Borgarráð - Fundur nr. 5485

Borgarráð

Ár 2017, þriðjudaginn 22. desember, var haldinn 5485. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11.08. Viðstödd voru: Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Skúli Helgason, Kjartan Magnússon, Áslaug María Friðriksdóttir og áheyrnarfulltrúinn Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Hrólfur Jónsson og Óli Jón Hertervig.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2017, varðandi úthlutun þriggja lóða (randbyggð) við Hringbraut til Vísindagarða Háskóla Íslands, ásamt fylgiskjölum, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. desember 2017. R17100264

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. desember 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi kaupsamning milli Reykjavíkurborgar og GN Studios ehf. um kaup á fasteign, ásamt lóðarréttindum og byggingarrétti á lóð Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. desember 2017. R17120121

    Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um heildarmat byggingarréttar (niðurstöðutölu) á viðkomandi svæði ef farið yrði eftir fyrirliggjandi verðmati Eignamiðlunarinnar annars vegar og Jöfurs hins vegar.

    Lagt er fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar dags. 22. desember 2017.

    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verð byggingarréttarins í Gufunesi byggir m.a. á verðmati sem gert var og samningaviðræðum við GN studios um kaupin en alls mun fyrirtækið greiða um 1,7 milljarða í heild fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld. Veittur var 10% afsláttur frá verðmatinu vegna umfangs viðskiptanna, frumkvæðis stúdíósins og þess mikla frumkvöðlastarfs í skapandi greinum sem fyrirtækið sinnir ásamt þeirri framsýnu klasauppbyggingu í kvikmyndagerð sem er að verða að veruleika í Reykjavík. Auk þess er um afar viðamikla fjárfestingu á svæðinu að ræða, þrátt fyrir að deiliskipulag fyrir svæðið hafi ekki enn verið samþykkt. Það er allra hagur að upp byggist í Gufunesi sannkallað Fríríki frumkvöðlanna eins og vinningstillaga hollensku arkitektastofunnar JvantSpijker kallaði Gufunes framtíðarinnar. Gufunesið verður því ekki lengur undir áburðarverksmiðju og úrgang, heldur fyrir íbúa, það verður heimili lítilla og meðalstórra fyrirtækja í fjölbreyttum atvinnugreinum, og ekki síst vagga íslenskrar kvikmyndagerðar.

    Kl. 12.25 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

    Engan veginn má álykta sem svo að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina séu á móti uppbyggingu á svæðinu í þágu skapandi greina þó svo að þeir telji að gæta verði hagsmuna borgarbúa í hvívetna þegar eignir Reykjavíkurborgar eru seldar. Athugasemdir eru gerðar við það að almennt útboð skuli ekki fara fram á sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhúsnæði í Gufunesi heldur samið við einn ákveðinn aðila. Gera má ráð fyrir 230-260 íbúðum. Tvö möt á verðmæti svæðisins liggja fyrir frá fasteignasölum. Við sölu á byggingarrétti kýs meirihlutinn að miða við lægra verðmatið og veita að auki 10% afslátt af því. Það verðmat er unnið af aðila sem sérhæfir sig í sölu og leigu atvinnuhúsnæðis. Umræddar lóðir eru seldar á verði sem er 27% undir verðmati þess fasteignasala, sem hefur mikla reynslu í sölu á íbúðarhúsnæði.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 12:28

Skúli Helgason