No translated content text
Borgarráð
Ár 2018, fimmtudaginn 6. september, var haldinn 5514. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:09. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir, Anna Margrét Jóhannesdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 30. ágúst 2018. R18010016
Kl. 9:12 taka borgarstjóri og Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 5. september 2018. R18060192
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Það vekur furðu að hér sé samþykkt breyting á deiliskipulagi til að leyfa einstaka nýbyggingu þar sem breytingu á Ármúla 7 var nýlega hafnað með þeim rökum að þar þyrfti breytingu á deiliskipulagi í heild. Það gerðist 22. ágúst síðastliðinn. Það er ekki gert hér þó reiturinn sé á sama skipulagssvæði. Miðað við framlögð rök hefði átt að samþykkja breytingar á Ármúla 7, enda voru þær í samræmi við hæð nærliggjandi húsa. Mikilvægt er að ákvarðanir í skipulagsmálum séu ekki óhóflega matskenndar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Bent er á að málefni lóðanna eru að sumu leyti ólík þótt þær séu í sama hverfi. Í Hallarmúla er um ófullbyggða lóð að ræða en lóðin við Ármúla er að heita má fullbyggð. Fyrirhuguð breyting við Hallarmúla gerir ráð fyrir stakstæðu húsi sem er mjög í takt við þau hús sem fyrir eru og skipulagsheimildir á svæðinu. Við tökum undir mikilvægi þess að málsmeðferð þurfi að vera skýr og fagleg. Við tökum undir álit sérfræðinga umhverfis- og skipulagssviðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. júní 2018. R18010026
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir verkefnisstjórnar miðborgarmála frá 5. júní og 28. ágúst 2018. R18010386
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Athygli vekur að fundargerðin veitir borgarfulltrúum enga innsýn inn í fund verkefnisstjórnar miðborgarmála eða efni hans. Málefni miðborgarinnar eru mjög brýn og því mikilvægt að fara yfir áskoranir og möguleika sem fylgja henni. Gott væri að kynningar fylgdu fundargerð.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 26 mál. R18090011
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. ágúst 2018 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem felst í að afmörkun landnotkunar er leiðrétt til samræmis við lóðamörk og núverandi notkun lóða, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. ágúst 2018 á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis vegna lóðanna nr. 7-11 við Stjörnugróf, ásamt fylgiskjölum. R18090015
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. ágúst 2018 á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Vallár á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R18030151
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 29. ágúst 2018 á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar vegna lóðar nr. 2 við Austurbakka, ásamt fylgiskjölum. R18090014
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram ódags. skýrsla samgöngustjóra og skrifstofu borgarhönnunar umhverfis- og skipulagssviðs um Torg í biðstöðu 2018. R18070143
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Lífvænlegri svæði eru mjög jákvæð skref fyrir hverfi borgarinnar. Mikilvægt er að gætt sé jafnræðis milli borgarhluta. Rétt er að árétta að óskað var eftir ítarlegum upplýsingum um hvaða reglur gildi um “Torg í biðstöðu”, forgangsröðun þeirra og kostnað við þessi verkefni hinn 19. júlí sl. eða fyrir 49 dögum síðan. Með hliðsjón af því er óskað eftir skriflegum svörum við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins hið fyrsta.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrsla Maskínu fyrir Höfuðborgarstofu, dags. 17. júlí 2018, um könnun á viðhorfi til ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu fyrir júní-júlí 2018.
Arna Schram, Þóra Ásgeirsdóttir og Huld Ingimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R18090010
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað menningar- og ferðamálasviðs, dags. 4. september 2018, varðandi breyttar áherslur í miðlun upplýsinga til ferðamanna.
Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R18090010
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. september 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Sifjarbrunni 28. R18050171
Samþykkt
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. september 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykkti úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Gerðarbrunni 9. R18050167
Samþykkt
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. september 2018, varðandi framkvæmdir Reykjavíkurborgar í tengslum við uppbyggingu á lóð Landspítala við Hringbraut, ásamt fylgiskjölum. R18090006
Samþykkt.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna framkvæmda við uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut í áfanga 1 er mikill eða 263 milljónir króna auk kostnaðar við hönnun, umsjón og eftirlit. Ljóst er að sú áætlun kemur ekki til með að standast ef miðað er við framkvæmd verka hjá ríki og borg. Mikið álag verður á stóru svæði á framkvæmdatíma verksins eins og dæmin nú þegar sanna með tilheyrandi ónæði fyrir alla. Engum dylst að uppbygging Landspítalans við Hringbraut er óráðsía. Fréttir undanfarnar vikur hafa leitt í ljós óbærileg óþægindi fyrir inniliggjandi sjúklinga og ekki síður starfsfólk sem reynir að sinna sínum verkum af natni. Miklum áhyggjum er lýst yfir varðandi mengun af ýmsu tagi og þá sérstaklega svifryki. Tillaga um staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús var felld á Alþingi fyrr á árinu. Sú pólitíska samsetning sem nú er í þinginu breytist að öllum líkindum við næstu þingkosningar. Reykjavíkurborg verður því að taka forystu meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefja strax undirbúning og skipulag að því að finna nýjum spítala nýjan stað innan borgarmarkanna. Beinast liggur við að staðsetja nýjan spítala á Keldum og hefja strax viðræður við ríkið að kaupa Keldnalandið og er tillaga þess efnis lögð fram af áheyrnafulltrúa Miðflokksins á fundi borgarráðs 6. sept. 2018.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. september 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Bjargi hses vilyrði fyrir byggingarrétti á um 94 íbúðum á reit B í Bryggjuhverfi, ásamt fylgiskjölum. R17100144
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur staðið þétt að baki uppbyggingu leiguíbúða á vegum verkalýðshreyfingarinnar fyrir tilstuðlan Leigufélagsins Bjargs ásamt öðrum óhagnaðardrifnum leigufélögum. Sérstakt samkomulag var undirritað við ASÍ og BSRB um byggingu 1000 íbúða á vegum Bjargs og er þegar hafin uppbygging á tveimur reitum og uppbygging á fleiri hefst á þessum vetri. Með þessu vilyrði hefur verið úthlutað eða veitt vilyrði fyrir lóðum fyrir um 700 af þeim 1.000 íbúðum sem áðurnefnt samkomulag nær til. Lög um almennar íbúðir tóku gildi í byrjun árs 2017 og fyrstu stofnstyrkir afgreiddir í kjölfarið. Það er sérstakt ánægjuefni að vel gengur að undirbúa og fjölga öruggum langtímaleiguíbúðum á viðráðanlegu verði.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. september 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins varðandi uppbyggingu á Vesturbugt, sbr. 73. lið fundargerð borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R17040005
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Lýst er yfir miklum vonbrigðum að framkvæmdir eru ekki hafnar eins kynnt var á fundi þann 18. apríl 2017 þegar skrifað var undir samning um uppbyggingu íbúða á þessu svæði. Undarlegt samspil Reykjavíkurborgar og Vesturbugtar ehf. með fjármögnun verksins er óljós. Eins er lýst yfir miklum efasemdum um að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að vera millistykki milli Vesturbugtar ehf. og félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Áhættuákvæði fyrir borgina er í samningnum þar sem hún er skylduð til að vera kaupandi að þeim 74 íbúðum sem áætlað er að rísi á þessu svæði. Samkvæmt samningnum hefðu framkvæmdir átt að hefjast 18. júlí sl. en hefur nú verið frestaða til 1. febrúar 2019 sem þýðir nú þegar sex mánaða seinkun og er borið við að fjármögnun gangi ekki sem skyldi. Gera verður þá kröfu þegar Reykjavíkurborg úthlutar gæðum sem þessum til einstakra aðila að þeir sýni fram á fjárhagslega getu sína til verkefna svo uppbygging íbúðarhúsnæðis í borginni dragist ekki úr hömlu eins og verið hefur undanfarin ár.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. september 2018, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð heimili sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að gera samninga við tónlistarskóla og greiða út framlög jöfnunarsjóðs vegna kennslu á efri stigum tónlistarnáms í samræmi við meðfylgjandi minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs. R18050102
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 3. september 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins um kostnað vegna auglýsingaátaks á skóla- og frístundasviði, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18080138
Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Gerðar eru athugasemdir við hversu dregist hefur úr hömlu að svara fyrirspurnum Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnarandstöðuflokka í Borgarstjórn Reykjavíkur. Sumar þessara fyrirspurna Sjálfstæðisflokks voru lagðar fram fyrir frá 37 dögum upp í 63 daga. Slíkt ber vott um óskilvirka stjórnsýslu.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Kostnaður vegna auglýsingaátaks skóla- og frístundarsviðs er nú þegar á 6. milljón það sem af er þessu ári og var í fyrra, 2017 um 7,5 milljónir. Þetta eru miklir peningar og telur Flokkur fólksins að nú ætti að láta að mestu gott heita í bili og sjá hverju því fjármagni sem varið hefur verið til auglýsingaátaksins skilar. Vel má huga að því að nota samfélagsmiðlana enn meira sem ekki kostar mikið ef nokkuð. Markaðssetning er mikilvæg en ekki mikilvægust í þeim mikla vanda sem mannekluvandi leikskólanna er. Vissulega er mikilvægt að skóla- og frístundasvið gefi af sér góða ímynd svo að m.a. foreldrar upplifi að allt sé gert til að bæta mannekluástandið. Í forgrunni er þó alltaf að borgin sýni þessum störfum sem hér um ræðir virðingu og sé tilbúin að greiða fyrir þau mannsæmandi laun. Einnig ætti að vera ein aðaláherslan að gæta þess í hvívetna að álagið sé ekki meira en eðlilegt getur talist og fólki bjóðandi. Í þessa þætti þarf að setja meira fjármagn ef leysa á mannekluvandann hvort sem það komi frá sviðinu eða að aukið fjármagn komi frá borginni til sviðsins eyrnamerkt launahækkunum og aðgerðum til að draga úr álagi.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lengingu hljóðmanar við Kleppsveg, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. apríl og 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018. R18040212
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að múrar við Miklubraut hafa tekið til sín hundruð milljóna króna umfram áætlun og þar með gengið á það fé sem ætlað er í aðrar hljóðmanir. Endanlegur kostnaður múrsins liggur ekki fyrir en ljóst er að hann fer nálægt hálfum milljarði.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hávaði vegna mikils magns bílaumferðar hefur neikvæð áhrif á marga borgarbúa og mörg svæði innan borgarinnar. Öll vinna við að bæta hljóðvist miðar fyrst og fremst að því að breyta ferðavenjum og hægja á umferð. Uppbygging hljóðvarna er lokaúrræði og er öllu sú vinna unnin faglega af Reykjavíkurborg í samstarfi við Vegagerðina og Umhverfistofnun. Sú vinna er sett fram í aðgerðaáætlun þar sem svæðum er forgangsraðað eftir álagi en ekki eftir hentisemi.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um útvíkkun félagsstarfs félagsmiðstöðvarinnar Frosta, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. maí og 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs frá 27. ágúst 2018. R18050226
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að frístundatilboð standi öllum börnum til boða í borginni, ekki er hægt að sjá af umsögninni hver endanlegur kostnaður er við tillöguna. Óskað er skýringa hver kostnaðaraukinn væri, þar sem hann er ekki tilgreindur í umsögninni.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna bráðavanda í mönnun leikskóla og frístundaheimila, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R18080060
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Á fundi borgarráðs þann 23. ágúst sl. og á fundi skóla- og frístundaráðs þann 21. ágúst var farið yfir aðgerðaáætlun sem ætlað er að tryggja næga mönnun í leikskólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar haustið 2018. Sú aðgerðaáætlun er í framkvæmd og miðar vel og því ekki ástæða til að gera aðra aðgerðaáætlun. Einnig má nefna að í samstarfssáttmála meirihlutans í borginni stendur að meirihlutinn ætlar að halda áfram að bæta starfsumhverfi í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum með því að bæta kjör starfsfólks, stytta vinnuvikuna, minnka álag, draga úr skriffinnsku og auka faglegt frelsi fólks. Eru það allt aðgerðir sem verða til þess fallnar að laða að hæft starfsfólk og skapa stöðugleika til lengri tíma. Þegar hafa margar tillögur verið samþykktar sem allar miða að því að bæta starfsumhverfið í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar. Þetta er eitt helsta forgangsmálið í málaflokknum um þessar mundir og verður áfram.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Líkt og flugfélag sem þarf að tryggja mönnun á áhöfn sinni fyrir flugtak þarf borgin að tryggja fulla mönnun áður en skólastarf hefst. Nú hafa grunnskólar og leikskólar hafið vetrarstarf en mönnun er ekki lokið. Skólastarf er farið af stað án þess að búið sé að manna áhöfnina. Sú staða er óviðunandi og við ætlumst til þess að fyrir liggi tímasetning á því hvenær ætlað er að þetta verði komið í lag. Flugfarþegar sætta sig ekki við að vera vísað frá vegna mönnunarvanda. Sama á við um foreldra; þeir gera þá kröfu að börnunum sé ekki vísað frá.
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar leggja allir mikla áherslu á að lausn á mönnunarvanda leikskólanna sé í forgangi. Leggja fulltrúarnir ríka áherslu á að fá fljótt upplýsingar um stöðuna á aðgerðaáætluninni.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kynningu á viðhorfskönnunum B-hluta fyrirtækja í borgarráði, sbr. 65. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst og 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R18070145
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú í haust koma öll B-hluta fyrirtæki borgarinnar með kynningu í aðdraganda fjárhagsáætlunar. Á þeim fundi gefst tækifæri til að spyrja um daglegan rekstur fyrirtækjanna og viðhorfskannanir ef áhugi er fyrir því.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Aðkoma borgarráðs er mjög takmörkuð að fyrirtækjum og samlögum borgarinnar. Í sumum tilfellum er borgin með einn fulltrúa af sex og er þá þessi eini fulltrúi fyrir hönd meirihlutans. Ábyrgð borgarinnar og borgarráðs er óskert þrátt fyrir að stórum hluta rekstrar hafi verið útvistað í hlutafélög eða byggðasamlög. Almennar upplýsingar eins og viðhorfskannanir eiga fullt erindi til borgarinnar sjálfrar enda getur hún ekki afsalað sér ábyrgð á starfseminni þó henni hafi verið útvistað. Það er í anda nútímalegra stjórnarhátta að hafa góða upplýsingagjöf en rekstur dótturfélaga borgarinnar eru víða lokuð bók.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins tekur undir bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins um viðræður um fjölgun rafhleðslustöðva, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. ágúst 2018. R18070146
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan gengur mun lengra en fyrirliggjandi áætlanir frá síðasta kjörtímabili. Hér er lagt til að fara í átak samhliða því tilraunaverkefni sem nú er í gangi. Það er ekki nóg að bíða eftir að rafbílum fjölgi þvert á móti þarf að tryggja uppbyggingu innviða fyrst. Þannig mun rafbílum fjölga. Núverandi fyrirkomulag gerir þeim sem búa í fjölbýli mun erfiðara fyrir að ráðast í orkuskipti en þeim sem búa í sérbýli. Þessa mismunun er eingöngu hægt að minnka með markvissum aðgerðum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru helsta vá okkar tíma og meirihlutasáttmáli Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna ber þess merki að metnaður verður lagður í sporna gegn þeim. Þar kemur fram að við munum setja metnaðarfyllri markmið um hlutdeild vistvænna ferðamáta og styðja við orkuskipti í samgöngum m.a. í grónum hverfum og við fjölbýlishús og liðka fyrir notkun rafmagnsreiðhjóla, meðal annars með uppsetningu hleðslustöðva. Orkuskipti í samgöngum er einnig grundvallarþáttur í baráttunni við svifrykið og fyrir bættum loftgæðum í borginni. Loftslagsstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt 2016 og meðal aðgerða er samstarf OR og Reykjavíkurborgar um fjölgun hleðslustöðva. Eitt verkefnið felst einmitt í að reisa hleðslustöðvar á a.m.k. 10 stöðum í borgarlandinu en einnig er verið að skoða frekari fjölgun rafhleðslustöðva. Á umhverfis- og skipulagssviði er verið að klára tillögu að verklagsreglum um hvernig koma megi fyrir hleðslustöðvum í borgarlandinu fyrir þá íbúa sem ekki hafa eigin stæði á lóð, það er stór liður í því að fjölga rafhleðslustöðvum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hækkun byggingarréttargjalds og aukið stofnframlag til félagslegra og óhagnaðardrifinna leigufélaga, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst, 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst og 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R18060139
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistaflokkurinn hefur ýmist viljað hækka byggingarréttargjaldið eða lækka það í þeim tilgangi að leysa húsnæðismálin. Hvorttveggja getur ekki gengið til lengdar. Það er mikilvægt að uppbyggingaraðilar greiði gjald í sameiginlega sjóði borgarinnar til þess að taka ekki gæði almennings og hagnast verulega á þeim. Á sama tíma verður að vera til hvati til að reisa íbúðir í Reykjavík. Hóflegt byggingarréttargjald er afar mikilvægur tekjustofn fyrir borgina til að standa undir áframhaldandi uppbyggingu og ekki fæst séð að skynsamlegt sé að hækka gjaldið eða lækka. Stofnframlög borgarinnar til húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni eru umtalsverð, rétt eins og ríkisins. Ef Reykjavík ætti að hækka stofnaframlög sín sem nemur því sem áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur til þyrfti ríkið að hækka sín framlög sömuleiðis með tilheyrandi breytingum á reglugerð 555/2016 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir. Það myndi hafa í för með sér miklar tafir á uppbyggingu húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi kaup og innflutning á húsnæði fyrir heimilislausa, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí, 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst og 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. ágúst 2018. R18070088
Tillagan er felld með vísan til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afreiðslu málsins.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari við þessum lið frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar kemur fram að umrædd húsnæði frá Eistlandi falli líklega undir hugmyndasamkeppni sem skila átti hugmyndum inn fyrir 8. ágúst en ekki sé ljóst hvort að þessi hugmynd sé meðal tillagna. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þessi hluti svarsins óljós og væntir þess: a) Að fá að vita hvort þessi tillaga muni fara í hugmyndabanka hugmyndasamkeppninnar enda ekki búið að vinna úr hugmyndum hennar. b) Að verði ábendingunni komið til Félagsbústaða, að viðbrögð Félagsbústaða berist borgarráði hið fyrsta.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er nú í öðrum fasa verkefnis sem gengur út á að byggðar verði hagkvæmar íbúðir, meðal annars fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Auglýst var eftir samstarfsaðilum og kallað eftir nýjum byggingaraðferðum og hugmyndum sem geta lækkað byggingarkostnað húsnæðis. Reitirnir sem um ræðir voru í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, í Gufunesi, í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog, við Stýrimannaskólann, á Veðurstofureit og í Skerjafirði. Verið er að fara yfir innsendar hugmyndir og verða niðurstöður kynntar síðar í borgarráði. Umrædd húsnæði frá Eistlandi falla líklega að þessari hugmyndasamkeppni en ábendingum um þennan möguleika hefur verið komið til Félagsbústaða.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að leiga hjá Félagsbústöðum verði lækkuð þannig að hún verði aldrei hærri en 48.000 krónur á mánuði sem er 20% af ráðstöfunarfé einstaklinga á grunnlífeyri. Ef að einhver dæmi eru um að slíkt leiði til hækkunar leigunnar, skal taka tillit til þess að viðkomandi ráði ekki við þá hækkun.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090021
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afreiðslu málsins.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Margir leigjendur Félagsbústaða ráða nú þegar ekki við leiguverð hjá Félagsbústöðum þrátt fyrir sérstakan húsnæðisstuðning sem kemur til lækkunar leigunnar. Tillagan um lækkun leiguverðs hjá Félagsbústöðum var lögð fram til að tryggja að leiguverð yrði aldrei hærra en 20% af ráðstöfunartekjum og var miðað við núverandi grunnlífeyri. Einnig var lagt til að ef slíkt leiddi einhvertímann til hækkunar leigunnar skyldi tekið mið af því að viðkomandi réði ekki við þá hækkun. Tillagan var liður í því að fjarlægja félagslega kerfið frá markaðsvæðingu Félagsbústaða hf. Leigan ætti að vera föst upphæð sem er ekki háð tekjutengdum skilyrðum þar sem húsnæðisstuðningur er háður ýmsu og skerðist auðveldlega við lítilvægar breytingar. Leiguverð ætti að vera föst upphæð sem einstaklingar ráða við og lýsi ég því yfir vonbrigðum með að tillagan hafi ekki verið samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ný aðferð við að reikna út leigu Félagsbústaða tók gildi í byrjun árs 2017. Samhliða því tók gildi breyting á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning. Markmiðið með sérstökum húsnæðisstuðning er að tryggja það að einstaklingar greiði ekki meira en 25% af tekjum sínum í leigu skv. viðmiðum velferðarráðuneytisins. Ekki er því um fasta krónutölu að ræða enda er sérstakur húsnæðisstuðningur hugsaður sem einstaklingsbundinn stuðningur sem tekur mið af tekjum, fjölskyldustærð og félagslegum aðstæðum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt er til að tvöfalda upphæð frístundakortsins, úr 50.000 krónum í 100.000 krónur. R18090016
Frestað.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrendafulltrúa Miðflokksins:
Meginmarkmið með frístundakortinu er að auka jöfnuð meðal barna og unglinga í Reykjavík hvað varðar þátttöku í skipulögðu félags,- menningar- og íþróttastarfi. Lengi býr að fyrstu gerð. Frístundakortið dugar í dag hið mesta í u.þ.b. 50% hluta æfingagjalda íþrótta, tónlistastarfi sem og annarra tómstunda. Með því að auka upphæð frístundakortsins úr 50 þúsund kr. á hvert barn upp í 100 þúsund krónur á ári er komið nær raunkostnaði dagsins. Mikilvægt er að tryggt verði að hvert og eitt barn í Reykjavík eigi auðvelt aðgengi tómstundum óháð stétt eða stöðu foreldra. Vel er hægt að rökstyðja að tómstundir barna á grunnskólaaldri séu hluti af menntun sem þau mega ekki vera án. Reykjavíkurborg á að vera í fararbroddi í þessum málum.
- Kl. 13:25 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samskipti óhagnaðardrifinna leigufélaga og borgarstjóra og formanns borgarráðs, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018. R18080156
Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga Arndísar Maríu Ólafsdóttur frá ungmennaráði Vesturbæjar um aukin atvinnutækifæri unglinga, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 27. febrúar 2018. Jafnframt eru lagðar fram umsagnir mannauðsdeildar, dags. 6. apríl 2018, skóla- og frístundasviðs, dags. 14. júní 2018 og velferðarsviðs, dags. 21. ágúst 2018.
Frestað.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 4. september 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð skipi fulltrúa í stýrihóp um endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Jafnframt eru lögð fram drög að erindisbréfi stýrihópsins. R18060221
Frestað.
Fylgigögn
-
Lagt til að Líf Magneudóttir, Magnús Már Sigurðsson og Örn Þórðarson taki sæti í stýrihópi um kynjaða fjárhagsáætlun. R16090135
Samþykkt.
- Kl. 13:33 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Valgerður Sigurðardóttir tekur sæti.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði leggja til að rýmið á jarðhæð Ráðhúss Reykjavíkur verði nýtt undir þjónustu við borgarbúa með það að markmiði að auðvelda aðgengi, upplýsingagjöf og þjónustu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090057
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúinn óskar eftir því að það verði fært til bókar að hún styður tillöguna.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt er til að Reykjavíkurborg hefji þegar viðræður við ríkið vegna kaupa borgarinnar á landi Keldna til framtíðaruppbyggingar nýs þjóðarsjúkrahúss.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18090058
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Hvaða reglur gilda um veitingu frests á greiðslum vegna lóðaúthlutana eins og um ræðir í lið 17 á fundi borgarráðs varðandi uppbyggingu á Vesturbugt? R17040005
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:
Óskað er eftir sundurliðuðu og rekjanlegu yfirliti yfir framkvæmdir við braggann í Nauthólsvík frá því þær hófust. Lögð var fram í borgarráði þann 6. september 2018 fundargerð innkauparáðs sem innihélt m.a. yfirlit skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar vegna Nauthólsvegar 100, með vísan í bókun á síðasta fundi ráðsins þar sem óskað var eftir því að fá yfirlit yfir allar greiðslur sem Reykjavíkurborg hefur innt af hendi vegna Nauthólsvegar 100 á árunum 2017 og 2018 (Bragginn í Nauthólsvík). Fulltrúar stjórnarandstöðunnar óskuðu eftir að fá yfirlitið sent og þegar það er skoðað er það ákaflega ófullkomið í ljósi upplýsinga sem borgarfulltrúar verða að hafa til að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni með fjárstjórnarvaldi borgarinnar. Einungis eru gefnir upp verkliðir og upphæðir. R17080091
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskar upplýsinga um hvenær vænta megi umsagnar innri endurskoðunar og borgarlögmanns um hagsmunaskráningu æðstu embættismanna Reykjavíkurborgar? R18080058
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Hver er kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum hátíðarviðburðum tengdum borginni? Borgarfulltrúa Flokks fólksins leikur forvitni á að vita heildarútgjöld borgarinnar vegna viðburða af þessu tagi og nægir að upplýsa um árið 2017 og það sem af er 2018. R16010200
Fundi slitið klukkan 13:44
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Marta Guðjónsdóttir