Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2017, fimmtudaginn 26. janúar, var haldinn 5440. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Kjartan Magnússon, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Hrólfur Jónsson, Kristbjörg Stephensen, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Sonja Wiium.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 17. janúar 2017. R17010004
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 17. janúar 2017. R17010008
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 16. janúar 2017. R17010009
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 12. janúar 2017. R17010014
5. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 12. desember 2016. R16010025
6. Lögð fram fundargerð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 20. janúar 2017. R17010022
7. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2017. R17010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R17010129
9. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R17010041
10. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. í dag, ásamt fylgigögnum. R17010042
Samþykkt að veita Borgarblöðum styrk að fjárhæð kr. 900.000 vegna Vesturbæjarblaðsins og Breiðholtsblaðsins.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.
11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. janúar 2017, þar sem kynntar eru tillögur skrifstofu umhverfisgæða, dags. 28. nóvember 2016, um aðgerðaáætlun 2016-2026 fyrir núgildandi stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni.
Snorri Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15110154
12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. september 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. september 2016 um að kynna drög að tillögu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í september 2016, að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna Norðlingaholts, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt.
13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. janúar 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. janúar 2017 á verklýsingu á skipulagsgerð vegna breytinga á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem felst í að reiðstígur er aflagður milli Sprengisands og stíflu í Elliðaárdal og nýr hjólastígur kemur í stað reiðstígsins. Jafnframt er lögð fram verklýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í janúar 2017. R11060102
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. janúar 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar 2017 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi Fossvogsdals fyrir hjóla- og göngustíga, ásamt fylgiskjölum. R17010215
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. janúar 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 á auglýsingu á deiliskipulagi svæðis í vestanverðum Fossvogi sem afmarkast af Fossvogsvegi, Árlandi og göngustígum, ásamt fylgiskjölum. R17010216
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. janúar 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. janúar 2017 á skipun fulltrúa ráðsins í starfshóp um styrki úr húsverndarsjóði Reykjavíkur 2017. R17010174
Samþykkt.
17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. janúar 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. janúar 2017 á tillögu að framkvæmdum vegna endurnýjunar og aukinnar lýsingar á Klambratúni, ásamt fylgiskjölum. R17010242
Samþykkt.
- Kl. 10.05 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.
18. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 8. nóvember 2016, varðandi tillögur ofbeldisvarnarnefndar um viðbrögð vegna gruns um mansal eða gruns um brot á 4. gr. laga nr. 85/2007 og tillögur um aukið samstarf eftirlitsaðila. Jafnframt er lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 18. nóvember 2016. R16060129
Samþykkt.
Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
19. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 23. janúar 2017, varðandi meðfylgjandi samning Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytisins um móttöku, aðstoð og stuðning við hóp flóttafólks frá Sýrlandi á árunum 2017-2019. Jafnframt eru lagðar fram bókanir Reykjavíkurborgar vegna samningsins. R14080024
Samþykkt.
Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
20. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 23. janúar 2017, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 19. janúar 2017 á tillögu velferðarsviðs, dags. 6. janúar 2017, um að sundferðir og menningarkort verði gjaldfrjáls fyrir atvinnulausa Reykvíkinga og einstaklinga með fjárhagsaðstoð til framfærslu á árinu 2017. R16010182
Samþykkt.
21. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra, ódags., varðandi lífeyrismál. R16100017
Frestað.
22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. janúar 2017, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi milli Íþróttafélags Reykjavíkur ÍR og Reykjavíkurborgar. Samningurinn felur í sér breytingu á fjárfestingaáætlun og verður viðauki vegna þess lagður fram til samþykktar í borgarráði og borgarstjórn. R16100021
Samþykkt.
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirliggjandi samningur við ÍR er fagnaðarefni og mikilvæg fjárfesting í innviðum fyrir íþróttaiðkun barna- og ungmenna í öllu Breiðholti. Til að tryggja að þau markmið samningsins gangi eftir er mikilvægt að markviss vinna fari þegar í farveg á grundvelli 9. greinar samningsins. Mikilvægt er að borgarstjóri kalli saman vinnuhóp með fulltrúum frá Leikni, ÍR, ÍBR, ÍTR og þjónustumiðstöð Breiðholts/hverfisráði þar sem fram fari viðræður og tillögugerð um eflingu íþróttastarfs og rekstur mannvirkja í Breiðholti, með það að markmiði að auka þátttöku barna og unglinga í íþróttum í öllu hverfinu. Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að útbúa erindisbréf fyrir störf hópsins sem lagt verði fyrir borgarráð og kallað verði eftir tilnefningum frá ofangreindum aðilum. Hópurinn skili fyrstu tillögum sínum fyrir 1. júní nk.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi samning við Íþróttafélag Reykjavíkur um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði félagsins í Syðri-Mjódd. Með samningnum er vonum seinna verið að efna samning milli Reykjavíkurborgar og ÍR frá árinu 2008 sem gerður var undir forystu þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Um leið og ÍR er þakkað fyrir öflugt starf í þágu æsku Reykjavíkur í 110 ár eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þess fullvissir að uppbygging umræddra mannvirkja muni enn frekar efla starfsemi félagsins og verða lyftistöng fyrir blómlegra íþrótta- og æskulýðsstarf í Breiðholti. Ekki verður komist hjá því að gagnrýna vinnubrögð borgarstjóra í málinu og þá einkum hvernig hann spyrðir saman efndir á umræddum ÍR-samningi annars vegar og lóðarúthlutun til Heklu hins vegar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að um tvo ólíka hluti sé að ræða. Að sjálfsögðu á Reykjavíkurborg að standa við samning sinn við ÍR frá árinu 2008 óháð lóðarúthlutunum til fyrirtækja í hverfinu.
23. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. janúar 2017, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi viljayfirlýsingu á milli Reykjavíkurborgar og Heklu hf. vegna uppbyggingar á lóðum Heklu milli Brautarholts og Laugavegar og hins vegar á mögulegri lóð í Suður-Mjódd. Einnig lagt fram minnisblað starfshóps um svæði ÍR í Suður-Mjódd, dags. 10 janúar 2017, og drög að samningi milli ÍR og Reykjavíkurborgar ásamt minnisblaði skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. janúar 2017, um gildandi samninga við ÍR og áætluð áhrif á fimm ára áætlun. R16020062
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði á móti og leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja ekki tillögu meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna um að ráðstafa án útboðs 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd til bílaumboðsins Heklu. Á síðasta borgarráðsfundi hafnaði meirihlutinn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að málið yrði ekki tekið til afgreiðslu í borgarráði fyrr en íbúum og hagmunaaðilum á svæðinu, íbúasamtökunum Betra Breiðholti og hverfisráði Breiðholts yrði gefinn kostur á að skila umsögn um málið. Eðlismunur er á því að gefa þessum aðilum kost á að veita slíka umsögn áður en borgin samþykkir lóðarvilyrðið og að halda fund til að kynna vilyrðið eftir að það hefur verið samþykkt. Í samstarfssáttmála núverandi borgarstjórnarmeirihluta var sagt að gagnsæi og aukið íbúalýðræði yrði eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins. Þar var því heitið að kynning og upplýsingagjöf yrði bætt í tengslum við skipulagsmál, bæði stór og smá, og að kraftar allra borgarbúa nýttust við stefnumörkun og ákvarðanatöku. Ljóst er að þessi loforð borgarstjórnarmeirihlutans eru innantóm og merkingarlaus. Mikilvægt er að auka framboð á atvinnulóðum í Reykjavík en slíkt er vel hægt að gera án þess að úthluta risalóðum á svæðum sem almennt hefur verið álitið að séu frátekin fyrir framtíðaraukningu á sviði íþrótta- og æskulýðsmála.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Viljayfirlýsing við Heklu byggir á sameiginlegri samþykkt alls borgarráðs frá 4. febrúar 2016, þar með töldum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, þar sem lagt var fram erindi fyrirtækisins og ósk um viðræður um þróun lóðar fyrirtækisins við Laugaveg og mögulega lóð í Suður-Mjódd. Þegar um er að ræða nýjar lóðir fyrir atvinnurekstur í þeim tilvikum sem fyrirtæki þurfa að víkja vegna skipulagssjónarmiða er iðulega unnið að slíku í samvinnu borgar og viðkomandi fyrirtækja, en ekki með útboðsfyrirkomulagi. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn taka upp ný vinnubrögð í þessum efnum þyrfti að ræða það rækilega á víðtækum grunni en ekki aðeins taka eitt fyrirtæki fyrir. Þá er sú fullyrðing að almennt sé álitið að það svæði sem hugsað er fyrir Heklu sé frátekið fyrir framtíðaraukningu á sviði íþrótta- og æskulýðsmála furðuleg í ljósi þess að svæðið var gert að atvinnulóð í skipulagi í byrjun árs 2009, í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Einnig er vert að nefna að svæðið liggur við umferðarmikla stofnbraut og því ekki endilega kjörið sem íþróttasvæði.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á fundi borgarráðs 4. febrúar sl. samþykktu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að hefja viðræður við Heklu hf. um skipulagsmál, þróun Heklu-reitsins við Laugaveg og mögulega úthlutun lóðar til fyrirtækisins í Mjódd. Kveðið var á um að umsagnir um skipulagsþáttinn yrðu lagðar fyrir borgarráð. Furðulegt hefði verið ef fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu lagst gegn því að viðræður færu fram við umrætt fyrirtæki um skipulagsmál en augljóst er að slík heimild til viðræðna fól ekki í sér neinar skuldbindingar um það sem koma myndi úr þessum viðræðum, sem hafa farið fram án þátttöku pólitískra fulltrúa annarra en borgarstjóra. Þegar um úthlutun er að ræða á svo stórum lóðum sem hér eru til umræðu þarf að líta á hvert mál fyrir sig. Ekki er um neina stefnubreytingu að ræða af hálfu Sjálfstæðisflokksins í þeim málum en minnt á að borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til fyrir fjórum mánuðum að óskað yrði álits íbúa og íbúasamtaka á þessari staðsetningu. Ekki var orðið við því af hálfu meirihlutans.
24. Lögð fram beiðni um viðræður um kauptilboð í Hellisheiðarvirkjun. R17010146
Synjað.
25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. janúar 2017, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að endurnýjuðum samstarfssamningi við björgunarsveitirnar í Reykjavík fyrir árin 2017-2019. Árlegt framlag borgarinnar verði 13 m.kr. sem greiðast af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur. Samtals nemur fjárhæðin 39 m.kr. á samningstímanum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R16100163
Samþykkt.
26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. janúar 2017, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að hjálagt boð borgarstjóra Barselóna um þátttöku Reykjavíkurborgar í La Mercé borgarhátíð Barselóna dagana 22.-25. september nk. verði þegið. Menningar- og ferðamálasviði verði falið að undirbúa samstarfið við Barselóna í samvinnu við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. R17010257
Samþykkt.
- Kl. 11.28 víkja Kristbjörg Stephensen og Hallur Símonarson af fundinum.
- Kl. 11.31 víkja Helga Björg Ragnarsdóttir og Hrólfur Jónsson af fundinum.
Fundi slitið kl. 11.55
Sigurður Björn Blöndal
Halldór Auðar Svansson Líf Magneudóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon
Halldór Halldórsson Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir