Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2016, fimmtudaginn 18. ágúst, var haldinn 5418. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.09. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Ólöf Örvarsdóttir, Pétur Ólafsson, Bjarni Þóroddsson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 12. ágúst 2016. R16010003
2. Lögð er fram fundarferð menningar- og ferðamálaráðs frá 8. ágúst 2016. R16010018
3. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 9. ágúst 2016. R16010004
Borgarráð óskar eftir því að tillaga að sértækum starfsleyfisskilyrðum, sbr. lið 3 í fundargerðinni, verði kynnt á næsta fundi borgarráðs.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir lýsa ánægju sinni með að heilbrigðisnefnd hafi samþykkt samhljóða tillögu að sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir Isavia ohf. til að starfrækja áfram Reykjavíkurflugvöll.
4. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 10. ágúst 2016. R16010019
5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016. R16010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
6. Lögð fram fundargerð mannréttindaráðs frá 9. ágúst 2016. R16010017
7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R16080007
8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R16080001
- Kl. 9.15 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
9. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R16010042
Samþykkt að veita Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík styrk að fjárhæð kr. 1.200.000.- vegna friðarþema á Riff 2016.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði frá 19. júní 2014.
10. Lagt er til að Eyrún Eyþórsdóttir taki sæti sem aðalmaður í menningar- og ferðamálaráði í stað Elínar O. Sigurðardóttur. R14060109
Samþykkt.
11. Lagt er til að Gísli Garðarson taki sæti sem aðalmaður í stjórnkerfis- og lýðræðisráði í stað Eyrúnar Eyþórsdóttur og að Gústav Adolf B. Sigurbjörnsson taki sæti sem varamaður í stað Auðar Alfífu Ketilsdóttur. R14060144
Samþykkt.
12. Lagt er til að Margrét Rúnarsdóttir taki sæti sem varamaður í hverfisráði Árbæjar í stað Margrétar Guðnadóttur. R14060115
Samþykkt.
13. Lagt er til að Eyrún Eyþórsdóttir taki sæti sem aðalmaður í hverfisráði Háaleitis og Bústaða í stað Elínar O. Sigurðardóttur. R14060119
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. ágúst 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2016 um breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 hvað varðar stýringu á starfsemi við skilgreindar götuhliðar í miðborginni ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. ágúst 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2016, um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar 19c við Nýlendugötu, ásamt fylgiskjölum. R16080057
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. ágúst 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2016 um tillögur fegrunarnefndar Reykjavíkur að tilnefningum til viðurkenninga fyrir árið 2016 vegna lóða fjölbýlishúsa og stofnana og vegna endurbóta á eldri húsum. R15080021
Samþykkt.
Viðurkenningarnar eru bundnar trúnaði fram að afhendingu þeirra kl. 16.00 í dag.
- Kl. 9.25 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.
17. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 við Brautarholt, ásamt fylgiskjölum. R16070063
Frestað.
18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. ágúst 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs 10. ágúst 2016, um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem greitt er með í grunnskólann Framsýn í Hafnarfirði. R16080059
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja æskilegt að grunnskólanemendur í Reykjavík hafi val um hvaða skóla þeir sæki, óháð rekstrarformi skóla eða sveitarfélagamörkum og styðja því ekki þá ógagnsæju kvótasetningu sem meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna leggur til að viðhöfð verði í þessum efnum. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins styðja því fyrirliggjandi umsóknir tveggja reykvískra grunnskólabarna um fjárveitingu vegna skólavistar þeirra í grunnskólanum Framsýn.
Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
19. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. ágúst 2016:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samstarfssamningi við Hönnunarmiðstöð Íslands um starfsemi að Aðalstræti 2 í Reykjavík. Framlag Reykjavíkurborgar verður fjármagnað árið 2016 af kostnaðarstaðnum 07400 og frá árinu 2017-2019 af kostnaðarstaðnum 03113 hjá menningar- og ferðamálasviði. Heildarframlag Reykjavíkurborgar á tímabilinu er 25 m.kr. Hjálagður samningur mun ekki kalla á viðbótarfjármuni í ramma menningar- og ferðamálasviðs sem falin er ábyrgð á umsjón hans og eftirfylgni.
Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lögð fram drög að samstarfssamningi. R16050094
Samþykkt.
20. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 9. ágúst 2016, sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs frá 8. ágúst þar sem því er beint til borgarráðs að samþykkja að Huld Ingimarsdóttir, skrifstofustjóri rekstrar og mannauðsmála á menningar- og ferðamálasviði, taki sæti Signýjar Pálsdóttur skrifstofustjóra menningarmála sem fulltrúi menningar- og ferðamálasviðs í hússtjórn Borgarleikhússins. R12110059
Samþykkt.
21. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 11. ágúst 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um sumaráætlun Strætó bs., sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. maí sl., ásamt fylgigögnum. R16050163
Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sumaráætlun Strætó var lögð fram í borgarráði 19. maí sl. Með ólíkindum er að þrjá mánuði skuli hafa tekið að svara fyrirspurninni en á þessum tíma tók umrædd sumaráætlun gildi og féll síðan aftur niður um leið og vetraráætlun tók gildi að nýju. Slík vinnubrögð sýna ljóslega að verkstjórn er verulega ábótavant í borgarráði varðandi afgreiðslu slíkra fyrirspurna.
22. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 17. ágúst 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um aukið framboð byggingarsvæða, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí sl. R16070095
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Með því svari sem hér er lagt fram er ekki hægt að sjá hvernig borgarstjóri ætlar sér að ná félagslegum markmiðum húsnæðisstefnunnar á kjörtímabilinu þar sem borgarráð samþykkti t.d. síðast í júlí skipulagsbreytingu þar sem beinum orðum er sagt að félagslegum markmiðum sé ekki náð á RÚV reitunum. Eina lóðin sem minnst er á að Reykjavík eigi er Vesturbugt. Aðrar lóðir sem rætt er um tengjast eignarrétti einkaaðila. Nýlegar fréttir af leiguverði 4ra herb. búseturéttaríbúða í Smiðjuholti séu 322.000 kr. á mán, leiða ekki líkur að þær eignir sem byggðar eru núna og borgarstjóri taldi upp í kosningaloforðum sínum séu til þess fallnar að tryggja félagslega blöndun. Framkvæmdastjóri Búseta segir í samtali við Vísi þann 11. ágúst sl. „Við getum sagt að það sé ekki fyrir þá allra efnaminnstu að ráða við kostnaðinn sem stafar af hækkuðum byggingarkostnaði í þessum íbúðum sem eru byggðar miðsvæðis.“ Til að félagsleg markmið húsnæðisstefnunnar náist er nauðsynlegt að byggja í úthverfum borgarinnar.
23. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. ágúst 2016, um kaupsamning og afsal vegna lands undir nýtt skipulag í Skerjafirði. R12100372
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Hæstaréttardómur 268/2016 fjallar ekki um flugöryggi heldur um að samninga skuli halda. Réttmætar áhyggjur fagaðila um flugöryggi eru enn til staðar og öll rök til áframhaldandi opnunar brautar 06/24 hafa komið fram af hálfu Framsóknar og flugvallarvina frá því við tókum sæti í borgarstjórn. Alþingismenn allir, 63, hvar í flokki sem þeir standa og hvar á landi sem þeir búa, hafa brugðist kröfu þeirra tuga þúsunda sem undirrituðu áskorun um óbreyttan flugvöll í Vatnsmýrinni og hafa þingmenn ekkert gert til að koma í veg fyrir lokun neyðarbrautarinnar. Valdið er nú og hefur frá síðasta sumri verið hjá Alþingismönnum öllum. Hægðarleikur hefði verið fyrir Alþingi að aðhafast og fara fram með ýmsar aðgerðir til að tryggja flugöryggi og áframhaldandi opnun brautar 06/24 en í staðinn fyrir að beita sér í málinu þá selur íslenska ríkið nú landið undir flugvöllinn í Reykjavík og kaupverðið meira en kr. 440.000.000.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Minnt er á að flugbraut er til staðar í Keflavík með sömu stefnu og þriðja brautin á Reykjavíkurflugvelli. Henni var lokað fyrir nokkrum árum. Ríkið hefur í hendi sér að opna þá braut, telji það flugöryggi eða sjúkraflug kalla á það. Flugmálayfirvöld hafa ekki talið ástæðu til þess, enda sé það ónauðsynlegt og kostnaðarsamt. Þess vegna er fagnað að Framsókn og flugvallarvinir beina nú áskorunum sínum til ríkisins og Alþingis sem fara með málefni Keflavíkurflugvallar.
24. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. ágúst 2016, vegna kæru á ákvörðun Borgarstjórnar Reykjavíkur frá 3. maí 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll.
Erna Hrönn Geirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13120099
- Kl. 10.15 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.
25. Lagt fram minnisblað, dags. 18. ágúst 2016, til framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga um útsvar og ráðstöfun iðgjalds til greiðslu inn á húsnæðislán og sparnaðar til fasteignakaupa.
Karl Björnsson og Sigurður Snævarr taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16080078
26. Fram fer umræða um löggæslumál í Reykjavík.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Rannveig Þórisdóttir og Egill Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16080045
27. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fund með lögreglustjóra um skotárás innan borgarinnar, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. ágúst 2016. R16080045
Samþykkt.
28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. ágúst 2016:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að þjónustusamningi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Kostnaður skv. samningnum fyrir árið 2016 er 2.375 þ.kr. sem færist á kostnaðarstað 09510 - ýmsar samningsbundnar greiðslur.
Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt fylgja drög að samningi. R16080067
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
29. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 17. ágúst 2016, um viðauka við fjárfestingaáætlun A-hluta Reykjavíkurborgar 2016, ásamt fylgiskjölum. R16010225
Liður nr. 20, endurnýjun á gervigrasvöllum Víkings, er samþykktur.
Liðir 1-19 og 21-69 eru samþykktir.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu þeirra liða.
Samþykkt.
30. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að senda áskorun til innanríkisráðherra um að lögregluembættum innan höfuðborgarinnar verði fjölgað innan sex mánaða. R16080088
Frestað.
31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Þar sem fyrir liggur úrskurður umhverfis- og auðlindamála um flugskýli á Reykjavíkurflugvelli, sbr. lið 18 í dagskrá, þá óskum við eftir svari hvort og með hvaða hætti haldið er utan um gildistíma lóðarleigusamninga borgarinnar og hvenær þeir renna út. Þá óskast upplýsingar um hvort að Reykjavíkurborg hafi á þessu kjörtímabili neitað að endurnýja lóðarleigusamninga á ákveðnum svæðum og hvaða svæði það þá séu. R16080089
32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Nú er ljóst að miklar byggingarframkvæmdir eru á vegum einkaaðila í borginni sem valda miklum truflunum á umferð, bæði gangandi, hjólandi og bifreiða og skapa hættu og öngþveiti fyrir íbúa og ferðamenn, ásamt því í mörgum tilvikum að hefta aðgengi almennings að verslun og viðskiptum á þéttingarsvæðum, aðallega í miðborginni, eins og t.d. framkvæmdir á Hverfisgötu, við Laugaveg og Austurbakka (nágrenni Hörpunnar og Tryggvagötu) eru að gera. Óskum við eftir upplýsingum um hversu margar athugasemdir og kvartanir út frá aðgengi hafa borist vegna þéttingarsvæða, byggingarsvæða í borginni og hvernig hefur verið brugðist við þeim. R16080090
33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Óskað er eftir að Framsókn og flugvallarvinir fái áheyrnarfulltrúa í ofbeldisvarnarnefnd með málfrelsi, tillögu- og bókunarrétt. R15060157
Frestað.
34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Framsókn og flugvallarvinir leggja fram þá tillögu að verklag við tilnefningar á fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar verði gert opinbert og gegnsætt, þannig að auglýst verði opinberlega á vefmiðlum og prentmiðlum eftir tillögum og að samráð við öll hverfisráðin verði formlegt. Með þessu viljum við færa valdið frá embættismönnum til borgaranna sjálfra. R16080091
Frestað.
35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráð samþykkir að ráðist verði í úrbætur á grásleppuskúrum og öðrum menningarminjum við Grímsstaðavör. Fyrir komandi vetur verði ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við að verja minjarnar gegn frekara tjóni. Í tengslum við fjárhagsáætlun 2017 verði síðan teknar ákvarðanir um frekara viðhald og endurbætur á svæðinu. R16080092
Frestað.
36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að fella niður strætisvagnaakstur um Reynisvatnsveg í Grafarholti. Ofan við veginn er fjölmenn íbúabyggð, m.a. stúdentagarðar, en við byggingu þeirra á sínum tíma voru gefin sérstök fyrirheit um að séð yrði til þess að þeir yrðu vel tengdir strætisvagnakerfi borgarinnar. Þá er enn og aftur óskað eftir heildstæðum rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að í leiðakerfisbreytingum Strætó bs. að undanförnu hefur strætisvagnaþjónusta verið skert mest í eystri hverfum borgarinnar. R16080093
37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka fyrirspurn sína frá 7. júlí sl. um framkvæmdir við Suðurgötu og hvenær gatan verði opnuð fyrir umferð að nýju. Með ólíkindum er að sex vikur dugi ekki til að fá svar við svo einfaldri fyrirspurn og gefur það til kynna að verkferlum sé verulega ábótavant í borgarráði varðandi afgreiðslu slíkra fyrirspurna. Minnt skal á að framkvæmdir þessar hafa þann annmarka í för með sér að bílaumferð, sem venjulega fer um Suðurgötu, er beint inn í nærliggjandi íbúahverfi meðan á lokun götunnar stendur. R16060039
38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráð samþykkir að efnt verði til opins kynningarfundar á Kjalarnesi til að kynna fyrirhuguð áform um uppsetningu kláfs í Esjuhlíðum. Í málinu verði lögð áhersla á gott samráð við íbúa á svæðinu. R16080044
Frestað.
Fundi slitið kl. 11.40
S. Björn Blöndal
Halldór Auðar Svansson Líf Magneudóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon
Halldór Halldórsson Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir