Borgarráð - Fundur nr. 5513

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 30. ágúst, var haldinn 5513. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:10. Viðstödd voru auk borgarstjóra: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Birgir Björn Sigurjónsson, Hallur Símonarson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 29. ágúst 2018. R18060192

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 17. ágúst 2018. R18010023

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð Sorpu bs. frá 17. ágúst 2018. R18010024

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 17. ágúst 2018. R18010028

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar hafa afar litla yfirsýn yfir rekstur í árshlutauppgjörum B-hluta fyrirtækja. Það er áhyggjuefni að rekstrartekjur Strætó bs. eru lægri en áætlun gerði ráð fyrir á tímabilinu og að fargjöld hafi ekki skilað sér í samræmi við þá áætlun sem lagt var upp með. Það má túlka sem svo að farþegum gæti verið að fækka og þar með forsendur samningsins við ríkið brostnar. Hinn 7. maí 2012 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir samkomulag um 10 ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur verkefnisins var að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og lækka samgöngukostnað. Einnig átti samningurinn að skapa forsendur til frestunar á stórum framkvæmdum í samgöngumannvirkjum með öflugri almenningssamgöngum sem draga átti úr vexti bílaumferðar á stofnbrautakerfinu á annatímum. Rétt er að minna á að samningurinn var til 10 ára og kostar ríkið 10 milljarða á þessu tímabili. Ríkið hlýtur því að endurskoða þennan samning í ljósi þessa sérstaklega vegna áherslna Vegagerðarinnar í uppbyggingu stofnbrauta í Reykjavík auk Sundabrautar/Sundagangna vegna öryggisjónarmiða.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Athygli vekur að innleiðing á breytingum á leiðarkerfi Strætó hefur skilað innan við 1% í auknum tekjum af fargjöldum, sem er samdráttur fargjaldatekna á föstu verðlagi. Gert var ráð fyrir 11% aukningu sem ekki gekk eftir. Á sama tíma aukast rekstrarútgjöld Strætó um 12%. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka afstöðu sína til þess að Reykjavíkurborg hafi fleiri en einn fulltrúa í stjórn Strætó. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Vel er haldið utan um rekstur Strætó bs. og er náið fylgst með öllum þáttum rekstrarins, fargjaldatekjum og kostnaðarþáttum, og stöðugt er leitast við að allar aðgerðir og framkvæmdir á vegum Strætó séu eins hagkvæmar og þjónustumiðaðar og kostur er. Nefna má endurnýjun vagna og nýtingu tækni við skipulagningu aksturs og innheimtu fargjalda. Í sex mánaða uppgjöri eru bæði fargjaldatekjur og rekstrarkostnaður lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Í upphafi árs ákváðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að bæta almenningssamgöngur með því að leggja af sumaráætlun Strætó, auka tíðni valinna leiða, lengja þjónustutíma og fara í tilraunaverkefni um næturstrætó. Öflugri og betri almenningssamgöngur eru hluti af því að breyta ferðavenjum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nú þegar er Reykjavík að ná markmiðum sínum um fjölda hjólandi vegfarenda sem sett voru fyrir árið 2030 og markmiðin um bættar og betri almenningssamgöngur munu nást í takt við aukna þjónustu og eflingu Strætó bs.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 23. ágúst 2018. R18010036

    Fylgigögn

  6. Fundadagatal borgarráðs - 2018-2022 R18080150

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 25 mál. R18080043

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R18080041

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 22. ágúst 2018 á umsókn um breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar, Hallarmúla, Ármúla og Vegmúla vegna lóðarinnar nr. 87við Ármúla, ásamt fylgiskjölum. R18080154

    Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er óskað eftir að byggja hæð sem er í sömu mænishæð og önnur nærliggjandi hús. Því er synjað með takmörkuðum rökstuðningi. Ekki er ljóst hvenær deiliskipulagsvinnu verður lokið á þessu svæði. Athygli vekur að deiliskipulag var ekki talið stöðva leyfisveitingu þegar breytingar hófust á Suðurlandsbraut 8 og 10 sem er á sama skipulagssvæði.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Múlarnir eru spennandi svæði og göturnar þar búa yfir mörgum kostum góðra borgargatna. Mikilvægt er að vel takist til í endurskipulagningu svæðisins svo kostir þess nýtist sem best, horft verði til svæðisins alls með tilliti til uppbyggingarmöguleika og umhverfisáhrifa. Stefnt er að því að vinna við rammaskipulag svæðisins hefjist í haust.

     

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 22. ágúst 2018 á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 47 við Bólstaðarhlíð, Háteigsskóli, ásamt fylgiskjölum. R18050097

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 22. ágúst 2018 á umsögnum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, dags. 13. júlí 2018 og skipulagsfulltrúa, dags. 18. ágúst 2018, um bréf Skipulagsstofnunar varðandi Bryggjuhverfi vestur, svæði 4, dags. 30. maí 2018, ásamt fylgiskjölum. R17120148

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 22. ágúst 2018 á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Saltvíkur á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R18030149

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 22. ágúst 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi íþróttasvæðis Víkings að Traðarlandi 1, ásamt fylgiskjölum. R18040069

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018, á synjun skipulags- og samgönguráðs frá 22. ágúst 2018 á umsókn um breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.171.5 vegna lóðanna nr. 7 og 9 við Vegamótastíg, ásamt fylgiskjölum. R18080161

    Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar 2018, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018 sem færður var í trúnaðarbók borgarráðs fram yfir afhendingu verðlaunanna sem fram fóru 28. ágúst sl.

    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vill gera athugasemd við liðinn Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2018. Það er áberandi og jafnvel sláandi að allar sex viðurkenningarnar að þessu sinni falla í skaut eigenda húsa á nánast sama svæðinu í borginni, miðborginni og eitt hús í Laugarneshverfi. Flokkur fólksins telur mikilvægt að í hvert sinn sem borgin veitir viðurkenningu af hvers lags tagi skal ávallt gæta jafnræðis. Á það skal bent að víða í úthverfum borgarinnar er verið að endurgera og endurnýja hús sem hefðu getað komið til greina við ákvörðun á fegrunarviðurkenningu borgarinnar. R18070090

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 24. ágúst 2018, varðandi stöðu og næstu skref starfshóps um hagkvæmt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur.

    -    Kl. 9:56 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum. R17100200

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 21. ágúst 2018, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 20. ágúst 2018 á reglum um barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, ásamt fylgiskjölum. R18040056

    Samþykkt.

    Arna Schram og Lára Aðalsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 24. ágúst 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 21. ágúst á auknu rekstrarleyfi leikskólans Mánagarðs, ásamt fylgiskjölum. R18080157

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  19. Fram fer umræða um stöðu hverfisráða að beiðni áheyrnarfulltrúa Miðflokksins. R18030194

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Allt skipulag meirihlutans hvað varðar hverfisráð Reykjavíkur er í molum. Vísað er í skýrslur og meirihlutasáttmála sem eru einungis orð á blaði. Ekkert er að marka yfirlýsingar um valddreifingu, samráð og eflingu úthverfa Reykjavíkur. Hverfaráðunum er haldið sofandi af þeim sem stjórna borginni enda hafa þau ekki verið lögð niður. Þetta er enn einn áfellisdómur yfir stjórnsýslu borgarinnar og fer þvert gegn 49. gr. um fastanefndir, ráð og stjórnir aðrar en borgarráð í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Fullyrt er að hverfaráðin séu enn til en nefndarmenn hafi verið leystir frá störfum þann 19. júní sl. og eru þau því mannlaus, nefndarmannalaus og stjórnlaus. Þetta fyrirkomulag er algjörlega fordæmalaust og algert einsdæmi í allri stjórnsýslu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hverfisráð Reykjavíkurborgar hafa ekki verið að störfum og verið haldið sofandi frá upphafi kjörtímabilsins. Ráðin hafa ekki verið formlega lögð niður. Þessi vinnubrögð eru ekki í anda góðrar og vandaðrar stjórnsýslu eða gagnsæis. Það er ekki nóg að tala um aukið íbúalýðræði á tyllidögum meðan á sama tíma er verið að skerða aðkomu íbúa að ákvörðunartöku um ýmis brýn hagsmunamál. Hvernig hverfa ráð?

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur fram að hverfisráðin verði endurskoðuð með skilvirkni, eflingu lýðræðis og bætt samstarf við íbúa að leiðarljósi. Á fyrsta borgarstjórnarfundi þessa kjörtímabils samþykkti borgarstjórn að fresta kosningum í öll hverfisráð Reykjavíkurborgar til áramóta 2018-2019 og jafnframt leysa sitjandi hverfisráð frá störfum. Skýrsla um framtíðarsýn fyrir hverfisráðin hefur verið í vinnslu og umsagnarferli. Endanlegar tillögur verða unnar á vettvangi mannréttinda- og lýðræðisráðs og lagðar fyrir borgarstjórn fyrir lok þessa árs. Á næsta fundi mannréttinda- og lýðræðisráðs er stefnt að því að skipa stýrihóp sem vinna mun málið áfram og skoða álitamál og mismunandi tillögur skýrslunnar í samráði við borgarbúa. Það er stefnt að því að þessari vinnu verði lokið í nóvember. Ekki var það talið lýðræðislegt ef borgarstjórn hefði einhliða tekið ákvörðun um hvernig skipa ætti í hverfisráðin og því er lögð áhersla á að vinna þetta í samráði við borgarbúa í hverfunum.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. ágúst 2018, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu starfshóps um endurskoðun gjaldskrár upplýsingatæknideildar og að það fyrirkomulag verði notað við fjárhagsáætlunargerð vegna ársins 2019. Skrifstofu þjónustu og reksturs og fjármálaskrifstofu verði falið að undirbúa tillögu um útfærslu á þessu breytta fyrirkomulagi. R18010361

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óskar Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 27. ágúst 2018 við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um svar um fjölda lóða sem úthlutað var á kjörtímabilinu, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. R18020068

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vísað er í svar sem barst í borgarráð um dagsetningu á skjali sem innihélt upplýsingar sem hefðu skipt mjög miklu máli í umræðunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar en hún fjallar um fjölda lóða sem hafði verið úthlutað á kjörtímabilinu fyrir leigu- og búseturéttaríbúðir. Skjalið var dagsett 11. maí er var fyrst kynnt á borgarráðsfundi fráfarandi borgarstjórnar þann 7. júní, þ.e. að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Í svarinu kemur fram að gleymst hefði að breyta dagsetningu bréfsins við frágang svarsins. Slíkt svar er mjög ótrúverðugt svo ekki sé meira sagt, en ef satt er er þá er þetta enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu Reykjavíkur. Almenningur og kjörnir fulltrúar eiga að geta treyst upplýsingum frá opinberum aðilum til hlítar og skipta réttar dagsetningar þar mestu máli.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins um viðbrögð Reykjavíkurborgar við nýjum persónuverndarlögum, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. R18070144

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 27. ágúst 2018, varðandi svar mannréttinda- og lýðræðisráðs, dags. 23. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um tillögu mannréttinda- og lýðræðisráðs um kynlaus salerni, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. R18070103

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að huga að því að auka aðgengi allra hópa að þjónustu borgarinnar til að tryggja að allir geti átt hér gott líf. Þessi breyting er liður í því, en mikilvægt var að fá fram pólitískan vilja ráðsins áður en málið yrði unnið áfram.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að færa Félagsbústaði aftur undir A-hluta, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst og 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18080064

    Tillagan er felld.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi starfs verið að reyna að koma því áleiðis til borgarmeirihlutans að hjá Félagsbústöðum er margslunginn vandi m.a. viðmótsvandi og viðhaldsvandi og er álit þetta byggt á þeim fjölmörgum kvörtunum sem borist hafa. Ein tillaga Flokks fólksins, sem lögð var fyrir borgarstjórn 19. júní og varðaði úttekt óháðs aðila á Félagsbústöðum s.s. leigusamningum og hvernig þeir eru kynntir leigjendum, hefur nú þegar verið felld af meirihlutanum. Tillagan um að borgin hefji þá vinnu að skoða með raunhæfum hætti hvort færa eigi Félagsbústaði aftur undir A-hluta borgarinnar hefur nú einnig verið felld. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst hann tala fyrir daufum eyrum meirihlutans og upplifir meirihlutann jafnvel vera meðvirkan með ástandinu enda hefur ekki verið tekið undir neinar ábendingar eða athugasemdir sem fram hafa verið lagðar í þessu sambandi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins væri ekki að vinna vinnuna sína ef hann hlustaði ekki á borgarbúa í þessu efni sem öðru. Fyrirtæki undir B-hluta borgarinnar á ekki að vera fjarlægt hvorki minnihlutanum né fólkinu sem það þjónar. Starf borgarfulltrúa felst m.a. í því að fylgjast með öllum borgarrekstrinum og hafa afskipti ef á þarf að halda og mun borgarfulltrúi halda áfram að gera það í þeirri von að tekið verði á vandanum fyrir alvöru og til framtíðar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins koma fram fullyrðingar sem standast ekki um stjórnun og rekstur Félagsbústaða. Ekki fæst séð hverju verður náð fram með að færa fyrirtækið undir A-hluta borgarinnar.

    Fylgigögn

  25. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2018 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Einnig er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. 30. ágúst 2018, og umsögn innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, dags. 27. ágúst 2018. R18070067

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 3.735 m.kr. og um 1.947 m.kr. betri en gert var ráð fyrir sem skýrist af hærri tekjum af sölu byggingarréttar á fyrri hluta ársins. Þetta sýnir að ramminn sem fjárhagsáætlun borgarsjóðs myndar um starfsemina stenst vel á fyrri hluta ársins. Sama má segja um samstæðuna í heild sinni. Þar er niðurstaðan í grunnrekstrinum fyrir fjármagnsliði 2.907 m.kr betri en áætlun gerði ráð fyrir en reiknaðir liðir gera heildarniðurstöðuna 115 m.kr. lakari en gert var ráð fyrir en sú fjárhæð er nánast innan skekkjumarka. Þetta sýnir styrka fjármálastjórn hjá borgarsjóði og fyrirtækjum í samstæðu borgarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í árshlutareikningi kemur fram að hækka þurfi leiguverð hjá Félagsbústöðum um 7% til viðbótar á árinu til að tryggja jafnvægi í sjóðstreymi árin 2018 og 2019 m.v. að verðbólguforsendur fjárhagsáætlunar standist. Samkvæmt frekari útskýringum er átt við 2% hækkun að auki við þá 5% hækkun á leiguverði sem hefur nýlega átt sér stað. Hlutverk Félagsbústaða er að leigja til tekjulágra einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Leigjendur innan Félagsbústaða eru nú þegar komnir að þolmörkum hvað varðar leigugreiðslur. Óásættanlegt er að viðkvæmur hópur almennings sé látinn standa undir slíkri hækkun. Í árshlutareikningi kemur einnig fram að útgjöld vegna langtímaveikinda námu alls um 357 m.kr. í grunnskólum, leikskólum og frístund og að gjaldfærð langtímaforföll í grunnskólum og leikskólum séu samtals 62 m.kr. umfram fjárheimildir á tímabilinu. Draga má þá ályktun að mikið álag sé á starfsfólkinu í þessum störfum og geta langtímaforföll m.a. átt sér stað vegna útkeyrslu og kulnunar í starfi. Það er deginum ljósara að hækka þarf lág laun á þessum starfsvettvangi, til að draga úr manneklu og álagi á starfsfólkið.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    1) Skuldir og skuldbindingar borgarsjóðs aukast um 4 milljarða milli ára á síðustu 12 mánuðum. Þar af aukast skammtímaskuldir um 3,4 milljarða. Þá minnkar handbært fé um 14,6 milljarða. 2) Það er ljóst að þessi skuldasöfnun borgarsjóðs í góðæri er ekki sjálfbær. Þessu þarf að snúa við og huga að lækkun skulda á meðan kostur er. 3) Þá vekur athygli að talin er þörf á að hækka gjaldskrá Félagsbústaða en undanfarin átta ár hefur bókfærður hagnaður vegna endurmats eigna verið 38 milljarðar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hækkun á leigu Félagsbústaða og engin áform uppi þar um. Reynist ástæða til mun borgin finna aðrar leiðir til að tryggja að uppbyggingaráætlun Félagsbústaða gangi eftir en rýri ekki fjárhag félagsins. Rétt er að rifja upp að samhliða þeirri hækkun sem ákveðin var á leigu hjá Félagsbústöðum á síðasta kjörtímabili voru sértakar húsnæðisbætur hækkaðar til að verja hag leigjenda, en þær breytingar nýtast einnig tekjulágum leigjendum á almennum markaði.

    Gísli Hlíðberg Guðmundsson og Sigurrós Ásta Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hátíðahöld í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. júní 2018, 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst og 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. Einnig er lögð fram umsögn menningar- og ferðamálasviðs, dags. 2. ágúst 2018 og umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2018 R18060020

    Borgarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Borgarráð samþykkir að standa fyrir hátíðahöldum og dagskrá þann 1. desember nk. í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands í samræmi við það sem fram kemur í framlögðum umsögnum menningar- og ferðamálasviðs og skóla- og frístundasviðs. Borgarráð fagnar því að skóla- og frístundasvið muni hvetja leikskóla- og grunnskóla borgarinnar til að halda daginn hátíðlegan og gera honum hátt undir höfði.

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  27. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi kaup og innflutning á húsnæði fyrir heimilislausa, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí og 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. ágúst 2018. R18070088

    Frestað.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um niðurskurð og hagræðingu fyrir fjárhagsáætlun 2019, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. júlí 2018 og 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018 og 54. lið fundargargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18070175

    Frestað.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn á ný hefur meirihlutinn í borgarstjórn ekki kjark til að ræða tillögur fulltrúa Miðflokksins um niðurskurð og hagræðingu hjá Reykjavíkurborg. Þeim er nú frestað í þriðja sinn þrátt fyrir gefin loforð um annað á síðasta fundi borgarráðs hinn 23. ágúst s.l. en þær hljóða svo: 1. Farið verði tafarlaust í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu. 2. Farið verði tafarlaust í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar. 3. Tekið verði tafarlaust upp ráðningarstopp í stjórnsýslu Reykjavíkur en lögbundinni þjónustu og grunnstoðum verði hlíft. 4. Dregið verði úr utanferðum kjörinna fulltrúa og embættismanna borgarinnar og skilagreinagerð fyrir hvers vegna ferð var farin. 5. Farið verði í bestun í öllum innkaupum borgarinnar og að a.m.k. 10% hagræðingu verði náð. 6. Allar þessar aðgerðir komi til með að liggja til grundvallar fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2019.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hækkun byggingarréttargjalds og aukið stofnframlag til félagslegra og óhagnaðardrifinna leigufélaga, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst og 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18060139

    Frestað.

    Fylgigögn

  30. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fréttatilkynningar séu sendar ráðamönnum og oddvitum flokka, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst og 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18080059

    Frestað.

    Fylgigögn

  31. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lengingu hljóðmanar við Kleppsveg, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. apríl 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. ágúst 2018. R18040212

    Frestað.

    Fylgigögn

  32. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um útvíkkun félagsstarfs félagsmiðstöðvarinnar Frosta, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. maí 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs frá 27. ágúst 2018. R18050226

    Frestað.

  33. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kynningu á viðhorfskönnunum B-hluta fyrirtækja í borgarráði, sbr. 65. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018. R18070145

    Frestað.

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráð samþykkir að tekið verði á bráðavanda í mönnun leikskóla og frístundaheimila. Nú eru 128 börn sem var lofað leikskólaplássi en hafa ekki fengið það vegna manneklu. Í upphafi skólaárs eru 1.354 börn sem ekki fá pláss á frístundaheimilum. Lagt er til að skóla- og frístundasvið leggi fram tímasetta áætlun um úrlausn þessara mála á næsta fundi borgarráðs. R18080060

    Frestað.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir að lögð verði fram afrit af samskipti milli óhagnaðardrifinna leigufélaga og borgarstjóra og formanns borgarráðs frá tímabilinu 1. júní-24. ágúst á næsta reglubundna fundi borgarráðs. R18080156

    Frestað.

  36. Lagt fram tölvubréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 28. ágúst 2018, varðandi tilnefningu Orkuveitunnar í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. R18060102

    Fylgigögn

  37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins:

    a) Hver er heildarkostnaður við upplýsingatækni hjá borginni? b) Hvernig skiptist sá kostnaður milli aðkeyptrar þjónustu og innri kostnaðar? c) Hvernig er þessi kostnaður í samanburði við almennan markað? R18010361

  38. rgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn í tengslum við svar við fyrirspurn um fjölda lóða sem úthlutað var á kjörtímabilinu:

    Breyttist svarið efnislega eftir 11. maí og ef svo var í hverju var sú breyting fólgin?

    Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi svar við fyrirspurninni: 

    Svarið er nei. Það breyttist ekki efnislega. Við bættist heildaryfirlit um stöðu uppbyggingarinnar, en ekki aðeins svör varðandi þær íbúðir sem væru í uppbyggingu á lóðum sem borgin hefði úthlutað.

    -    Kl. 12.12 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Valgerður Sigurðardóttir tekur sæti.  R18020068

  39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver er heildarkostnaðurinn við framkvæmdir við Birkimel? R18080186

  40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver var heildarkostnaðurinn við þrengingu og breytingar í Borgartúni? R18080187

  41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver var heildarkostnaður við þrengingu og breytingar á Grensásvegi? R18080188

  42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

    Hver var heildarkostnaður við þrengingu og breytingar Hofsvallagötu? R18080189

  43. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Á fundi með borgarstóra hinn 14. október 2016 og í framhaldinu birtist fréttatilkynning á vef Reykjavíkurborgar, (sjá: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_frettir/dagur_b_eggertsson_uppbygging_i_reykjavik_14okt2016.pdf voru kynnt uppbyggingaráform í Reykjavík) um stórkostleg uppbyggingaráform íbúðarhúsnæðis í Reykjavík. Þar kom fram að um 5.500 íbúðir væru í samþykktu deiliskipulagi, um 4.000 í skipulagsferli og 8.000 íbúðir í þróun. Hvað líður þessum áformum? R18080190

  44. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Reykjavíkurborg réð nýjan skrifstofustjóra yfir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem fer með málefni eignasjóðs Reykjavíkurborgar og vinnur að verkefnum á sviði atvinnuþróunar og uppbyggingar atvinnu og íbúðarhúsnæðis í borginni í byrjun júní sl. Hann hefur enn ekki hafið störf, hver er ástæða þess og hvenær er ætlunin að hann hefji störf? R18080192

  45. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvernig var ráðningarferli háttað við ráðningu skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar? R18080192

  46. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvenær var ákveðið að hætta að selja auglýsingar á strætisvagna? R18080193

  47. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hverjar voru heildartekjur á ári, síðustu 5 ár sem auglýsingar voru seldar á strætisvagna? R18080193

  48. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver er kostnaður fyrirtækisins á ári að merkja vagnana eftir að ákveðið var að hætta að selja auglýsingar? R18080193

  49. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver voru rökin fyrir því að hætta að selja auglýsingar á vagnana en halda áfram að selja auglýsingar á strætóskýli? R18080193

  50. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvað kostar að heilmerkja einn strætisvagn eins og t.d. gullvagninn? R18080193

  51. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hvað kostar að slagorðamerkja einn strætisvagn? R18080193

  52. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hver er hugmyndasmiðurinn að slagorðaherferðinni sem er núna í gangi á vögnum og vissu fulltrúar Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Álftaness og Mosfellsbæjar í stjórn Strætó bs. af þessari herferð? R18080193



  53. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Fulltrúi Miðflokksins í borgarstjórn, Vigdís Hauksdóttir, fer fram á að borgarritari og skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara biðji hana opinberlega afsökunar á aðdróttunum og röngum alvarlegum ásökunum sem birtust í fjölmiðlum í kjölfars héraðsdóms sem féll í máli fjármálastjóra Ráðhússins gegn skrifstofustjóranum í máli E-3132/2017.

    Frestað.

  54. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hver er núverandi staða í Reykjavík er varðar þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda? Hvað mörg börn eru á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings í leikskólum borgarinnar? Hvað mörg börn eru á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings í grunnskólum? R18080195

  55. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    a)Hversu margar íbúðir losnuðu hjá Félagsbúðstöðum á síðasta ári? b) Hver er ástæðan fyrir því að þær losna. c)Hversu langur tími líður að meðaltali frá því að íbúð losnar og þar til að hún er leigð út aftur? d)Hve margar íbúðir eru lausar núna (ágúst/september) hjá Félagsbústöðum e) Hvenær fara þær íbúðir sem eru lausar núna í útleigu? R18080196

Fundi slitið klukkan 12:30

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir