Borgarráð - Fundur nr. 5400

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 10. mars, var haldinn 5400. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.02. Viðstödd voru Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. mars 2016, þar sem tilkynnt er að Jóna Björg Sætran taki sæti Grétu Bjargar Egilsdóttur sem varamaður í borgarráði. R15060178

2. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 22. febrúar 2016. R16010030

3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 4. mars 2016. R16010015

4. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 1. mars 2016. R16010026

5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 20 mál. R16020251

6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 30 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R16030003

7. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. mars 2016. R16010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. mars 2016, varðandi áfangaskýrslu starfshóps um verkefnin Betri Reykjavík og Betri hverfi sem lögð er fram til kynningar, dags. 3. mars 2016.

Unnur Margrét Arnardóttir, Theódóra Sigurðardóttir, Hreinn Hreinsson, Ólafur Ólafsson og Eggert Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt þeim Magnúsi Má Guðmundssyni og Jónu Björg Sætran. R16020076

- Kl. 9.05 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum. 

- Kl. 9.08 taka Birgir Björn Sigurjónsson og Ellý Katrín Guðmundsdóttir sæti á fundinum. 

- Kl. 9.48 taka  borgarstjóri og Pétur Ólafsson sæti á fundinum. 

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. mars 2016, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til bjóða út framkvæmdir í nýbyggingarhverfum 2016. Kostnaðaráætlun 2 vegna þessara verkefna er 220 m.kr. R16030053

Samþykkt. 

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

10. Lagt fram bréf Söngskólans í Reykjavík, dags. 28. janúar 2016, varðandi skuldir Söngskólans vegna fasteignagjalda. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 13. febrúar 2016. R13020094

Synjað með vísan til umsagnar fjármálaskrifstofu með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.  

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Með lögum um tekjustofna sveitarfélaga er opnað fyrir það að sveitarstjórn veiti styrki til greiðslu fasteignaskatta af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Líta verður svo á að löggjafinn sé með ákvæði þessu að benda sveitarfélögum á að fara þessa leið. Sú röksemd Reykjavíkurborgar að hún hafi sett sér reglur fyrir ellefu árum um að styrkja ekki slíka starfsemi vegna greiðslu fasteignaskatta er ekkert annað en fyrirsláttur sem stenst enga rýni. Nægir að benda á að íþróttafélög hafa hlotið hærri styrki frá borginni vegna greiðslu fasteignaskatta sem lagðir voru á félögin í framhaldi af setningu umræddra laga. Með þessari afgreiðslu er verið að hegna einum af höfuðskólum tónlistarmenntunar í borginni fyrir það að hafa með elju og útsjónarsemi eignast eigið húsnæði í þeim tilgangi einum að geta tryggt nemendum vandað söngnám. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg hefur í meira en áratug haft skýra stefnu um styrki. Þeir renna til margvíslegrar starfsemi og eru metnir á jafnréttisgrundvelli á grundvelli umsókna. Tekið er sérstaklega fram að ekki sé styrkt sérstaklega vegna fasteignagjalda. Sú stefna var sett til að gera ekki mun á þeirri starfsemi sem væri í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði heldur ættu styrkir að fara eftir eðli og umfangi starfseminnar á grundvelli umsókna þar sem allir sitja við sama borð. Ef gera ætti breytingu á þessu væri ekki rétt að gera það á grundvelli einstaks erindis heldur með breytingum á styrkjareglum og almennri auglýsingu þannig að allir hugsanlegir styrþegar sætu við sama borð.

11. Lagt fram bréf Tónlistarskólans í Reykjavík, dags. 24. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir upplýsingum um afstöðu Reykjavíkurborgar til kjarasamnings Félags íslenskra hljómlistarmanna við Samband íslenskra sveitarfélaga og framlag til Jöfnunarsjóðs. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 7. mars 2016. R16020248

Umsögn fjármálaskrifstofu samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Á þessum sama fundi borgarráðs er verið að auka fjárheimildir til fagsviða borgarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga. Launahækkanir eru einfaldlega raunveruleiki sem ekki verður horft fram hjá og ekki umflúið að bregðast við þeim. Væntanlega dettur engum í hug að í tónlistarskólum borgarinnar séu þeir sjóðir sem skólarnir geta gengið í vegna launahækkana í framhaldi af kjarasamningum við Félag íslenskra hljómlistarmanna. Varnaðarorð skólastjóra tónlistarskólanna um að hætta sé á að tónlistarkennsla verði aflögð næsta haust, verði ekkert að gert, ber að taka alvarlega.

12. Lagt fram bréf Tónlistarskóla FÍH, dags. 26. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir upplýsingum um afstöðu Reykjavíkurborgar til kjarasamnings Félags íslenskra hljómlistarmanna við Samband íslenskra sveitarfélaga og framlag til Jöfnunarsjóðs. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 7. mars 2016. R16020248

Umsögn fjármálaskrifstofu samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Á þessum sama fundi borgarráðs er verið að auka fjárheimildir til fagsviða borgarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga. Launahækkanir eru einfaldlega raunveruleiki sem ekki verður horft fram hjá og ekki umflúið að bregðast við þeim. Væntanlega dettur engum í hug að í tónlistarskólum borgarinnar séu þeir sjóðir sem skólarnir geta gengið í vegna launahækkana í framhaldi af kjarasamningum við Félag íslenskra hljómlistarmanna. Varnaðarorð skólastjóra tónlistarskólanna um að hætta sé á að tónlistarkennsla verði aflögð næsta haust, verði ekkert að gert, ber að taka alvarlega.

13. Lagt fram bréf Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík, dags. 1. mars 2016, þar sem óskað er eftir upplýsingum um afstöðu Reykjavíkurborgar til kjarasamnings Félags íslenskra hljómlistarmanna við Samband íslenskra sveitarfélaga og framlag til Jöfnunarsjóðs. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 7. mars 2016. R16020248

Umsögn fjármálaskrifstofu samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Á þessum sama fundi borgarráðs er verið að auka fjárheimildir til fagsviða borgarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga. Launahækkanir eru einfaldlega raunveruleiki sem ekki verður horft fram hjá og ekki umflúið að bregðast við þeim. Væntanlega dettur engum í hug að í tónlistarskólum borgarinnar séu þeir sjóðir sem skólarnir geta gengið í vegna launahækkana í framhaldi af kjarasamningum við Félag íslenskra hljómlistarmanna. Varnaðarorð skólastjóra tónlistarskólanna um að hætta sé á að tónlistarkennsla verði aflögð næsta haust, verði ekkert að gert, ber að taka alvarlega.

14. Fram fer umræða um brunann á Grettisgötu þann 7. mars sl.

Jón Viðar Matthíasson og Árný Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16030060

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. mars 2016: 

Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 60.000 þ.kr. vegna aukaframlags til tónlistarskóla í Reykjavík í samræmi við samþykkt borgarráðs þann 4. febrúar sl. sbr. mál R15050134. Breytingin verði fjármögnuð af kostnaðarstaðnum 09205, ófyrirséð og færð á kostnaðarstaðinn M3010. Jafnframt er lagt til að þegar aukaframlag berst frá Jöfnunarsjóði að fjárhæð 60.000 þ.kr. til stuðnings skuldugum tónlistarskólum í Reykjavík verði fjárheimild skóla- og frístundasviðs hækkuð um sömu fjárhæð og færð á kostnaðarstað M3010 í samræmi við áðurtilgreinda samþykkt borgarráðs. Tillagan felur ekki í sér breytingu á niðurstöðu rekstrar, efnahags eða sjóðsstreymis A-hluta eða samstæðu og þessi fjárráðstöfun kallar ekki á jafnréttismat.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16010225

Vísað til borgarstjórnar.

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. mars 2016: 

Lagt er til að fjárheimildir fagsviða og annarra rekstrareininga A-hluta fyrir árið 2016 verði hækkaðar um samtals kr. 67.502.617.- vegna nýgerðra kjarasamninga við Tæknifræðingafélag Íslands, Stéttarfélag verkfræðinga og Stéttarfélag tölvunarfræðinga. Kjarasamningarnir gilda frá 01.09.2015 og er því gert ráð fyrir afturvirkum hækkunum vegna ársins 2015 sem koma til greiðslu á árinu 2016, kr. 12.397.628.-, hækkanir vegna ársins 2016 eru kr. 55.104.989.- Hækkunin skiptist með nánar tilgreindum hætti milli fagsviða og annarra skipulagseininga.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16010225

Vísað til borgarstjórnar.

17. Kynnt tillaga fjármálastjóra og fjárstýringarhóps þar sem lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að fjárhæð kr. 290 m.kr. að nafnvirði, á ávöxtunarkröfunni 2,99%, í skuldabréfaflokk borgarsjóðs, RVK 53 1. Einnig er lagt til að öllum tilboðum í RVKN 35 1 verði hafnað.  R16010156

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. mars 2016: 

Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa eftirfarandi tillögu til borgarstjórnar: Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 500.000.000 kr. til 40 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir borgarstjórn lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til að fjármagna kaup á félagslegu húsnæði og til uppgreiðslu óhagstæðra lána Félagsbústaða hf. sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn Reykjavíkur skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Félagsbústaða hf. til að selja ekki eignarhlut sinn í Félagsbústöðum hf. til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu. Jafnframt er Birgi Birni Sigurjónssyni fjármálastjóra, kt. 200249-2169, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjavíkurborgar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar. 

Jafnframt er lagt fram bréf Félagsbústaða, dags. 8. mars 2016, varðandi veðheimild vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 6. mars 2016. R16030058

Vísað til borgarstjórnar.

19. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að staða á biðlistum verði birt á heimasíðu borgarinnar, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. febrúar 2016.

Lögð er fram svohljóðandi breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Lagt er til að upplýsingar um stöðu biðlista, m.a. eftir félagslegum leiguíbúðum, þjónustuíbúðum fyrir aldraða, sértækum húsnæðisúrræðum, stuðningsþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla verði hluti af þeim stjórnendaupplýsingum sem unnið er nú að að gera aðgengilegar. Stýrihópur um innleiðingu á hugbúnaði til þess að halda utan um stjórnendaupplýsingar hefur unnið að þessu verkefni og liggur fyrir að eigi síðar en í haust muni verða unnt að birta þessar og fleiri upplýsingar á nýjan og aðgengilegan hátt. R16020090

Samþykkt.

20. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytt hlutverk umhverfis- og skipulagsráðs, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 16. febrúar 2016. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. mars 2016. R16020129

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mikill fjöldi umsókna berst byggingafulltrúa í hverjum mánuði um gluggasetningu, gerð kvista og smárra viðbygginga í borginni. Í tillögunni er gert ráð fyrir að taka þær inn í umhverfis- og skipulagsráð og að ákvarðanir um slík mál muni framvegis byggja á tilfinningalegu mati kjörinna fulltrúa í stað þess að fá faglega umfjöllun. Fundargerðir byggingafulltrúa eru alltaf lagðar fram í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði þar sem kjörnir fulltrúar geta gert athugasemdir. Auk þess er starfandi fagrýnihópur fyrir nýbyggingar í miðborginni og þegar breyta á sögulegum byggingum má kalla til sérfræðinga. Ef umhverfis- og skipulagsráð myndi taka allan þann málafjölda inn á borð til sín, myndi ráðið gera lítið annað og missa sjónar á heildarmynd skipulagsmála í Reykjavík. Betur færi á því að mótaðar yrðu skýrar verklagsreglur um að ákveðnar afmarkaðar framkvæmdir, eftir eðli þeirra, verði lagðar fyrir ráðið til samþykktar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við flutning tillögunnar í borgarstjórn kom skýrt fram að hún kallar á aukna vinnu þeirra sem sitja í umhverfis- og skipulagsráði. Vönduð vinnubrögð geta kallað á aukið vinnuframlag en, ef ekki er vilji til þess, þá nær málið auðvitað ekki lengra og þarfnast ekki frekari umræðu. Á næstunni er fyrirhuguð meiri uppbygging í miðborg Reykjavíkur en nokkur dæmi eru um í sögunni. Gólffletir nýbygginga munu margfalda þann fermetrafjölda sem fyrir er í Kvosinni. Það kallar á ný og vandaðri vinnubrögð. Útlit lykilbygginga í miðborginni hafa kjörnir fulltrúar ítrekað séð fyrst í fjölmiðlum. Ábyrgðin liggur hjá borgarfulltrúum og framsal verkefna til embættismanna dregur ekki úr þeirra ábyrgð. Rétt er að ítreka að svæði það sem tillagan tekur til er innan Hringbrautar og Snorrabrautar og er borgarfulltrúum engin vorkunn að bæta á sig því verkefni.

21. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bensínstöð í Norðlingaholti, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar 2016. Jafnframt lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. febrúar 2016. R16010259

Tillagan er felld með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. mars 2016: 

Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindi stjórnar SSH til aðildarsveitarfélaganna um Átak í viðhaldi og endurnýjun gatnakerfis, ásamt tillögu SSH að verklagi og framkvæmdaáætlun.

Einnig er lagt fram bréf SSH, dags. 8. mars 2016.  R16030050

Samþykkt.

23. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. mars 2016, um samstarfssamning um skipulagsmál vegna hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins, þar sem lagt er til að hjálagt bréf framkvæmdastjóra SSH, dags. 7. mars 2016, um samstarfssamning milli SSH, aðildarsveitarfélaganna og óstofnaðs þróunarfélags (Fluglestin – þróunarfélag ehf.) vegna lestartengingar milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur og hjálögð samningsdrög sama efnis verði send umhverfis- og skipulagsráði til umsagnar. R16020160

Samþykkt.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. mars 2016, ásamt fylgiskjölum: 

Lögð er fram 2. áfangaskýrsla starfshóps um Smart cities, dags. 2. mars 2016. Lagt er til að tillögur starfshópsins fyrir árið 2016 verði samþykktar og starfshópnum falið að vinna áfram að þeim í samvinnu við fagsvið og miðlægar skrifstofur eftir því sem við á. Tillögur starfshópsins eru eftirfarandi: Stafræn stöðugreining (Digital Asset Assessment – Business Discovery). Áætlaður kostnaður: 8 m.kr. Altæk lýsingaráætlun fyrir borgina. Áætlaður kostnaður: 12 m.kr. og hugsanlega má gera ráð fyrir framlagi frá þriðja aðila í afmarkaða þætti. Leita leiða til að ýta úr vör afmörkuðum tilraunaverkefnum árið 2016. Áætlaður kostnaður: 10 m.kr. en einnig má gera ráð fyrir fjármagni frá utanaðkomandi aðilum inn í einhver eða öll tilgreind verkefni. Nýta framkvæmdir sem farið verður í á árinu. Áætlaður kostnaður: Fer eftir því hvað umhverfis- og skipulagssvið mun telja framkvæmanlegt. Gera má ráð fyrir a.m.k. 6 m.kr. auk hugsanlegs fjármagns frá utanaðkomandi aðila/aðilum. Rafrænt þjónustuver - stefnumótun og átak í rafrænni þjónustu. Áætlaður kostnaður: Erfitt að meta án grunnvinnu hvað varðar stefnumörkun og framtíðarsýn en gera má ráð fyrir a.m.k. 10 m.kr. á árinu 2016. Snjallborgarutanumhald og -framþróun. Áætlaður kostnaður: Fjármögnun á um hálfu stöðugildi, 4 m.kr. Kostnaður við ofangreindar tillögur árið 2016 er áætlaður 50 m.kr. sem greiðist af kostnaðarstað 3108 hjá eignasjóði þar sem gert hefur verið ráð fyrir sömu upphæð fyrir ýmsar framkvæmdir í Smart lausnir. R15050008

Samþykkt.

25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 7. mars 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili framkvæmdir við endurbætur á mannvirkjum borgarinnar við gervigrasvöllinn í Laugardal. R16010235

Samþykkt.

26. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. mars 2016, þar sem fram kemur að borgarstjóra er boðið á borgarstjórafund um húsnæðismál á MIPIM fasteignaráðstefnunni sem haldin er í Cannes í Frakklandi dagana 15.-18. mars 2016. Með borgarstjóra í för verður Pétur Krogh Ólafsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, og Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. R16030004

27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Óskað er eftir upplýsingum um auglýsingakostnað Reykjavíkurborgar á árinu 2015 og skiptingu kostnaðar á einstaka miðla og þá sem tóku að sér að annast birtingu auglýsinganna. R16030078

28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Í fundargerð Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) frá 8. febrúar sl. er samþykkt tillaga samráðshóps forstöðumanna velferðarsviða um breytingu á þjónustutíma þjónustuvers fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Í tilefni af því óska borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir svörum við eftirfarandi spurningum: 1. Hvers vegna er ekki minnst á samráð við hagsmunafélög í fundargerð SSH frá 8.2.2016? 2. Hvers vegna hefur þjónustuhópur Strætó í ferðaþjónustu fatlaðs fólks ekki verið endurskipaður? 3. Er ákvörðun stjórnar SSH sú að breyta og stytta þjónustutíma símapantana án samráðs við hagsmunafélög? R16030079

29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka nauðsyn þess að setja endurnýjun á gervigrasvöllum í Reykjavík í forgang. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á borgarstjórnarfundi 1. desember 2015 að endurnýjunin yrði sett í forgang og henni lokið á árinu 2016. Þá yrði gúmmíkurli úr dekkjum skipt út fyrir hættuminni efni á þeim völlum, þar sem það er nú að finna, fyrir árslok 2016. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekuðu mikilvægi þessarar forgangsröðunar með bókun á borgarstjórnarfundi 16. febrúar 2016. Nú þegar hafa nágrannasveitarfélög Reykjavíkur ákveðið að setja endurnýjun sinna gervigrasvalla í forgang þannig að þeirri endurnýjun ljúki á árinu 2016 en á sama tíma lítur borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna ekki svo á að slík endurnýjun sé forgangsmál.  R16030080

Frestað.

Fundi slitið kl. 11.57

S. Björn Blöndal

Guðfinna J. Guðmundsdóttir Halldór Auðar Svansson

Halldór Halldórsson Heiða Björg Hilmisdóttir

Júlíus Vífill Ingvarsson Sóley Tómasdóttir