Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2017, fimmtudaginn 23. mars, var haldinn 5447. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.12. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Kjartan Magnússon og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Hrólfur Jónsson, Kristbjörg Stephensen, Hallur Símonarson, Örn Sigurðsson og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 7. mars 2017. R17010005
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 13. mars 2017. R17010007
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 14. mars 2017. R17010008
4. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 24. febrúar og 17. mars. R17010015
5. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 7. mars 2017. R17010026
6. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. mars 2017. R17010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R17020248
8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R17030033
- Kl. 9.16 tekur Halldór Halldórsson sæti á fundinum.
9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. mars 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. mars 2017 á aðgerðaráætlun umhverfis- og skipulagssviðs 2016-2026, dags. 8. mars 2017, um stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni.
Snorri Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15110154
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20 mars 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir í nýbyggingahverfum fyrir árið 2017. Kostnaðaráætlun er 200 m.kr. R17030178
Samþykkt.
Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 9.48 tekur Birgir Björn Sigurjónsson sæti á fundinum.
11. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 16. mars 2017, sbr. afgreiðslu velferðarráðs frá 2. mars 2017 á minnisblaði, dags 24. febrúar 2017, vegna áætlunar um breytingu á skipulagi og framkvæmd þjónustu við utangarðsfólk ásamt fylgigögnum. R17030165
Samþykkt.
Regína Ásvaldsdóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Minnt er á tillögu Sjálfstæðisflokksins frá 16. júlí 2015 þar sem lagt er til að vegna vaxandi vanda yrði útbúin aðstaða í ónotuðu húsnæði borgarinnar á Víðinesi til að taka á móti heimilislausu fólki og hýsa það. Æskilegt er að leitað verði eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um verkefnið. Fulltrúum meirihlutans hefur gefist nægur tími til að skoða þá framkvæmd sem tillagan felur í sér. Er því óþarfi að fresta afgreiðslu hennar frekar heldur tími til kominn að láta verkin tala.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Víðinesið var vísað til meðferðar velferðarsviðs á fundi borgarráðs þann 10. september 2015
12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 20. mars 2017, með umsögn velferðarsviðs og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um erindi Múlabæjar, dags. 18. janúar 2017, um fjárstuðning vegna húsnæðis fyrir Múlabæ, dagþjálfun fyrir aldraða og öryrkja.
Erindinu er hafnað. R17020246
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð hefur haft til skoðunar erindi Múlabæjar um fjárstuðning vegna breytinga á húsnæði dagþjálfunar fyrir aldraða og öryrkja. Í umsögn velferðarsviðs og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem aflað var um erindið, kemur fram að þegar hafi verið sótt um fjármagn til verksins hjá Framkvæmdasjóði aldraðra, enda er rekstur dagdvalar fjármagnaður með daggjöldum frá ríkinu. Borgarráð hvetur framkvæmdasjóðinn til að afgreiða erindi Múlabæjar á jákvæðan hátt enda mikilvægt að styðja við dagþjálfun aldraðra og öryrkja sem eru hópar sem fyrirséð er að fari stækkandi, m.a. vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar.
13. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina sbr. 34. liður fundargerðar borgarráðs 7. júlí sl. um að fela innri endurskoðanda og regluverði að kanna hvort borgarfulltrúa hafi brotið reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum ásamt umsögn regluvarðar, dags. 13. janúar 2017, og umsögn innri endurskoðanda, dags. 7. febrúar 2017, um tillöguna. R16070035
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar Vinstri grænna og Pírata gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina er lagt til að innri endurskoðanda og regluverði verði falið að kanna möguleg brot á reglum borgarstjórnar um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og reglum Fjármálaeftirlitsins um meðferð innherjaupplýsinga. Í framlögðum umsögnum kemur m.a. fram að regluvörður telur ekki æskilegt að honum verði falin slík könnun m.a. með vísan til þess að hann skal vera sjálfstæður í störfum sínum og að innri endurskoðun telur ekki þörf á frekari könnun af sinni hálfu m.a. með vísan til þess að forsætisnefnd hefur þegar ákveðið að endurskoða reglurnar og fer sú vinna fram á þeim vettvangi og mun væntanlega ljúka á næstu mánuðum.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari innri endurskoðanda kemur skýrt fram að endurskoðun á reglum um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa sé á vettvangi forsætisnefndar í þeim farvegi sem sé til þess fallinn að bæta úr þeim annmörkum sem komið hafa í ljós á reglum um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa, þ.e. útlistun á því hvernig og hvenær upplýsingar skuli skráðar og hvenær þær skuli fjarlægðar og það er ástæða þess að innri endurskoðandi telur ekki þörf að svo stöddu á skoðun. Ekkert kemur fram í meðfylgjandi svörum sem segir að ekki sé þörf á skoðun af því að allt hafi verið uppi á borðunum í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa, heldur einmitt frekar bent á að þetta sé í farvegi annarsstaðar í kerfinu og því ekki aðhafst í málinu að sinni. Eftir situr að borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina hefur einn kjörinna fulltrúa farið í gegnum ítarlega skoðun af hálfu innri endurskoðana á öllum sínum skráningum miðað við ákveðinn tímapunkt, en aðrir borgarfulltrúar hafa ekki fengið sambærilega málsmeðferð.
14. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 7. febrúar 2017 um lagningu sparkvalla með gervigrasi við borgarrekna grunnskóla ásamt umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 15. mars 2017. R17020066
Tillögunni er vísað til skoðunar við gerð fjárfestingaráætlunar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við þökkum fyrir umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar vegna tillögu Sjálfstæðisflokksins um átak við lagningu sparkvalla með gervigrasi við grunnskóla í borginni. Umsögnin staðfestir að unnt er að koma slíkum velli fyrir við alla borgarrekna skóla, þar sem þá vantar á annað borð, og velflesta sjálfstætt rekna skóla. Bent skal á að í umsögnina vantar umfjöllun um tvo borgarrekna skóla, Brúarskóla og Klettaskóla, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að sparkvellir verði lagðir við þessa skóla, ekki síður en aðra. Við hörmum að að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli ekki samþykkja tillögu okkar um að halda áfram og ljúka lagningu sparkvalla við borgarrekna grunnskóla í borginni ásamt því að huga að slíkri lagningu við sjálfstætt rekna skóla, heldur kjósi að vísa tillögunni til frekari vinnslu innan borgarkerfisins án skýrrar stefnumótunar eða niðurstöðu.
15. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. mars 2017, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu tillögu um fjölgun lóða í Úlfarsárdals sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. mars 2017. R17020065
16. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. mars 2017, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingar á gjaldskrám velferðarsviðs frá árinu 2006, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar 2017. R17020017
17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. mars 2017, ásamt umsögnum skóla- og frístundaráðs, dags. 9. mars og 3. mars 2017, velferðarsviðs, dags. 10. mars 2017 og umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2017, um mál 106. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl. R17030038
Umsögn skóla- og frístundaráðs samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Pírata sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Umsögn velferðarsviðs samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Pírata sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Umsögn umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar, og Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík er í fararbroddi íslenskra sveitarfélaga í sókn til betra skipulags með baráttu gegn loftslagsbreytingum og gott mannlíf að leiðarljósi. Með heppilegri staðsetningu áfengisverslana á vegum almannavaldsins og mögulegri fjölgun verslana þar sem við á má spara aukaferðir í vínbúðina og stuðla að bættu innkaupa- og ferðamynstri borgarbúa. Þetta er háð markvissri stefnu í skipulagi borgarinnar og góðu samstarfi við ríkisvaldið og kallar ekki á breytt rekstrarform við sölu áfengis. Þá verður að telja líklegt að sala áfengis í matvöruverslunum með öllu sem henni fylgir auki ekki aðeins neyslu á áfengi og grafi undan góðum árangri í áfengisvörnum heldur styrki enn frekar stöðu stórverslana á jaðarsvæðum sem draga að sér viðskiptavini á bílum um langan veg á kostnað smærri verslana inni kjörnum hverfa. Almenn og mikilvæg lýðheilsusjónarmið styðja óbreytt rekstrarform við sölu á áfengi enda eru þorri umsagnaraðila og meirihluti þjóðarinnar andsnúin frumvarpi um áfengi í búðir.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tekur undir bókun borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna.
Borgarráðsfulltrúi Pírata leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúi Pírata telur mikilvægt að horfa til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn fái ákveðnar skipulagsheimildir til þess að hafa áhrif á staðsetningu einkarekinna sölustaða áfengis innan sveitarfélags. Í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs er bent á að þessar heimildir gætu hæglega orðið til þess að einkaverslunarfyrirkomulag með áfengi félli betur en ríkiseinokunarfyrirkomulagið að markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi sem eru sjálfum sér nóg um helstu verslun og þjónustu. Jafnframt er í umsögninni bent á að borgin myndi með sama hætti hafa í hendi sér, upp að vissu marki, að stýra aðgengi að áfengi út frá sínum lýðheilsusjónarmiðum. Ekki skal alfarið dregið úr nauðsyn þess að viðhalda góðum árangri í forvarnarstarfi en að sama skapi er engan veginn loku fyrir það skotið að það sé mögulegt að viðhalda honum með einkasölu áfengis ásamt stýringu á fjölda og staðsetningu þeirra verslana sem hafa heimild til að selja það. Verði frumvarpið ekki samþykkt er ÁTVR eindregið hvatt til að vinna náið með borginni að því að fella staðsetningu vínbúða að markmiðum aðalskipulags um sjálfbær hverfi.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir bókun borgarráðsfulltrúa Pírata.
18. Lagt fram erindi hjúkrunarheimilisins Eirar, dags. 10. mars 2017, þar sem óskað er eftir því að Reykjavíkurborg skipi 7 fulltrúa og 4 til vara til fjögurra ára í fulltrúaráð Eirar. R17030177
Frestað.
19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. mars 2017, um ábyrgðargjald Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2017:
Lagt er til að borgarráð samþykki að haga álagningu ábyrgðargjalds á Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2017 þannig að 0,58% ábyrgðargjald verði lagt á lán sem tekin hafa verið vegna samkeppnisrekstrar fyrirtækisins og 0,87% á lán vegna sérleyfisrekstrar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R17030160
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
20. Lagt fram erindi lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags 21. febrúar 2017, um endurgreiðsluhlutfall launagreiðenda á greiddum lífeyri ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu um erindið, dags. 19. mars 2017. R16030056
Samþykkt.
21. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. mars 2017, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til þess að leggja 5 m.kr. fram til verkefnis um að laða beina erlenda fjárfestingu á sviði líftækni til Íslands. R17030153
Samþykkt.
22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 20. mars 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um skerðingu á lóðinni Súðarvogi 14 í Vogabyggð 2 ásamt fylgigögnum. R17030161
Samþykkt.
23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. mars 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að áhvílandi virðisaukaskattskvöð á Varmahlíð1 verði gerð upp samhliða virðisaukaskattskilum 5. apríl næstkomandi. R17030133
Samþykkt.
24. Lagt fram bréf samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. mars 2017, um endurskoðun á fyrirkomulagi reksturs endurvinnslustöðva ásamt erindisbréfi starfshóps um endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi og samningi um rekstur. R17030194
Samþykkt að tilnefna Eygerði Margrétardóttur í starfshópinn.
25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Óskað er eftir upplýsingum um hversu oft regluvörður hefur útbúið og kynnt skýrslu sína fyrir borgarráði frá upphafi þessa kjörtímabils og til 23.03.2017 en skylda hvílir á honum til þess, sbr. 11. lið 6. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 1050/2012 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. R17030222
26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Framsókn og flugvallarvinir leggja fram þá tillögu að regluvörður Reykjavíkurborgar kynni, fyrir lok aprílmánaðar 2017, skýrslu sína í borgarráði vegna ársins 2016, sbr. 11. lið, 6. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 1050/2012. R17030223
Frestað.
Fundi slitið kl. 10.54
Sigurður Björn Blöndal
Líf Magneudóttir Halldór Halldórsson
Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon
Halldór Auðar Svansson Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir