókhaldi. R18090113

Fundi slitið klukkan 12:39

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

Skúli Helgason Marta Guðjónsdóttir