Borgarráð - Fundur nr. 5416

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 21. júlí, var haldinn 5416. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.07. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Börkur Gunnarsson, Marta Guðjónsdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Kristbjörg Stephensen, Ágústa Sveinbjörnsdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 4. júlí 2016. R16010011

Borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir hvetja meirihlutann til að taka fullt tillit til bókunar hverfisráðs Kjalarness við áframhaldandi vinnslu verkefnis um Esjukláf. Mikilvægt er fyrir meirihluta borgarstjórnar sem gefur sig út fyrir samráð og samstarf á öllum sviðum að þeir sýni það í verki að þeir vinni viðkvæm verkefni um breytingar á ásýnd helstu náttúruperla borgarinnar í nánu samstarfi og samráði við nærumhverfið.

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 8. júlí 2016. R16010015

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 15. júlí 2016. R16010023

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 8. júlí 2016. R16010027

5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R16070011

6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna RÚV reits, ásamt fylgiskjölum. R11060102

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir samþykkja ekki aðalskipulagið þar sem félagslegum markmiðum húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar frá 2011 um að lágmarki 25% (90 íbúðir) fyrir tekjulágt fólk er ekki tryggt, heldur aðeins 11% (40 íbúðir). Sérstaklega er áréttað í lið 1.2. mikilvægi þess að félagslegum markmiðum verði náð með breytingum á aðalskipulagi og tökum við undir þau sjónarmið.

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 varðandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem nær til reita 1.745.4, 1.745.0 og 1.745.1 og afmarkast af Listabraut í norðri, Bústaðavegi í suðri, Efstaleiti í vestri og Háaleitisbraut í austri, ásamt fylgiskjölum. R16040061

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Rétt er að endurskoða skipulagið á RÚV reitnum með það að markmiði að koma betur til móts við athugasemdir og áhyggjur íbúa vegna mikils byggingarmagns á reitnum, hæða húsa og vegna aukins umferðarþunga á svæðinu. Með auknu samráði skapast meiri sátt og friður um skipulagið auk þess sem það yrði í takt við samstarfssáttmála meirihlutans um aukið íbúalýðræði og aðkomu íbúa að mikilvægum ákvörðunum.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Í samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar sem samþykkt voru á árinu 2015 var talað um 5% forkaupsrétt Félagsbústaða á nýbyggingum á þeim svæðum sem borgin er að skipuleggja eða í þessu tilviki 18 íbúðir. Framsókn og flugvallarvinir ítreka mikilvægi þess að tímapunktur nýtingar forkaupsréttar og fastsett verð á íbúðum liggi fyrir þegar verið er að samþykkja deiliskipulag þar sem slíkt liggur ekki fyrir og félagslegum markmiðum húsnæðisstefnunnar ekki náð, sbr. bókun undir lið 6, samþykkjum við ekki deiliskipulagið á þessum tímapunkti.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. júlí 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í framkvæmdir vegna uppbyggingar á lóð Ríkisútvarpsins við Efstaleiti 1, ásamt fylgiskjölum. R16070071

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Með vísan í tillögu okkar um kostnaðar- og hagkvæmnismat við stokkagerð, höfnum við framkvæmdinni að svo stöddu.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir að taka undir bókun borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina að ofan um stokkagerð.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks geta ekki stutt tillöguna þar sem framkvæmdirnar eru ekki innan gildandi fjárhagsáætlunar og óljóst hver ábatinn verði fyrir borgina af uppbyggingu á svæðinu þar sem hann hefur ekki verið reiknaður út og tekinn saman.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs frá 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á auglýsingu á tillögu varðandi breytingu á deiliskipulagi Sigtúnsreits vegna lóðarinnar nr. 7 við Engjateig. R15120106

Samþykkt.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á auglýsingu vegna breytingar á deiliskipulagi Skólavörðuholts vegna lóðarinnar nr. 3 við Hallgrímstorg, ásamt fylgiskjölum. R16070050

Samþykkt.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á tillögu að nýju deiliskipulagi athafnasvæðis Esjumela við Vesturlandsveg, þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttu framboði athafnalóða af mismunandi stærðum og gerðum í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, ásamt fylgiskjölum. R16040023

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkurinn fagna tillögu þeirri sem hér er lögð fram um aukningu á tækifærum til uppbyggingar atvinnustarfsemi á Kjalarnesi, enda brýn þörf fyrir fyrirtæki innan borgarinnar að ná að vaxa, svo þau leiti ekki ítrekað eftir að flytja starfsemi sína í nærliggjandi bæjarfélög.

Jón Kjartan Ágústsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 við Brautarholt, ásamt fylgiskjölum. R16070063

Frestað.
Jón Kjartan Ágústsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.250.1, Skipholtsreits, vegna húsanna nr. 29 og 29A við Skipholt á lóð nr. 29 við Skipholt, ásamt fylgiskjölum. R16070049

Samþykkt.

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi Starhaga vegna aðflugsljósa fyrir Reykjavíkurflugvöll, skv. uppdr. Teiknistofunnar Storð, dags. 30. júní 2016. R16070048

Samþykkt.
Borgarráð beinir því jafnframt til umhverfis- og skipulagssviðs að hlutast til um kynningu á tillögunni fyrir Prýðisfélaginu Skildi og öðrum þeim íbúasamtökum í Vesturbæ sem málið varða.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 á auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 2-2A við Sævarhöfða, ásamt fylgiskjölum. R16070047

Samþykkt.

16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júní 2016, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. júní 2016, varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir Skipholt 11-13. Jafnframt er lagt fram bréf RR hótel ehf., dags. 21. júní 2016. Einnig er lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júlí 2016. R16060109

Synjun umhverfis- og skipulagsráðs staðfest.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Forsendur deiliskipulagsbreytingarinnar á árinu 2008 voru að í húsinu að Skipholti 11-13 yrðu íbúðir á efri hæðum svo sem fram kemur í skýru orðalagi í greinargerð með deiliskipulaginu um að íbúðir verði á efri hæðum hússins. Byggingarmagn var aukið og m.a. heimiluð hækkun hússins um þrjár hæðir vegna þessa. Laut ákvörðunin að því að greiða leið fyrir íbúðabyggingu á reitnum en reiturinn er í jaðri íbúðarbyggðar og tengist byggðinni vel. Alls óvíst er að eigendur fasteignarinnar hefðu fengið samskonar uppbyggingarheimildir vegna hóteláforma. Það er stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð og fjölga íbúðum þar sem þess er kostur. Því er mikilvægt að standa vörð um þá stefnu sem mörkuð var með deiliskipulagsbreytingunni 2008.

17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júlí 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. júlí 2016 varðandi tillögur að götuheitum á RÚV reit og Vogabyggð, svæði 2, ásamt fylgiskjölum. R16070051

Samþykkt.

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. júlí 2016, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að borgarráð samþykki aukningu rýma í vinnumiðaðri stoðþjónustu fyrir fatlað fólk um fimm og hálft rými. Kostnaðarauka að fjárhæð 13.330 þús. kr. á árinu 2016 verði mætt á kostnaðarstaðnum 09205, ófyrirséð, og ráðstafað til velferðarsviðs á kostnaðarstaði F4120 og F4602. Viðbótarfjárþörf vegna næsta árs er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16070008

Samþykkt.
Ellý Alda Þorsteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. júlí 2016, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 13.330 þús. kr. á árinu 2016 til að fjármagna fimm og hálft viðbótarrými í dagþjónustu (virkni-, verkefna- og vinnumiðuð stoðþjónusta). Vísað er í mál R16070008 og tillögu velferðarsviðs, dags. 10. júní sl., lögð fyrir velferðarráð 30. júní sl. Kostnaðarauka verði mætt á kostnaðarstað 09205, ófyrirséð, og ráðstafað á kostnaðarstaði F4120 og F4602 hjá velferðasviði. R16010225

Samþykkt.

20. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina varðandi siðareglur kjörinna fulltrúa, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí sl. R16070037

Frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er ámælisvert að meirihlutinn í borgarráði treysti sér ekki til að taka tillöguna til afgreiðslu núna þrátt fyrir að hafa haft tvær vikur til að kynna sér hana. Áfellisdómur umboðsmanns borgarbúa er alvarlegur og álit hans á þann veg að full ástæða er til að krefjast frekari rannsóknar á málinu. Í álitinu kemur fram að umboðsmaður borgarbúa telur það verulega ámælisvert af hálfu bæði Bílastæðissjóðs og bílastæðanefndar að samningar hafi verið gerðir án tillits til ábendinga hans 10. janúar 2014 en á þeim tíma lá fyrir samningagerð við Miðborgina okkar og að Bílastæðasjóði og bílastæðanefnd hefði átt að vera full kunnugt um ólögmæti samninganna. Í áliti umboðsmanns borgarbúa segir að samningagerðin, aðdragandi og ákvarðanataka sé í ,,verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti þar sem hún feli í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna þvert á tilmæli.” Að mati umboðsmanns er sú ráðstöfun brot á 2. gr. siðareglnanna. Athugunarverð eru viðbrögð meirihlutans við áliti umboðsmanns og hvort eðlilegt geti talist að þeir fulltrúar meirihlutans sem sitja í bílastæðanefnd og eru jafnframt fulltrúar í forsætisnefnd gerist dómarar í eigin sök með að fjalla sjálfir þar um álitið og fella um það dóma en slíkt getur varla talist eðlileg né góð stjórnsýsla.

21. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí 2016:

Borgarráð samþykkir að fela ofbeldisvarnarnefnd að setja verklagsreglur um viðbrögð innan borgarkerfisins þegar grunur vaknar um að farið sé á svig við 4. gr. laga nr. 85/2007 eða vinnumansal innan borgarmarkanna. Eins er óskað eftir tillögum frá nefndinni um hvernig hægt er að auka samstarf milli eftirlitsaðila og efla þekkingu þvert á stofnanir. R16060129

Samþykkt.

22. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að endurvekja notkun fána á strætisvögnum við hátíðleg tækifæri, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. júlí 2015. Einnig er lagt fram minnisblað Strætó bs. frá 7. júlí 2016. R15070056

Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að hugað verði að því þegar nýir vagnar eru keyptir að fram komi í útboðsgögnum að gert sé ráð fyrir að vögnunum fylgi statíf fyrir fána. Skemmtilegt yrði að endurvekja þann sið að á hátíðisdögum verði flaggað á strætó en það er gert m.a. í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan við eins og t.d. í Svíþjóð.

23. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 5. júlí 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um framtíðaratvinnusvæði og yfirlit yfir atvinnulóðir, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. maí 2016. R16050123

24. Lagt fram bréf innanríkisráðuneytisins, dags. 8. júlí 2016, ásamt bréfi Isavia ohf. þar sem fram kemur að lokun flugbrautar 06/24 hafi verið framkvæmd. R12100372

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Það eru dapurleg tíðindi hvernig meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn, Samfylking, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð, hafa unnið að því hörðum höndum að loka neyðarbrautinni á Reykjavíkurflugvelli en það er liður í að loka alfarið flugvellinum í Vatnsmýrinni og er í mikilli andstöðu við meirihluta borgarbúa og reyndar landsmanna. Meirihlutinn hefur augljóslega engan áhuga á að efna loforð sín um íbúalýðræði og samráð við íbúa í lykilákvörðunum en því til staðfestingar er hvernig 70.000 undirskriftum um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í óbreyttri mynd var stungið undir stól en þess í stað gengið fram af enn meiri hörku í málinu og nú síðast farin dómstólaleiðin til að borgaryfirvöld nái fram vilja sínum í þessu máli.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir ítreka allt sem fram hefur komið af þeirra hálfu um lokun neyðarbrautarinnar og ljóst er að þingmenn verða að taka málið upp eigi að snúa þróuninni við. Flugvöllurinn og flugöryggi er laskað til frambúðar með þessari ákvörðun.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem samþykkt var af 12 fulltrúum allra flokka í nóvember 2013 er tveimur flugbrautum tryggður sess í borginni næstu ár, þó gert sé ráð fyrir uppbyggingu í Vatnsmýri til framtíðar. Lokun flugbrautar 06/24 snýst því ekki um að loka Reykjavíkurflugvelli, heldur aðeins að fylgja eftir samkomulagi ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um innanlandsflug og viðaukasamkomulagi við það sem kveður á um lokun flugbrautar 06/24 en bæði voru samþykkt einróma í borgarráði á fundi þess þann 31. október 2013. Þessari lokun hefur nú verið fylgt eftir samkvæmt dómi Hæstaréttar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru eindregið hvattir til að samþykkja eftirleiðis ekki hverja þá samninga sem binda hendur borgaryfirvalda ef þeir vilja ekki að þeim sé fylgt eftir.

25. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. júlí 2016, ásamt drögum að samkomulagi vegna breytinga á fyrirkomulagi Norrænu höfuðborgarráðstefnunnar sem haldin er annað hvert ár. R16050102

26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. júlí 2016, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að borgarráð samþykki, með fyrirvara um samþykki lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, að sett verði almenn biðstöð hópferðabíla við suðurkant Hverfisgötu næst Lækjargötu. Notkunin komi til endurskoðunar þegar Strætó bs. hefur aftur akstur um Hverfisgötu. R16070069
Samþykkt.

27. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 13. júlí 2016, þar sem lagðar eru fram forsendur fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 og forsendur fimm ára áætlunar 2017-2021. R16010183

Samþykkt.

28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 7. júlí 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun 4.420 fermetra lóðar við Lambhagaveg 3. R16030033

Samþykkt.

- Kl. 11.00 víkja Ágústa Sveinbjörnsdóttir og Óli Jón Hertervig af fundinum.
- Kl. 11.45 víkur Börkur Gunnarsson af fundinum og Herdís Anna Þorvaldsdóttir tekur þar sæti.

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. júlí 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að hefja viðræður við Íbúa ses. og Kópavogsbæ um uppfærslu og aðlögun á kosningakerfi verkefnisins Hverfið mitt að snjallsímum og öðrum snjalltækjum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16070083

Samþykkt.

30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Tillaga Framsóknar og flugvallarvina að gera kostnaðar- og hagkvæmnismat á því að setja í stokk þann hluta Háaleitisbrautar sem liggur frá Listabraut og niður að Bústaðavegi þar sem þegar liggur fyrir að það þurfi að fara í framkvæmdir við heildar endurnýjun lagna. Við gerð hagkvæmnismats skal sérstaklega tekið tillit til ávinnings borgarinnar af auknu byggingarmagni á þessu svæði, þéttingu byggðar og áætlað söluverð lóðanna. R16070094
Frestað.

31. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í breytingu á aðalskipulagi nr. 9 frá júlí 2016 segir að mikilvægt sé að tryggja aukið framboð byggingarsvæða þar sem borgaryfirvöld geta hlutast til með beinum hætti um gerð íbúða á svæðinu og þar með tekið tillit til þarfar á félagslegu húsnæði. Nú liggur fyrir að Reykjavíkurborg á afar fáar lóðir innan borgarmarkanna, þar sem þær eru flestar í einkaeigu. Því er óskað skriflegs svars frá borgarstjóra um hvernig og með hvaða hætti Reykjavíkurborg ætli að tryggja aukið framboð byggingarsvæða í borginni á þessu kjörtímabili svo að félagsleg markmið húsnæðisstefnunnar náist. R16070095

32. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:

Í fréttum hefur ítrekað nú í sumar verið fjallað um að Reykjavíkurborg hafi fyrir löngu farið út fyrir þolmörk sín í móttöku ferðamanna. Tillaga Framsóknar og flugvallarvina er að settur verði á laggirnar starfshópur 5 aðila, 3 frá meirihluta og 2 frá minnihluta, sem hafi það að markmiði sínu að setja fram með tillögur um hvernig megi auka virðisauka í hóteluppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til að auka fjölda 4-5 stjörnu hótela, með beinum aðgerðum á kjörtímabilinu. Óskað skal álits frá fagaðilum í ferðaþjónustu í vinnunni, t.d. samtök ferðaþjónustunnar, samtaka atvinnulífsins, greiningadeilda fjármálafyrirtækja og Höfuðborgarstofu. Starfshópurinn skal hafa lokið vinnu sinni eigi síðar en 1. október 2016. R16070096

Frestað.

33. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi tillögu:

Í ljósi ítrekaðra upplýsinga um sölu lóða sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað og hafa verið framseldar áður en byggingaframkvæmdir eru hafnar, og nú síðast nýrra upplýsinga um sölu tveggja lóða við Hlíðarenda og að kaupverðið sé trúnaðarmál, er mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa að hafa sem gleggstar upplýsingar á hverjum tíma um verðmæti þeirra lóða sem borgin á og til stendur að selja eða ráðstafa. Óskað er eftir því að lagður verði fram listi yfir a) allar lóðir í eigu borgarinnar innan borgarmarkanna b) allra byggingarhæfra lóða innan borgarmarkanna. Þá verði að fengið verðmat tveggja óvilhallra fasteignasala á verðmæti allra lóða sem eru vestan Elliðaáa, sem liggja skal frammi eigi síðar en 1. október 2016. Slík vinna er mikilvæg fyrir komandi fjárhagsáætlanagerð og rekstur borgarinnar sem hefur verið í milljarða halla ár hvert. R16070097
Frestað.

Fundi slitið kl. 12.06

Halldór Auðar Svansson

Dagur B. Eggertsson Marta Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Líf Magneudóttir

Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir Herdís Anna Þorvaldsdóttir