Borgarráð - Fundur nr. 5480

Borgarráð

Ár 2017, þriðjudaginn 23. nóvember, var haldinn 5480. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.04. Viðstödd voru auk borgarstjóra: S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Kjartan Magnússon, Halldór Halldórsson og áheyrnarfulltrúinn Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Óli Jón Hertervig, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir, Hallur Símonarson, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 9. nóvember 2017. R17010011

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 20. nóvember 2017. R17010009

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. nóvember 2017. R17010021

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R17100479

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R17110011

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. nóvember 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. nóvember 2017 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi fyrir Háaleitisskóla, Hvassaleiti að Stóragerði 11A, ásamt fylgiskjölum. R17110109

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fallast á að deiliskipulagstillaga vegna Hvassaleitisskóla (Háaleitisskóla) verði auglýst með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu. Samkvæmt tillögunni verður 32 bifreiðastæðum komið fyrir á sparkvelli syðst á lóðinni en bent hefur verið á að sá staður sé ákjósanlegur fyrir lagningu battavallar (sparkvallar með gervigrasi.)

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. nóvember 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á leiðréttri bókun vegna Hólavaðs 63-71 í samræmi við bréf Skipulagsstofnunar, dags. 22. júní 2017, ásamt fylgiskjölum. R17020153

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2017, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að veita árlega loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar. Viðurkenningin verði veitt fyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum og einstaklingum sem hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Valið byggir á starfi þriggja manna dómnefndar: einum frá Festu, einum fulltrúa Reykjavíkurborgar og einum aðila frá Háskóla Íslands. Starfsmaður dómnefndarinnar kemur frá umhverfis- og skipulagssviði. Dómnefndin byggi val sitt á árangri og aðgerðum sem fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að upplýsa og fræða um loftslagsmál, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og setja fram nýjar lausnir í loftslagsmálum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R17110119

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  9. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 862/2016; Reykjavíkurborg gegn Kópavogsbæ, Grindavíkurbæ og Mosfellsbæ og til réttargæslu Seltjarnarnesbæ, ásamt yfirlitskorti. R11060093

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 20. nóvember 2017, varðandi tillögu, dags. 15. nóvember 2017, um aukið fjármagn vegna samnings við Rauða krossinn um Vin, fræðslu- og batasetur, ásamt fylgiskjölum. R15100252

    Samþykkt.

    Vísað til frekari útfærslu fjármálaskrifstofu.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 20. nóvember 2017, varðandi tillögu, dags. 7. nóvember 2017, um framlengingu á reglum um beingreiðslusamninga, ásamt fylgiskjölum. R15020189

    Samþykkt.

    -        Kl. 9.25 tekur Birgir Björn Sigurjónson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. nóvember 2017:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg hefji samstarf við alþjóðlegu góðgerðasamtökin TUFF (The Unity of Faiths Foundation) um tilraunaverkefni til að auka þátttöku barna og unglinga (7-15 ára) í  íþrótta- og tómstundastarfi í Breiðholti með sérstakri áherslu á börn af erlendum uppruna. Verkefnið gengur út á það að nota tómstundir og íþróttir markvisst til þess að styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi barna og ungmenna, kynna viðurkennd gildi íslensks samfélags og grunnréttindi þeirra og skyldur, þar á meðal mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Kostnaður vegna verkefnisins er 5 m.kr.  og er hverfisstjóra Breiðholts falið að halda utan um verkefnið fyrir hönd Reykjavíkurborgar og verður verk-, tíma- og kostnaðaráætlun lögð fyrir borgarráð.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R17110131

    Frestað.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. nóvember 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. nóvember 2017 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Landssímareits, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember 2017. Jafnframt er lögð fram ályktun um verndun Víkurgarðs frá 21. nóvember 2017. R17070048

    -        Kl. 10.30 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Skúli Helgason tekur sæti.

    -        Kl. 10.35 tekur Stefán Eiríksson sæti á fundinum.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að afgreiðslu fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu um Landssímareit verði frestað þar til niðurstöður fornleifarannsóknar á reitnum liggja fyrir og svör hafa fengist við fyrirspurn frá síðasta borgarráðsfundi um hvaða lagaheimildir séu fyrir því að grafinn verði kjallari í austurhluta Víkurkirkjugarðs og stór hótelbygging reist þar ofan á.

    Tillagan er felld með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Landssímareits er samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn atkvæði Kjartans Magnússonar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Halldór Halldórsson borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu í borgarstjórn með vísan til ákvæða 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluta borgarráðs þykir mikilvæg sú umhyggja fyrir almannarými, minjum og sögu Reykjavíkur sem birtist í athugasemdum við deiliskipulagsbreytingar á Landssímareit. Í aðdraganda fornleifauppgraftar á svæðinu var lagt af stað með þá sameiginlegu sýn með Minjastofnun að ef órofinn kirkjugarður kæmi í ljós í ferlinu, þá yrði framkvæmdum hætt. Svo reyndist þó ekki vera, því þegar á rannsóknina leið kom í ljós að margra ára og áratuga jarðrask hafi þegar valdið miklu tjóni á þeim minjum sem á svæðinu voru. Í kjölfarið voru allar eldri mannvistarminjar fjarlægðar í þeirri von að raða mætti saman því brotakennda samhengi sem hið síendurtekna rask fortíðar hafði í för með sér. Deiliskipulagið í heild endurspeglar mikinn metnað fyrir verndun húsa á svæðinu, þ.m.t. gamla NASA. Eftir sem áður þarf að gæta fyllstu varúðar við þær framkvæmdir sem framundan eru í samráði við Minjastofnun og borgaryfirvöld. Loks er minnt á að ákveðið hefur verið að halda samkeppni um torgið yfir Víkurgarði í þeim anda að þar verði haldið á lofti minningu garðs og kirkju sem þarna stóð um aldir.

    Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umrætt deiliskipulag felur í sér heimild til að steypa hótelbyggingu ofan í hinn forna Víkurgarð, elsta kirkjugarð Reykvíkinga. Ótrúlegt er að meirihluti borgarstjórnar skuli fella tillögu um að fresta afgreiðslu tillögunnar þar til niðurstöður fornleifarannsóknar liggja fyrir og fyrirspurnum um lögfræðileg álitamál vegna eignarhalds á Víkurgarði hefur verið svarað. Víkurgarður er helgidómur í hjarta borgarinnar sem ber að vernda í stað þess að steypa stórhýsi ofan í hann. Þar stóð fyrsta kirkja Reykjavíkur og rök hníga einnig að því að fyrir kristnitöku hafi þar verið heiðinn helgistaður. Hingað til hefur verið talið að grafir skuli vera friðhelgar eftir því sem kostur er. Menningarþjóðir rasa ekki um ráð fram við skipulag á reitum þar sem elstu fornleifar viðkomandi höfuðborgar er að finna. Á sjöunda áratugnum var fyrirhugað að reisa viðbyggingu við Landssímahúsið, sem átti að ná út að Kirkjustræti en þegar byggingarframkvæmdir hófust kom í ljós að Víkurkirkjugarður náði lengra inn á byggingarreitinn en talið hafið verið. Byggingaráform voru þá endurskoðuð að tilhlutan þáverandi ríkisstjórnar og Landssímanum gert að minnka viðbygginguna um helming í því skyni að hlífa sem stærstum hluta kirkjugarðsins. Öfugsnúið er að núverandi borgarstjórnarmeirihluti beri minni virðingu fyrir grafreitum í Víkurgarði og þeim fornleifum sem þar hafa fundist en áðurnefndir ráðamenn fyrir hálfri öld.

    Helgi Þorláksson, Friðrik Ólafsson, Þórir Stephensen og Vala Garðarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina varðandi framkvæmdir á Landssímareit, sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júlí 2017, ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. nóvember 2017. R17070048

    Tillagan er felld með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn atkvæði Kjartans Magnússonar, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Halldór Halldórsson, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, situr hjá við afgreiðslu málsins.

    -        Kl. 10.40 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  15. Fram fer kynning á fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar.

    Gerður Guðjónsdóttir, Heiðar Ingi Svansson, Þorgrímur Hallgrímsson, Svandís R. Ríkharðsdóttir og Ása Clausen taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16100017

    -        Kl. 11.10 víkur borgarstjóri ásamt Pétri Ólafssyni af fundinum.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2017, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi samning og stofnsamning vegna Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Þá er einnig lögð fram skýrsla Höfða friðarseturs 2017, dags. nóvember 2017. R17020079

    Samþykkt.

    Pia Hansson og Auður Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Fram fer kynning á niðurstöðum íbúakosninganna Hverfið mitt sem fram fór 3.-19. nóvember sl.

    Unnur Margrét Arnardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R17020200

    Fylgigögn

  18. Lögð fram umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 20. nóvember 2017, um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á Fossi fasteignafélagi slhf. R17110110

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2017:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögur að uppfærslu á reglum um fjárstýringu hjá Reykjavíkurborg (FMS-STE-002) og endurskoðun viðauka 1 við sömu reglur. 1) Lagt er til að 2. tl. kafla 4.1 um lausafjárstýringu í reglum um fjárstýringu (FMS-STE-002) orðist þannig: Fjármálastjóra er jafnframt heimilt án sérstaks samþykkis borgarráðs, að undangengnu formlegu áhættumati, sbr. viðauka 3, að taka yfirdráttarlán hjá viðskiptabanka, skammtímalán hjá fjármálastofnun eða gefa út víxla á verðbréfamarkaði til allt að 24 mánaða í senn ef lausafjárstaða er þröng, sbr. heimildarákvæði í viðauka 1. 2) Lagt er til að heimild fjármálastjóra til skammtímalántöku í viðauka 1 við reglur um fjárstýringu (FMS-STE-002) hækki úr 5.000 m.kr. í 9.000 m.kr og að hún lengist úr 12 mánuðum í 24 mánuði. 3) Lagt er til að markmið ávöxtunar á handbæru fé í viðauka 1 við reglur um fjárstýringu (FMS-STE-002) verði hækkuð úr 322 m.kr. á árinu 2017 í 400 m.kr. á árinu 2018 í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar ársins 2018.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R17110100

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. nóvember 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að leigusamningi um leigu almenningssalerna að Þönglabakka 4, ásamt fylgiskjölum. R17110089

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á undanförnum árum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað flutt tillögur um að aðstaða farþega á skiptistöðinni í Mjódd verði bætt og salerni hennar opnuð almenningi að nýju. Við styðjum því ákvörðun um að það verði gert en setjum spurningarmerki við að gera eigi salernin gjaldskyld og að salernisgjaldið verði innheimt með greiðslukorti. Í þessu sambandi er mikilvægt að komið verði til móts við þá sem hafa ekki greiðslukort, t.d. börn og unglinga. Minnt er á aðrar tillögur Sjálfstæðisflokksins varðandi skiptistöðina, þ.e. að sætum í biðsal verði fjölgað og nauðsynlegar lagfæringar gerðar á þeim húsbúnaði sem fyrir er. Þá er mikilvægt að skiptistöðin verði opin farþegum á kvöldin á meðan strætisvagnar ganga. Um fjórar milljónir farþega fara árlega um skiptistöðina í Mjódd og er því um að ræða fjölförnustu umferðarmiðstöð landsins.

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. nóvember 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaup á íbúð 203 að Hjaltabakka 20 og að hún verði framleigð til velferðarsviðs, ásamt fylgiskjölum. R17110096

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. nóvember 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Sonik tækni ehf. vilyrði fyrir lóð á svæði gömlu Áburðarverksmiðjunnar fyrir byggingu allt að 1800 m2 að grunnfleti, ásamt fylgiskjölum. R17110093

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 20. nóvember 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Exton ehf. vilyrði fyrir lóð á svæði gömlu Áburðarverksmiðjunnar fyrir byggingu allt að 2500 m2 að grunnfleti, ásamt fylgiskjölum. R17110092

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 20. nóvember 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Bjargi hses. vilyrði fyrir úthlutun lóðar á reit C á skipulagssvæðinu Bæjarháls-Hraunbær, ásamt fylgiskjölum. R16110125

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. nóvember 2017:

    Lagt er til að borgarráð feli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að annast viðræður og samningsgerð við eigendur fasteigna að Arnarbakka 2-6 og að Völvufelli 11-21 með það að markmiði að flýta fyrir uppbyggingu og endurnýjun á þessum svæðum. Annað hvort að semja um hlutdeild í skiptingu virðisaukningar, sem að verður til vegna mögulegrar aukinnar uppbyggingar, vegna breytinga á notkun í kjölfar mögulegra skipulagsbreytinga eða taka þátt í kaupum á eignum. Náist samningar er stefnt að því að hefja skipulagsbreytingar á lóðunum í kjölfarið.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R17110091

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að skoðað verði hvort unnt sé að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla á bifreiðastæðum við umræddar fasteignir, þ.e. við Arnarbakka og Völvufell.

    Fylgigögn

  26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um fyrirhuguð kaup Reykjavíkurborgar á landi við Sævarhöfða, m.a. hvernig staðið hefur verið að verðmati landsins. R17110137

  27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir greinargerð um ásigkomulag Álftamýrarskóla (Háaleitisskóla). Fregnir hafa borist af því að ástand glugga, gluggakerfa og steyptra útveggja sé slæmt víða í skólabyggingunni og þá hafa starfsmenn kvartað yfir líkamlegum óþægindum. Hefur verið skorið úr um hvort mygluskemmdir séu á húsnæðinu? R17110138

Fundi slitið klukkan 13:09

Líf Magneudóttir Skúli Helgason