Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2016, fimmtudaginn 28. apríl, var haldinn 5405. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.02. Viðstödd voru S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. apríl 2016, þar sem fram kemur að á fundi borgarstjórnar s.d. hafi verið samþykkt að Kjartan Magnússon tæki sæti aðalmanns í borgarráði í stað Júlíusar Vífils Ingvarssonar og að Hildur Sverrisdóttir tæki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Kjartans Magnússonar. R15060178
2. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 14. apríl 2016. R16010034
3. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 12. apríl 2016. R16010004
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 19. apríl 2016. R16010007
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 12. apríl 2016. R16010008
6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 18. apríl 2016. R16010009
7. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 25. apríl 2016. R16010012
8. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 14. apríl 2016. R16010014
9. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. apríl 2016. R16010015
10. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 15. apríl 2016. R16010022
11. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 22. apríl 2016. R16010023
12. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 18. apríl 2016. R16010027
13. Lagðar fram fundargerðir öldungaráðs frá 11. og 13. apríl 2016. R16010035
14. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. og 27. apríl 2016. R16010021
B-hlutar fundargerðanna samþykktir.
15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R16040016
16. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R16010042
Samþykkt að veita René Boonekamp styrk að fjárhæð kr. 500.000.- vegna hátíðarinnar Rockall.
Samþykkt að veita Móðurmáli styrk að fjárhæð kr. 1.500.000.- vegna stöðu verkefnisstjóra 2016-2017.
Samþykkt að veita Skákfélaginu Hróknum styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.- m.a. vegna verkefna í þágu barna og ungmenna á Íslandi og Grænlandi og eldri borgara í Reykjavík.
Samþykkt að veita Hjörleifi Stefánssyni styrk að fjárhæð kr. 500.000.- vegna torflistaverks í Hljómskálagarðinum.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu ofangreindra styrkja og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði 19. júní 2014.
Samþykkt að veita Með oddi og egg ehf. styrk að fjárhæð kr. 400.000.- vegna útgáfu á hverfablaðinu Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir.
Samþykkt að veita Með oddi og egg ehf. styrk að fjárhæð kr. 400.000.- vegna útgáfu á hverfablaðinu Miðborg og Hlíðar.
- Kl. 9.05 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 9.07 taka borgarstjóri og Pétur Ólafsson sæti á fundinum.
17. Lagður fram að nýju ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2015, dags. 28. apríl 2016, ásamt skýrslu fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Einnig er lögð fram skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar 2016, dags. 25. apríl 2016.
Fram fer kynning á skýrslu KPMG um ársreikning Reykjavíkurborgar 2015.
Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 hefur verið undirbúinn af fjármálaskrifstofu í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Lagt er til að ársreikningi verði vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn. R16010162
Samþykkt.
Ólafur Kristinsson, Auðunn Guðjónsson, Guðný H. Guðmundsdóttir, Ingvar Garðarsson, Sunna Jóhannsdóttir, Einar Bjarki Gunnarsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Gísli H. Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Jóna Björg Sætran og Ilmur Kristjánsdóttir.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Sem fyrr lýsa borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina yfir miklum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014 í höndum Samfylkingar og Besta flokksins. Rekstrarniðurstaðan, tap upp á 13,6 milljarða kr. í A-hluta, er sláandi og þótt stór hluti þess sé einskiptis gjaldfærsla vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga er hinn almenni rekstur ekki í lagi séu þessar hækkanir dregnar frá en þá væri tapreksturinn 1,3 milljarðar kr. Sést þetta enn betur með því að skoða veltufé frá rekstri sem segir hversu miklu fjármagni reksturinn skilar til fjárfestinga og greiðslu skulda. Veltufé frá rekstri er 5,7% af tekjum ársins en þyrfti að vera a.m.k. 9% þannig að reksturinn er langt frá því að skila nauðsynlegu framlagi. Niðurstaðan er enn eitt taprekstrarárið hjá núverandi meirihluta og forvera hans. Skuldaaukning A-hluta er 16,2 milljarðar kr. milli áranna 2014 og 2015.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Ársreikningur er í samræmi við spár og stóru frávikin felast í lífeyrisskuldbindingum sem bókfærast á síðasta ár, þó þær komi til greiðslu á árum og áratugum. Annars vegar er það vegna hækkunar launa í kjarasamningum og hins vegar vegna hækkandi lífaldurs Reykvíkinga. Það hallar verulega á sveitarfélög í fjárhagslegum samskiptum við ríkið og reiknast sá halli fyrir síðasta ár á annan milljarð króna. Áskoranir í rekstri Reykjavíkurborgar leiða að öðru leyti að stærstum hluta beint af kjarasamningum á síðasta ári. Sem kunnugt er hefur Reykjavíkurborg þegar snúið vörn í sókn í fjármálum og gengur hagræðingarvinna í borgarrekstrinum vel.
- Kl. 9.50 tekur Kristbjörg Stephensen sæti á fundinum.
- Kl. 10.45 tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum.
18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. apríl 2016 á nýjum reglum um bílastæðagjald í Reykjavík, ásamt nýrri gjaldskrá fyrir bílastæði, ásamt fylgiskjölum. R15010115
Vísað til borgarstjórnar.
19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. apríl 2016 á hækkun launa nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2016. R16040069
Samþykkt.
20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016, að lokinni auglýsingu, á breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi Kirkjusand, miðsvæði M6b, vegna fjölda íbúða og magn atvinnuhúsnæðis, ásamt fylgiskjölum. R11060102
Samþykkt.
21. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016, að lokinni auglýsingu, á breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. apríl 2016, ásamt fylgiskjölum. R15090162
Samþykkt.
22. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.161 vegna lóðarinnar nr. 37 við Garðastræti. R16040187
Samþykkt.
23. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.190.0, Njálsgötureit 1, vegna lóðarinnar nr. 37 við Njálsgötu, ásamt fylgiskjölum. R16040189
Samþykkt.
24. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis vegna húss nr. 24 á lóð nr. 18-24 við Tangabryggju. R15030282
Samþykkt.
25. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.174.1 vegna lóðarinnar nr. 95-99 við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum R16040191
Samþykkt.
26. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016 á tillögu að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. apríl 2016, ásamt fylgiskjölum. R13120099
Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar.
Halldóra Hrólfsdóttir og Erna Hrönn Geirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Niðurstaða héraðsdóms byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Fullnægjandi gögn liggja enn ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar. Í niðurstöðu Samgöngustofu (SGS) 1. júní 2015 um áhættumatið kemur m.a. fram að það nái hvorki til neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. SGS rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma en taldi að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul sýndi að hann færi ekki undir 95%. Þremur mánuðum eftir niðurstöðu SGS gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) athugasemdir um að í skýrslunni um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en þar séu skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla taki ekki til greina sem leiðir til þess að skýrslan inniheldur alvarlegar villur. ÖFÍA telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrslan byggi á henni. Hafi borið að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Við tökum heilshugar undir vandaða og ítarlega umsögn skipulagsfulltrúa. Til hefur staðið að leggja niður NA/SV-flugbrautina í vel á þriðja áratug. Borgarstjórnir í Reykjavík og ríkisstjórnir hafa tekið fjölda skrefa sem miða að því að umrædd flugbraut hverfi, að Fluggarðar séu víkjandi og að kennslu- og æfingaflugi verði fundinn annar staður. Nú síðast gerðu ríki og borg með sér samning í október 2013 og féll nýlega í héraði dómur á þá leið að ríkinu bæri að loka flugbrautinni innan 16 vikna. Sjúkraflugi er ekki stefnt í hættu við gildistöku skipulagsins nú frekar en áður þegar staðið hefur til að leggja NA/SV-flugbrautina niður. Nauðsynlegt er að samþykkt verði deiliskipulag svo unnt sé að bjóða upp á nauðsynlegt viðhald og þróun flugstöðvarinnar uns miðstöð innanlandsflugs verður fundinn staður til frambúðar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Málaferli Reykjavíkurborgar og ríkisins vegna NA/SV-flugbrautar standa yfir því ákveðið hefur verið að vísa niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Þar til að niðurstaða fæst úr þeim málaferlum telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki rétt að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll.
27. Kynnt er tilaga fjárstýringarhóps til borgarráðs þar sem lagt er til að borgarráð samþykki tilboð í skuldabréfaflokkinn RVKN 35 1 að nafnverði 1.200 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 6,42%. R16010156
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Einar Bjarki Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
28. Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. apríl 2016, um framkvæmdir við Brautarholtsstíg á Kjalarnesi. R16040181
Borgarráð felur embætti borgarlögmanns að leita samninga vegna málsins og hefja undirbúning að eignarnámsferli.
- Kl. 11.40 víkur Kristbjörg Stephensen af fundinum.
29. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. apríl 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að ljúka fullnaðarhönnun til útboðs og bjóða út framkvæmdir við viðbyggingu við Vesturbæjarskóla ásamt breytingum í eldra húsi, ásamt fylgiskjölum. R15080019
Samþykkt.
Ámundi Brynjólfsson og Rúnar Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
30. Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. apríl 2016, um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018, 638. mál. R16040160
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að Reykjavíkurborg hafi gefið of mikið eftir varðandi fjármögnun gatnaframkvæmda á vegum ríkisins innan borgarinnar. Með því að gera 10 ára samning um framlag ríkisins til almenningssamgangna var í raun ákveðið að fara í 10 ára framkvæmdastopp á sama tíma og þörfin fyrir bættar samgöngur er knýjandi. Þegar lítið sem ekkert er gert af hálfu meirihluta Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurborg til að fá mikilvægar framkvæmdir á borð við Sundabraut og fjármagn til að betrumbæta fjölfarin gatnamót má vænta þess að lítið fjármagn sé í fjögurra ára samgönguáætlun til framkvæmda í borginni. Undan því kvartar meirihlutinn með samþykkt umsagnar um samgönguáætlun í borgarráði en í raun er metnaðarleysi hins sama meirihluta í samgöngumálum um að kenna.
31. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. apríl 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við jarðvinnu og færslu lagna vegna áframhaldandi uppbyggingar í Úlfarsárdal. Kostnaðaráætlun 2 er 115 m.kr. R15090121
Samþykkt.
Ámundi Brynjólfsson, Rúnar Gunnarsson og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 12.10 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.
32. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. apríl 2016, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. apríl 2016 á tillögu að nýjum búsetukjörnum. Jafnframt lagðar fram umsagnir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 27. apríl 2016 og fjármálaskrifstofu, dags. 27. apríl 2016. R16040068
Samþykkt.
Vísað til frekari vinnslu við gerð fjárhagsáætlunar.
Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
33. Lögð fram tillaga skrifstofu þjónustu og reksturs, dags. 13. apríl 2016, að breytingu á rekstrarfyrirkomulagi mötuneyta stjórnsýsluhúsa, ásamt fylgiskjölum. R16040180
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2016:
Lagt er til að borgarráð heimili skóla- og frístundasviði að hefja innritun barna í leikskóla, sem uppfylla það skilyrði að hafa náð 18 mánaða aldri í ágúst 2016.
Greinargerð fylgir tillögunni. R15060015
Samþykkt.
Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
35. Fram fer kynning á samkomulagi við Hörpu vegna fasteignamats tónlistar- og ráðstefnuhússins eftir dóm Hæstaréttar í máli Hörpu gegn Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg. R14060242
36. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. apríl 2016:
Borgarráð samþykkir að fela sviðsstjórum fagsviða og borgarritara að taka upp markvissa ráðningarýni á fagsviðum Reykjavíkurborgar og í miðlægri stjórnsýslu. Sviðsstjórar fagsviða og borgarritari hafi eftirlit með ráðningum og þróun stöðugilda hjá sviðunum og í miðlægri stjórnsýslu og staðfesti allar ráðningar á þeim starfsstöðum sem undir þá heyra. Markmið ráðningarýninnar er að tryggja yfirsýn yfir ráðningar á vegum Reykjavíkurborgar og eftir atvikum, þróun þeirra. Þá er lögð áhersla á að ávallt sé rýnt hvort unnt sé að gera breytingar á verkaskiptingu og störfum starfsmanna þannig að ekki þurfi að koma til ráðningar. Ráðningarýni verði í samræmi við leiðbeiningar um framkvæmd ráðningarýni um ráðningar og er ætlað að stuðla að samræmdri, gagnsærri og skilvirkri framkvæmd ráðningarýni hjá sviðum og starfsstöðum borgarinnar. Sviðsstjórar og borgarritari veiti borgarstjóra mánaðarlega upplýsingar um ráðningar á viðkomandi fagsviði og í miðlægri stjórnsýslu ásamt upplýsingum um þróun yfirvinnu og akstursgreiðslna.
Greinargerð fylgir tillögunni. R15090074
Samþykkt.
37. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um viðgerð á holum á götum borgarinnar, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. febrúar 2016. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs frá 11. apríl 2016. R16020223
Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina greiða atkvæði gegn frávísuninni.
38. Lagt fram svar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 13. apríl 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um samþykkt stjórnar SSH á breytingu á þjónustutíma þjónustuvers fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2016. R16030079
39. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 25. apríl 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi uppsögn á aksturssamningum, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. mars sl. R15020238
40. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 26. apríl 2016, við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um launakostnað um fasta og mælda yfirvinnu innan borgarinnar og kostnað henni tengdan, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. september 2015. R15090073
41. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. apríl 2016, varðandi kvörtun á niðurstöðu útboðs vegna endurgerðar Smiðjustígs, Laugavegur-Hverfisgata, ásamt fylgigögnum. R15090015
Samþykkt að staðfesta niðurstöðu innkauparáðs.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
42. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. apríl 2016:
Lagt er til að borgarráð samþykki að veita Bíó Paradís styrk að fjárhæð 4 m.kr. til að gera þeim kleift að halda áfram öflugu starfi á vettvangi barnamenningar og fræðslu í kvikmyndalæsi fyrir grunnskólabörn í Reykjavík. Fjárhæðin verði gjaldfærð af liðnum ófyrirséð 09250.
Greinargerð fylgir tillögunni. R16010191
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
43. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 26. apríl 2016, við fyrirspurn Kjartans Magnússonar borgarráðsfulltrúa varðandi ársreikning 2015 um samanburð á niðurstöðu og upphaflegri fjárhagsáætlun. R16010162
44. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 27. apríl 2016, um að gerðar verði nánar tilgreindar breytingar á fjárheimildum fagsviða og annarra rekstrareininga A-hluta fyrir árið 2016 vegna kjarasamninga og yfirferðar og rýningar á áður framkvæmdum breytingum sem gerðar hafa verið vegna kjarasamninga, ásamt fylgiskjölum. R16010225
Vísað til borgarstjórnar.
45. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. apríl 2016:
Lagt er til að tillögur sem fram koma í skýrslu starfshóps um samstarf Námsflokka Reykjavíkur og velferðarsviðs, dags. 30. apríl 2015, verði samþykktar og að yfirflutningur starfa náms- og starfsráðgjafa, samtals 2 stöðugildi, verði 31. desember 2015. Um er að ræða tilfærslu á fjárhæð kr. 10.031.389.- frá skóla- og frístundasviði til velferðarsviðs. Hjálagt fylgir samkomulag, dags. 13. apríl 2016, milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Breytingin hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu eða fjárflæði A-hluta eða samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2016.
Greinargerð fylgir tillögunni. R16010225
Vísað til borgarstjórnar.
46. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. apríl 2016, um úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar á lóð nr. 16 við Haukadælabraut. R16030155
Samþykkt.
47. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. apríl 2016, um úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar á lóð nr. 78 við Úlfarsbraut. R16020238
Samþykkt.
48. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. apríl 2016:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela mannauðsdeild Ráðhúss og velferðarsviði að standa í sameiningu að ráðningum á 38 ungmennum til sumarstarfa hjá MOF og ÍTR. Um er að ræða tveggja mánaða ráðningar. Fjármögnun verði af liðnum ófyrirséð, 09205 sem nemur 12,2 m.kr. inn á liðinn 01750, atvinnumál.
Greinargerð fylgir tillögunni. R16040194
Vísað til borgarstjórnar.
49. Fram fer kynning á ráðstefnu um Social Progress Index og lagt fram ódagsett „Letter of intent“. R16040212
50. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. apríl 2016, þar sem lagt er til að fallið verði frá því að kjósa í Ölduselsskóla og þess í stað færist 6 kjördeildir til kjörstaðarins í Íþróttamiðstöðinni Austurbergi. R15100120
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að gefa íbúum í Seljahverfi kost á að sækja kjörstað í hverfinu eins og löng hefð er fyrir. Sé ekki unnt að starfrækja kjördeildir í Ölduselsskóla að þessu sinni er rétt að koma á laggirnar kjördeildum í Seljaskóla í þessu skyni.
51. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að við fyrirhugaðar endurbætur á lóð Vesturbæjarskóla verði leitast við að koma þar fyrir sparkvelli með gervigrasi í suðausturhluta lóðarinnar, í fullri stærð (18x33 metrar) eins og tíðkast við aðra grunnskóla borgarinnar, í stað lítils vallar (13x23 metrar). Ljóst er að slíkur völlur mun nýtast sem alhliða leiksvæði fyrir nemendur Vesturbæjarskóla. R16040213
Frestað.
52. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Í skipulagi Reynisvatnsáss virðist sem gleymst hafi að gera ráð fyrir barnaleiksvæði (róluvelli) í hverfinu. Borgarráð samþykkir að slíku leiksvæði verði komið á fót í miðju hverfinu og að óseldri lóð verði ráðstafað í því skyni ef þörf er á. R16040214
Frestað.
53. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð beinir þeim tilmælum til umhverfis- og skipulagssviðs að sem fyrst verði lokið við gatnagerð á ófrágengnum og holóttum malarkafla á Haukdælabraut milli húsanna nr. 5-58. R16040215
Frestað.
54. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fellsvegur er mikilvæg samgöngutenging milli Grafarholts-Reynisvatnsáss og Úlfarsárdals. Athygli vekur að á nýopnaðri brú yfir Úlfarsá er hvorki gangbraut né hjólarein þrátt fyrir yfirlýst markmið borgarstjórnar um að tillit skuli tekið til gangandi og hjólandi vegfarenda við hönnun nýrra umferðarmannvirkja. Óskað er eftir upplýsingum um hverju þetta sætir og hversu kostnaðarsamt yrði að gera úrbætur á brúnni í því skyni að hún verði greiðfær gangandi og hjólandi vegfarendum, ekki síður en akandi. R16040216
Fundi slitið kl. 13.25
Sigurður Björn Blöndal
Guðfinna J. Guðmundsdóttir Halldór Halldórsson
Halldór Auðar Svansson Heiða Björg Hilmisdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir