Borgarráð - Fundur nr. 5398

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 25. febrúar, var haldinn 5398. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.02. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, og Halldór Halldórsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 29. janúar 2016. R16010029

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 15. febrúar 2016. R16010009

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 11. febrúar 2016. R16010010

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 11. febrúar 2016. R16010011

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 19. febrúar 2016. R16010022

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 12. febrúar 2016. R16010027

7. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. febrúar 2016. R16010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R16020008

9. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R16010042

Samþykkt að veita Skrautás ehf. styrk vegna útgáfu hverfablaða 2016 í Grafarvogi, Árbæ og Grafarholti að fjárhæð kr. 400.000.- pr. blað.

10. Fram fer kynning á skýrslu EEA um loftgæði í Evrópu 2015.

Þorsteinn Jóhannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur Magnús Már Guðmundsson sæti á fundinum undir þessum lið. R16020102

- Kl. 9.06 tekur Hallur Símonarson sæti á fundinum.

- Kl. 9.07 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

- Kl. 9.08 tekur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 9.15 tekur Ebba Schram sæti á fundinum.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að fjárveitingu ársins 2016 til framkvæmda í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal verði ráðstafað til að koma fyrir færanlegu húsi/garðskála í stað núverandi veitingatjalds sem varð fyrir umtalsverðu tjóni í lok nóvember 2015.

Samþykkt.

Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R16020148

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út ýmsar framkvæmdir vegna meiriháttar viðhaldsverkefna fasteigna á árinu 2016, ásamt kynningu og lista yfir verkefni. R15020202

Samþykkt.

Borgarráð óskar eftir því að umhverfis- og skipulagssvið annist kynningu viðhaldsverkefnanna fyrir fagráðum Reykjavíkurborgar.

Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á að ásigkomulag húsnæðis leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila er víða óviðunandi í borginni og brýnt að verja mun meira fé til viðhalds og endurbóta í því skyni að koma því í viðunandi horf. Skýtur skökku við að á meðan skólahúsnæði liggur undir skemmdum skuli miklu fé vera varið til nýrra gæluverkefna borgarstjórnarmeirihlutans, t.d. þrengingar Grensásvegar og nýbyggingar við Grófarhús, sem ekki er brýn þörf fyrir.

13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. febrúar 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki kjarasamninga við eftirtalin stéttarfélög sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur undirritað með fyrirvara um samþykki borgarráðs: Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands, Stéttarfélag verkfræðinga og Stéttarfélag tölvunarfræðinga. Ofangreindir kjarasamningar, sem taka allir gildi m.v. 1. september 2015 og eru með sambærilegum hætti og kjarasamningar Reykjavíkurborgar við BHM-félögin, hafa hlotið samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki heimild til fjármálastjóra að greiða laun samkvæmt þessum kjarasamningum við næstu launakeyrslu, þrátt fyrir að viðauki liggi ekki fyrir en tillaga um hann verður lögð fyrir borgarráð á næstunni. R15020134

Samþykkt.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. febrúar 2016, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að fjárheimildir fagsviða og annarra rekstrareininga A-hluta fyrir árið 2016 verði hækkaðar um samtals kr. 703.866.771.- vegna nýgerðra kjarasamninga við Skólastjórafélag Íslands, Félag hjúkrunarfræðinga, BHM starfsmatsfélög, BHM félög utan starfsmats og vegna kjaranefndar og borgarfulltrúa. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R16010225

Vísað til borgarstjórnar.

15. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 23. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi sölu og byggingarrétt fyrir fjölbýlishús, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar sl. R15110177

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgin hefur einungis úthlutað 10 fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á rúmum 5 árum. Aðgeðarleysið við lóðaúthlutanir og vanræksla á að fylgja húsnæðisstefnu borgarinnar frá 2011 hefu skapað mikinn vanda. Uppbyggingin gengur hægt og eftirspurnin er langt umfram framboð sem hefur í för með sér hærra húsnæðisverð. Þétting byggðar á lóðum sem eru í höndum annarra aðila leysir ekki húsnæðisvandann í Reykjavík enda er það ekki á allra færi að kaupa eða leigja íbúðir á dýrustu stöðunum í borginni.

16. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 23. febrúar 2016, við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um yfirlit yfir óseldar lóðir/sölu á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði 2015, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2016. R16010108

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er varla hægt að segja að borgin hafi verið með til sölu lóðir á þéttingarreitum í borginni þrátt fyrir stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar. Af þeim 45 lóðum fyrir samtals 97 íbúðir sem borgin úthlutaði á síðasta ári voru einungis 15 íbúðir á lóðum annars staðar en í Úlfarsárdal eða Reynisvatnsási. Í árslok 2015 var borgin einungis með til sölu einbýlishúsalóðir og eina parhúsalóð í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási, sem sýnir að framboð borgarinnar á lóðum er mjög einsleitt og hefur svo verið um árabil. Þarf því að hafa hraðar hendur að úthluta allskonar lóðum fyrir fjölbreytt húsnæði víðsvegar um borgina ef það á að takast að leysa húsnæðisvandann í borginni í nánustu framtíð. Þó að til standi að úthluta á þessu og næstu misserum lóðum fyrir 1200 íbúðir þá hefur megnið af þeim íbúðum nú þegar verið eyrnamerkt ákveðnum aðilum eða hópum og því ljóst að lítið framboð verður áfram á lóðum fyrir aðra en fáa útvalda í borginni og mun það gera ákveðnum hópum, t.d. ungu fólki, erfitt að eignast húsnæði í borginni.

17. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 5. febrúar 2016, ásamt skýrslu starfshóps skóla- og frístundasviðs um samráð við foreldra við meiriháttar ákvarðanir sem tengjast skólahaldi í grunnskólum og leikskólum, dags. 2016.

Helgi Grímsson og Nanna Kristín Christiansen taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15040151

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja brýnt að auka samráð við foreldra í Reykjavík um meiriháttar ákvarðanir í skólahaldi. Góð leið til þess er að gefa foreldrafélögum kost á samráði um ráðningar skólastjóra eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað lagt til. Hefð er fyrir slíku samráði víða erlendis og þykir það hafa reynst vel.

18. Lögð fram lokaskýrsla stýrihóps Reykjavíkurborgar um leiðakerfisbreytingar í Reykjavík vegna alhliða samgöngumiðstöðvar í U-reit, dags. í janúar 2016.

Niðurstöðum skýrslunnar er vísað til meðferðar og frekari greiningar Strætó bs. 

Kristín Soffía Jónsdóttir og Þorsteinn Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R13110197

19. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til þess að framkvæma breytingar á Laugavegi 107, Hlemmi, og breyta húsinu í mathöll, ásamt fylgiskjölum. R16010219

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja verkefnið í trausti þess að húsnæðið á Hlemmi verði áfram nýtt sem biðstöð fyrir strætisvagnafarþega á aksturstíma vagna um daga, kvöld og helgar.

- Kl. 11.32 víkja borgarstjóri og Pétur Ólafsson af fundi.

20. Lagt fram til kynningar erindisbréf starfshóps um eflingu stjórnendafræðslu, dags. 17. febrúar 2016. R16020125

21. Lagt fram bréf forsætisnefndar, dags. 15. febrúar 2016, ásamt minnisblaði skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. febrúar 2016, um notkun fjarfundabúnaðar á fundum ráða og nefnda. R16010250

22. Lagt fram bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 10. febrúar 2016, varðandi fjármál Reykjavíkurborgar. R15030149

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. febrúar 2016, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði ásamt menningar- og ferðamálasviði frekari vinnslu og viðræður vegna umsóknar um rekstur „Dinner in the Sky“ í Reykjavík. R16010122

Samþykkt.

24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki innlausn á leigusamningi fyrir 5. götu Rauðavatn 2 með greiðslu að fjárhæð kr. 1.500.000, ásamt fylgiskjölum. R16020140

Samþykkt.

25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að kaupa sumarhús ásamt lóðarréttindum við 3. götu Rauðavatn nr. 4 fyrir kr. 3.500.000, ásamt fylgiskjölum. R16020143

Samþykkt.

26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. febrúar 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að framlengja tilraunaverkefni um styttingu vinnudags sem ljúka átti 1. mars nk. um þrjá mánuði á meðan unnið er úr þeim upplýsingum sem safnað hefur verið á meðan á verkefninu stendur í samræmi við upphaflega samþykkt. Verkefninu ljúki 1. júní, nema annað verði ákveðið eftir að lokaniðurstöður liggja fyrir. R14050127

Samþykkt.

27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um hvers vegna ekki hefur verið unnið úr áherslum ferlinefndar fatlaðs fólks frá fundi nefndarinnar 23. júlí 2015. Á þeim fundi var úttekt Aðgengis ehf. um aðgengi í Laugardalslaug lögð fram. Enn vantar búnað fyrir fatlað fólk til að komast ofan í sundlaug og potta. R14050139

28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Hvenær verða gögn sem eru birt ráðs- og nefndarmönnum á lokuðum svæðum nefnda og ráða sett inn á heimasíðu Reykjavíkurborgar þannig að það sé hægt að nálgast gögnin með því að smella á þau í fundargerðum sem eru birtar á heimasíðu borgarinnar? R16020224

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina: 

Ljóst er að verulegar skemmdir hafa orðið á gatnakerfi borgarinnar í vetur. Mörg dæmi eru um að djúpar holur hafi myndast á götum, sem hafa valdið tjóni á bifreiðum og skapað slysahættu. Djúpar holur hafa t.d. myndast við Austurberg, Álfabakka, Neshaga og Tungusel. Borgarráð samþykkir að þegar í stað verði farið í viðgerðir á þeim holum sem talið er að slysa- og tjónahætta stafi af. R16020223

Frestað.

30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Á fundi borgarráðs 28. janúar sl. vöktu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins athygli á skertum opnunartíma strætisvagnamiðstöðvanna við Hlemm og Mjódd frá og með áramótum. Um er að ræða skerta þjónustu við þá fjölmörgu farþega sem eiga leið um umræddar skiptistöðvar á kvöldin en þurfa nú að bíða utandyra í kulda og trekki. Lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að umrætt húsnæði yrði opið fyrir farþegum öll kvöld á meðan strætisvagnar ganga og óskuðu eftir því að tillagan yrði afgreidd sem fyrst í ljósi þess að húsnæðinu var lokað um leið og kaldasti mánuður ársins gekk í garð. Þrátt fyrir að tillagan sé sáraeinföld hefur hún ekki enn verið tekin til afgreiðslu í borgarráði og er spurt hverju það sætir. R16010260

Fundi slitið kl. 11.59

Sigurður Björn Blöndal

Halldór Halldórsson Halldór Auðar Svansson

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir Sóley Tómasdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon