Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2016, fimmtudaginn 10. nóvember, var haldinn 5431. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.08. Viðstödd voru Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Halldór Halldórsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 1. nóvember 2016.
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 31. október 2016.
3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 4. nóvember 2016.
4. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 31. október 2016.
5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. nóvember 2016.
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013.
7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál.
8. Fram fer kynning á stöðu kjarasamningsviðræðna Reykjavíkurborgar.
- Kl. 9.15 tekur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 9.25 tekur Kristbjörg Stephensen sæti á fundinum.
Atli Atlason tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. nóvember 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. nóvember 2016 á því að kynna drög að tillögu að breyttum landnotkunarskilmálum á svæði M1a.
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. nóvember 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. nóvember 2016 á leiðréttum uppdrætti deiliskipulags Háskóla Íslands, Vísindagarðar, í framhaldi af athugasemdum Skipulagsstofnunar.
Samþykkt.
11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. nóvember 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. nóvember 2016 á lýsingu vegna fyrirhugaðrar vinnu við gerð deiliskipulags fyrir Velli á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. nóvember 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. nóvember 2016 á tillögu að deiliskipulagi lóðanna nr. 16A við Grensásveg og 37-39 við Síðumúla, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt
- Kl. 9.40 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.
13. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. nóvember 2016, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. nóvember 2016 á tillögu að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir samþykkja þær reglur sem hér liggja fyrir. Í skýrslu velferðarvaktarinnar um tillögur um aðgerðir til að vinna bug á fátækt var sérstaklega vakin athygli á stöðu hóps einstæðra einstaklinga. Sá hópur féll á milli skilgreininga í reglum skv. gamla kerfinu. Við samþykkjum hér tillöguna í trausti þess að nýjar reglur nái til þessa hóp og ítrekum að mikilvægt er fyrir velferðarsvið að fylgjast vel með framkvæmdinni skv. nýju reglunum og bregðast við án tafar ef í ljós kemur að skilgreiningar séu of þröngar og útiloka þannig ákveðna hópa umfram aðra.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja nýjar reglur um sérstakan húsnæðisstuðning sem byggja á nýjum lögum um húsnæðisbætur. Lögð er áhersla á að endurskoða þarf reglurnar jafnóðum og reynsla fæst á þetta nýja kerfi því óvissa er til staðar um ýmsa þætti þegar lagt er af stað með nýjar reglur.
Stefán Eiríksson, Helga Benediktsdóttir og Jón Viðar Pálmason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 10.10 taka borgarstjóri og Pétur Ólafsson sæti á fundinum.
14. Fram fer kynning á reglum Íbúðalánasjóðs um stofnframlög.
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, Hermann Aðalsteinsson, Harri Ormarsson, Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir, Tryggvi Þórhallsson, Sigurður Jón Björnsson, Sigrún Ása Magnúsdóttir, Hermann Jónasson, Guðlaug Sigurðardóttir og Stefán Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt borgarfulltrúunum Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, Grétu Björgu Egilsdóttur og Elínu Oddnýju Sigurðardóttur.
15. Fram fer kynning á skýrslu Rauða krossins í Reykjavík, Fólkið í skugganum.
Sigurbjörg Birgisdóttir, Ómar Valdimarsson, Hermann Guðmundsson og Stefán Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt borgarfulltrúunum Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, Grétu Björgu Egilsdóttur og Elínu Oddnýju Sigurðardóttur.
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Skýrsla Rauða krossins: Fólkið í skugganum varpar upp mynd af stöðu þeirra verst settu í borginni. Eins og skýrt kom fram í kynningu Rauða krossins hefur staðan batnað í Breiðholti undanfarin ár, m.a. vegna fjölmargra verkefna, úrræða og öflugs starfs stofnana og frjálsra félagasamtaka í hverfinu. Í skýrslunni er engu að síður að finna mikilvæga áminningu um að það þarf að styrkja enn frekar úrræði þeirra fjölskyldna sem minnst hafa á milli handanna. Eins og áður segir er þó mikilvægt að halda til haga því góða starfi sem haldið er úti af starfsstöðum leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðva og þjónustumiðstöðvar í Breiðholti undir forystu hverfisstjóra og byggja þarf á þeim grunni með frekari styrkingu á öryggisneti velferðarþjónustu, skóla- og frístundastarfs og fjárhagslegs stuðnings. Leita þarf allra leiða til að bæta aðbúnað og kjör þeirra tekjulægstu, s.s. með lækkun gjalda, fjölgun úrræða og betri kynningu á þeirri þjónustu sem er í boði, þ.m.t. fjölbreyttu framboði frístundastarfs. Setja þarf í sérstakan forgang aðgerðir til að stemma stigu við fátækt barna í borginni.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Skýrslan er of stofnanalituð, gildishlaðin og hlutdræg sem dregur mjög úr gildi hennar. Nú liggur fyrir endurskoðun á henni og vonumst við til þess að hreinskiptar umræður innan borgarinnar skili sér við endurskoðun hennar með uppbyggjandi hætti. Heppilegra hefði verið að hún kæmi hér til kynningar og umræðu áður en hún var kynnt fjölmiðlum, skaðinn er skeður þar sem skýrslan gjaldfellir eitt hverfi og íbúa hennar í borginni umfram annað. Tækifæri hverfsins liggja m.a. í mannauði og fjölbreytileika og það er hlutverk borgarstjórnar að virkja það.
16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. nóvember 2016, varðandi ferð borgarstjóra til Akureyrar þann 10. nóvember nk. til að taka þátt í opnum fundi bæjarráðs Akureyrar vegna framtíðar innanlandsflugs.
17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. nóvember 2016, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samstarfssamning Reykjavíkurborgar og Miðborgarinnar okkar fyrir árið 2016. Greiðslur skv. samningnum eru 5 m.kr. á árinu 2016 og greiðast af kostnaðarstað 09510 (ýmsar samningsbundnar greiðslur). Í samræmi við samþykkt borgarráðs, dags. 3. nóvember 2016, á tillögum stýrihóps um málefni miðborgar er hér um að ræða lokasamning Reykjavíkurborgar og Miðborgarinnar okkar með fjárframlögum borgarinnar eins og verið hefur.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.
18. Lagt fram bréf borgarstjóra, dag. 3. nóvember 2016, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um framtíðaruppbyggingu á gistiþjónustu í Reykjavík eru lögð fram.
19. Lagt fram bréf Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 31. október 2016, varðandi meðfylgjandi gjaldskrá fyrir Slökkviliðið sem samþykkt var þann 28. október sl.
Vísað til borgarstjórnar
20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. nóvember 2016, ásamt fylgiskjölum:
Lagt ert til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um átak í viðhaldi og endurnýjun gatnakerfisins. Með samkomulaginu er samstarf um nauðsynlegt átak í viðhaldi og endurnýjun gatnakerfisins staðfest.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja að samkomulag verði gert milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um átak í viðhaldi og endurnýjun gatnakerfis Reykjavíkur. Mikil þörf fyrir viðhald og endurnýjun hefur safnast upp. Á árunum 2006-2009 voru malbikaðir að meðaltali 15,3 km á ári en á árunum 2010-2013 voru malbikaðir að meðaltali 10,8 km á ári.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tekur undir bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
21. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, ódags., varðandi þróun skulda og skuldbindinga 2005-2016.
22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2016:
Lagt er til að borgarráð samþykki að aðalsjóður leggi allt að 1.100 m.kr. í stofnframlög vegna uppbyggingar og kaupa á leiguíbúðum á árunum 2016 og 2017. Þar af eru áætlaðar um 225 m.kr. vegna kaupa á íbúðum á þessu og næsta ári en um 875 m.k.r vegna nýbyggingaverkefna. Áætlað er að um 95 m.kr. komi til útgreiðslu á árinu 2016. Þetta felur í sér að heildarstofnframlag 1.100 m.kr. er fært á stofnframlag í efnahag aðalsjóðs, þar af koma um 95 m.kr. til útborgunar 2016 en 1.005 m.kr. til skuldar. Þar af er um 600 m.kr. til greiðslu á árinu 2017 m.kr og um 405 m.kr. til greiðslu síðar. Í gildandi fjárhagsáætlun aðalsjóðs 2016 er gert ráð fyrir 256 m.kr. í stofnframlög vegna Félagsbústaða. Viðauki þessi felur þannig í sér eftirfarandi áhrif á sjóðsstreymi: Stofnframlög eru aukin um 844 m.kr., langtímaskuldir aukast um 405 m.kr. og skammtímaskuldir aukast um 344 m.kr. en handbært fé lækkar um 95 m.kr. Tillagan felur í sambærileg áhrif á efnahag og sjóðsstreymi A-hluta.
Vísað til borgarstjórnar.
23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 8. nóvember 2016, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki meðfylgjandi samning um kaup á byggingarrétti við Hverfisgötu 41, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt með 6 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar.
24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. nóvember 2016:
Lagt er til að borgarráð samþykki fjárheimild að upphæð 63.000 þ.kr til að fjármagna samkomulag við eigendur Hverfisgötu 41, Reykjavík. Fjárhæðin gjaldfærist í eignasjóði á kostnaðarstað 4200, Lóðir og lönd, sala byggingaréttar, og er fjármögnuð af handbæru fé. Tillagan hefur óveruleg áhrif á niðurstöðu rekstrar, efnahags og sjóðsstreymis A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar.
Vísað til borgarstjórnar.
25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 21. október 2016, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Urðarbrunni 62.
Frestað.
26. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. nóvember 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki framsal byggingarréttar og lóðarhafaskipti vegna lóðarinnar nr. 10 við Lækjarmel.
Frestað.
27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. nóvember 2016, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki framlagða tillögu að viljayfirlýsingu á milli Byggingafélags námsmanna og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á allt að 300 námsmannaíbúðum í Reykjavík á næstu árum.
Frestað.
28. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. nóvember 2016, varðandi ferð forseta borgarstjórnar á fund Eurocities í Mílanó, ásamt fylgiskjölum.
29. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. nóvember 2016, þar sem lagðir eru fram til kynningar undirskriftalistar kennara og kennaranema sem afhentir voru borgarstjóra þann 7. nóvember sl.
30. Kynnt efni atvinnuauglýsingar um starf borgarritara sem birtist á næstu dögum.
31. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. október 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. október 2016, ásamt bréfi skóla- og frístundasviðs dags. 13. október, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12 október sl. á reglum um undanþágu frá greiðslum á frístundaheimilum og breytingu á þeim, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Helgi Grímsson, Dröfn Rafnsdóttir og Dagbjört Ásbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir telja að 5 ára viðmið er varðar íslensk börn sé of rúm og eðlilegra hefði verið að miða við 2 ár í þessu tilraunaverkefni.
- Kl. 12.20 víkja borgarstjóri, Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson og Pétur Ólafsson af fundinum.
32. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:
Þar sem fjöldi ferðamanna sem kemur til Íslands og heimsækir höfuðborgina hefur farið langt fram úr þeim spám sem gerðar voru fyrir árið 2011 og lágu til grundvallar núgildandi ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar 2011-2020, er mikilvægt að ráðast í endurskoðun ferðamannastefnu borgarinnar sem byggð verður á nýjum spám og þar sem tekið verður tillit til þeirrar stöðu sem nú er uppi er varðar fjölda ferðamanna. Við teljum algerlega ótækt að bíða til ársins 2020 með að endurskoða áætlunina. Uppgangur er mikill í hóteluppbyggingum í borginni, sem og kapphlaup um verslunarhúsnæði og húsnæði fyrir veitingarstaði. Umræða um íbúðir í miðborginni sem leigðar eru til alfarið til ferðamanna hefur farið hátt og margir tengja að einhverju leyti við húsnæðisskort í borginni. Því leggjum við til að borgarráð samþykki tillögu okkar um að hefja strax vinnu við endurskoðun ferðamannastefnu Reykjavíkurborgar 2011-2020 og að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. mars 2017.
Frestað.
Fundi slitið kl. 12.35
Halldór Halldórsson Elsa H. Yeoman
Börkur Gunnarsson Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir