Borgarráð - Fundur nr. 5505

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 31. maí, var haldinn 5503. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:08. Viðstödd voru auk borgarstjóra: Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Líf Magneudóttir, Kjartan Magnússon, Halldór Halldórsson og áheyrnarfulltrúinn Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir, Helgi Grímsson, Hallur Símonarson, Pétur Ólafsson og Dagný Magnea Harðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á stöðu kjarasamningaviðræðna Reykjavíkurborgar og nýjum kjarasamningi við Félag grunnskólakennara.

    Atli Atlason og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R18010089

  2. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 9. maí 2018. R18010027

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð Sorpu bs. frá 23. maí 2018. R18010024

    Fylgigögn

  4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 18. maí 2018. R18010028

    Fylgigögn

  5. Lagðar fram fundargerðir verkefnisstjórnar miðborgarmála frá 9. og 22. maí 2018. R18010386

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R18040226

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R18040227

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma, dags. í dag. R18010041

    Samþykkt að veita seniora landsliði Íslands í bridge styrk að fjárhæð kr. 150.000 vegna þátttöku í evrópumóti seniora.

    Samþykkt að veita Íbúasamtökum Kjalarness styrk að fjárhæð kr. 300.000 vegna útgáfu hverfisblaðsins Kjalnesings.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. maí 2018, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. maí 2018 á tillögu að rammaskipulagi fyrir Skerjafjörð Þ5, ásamt fylgiskjali. R17110118

    Frestað.

    -    Kl. 9:23 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu skóla- og frístundasviðs, dags. 25. maí 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. maí 2018 á tillögu um viðmið um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem greitt er framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur skólaárið 2018-2019. R16040223

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu skóla- og frístundasviðs, dags. 25. maí 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. maí 2018 á drögum að samkomulagi skóla- og frístundasviðs við Unicef á Íslandi. R18050240

    Samþykkt. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Soffía Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 29. maí 2018, þar sem lagðar eru til eftirtaldar styrkveitingar úr Miðborgarsjóði fyrir árið 2018:

    Gönguleiðir í miðborg, kr. 700.000

    Lifandi dagskrá í Grandagarði 27 – ókeypis og öllum aðgengileg, kr. 500.000

    Tveirheimar – Qigong og Tai-chi, kr. 500.000

    Jaðarlistahátíð, kr. 1.000.000

    Jól í hjarta Reykjavíkur, kr. 1.900.000

    Hamingjuhjól, kr. 500.000

    ÍBM – Heil brú og umhverfisgöngur, kr. 1.400.000

    Kátt á Klambra – barnafestival, kr. 1.000.000

    Samgöngustaður í Fógetagarði, kr. 500.000

    Mosatré – Mosaveggur, kr. 1.000.000

    Miðborgin okkar – fjölbreytt verslun og þjónusta í miðborginni, markaðssetning og kynning, kr. 21.000.000. R18040126

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. maí 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir Grettisgötu 9a, ásamt fylgiskjali. R18050231

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. maí 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir Grettisgötu 9b, ásamt fylgiskjali. R18050233

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 27. maí 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning varðandi skrifstofuhúsnæði á Hverfisgötu 76, ásamt fylgiskjali. R18050237

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  16. Lagður fram að nýju 47. liður fundargerðar borgarráðs frá 17. maí 2018, kynning á aðgerðum Reykjavíkurborgar til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningum sem bókað var um í trúnaðarbók borgarráðs. R17110191

    Við afgreiðslu málsins voru eftirfarandi bókanir færðar í trúnaðarbók borgarráðs:

    Borgarráðsfulltrúinn Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmargar spurningar hafa vaknað vegna umræddra aðgerða Reykjavíkurborgar um að örva kosningaþátttöku, m.a. um vinnslu upplýsinga og sendinga óumbeðinna skilaboða til kjósenda. Eðli málsins samkvæmt er um viðkvæmt málefni að ræða og því mikilvægt að ekki vakni grunur um að tilgangurinn með slíkum aðgerðum sé að þjóna ákveðnum framboðum en sniðganga önnur. Umræddar aðgerðir felast m.a. í kynningarherferð í samstarfi við auglýsingastofu þar sem vísað er á ákveðna vefsíðu en á borgarstjórnarfundi 15. maí var á það bent að á umræddri síðu væri ekki að finna upplýsingar um öll framboð sem taka þátt í borgarstjórnarkosningum 26. maí nk. Í a.m.k. einu bréfi er t.d. beinlínis kveðið á um skyldu íbúa til að kjósa sem orkar tvímælis í ljósi þess að það er hluti af kosningaréttinum að nýta hann ekki og senda þannig ríkjandi valdhöfum skýr skilaboð. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því í apríl sl. að óskað yrði eftir áliti Persónuverndar vegna umræddra aðgerða borgarinnar en borgarstjórnarmeirihlutinn hefur beitt ýmsum brögðum til að tefja málið. Ótrúlegt er að meirihlutinn hafi ekki viljað bera umræddar aðgerðir undir Persónuvernd áður en þær komust til framkvæmda.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í febrúarmánuði samþykkti borgarráð samhljóða ítarlegar og útfærðar tillögur starfshóps um leiðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum. Nú þegar tillögurnar eru að komast í framkvæmd í aðdraganda kosninga reynir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins að gera þær tortryggilegar. Aldrei var óskað eftir kynningu á verkefninu af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins eins og fram kemur í bókun borgarfulltrúans. Tillögurnar eru byggðar á niðurstöðum rannsókna og reynslu annarra samanburðarlanda um það hvernig hægt er að auka kosningaþátttöku. Það er dapurlegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins reyni að gera verkefni um aukna þátttöku í kosningum tortryggilegt, verkefni sem er jákvætt fyrir alla – lýðræðið og samfélagið. 

    Borgarráðsfulltrúinn Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu í febrúar sl. að farið yrði í aðgerðir til að stuðla að aukinni kosningaþátttöku í komandi borgarstjórnarkosningum, var það að sjálfsögðu gert í trausti þess að ýtarleg kynning færi fram á umræddum aðgerðum með góðum fyrirvara í borgarráði og að gengið yrði úr skugga um það í tæka tíð að ávallt yrði tryggt að ýtrustu persónuverndarsjónarmið yrðu virt. Loks níu dögum fyrir kosningu, fær borgarráð kynningu á málinu í tímahraki eftir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum og árangurslaust lagt til að umræddar aðgerðir verði bornar undir Persónuvernd áður en þær koma til framkvæmda. Sumar þessara aðgerða eru nú þegar komnar til framkvæmda. Mikilvægt er að sem mest sátt náist um slíkar aðgerðir en með óvönduðum vinnubrögðum í málinu, töfum og leyndarhyggju hafa fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans komið í veg fyrir það. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögurnar sem allir fulltrúar samþykktu hafa verið kynntar í stjórnkerfis- og lýðræðisráði eins og sjá má í fundargerðum ráðsins. Ekkert var talað um frekari kynningar á málinu í borgarráði þegar tillagan var samþykkt. Dylgjur Kjartans Magnússonar um leyndarhyggju eru ekki svaraverðar. 

    Borgarráðsfulltrúinn Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eðlilegt hefði verið að ýtarleg kynning á umræddu máli, sem felur í sér svo mikilvægar en jafnframt viðkvæmar aðgerðir, hefði farið fram í borgarráði, sem ber endanlega ábyrgð á þeim áður en þær komust til framkvæmda. Endanlegar útfærslur á mörgum veigaminni aðgerðum eru kynntar í borgarráði áður en þær komast til framkvæmda.

    Á fundi borgarráðs voru jafnframt lagðar fram svohljóðandi bókanir:

    Borgarráðsfulltrúinn Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð borgarstjóra og meirihlutans vegna aðgerða til að auka kosningaþátttöku í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum. Vafasamt er að stjórnvaldið Reykjavíkurborg sendi þúsundum kjósenda bréf í gluggaumslögum með þeirri fullyrðingu að viðtakandi sé skyldugur til að nýta kosningarétt sinn. Umrædd fullyrðing er röng enda er það hluti af kosningaréttinum að kjósa ekki og senda valdhöfum þannig skilaboð. Þegar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram bókun um þetta atriði á borgarráðsfundi 17. maí sl. komu fulltrúar meirihlutans í veg fyrir að bókunin yrði færð í fundargerð fundarins með þeim rökstuðningi að efni viðkomandi bréfa væri trúnaðarmál þrátt fyrir að þau væru þá á leiðinni til þúsunda kjósenda. Ljóst er að þessi leyndarhyggja meirihlutans stenst enga skoðun. Milljónum króna af fé borgarinnar var varið til að kynna umræddar aðgerðir og í þeim auglýsingum var ætíð vísað á ákveðna vefsíðu. Á vefsíðunni var sérstök síða fyrir Reykjavík og þar birtist eftirfarandi texti á mest áberandi stað: ,,Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri grænir og Píratar mynda meirihluta borgarstjórnar. Dagur B. Eggertsson úr Samfylkingu er borgarstjóri.“ Engin ástæða var hins vegar talin til að veita upplýsingar um aðra flokka, hvorki þá sem voru í minnihluta borgarstjórnar né ný framboð. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Kjörsókn í Reykjavík var 67% nú en var 62,8% í borgarstjórnarkosningum 2014. Kosningaþátttaka jókst þannig milli kosninga eftir að hafa stöðugt minnkað milli kosninga frá árinu 1998. Líkur má leiða að því að þær aðgerðir til að auka kosningaþátttöku sem borgarráð sammæltist um að fara út í hafi þannig haft sín áhrif og er starfsfólki þökkuð vel unnin störf við aðgerðirnar sem unnar voru í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, ráðuneyti sveitarstjórnarmála og Háskóla Íslands. Þá voru aðgerðirnar samþykktar þverpólitískt í borgarráði. Frekari greiningar á áhrifum aðgerðanna munu síðan leiða nánar í ljós hver áhrifin af þeim voru. Öllum sextán framboðunum sem buðu fram í kosningunum 26. maí sl. voru gerð góð skil inn á vefsvæðinu egkys.is. Mun þessi vinna þannig nýtast áfram til frekari sambærilegra aðgerða sem og í fræðilegum rannsóknum á kosningaþátttöku. Meirihlutinn harmar það að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi gerst sekur um trúnaðarbrot í málinu sem hafi verið til þess fallið að spilla fræðilegri rannsókn Háskóla Íslands.

    Borgarráðsfulltrúinn Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu í febrúar sl. að farið yrði í aðgerðir til að stuðla að aukinni kosningaþátttöku í komandi borgarstjórnarkosningum, var það að sjálfsögðu gert í trausti þess að ýtarleg kynning færi fram á umræddum aðgerðum með góðum fyrirvara í borgarráði og að gengið yrði úr skugga um það í tæka tíð að ávallt yrði tryggt að vandaðri stjórnsýslu og ýtrustu persónuverndarsjónarmiðum yrði fylgt. Það var ekki gert. Um er að ræða skýrt dæmi um misnotkun á aðstöðu eins og rakið var í fyrri bókun. Á umræddri vefsíðu var jafnframt vísað á vefsíðu Reykjavíkurborgar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri notaði með afar óeðlilegum hætti í nýafstaðinni kosningabaráttu til auglýsingar á sjálfum sér. Undirritaður vísar á bug þeim ásökunum meirihlutans að hann hafi misfarið með trúnaðarupplýsingar í málinu. Um var að ræða ranga fullyrðingu sem var send í bréfi til þúsunda kjósenda um að þeir væru skyldugir til að kjósa. Undirritaður tjáði sig ekki um efni umrædds bréfs fyrr en það hafði verið sent út í þúsundum eintaka til kjósenda, komið í hendur fjölmiðla og því á almanna vitorði. 

  17. Lagt fram erindi Orkuveitu Reykjavíkur dags. 21. maí 2018, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki arðsemiskröfu starfsþátta OR. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu dags. 22. maí sl. R18050175

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir, Ingvar Stefánsson, Bjarni Freyr Bjarnason og Ásgeir Westergren taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir víkur af fundi undir þessum lið.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Lagt er til að gripið verði til aðgerða í því skyni að auka umferðaröryggi við Háteigsskóla. Gangbraut yfir Háteigsveg við Hjálmholt verði upplýst og merkt með áberandi hætti, þ.e. með sebrabraut og viðeigandi skiltum. R18050270

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Lagt er til að kannaðir verði kostir þess að fá einkaaðila til samstarfs í því skyni að taka að sér uppbyggingu og rekstur skíðasvæðisins í Skálafelli. Markmiðið með slíku samstarfi yrði að bæta aðstæður fyrir skíðafólk á svæðinu og að flýta því að fjárfest verði í snjóframleiðslu og öðrum mannvirkjum þar. Umrædd athugun fari fram í fullu samráði og að fengnu samþykki skíðadeildar og aðalstjórnar KR þar sem m.a. verði kannað hvernig slík uppbygging á svæðinu verði sem best samræmd hlutverki þess í þágu skíðaæfinga og -keppni á vegum félagsins, sem og þjónustu við almenning. Velja skal einkaaðila til samstarfs að undangenginni auglýsingu og vönduðu valferli og fela honum rekstur í Skálafelli í ákveðinn tíma gegn skuldbindingu um skilgreinda uppbyggingu, t.d. skíðalyftur og búnað í þágu snjóframleiðslu auk annarrar þjónustu við notendur svæðisins. Slíkur samstarfsaðili myndi útfæra hugmyndir sínar og áætlanir í samstarfi við stjórn skíðasvæðanna. Þá væri umræddum aðila frjálst að eiga frumkvæði að frekari nýtingu svæðisins á heilsársgrundvelli, t.d. í þágu gönguferða, hjólreiða og annarrar útivistar sem hæfir fólkvanginum. R18050271

    Frestað.

  20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

    Óskað er eftir upplýsingum um mörk útivistarsvæðisins vestan megin við Vesturbæjarsundlaug gagnvart lóðum fasteigna við Einimel. Óskað er eftir svari við þeirri spurningu hvort gengið hafi verið á umrætt útivistarsvæði og ef svo er, hvort slíkt hafi verið gert með vitund og vilja borgaryfirvalda. R18050272

Fundi slitið klukkan 10:20