Borgarráð - Fundur nr. 5419

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 25. ágúst, var haldinn 5419. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.03. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir, Pétur Ólafsson, Bjarni Þóroddsson og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga B. Laxdal.
Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 19. ágúst 2016. R16010023

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 12. ágúst 2016. R16010027

3. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. ágúst 2016. R16010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 22. ágúst 2016. R16010009

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 16. ágúst 2016. R16010006

6. Lagður fram listi yfir embættisafgreiðslur skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, alls 12 mál. R16080007

7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R16080001

- Kl. 9.10 taka Kristbjörg Stephensen og Hrólfur Jónsson sæti á fundinum.

8. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2015. Einnig er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu dags. 25. ágúst 2016 og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 23. ágúst 2016. R16080054

Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-júní 2016 sýnir að rekstrarniðurstaða samstæðu, a- og b-hluta, var jákvæð um 10.561 milljón krónur en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 5.300 milljónir á tímabilinu. Rekstrarniðurstaðan var því 5.261 milljónum betri en gert var ráð fyrir, en það má rekja að mestu til fjármagnsliða og matsbreytinga fjárfestingaeigna. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 9.504 milljónir, sem var 622 milljónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða a-hluta var jákvæð um 490 milljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 300 milljónir á tímabilinu. Jákvæð niðurstaða skýrist að hluta af hærri skatttekjum, sem voru 554 milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir, en einnig af hagræðingarvinnu á fagsviðum borgarinnar, sem skilaði 611 milljónum króna á tímabilinu. Launakostnaður er þó aðeins yfir áætlun og mikilvægt er að halda áfram hagræðingaraðgerðum þrátt fyrir að þær hafi nú þegar skilað rekstrinum yfir núllið. Rekstri borgarinnar sem og sveitarfélaga almennt er enn þröngur stakkur sniðinn og nauðsynlegt er að samhliða hagræðingu verði áfram unnið með ríkinu að endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga, enda hafa þau þar öll sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ákveðinn viðsnúningur komi fram í 6 mánaða uppgjöri Reykjavíkurborgar. Löngu er kominn tími til að löngu tímabili taprekstrar ljúki. Hafa ber í huga að ástæða viðsnúnings er vegna þess að skatttekjur eru 575 milljónir kr. yfir áætlun og að tekjum er flýtt vegna eftirálagðs útsvars um 1,5 milljarða kr. Þá ber að hafa í huga að tekjufærsla á samstæðu er 5,6 milljarðar kr. vegna hækkunar á eignum Félagsbústaða sem er einungis reiknuð stærð og hefur engin áhrif á rekstur eða efnahag Reykjavíkurborgar nema þessar eignir verði seldar sem varla gerist enda langir biðlistar eftir félagslegu húsnæði. Álagning útsvars á Reykvíkinga er í hæstu leyfilegu hæðum. Lög heimila borginni ekki að hækka útsvarið enn frekar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að um leið og svigrúm skapast hjá borginni til að bæta þá grunnþjónustu sem enn er ekki nógu góð eigi að hefja lækkun útsvars.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna hvatningu fjármálaskrifstofu til borgarstjórnar um endurskoðun á framkvæmdaáætlunum a-hluta og fyrirtækja Reykjavíkurborgar, í ljósi þróunar efnahagsmála og byggingamarkaðar á næstu misserum. Öllum er ljós sú þensla sem nú á sér stað t.d. á fasteignaverði í Reykjavík sem hefur m.a. leitt til 5 milljarða endurmats fasteigna Félagsbústaða á fyrstu 6 mánuðum ársins, en sú fjárhæð er reiknuð stærð en ekki raunverulegir peningar í kassa borgarsjóðs. Nýsamþykkt lög um opinber fjármál gera ráð fyrir að opinberir aðilar eins og Reykjavíkurborg dragi saman seglin á þenslutíma eins og  nú er. Mikilvægt hlýtur að vera fyrir borgarstjórn að taka ákvarðanir um að draga einnig saman í rekstri á þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg er ekki skylt samkvæmt lögum að sinna.

Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Einar Bjarki Gunnarsson og Sigurrós Ásta Sigurðarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Magnúsi Má Guðmundssyni, Þórgný Thoroddsen og Ilmi Kristjánsdóttur.

9. Fram fer kynning á niðurstöðum á rannsókn um örplast í hafi. R16080101

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráð felur umhverfis- og skipulagssviði í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur að skoða hvernig megi hefta dreifingu örplasts. Jafnframt verði flýtt áætlun um hvernig megi draga úr notkun plasts almennt.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir þakka fyrir mjög áhugaverða kynningu á örplasti í hafi. Ljóst er af þeim tölum sem kynntar hafa verið að skolphreinsistöðvar borgarinnar eru á engan hátt sambærilegar að gæðum og þau lönd sem við berum okkur saman við, t.d. í Svíþjóð og Finnlandi. Mjög óþægilegt er að sjá þessar tölur sem sýna hversu mikil losun á örplasti sér stað í gegnum skolp hérlendis. Mikilvægt er fyrir Reykjavík sem höfuðborg Íslands sem hefur orð á sér að vera hreint og ómengað land að taka forystu í þessum málum og láti framkvæma áhættumat án tafar á losun örplasts úr skolpi í hafið.

Eygerður Margrétardóttir og Hrönn Ólína Jörundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Magnúsi Má Guðmundssyni, Jóna Björg Sætran, Þórgný Thoroddsen og Ilmi Kristjánsdóttur.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. ágúst 2016, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 varðandi breytingu á deiliskipulagi 1.190.0, Njálsgötureitur 1, vegna lóðarinnar nr. 37 við Njálsgötu, ásamt fylgiskjölum. R16040189

Borgarráð staðfestir synjun umhverfis- og skipulagsráðs.
11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. ágúst 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 vegna breytingu á skilmálum deiliskipulags Foldahverfis suður, 1. og 2. áfanga vegna, lóðarinnar nr. 49-49a við Hverafold, ásamt fylgiskjölum. R16050172

Samþykkt.

12. Fram fer kynning á sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir rekstur Reykjavíkurflugvallar sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst sl.

Árný Sigurðardóttir og Rósa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16010004

13. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, ódags., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um gatnaframkvæmdir á Suðurgötu, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst sl. og 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí sl. R16060039

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir framlagt svar um gatnaframkvæmdir á Suðurgötu þar sem m.a. kemur fram að útlit sé fyrir að gatan verði lokuð í um sjö mánuði vegna umræddra framkvæmda. Æskilegt hefði verið að þessar framkvæmdir hefðu tekið mun skemmri tíma í ljósi þess að Suðurgata gegnir mikilvægu hlutverki í gatnakerfi Vesturbæjar og Skerjafjarðar og á meðan lokun götunnar stendur er umferð beint inn í nærliggjandi íbúahverfi. Í svarinu kemur fram að við gatnagröftinn hafi verið komið niður á gamla sorphauga. Er óskað eftir nánari upplýsingum um þann þátt málsins, þ.e. um hvaða sorphauga er að ræða og frá hvaða tíma þeir eru.

14. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 29. júlí 2016, varðandi skaðabótakröfu vegna afgreiðslu byggingafulltrúa frá 20. janúar 2015 vegna Hallveigarstígs 2. R16030135

Samþykkt.
- Kl. 11.15 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

15. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að fá áheyrnarfulltrúa í ofbeldisvarnarnefnd, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2016. R15060157

Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata minna á að nefndir og ráð á vegum borgarinnar eru ýmist skipuð fulltrúum allra flokka eða fulltrúum meirihluta og minnihluta. Þegar síðari hátturinn er hafður á tilnefnir meirihluti tvo fulltrúa en minnihluti einn, en þetta er algengt þegar um er að ræða nefndir sem jafnframt eru skipaðar fulltrúum utan borgarkerfisins. Í erindisbréfi ofbeldisvarnarnefndar kemur fram að sjö fullltrúar eru skipaðir í nefndina, þar af þrír frá borginni. Auk fulltrúa borgarinnar sitja í nefndinni fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Stígamóta, Samtaka um kvennaathvarf og embættis landlæknis. Ofbeldisvarnarnefnd er því hluti af stóru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar við ýmis embætti og félagasamtök með aðkomu fulltrúa meirihluta og minnihluta borgarstjórnar. Í aðdragandanum að stofnun ofbeldisvarnarnefndar, sem allir flokkar voru samstíga í, var horft til þess að fulltrúar borgarinnar yrðu ekki fleiri en fulltrúar samstarfsaðilanna, hvort sem þeir fulltrúar væru til áheyrnar eða ekki. Á þeim forsendum telja borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata ekki tækt að samþykkja tillögu um fjölgun pólitískra fulltrúa í nefndinni.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja það ekki í anda lýðræðis og gegnsæis sem boðað er af meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þegar þeir hafna tillögu annars stjórnmálaflokksins í minnihluta um áheyrnafulltrúa í ofbeldisvarnarnefnd. Fer þar meirihlutinn algerlega gegn yfirlýsingu sinni í samstarfssáttmála þar sem segir: Síðast en ekki síst viljum við að það sé ekki bara okkar vilji sem gildi. Við viljum efla lýðræðið svo að kraftar allra borgarbúa nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku hins opinbera.

16. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um opinn kynningarfund á Kjalarnesi vegna byggingar kláfs í Esjuhlíðum, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. ágúst og sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2016. R16080044

Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarráðs:

Borgarráð samþykkir að efnt verði til opins kynningarfundar á Kjalarnesi vegna þeirra hugmynda sem uppi eru um fjölgun útivistarkosta og aukinnar þjónustu á Esjunni og við hana. Stefnt skal að því að halda fundinn innan 6 vikna.

Samþykkt.

17. Lögð fram verndaráætlun Minjastofnunar Íslands fyrir minjasvæðið á Laugarnestanga, dags. í maí 2016, ásamt fylgiskjölum. R15040200

Samþykkt.

18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. ágúst 2016, ásamt erindisbréfi starfshóps um innleiðingu hugbúnaðar fyrir stjórnendaupplýsingar. R15120082

Samþykkt.
19. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 22. ágúst 2016, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2016, ásamt fylgiskjölum. R16010225

Vísað til borgarstjórnar.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 19. ágúst 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fara í útboð á fjármálaþjónustu vegna fruminnheimtu til næstu fimm ára frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2021, sem fari í gegnum formlegt innkaupaferli á evrópska efnahagssvæðinu skv. lögum um opinber innkaup nr. 84/2007. Í útboðsskilmálum verður gert ráð fyrir að heimilt verði að segja upp síðasta ári samnings með sex mánaða fyrirvara og að heimilt verði að framlengja samningi um eitt ár. R16080096

Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. ágúst 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun 4.040 fermetra lóðar við Lambhagaveg 5. R16030110

Samþykkt.

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu: Framsókn og flugvallarvinir leggja fram þá tillögu að borgarráð samþykki að láta framkvæma áhættumat hjá óvilhöllum sérfræðingi-um á losun örplasts úr skolpkerfi Reykjavíkur í hafið. R16080101

Frestað.

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu: Framsókn og flugvallarvinir leggja fram þá tillögu að borgarstjóri hafi forystu um það að vekja athygli á losun örplasts í gegnum skolp út í hafið hjá sambandi sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu og fái þar liðstyrk þeirra til að taka á þessum málum. R16080101

Frestað.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir leggja fram þá tillögu að borgarráð samþykki að senda eftirfarandi áskorun til Menntamálastofnunar: Borgarráð krefst þess að grunnskólanemendur verði ekki látnir þreyta samræmd próf með rafrænum hætti skólaárið 2016-2017.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16080120

Frestað.

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Viðhaldi á gangstéttum er víða ábótavant í borginni sem veldur gangandi vegfarendum óþægindum og jafnvel slysahættu. Athygli vekur að gangstéttir eru víða illa farnar við biðstöðvar strætisvagna. Borgarráð samþykkir að farið verði yfir ástand gangstétta og gönguleiða við biðstöðvar í borginni og ráðist í úrbætur sem fyrst þar sem þörfin er brýn. R16080121

Frestað.

Fundi slitið kl. 11.56

S. Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon

Líf Magneudóttir Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir