Borgarráð - Fundur nr. 5512

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 23. ágúst, var haldinn 5512. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:07. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Valgerður Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Hallur Símonarson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Björn Axelsson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Bjarni Þóroddsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 16. ágúst 2018. R18010016

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 13. ágúst 2018. R18010036

    Fylgigögn

  3. Lagðar fram fundargerðir skipulags- og samgönguráðs frá 17. og 22. ágúst 2018.

    B-hlutar fundargerðanna samþykktir. R18060192

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R18080041

    Fylgigögn

  5. Lögð fram leiðrétt bókun vegna styrkumsókna, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Samþykkt að veita styrk úr sjóði hverfisráðs Kjalarness vegna ljósmyndasamkeppni í tengslum við Kjalarnesdaga að upphæð 30.000 kr.

    Samþykkt að veita styrk úr sjóði hverfisráðs Kjalarness vegna gróðursetningu í Barnalundi á skólasvæðinu á Kjalarnesi að upphæð 7.000 kr. R18010041

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R18080043

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. ágúst 2018 á breytingu á deiliskipulagi fyrir reit 1.171.2, Laugavegar-Skólavörðustígsreitur, vegna lóðarinnar nr. 1 við Hallveigarstíg.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R18050098

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samönguráðs frá 15. ágúst 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 20-26 við Hlíðarenda.

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R18080098

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. ágúst á breyttum uppdráttum vegna nýs deiliskipulags fyrir Hraunbæ-Bæjarháls.

    Samþykkt. R17100473

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. ágúst 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum fyrir deiliskipulag Vesturlandsvegar Halla.

    Samþykkt.

    Kl. 9:38 víkur Björn Axelsson af fundinum. R18080097

    Fylgigögn

  11. Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. ágúst 2018, um umhverfismat tillögu að samgönguáætlun 2019-2033, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið ferð til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Þorsteinn Rúnar Hermannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Borgarráð tekur undir umsögn samgöngustjóra um skýrslu um mat á umhverfisáhrifum í drögum samgönguáætlunar ríkisins frá 2019-2033. Að mörgu er að hyggja bæði með tilliti til umhverfis- og lýðheilsuþátta og einnig vegna breyttra ferðamáta og orkuskipta í samgöngum til framtíðar sem leggja verður ríka áherslu á ef við ætlum að uppfylla metnaðarfull markmið um náttúru- og umhverfisvernd og í loftslagmálum.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Á síðustu átta árum hefur umferð í borginni þyngst til mikilla muna og hefur ferðatími lengst verulega. Meira er um lausagang bifreiða vegna tafa í umferð, en bifreiðar geta mengað mun meira við þær aðstæður. Þá hefur hlutfall almenningssamgangna haldist óbreytt þrátt fyrir skýr markmið um að hún tvöfaldist a.m.k. á tíu árum. Milljörðum hefur verið varið af vegafé til að tryggja að svo verði, en þrátt fyrir þessar árangurstengdu greiðslur hefur hlutfallið ekkert aukist. Það er því morgunljóst af framansögðu að framkvæmd stefnu Reykjavíkurborgar hefur ekki gengið upp. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og skýr mælanleg markmið hefur umferð versnað með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum að ótöldum vandamálum vegna tafatíma í umferð. Svifryksmengun er enn ítrekað yfir heilsufarsmörkum og dagsgildi NO2 geta verið mjög há. Mikilvægt er að samningi um framkvæmdastopp sem gerður var milli borgarinnar og ríkisins árið 2012 verði sagt upp, enda eru forsendur hans brostnar.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Lítil áhersla er lögð á uppbyggingu vegakerfis innan borgarinnar hvort sem um er að ræða götur á ábyrgð ríkis eða borgar og enginn sjáanlegur vilji til að leggjast á árar með ríkinu að bæta úr. Unnið er markvisst að því að útrýma einkabílnum úr borgarskipulaginu og ekki er tekið tillit til tilmæla Vegagerðarinnar um uppbyggingu vegakerfis borgarinnar sem kom fram í skýrslu sem ber heitið: „Vegir á höfuðborgarsvæðinu í umsjá Vegagerðarinnar Höfuðborgarsvæðið 2040 – Sýn Vegagerðarinnar – Júní 2018.“ Lýst er yfir miklum áhyggjum að ekki er gert ráð fyrir lagningu Sundabrautar en í skýrslunni segir um Sundabraut: „Þar til sátt hefur náðst við Reykjavíkurborg um legu og útfærslu Sundabrautar mun Vesturlandsvegur um Mosfellsbæ og Kjalarnes verða fyrsti kostur Vegagerðarinnar að stofnvegi A til norðurs frá höfuðborginni. Syðsti hluti Sundabrautar gæti létt á umferðarþunga í Ártúnsbrekku.“ Á öðrum stað segir um meginstofnvegi sem mynda hringtengingu innan höfuðborgarsvæðisins: „Sú hringtenging samanstendur af Fjarðarhrauni, Hafnarfjarðarvegi, Kringlumýrarbraut sunnan Miklubrautar og Miklubraut austan Kringlumýrarbrautar.“ Stjórnendur Reykjavíkurborgar líta ekki til nýrrar tækni í umhverfismálum og hafa gamaldags sýn í samgöngumálum eins og t.d. að taka ekki inn í áætlunina sjálfkeyrandi bíla, rafmagnsbíla og aðra nýja tækni sem kemur á næstu árum.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Bókanir minnihlutans lýsa yfirgripsmikilli vanþekkingu á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Umferð hjólandi hefur nú þegar náð hlutdeild sinni og gangandi vegfarendum fjölgar. Farþegum strætó fer sífellt fjölgandi þannig að markmið um minnkandi hlutdeild einkabíla til ársins 2030 munu nást.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins:

    Það er hafið yfir allan vafa að skjalfest markmið borgarstjórnarmeirihlutans hafa ekki náðst. Það markmið að almenningssamgöngur verði 8% hefur ekki náðst. Þvert á móti er það algerlega óbreytt í 4% þrátt fyrir samning við ríkið um annað. Svifryksmengun er enn óásættanleg og tafatími hefur aukist samkvæmt öllum tölulegum mælingum. Það lýsir því ákveðinni firringu að telja núverandi stöðu vera ásættanlega.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Ef bregðast á við loftslagsbreytingum af mannavöldum, auka loftgæði og lýðheilsu fólks, þá þarf að sýna ábyrgð sem endurspeglast í stefnumótun borgarinnar, m.a. í aðalskipulagi Reykjavíkur og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Það er hins vegar ábyrgðarlaust hjá fulltrúum Sjálfsæðisflokks í borgarráði, Flokki fólksins og Miðflokknum að tala fyrir íhaldssemi í samgöngumálum í borginni, lagningu fleiri mislægra gatnamóta og lagningu fleiri vega í borgarlandinu. Borgir um allan heim eru að reyna að stuðla að breyttum ferðamátum íbúa sinna. Það sýnir sameiginlega ábyrgð á því að draga úr m.a. útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem stuðla að hlýnun jarðar, súrnun sjávar, bráðnun jökla og öfgum í veðri. R16040160

  12. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 9. ágúst 2018, varðandi fyrirhugað eignarnám á landspildu úr landi Hofs og landspildu úr landi Króks á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. 

    Samþykkt. R16040181

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 18. maí 2018, sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs frá 14. maí 2018 á tillögu varðandi varðveiðslu menningarminja við Grímstaðarvör, ásamt fylgigögnum. Einnig eru lagðar fram umsagnir umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. júní 2018, og fjármálaskrifstofu, dags. 20. ágúst 2018.

    Vísað til frekari meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2019.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins:

    Grásleppuskúrarnir við Grímsstaðarvör eru elstu minjar um smábátaútgerð í Reykjavík. Skúrarnir og vörin hafa mikið gildi fyrir menningar- og atvinnusögu Reykjavíkur og því mikilvægt að vinna að varðveislu þeirra. Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt, hjá Hornsteinum arkitektum ehf., hefur unnið að uppdrætti með tillögum um nýtingu svæðisins ásamt því að gera deiliskipulagstillögu fyrir svæðið. Tillögurnar eru metnaðarfullar og auka möguleika á nýtingu skúranna og svæðisins í heild. Aukinheldur er saga smábátaútgerðar varðveitt og gerð góð skil. Þá er gert ráð fyrir útikennslustofum sem bæði grunn- og leikskólar borgarinnar geta nýtt auk þess sem þetta vinsæla og fjölfarna útivistarsvæði fær aukið gildi. R18050159

    Fylgigögn

  14. Fram fer kosning þriggja manna í endurskoðunarnefnd til fjögurra ára og þriggja til vara.

    Kosin eru af SCPV-lista (án atkvæðagreiðslu):

    Lárus Finnbogason

    Sigrún Guðmundsdóttir

    Kosinn er af D-lista (án atkvæðagreiðslu):

    Einar Hálfdánarson

    Varamenn kosnir með sama hætti.

    Kosin eru af SCPV-lista án atkvæðagreiðslu:

    Danielle Pamela Neben

    Ólafur Kristinsson

    Kosin er af D-lista (án atkvæðagreiðslu):

    Diljá Mist Einarsdóttir

    Formaður er kjörinn án atkvæðagreiðslu Lárus Finnbogason.

    Samþykkt.

    Vísað til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar. R18060102

  15. Lagt til að Alexandra Briem taki sæti í innkauparáði í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur.

    Vísað til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar. R18060105

  16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. ágúst 2018, þar sem erindisbréf samningateymis Reykjavíkurborgar í fjárhagslegum samskiptum við ríkisvaldið er lagt fram til kynningar. R18080084

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 20. ágúst 2018, þar sem erindisbréf matsnefndar um innsendar tillögur í alþjóðlegu samkeppninni Re-inventing Cities er lagt fram til kynningar. R17020198

    Fylgigögn

  18. Lögð fram tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 21. ágúst 2018, um flutning á halla og afgangi vegna ársins 2017, ásamt fylgiskjölum. R17100024

    Samþykkt.

  19. Lögð fram tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 21. ágúst 2018, um rammaúthlutun vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2019, ásamt fylgigögnum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afreiðslu málsins. R18010348 

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra, dags. 20. ágúst 2018:

    Lagt er til að borgarráð samþykki í tengslum við viðskiptavakt á skuldabréfaflokknum RVK 32 1 útgáfu á skuldabréfum í þeim flokki að nafnverði 320 m.kr. Þessi skuldabréf eru í eigu Reykjavíkurborgar og eru notuð í fyrirgreiðslu til handa viðskiptavökum ef þurfa þykir.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarsjóður hefur aukið skuldir sínar verulega síðustu ár þrátt fyrir langt hagvaxtarskeið og háar álögur á íbúa. Rétt er að snúa af þeirri braut og vinna að lækkun skulda sem nú hafa vaxið hratt.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Eins og kom fram í erindi fjármálastjóra felur tillaga um útgáfu í skuldabréfaflokknum RVK 32 ekki í sér aukningu skulda. Þá er staðreyndin sú að rekstur Reykjavíkurborgar gengur afar vel. Þannig var samstæðan, borgarsjóður og fyrirtæki borgarinnar, rekinn með 28 milljarða hagnaði árið 2017 og A-hluti sem er rekstur borgarinnar rekin með um 5 milljarða króna hagnaði. Á sama tíma og ársuppgjör sýna svo sterkar tölur, hefur verulega verið bætt í þjónustu á velferðarsviði og skóla- og frístundasviði og öllum gjaldskrám sem snúa að grunnþjónustu og þjónustu við fjölskyldur barna haldið í lágmarki. R16010094

    Fylgigögn

  21. Lögð fram minnisblöð sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði í ágúst 2018 og varðandi yfirlit aðgerða sem ætlað er að tryggja nægja mönnun í leikskólum borgarinnar haustið 2018, dags. 21. ágúst 2018. Einnig er lögð fram beiðni áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að umræða um manneklu á leikskólum verði tekin á dagskrá borgarráðs, dags. 16. ágúst sl.

    Helgi Grímsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Staða mönnunarmála í leikskólum er umtalsvert betri en á sama tíma í fyrra og er búið að ráða í 94% af öllum stöðugildum. Eftir er að ráða í 62 stöður í grunnmönnun, sem eru tæplega helmingi færri stöðugildi en á sama tíma í fyrra. Þá á eftir að ráða í 24 afleysingastöður en þá er rétt að halda til haga að 20 stöður hafa bæst við í leikskóla borgarinnar vegna fjölgunar undirbúningstíma. 31 leikskóli er fullmannaður og í 17 til viðbótar vantar 0,75-1,5 stöðugildi. 77% leikskóla í borginni eru því fullmannaðir eða vantar mest í eitt og hálft stöðugildi. Þá eru tölur um fjölda barna á biðlista þriðjungi lægri en á sama tíma í fyrra og laus pláss sem úthlutað verður í haust á leikskólum borgarinnar eru næstum tvöfalt fleiri. Sömuleiðis er mönnunarstaðan í grunnskólum umtalsvert betri en sl. haust, nú vantar að ráða í 33 stöðugildi í stað 58 fyrir ári. Í frístundinni hefur líka þokast í rétta átt frá því í fyrra, nú á eftir að ráða í 103 stöðugildi borið saman við 114 á sama tíma í fyrra. Þessar niðurstöður sýna að mikið og þétt samstarf stjórnenda, mannauðsdeildar sviðsins og skóla- og frístundaráðs er að skila árangri eins og kynnt var í ítarlegri samantekt á fundinum. Þar má nefna kynningarherferð um mikilvægasta starf í heimi, víðtæka markhópavinnu gagnvart háskólafólki og ungu fólki, bætt starfskjör o.m.fl.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins:

    Í minnisblaði um yfirlit aðgerða til að tryggja næga mönnun í leikskólum borgarinnar segir að liður í því að leitast við að vekja áhuga fólks á leikskólastarfi hafi verið auglýsingar undir yfirskriftinni „Langar þig að vinna með framtíð landsins?“ Þessum auglýsingum er beint að ófaglærðu starfsfólki í von um að það ráði sig til starfa og bjargi þar með leikskólum borgarinnar. Að baki er hins vegar ekki heill hugur. Þótt ófaglært starfsfólk haldi uppi leikskólunum er það með allra lægst launaða fólki landsins, býr við kjör sem duga vart fyrir framfærslu, ef fólk er á leigumarkaði hefur það enga möguleika til að láta enda ná saman. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á þessu tvennu; borgar allt of lág laun og hefur stuðlað að húsnæðismarkaði sem blóðmjólkar láglaunafólk. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins vill benda á að láglaunastefna borgarinnar og húsnæðisstefna hennar segir allt um hvernig Reykjavíkurborg hlúir að framtíð landsins. Linnulaus hagræðingarkrafa og niðurskurður veldur miklu álagi á starfsfólk og bætist ofan á stöðugar fjárhagsáhyggjur fólksins á lægstu laununum, til viðbótar við nagandi óvissu þeirra sem eru ofurseld andstyggilegum leigumarkaði. Aðgerðarleysið gagnvart grafalvarlegri stöðu þessa fólks segir allt um afstöðu Reykjavíkurborgar til framtíðar landsins, ekki auglýsingaslagorð, sem ætlað er að draga upp falska mynd.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Mannekla í leikskólum er ekki nýtt vandamál og því þykir það sérkennilegt að borgin hafi ekki geta tekið á því með mannsæmandi hætti fyrir löngu, byrgt brunninn áður en vandinn varð svo stór. Ýmsar tillögur að lausn liggja fyrir og margar sannarlega metnaðarfullar. Vetrarstarfið er nú hafið að nýju og enn vantar í margar stöður. Álagið sem þessu fylgir er ekki boðlegt börnunum og foreldrum þeirra hvað þá starfsfólki leikskólanna. Flokkur fólksins telur að borgin þurfi að ganga lengra til að staðan verði fullnægjandi og til þess þarf meira fjármagn í málaflokkinn. Vissulega er markaðssetning mikilvæg en hún kostar líka mikið fé. Einkum tvennt hlýtur að skipta hvað mestu máli og það eru launin annars vegar og álag hins vegar. Alltof lengi hefur borgin sýnt stétt leikskólakennara og starfsmönnum leikskólanna lítilsvirðingu að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar kemur að launamálum. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu. Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau skal borgin setja í forgang og til þess þarf borgin að veita enn meira fjármagni í þágu barna.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Ljóst er að enn á eftir að ráða í 61,8 stöðugildi í leikskólum borgarinnar miðað við grunnstöðugildi ásamt 22,5 stöðugildum sem vantar í afleysingu og enn eru 128 börn á biðlista eftir leikskólaplássi. Það vantar 33,4 stöðugildi í grunnskólum. Meira álag er á þeim starfsmönnum sem fyrir eru í þeim skólum þar sem mannekla er. Þá á enn eftir að ráða 211 starsmenn á frístundaheimili borgarinnar í 103,3 stöðugildi þegar skólarnir eru að hefja starfsemi sína. Því eru 1.354 börn sem ekki fá pláss á frístundaheimilum í upphafi skólaárs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins telja brýnt að brugðist verði við þessum vanda sem allra fyrst.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Hjá borginni er mikill metnaður að fjölga faglærðu fólki í leik- og grunnskólum og í frístundaheimilum og um leið að meta störf ófaglærðs starfsfólks og bæta kjör þess og starfsaðstæður eins og hjá öllu starfsfólki borgarinnar. Undanfarið hefur verið undið ofan af hagræðingakröfu síðari ára og verulegu fjármagni varið í þá málaflokka sem snúa að börnum og umhverfi þeirra og um leið hafa laun leik- og grunnskólakennara hækkað. Í samstarfssáttmála meirihlutans í borginni stendur að meirihlutinn ætlar að halda áfram að bæta starfsumhverfi í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum með því að bæta kjör starfsfólks, stytta vinnuvikuna, minnka álag, draga úr skriffinnsku og auka faglegt frelsi fólks. Eru það allt aðgerðir sem verða til þess fallnar að laða að hæft starfsfólk og skapa stöðugleika.

    Kl. 11:55 víkur Bjarni Þóroddsson af fundinum og Linda Sif Sigurðardóttir tekur sæti.

    Kl. 12:00 taka Berglind Magnúsdóttir og Agnes Andrésdóttir sæti á fundinum. R17090049

    Fylgigögn

  22. Lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 20. ágúst 2018, um erindi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. maí 2018, varðandi ákvörðun um áframhaldandi samstarf um rekstur sameiginlegrar ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Minnt er á tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 8. mars sl. í borgarráði, þar sem lagt var til að gerð yrði úttekt af óháðum aðilum á Ferðaþjónustu fatlaðs fólks í ljósi þeirra alvarlegu atvika sem komið hafa upp á undanförnum árum. Mikilvægt er að slík úttekt fari fram áður en til útboðs kemur. R18050082

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 20. ágúst 2018, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 17. ágúst 2018 á tillögu um fjárveitingu vegna undirbúnings á útboði á ferðaþjónustu fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Minnt er á tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 8. mars sl. í borgarráði, þar sem lagt var til að gerð yrði úttekt af óháðum aðilum á Ferðaþjónustu fatlaðs fólks í ljósi þeirra alvarlegu atvika sem komið hafa upp á undanförnum árum. Mikilvægt er að slík úttekt fari fram áður en til útboðs kemur.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Núverandi akstursamningar Strætó bs., við verktaka sem sinna akstri vegna sameiginlegrar ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, renna út í árslok 2019. Tryggja þarf að sveitarfélögin sem standa að þjónustunni geti tekið ígrundaða og yfirvegaða ákvörðun um framtíðar fyrirkomulag þjónustunnar. Meta þarf árangur samstarfsins og greina hvort æskilegt eða nauðsynleg sé að breyta núverandi fyrirkomulagi og umgjörð verkefnisins. Ferðaþjónusta fyrir fatlað fólks er mikilvæg þjónusta sem þarf að vera örugg, áreiðanleg og hentug fyrir notendur.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins:

    Þó að tillaga sviðsstjóra um fjárveitingu vegna undirbúnings á útboði á ferðaþjónustu fatlaðs fólks feli ekki endilega í sér endanlega ákvörðun um útboð, setur Sósíalistaflokkurinn athugasemd við hugmyndina um útboð þjónustunnar. Sósíalistar eru þeirrar skoðunar að Reykjavík eða Strætó bs. eigi að reka þessa þjónustu beint sjálf en ekki að bjóða verkefnið út. Þar er t.a.m. mikilvægt að tryggja að fastráðið starfsfólk sjái um þessa þjónustu í stað undirverktaka, til að tryggja sem besta þjónustu fyrir notendur.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins. R18050082

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 24. júlí 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi heimaþjónustu aldraðra, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní og 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. 

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Um er að ræða spurningu sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram sama dag og meirihlutinn skrifaði undir samstarfssáttmála. Nú fyrst í lok ágúst er svarið að berast, þegar sumri er að ljúka og ekki er hægt að segja að í því séu jákvæðar fréttir. Ljóst er að í þessu máli og öðru sambærilegu þarf borgin að sýna meiri fyrirhyggju enda ætti að vera búið að draga einhvern lærdóm af ástandinu sem varað hefur lengi. Það hljómar ekki trúverðugt að ekki sé hægt að leysa mannekluvandann í heimaþjónustu á sumrin. Sem dæmi hefði verið hægt að virkja afleysingafólk, sem áhuga hefur á að vinna hlutastörf eða koma á móts við starfsmenn með því að létta á álagi t.d. með breytingu á vaktatíma eða stytta vaktir án þess að skerða laun. Vert er að nefna líka að þegar borgarstjóri var spurður um þetta atriði í byrjun júní sagði hann að meirihlutinn hefði rætt lausnir á samningaferlinu um samstarf. Svar borgarstjóra er til á upptöku. Nú mörgum vikum síðar kemur svar um að ekki hafi tekist að ráða nægilega marga til starfa yfir sumarmánuðina til að mæta fullri þörf fyrir þjónustu.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Heimahjúkrun og heimaþjónusta er samþætt í Reykjavík og allt kapp lagt á að veita heildstæða og góða þjónustu. Erfitt hefur reynst að fullmanna heimahjúkrunarhlutann á sumrin og voru notendur þjónustunnar upplýstir um stöðuna í upphafi sumars og um leið að allra leiða yrði leitað til að tryggja að þjónusta yrði ekki skert. Starfsfólk forgangsraðaði og þar sem metið var að aðrir gætu veitt þjónustuna var sú leið farin. R18060220

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 13. ágúst 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um aðstöðu fyrir heimilislausa, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí og 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.  R18070088

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 13. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um skilgreiningu á félagslegri íbúð og einstaklingi sem er utangarðs, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. júlí 2018 og 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. R18070088

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 13. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samning Reykjavíkurborgar við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur og framkvæmd heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. júlí 2018 og 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins:

    Viðvarandi þjónustuskerðing á heimahjúkrun hefur verið yfir sumarmánuðina síðastliðin ár. Þessi þjónustuskerðing hefur haft þær afleiðingar að fólk sem tilbúið er til útskriftar af sjúkrastofnunum kemst ekki heim til sín en á meðan bíða sjúklingar eftir plássum sem skapar enn meiri vanda. Ríkið greiðir 1,3 milljarða árlega í málaflokkinn og samþætting heimaþjónustu og heimahjúkrunar átti að leiða til hagræðingar og betri þjónustu. Augljóst er að þessi markmið hafa ekki gengið eftir og þarf því að endurskoða stefnu um umönnun aldraðra í heimahúsum svo ekki komi til frekari skerðingar á þjónustu við þá.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Heimahjúkrun og heimaþjónusta hefur verið samþætt í Reykjavík frá árinu 2009 útfrá gildandi kröfulýsingu sem var endurskoðuð 2012. Þjónustan verður heildstæðari fyrir notendur, auknir möguleikar á að mæta þjónustuþörfum og hefur reynslan verið góð af þessu fyrirkomulagi. Tvisvar á ári er meðalviðbragðstími tekinn út og sýndi síðasta úttekt að viðbragðstími var langoftast innan skilgreindra tímamarka. Það hefur þó verið erfitt að manna að fullu þjónustuna að sumarlagi og eru allir hlutaðeigandi aðilar meðvitaðir um það og að ástæðurnar eru að fjármagn sem fylgir samningnum tryggir ekki sömu mönnun á sumrum og vetrum og hinsvegar að erfitt hefur reynst að ráða fagmenntað fólk yfir sumarmánuðina. R16010088

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 2. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um hvort einstaklingur þurfi að vera með tryggt búsetuúrræði til að eiga kost á meðferðarúrræðum, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018 og 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. R18070088

    Fylgigögn

  29. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á biðlista Félagsbústaða, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní 2018 og 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. Einnig er lögð fram umsögn velferðarsviðs með úttekt á biðlistanum, dags. 20. ágúst 2018.

    Samþykkt með vísan til umsagnar velferðarsviðs.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Greining biðlistans er góð og nauðsynleg enda þarf að greina allan vanda fyrst ef aðgerðir til lausna eiga að vera markvissar og skilvirkar. Flokkur fólksins lýsir undrun sinni yfir því að úttekt eins og þessi hafi ekki legið fyrir á árinu og að kalla hafi þurft sérstaklega eftir henni af stjórnarandsöðuflokki. Ástæðan fyrir spurningum 7-10 sem ekki var svarað í upphaflega svarinu var m.a. vegna þess að kvartanir hafa borist frá fólki sem segir að það viti ekki hvort það sé á biðlistanum eða ekki og hefur ekki getað fengið skýrar upplýsingar um það eftir því sem næst er komist. Greiningin almennt séð birtir sláandi upplýsingar. Umsækjendur eru í afar slæmri stöðu og sýnir það að fólk sækir um húsnæði er í mikilli neyð. Gera má því skóna að umsóknarskilyrði séu of íþyngjandi. Alvarlegast er að sjá hversu mörg börn er um að ræða á biðlistanum eða 418 börn. Fram kemur að 44% hafa íbúð en ekki er nánar skilgreint hvort það sé húsnæði sem fólkinu býðst að vera í yfir lengri tíma.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Lagðar eru fram greinargóðar og mikilvægar upplýsingar um fjölda fólks á biðlista eftir félagslegu húsnæði ásamt mati á þörf, kyn, aldur, fjölskylduhagi, fjölda barna, aldur barna, félagslega stöðu, atvinnustöðu, húsnæðisstöðu, biðtíma eftir húsnæði og skiptingu á milli þjónustumiðstöðva.

    Kl. 12:46 víkja Berglind Magnúsdóttir og Agnes Andrésdóttir af fundinum.  R18060223

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 14. ágúst 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi kostnað vegna bílstjóra borgarstjóra, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018 og 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins og Miðflokksins:

    Í svari borgarstjóra um kostnað vegna bílstjóra borgarstjóra kemur fram að ekki sé haldið sérstaklega utan um ferðir borgarstjóra og þar af leiðandi ekki hægt að setja fram nákvæmar upplýsingar um kostnað vegna aksturs hans, þar sem það sé hluti af starfsskyldum bílstjóra. Skiljanlegt er að umfangið sé breytilegt dag frá degi líkt og fram kemur í svari en eðlilegt væri að eitthvað utanumhald væri um ferðir og kostnað í ljósi gagnsæis í opinberri stjórnsýslu. Ekki ætti að vera erfitt að áætla kostnað með tilliti til keyrðra kílómetra og bensínverðs.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Eins og segir í svari þá er ekki haldið sérstaklega utan um ferðir borgarstjóra og þann kostnað sem fer í að aka um með borgarstjóra í einkabíl reknum af borginni. Í svarinu eru engar kostnaðartölur birtar. Það er að mati borgarfulltrúa ekki ásættanlegt. Borgarbúar eiga rétt á sundurliðun á starfi bílstjóra á skrifstofu borgarstjóra og er óskað eftir þeim upplýsingum í meðfylgjandi fyrirspurn.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Til ársins 2011 voru tvö stöðugildi bílstjóra sem annars vegar óku um með borgarstjóra og hins vegar forseta borgarstjórnar. Nú starfar aðeins einn bílstjóri í Ráðhúsinu sem meðal annars keyrir borgarstjóra til embættiserinda en stór hluti dagsins fer í önnur erindi á vegum Ráðhússins, svo sem boðsendingar og póstsendingar innan og utan kerfis. Innan borgar má helst nefna reglulegan akstur fyrir Barnavernd Reykjavíkur, allar þjónustumiðstöðvar borgarinnar, embætti borgarlögmanns, gjaldkera Reykjavíkurborgar sem og Ráðhúsið allt. Í samanburði er því kostnaður vegna bílstjóra óverulegur. R18070034

    Fylgigögn

  31. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 14. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna opinna funda borgarstjóra sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018 og 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

    Í svari borgarstjóra við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um opna fundi borgarstjóra kemur fram að ekkert verkbókhald sé haldið á skrifstofunni og því ekki unnt að svara fyrirspurninni um kostnað við fundina með fullnægjandi hætti. Það er löngu orðið tímabært hjá Reykjavíkurborg að greina hversu tímafrek einstök verkefni eru, sérstaklega í ljósi þess hversu mjög stöðugildum hefur fjölgað. Í því sambandi má nefna að kostnaður við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara hefur vaxið úr 157 milljónum í 800 milljónir árlega á síðustu átta árum. Árið 2016 samþykkti borgarstjórn tillögu Sjálfstæðisflokks að tekin yrði upp sú meginregla að nýta verkbókhald til að fylgjast með kostnaðarþróun verkefna. Tillögunni var vísað til borgarráðs en þar kom borgarstjóri með breytingartillögu sem fól í sér að verkbókhald yrði gert að tilraunarverkefni. Tillagan fól m.ö.o. í sér að það yrði undantekning hverjir héldu slíkt bókhald. Nú kemur það á daginn hversu mikilvægt það er að halda slíkt bókhald og að það sé gert að meginreglu eins og tillaga sjálfstæðismanna, sem samþykkt var í borgarstjórn árið 2016, fól í sér. Starfsfólk, stjórnendur og kjörnir fulltrúar þurfa að hafa góða yfirsýn. Þannig má gera betri áætlanir, taka betri ákvarðanir og álag á starfsfólk kemur í ljós. Enn fremur verður stjórnsýslan skilvirkari og gagnsærri.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Opnir fundir borgarstjóra á síðasta kjörtímabili voru afar vel sóttir. Þar var upplýsingum miðlað um hverfin, um uppbyggingu í borginni, húsnæðismál, loftslagsmál, samgöngumál og öll þau brýnu verkefni sem eiga sér stað í borginni hverju sinni. Aldrei hafa verið haldnir fleiri opnir fundir þar sem borgarstjóri býður upp á milliliðalaust samtal við borgarbúa um þau mál sem brenna á íbúunum. R18030183

    Fylgigögn

  32. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. ágúst 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna aðkeyptrar þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga vegna eineltismála, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018 og 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Kostnaður aðkeyptrar þjónustu sálfræðinga vegna eineltismála síðastliðin 5 ár er rúmlega 11 milljónir. Þetta er gríðarhá upphæð sem kallar á skoðun þessara mála í grunninn. Spurningar vakna af hverju svo mörg mál hafi þurft að fara í vinnslu hjá sjálfstætt starfandi aðilum í stað þess að vera unnin af eineltisteymi og mannauðsdeild borgarinnar. Í borginni er fjöldi fyrirtækja og stofnanna. Að vísa máli til úrvinnslu hjá sjálfstætt starfandi aðila ætti einungis að koma til í algerum undantekningum. Í málum þar sem tengsl eru of mikil ætti í flestum tilfellum að vera hægt að skipta út aðila í eineltisteyminu og kalla inn varamann/-menn. R18070035

    Fylgigögn

  33. Lagt fram svar starfsmannastjóra, dags. 13. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um kynningu á viðhorfs- og starfsánægjukönnun B-hluta fyrirtækja, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018 og 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. R18070145

    Fylgigögn

  34. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. ágúst 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um staðsetningu spennistöðvar við Dalskóla, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. maí 2018 og 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að gerðar verði nauðsynlegar mælingar á rafsegulsviði við spenni- og dælustöð í Dalskóla á álagstímum. Komi í ljós í mælingum að rafsegulsvið sé yfir 200 nanótesla þar sem snertiflötur er við börn verður að gera viðeigandi ráðstafanir líkt og að flytja umrædda spenni- og dælustöð í örugga fjarlægð frá skólabyggingunni. Þar sem rannsóknir hafa sýnt að rafsegulmengun yfir 200 nanótesla eykur líkur á alvarlegum sjúkdómum.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Á liðnum árum hafa Geislavarnir ríkisins gert margar mælingar á segulsviði spennustöðva, m.a. í Reykjavík. Kannaðar voru um 140 íbúðir aðallega í Reykjavík til að kortleggja styrk segulsviðs. Engin dæmi fundust um aukið segulsvið í íbúðarhúsnæði vegna nálægra háspennulína eða spennustöðva. Eru alþjóðleg viðmiðunarmörk fyrir almenning um 100 µT sem er margfalt hærra en hæsta gildi sem Geislavarnir ríkisins hafa mælt. Sem dæmi má nefna að þétt upp við spennustöð mælist segulsvið vel innan við 10 µT og í 4-6 metra fjarlægð frá henni mælist ekki aukið segulsvið. R18050147

    Fylgigögn

  35. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminni fólk, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráð frá 31. júlí 2018. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 21. ágúst 2018.

    Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að vísa tillögunni frá með vísan til þess fram kemur í umsögn fjármálaskrifstofu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Árið 2016 voru samþykkt lög um almennar íbúðir og reglugerð um stofnframlög. Sú löggjöf gerði sveitarfélögum og ríki kleift að koma með stofnframlög inn í uppbyggingarverkefni til húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni í þeim tilgangi að geta boðið upp á lægri leigu. Nú þegar eru hundruð slíkra íbúða í uppbyggingu í samvinnu við ólík uppbyggingarfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Samkvæmt húsnæðisáætlun Reykjavíkur sem lögð var fram endurskoðuð í borgarráði í mars sl. kom fram að staðfest áform um uppbyggingu án hagnaðarsjónarmiða til ársins 2022 nema 1.000 íbúðum í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, 1.340 stúdentaíbúðir, 450 búseturéttaríbúðir, 450 íbúðir eldri borgara, yfir 100 hjúkrunarrými og 200 sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk auk 700 íbúða Félagsbústaða til ársins 2022. Það kerfi sem sett hefur verið upp og staðfest með lögum um almennar íbúðir er að ná markmiðum sínum með stofnframlögum ríkisins og borgarinnar. Ekki fæst séð hvað næst fram með því að setja upp annarskonar húsnæðiskerfi þegar hitt er aðeins tveggja ára gamalt.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    FF harmar að þessi tillaga hafi ekki fengið frekari skoðun hjá meirihlutanum. Svo virðist sem borgin telji nóg gert eða áætlað í húsnæðismálum samkvæmt upptalningu í umsögn fjármálaskrifstofu og meirihlutans og því óþarfi að leggja drög að nýjum hlutum eins og mögulegri samvinnu eða samtarfi við lífeyrissjóði. Einhverjir þeirra hafa síðustu ár verið að taka á hendur fjölbreyttari verkefni, jafnvel samfélagsverkefni. Í tillögunni fólst að eiga frumkvæði að samtali, borgin með lóðir og lífeyrissjóðirnir með fjármagn. Auðvitað er það ákvörðun sjóðanna hvort þeim hugnast verkefni eins og hér um ræðir, hvort þeir hafi yfir höfuð áhuga á að leita leiða til að bæta aðbúnað sjóðsfélaga sinna hvað húsnæðismál varðar. Leiguíbúðir á viðráðanlegu verði myndu gjörbylta kjörum margra sjóðsfélaga auk þess sem lengi hefur verið vitað að fjárfesting í steypu er góð fjárfesting. Hér hefði því verið kjörið tækifæri fyrir borgina að hugsa út fyrir boxið og sjá hvar ný tækifæri kunna að liggja fyrir fólkið í borginni. Hvað varðar löggjafann telur Flokkur fólksins að á þessu upphafstigi sé óþarfi að ætla að hann komi til með að verða óyfirstíganleg hindrun.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    “Staðfest áform” eru aðeins áform. R18070088

    Fylgigögn

  36. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi kaup og innflutning á húsnæði fyrir heimilislausa, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. ágúst 2018.

    Frestað. R18070088

    Fylgigögn

  37. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um rekstrarúttekt á Félagsbústöðum, sbr. 42. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. júní 2018 og 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn innri endurskoðunar, dags. 16. júlí 2018, og umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 17. júlí 2018.

    Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að vísa tillögunni frá með vísan til þess fram kemur í umsögn fjármálaskrifstofu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Frá árinu 2008 hefur fjöldi úttekta verið gerður á Félagsbústöðum sem lúta að flestum þeim atriðum sem um getur í tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins. Ekki fæst séð hvað muni nást fram með annarri úttekt á Félagsbústöðum hvers eini tilgangur er að standa faglega að rekstri og uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir borgarbúa sem eru í brýnni þörf fyrir húsnæði. Þá er bent á að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hefur annast úttektir á rekstri Félagsbústaða frá árinu 2008. Árið 2012 var gefin út skýrsla innri endurskoðunar: Félagsbústaðir hf., Úttekt á rekstri, stjórnarháttum og hlutverki, sem fylgt hefur verið eftir allt til ársins 2018.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum yfir að þessi tillaga er felld. Hér er verið að biðja um óháða úttekt og er verið að biðja um að fleiri atriði verði skoðuð sem ekki hafa verið skoðuð áður. Flokkur fólksins bað ekki um umsagnir fjármálastjóra og innri endurskoðanda á þessari tillögu heldur óskaði eftir að óháður aðili fengi verkefnið beint. Bókað var sérstaklega um óánægju með þessa ákvörðun borgarráðs á fundi borgarráðs fyrr í sumar. Þær „umsagnir“ sem hér eru birtar styrkja enn frekar mikilvægi þess að fá óháðan aðila til verksins. Með því að fella þessa tillögu læðist að sá grunur að hræðsla sé við að hleypa óháðum aðila að verkinu. Vandi Félagsbústaða er margþættur og alvarlegur, vandi sem ekki hefur verið tekið á með markvissum hætti. Meirihlutinn getur ekki endalaust neitað að horfast í augu við það ástand sem fjölmargir notendur fyrirtækisins hafa lýst. Margir skjólstæðingar Félagsbústaða eru að sligast undir allt of hárri leigu og fjölmörg dæmi eru um að húsnæði Félagsbústaða sé heilsuspillandi vegna skorts á viðhaldi. Skjólstæðingar Félagsbústaða eiga rétt á að gerð verði óháð úttekt frá aðilum sem ganga til verks með það fyrir augum að kanna með hlutlausum hætti hvort að þær fjölmörgu kvartanir sem komið hafa eigi við rök að styðjast.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Rétt er að ítreka að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er óháður aðili. R18060131

    Fylgigögn

  38. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hátíðahöld í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. júní 2018 og 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. Einnig er lögð fram umsögn menningar- og ferðamálasviðs, dags. 2. ágúst 2018.

    Frestað. R18060020

    Fylgigögn

  39. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um könnun á umfangi útvistunar og áhrifum hennar á kjör launafólks, sbr. 48. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. júní 2018.

    Frestað.  R18060137

    Fylgigögn

  40. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg verði með tvo fulltrúa í stjórn Sorpu bs., sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.

    Frestað. R18070134

    Fylgigögn

  41. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á asbesti í stofnunum borgarinnar, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 2. ágúst 2018.

    Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að fella tillöguna með vísan til þess sem fram kemur í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun.

    Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum leikskólans Drafnarborgar líkt og bent hefur verið á þegar mál um asbest voru rædd árið 2016 í skóla- og frístundaráði. Skv. starfsfólki leikur grunur á að á leikskólanum Drafnarborg sé asbest í klæðningu innveggja og starfsfólki uppálagt að ekki megi negla í veggi vegna þessa. Þannig er nauðsynlegt að farið verði í fyrirbyggjandi aðgerðir á leikskólanum og gengið sé þar úr skugga um að ekki leynist efni sem geta valdið starfsfólki og nemendum skaða. Mikilvægt er að tryggt sé að skaðleg efni líkt og asbest séu ekki að finna í húsnæði sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ef svo er þá þarf að meta hættuna á mögulegri mengun og grípa til viðeigandi úrræða í samráði við sérfræðinga til að tryggja að hvorki börn né starfsmenn verði fyrir mengun.

    Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Hættan við asbest er mest þegar hróflað er við því og þegar það er rifið niður. Ef asbest er látið vera og það er óskemmt og óraskað þá hefur það ekki heilsuspillandi áhrif. Ef það á að kortleggja asbest í húsnæði í eigu borgarinnar þyrfti að ráða til þess sérfræðinga og rýma húsnæðið á meðan á leit stæði yfir. Myndi það valda verulegu raski á starfsemi borgarinnar, miklum útgjöldum og skapa áhyggjur og ótta meðal fólks og jafnvel meiri hættu en áður. R18070075

    Fylgigögn

  42. Lögð fram að nýju svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Nú er svo komið að stór hópur innflytjenda í Reykjavík hefur einangrast félagslega og menningarlega. Komið hefur fram að 70% af Fellaskóla eru börn innflytjenda og að aðeins 5 börn með íslensku að móðurmáli hefji skólagöngu í Fellaskóla í haust. Gera má því skóna að fjölmargir innflytjendur hafi þar af leiðandi ekki náð að tengjast borgarsamfélaginu og blandast því með eðlilegum hætti. Ekki er að sjá að borgin hafi undanfarin ár mótað skýra stefnu um hvernig forða skuli innflytjendum frá því að einangrast eins og nú hefur gerst. Það er ljóst að þessi staða hefur verið að þróast í mörg ár og hefur borgarmeirihlutinn flotið sofandi að feigðarósi og ekki gætt þess að innflytjendur hafi blandast samfélaginu í Reykjavík nægjanlega vel, hvorki menningarlega né félagslega. 1. Hvernig ætlar borgin að rjúfa einangrun innflytjenda í Fellahverfi? 2. Hvernig ætlar borgin að bregðast við menningarlegri og félagslegri einangrun þeirra sem þar búa, bæði til skemmri og lengri tíma. 3. Hvernig hyggst borgin ætla að standa að fræðslu og hvatningu til að innflytjendur geti með eðlilegum hætti blandast og samlagast íslensku samfélagi í framtíðinni?

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundasviðs.  R18080052

    Fylgigögn

  43. Lögð fram að nýju svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Óskað er eftir upplýsingum um hver fól umhverfis- og skiplagssviði að gera myndband í aðdraganda borgarstjórnarkosninga um Miklubraut í stokk.

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.  R18040211

    Fylgigögn

  44. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    1. Lagt er til að öllum erindum frá borgarbúum sem berast sviðum, ráðum, borgarfulltrúum og starfsmönnum Ráðhússins verði svarað innan 14 daga, ýmist með stuttu svari um móttöku eða efnislega. Í svari um að skeytið hefur verið móttekið komi fram að efnislegt svar berist eins fljótt og auðið er. 2. Lagt er til að fyrirspurnum sem borgarfulltrúar leggja fram á fundum ráða eða nefnda sé svarað innan 20 daga. 3. Lagt er til að mál (tillögur) borgarfulltrúa séu afgreidd innan mánaðar frá því að málið er lagt fram og komi þá aftur á dagskrá. 4. Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál eftir því hverjir eru málshefjendur þeirra. Um er að ræða yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og önnur mál sem borgarfulltrúar leggja fram í borgarráði, borgarstjórn eða á nefndarfundum. Í yfirlitinu skal tiltekið á hvaða stigi málið er eða hvernig afgreiðslu það hefur fengið. Yfirlitið skal uppfært mánaðarlega og birt á heimasíðum borgarfulltrúa á ytri vef borgarinnar.

    Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það sætir furðu að meirihlutinn hafi ekki vilja til að auka gagnsæi mála borgarfulltrúa með því að setja málin inn á vef borgarinnar þannig að borgarbúar geti fylgst með hvaða mál hafa verið lögð fram og afdrif þeirra. Eins hafnar borgarmeirihlutinn að auka skilvirkni sem dæmi hafa ákveðinn tímaramma hvað varðar fyrirspurnir og afgreiðslu mála. Einhverjir tímarammar eru en þeir eru langt því frá að vera virtir. Í borginni gengur margt afar hægt. Bíða þarf lengi eftir svörum fyrirspurna og afgreiðsla mála getur tekið margar vikur. Það fyrirkomulag sem nú ríkir er óásættanlegt og ekki í samræmi við góða og gagnsæja stjórnsýslu. Horfa má til Alþingis hvað þessi atriði varðar og læra af þeim. R18080053

    Fylgigögn

  45. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Lagt er til að inntökuskilyrði í Klettaskóla verði endurskoðuð og í stað greina 1 og 2 þar sem segir: „Innritun í Klettaskóla. 1. Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með: miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun“ skal koma einungis: „Klettaskóli er sérskóli sem ætlaður er börnum með sérþarfir vegna þroskahömlunar. Umsóknir eru metnar í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann.“

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.  R18080048

    Fylgigögn

  46. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Félagsbústaðir eru fyrirtæki undir B-hluta borgarinnar. Vandi Félagsbústaða er mikill og fyrir liggur tillaga Flokks fólksins um að óháður aðili geri fjölþætta úttekt á fyrirtækinu. Fjölmargar kvartanir liggja fyrir um m.a. skort á viðhaldi eigna, ofurhárrar leigu og margt fleira sem snýr að stjórnun, rekstri og launamálum. Það er mat Flokks fólksins að það sé eitthvað mikið að hjá Félagsbústöðum og er lagt til að borgin hefji þá vinnu að skoða með raunhæfum hætti hvort færa eigi þetta fyrirtæki aftur undir A-hluta borgarinnar undir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til að reyna að gera borgina heildstætt kerfi í stað sundurlausra eininga sem jafnvel stríða innbyrðis. R18080064

    Frestað.

    Fylgigögn

  47. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Lagt er til að foreldrar/aðstandendur grunnskólabarna verði spurðir hvort þeir telji þörf á fleiri sérskólaúrræðum, frekari úrræðum innan núverandi skóla eða blöndu af hvoru tveggja. Spurningin gæti verið með fimm svarmöguleikum með miðju og jafnmörgum neikvæðum og jákvæðum svörum: 1. Átt þú barn sem þarf á sérstökum stuðningi að halda í skóla (vegna vísbendinga/greiningar um lesblindu, sértæka námserfiðleika eða frávika í vitsmunaþroska; raskana t.d. ADHD, asperger eða einhverfuróf og/eða annarra tilfinninga-, hegðunar og félagslegra vandamála) 2. Ég tel að fjölga þurfi sérskólaúrræðum (t.a.m. fyrir börn með þroskahamlanir sbr. úrræði eins og Klettaskóla og sérdeildir með sérhæft hlutverk vegna barna með miklar sérþarfir í námi, meðal annars vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála) mjög ósammála; frekar sammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. 3. Ég tel að fjölga þurfi úrræðum innan núverandi skóla til að styrkja stefnuna um skóla án aðgreiningar. Mjög ósammála; frekar sammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. Mikilvægt er að skoðanir barnanna sjálfra nái fram í umræðuna. Þar væru viðtöl og vettvangsheimsóknir gagnleg leið til að safna upplýsingum.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. R18080050

    Fylgigögn

  48. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Lagt er til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn. Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. R18080049

    Fylgigögn

  49. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Lögð er til aukin og þéttari samvinna og samstarf milli sviða. Nýlega var stofnaður stýrihópur sem hefur það markmið að móta heildstæða stefnu um þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem vegna veikinda eða annarra orsaka þarfnast fjölþættrar aðstoðar, þ. á m. þaks yfir höfuðið. Fjölmargir einstaklingar hafa lengi verið í húsnæðisvanda og enn öðrum bíður gatan eða vergangur næstu mánuði. Á þessu þarf að finna lausn hið fyrsta. Í stýrihópinn hefur nú þegar verið vísað tillögum að húsnæðisúrræðum sem kalla á lóðarstaðsetningu eða ákvörðun um að kaupa íbúðir/eignir. Það er þess vegna lagt til að strax frá upphafi komi til náins samstarfs og samvinnu við þau svið sem nauðsynlega þurfa að koma að þessum málum svo sem skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem annast kaup á sértæku húsnæði og átaksverkefnum og umhverfis- og skipulagssvið sem útvegar lóðir og sér um skipulag (smáhýsi, búsetukjarnar). Takist viðkomandi sviðum að vinna að lausn húsnæðisvandans í Reykjavík í sameiningu má gera því skóna að framkvæmdir taki skemmri tíma en ella.

    Vísað til meðferðar velferðarráðs. R18080054

    Fylgigögn

  50. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg hækki byggingarréttargjaldið úr 45 þúsund krónum á fermetra upp í 53 þúsund krónur á fermetra og nýti umfram innkomu til þess að tvöfalda stofnframlag borgarinnar til félagslegra íbúða og íbúðaruppbyggingar á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Með því að hækka byggingarréttargjaldið almennt, þá er í raun verið að skattleggja verktaka og lóðabraskara sem leitast við að hagnast á byggingu hótelíbúða fyrir ferðamenn eða á sölu lúxusíbúða. Hækkun byggingarréttargjaldsins almennt myndi því fjármagna aukið stofnframlag borgarinnar til íbúða sem eru ætlaðar hinum efnahagslega verr stöddu. Þannig væri verið að eyða verðhækkandi áhrifum byggingarrétttargjaldsins á félagslegar íbúðir og íbúðir í óhagnaðardrifnum leigufélögum. Til að gefa dæmi um hvernig þessi breyting kynni að líta út má taka ímyndað dæmi. Ef 25% nýrra íbúða eru innan félagslega kerfisins og þær eru almennt minni en þær íbúðir sem byggðar eru á hinum óhefta markaði, til dæmis 50% minni að meðaltali, þá mætti fella út verðáhrif byggingarréttargjaldsins á félagslegar íbúðir með því að hækka gjaldið á aðrar íbúðir úr 45 þúsund krónum í 53 þúsund krónur á fermetra.

    Frestað.  R18060139

    Fylgigögn

  51. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 58. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar líkt og fram kemur í hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“ (e. housing first) sem borgarstjórn hefur leitast við að leggja mikla áherslu á í vinnubrögðum sínum. Án öruggs húsnæðis aukast líkur á að aðrir þættir bresti og húsnæðisleysi getur því leitt til aukins félagslegs vanda. Samkvæmt tölum frá því fyrr á árinu eru 259 barnafjölskyldur, aðallega einstæðar mæður, með 418 börn, á biðlista eftir félagslegri íbúð. Neyðin er mikil og því er lagt til að borgarráð samþykki að auka fjárframlög til velferðarsviðs sem þarf á auknu fjármagni að halda til að mæta vanda þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri íbúð. Lagt er til að borgarráð samþykki að auka fjárframlög til þess kostnaðar sem nemur a.m.k. 50 íbúðum með sér salerni og eldunaraðstöðu sem verði keyptar eða teknar á leigu. Lagt er til að þær íbúðir verði dreifðar um borgina. Slík búseta skal hugsuð sem tímabundin fyrir þær fjölskyldur sem eru á biðlista eftir félagslegri íbúð. Áhersla er lögð á að þetta húsnæði sé hugsað fyrir einstæða foreldra, með áherslu á einstæðar mæður, sem eru í meirihluta einstæðra foreldra á biðlista. Efni þessarar tillögu eru fyrstu aðgerðir í þessum málaflokki og nauðsynlegt er að meta þörf fyrir frekari aðgerðir að þessum áfanga loknum.

    Vísað til meðferðar velferðarráðs. R18080056

    Fylgigögn

  52. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 59. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar líkt og fram kemur í hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“ (e. housing first) sem borgarstjórn hefur leitast við að leggja mikla áherslu á í vinnubrögðum sínum. Án öruggs húsnæðis aukast líkur á að aðrir félagslegir þættir bresti og húsnæðisleysi getur því leitt til aukins félagslegs vanda. 985 voru á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði í júlí 2018 og af þeim voru 72% einstaklingar eða 452 karlar og 260 konur. 150 voru skráðir án fastrar búsetu. Neyðin er mikil og því er lagt til að borgarráð samþykki að auka fjárframlög til velferðarsviðs sem þarf á auknu fjármagni að halda til að mæta vanda þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri íbúð. Lagt er til að borgarráð samþykki að auka fjárframlög til þess kostnaðar sem nemur a.m.k. 40 herbergjum með sér salerni og eldunaraðstöðu, sem verði keypt eða tekin á leigu. Slík búseta skal hugsuð sem tímabundin fyrir þá einstæðinga sem eru á biðlista eftir félagslegri íbúð og eru hvorki eftirlaunafólk, lífeyrisþegar né öryrkjar. Hér er því að miklu leyti um að ræða ungt fólk. Lagt er til að leitast sé við að hafa herbergin í húsnæði eða heimilum dreifðum um borgina en kynjaskipt ef í sama rými, með áherslu á úthlutun til karlmanna sem eru stór meirihluti þeirra á biðlista. Efni þessarar tillögu eru fyrstu aðgerðir í þessum málaflokki og nauðsynlegt er að meta þörf fyrir frekari aðgerðir að þessum áfanga loknum.

    Vísað til meðferðar velferðarráðs. R18080056

    Fylgigögn

  53. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 60. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar líkt og fram kemur í hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“ (e. housing first) sem borgarstjórn hefur leitast við að leggja mikla áherslu á í vinnubrögðum sínum. Án öruggs húsnæðis aukast líkur á að aðrir þættir bresti og húsnæðisleysi getur því leitt til aukins félagslegs vanda. 985 voru á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði í júlí 2018 og af þeim voru 72% einstaklingar eða 452 karlar og 260 konur. 150 voru skráðir án fastrar búsetu. 73% þeirra á listanum eru óvinnufærir, þ.e.a.s. öryrkjar, sjúklingar eða lífeyrisþegar. Því er mikilvægt að borgin grípi inn í og veiti þeim öruggt húsnæði á meðan bið eftir félagslegu húsnæði fer fram. Neyðin er mikil og því er lagt til að borgarráð samþykki að auka fjárframlög til velferðarsviðs sem þarf á auknu fjármagni á að halda til að mæta vanda þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri íbúð. Lagt er til að borgarráð samþykki að auka fjárframlög til þess kostnaðar sem nemur a.m.k. 60 íbúðum, með sér salerni og eldunaraðstöðu, sem verði keypt eða tekin á leigu. Slík búseta skal hugsuð sem tímabundin fyrir þá sem eru á biðlista eftir félagslegri íbúð og lagt er til að leitast verði við að dreifa þeim íbúðum um borgina. Áhersla er lögð á að slík búseta sé hugsuð sem tímabundin fyrir lífeyrisþega, eftirlaunafólk og öryrkja. Efni þessarar tillögu eru fyrstu aðgerðir í þessum málaflokki og nauðsynlegt er að meta þörf fyrir frekari aðgerðir að þessum áfanga loknum.

    Vísað til meðferðar velferðarráðs. R18080057

    Fylgigögn

  54. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um niðurskurð og hagræðingu fyrir fjárhagsáætlun 2019, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. júlí 2018 og 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.

    Frestað. R18070175

    Fylgigögn

  55. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018.

    Lagt er til að allar fréttatilkynningar, sem sendar eru út í tengslum við fundi nefnda og ráða, séu sendar nefndar- og ráðsmönnum viðkomandi ráðs auk oddvita flokkanna um leið og þær eru sendar fjölmiðlum enda er Borgarstjórn Reykjavíkur fjölskipað stjórnvald. Þetta er í anda góðrar og gegnsærrar stjórnsýslu.

    Frestað. R18080059

    Fylgigögn

  56. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 63. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018. Einnig er lögð fram greinargerð með tillögunni, dags. í dag.

    Lagt er til að æðstu embættismenn Reykjavíkurborgar birti hagsmunaskráningu sína á vef Reykjavíkurborgar, rétt eins og kjörnir fulltrúar, enda er það í anda gagnsæis og vandaðrar stjórnsýslu.

    Vísað til umsagnar innri endurskoðunar og borgarlögmanns. R18080058

    Fylgigögn

  57. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 64. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

    Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á skilyrðum þess að hægt sé að sækja um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík. Í stað þess að umsækjandi þurfi að hafa átt lögheimili í Reykjavík síðastliðin 2 ár nægir að hafi átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 2. ár. Þessi breyting á skilyrðum er nauðsynleg fyrir margar sakir. Á meðan fólk bíður eftir félagslegu húsnæði á það oft ekki í önnur hús að venda á biðtímanum í Reykjavík. Sumir eiga þess kost að búa tímabundið í öðru sveitarfélaga á meðan það bíður en til þess að falla ekki útaf biðlistanum leggja það á sig að hírast við óviðunandi húsnæðisaðstæður, fá að liggja inni hjá vinum og ættingjum um tíma eða búa í ósamþykktu húsnæði. Með því að afnema þetta skilyrði getur fólk fundið sér tímabundið húsnæði annars staðar á landinu á meðan það bíður eftir að röðin komi að sér í félagslega íbúðakerfinu í Reykjavík. Þessi breyting opnar fyrir meiri sveigjanleika og möguleika á að fá viðunandi húsnæði á biðtímanum enda þótt um sé að ræða tímabundið. Þessi breyting gerir skilyrðin auk þess mun manneskjulegri en þau eru nú. Þetta skilyrði hefur óþarfa fælingarmátt og enda þótt fólk geti sótt um undanþágu þá veit fólk oft ekki um þann rétt sinn, er jafnvel ekki upplýst um hann.

    Vísað til meðferðar velferðarráðs. R18070088

    Fylgigögn

  58. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að gera könnun á þjónustumenningu Félagsbústaða í tengslum við samskipti starfsmanna fyrirtækisins við leigjendur. Við framkvæmd könnunarinnar skal leita til núverandi og fyrrverandi leigjenda og þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í dag og óska eftir að þeir taki þátt í könnuninni og veiti upplýsingar um álit sitt á viðmóti, viðhorfi og framkomu starfsmanna Félagsbústaða í þeirra garð.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað. R18060131

    Fylgigögn

  59. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að meta eignir Félagsbústaða þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað. R18060131

    Fylgigögn

  60. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að annast innkaup á 25 smáhýsum sem uppfylla þau skilyrði að vera færanleg, vel einangruð og bjóða upp á lágmarksþjónustu eins og salerni, sturtu og eldunaraðstöðu.

    Vísað til meðferðar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. R18080115

    Fylgigögn

  61. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hver er lögfræðikostnaður Félagsbústaða síðastliðin fimm ár sem fyrirtækið hefur greitt lögfræðingum í málum eins og viðhaldsmálum og öðrum kvörtunar- eða dómsmálum sem hafa að gera með myglu eða aðra galla í eigum Félagsbústaða?

    Vísað til umsagnar hjá stjórn Félagsbústaða. R18060131

    Fylgigögn

  62. Fram fer umræða um stöðu hverfisráða að beiðni áheyrnarfulltrúa Miðflokksins.

    Frestað. R18030194

    Kl. 13:58 víkja Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  63. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins:

    Hver var kostnaður við atvinnuauglýsingar á skóla- og frístundasviði árið 2017 og það sem er af ári 2018 sem fjallað er um í yfirliti aðgerða sem ætlað er að tryggja næga mönnun í leikskólum borgarinnar haustið 2018? Hver er kostnaður skóla- og frístundasviðs við aðkeypta þjónustu markaðsfyrirtækja síðustu 2 ár? R18080138

  64. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að borgarráð samþykki að tekin verði upp sú meginregla á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að nýta verkbókhald til að fylgjast með kostnaðarþróun verkefna. Tillagan er lögð fram í ljósi þeirra fyrirspurna sem lagðar hafa verið fram um einstök verkefni á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara sem ekki var unnt að svara vegna þess að ekki hefur verið haldið verkbókhald og því ekki hægt að sýna fram á kostnað við einstök verkefni. Sums staðar í borgarkerfinu er þetta gert nú þegar en mikilvægt er að innleiða þetta á fleiri stöðum og gera að almennri reglu svo stjórnsýslan verði skilvirkari og gagnsærri.

    Frestað.R18080137

  65. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar fari þess á leit við stjórnir B-hluta fyrirtækjanna að fram fari kynning á viðhorfskönnunum fyrirtækjanna í borgarráði.

    Frestað. R18070145

  66. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Nýbygging Dalskóla er byggð þétt upp við spennistöð, sem hefur óæskileg áhrif á birtuskilyrði í skólanum auk þess sem foreldrar og starfsmenn skólans hafa áhyggjur af hugsanlegri hættu vegna rafsviðs stöðvarinnar. Nauðsynlegt er því að kanna möguleika sem fyrst á flutningi hennar í viðunandi fjarlægð frá skólabyggingunni.

    Frestað. R18050147

  67. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á tölu um aðkeypta þjónustu sálfræðinga hvað varðar verkefni, orsökum þess að leita var til sjálfstætt starfandi aðila, af hvaða fyrirtæki var þjónustan keypt og hvers lags þjónustu var óskað eftir? R18070035

  68. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um heildarkostnað og sundurliðun á starfi bílstjóra skrifstofu borgarstjóra síðastliðið ár: 1. Hver er kostnaður við akstur með borgarstjóra? 2.Hver er kostnaður boðsendinga og póstsendinga innan og utan kerfis? 3. Hver er kostnaður vegna Barnaverndar Reykjavíkur? 4. Loks kostnað við önnur verkefni svo sem innkaupum og öðrum sendiferðum? R18070034

  69. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að öll svið borgarinnar fari að góðu fordæmi velferðarsviðs og láti útbúa upplýsingagagnagrunna sams konar og Velstat gagnagrunninn. Grunnurinn gerir borgarbúum og blaðamönnum kleift að nálgast tölfræðilegar upplýsingar um þá þjónustu sem heyrir undir sviðið. Slíkur grunnur sparar bæði tíma og fjármuni við úrvinnslu upplýsinga en umfram allt eykur hann gagnsæi í stjórnsýslunni.

    Frestað. R18080134

  70. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Óskað er upplýsinga um hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir sl. 8 ár við starfsmenn borgarinnar og hvað þeir hafa kostað? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum og starfsheitum. R18080131

  71. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Vissi borgarstjóri af, hafði afskipti eða samþykkti að fjármálastjóri Ráðhússins var áminntur sem leiddi til dómsmáls sem borgin tapaði í máli E-3231-2017? R17100046

  72. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Hinn 11. maí 2018 barst borgarráði svar við fyrirspurn mál: R18020068, um fjölda lóða sem hefur verið úthlutað á kjörtímabilinu fyrir leigu- og búseturéttaríbúðir frá Framsókn og flugvallarvinum. Óskað var eftir upplýsingum um það hvað Reykjavíkurborg hafði úthlutað mörgum lóðum á síðasta kjörtímabili fyrir leigu- og búseturéttaríbúðir, hvaða lóðir það væru, fjöldi íbúða á hverri lóð, til hverra var úthlutað, dagsetning lóðaúthlutana, hvort byggingarleyfi hafi verið gefin út og ef svo er á hvaða byggingarstigi húsin voru á hverri lóð fyrir sig. Óskað er eftir uppfærðu svari miðað við 25. ágúst 2018. R18020068

  73. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

    Þann 18. apríl 2017 var skrifað undir samning um uppbyggingu á 176 íbúðum auk verslunar- og þjónustuhúsnæði á gamla Slippsvæðinu nú Vesturbugt. Áætlað var að Reykjavíkurborg myndi kaupa 74 íbúðir og selja áfram til félaga sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Framkvæmdir áttu að hefjast innan 15 mánaða frá undirskrift og ljúka innan 5 ára. Hvernig stendur þetta verkefni? R17040005

Fundi slitið klukkan 14:10

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Marta Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir