Borgarráð - Fundur nr. 5407

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 19. maí, var haldinn 5407. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.06. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 1., 4., 11., 18. og 22. apríl og 2. maí 2016 R16010030

2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Hlíða frá 14. apríl og 11. maí 2016. R16010010

3. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. maí 2016. R16010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R16050097

5. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. maí 2016 á drögum að reglum um úthlutun fjármagns vegna stuðnings í leikskólum, ásamt fylgiskjölum. R16050128

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að tilgangur umræddra breytinga er að mæta boðuðum niðurskurði í sérkennslu upp á 80 milljónir króna. Ekki verður annað séð en að fyrirliggjandi tillaga um úthlutun á stuðningstímum í leikskólum Reykjavíkur feli í sér skerðingu á þjónustu þar sem horfið verður frá því að úthluta fé til sérstakra sérkennslustunda með sérkennara vegna barna með málþroskafrávik en þess í stað fer stuðningurinn fram í hópnum sem allir starfsmenn sinna óháð því hvort þeir hafi sértæka menntun á sviði sérkennslu eða ekki. Þegar um svo miklar breytingar er að ræða hefði verið bæði heppilegra og faglegra að fara af stað með tilraun í nokkrum skólum í stað þess að innleiða þær í alla skóla án þess að fyrir liggi úttekt á því hvort þessar breytingar séu til þess fallnar að ná meiri árangri en sá stuðningur sem í boði hefur verið hingað til. Fram hefur komið að meta eigi árangur þessara breytinga að tveimur árum liðnum. Nái breytingarnar ekki tilætluðum árangri er ljóst að mjög dýrmætur tími á málþroskaskeiði barna hefur farið til spillis.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar Vinstri grænna og Pírata árétta að með breytingum á reglum um stuðning á leikskólum er lögð áhersla á að styrkja fagstarfið á leikskólunum og gera stuðning við börn með sérþarfir í auknum mæli að sameiginlegu verkefni starfsfólks leikskóladeilda undir handleiðslu ábyrgðarmanns sérkennslu. Fjármagnið er nýtt með markvissari hætti til að stuðla að auknum framförum og velferð umræddra barna í leikskólunum.

Helgi Grímsson og Elísabet Helga Pálmadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

6. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. maí 2016, varðandi umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um grunnskóla, 675. mál. R16050100

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 10.04 tekur Birgir Björn Sigurjónsson sæti á fundinum.

7. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs á tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina um að fenginn verði óháður aðili til að fara yfir verkferla starfsstöðva skóla- og frístundasviðs vegna eineltis og samskiptavanda barna. R16050130

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata telja afar mikilvægt að fenginn verði óháður aðili til að yfirfara alla verkferla starfsstöðva sviðsins í tengslum við eineltismál og samskiptavanda barna. Sérstaklega verði farið yfir samstarf við aðra aðila í meðferð slíkra mála, s.s. barnavernd og þjónustumiðstöðvar. Afar brýnt er að tryggja að öll börn og ungmenni finni til öryggis og njóti hæfileika sinna í skólasamfélaginu.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Brýnt er í ljósi þeirra alvarlegu eineltismála sem komið hafa upp á undanförnum misserum að gerð verði úttekt á viðbragðsáætlunum skólanna í eineltismálum með það að markmiði að virkja þær betur og bæta þær þar sem þörf þykir. Að sama skapi þarf að tryggja að þessar áætlanir séu sýnilegar á heimasíðum skólanna til upplýsingar fyrir foreldra og nemendur. Mikilvægt er að tryggja ábendingarleiðir ef grunur vaknar upp um eineltismál og sömuleiðis ef nemendur telja að þeir séu lagðir í einelti í skólanum. Þá þarf að efla forvarnarstarf til muna með það að markmiði að draga úr eineltismálum auk þess sem efla þarf í öllum skólum árlegan dag gegn einelti. Síðast en ekki síst er mikilvægt að komið verði á fót eineltisráði sem yrði hlutlaus vettvangur er hægt verði að leita til þegar ekki tekst að leysa mál innan viðkomandi skóla.

Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

8. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að fela skóla- og frístundasviði að vinna úttekt á meðferð eineltismála í skólum Reykjavíkurborgar, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2016. Einnig er lagt fram bréf borgarstjóra dags. 17. maí 2016. R16010110

Með afgreiðslu á tillögu skóla- og frístundasviðs í lið nr. 7, um meðferð eineltismála í skóla- og frístundastarfi, telst framlögð tillaga Framsóknar og flugvallarvina jafnframt samþykkt með þeirri breytingu sem fram kemur í bréfi borgarstjóra.

Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

9. Lagt fram bréf forsætisnefndar, dags. 17. maí 2016, sbr. samþykkt nefndarinnar frá 13. maí 2016 á tillögum að breytingum á samþykkt menningar- og ferðamálaráðs. R13110241

Vísað til borgarstjórnar.

Svanhildur Konráðsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

10. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. maí 2016, þar sem lagður er fram til kynningar samstarfssamningur um Gröndalshús milli Reykjavíkurborgar og Icelandair Group, dags. 12. maí 2016.

Svanhildur Konráðsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R12110167

11. Lögð fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. maí 2016, og skóla- og frístundasviðs, dags. 13. maí 2016, varðandi framkvæmdir á mötuneyti leikskólans Suðurborgar. R16040026

Frestað.

Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi Brynjólfsson og Harri Ormarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

12. Fram fer kynning umhverfis- og skipulagssviðs á breytingum á byggingareglugerð.

Ólöf Örvarsdóttir, Ámundi Brynjólfsson og Harri Ormarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16050126

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. maí 2016, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir við endurnýjun gönguleiða í eldri hverfum 2016. R16050135

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að við endurnýjun gönguleiða verði leitast við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar í þeim tilvikum sem aðstæður leyfa. 

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

14. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags 2. maí 2016, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 28. apríl 2016 á tillögu um tilraunaverkefni sem byggir á „Housing First“, dags. 12. janúar 2016. R16050087

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráð fagnar því að ráðist verði í tveggja ára tilraunaverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni „Housing First“ með því að fjórar félagslegar leiguíbúðir fari í sértæka úthlutun til utangarðsfólks. Íbúar munu njóta stuðnings frá sérstöku vettvangs- og ráðgjafarteymi í málefnum utangarðsfólks. Hugmyndafræði „Housing First“ byggist á því að öruggt húsnæði sé forsenda þess að hægt sé að vinna með vanda einstaklinga, s.s. vímuefnavanda. Áhersla er lögð á að koma húsnæðislausu fólki í skjól án þess að gera kröfu um að viðkomandi hafi lokið vímuefnameðferð. Þjónusta í anda „Housing First“ hefur sjónarmið skaðaminnkunar að leiðarljósi. Í þeim löndum þar sem „Housing First“ hefur verið sett á laggirnar hefur heimilisleysi dregist saman. Auk þess sýna bandarískar rannsóknir að aðferðin virkar. Tilraunaverkefninu er ætlað að auka við þá fjölbreytni sem þarf að vera til staðar í búsetuúrræðum. Borgarráð telur mikilvægt að samhliða þessu sé unnið að uppbyggingu fjölbreyttra búsetukosta fyrir fólk sem telst utangarðs í Reykjavík.

Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

15. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 2. maí 2016, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 28. apríl 2016 á tillögu um samþættingu þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar og þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, dags. 26. apríl 2016. R16050088

Samþykkt.

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráð bindur miklar vonir við breytt fyrirkomulag þjónustu og fagnar því að áhersla sé lögð á nýsköpun í rekstri og að þjónustan sé færð nær íbúum. Borgarráð leggur jafnframt ríka áherslu á að unnið verði að breytingunum í góðu samstarfi við alla hluteigandi aðila eins og gert er ráð fyrir í tillögunni.

Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

16. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 27. apríl 2016, til velferðarráðuneytisins með ítrekun á beiðni um viðbrögð vegna neyðarástands í málefnum barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir. R16050099

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráð lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar stöðu sem uppi er í málefnum barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Málefni þessa litla en viðkvæma hóps barna með alvarlegan vanda hefur um langt skeið verið í ólestri, ekki síst vegna aðgerða- og viðbragðsleysis ríkisins gagnvart þessum hópi. Borgarráð minnir á þá skýru og afdráttarlausu skyldu ríkisins sem rakin er í 79. gr. barnaverndarlaga gagnvart þessum hópi barna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga, meðal annars með tilstyrk Sambands íslenskra sveitarfélaga, hafa engin svör borist við því hvernig ríkið ætlar að sinna sínum skyldum í þessum málaflokki. Þetta er alvarlegt viðbragðsleysi af hálfu ríkisins sem hefur haft í för með sér að þessi viðkvæmi hópur barna hefur ekki notið þeirrar heilbrigðisþjónustu og meðferðar sem ríkinu ber að veita lögum samkvæmt, með ófyrirsjáanlegum og óbætanlegum afleiðingum. Þessu aðgerðarleysi verður að linna.

Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

17. Lögð fram skýrsla stýrihóps um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik-, grunn- og frístundastarfi, dags. í mars 2016. R14110061

Vísað til vinnslu á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Sigurðardóttir, Hermann Valsson og Elísabet Gísladóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 12.00 víkur Kjartan Magnússon af fundinum og Áslaug Friðriksdóttir tekur sæti.

18. Lagt fram að nýju bréf borgarstjóra, dags. 10. maí 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð staðfesti meðfylgjandi drög að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða matarstefnu í Reykjavík. R16030023

Samþykkt.

Jafnframt er samþykkt að tilnefna eftirfarandi aðila í hópinn: Heiðu Björgu Hilmisdóttur sem jafnframt verður formaður hópsins, Gísla Rafn Guðmundsson og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.

19. Lagt fram að nýju bréf borgarstjóra, dags. 11. maí 2016, ásamt drögum að erindisbréfi stýrihóps um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. R16050104

Samþykkt að tilnefna Skúla Helgason, Ilmi Kristjánsdóttur, Líf Magneudóttur, James Maddison, Jónu Björgu Sætran og Kjartan Magnússon í stýrihópinn.

20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. maí 2016, ásamt viðaukasamningi við Fjölsmiðjuna, dags. 2. maí 2016. Einnig er lagður fram þjónustusamningur, dags. 3. febrúar 2014. R15060014

Samþykkt.

21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. maí 2016, þar sem lagt er fram til kynningar bréf innanríkisráðuneytisins, dags. 28. apríl 2016, varðandi almenningssamgöngur við fangelsið á Hólmsheiði og svarbréf borgarstjóra, dags. 17. maí 2016. R15070029

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. maí 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg verði stofnaðili og hlutafjáreigandi í hlutafélagi um þróun og byggingu mögulegrar hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg eignist 3% hlut í félaginu með því að leggja inn sem stofnfé þegar framlagðan kostnað við frumskoðun verkefnisins. Borgarráð hafði áður samþykkt að leggja fram fé til frumskoðunar. Jafnframt samþykki borgarráð að eftir stofnfund verði breyting á hlutafjáreign Reykjavíkurborgar vegna innkomu aukins hlutafjár í verkefnið sem geri það að verkum að eign Reykjavíkurborgar verði þá 2%.

Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt eru lögð fram stofnskjöl fyrir Fluglestin – Þróunarfélag ehf. R16020160

Frestað.

23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. maí 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki fyrirliggjandi samninga og samkomulag við Íslenska gámafélagið, ásamt fylgiskjölum. R16020216

Samþykkt.

Ilmur Kristjánsdóttir víkur af fundi undir þessum lið.

24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. maí 2016, ásamt fylgiskjölum, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að kaupsamningi við RVK-studios um kaup á fasteignum í Gufunesi. Jafnframt er óskað eftir að borgarráð samþykki vilyrði til handa RVK-studios í tengslum við kaupin um svæði austan bygginganna sem keyptar eru. R15090089

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja sölu fasteigna til RVK Studios á þeim forsendum að auglýst var eftir áhugasömum aðilum um nýtingu svæðisins. Valið var úr innkomnum hugmyndum og stýrihópur um framtíðarmöguleika í Gufunesi fjallaði um erindi fyrirtækisins og gerði tillögu til borgarráðs, sem það samþykkti, um að uppbygging kvikmyndavers í Gufunesi yrði ein af forsendum skipulagssamkeppni um svæðið, sem nú er að hefjast.

Ilmur Kristjánsdóttir víkur af fundi undir þessum lið.

25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. maí 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun á einbýlishúsalóð við Lambasel 38. R16030034

Samþykkt.

26. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. maí 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti í þetta sinn vegna sölu á Landnámsskálanum að Aðalstræti 16. R16050127

Samþykkt.

27. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 17. maí 2016, um frumvarp til laga um opinber innkaup (heildarlög, EES-reglur), 664. mál. R16050105

Samþykkt.

28. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. maí 2016, ásamt drögum að viljayfirlýsingu um úthlutun á lóðunum Fiskislóð 37 og Hólmaslóð 1. R16030101

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara fram á að álag vegna ýmissa starfshópa verði mælt með tilheyrandi hætti. Nauðsynlegt er að fylgjast með slíku álagi og geta rakið hversu stór hluti stöðugilda starfsmanna fer í þessa vinnu. Eðlilegt er að gera þá kröfu að sá tími sem fer í að sinna slíku verkefni sé skráður undir sérstökum lyklum svo rekja megi launakostnað til viðbótar við annan kostnað. Frá byrjun kjörtímabilsins vorið 2014 hafa 203 starfs- og stýrihópar verið skipaðir í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem sýnir hversu umfangsmikil vinnan er. R16050162

Frestað.

30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fjölmargir notendur Strætó bs. í Reykjavík verða fyrir mikilli þjónustuskerðingu með gildistöku sumaráætlunar Strætó bs. 29. maí nk. Samkvæmt áætluninni munu leiðir 2, 5, 11, 13, 14, 15, 18, 24, 28 og 35 aka á 30 mínútna fresti á annatíma í stað 15 mínútna. Að auki verður leið 26, Spöngin – Keldnaholt – Úlfarsárdalur – Grafarholt – Árbær – Selás lögð niður. Með brotthvarfi leiðar 26 fellur m.a. niður bein tenging íbúa Grafarholts-Úlfarsárdals við Árbæjarhverfi en þangað sækja þeir margvíslega þjónustu, m.a. heilsugæslu og velferðarþjónustu. Þá mun leið 16, Hlemmur – Sæbraut – Ártúnsholt – Árbær – Selás, hætta akstri um helgar. Því er ljóst að umrædd þjónustuskerðing Strætó bs. kemur verst niður á íbúum Grafarholts, Úlfarsárdals, Árbæjar, Ártúnsholts, Seláss og Grafarvogs sem og þeim strætisvagnafarþegum er eiga erindi í þessi hverfi. Óskað er eftir heildstæðum rökstuðningi fyrir umræddum breytingum sem og þeirri ákvörðun að skerða strætisvagnaþjónustu mest í eystri hverfum borgarinnar. R16050163

31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Lagt er til að fengnir verði tveir óháðir fasteignasalar til að verðmeta lóðirnar tvær, ásamt byggingarrétti skv. gildandi deiliskipulagi, í Vesturbugt þar sem til stendur að byggja svokölluð Reykjavíkurhús á. R16050164

Frestað.

Fundi slitið kl. 13.05

Halldór Auðar Svansson

Heiða Björg Hilmisdóttir Líf Magneudóttir

Ilmur Kristjánsdóttir Halldór Halldórsson

Áslaug Friðriksdóttir Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir