No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, var haldinn 5417. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09.05. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Halldór Auðar Svansson, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Sigurður Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Ólöf Örvarsdóttir, Pétur Ólafsson, Bjarni Þóroddsson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs 5. ágúst 2016. R16010015
2. Lagðar fram fundargerðir ofbeldisvarnarnefndar frá 2. maí og 5. júlí 2016. R16010036
3. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2016. R16010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R16080007
5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R16080001
6. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R16010042
Öllum styrkumsóknum hafnað.
- Kl. 9.10 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 9.13 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.
7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á tillögu að verklagi umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngudeildar, dags. 5. júlí 2016, sem felst í að hafin verði nánari greining á möguleikum í útfærslu samgangna og uppbyggingu í þróunarásnum Örfirisey-Keldur, nánar tiltekið á kaflanum Grensásvegur-Gullinbrú, í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, ásamt fylgiskjölum. R16070046
Samþykkt.
Þorsteinn Hermannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. júlí 2016 varðandi breytingu á deiliskipulagi Norðurstígsreits vegna lóðarinnar nr. 24 við Vesturgötu, ásamt fylgiskjölum. R15100345
Synjun umhverfis- og skipulagsráðs staðfest.
- Kl. 9.30 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.
9. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. apríl 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs s.d. um viðmið um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem greitt er með af Reykjavíkurborg ásamt fylgiskjölum. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 21. júlí 2016. R16040223
Samþykkt, með þeirri breytingu að viðmið um hámarksfjölda gilda ekki um grunnskólann á Tálknafirði með vísan til niðurstöðu í umsögn borgarlögmanns. Skóla- og frístundasviði er falið að útfæra endanleg gögn miðað við þá breytingu. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja æskilegt að grunnskólanemendur í Reykjavík hafi val um hvaða skóla þeir sæki, óháð rekstrarformi skóla eða sveitarfélagamörkum og styðja því ekki þá ógagnsæju kvótasetningu sem meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna leggur til að viðhöfð verði í þessum efnum.
10. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 30. júní 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 29. júní 2016, um frístundamiðstöðvar Kamps og Frostaskjóls ásamt fylgiskjölum. Jafnframt er lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 2. ágúst 2016. R16030093
Samþykkt.
11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. ágúst 2016:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samstarfssamningi við Hönnunarmiðstöð Íslands um starfsemi að Aðalstræti 2 í Reykjavík. Framlag Reykjavíkurborgar verður fjármagnað árið 2016 af kostnaðarstaðnum 07400 og frá árinu 2017-2019 af kostnaðarstaðnum 03113 hjá menningar- og ferðamálasviði. Heildarframlag Reykjavíkurborgar á tímabilinu er 25 m.kr. Hjálagður samningur mun ekki kalla á viðbótarfjármuni í ramma menningar- og ferðamálasviðs sem falin er ábyrgð á umsjón hans og eftirfylgni.
Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lögð fram drög að samstarfssamningi. R16050094
Frestað
12. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, dags. 15. mars 2016, um flutning Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, ásamt greinargerð. Jafnframt er lögð fram umsögn borgarstjóra og borgarritara, dags. 25. apríl 2016. Einnig er lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarstjóra, dags. 9. ágúst:
Borgarstjórn samþykkir að flytja starfsemi Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Reykjavík, Höfuðborgarstofu og skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs í Ráðhús Reykjavíkur. Markmið flutningsins er að spara húsnæðiskostnað og bæta þjónustu við ferðamenn. R16030141
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Hugmyndir um flutning Höfuðborgarstofu, Upplýsingamiðstöðvar ferðamála og skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs hafa verið til skoðunar í tengslum við hagræðingaraðgerðir borgarinnar frá síðasta hausti. Hugmyndinni var vel tekið og unnin áfram. Tillaga sú sem hér er til afgreiðslu kom fram á meðan þessari vinnu stóð. Því var talið rétt að klára þá vinnu áður en afstaða væri tekin til tillögunnar. Nú liggur fyrir að þessi flutningur er góður kostur og flutningar þegar hafnir.
13. Lagt fram bréf borgarstjóra um starfshóp um flutning Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, dags. 10. ágúst 2016, ásamt drögum að erindisbréfi. R16080030
14. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina varðandi siðareglur kjörinna fulltrúa, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí sl. R16070037
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfsagt er að óska eftir áliti siðanefndar sambandsins á málum sem varða samskipti borgarfulltrúa og eftirlitsaðila innan borgarkerfisins. Ekki þarf atbeina borgarráðs til að óska eftir slíku áliti en ekkert mælir heldur á móti því að samþykkja tillögu þess efnis sem lögð er fram í borgarráði.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir fagna því að borgarráð standi sameinað að samþykkt þessarar tillögu, þrátt fyrir að aðeins 2 borgarfulltrúar hefðu getað sent erindi til siðanefndar.
15. Lagt fram bréf Minjastofnunar Íslands, dags. 27. júlí 2016, þar sem tilkynnt er að stofnunin hafi ákveðið að hefja undirbúning að tillögu til forsætisráðherra að friðlýsingu Hljómskálans. R16070114
Vísað til umsagnar Borgarsögusafns.
16. Lagt fram svar borgarlögmanns, dags. 27. júlí 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um leyfi fyrir uppskiptingu lóða, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. mars sl. R16030218
17. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. júlí 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um aðgerðir til að stemma stigu við notkun plasts, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. júní sl. R16060155
18. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 4. ágúst 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um stöðu mála á uppbyggingu hjúkrunarheimila, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. júní sl., ásamt bréfi velferðarráðuneytis til Reykjavíkurborgar, dags. 1. febrúar 2016, um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík. R16060154
19. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 8. ágúst 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um viðmið um hverjir fara á lista yfir fruminnherja, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí sl.
R16070036
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir þakka framkomið svar en ljóst er að viðmiðin sem samþykkt voru 2015 virðast ekki taka á þeirri stöðu sem er uppi í stjórnsýslu sem í gangi er í stjórnkerfi borgarinnar, þar sem formenn ýmissa nefnda og ráða, varaformenn og aðilar í stjórnum eru ekki kjörnir fulltrúar, og t.d. er innkauparáð alfarið skipað fólki sem ekki er á fruminnherjalista.
20. Fram fer kynning á árshlutareikningi A-hluta borgarsjóðs, janúar-maí 2016. R16010141
21. Fram fer umræða um Austurbakka 2. R14120135
22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Borgarráð samþykkir að samráð verði bætt við íbúa Laugavegar og Skólavörðustígs vegna lokunar á hlutum þessara gatna fyrir bílaumferð. Þegar slíkar lokanir standa fyrir dyrum skulu þær kynntar bréflega fyrir öllum íbúum viðkomandi gatna með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Í bréfinu komi fram með skýrum hætti hvaða hlutum viðkomandi götu standi til að loka og um hve langan tíma. Einnig komi fram með skýrum hætti hvaða undanþágur séu í gildi á umræddri lokun fyrir íbúa, rekstraraðila og hreyfihamlaða. R16080041
Frestað.
23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Íbúar, er búa við þann hluta Laugavegar og Skólavörðustígs sem lokaður er bílaumferð, hafa lent í erfiðleikum með að flytja vörur til og frá heimilum sínum. Borgarráð samþykkir að umræddum íbúum verði heimilað að koma á bifreiðum að heimilum sínum um kvöld og helgar vegna vöruflutninga. Jafnframt verði séð til þess að íbúarnir geti komist að ákveðnum bílastæðum í þessu skyni. R16080042
Frestað.
24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Í tengslum við byggingarframkvæmdir við skóla í Úlfarsárdal hafa tengingar göngu- og hjólreiðastíga milli Úlfarsárdals og Grafarholts færst úr lagi og jafnvel lokast. Slíkt er bagalegt enda er ekki gert ráð fyrir gangandi vegfarendum á nýrri brú yfir Úlfarsá eins og kunnugt er. Borgarráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að sem fyrst verði bætt úr þessu og góð leið tryggð milli þessara hverfa í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda. R16080043
Frestað.
25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Borgarráð samþykkir að efnt verði til opins kynningarfundar á Kjalarnesi til að kynna fyrirhuguð áform um uppsetningu kláfs í Esjuhlíðum. Í málinu verði lögð áhersla á gott samráð við íbúa á svæðinu. R16080044
Frestað.
26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Óskað er eftir því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu komi á fund borgarráðs til að ræða skotárás á opnu svæði innan um hóp fólks, sem átti sér stað í borginni um síðustu helgi. R16080045
Frestað.
27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Vegna svars fjármálastjóra við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina frá 7. júlí 2016 þá er óskað eftir a) skýringum á því hvers vegna fruminnherjar, Heiða B. Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Ingvar Jónsson, Jóna Björg Sætran, Marta Guðjónsdóttir, Dóra Magnúsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir eru ekki skráðir á fruminnherjalista fyrr en eftir 25. maí 2016, en ekki innan eðlilegra tímamarka frá því að þau tóku sæti sem borgarfulltrúar eða varaborgarfulltrúar, en meira en eitt ár virðist líða í einhverjum tilfellum, sbr. Ilmur Kristjánsdóttir kemur inn sem formaður velferðarráðs og varaborgarfulltrúi 16. júní 2015, þann 15.9.2015 kemur Heiða Björg Hilmisdóttur inn í borgarráð og á sama tíma verður Magnús Már Guðmundsson varaborgarfulltrúi, Ingvar Már Jónsson verður varaborgarfulltrúi í febrúar 2016, Jóna Björg Sætran verður fyrsti varaborgarfulltrúi í október 2015 og borgarfulltrúi í febrúar 2016. b) Hver ber ábyrgð á tilkynningum á fruminnherjum til regluvarðar? Þá er óskað eftir c) hvers vegna varaborgarfulltrúar tilgreindir á heimasíðu Reykjavíkurborgar eru ekki á lista yfir fruminnherja, en það eru Eva Baldursdóttir, Eva Einarsdóttir, Sabine Leskopf, Stefán Benediktsson, Björn Gíslason, Börkur Gunnarsson, Lára Óskarsdóttir og Tomaz Chrapek. R16080046
28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Framsókn og flugvallarvinir leggja fram þá tillögu við breytingu á viðmiðum um hverjir skuli vera skilgreindir sem innherjar hjá A-hluta Reykjavíkurborgar um að allir formenn, varaformenn og þeir sem sitja í nefndum og ráðum á vegum Reykjavíkurborgar án þess að vera borgarfulltrúar eða varamenn þeirra skulu skráðir sem fruminnherjar. Ljóst er að pottur er brotinn í þessum efnum þar sem hvorki formaður né nokkur annar í heilbrigðisnefnd né formaður eða aðalmenn í innkauparáði eru skráðir sem fruminnherjar hjá borginni. Áður en tillagan er tekin til afgreiðslu er óskað eftir afstöðu stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, fjármálaskrifstofu og borgarlögmanns á tillögunni. R16080047
Frestað.
Fundi slitið kl. 11.14
Sigurður Björn Blöndal
Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson
Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon
Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir