Borgarráð - Fundur nr. 5422

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 15. september, var haldinn 5422. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.08. Viðstödd voru S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Ebba Schram, Ólöf Örvarsdóttir og Bjarni Þóroddsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. september 2016. R16010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 9. september 2016. R16010015

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 6. september 2016. R16010005

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 1. september 2016. R16010010

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 8. september 2016. R16010011

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 8. september 2016. R16010013

7. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 5. september 2016. R16010036

8. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 29. ágúst 2016. R16010035

9. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 31. ágúst 2016. R16010026

10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R16090002

11. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R16010042

Samþykkt að veita Icelandic startups styrk að fjárhæð kr. 250.000 vegna ráðstefnu í leikjaiðnaði og sýndarveruleika sem haldin verður í Reykjavík 29.-30. september nk.

Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði þann 19. júní 2014.
- Kl. 9.14 tekur borgarstjóri sæti á fundinum ásamt Pétri Ólafssyni.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. september 2016 á óverulegri breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur, vegna túlkunar og framsetningar á stefnu um íbúðarhúsnæði. R11060102

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. september 2016 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi Sólvallagötureits vegna lóðanna nr. 40, 42 og 42a við Framnesveg skv. uppdrætti, dags. 30. júní 2016. R16090068

Samþykkt.

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. september 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. september 2016 á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 1 við Keilugranda auk lóða Fjörugranda og sléttar tölur Boðagranda, ásamt fylgiskjölum. R15090053

Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn einu atkvæði borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Magnússonar.

Borgarráðsfulltrúarnir Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48 gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Rétt er að lóðin Keilugrandi 1 (SÍF-reiturinn) verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og að hún verði öll nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum. Aðstöðuskortur háir nú þegar íþróttastarfsemi í hverfinu og er því mikilvægt að hún fái aukið athafnarými. Enn skal minnt á að útlit er fyrir mikla þéttingu byggðar í Vesturbænum á næstu árum, sem gæti haft í för með sér að íbúum hverfisins fjölgi um allt að 5.500 manns eða 33%. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna sýnir af sér mikið fyrirhyggjuleysi í skipulagsmálum með því að leggja annars vegar mikla áherslu á fjölgun íbúa í Vesturbænum en neita hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að slík fjölgun kallar á umtalsverða uppbyggingu innviða, ekki síst í þágu íþrótta- og grunnskólastarfsemi. Margoft hefur verið bent á að ákjósanlegasti kosturinn til að stækka íþróttasvæði KR sé að heimila félaginu afnot af umræddum reit að Keilugranda 1. Með þeirri ákvörðun vinstri meirihlutans að ráðstafa umræddri  lóð undir þétta fjölbýlishúsabyggð er jafnframt komið í veg fyrir að hún geti nýst í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Nú hefur lóðinni að Keilugranda 1 verið úthlutað til Búseta, en Framsókn og flugvallarvinir greiddu atkvæði gegn þeirri úthlutun m.a. á því að það skorti verðmat. Þær breytingar sem hér eru lagðar til staðfesta skammsýni meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata skipulagsmálum, þar sem lítið tillit virðist vera tekið til aukinnar þjónustuþarfar í tengslum við íbúafjölgun um a.m.k. 5500 íbúa á næstu árum, auknum tengslum við miðborgina og atvinnuuppbyggingu í tengslum við ferðamenn og þá kröfu íbúa um aukna þjónustu í nærumhverfi. Að öðru leyti vísum við til bókana í umhverfis- og skipulagsráði, 7. og 14. september 2016.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. september 2016 á auglýstri breytingu á deiliskipulagi Sogavegar, Vonarlands, vegna lóðanna nr. 73-75 og 77 við Sogaveg. R16040128

Samþykkt.
16. Lagt fram svar Bílastæðasjóðs, dags. 2. ágúst 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi sektir fyrir stöðubrot við Laugaveg, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júní sl., ásamt umsögn Bílastæðasjóðs, dags. 2. ágúst 2016, og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31. ágúst 2016. R16060120

- Kl. 9.50 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. september 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við 2. áfanga vegna uppbyggingar við skóla, íþróttamannvirki, menningarmiðstöð og sundlaug í Úlfarsárdal. R15090121

Samþykkt.

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja að framkvæmdir við grunnskólabyggingu í Úlfarsárdal verði boðnar út og leggja áherslu á að bygging hússins hefjist sem fyrst. Sem fyrr leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að Reykjavíkurborg ljúki sem fyrst samningsgerð við íþróttafélagið Fram svo unnt sé að halda áfram löngu tímabærum framkvæmdum við uppbyggingu íþróttamannvirkja í Grafarholti-Úlfarsárdal. Rétt er að slíkar framkvæmdir verði í samræmi við þau fyrirheit um íbúafjölda, sem félaginu voru gefin þegar framkvæmdir hófust við íþróttasvæðið í Grafarholti-Úlfarsárdal árið 2008. Íbúar þessara hverfa hafa sýnt borginni ríkulegan samstarfsvilja og langlundargeð vegna seinkunar, sem varð á uppbyggingu vegna efnahagsáfalla í þjóðfélaginu á sínum tíma. Ljóst er að frekari metnaðarfull uppbygging í Úlfarsárdal mun leiða til þéttingar byggðar í hverfinu, sem er jákvætt í sjálfu sér. Sú ákvörðun vinstrimeirihlutans í borgastjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal frá því sem áður var ákveðið, rýrir mjög möguleika rekstraraðila á því að veita öfluga þjónustu í hverfinu og á það ekki síst við um íþrótta- og æskulýðsstarf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því enn og aftur til að skipulag í Úlfarsárdal verði endurskoðað og íbúum fjölgað með það að markmiði að þar skapist góð skilyrði til að reka blómlegt íþrótta- og félagsstarf.

18. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. september 2016, ásamt drögum að erindisbréfi stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Jafnframt er lögð fram tillaga mannréttindaskrifstofu um stefnumótun í málefnum innflytjenda frá 24. ágúst 2016, ásamt fylgiskjölum. R16080114

Frestað.

Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viljayfirlýsingu um stofnun og rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Gert er ráð fyrir að stofnunin verði tilraunaverkefni frá hausti 2016 til ársloka 2018 með það að meginhlutverki að veita fullorðnum einstaklingum sem orðið hafa fyrir ofbeldi samhæfða þjónustu og ráðgjöf. Að samstarfinu koma Reykjavíkurborg, velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfið, Drekaslóð, Stígamót, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Reykjavíkurborg leggur til húsnæði við Bústaðarveg og stendur straum af rekstrarkostnaði húsnæðisins. Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna reksturs á árinu 2016 er 1 m.kr. sem greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. Áætluðum kostnaði árin 2017 og 2018, 3.880 þús. kr. hvort árið, er vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16080140

Samþykkt.

Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. september 2016, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi aðgerðaáætlun í skólamálum. R16090072

Samþykkt.

Skúli Helgason og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Nú er snúið úr vörn í sókn í skólamálum og gripið til aðgerða sem leiðrétta halla í leik- og grunnskólum sem þeir hafa staðið frammi fyrir frá hruni. Framlög til skólamála hækka strax um tæpan milljarð króna í haust og enn frekar á næsta ári. Framlög til sérkennslu í leik- og grunnskólum hækka um 250 m.kr. og framlög vegna fagstarfs í leikskólum og grunnskólum hækka einnig. Framlög til námsgagna og skapandi starfs í leikskólum hækka og inntaka barna sem fædd eru í mars og apríl 2015 á leikskóla hefst frá og með áramótum 2017. Fæðisgjöld hækka lítillega og renna tekjurnar alfarið til skólamötuneyta í kaup á hráefni. Þá verður 45 m.kr. sem var hluti af hagræðingu vegna matarinnkaupa skilað til baka. Framlög Reykjavíkur verða sambærileg framlögum sveitarfélaga sem leggja mest í hráefnisframlög til skólamötuneyta. Leikskólagjöld og önnur gjöld vegna skólagöngu barna verða áfram með þeim lægstu á landinu. Með þessum fyrstu aðgerðum í skólamálum er forgangsröðun meirihlutans sýnd í verki. Stefnan er sett á að skóla- og frístundastarf borgarinnar verði í fremstu röð og að börnum líði vel og þroskist í skapandi og öruggu umhverfi. Áframhaldandi uppbygging skóla- og frístundastarfs verður eitt af meginviðfangsefnum meirihlutans á kjörtímabilinu.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Komið hefur í ljós að með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 gerði meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna algerlega óraunhæfar hagræðingarkröfur til leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar. Með framlögðum tillögum um viðbótarframlög viðurkennir meirihlutinn loks að skólakerfi borgarinnar er gróflega undirfjármagnað og ekki seinna vænna í ljósi þess að rúmlega tveir þriðju fjárhagsársins eru nú að baki. Mikill tvískinnungur felst í því að halda því fram að um ný framlög til skólamála sé að ræða í þessu sambandi því að langstærstum hluta er verið að viðurkenna þann hallarekstur, sem orðinn er að veruleika vegna óraunhæfrar fjárhagsáætlunar, og Reykjavíkurborg hefur ekki tök á að víkja sér undan, t.d. vegna sérkennslu, langtímaveikinda, skólaaksturs og skólamáltíða. Við vinnslu fjárhagsáætlunar 2016 bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og skólastjórar á að ýmsar niðurskurðartillögur meirihlutans væru óraunhæfar. Á yfirstandandi ári hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað fylgt þessum ábendingum eftir í umræðum sem efnt hefur verið til í borgarstjórn, að frumkvæði þeirra. Til dæmis myndi niðurskurður á fæðisgjaldi leikskóla og grunnskóla óhjákvæmilega bitna á gæðum skólamáltíða. Það hefur því miður gerst. Komið hefur í ljós að hluta af fæðisgjaldi leikskólanna er nú ráðstafað til annars en matarinnkaupa og segir formaður Félags leikskólakennara að þar með hafi botninum verið náð. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um málið frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum brást meirihlutinn ekki við þessari alvarlegu stöðu fyrr en málið hafði hlotið mikla og endurtekna umfjöllun í fjölmiðlum. Brýnt er að tryggja að hækkun á fæðisgjaldi nemenda skili sér að öllu leyti til hráefniskaupa og munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fylgjast með því. Athygli vekur að meirihlutinn gerir ekki ráð fyrir neinum aðgerðum í því skyni að styrkja rekstur frístundaheimila Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að niðurskurður hafi jafnvel verið hlutfallslega meiri þar á undanförnum árum en í leikskólum og grunnskólum.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir taka að öllu leyti undir bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna í þessum málum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í hagræðingaraðgerðum meirihlutans var allt kapp lagt á að skerða ekki fagstarf né setja flata hagræðingu á starfsstöðvar. Þess í stað var farið í að spara í miðlægri stjórnsýslu og stjórnsýslu sviðanna og nýta betur það fjármagn sem skóla- og frístundasviði var úthlutað án þess að hrófla við fagstarfi og þjónustu. Vegna seinkunar á innleiðingu sumra þeirra aðgerða, á borð við breytt fyrirkomulag útboða, kom upp vond staða í leik- og grunnskólum. Meirihlutinn brást strax við og gerði það að forgangsverkefni sínu að laga þá stöðu og flýta áformum sínum um endurreisn skólakerfisins. Þær aðgerðir sjáum við í dag og eru góð innspýting í skólakerfið. Það er jákvætt að borgarráð geti sameinast um aðgerðir til að nýta hóflegan viðsnúning í rekstri borgarinnar á þessu ári fyrst og fremst í þágu skólastarfs og að samstaða sé um að það beri að efla. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa hingað til gjarnan lýst vanda skóla- og frístundasviðs sem  „útgjaldavanda“ og talað um að leiðin fram á við felist jafnvel í því að fækka starfsfólki og segja því upp. Í ljósi þeirrar stöðu sem skólarnir standa frammi fyrir í dag telst afar hæpið að þær tillögur Sjálfstæðismanna séu skref í rétta átt að bættu skólastarfi.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka að í fyrri bókunum og tillögum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt til að forgangsraðað yrði í þágu grunnþjónustunnar. Það gerði vinstri meirihlutinn ekki fyrr en fjölmiðlaumfjöllun var orðin það mikil um vandræði grunnskóla og leikskóla í borginni að meirihlutinn neyddist til að taka eitthvað á málinu. Útgjaldavandi sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lýst snýr að kerfinu sjálfu og yfirbyggingu sem meirihlutinn hefur ekki náð tökum á.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn er að ná góðum tökum á yfirbyggingu kerfisins líkt og sést af því að ríflegar hagræðingarkröfur sem gerðar hafa verið til miðlægrar stjórnsýslu hafa náðst í gegn og gott betur.

21. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 31. ágúst 2016, varðandi verklagsreglur um úthlutun nýrra styrkja og samstarfssamninga menningar- og ferðamálaráðs 2017, ásamt fylgiskjölum. R14090064

Samþykkt.

Svanhildur Konráðsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

22. Lagt fram bréf samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. september 2016, varðandi tillögu að nýjum samstarfssamningi um rekstur skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, ásamt fylgiskjölum. R16090039

Samþykkt.

Eva Einarsdóttir og Ómar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja mikilvægt að borgin styðji eins og hægt er við uppbyggingu og rekstur íþrótta sem hægt er að skilgreina sem fjölskylduíþrótt, enda mikilvægt að börn og foreldrar hafi sem flest tækifæri á að nýta frítíma sinn saman.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja fyrirliggjandi samstarfssamning og minna á áður fluttar tillögur flokksins um snjóframleiðslu á Skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins sem enn hafa ekki náð fram að ganga.

23. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. september 2016, með beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun vegna greiðslu kostnaðar við færanlega kennslustofu fyrir starfsemi frístundaheimilisins Sólbúa við Breiðagerðisskóla. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 14. september 2016. R16010225

Samþykkt.

Vísað til borgarstjórnar.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. september 2016, ásamt skýrslu starfshóps Reykjavíkurborgar um framtíð Laugardalsvallar, dags. 9. september 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fallast á að hefja formlegar viðræður Reykjavíkurborgar, ríkisins og KSÍ um framtíð Laugardalsvallar, á grundvelli erindis KSÍ frá 10. mars 2016, þar sem óskað var eftir viðræðum um „hugsanleg kaup sambandsins á Laugardalsvelli og hefja samtal um uppbyggingu innan núverandi byggingarreits vallarins án fjárhagslegrar aðkomu borgarinnar.“ Með viðræðunum er stefnt að sameiginlegri viljayfirlýsingu þessara aðila um aðkomu ríkisins að fjármögnun þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum en með fyrirvörum um samþykki á nauðsynlegum breytingum á skipulagi í Laugardal og að KSÍ takist að fjármagna verkefnið.

Greinargerð fylgir tillögunni. R15020197

Samþykkt.
25. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um hagkvæmnismat á að setja í stokk hluta Háaleitisbrautar, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí sl., ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. september 2016. R16070094

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eins og fram kemur í umsögn samgöngustjóra hefur lagning Háaleitisbrautar í stokk ekki verið til skoðunar og er ekki hluti af gildandi aðalskipulagi. Umferðarþungi og umferðarspár á þessum hluta gefa ekki tilefni til að varið sé fjármagni í umrædda skoðun og skynsamlegra að forgangsraða fjármunum með öðrum hætti.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja mikilvægt að horft verði til framtíðar í samgöngumálum og uppbyggingu fasteigna og innviða borgarinnar, bæði í tengslum við áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýrinni, samgöngumiðstöðvar og þeirri staðreynd að land til þéttingar byggðar er takmarkað. Því er nauðsynlegt að framkvæmd verði hagkvæmnisathugun á helstu þéttingarsvæðum borgarinnar, svæði vestan Elliðaáa, um að leggja götur í stokk, en þessi umræða hefur komið upp ítrekað í gegnum árin en þá frekar í tengslum við ákveðnar götur heldur en málið sé skoðað í heild. Markaðsaðstæður eru þannig að möguleiki er nú til aðkomu einkaaðila.
26. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um stofnun starfshóps um hvernig auka megi virðisauka í hóteluppbyggingu sbr. 32. mál fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí sl. Jafnframt er lögð fram umsögn menningar- og ferðamálasviðs, fjármálaskrifstofu og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. september 2016. R16070096

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Óljóst er hvaða vanda fyrirliggjandi tillaga á að leysa, enda er, eins og fram kemur í umsögn fjármálaskrifstofu útlit, fyrir að ferðaþjónustan vinni hörðum höndum að því að þróa vandaða gististaði sem geti rukkað hátt gjald fyrir þjónustu sína. Því er lagt til að í stað þeirrar tillögu sem liggur fyrir skuli Reykjavíkurborg fremur setja sér heildstæða stefnu um framtíðaruppbyggingu á gistiþjónustu í borginni að fordæmi Amsterdam borgar. Lagt er til að borgarstjóra sé falið að leggja fram tillögu og erindisbréf þar að lútandi.

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna því að tillaga okkar frá 21. júlí, hafi hvatt meirihlutann til þess að taka til alvarlegrar athugunar virðisauka í hóteluppbyggingu og því samþykkjum við breytingartillögu meirihlutans sem er víðtækri en tillaga okkar. Mikilvægt er að huga til framtíðar í þessum málum ásamt því að taka á brýnum vanda tengdum uppbyggingu innviða innan borgarinnar í tengslum við aukinn fjölda ferðmanna. Finna þarf leiðir til að auka tekjur sveitarfélagsins af auknum umsvifum í ferðaþjónustu innan borgarinnar.

27. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mælingar á álagi starfshópa, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. maí sl. Jafnframt er lagt fram svar borgarstjóra, dags. 13. september 2016, ásamt greinargerð og svohljóðandi breytingartillögu:

Lagt er til að borgarráð samþykki svohljóðandi breytingartillögu:

Lagt er til að vinnustundir sem starfsmenn verja í vinnu vegna starfshópa verði skráðar í tilraunaverkefni um verkbókhald en borgarráð samþykkti þann 9. júní sl. að fela mannauðsdeild og fjármálaskrifstofu að undirbúa tilraunaverkefnið og val á þátttakendum í samráði við fagsvið Reykjavíkurborgar. R16050162

Samþykkt.

28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13 september 2016, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu að reglum Reykjavíkurborgar um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga. Tilgangur reglna þessara er að tryggja að meðferð innherjaupplýsinga hjá Reykjavíkurborg sé í samræmi við lög og reglur sem gilda á verðbréfamarkaði. Reglunum er ætlað að taka til meðferðar starfsmanna Reykjavíkurborgar, þ.m.t. kjörinna fulltrúa, og aðila þeim fjárhagslega tengdum, á innherjaupplýsingum og stuðla þannig að því að viðskipti þeirra með fjármálagerninga Reykjavíkurborgar séu í samræmi við ákvæði laga og reglna sem um viðskiptin gilda og koma þannig í veg fyrir hagsmunaárekstra eða óeðlileg hagsmunatengsl. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um ný viðmið um hverjir skuli skilgreindir fruminnherjar hjá Reykjavíkurborg og að eldri viðmið sem samþykkt voru í borgarráði 11. júní 2015 falli samhliða úr gildi. Enn fremur er lagt til að borgarráð skipi Ívar Örn Ívarsson, lögfræðing fjármálaskrifstofu, regluvörð og Grétar Þór Jóhannsson LL.M., sérfræðing innkaupadeildar, staðgengil regluvarðar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16080137

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna því að verið sé að bæta verklag í tengslum við meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga og ljóst er að fyrirspurn okkar frá 11. ágúst sl. hefur hvatt til og ýtt undir að þessi vinna hafi verið kláruð. Við teljum enn, í samræmi við tillögu okkar frá 11. ágúst sl., að mikilvægt sé að formenn allra nefnda og ráða borgarinnar séu sem fruminnherjar, en ekki aðeins kjörnir fulltrúar. Í tengslum við viðmið Reykjavíkurborgar um hverjir skuli skilgreindir sem fruminnherjar telur meirihlutinn að ekki sé þörf á því að formenn nefnda og ráða séu þar inni, því er ljóst að tillaga okkar verður felld þegar hún verður tekin fyrir á fundi borgarráðs.

29. Lagt fram svar regluvarðar Reykjavíkurborgar, dags. 13. september 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi skráningu fruminnherja, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. ágúst 2016. R16080046

30. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. september 2016, ásamt drögum að erindisbréfi starfshóps um svæði Íþróttafélags Reykjavíkur í Mjódd. R14020065

Samþykkt að stofnaður verði starfshópur skv. framlögðum drögum að erindisbréfi.

31. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. september 2016, vegna viljayfirlýsingar milli Reykjavíkurborgar og Heklu hf. um uppbyggingar á lóðum ásamt drögum að viljayfirlýsingu. R16020062

Frestað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að fyrirliggjandi viljayfirlýsing, sem felur í sér ráðstöfun á 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd án útboðs, verði send til umsagnar eftirtaldra aðila áður en hún verður tekin til frekari afgreiðslu og vinnslu innan borgarkerfisins, Íþróttafélag Reykjavíkur, atarfshópur Íþróttafélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar um svæði ÍR í Mjódd, íbúasamtökin Betra Breiðholt, hverfisráð Breiðholts, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, hjúkrunarheimilið Skógarbær, Árskógum 2, félagsstarfið Árskógum 4, húsfélagið Árskógum 6-8, Félag eldri borgara í Reykjavík, húsnæðissamvinnufélagið Búseti.

Frestað.

32. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. september 2016, um úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna lóðarinnar nr. 10 við Haukdælabraut. R16060149

Samþykkt.
33. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar að staðsetningu umboðsmanns borgarbúa ásamt umsögn stjórnkerfis- og lýðræðisráðs um tillöguna, dags, 14. september 2016:

Lagt er til að embætti umboðsmanns borgarbúa verði sérstök eining í skipuriti Reykjavíkurborgar, með sjálfstæðan fjárhag frá 1. janúar 2017 og að umboðsmaður starfi í umboði stjórnkerfis- og lýðræðisráðs sem er jafnframt falið að endurskoða gildandi samþykkt um umboðsmann borgarbúa. Umboðsmaður verður ráðinn af borgarráði að fenginni tillögu stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.

Greinargerð fylgir tillögunni. R14090127

Vísað til borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Við teljum eðlilegt að embætti umboðsmanns borgarbúa færist til stjórnkerfis– og lýðræðisráðs þótt fyrr hefði verið.  Það er þó miður að forsætisnefnd hafi talið að ekki þyrfti að skilgreina nánar starfsemi umboðsmanns borgarbúa eins  og samþykkt var að fela forsætisnefnd að gera 16. september 2014 og telji nú þann kost vænlegastan að færa umboðsmann borgarbúa í stjórnkerfinu frá forsætisnefnd og til stjórnkerfis- og lýðræðisráðs þegar að nefndarmenn í forsætisnefnd hafa fengið pólitískar ákúrur fyrir atlögu gegn áliti umboðsmanns borgarbúa.

Fundi slitið:

S. Björn Blöndal

Líf Magneudóttir Halldór Halldórsson

Kjartan Magnússon Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Halldór Auðar Svansson