Borgarráð - Fundur nr. 5467

Borgarráð

Ár 2017, fimmtudaginn 21. september, var haldinn 5467. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.03. Viðstödd voru Sigurður Björn Blöndal, Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Auðar Svansson, Áslaug María Friðriksdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Hrólfur Jónsson, Helga Benediktsdóttir, Ólöf Örvarsdóttir, Ebba Schram, Hallur Símonarson, Pétur K. Ólafsson og Bjarni Þóroddsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 29. ágúst 2017. R17010008

    Fylgigögn

  2. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 15. september 2017. R17010022

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. september 2017. R17010021

    B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R17090018

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 75/2013. R17090015

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar samgöngustjóra, dags. 18. september 2017, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um grjótvegg við Miklubraut, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2017. R17080078

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja æskilegt að öll ný umferðarmannvirki í borginni séu hönnuð með hliðsjón af alþjóðlegum, viðurkenndum umferðaröryggisstöðlum. Af svari umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn um veggi við Miklubraut verður ráðið að umrædd mannvirki standist ekki evrópska umferðaröryggisstaðla, hvorki grjótveggur norðan Miklubrautar né steyptur veggur sunnan hennar. Ekki verður hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við slík vinnubrögð um leið og óskað er eftir því að úr verði bætt. Árin 1996-2016 urðu 248 óhöpp, þ.e. 223 eignatjón, 17 minni háttar slys og 8 alvarleg slys á Miklubraut milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í umsögn samgöngustjóra er um að ræða samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Sérfræðingar hafa ekki talið ástæðu til að setja sérstök vegrið til að varna því að bílar aki á veggi norðan eða sunnan götunnar. Í umsögninni kemur einnig fram að ef vilji er til að setja vegrið til að verja veggi fyrir árekstrum er rými til þess Klambratúnsmegin en ekki sunnanmegin. Í umsögninni er hnykkt á að um er að ræða götu í grónu borgarhverfi með mikilli umferð og takmörkuðum hraða og aðstæður því aðrar en á vegum þar sem vegrið eru almennt í notkun. Veggir munu koma í veg fyrir að ekið verði á ljósastaura eftir breytingar. Því má ætla að öryggi aukist lítillega af þeim ástæðum en besta öryggisaðgerðin er ef hægt verður að lækka umferðarhraðann eins og vonir standa til með þessari framkvæmd. Veggjum sem settir eru upp á Miklubraut er ætlað að bæta hljóðvist verulega og er þannig komið til móts við ítrekaðar óskir frá íbúum hverfisins.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar samgöngustjóra, dags. 20. september 2017, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afdrif tillögu um flutning ljósastaurs við Vonarstræti, sbr. 62 lið fundargerðar borgarráðs frá 23. febrúar 2017. R17020209

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka tillögu sína um að ljósastaur við Oddfellow-húsið við Vonarstræti verði færður í því skyni að bæta aðkomu fatlaðra og hreyfihamlaðra að hjólstólabraut við aðalinngang hússins. Minnst skal á að húsið er eitt mest sótta samkomuhús borgarinnar og að aðkoma fatlaðra og hreyfihamlaðra að því yrði bætt verulega ef umræddur ljósastaur yrði færður. Þótt hann yrði færður yrði engum vandkvæðum bundið að tryggja góða lýsingu á gangbraut yfir Vonarstræti.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 15. september 2017, um tillögu að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, ásamt fylgigögnum. R16110082

    -             Kl. 9.05 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

    -             Kl. 9.06 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. september 2017, ásamt drögum að samstarfssamningi:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samstarfssamningi Reykjavíkurborgar við félagasamtökin Stelpur rokka. Samningurinn er til þriggja ára, frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2020. Áætluð fjárveiting árlega er 4 m.kr. og verður kostnaður tekinn af lið 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Samþykkt. R17050138

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 18. september 2017, um skipan sérstakrar bygginganefndar vegna uppbyggingar mannvirkja Fram í Úlfarsárdal, ásamt erindisbréfi, dags. 8. september 2017.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R17090163

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. ágúst 2017, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. ágúst 2017 á tillögu um afslátt af vistunargjaldi til starfsmanna frístundaheimila. R17080134

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2017, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 13. september 2017 á breytingu á reglum um styrkveitingar til þróunarverkefna á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs, ásamt fylgiskjölum. R17090164

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 18, september 2017, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. september 2017 á tillögu að breytingu á 23. og 25. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. R14120120

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar Félagsbústaða hf., dags. 5. september 2017, við fyrirspurn borgarráðfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um eftirlit Félagsbústaða með framleigu, sbr. 27. gr. fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2017. R17080076

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 13. september 2017, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina vegna viðhalds og framkvæmdakostnaðar við hús Orkuveitu Reykjavíkur árin 2007-2014, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2017. R17060170

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 13. september 2017, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um viðbrögð Orkuveitu Reykjavíkur við mat Eflu á skemmdum á húsi Orkuveitunnar 2009, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2017. R17060170

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um opinbera rannsókn vegna tjóns á húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1, sbr. 6. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. september 2017. R17060170

    Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um úttektarnefnd vegna viðgerða á húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. september 2017 og 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. ágúst 2017. R17060170

    Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, dags. 12. september 2017, um sköpunartorg á vef Reykjavíkurborgar, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september 2017, ásamt fylgiskjölum. R17020227

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur nauðsynlegt að ráðast í tilraunaverkefnið sem er áhugavert og getur aukið aðkomu borgarbúa að ákvörðunum er varða þeirra nærumhverfi til muna. Þó hefur fulltrúinn þann fyrirvara að með því að tengja uppbyggingu í borgarlandi við frjáls framlög einstaklinga er hætt við því að það sé verið að kerfisbinda samband fjársterkra einstaklinga og hópa annars vegar og lýðræðislega ferla hins vegar. Samband sem er ekki til þess fallið að auka styrk þess síðarnefnda. Við búum í samfélagi þar sem sífellt gætir aukinnar misskiptingar, þá sérstaklega eignaskiptingar, og sömuleiðis í samfélagi þar sem ljóst er að sum hverfi borgarinnar hýsa að jafnaði efnameiri aðila en önnur. Því verður að hafa í huga að hópfjármögnunarverkefni eins og sköpunartorg gæti haft þau langtímaáhrif að uppbygging verði skipulegri og töluvert meiri í sumum hverfum en öðrum. Slíkt myndi hafa í för með sér enn sterkari hverfaskiptingu eftir efnahag en nú er þó að finna. Slíku teljum við Vinstri græn að sé mjög mikilvægt að sporna gegn. Það þarf því að stíga varlega til jarðar við uppsetningu verkefnisins og vera vakandi fyrir mögulegum áhrifum í átt til aukinnar misskiptingar, bæði er varðar hverfi og aðgang einstakra hópa að þeim verkefnum sem lögð eru fram. Þar þarf sérstaklega að hafa í huga uppsöfnuð áhrif margra verkefna, en ekki einvörðungu eðli einstakra verkefna.

    -             Kl. 9.18 víkur Pétur Ólafsson af fundinum.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. september 2017, þar sem erindisbréf starfshóps um sérstök húsnæðisúrræði er lagt fram til kynningar. R17090118

    Fylgigögn

  21. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra, dags. 13. september 2017, um fjármögnun skuldbindingar við BRÚ og lausafjárstöðu næstu 12 mánuði. R16100017

    Fylgigögn

  22. Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. 16. september 2017, varðandi endurskoðun á innheimtureglum Reykjavíkurborgar vegna milli- og löginnheimtu. R17090125

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. 21. september 2017, þar óskað er eftir því að borgarráð samþykki að fara í útboð vegna milli- og löginnheimtu til næstu fimm ára, frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2022. Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R17090125

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  24. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 18. september 2017, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2017. Greinargerðir fylgja tillögunum. R17020176

    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. september 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Döllugötu 8. R17020003

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. september, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við tímabundið lóðarvilyrði til GN Studios í Gufunesi, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september 2017. R15090089

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

    Í maí 2016 gerði Reykjavíkurborg samning um tímabundið lóðavilyrði í Gufunesi í tengslum við menningar- og/eða kvikmyndaþorp. Þá var ætlunin að byggja atvinnuhúsnæði á svæðinu ásamt hóteli. Nú, aðeins rúmu ári síðar, virðast forsendur verkefnisins hafa breyst og felur fyrirliggjandi viðauki í sér íbúðaruppbyggingu á svæðinu. Ýmsar spurningar vakna við þessa forsendubreytingu. Til dæmis hefur ekki komið fram umfang þess íbúðarhúsnæðis sem fyrirhugað er að byggja á umræddum reit og þau verðmæti sem slík uppbygging felur í sér.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að samþykkja viðauka við fyrra samkomulag. Uppbygging íbúðarhúsnæðis í bland við atvinnuhúsnæði á þessum stað er jákvæð fyrir svæðið. Heimilaður fjöldi íbúða er ákvörðun sem tekin er í deiliskipulagi og er því stjórnvaldsákvörðun. Verð fyrir byggingarrétt, komi til þess að aðilar ákveði að nýta vilyrðið, verður markaðsverð byggt á mati tveggja ótengdra óháðra fasteignasala.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. september 2017, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að selja sjö dráttarvélar og búnað þeim tengdan. R17090165

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins

    -             Kl. 10.00 víkja Hrólfur Jónsson, Ebba Schram, Helga Benediktsdóttir og Hallur Símonarson af fundinum.

    Fylgigögn

  28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. september 2017, ásamt tillögu að málstefnu og drögum að erindisbréfi:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu að málstefnu og að skipuð verði málnefnd Reykjavíkurborgar sbr. hjálögð drög að erindisbréfi. Tillaga starfshóps um málstefnu að innleiðingaráætlun verði samþykkt og málnefnd falin nánari útfærsla hennar og framkvæmd í samstarfi við skilgreinda ábyrgðaraðila. Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara ráði starfsmann í 30% starfshlutfall til að sinna formennsku málnefndar, tímabundið í eitt ár. Viðbótar rekstrarkostnaður er áætlaður 1,7 m.kr. sem bætist við fjárhagsramma skrifstofunnar og útfærður verður í viðauka um rekstur, fjármagnað af liðunum 09205, ófyrirséð og vísað til fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2018.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R16120051

    Vísað til borgarstjórnar.

    Sigrún Björnsdóttir og Tómas Ingi Adolfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 10:47

Líf Magneudóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Skúli Helgason